Blakfélag Fjallabyggðar og HKarlar úr Kópavogi mættust í Fagralundi í dag í næstsíðasta leik BF í deildinni. HKarlar voru í neðsta sæti fyrir leikinn og gátu með sigri komist upp fyrir BF. HKarlar höfðu tapað síðustu 4 leikjum í deildinni og BF hafði tapað síðustu 5 leikum. HKarlar búa yfir reynslumiklu liði og eru nokkrir þar sem hafa leikið fyrir landsliðið og í efstu deildinni á Íslandi á árum áður. BF mætti með sitt sterkasta lið í þennan mikilvæga leik áður en úrslitakeppnin hefst. BF hafði unnið síðasta leik gegn HKörlum 3-0 og voru heimamenn staðráðnir í að kvitta fyrir þau úrslit í þessum leik. Zdravko Demirev fyrrum leikmaður og þjálfari ÍS (Íþróttafélag Stúdenta) var aðaldómari leiksins.

Leikurinn átti eftir að vera jafn og spennandi og fóru tvær hrinur í upphækkun. Fyrsta hrina byrjaði jafnt og var staðan 8-7 þegar BF skorar fjögur stig í röð og kemst í 8-11 og 10-14. BF komst í 11-16 eftir góðan kafla og tóku þá heimamenn leikhlé. BF var með góða forystu 15-20 en heimamenn jöfnuðu jafnt og þétt og var staðan orðin æsispennandi í lokin, 22-23 og jafnt 24-24. Daníel Pétur kom inná fyrir Óskar í blálokin og BF náði sigri 24-26 eftir upphækkun.

BF byrjuðu einnig vel í annarri hrinu en HKarlar áttu svo góðan endasprett. BF komst í 3-5 og 7-8 en þá komst HKarlar betur inn í leikinn og komust yfir 10-8. BF svöruðu strax til baka og komust yfir 11-12 og tóku einnig leikhlé. BF náði í framhaldinu góðum kafla og komst í 14-18 og 15-19 og allt leit vel út. Heimamenn voru hinsvegar ekki hættir og skoruðu sex stig á móti einu og breyttu stöðunni í 21-20 og aftur var kominn æsispennandi lokakafli. BF jafnaði 21-21 en heimamenn tóku síðustu stigin og unnu hrinuna 25-21 og jöfnuðu leikinn 1-1.

Þriðja hrina var löng og tók 28 mínútur að klára. Leikur liðanna var kaflaskiptur en aftur voru æsispennandi lokamínútur. HKarlar komust í 3-0 og 5-1 og settu strax tóninn. BF minnkaði muninn í 6-5 og 7-6 en heimamenn hrukku þá aftur í gang og skoruðu 5 stig í röð og var staðan orðin 12-6. HKarlar komust í 16-11 en BF náði upp góðu spili og minnkuðu jafnt og þétt muninn og var staðan orðin jöfn 18-18. BF komst í 19-21 og tóku þá heimamenn leikhlé til að stöðva gott spil BF á þessum kafla. Tók nú við langur og spennandi lokakafli í hrinunni og var jafnt 24-24 og 27-27. BF komst í 27-28 og vantaði aðeins eitt stig til að sigra hrinuna, en heimamenn náðu síðustu stigunum og unnu 30-28. Ansi svekkjandi að ná ekki sigri í hrinunni fyrir BF eftir mikla baráttu og gott spil á köflum. Staðan hér orðin 2-1 fyrir heimamenn.

BF byrjuðu fjórðu hrinuna ágætlega en erfiðlega gekk að sækja stigin eftir sem leið á hrinuna. BF komst í 2-5, 4-7 og 7-8, en þá tóku heimamenn völdin og skoruðu 5 stig í röð og komust í 12-8 og tóku nú BF strákarnir leikhlé. HKarlar komust í 18-10 og 20-11 og allt stefndi í auðvelda hrinu hjá þeim, en BF strákarnir börðust eins og þeir gátu í lokin til að sækja fleiri stig. BF minnkaði muninn í 21-15 og 22-19 og var komin smá spenna í hrinuna og tóku heimamenn leikhlé. HKarlar kláruðu hrinuna 25-20 og leikinn þar með 3-1.

Svekkjandi niðurstaða fyrir BF eftir mikla baráttu allan leikinn. BF er þar með komið í neðsta sæti deildarinnar með 5 stig og leikur við Hamar í Hveragerði á morgun í lokaleik deildarinnar.