Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands hefur tekið þá ákvörðun að loka sjúkra- og hjúkrunardeildum fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá og með 7. mars þar til annað verður formlega tilkynnt. Er þetta gert að höfðu samráði við sóttvarnayfirvöld eftir að neyðarstigi almannavarna var lýst yfir vegna COVID-19 veirunnar.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekur sjúkra- og hjúkrunarrými á Húsavík, Fjallabyggð,  Sauðárkróki og Blönduósi og eru skjólstæðingar HSN flestir aldraðir og/eða með undirliggjandi sjúkdóma og því í sérstökum áhættuhópi á að veikjast alvarlega af kórónaveirunni.

Leitað er allra leiða til að draga úr hættu á að íbúar á hjúkrunardeildum og sjúklingar á sjúkradeildum veikist og lokunin er liður í því.
Við sérstakar aðstæður má leita undanþágu hjá yfirhjúkrunarfræðingum.

HSN bendir fólki einnig á að kynna sér upplýsingar og leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins www.landlaeknir.is um stöðu mála, en þær geta breyst frá degi til dags.

Heimild: hsn.is