Category Archives: Annað

Ákall um að gera Kjalveg að boðlegri ökuleið ferðamanna

Við undirritaðir fulltrúar þriggja fyrirtækja í ferðaþjónustu við Kjalveg, sem tökum alls á móti að minnsta kosti 75.000 ferðamönnum í ár, viljum hér með draga athygli stjórnvalda, nýkjörins Alþingis og landsmanna allra að hörmungarástandi þessarar vinsælu ökuleiðar ferðafólks þvert yfir hálendi Íslands.

• Ástand Kjalvegar ógnar íslenskri ferðaþjónustu og skaðar ímynd hennar og Íslands. Í bókstaflegum skilningi er það reyndar líka svo að ástandið er afar skaðlegt fólksflutningafyrirtækjum. Þau þurfa ítrekað að þola tjón á stórum og smáum bílum sínum á Kjalvegi, stundum stórfellt tjón.
• Niðurgrafinn og ósléttur vegslóðinn stendur engan veginn undir nafni sem „vegur“ og er hvorki boðlegur ferðafólki né farartækjum.
• Við biðjum ekki um malbikaða „hraðbraut“ yfir hálendið og teljum raunar slíkar hugmyndir hvorki æskilegar, raunhæfar né þjóna hagsmunum ferðamennsku og íslensks þjóðarbús.
• Þarna á einfaldlega að vera góður „ferðamannavegur“, framkvæmd sem er raunhæf og þarf að komast á dagskrá strax til að leysa brýnan vanda.
• Við hvetjum til þess að Vegagerðinni verði gert kleift að halda áfram þar sem frá var horfið sumarið 2010 þegar vegarkafli að Grjótá, sunnan við Bláfellsháls, var breikkaður og hækkaður. Sú vegagerð var velheppnuð og til fyrirmyndar.
o Um 80 km langur og 6 metra breiður vegur, sem risi hálfan metra upp úr umhverfi sínu í stæði núverandi vegslóða að mestu leyti, myndi kosta um 330 milljónir króna og allt að 60 milljónum króna til viðbótar ef tengileiðir Kjalvegar eru taldar með (skv. upplýsingum frá Vegagerðinni).

Greinargerð

Í upphafi sumarferðatímans er rétt að beina sjónum að ástandi Kjalvegar. Umferðin eykst þar ár frá ári án þess að viðhald vegarins aukist að sama skapi. Þvert á móti býr Vegagerðin við fjársvelti sem meðal annars birtist í skertum framlögum til hálendisvega. Afleiðingarnar blasa nú við.

Það segir sína sögu að forráðamenn fyrirtækja í fólksflutningum ræddu það í alvöru í ágúst 2012 að hætta að aka um Kjalveg. Nú eru dæmi um fyrirtæki sem neita sér um viðskipti með því að aka ekki þessa leið sumarið 2013, enda alkunna að hver einasta ferð kallar að líkindum á verkstæðisheimsókn með tilheyrandi kostnaði.

Eigendur bílaleiga ráðleggja viðskiptavinum sínum eindregið að aka ekki fólksbílum um Kjalveg eða hafa beinlínis sett „veginn“ á bannlista.

Því skal til haga haldið að ástandið er gott eða viðunandi til beggja enda leiðarinnar yfir Kjöl. Þar á milli eru um 80 km þar sem vegslóðinn er niðurgrafinn og fínu efnin í ofaníburði fokin eða flotin á brott. Eftir stendur þá gróft efni sem hvergi á heima í vegklæðningu, enda er yfirborð grófara og ósléttara en svo að hugtakið þvottabretti nái að lýsa því. Tennur veghefla koma þarna að litlu gagni þá sjaldan heflað er en það gerist að jafnaði tvisvar á sumri.

 Kjalvegur er að stærstum hluta slóði sem ruddur var á sínum tíma til að flytja efni í varnargirðingar vegna mæðuveiki í sauðfé. Þessi niðurgrafna ýtuslóð er barn síns tíma, óravegu frá því að standast kröfur fólksflutningatækja nútímans.

Endurbætur á Kjalvegi eru brýnar í margvíslegum skilningi. Þær myndu auka öryggi í umferð og stuðla að því að menn kæmu ökutækjum sínum heilum heim úr hálendisferðum.

Endurbættur Kjalvegur myndi auk heldur gera kleift að aka þarna yfir hálendið lengur á hverju ári en nú er unnt. Leiðin myndi opnast fyrr á sumrin og lokast síðar á haustin.

Allt rímar þetta vel við þá opinberu stefnu stjórnvalda að auka öryggi í umferð og lengja ferðamannatímann á Íslandi. Nægir í því sambandi að minna á „Ísland allt árið“, yfirskrift áætlunar íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2020. Markmið hennar er að auka arðsemi atvinnugreinarinnar með því að fjölga ferðamönnum, einkum utan sumartímans.

 Kjalvegur er dragbítur í ferðaþjónustunni og samræmist að óbreyttu ekki efnislegu inntaki stefnuyfirlýsingar um „Ísland allt árið“, enda er hann ekki einu sinni almennilega bílfær um hásumarið!

Herbert Hauksson
f.h. Fjallamanna ehf.

696 5116
herbert@mountaineers.is Gunnar Guðjónsson
f.h. Hveravallafélagsins ehf.

894 1293
gun@internet.is Páll Gíslason
f.h. Fannborgar ehf.

664 7000
pg@pg.is

Fjallamenn sérhæfa sig í jeppaferðum og vélsleðaleigu og hafa aðsetur við suðausturhorn Langjökuls.
Hveravallafélagið annast gisti-
og veitingaþjónustu á Hveravöllum.
Fannborg þjónar útivistar- og göngufólki í Kerlingarfjöllum og rekur þar veitinga- og gistiþjónustu.

Samfélagsstyrkir Landsbankans 2012

Landsbankinn veitir 20 milljónum króna í samfélagsstyrki í ár – og verður þeim úthlutað í tvennu lagi. Samfélagsstyrkjunum er ætlað að styðja við verkefni á ýmsum sviðum, þar á meðal á sviði mannúðarmála, menningar og lista, menntunar, rannsókna og vísinda, forvarnar- og æskulýðsstarf og sértækrar útgáfustarfsemi.

Sérstök dómnefnd skipuð þremur fagaðilum og tveimur sérfræðingum bankans fer yfir umsóknirnar og er umsóknarferlið gagnsætt og faglegt. Umsóknarfrestur í fyrri úthlutun er 4. júní en í seinni úthlutun 12. október.

Á hvoru úthlutunartímabili verða veittir eftirtaldir styrkir:

 • 5 styrkir að upphæð 1.000.000 kr. hver.
 • 5 styrkir að upphæð 500.000 kr. hver
 • 10 styrkir að upphæð 250.000 kr. hver.

Verkefni sem koma einkum til greina eru:

 • starf mannúðarsamtaka og líknarfélaga
 • menning og listir
 • menntamál, rannsóknir og vísindi
 • forvarnar- og æskulýðsstarf
 • sértæk útgáfuverkefni

Verkefni sem alla jafna ekki koma til greina eru:

 • nýsköpunar- og sprotaverkefni – sérstakir nýsköpunarstyrkir veittir
 • umhverfismál – sérstakir umhverfisstyrkir veittir
 • afreksmenn í íþróttum – sérstakir afreksstyrkir veittir
 • starfsemi íþróttafélaga
 • almenn bókaútgáfa, gerð almenns námsefnis og útgáfa geisladiska
 • utanlandsferðir listamanna og listhópa

Marriot hótel rís í Reykjavík

Náðst hefur samkomulag um byggingu Marriott-hótels við hlið tónlistarhússins Hörpu en samningur verður undirritaður um miðjan apríl, segir í frétt á Visi.is. Að sögn Péturs J. Eiríkssonar, stjórnarformanns Sítusar, eiganda Austurhafnarlóðanna, mun fyrirtækið World Leisure Investment byggja hótelið, en það átti hæsta tilboðið í lóðina, eða um 1,8 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að byrjað verði að byggja hótelið í lok árs eða eftir áramót, ef samningar nást. Pétur segir að það séu mikil gleðitíðindi að fá Marriott-keðjuna til landsins en keðjan, sem er bandarísk, hefur opnað um 18 hótel á Norðurlöndunum á síðustu árum.

Hestamenn athugið: Skeiðnámskeið með Sigurbirni Bárðarsyni

Námskeiðið verður haldið dagana 12., 13. og 15. apríl 2012. Kennsla hefst fimmtudaginn 12. apríl með bóklegum tíma kl. 18:00 – 21:00 í Reiðhöllinni í salnum uppi. Skipt er í hópa, 4 saman í hóp. Verkleg kennsla fram klukkutíma í senn.

Á föstudeginum 13. apríl 2012 byrjar fyrsti hópur kl. 18:00 og sunnudaginn 15. apríl 2012.

Verð á námskeið er 15.000 kr.
Skráning á námskeiðið er á ss@fakur.is
Opnað hefur verið fyrir skráningu.

Sauðárkrókur

Skagafjörður er nálægt miðju Norðurlandi, um 40 km langur og fullir 30 km á breidd mill i Húnsness á Skaga ogumdaemid Straumness innan við Fljótavík, þrengist þó nokkuð innar en er samt 15 km breiður þvert yfir frá Reykjadiski, alls 5230 km2. Fram í botn Skagafjarðar gengur Hegranes og eru breiðar víkur báðum megin þess og sandar miklir í botni. Á firðinum eru Drangey og Málmey. Siglingaleið um fjörðinn er greið og er hann djúpur, þó gengur hryggur neðansjávar út frá Hegranesi og annar frá Drangey, 4-5 km til norðurs, og er Hólmasker nyrst á honum. Kemur það upp um fjöru. Innar á hryggnum eru Kvíslasker. Boðar og grunn eru út frá báðum endum Málmeyjar.

Undirlendi er mikið í vestanverðu héraðinu, nema undir Tindastóli. Að firðinum austanverðum er nokkuð undirlendi og há fjöll að baki. Náttúrlegar hafnir eru engar en skipalægi nokkur, þó flest ill frá náttúrunnar hendi.

Inn af botni Skagafjarðar gengur mikill dalur samnefndur. Er hann einn mesti dalur landsins, breiður og grösugur, kringdur svipmiklum fjöllum. Aðalhéraðið er um 50 km langt en klofnar innst í þrönga dali er ganga langt inn í hálendið. Kallast þeir einu nafni Skagafjarðardalir en hafa líklega heitið Goðdalir til forna. Undirlendið er 5-10 km breitt en út frá því ganga þverdalir, bæði byggðir og óbyggðir. Aðalvatnsfall í Skagafirði er Héraðsvötn.
Þjóðvegur 1 gengur í gegn um héraðið frá Vatnsskarði í vestri að Öxnadalsheiðar í austri. Þrír þéttbýliskjarnar eru í Skagafirði, Sauðárkrókur, Hofsós og Varmahlíð og af þeim er Sauðárkrókur stærstur.