All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Fréttatilkynning um framboð Edward H. Huijbens

Fréttatilkynning um framboð Edward H. Huijbens til varaformanns VG á komandi landsfundi hreyfingarinnar 6.-8. október 2017.

Á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sem haldin var að Logalandi í Borgarfirði í lok ágúst, lýsti ég áhuga á því að taka við embætti varaformanns til næstu tveggja ára. Hlutverk varaformanns er að taka þátt í daglegri stjórnmála umræðu og hafa áhrif á hvert samfélag okkar er að þróast. Ég vil vinna að samfélagi sem hefur að leiðarljósi jöfnuð, mannvirðingu og umhverfisvernd. Samfélag þar sem þau gildi sem við höfum fyrir nýjum kynslóðum snúast ekki um sjálfbirgingshátt, græðgi og efnishyggju heldur gæsku, virðingu og umhyggju fyrir gjöfum náttúru og fólksins sem myndar umgjörð lífs okkar. Áherslur mínar og kraftar munu jafnframt beinast að innra starfi hreyfingarinnar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, en það er mitt kappsmál að VG bjóði fram undir eigin merkjum sem víðast. Þar mun reynsla mín í bæjarmálum hjá Akureyrarkaupstað frá 2010 nýtast vel. Þar hef ég verið varabæjarfulltrúi í nær átta ár, setið í stjórn Norðurorku sem er fjórða stærsta veitufyrirtæki landsins og átt sæti í skipulagsráði, sem er ein viðamesta nefnd bæjarkerfisins.

Einkunnarorð mín eru virðing, kurteisi og sanngirni sem ég heiti að hafa í heiðri þegar ég vinn að umgjörð þeirra gilda sem ég lýsti að ofan.

 Eilítið um mig

Ég er 41 árs fæddur og uppalin Akureyringur af hollenskum og íslenskum ættum. Ég er giftur Ástu Kristínu frá Vestmannaeyjum og saman eigum við tvö börn (11 og 12 ára) auk 25 ára drengs sem nú býr í Noregi. Ég hef helgað líf mitt fræðastörfum og er með doktorspróf í landfræði og heimspeki frá Durham háskóla í Englandi. Ég starfa við rannsóknir á ferðamálum, þá helst gestum okkar og skynjun þeirra og upplifun af náttúru landsins. Ég veitti Rannsóknamiðstöð ferðamála forstöðu í 10 ár og byggði hana upp í núverandi mynd, en er nú prófessor við Háskólann á Akureyri.

Aðalfundur VG á Tröllaskaga í kvöld

Í kvöld, miðvikudaginn 20. september kl. 20:00 verður aðalfundur Vinstriheyfingarinnar – græns framboðs á Tröllaskaga. Fundurinn verður haldinn á Kaffi Klöru í Ólafsfirði.

Dagskrá: 

  •  Venjuleg aðalfundastörf
  •  Kosning fulltrúa á landsfund sem haldinn verður á Grand Hótel Reykjavík 6.-8. október.
  •  Starfið framundan
  •  Hin sívinsælu önnur mál

Leggja til 15% hækkun á nefndarlaunum í Skagafirði

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur lagt til við sveitarstjórn að nefndarlaun sem bundin eru þingfarakaupi samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins hækki um 15% í stað 44%.

Á byggðarráðsfundi 10.nóvember 2016 vísaði Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar því til sveitarstjórnar að hafna hækkun á launakjörum fulltrúa í stjórnum, ráðum og nefndum sveitarfélagsins, sem gerði ráð fyrir 44% hækkun þingfararkaups sem kjararáð úrskurðaði um þann 29. október s.l. Sveitarstjórn samþykkti að hafna hækkun kjararáðs og fól byggðarráði að koma með aðra tillögu.

Lokuðu leikskóladeild vegna veikinda starfsmanna

Föstudaginn 1. september síðastliðinn varð að loka deildinni Nautaskál á leikskólanum Leikskálum á Siglufirði vegna manneklu. Um var að ræða veikindi starfsmanna, en Nautaskál er yngsta deildin á leikskólanum. Aldrei áður hefur þurft að loka deild á leikskólanum en einnig vantaði starfsfólk af öðrum deildum þennan daginn. Fimmtán börn eru á deildinni og þurftu þau að vera heima hjá foreldrum og forráðamönnum þennan eina dag. Starfsmenn deildarinnar náðu að jafna sig yfir helgina og voru mættur til vinnu á mánudeginum.

 

Vilja taka upp frístundastyrki fyrir ungmenni í Norðurþingi

Æskulýðs- og menningarnefnd Norðurþings hefur haft til skoðunar að taka upp frístundarstyrki fyrir ungmenni í Norðurþingi.  Nefndin vill að sveitarfélagið Norðurþing taki upp frístundarstyrki fyrir ungmenni sveitarfélagsins frá upphafi árs 2018. Tilgangur og markmið styrkjanna er að öll börn og unglingar geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi, óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.  Kostnaður við frístundastyrki er metinn á um 4.5 milljónir, miðað við að styrkurinn sé 10.000 krónur á einstakling á aldrinum 6-18 ára.

KF sigraði í lokaumferð 3. deildar

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Ægir úr Þorlákshöfn mættust í dag í lokaumferð 3. deildar karla á Ólafsfjarðarvelli. Leikmenn KF voru staðráðnir í að ná í góð úrslit eftir dapurt gengi í síðustu fimm leikjum liðsins. Illa hefur gengið að skora í síðustu leikjum og liðinu hefur vantað markaskorara í sumar. Mesta spennan var í efri hluta deildarinnar, en þrjú lið kepptu um 2. sæti deildarinnar.

Ægismenn byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrsta mark leiksins á 12. mínútu leiksins. Rétt fyrir hálfleik fengu heimamenn víti, og úr því skoraði Aksentije Milisic, hans fjórða mark í 16 leikjum í sumar. Staðan var því 1-1 í hálfleik. Í upphafi síðari hálfleiks skoruðu Ægismenn sjálfsmark og var staðan orðin 2-1 fyrir heimamenn. Þegar leið á leikinn gerði Slobodan Milisic þjálfari KF þrjár taktískar skiptingar til að þétta vörn og miðju. KF náði að halda út og landa þessum sigri, lokatölur 2-1 og með sigrinum náði KF 5. sæti í 3. deild karla þar sem Einherji tapaði sínum leik.

KF var því með 50% sigurhlutfall í deildinni í ár, unnu 9 leiki, og töpuðu 9 leikjum og náðu engu jafntefli. KF var eina liðið sem ekki gerði jafntefli í 18. umferðum 3. deildar. KF gerði 34 mörk og fékk á sig jafn mörg, og endaði því með 0 í markatölu. KF endaði með 27 stig í deildinni, en 34 stig dugðu til að komast í 2. deild.

Reynir Sandgerði og Berserkir falla úr deildinni, og Sindri og KV eða Höttur munu leika í 3. deild að ári. Kári og Þróttur Vogum fara upp í 2. deild.

Knattspyrnufélagið Ægir var stofnað árið 1987 og er því 30 ára.

Ekkert minnst á fækkun sjúkrabíla í Fjallabyggð í nýrri skýrslu Landlæknis

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) barst undirskriftalisti frá íbúum Fjallabyggðar og bókun sveitarstjórnar Fjallabyggðar varðandi þá ákvörðun HSN að leggja niður sjúkraflutningavakt í Ólafsfirði. Í lok maí 2017 staðfesti HSN ákvörðunin um að vera með tvær vaktir sjúkraflutninga á Dalvík og Fjallabyggð í stað þriggja, og væri hún tekin eftir vandlega greiningu og samráð. Fram kom í bréfi HSN að auknar kröfur um menntun og þjálfun sjúkraflutningamanna gerðu það að verkum að nauðsynlegt væri að reka færri og öflugri lið. Stofnunin taldi að með því yrði þjónustan öflugri til lengri tíma litið.

Í nýrri skýrslu Landlæknisembættis sem gerð var í júní 2017 kemur ekkert fram um þessa fækkun á vöktum sjúkraflutninga og að aðeins verði sjúkrabíll staðsettur á Siglufirði og á Dalvík.

Í skýrslunni stendur:

Heilsugæsluþjónusta Fjallabyggðar er á tveimur starfsstöðvum; sjúkrahúsinu Siglufirði og á
heilsugæslunni Hornbrekku í Ólafsfirði. Upptökusvæði heilsugæslu Fjallabyggðar er rúmlega 2.100
manns, auk þess þjónustar heilsugæslan í vaxandi mæli ferðamenn á svæðinu. Í Fjallabyggð eru þrír
fastráðnir læknar, tveir heimilislæknar og einn sérfræðingur í almennum skurðlækningum. Móttaka
lækna er á dagvinnutíma alla virka daga og er biðtími að jafnaði 0-4 dagar. Bráðaþjónusta læknis er í
boði allan sólarhringinn. Um helgar er opin bráðamóttaka læknis á vakt á Siglufirði kl. 11- 12, ekki þarf
að panta tíma, bara mæta. Hjúkrunarfræðingar sinna móttöku alla virka daga á dagvinnutíma.
Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar heilsugæslunnar sinna heimahjúkrun alla virka daga frá kl. 08-16 og
frá kl. 08-12 um helgar og á hátíðisdögum. Góð samvinna er milli félagslegrar heimaþjónustu og
heimahjúkrunar í Fjallabyggð. 

Mönnun hjúkrunarfræðinga er ekki nægjanleg að þeirra mati og er t.d. erfitt að vera með heimahjúkrun
vegna mannfæðar. Því er stundum gripið til þess ráðs að leggja fólk inn á sjúkrahúsið til
skammtímadvalar.

Klukkutíma bið eftir sjúkraflutningi í Ólafsfirði

Nýlegt dæmi í septembermánuði sýndi það að klukkutíma tók að fá sjúkrabíl til Ólafsfjarðar fyrir eldri mann sem þjáðist af miklum bakverk. Sjúkrabíllinn á Siglufirði var í akstri til Akureyrar með annan sjúkling og að lokum var sjúkrabíll sendur frá Dalvík. Sá bíll kom klukkustund eftir að hringt var á sjúkrabíl og átti þá eftir að aka 17 kílómetra til Siglufjarðar til aðhlynningar.

 

Rekstur Hólaskóla enn viðkvæmur

Í skýrslu Ríkisendurskoðunnar kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneyti og Hólaskóli hafi að mestu brugðist við níu ábendingum stofnunarinnar frá árinu 2011 sem ítrekaðar voru árið 2014. Þessar ábendingar, sem m.a. lutu að rekstri skólans og stöðu hans innan háskólakerfisins, eru því ekki ítrekaðar nú í nýrri skýrslu. Þar sem skólinn var enn rekinn með halla árið 2016 mun Ríkisendurskoðun áfram með þróuninni og taka málið upp að nýju verði þess þörf.

Ráðuneytið hefur skilgreint stöðu Hólaskóla innan háskólakerfisins og ákveðið að hann starfi áfram sem opinber háskóli. Einnig hefur verið gripið til aðgerða vegna uppsafnaðrar skuldar skólans við ríkissjóð og hafa ráðuneytið og skólinn unnið að því að koma viðskiptakröfum í eðlilegt horf. Árið 2016 fékk skólinn 161,2 m.kr. aukaframlag auk sérstakrar 15 m.kr. fjárveitingar í fjárlögum 2017. Gert er ráð fyrir að Hólaskóli skili tekjuafgangi í lok árs 2017 en að höfuðstóll verði enn neikvæður.

Ríkisendurskoðun mun leggja áherslu á  að rekstur skólans sé ætíð innan fjárheimilda. Þá hvetur stofnunin til þess að gengið verði sem fyrst frá samningi Hólaskóla við Sveitarfélagið Skagafjörð um þjónustu til þess að greina megi milli skóla- og staðarhalds á Hólum.

Lokaleikur KF á Ólafsfjarðarvelli í dag

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar leikur við Ægir úr Þorlákshöfn í dag kl. 14:00 á Ólafsfjarðarvelli.  Leikurinn er í lokaumferðinni í 3. deild karla í knattspyrnu. Bæðið lið eru um miðja deild og er því leikið upp á heiðurinn í þessum leik. Hvorugt liðið á möguleika á að komast upp um deild, tvö lið eru fallin, en það skýrist í þessari umferð hvaða lið fylgir Kára upp í 2. deild.

Lið Ægis er sýnd veiði en ekki gefin. Liðið er með 21 stig, eða þremur stigum minna en KF og er í 7. sæti. KF er í 6. sæti með 24 stig en með verri markatölu. KF hefur unnið 8 leiki og gert ekkert jafntefli, en Ægismenn hafa unnið 5 leiki og gert 6 jafntefli. Með sigri í dag getur Ægir komist uppfyrir KF í töflunni og jafnað stigaskor KF. Í liði Ægis er næst markahæsti maður 3. deildar, Jonathan Hood, með 13 mörk í 16 leikjum. Einnig Guðmundur Garðar Sigfússon með 8 mörk í 17 leikjum. Þessa menn þarf því að dekka vel leiki þeir í dag.

Markahæsti maður KF er Ljubomir Delic með aðeins 6 mörk, en mikil dreifing hefur verið á markaskorun liðsins í sumar. KF hefur skorað 32 mörk og fengið á sig 33. Sigri KF í þessum leik eiga þeir möguleika á að enda í 5. sæti deildarinnar, ef Einherji tapar stigum gegn KFG. KF sigraði fyrri leik liðanna í sumar örugglega, 0-3, en Ægismenn hafa náð góðum úrslitum í síðustu leikjum og KF hefur ekki unnið leik í síðustu 5 leikjum liðsins.

Nánar verður fjallað um úrslit leiksins þegar þau liggja fyrir og einnig smá pistill um gengi KF í sumar.

Hljómsveitin ADHD á Siglufirði

Miðvikudaginn 20. september kl. 20.00 verður hljómsveitin ADHD með tónleika í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Hljómsveitina skipa þeir Óskar Guðjónsson, Magnús T. Eliassen, Ómar Guðjónsson og Davíð Þór Jónsson.  ADHD hefur áður spilað í Alþýðuhúsinu við mikinn fögnuð gesta og vert er að athuga að aðeins verða settir upp þrennir tónleikar um landið, svo ekki missa af þessu tækifæri.
Eins og áður verður tekið við frjálsum framlögum við innganginn, en til viðmiðunar kostar venjulega um 3500 kr. á tónleika. Ekki tekið við greiðslukortum nema til að greiða geisladiska sem verða til sölu.

Hljómsveitin ADHD var stofnuð á vormánuðum 2008 og hefur starfað nær sleitulaust síðan. Hljómsveitin hefur frá stofnun gefið sex plötur. Sú sjötta og nýjasta, ADHD6, kom út síðasta haust á geisladisk og svo var hún gefin út á vínylplötu nú í vor.
ADHD-liðar hafa verið duglegir við tónleikahald erlendis undanfarin ár en ekki eins duglegir að spila heima á Íslandi. En nú verður breyting þar á! Stefnan er tekin á Ísafjörð og spilað verður í Edinborgarhúsinu 19. september. Þaðan er stefnan tekin á Siglufjörð þann 20. september og svo haldið til Grindavíkur á Bryggjuna 21. september. Sveitin mun leika efni á síðustu plötu í bland við eldra efni á þessum tónleikum.

Staða sálfræðings í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð

Heilbrigðisstofnun Norðurlands og sveitarfélögin Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð hafa auglýst til umsóknar 100% stöðu sálfræðings með aðsetur á Dalvík eða í Fjallabyggð. Starfsstöðvar verða á heilsugæslustöðvunum í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð og í skólum sveitarfélaganna.
Í boði er fjölbreytt starf sem skiptist þannig að 50% staða er við HSN og 50% staða skiptist á milli sveitarfélaganna Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar.

Helstu verkefni og ábyrgð
Greining og meðferð algengustu geðraskana
Þátttaka í meðferðarteymi HSN
Samstarf við mæðra og ungbarnavernd HSN
Frumgreiningar og sálfræðistörf við skóla og félagsþjónustu Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð.
Aðkoma að barnaverndarmálum í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð

Nánari upplýsingar má finna á Starfatorg.is.

Fjórir sóttu um starf forstöðumanns Bókasafns Fjallabyggðar

Starf forstöðumanns Bókasafns Fjallabyggar var auglýst á dögunum eftir að forstöðumaðurinn sagði starfi sínu lausu. Alls bárust fjórar umsóknir um starfið en umsóknarfrestur rann út þann 4. september síðastliðinn. Fljótlega verða umsækjendur teknir í viðtöl vegna starfsins.

Umsækjendur eru:
Anna Bryndís Sigurðardóttir, sérfræðingur.
Birgitta Þorsteinsdóttir, starfsmaður í aðhlynningu.
Bylgja Hafþórsdóttir, þjónustufulltrúi.
Valdimar O. Hermannsson, verkefnastjóri.

Ljóðahátíðin Haustglæður hefst um helgina

Ljóðahátíðin Glóð, sem kallast nú Haustglæður hefur verið haldin á Siglufirði síðan árið 2007 hefst nú um næstu helgi, dagana 15.-17. september. Hátíðin hefst á nýjum viðburði sem kallast Í stofunni þinni.  Þessi viðburður snýst um það að íbúar Fjallabyggðar geta fengið tónleika heim í stofu þeim að kostnaðarlausu. Það er tónlistarmaðurinn Tóti trúbador (Þórarinn Hannesson) sem mun mæta með gítarinn heim til þeirra sem þess óska og leika eigin lög við ljóð ýmissa skálda. Hverjir tónleikar standa í 30-40 mínútur.  Þórarinn mun verða til taks á Siglufirði frá kl. 21.30 til miðnættis á föstudagskvöld og frá kl. 14.00 til miðnættis á laugardag og í Ólafsfirði frá kl. 14.00 – 23.00 á sunnudeginum 17. sept. Þeir sem vilja panta tónleika get haft samband við Þórarinn í síma 865-6543.

Hátíðin verður annars með sama hætti og undanfarin ár, þar sem ýmsum viðburðum er dreift yfir haustið. Á dagskrá eru hefðbundir viðburðir eins og ljóðasamkeppni meðal nemenda í Grunnskóla Fjallabyggðar, ljóðakvöld í Ljóðasetrinu og heimsóknir skálda í skóla og á dvalarheimili. Þá koma gestir frá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi og skáld, jafnt þjóðþekktum sem minna þekktum.

Heiðraðir fyrir 40 ára vinnu hjá Akureyrarbæ

Fjórir starfsmenn sem unnið hafa hjá Akureyrarbæ í 40 ár eða lengur voru nýlega heiðraðir fyrir vel unnin störf. Þetta eru þau Helgi Friðjónsson verkstjóri ferliþjónustu, Hrafnhildur Sigurðardóttir leikskólafulltrúi, Regína Þorbjörg Reginsdóttir starfsmaður á öldrunarheimilinu Hlíð og Sigurður Gunnarsson byggingastjóri hjá umhverfis- og mannvirkjasviði bæjarins.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri Helgi, Hrafnhildur, Sigurður, Regína og Matthías Rögnvaldsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar.

Lýðheilsugöngur frá Sauðárkróki

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands verða á öllu landinu nú í september og eru einn af hápunktunum í afmælisdagskrá FÍ, en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Göngurnar munu fara fram alla miðvikudaga í septembermánuði kl. 18:00. Þetta eru fjölskylduvænar göngur sem taka  u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Ferðafélag Skagfirðinga kynnir lýðheilsugöngur frá Sauðárkróki. Brottför kl. 18:00 á miðvikudögum í september.

  • 13. september. Gengið að Hegranesvita. Lagt af stað frá gömlu brúnni við vesturósinn.
  • 20. september. Göngum upp með Sauðárgilinu og í gegn um Litlaskóg og hring í Skógarhlíðinni um vegaslóða sem þar er. Brottför frá verknámshúsi FNV.
  • 27. september. Gengið upp að Gönguskarðsárvirkjun. Brottför frá Kirkjutorgi.

Pósthúsið á Siglufirði til sölu

Ríkiskaup hefur sett á sölu húsnæði Íslandspóst á Siglufirði þar sem póstafgreiðslan er til húsa. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti er nú verið að leita að öðru húsnæði fyrir póstafgreiðsluna.

Eignin skiptist í afgreiðslu og móttökurými með góðu vinnurými baka til, tvær skrifstofur, kaffistofu, geymslu ofl. Aðalinngangur er frá Grundargötu. Húsnæðið er 234,7 m² og byggt árið 1964. Að innan er húsnæðið mikið í upprunalegri mynd. Húsnæðið þarfnast nokkurs viðhalds bæði að  utan og innan og eru einhverjar rakaskemmdir sýnilegar. Aðkoma er góð og bílstæði meðfram Aðalgötu og Grundargötu.

Einnig er til sölu efri hæð hússins þar sem er rúmgóð 3. herbergja íbúð, alls 126 m².  Íbúðin samanstendur af stofu, tveimur rúmgóðum svefnherbergjum, eldhúsi, þvottahúsi og baðherbergi. Þá er rúmgott miðrými í íbúðinni og svalir. Í gildi er leigusamningur sem er uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara.  Ástand íbúðar er gott.

Óskað er eftir tilboðum í hvorn eignarhluta fyrir sig eða báða saman. Skila skal inn tilboðum til Ríkiskaupa fyrir kl. 15:00, fimmtudaginn 21. september 2017.

Fimmti tapleikur KF í röð

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Einherji frá Vopnafirði kepptu í 3. deild karla í gær. KF var í 5. sæti deildarinnar og Einherji í 6. sæti og gat með sigri komist uppfyrir KF í töflunni. KF hefur gengið illa seinniparts sumars og vann ekki einn leik í ágúst, hafði tapað síðustu fjórum leikjum, fengið á sig 12 mörk og skorað aðeins eitt. Hvorugt liðið á möguleika á sæti í 2. deild að ári. Það vakti athygli að Slobodan Milisic þjálfari KF var ekki á leikskýrslu, en Sævar Eyjólfsson var skráður þjálfari í þessum leik.

Það var rigning og rok í Vopnafirði nánast allan leikinn, en heimamenn létu það ekki trufla sig og skoruðu strax á 2. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Einherji aftur, og staðan orðin 2-0 í upphafi leiks, markið gerði Todor Hristov, hans 11 mark í 17 leikjum í sumar. Staðan var því 2-0 í hálfleik fyrir Einherja. Strax í hálfleik gerði KF eina skiptingu, og inná kom Jakob Auðun sem hefur átt fast sæti síðustu tvö árin í byrjunarliði KF, og út af fór Björgvin Daði, sem er ungur og efnilegur leikmaður KF, og á 11 leiki fyrir félagið. Á 58. mínútu gerði KF aðra skiptingu til að reyna hressa upp á sóknarleikinn, en inná kom Valur Reykjalín fyrir Jón Árna. Á 70. mínútu fékk svo leikmaður Einherja rautt spjald og léku þeir manni færri til leiksloka. Hákon Léo fór útaf á 70. mínútu fyrir KF og inná kom Magnús Aron. Fleiri urði mörkin ekki, en KF fékk nokkrar aukaspyrnur rétt fyrir utan vítateig, en þær tilraunir fóru hátt yfir markið. Of mikið var um ónákvæmar sendingar og of fá opin færi.

Þetta var fimmti tapleikur KF í röð, og liðið kemst ekki upp í 2. deild þetta árið þrátt fyrir að hafa bætt við sig nokkrum mönnum fyrir tímabilið og í lok júlí. Markmiðið var klárlega að fara strax upp aftur en liðið féll úr 2. deildinni í fyrra. Ein umferð er eftir af deildinni.

Einherji sýndi  beint frá leiknum á Youtube rás sinni, en einhver truflun var á útsendingu og byrjaði hún ekki fyrr en seint í fyrri hálfleik.

Kaldasti ágústmánuður á Akureyri síðan 2005

Veðurstofa Íslands hefur greint frá því að ágústmánuður á Akureyri hafi verið sá kaldasti síðan árið 2005. Meðalhitinn á Akureyri í ágúst 2017 var 9,9 stig og -0.9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.  Hiti var í lægra lagi á landinu í ágúst og mest um neikvæð hitavik þegar miðað er við síðustu tíu ár.  Hlýjast var á Austurlandi.

Á Akureyri mældist úrkoman í ágúst 44,4 mm og er það 30 % umfram meðallag áranna 1961-1990.  . Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 8 daga mánaðarins, 1 fleiri en í meðalári.

Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna júní-ágúst 10,5 stig, 0,6 stigum yfir meðallagi áranna 1961-1990, og -0.2 stigum undir meðalhita síðustu tíu ára.  Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 449 sem er 22 stundum undir meðallagi áranna 1961-1990 en 50 stundum færra en að jafnaði í sömu mánuðum síðustu tíu ára.

Lögreglan rannsakar meinta frelsissviptingu og líkamsárás á Akureyri

Lögreglan á Norðurlandi eystra rannsakar nú mál er varðar meinta frelsissviptingu og líkamsárás á Akureyri. Málið kom inn á borð lögreglu eftir að fórnarlamb meintrar árásar, karlmaður á fimmtugsaldri, leitaði aðstoðar á Sjúkrahúsi Akureyrar daginn eftir. Viðkomandi aðili er talsvert meiddur og er m.a. rifbeinsbrotinn.

Í lok vikunnar handtók lögreglan svo sjö aðila vegna þessa máls og í kjölfarið voru fjórir aðilar, þrír karlmenn og ein kona, úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald. Einum aðila hefur verið sleppt aftur. Öll hafa þessi sem handtekinn hafa verið komið við sögu lögreglu áður, sum ítrekað.

Rannsókn lögreglu er í fullum gangi og ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Gáfu 40 Brennu-Njálssögur til MTR

Bókasafn Grindavíkur hefur gefið Menntaskólanum á Tröllaskaga 40 eintök af Brennu-Njálssögu. Forstöðumaður safnsins í Grindavík er Andrea Ævarsdóttir og kemur hún frá Ólafsfirði. Bækurnar  voru upphaflega keyptar fyrir Grunnskólann í Grindavík en voru aldrei notaðar þar. Bækurnar eru mjög vel með farnar og lítið notaðar og hafa nemendur í MTR fengið eintak, en Brennu-Njálssaga er kennd í áfanganum ÍSLE3FO05 í menntaskólanum.

 

Fjölmennur nýnemadagur í MTR

Nýnemadagur Menntaskólans á Tröllaskaga var haldinn í vikunni í samstarfi við Grunnskóla Fjallabyggðar. Fjöldi nemenda keppti í sápubolta en skólinn hefur fjárfest í slíkum búnaði. Tíu lið kepptu, fimm frá hvorum skóla og spilaði hvert lið þrjá leiki. Hart var barist á vellinum og skein gleðin af andlitum nemenda.  Í vallarhúsi Knattspyrnufélags Fjallabyggðar hittust félgar í Tölvuleikjaklúbbi MTR og spiluðu tölvuleiki.  Fleiri myndir má sjá á vef mtr.is.

Mynd: mtr.is

 

Arctic Heli Skiing tilnefnt til verðlauna

Fyrirtækið Arctic Heli Skiing í Dalvíkurbyggð hefur verið tilnefnt til World Ski Awards verðlaunanna. Tilgangurinn með þeim er að viðurkenna árangur framúrskarandi fyrirtækja í skíðamennsku og hefur norðlenska fyrirtækið verið tilnefnt sem besta þyrluskíðafyrirtæki heims. Kosið verður í netkosningu og eru veitt verðlaun í nokkrum flokkum.  Allir sem vilja geta tekið þátt í kosningunni, en henni lýkur þann 22. september. Vert er að athuga að starfsmenn fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu eða hjá fyrirtækjum sem tengjast skíðamennsku geta skráð sig sérstaklega sem „industry voters.“ Atkvæði þeirra vega þyngra en önnur atkvæði.  Tilkynnt verður um sigurvegara á þriggja daga hátíð World Ski Award í nóvember.

Arctic Heli Skiing leggur mikla áherslu á fagmennsku í sinni starfsemi og segir eigandi fyrirtækisins, Jökull Bergmann, að þetta sé mikilvægur áfangi fyrir skíðamennsku á Íslandi og Norðurlandi sérstaklega. „Þetta er afrakstur áratuga vinnu við að markaðssetja Norðurland sem áfangastað fyrir skíðafólk. Ég er gríðarlega stoltur af þessu fyrir hönd okkar hér á Tröllaskaganum, og af því að svæðið sé komið á skíðaheimskortið,“ segir Jökull.

Fræðslufundur um læsi í Dalvíkurbyggð

Vinnuhópur um mótun læsisstefnu fyrir Dalvíkurbyggð stendur að fræðslufundi um læsi og lestrarnám í Menningarhúsinu Bergi, þriðjudaginn 12. september kl. 17:00 – 18:15. Hann er ætlaður öllum áhugasömum um málþroska, lestur og læsi, s.s. foreldrum og forráðamönnum því allir í umhverfi barna geta haft áhrif á þróun lestrarnáms þeirra.

Erindi flytja Magnea K. Helgadóttir grunnskólakennari, Guðrún Halldóra Jóhannsdóttir leikskólastjóri, Gunnhildur H. Birnisdóttir verkefnastjóri sérkennslu og Björk Hólm Þorsteinsdóttir forstöðumaður Bóka- og héraðsskjalasafns.

Skóflustunga að nýjum göngu- og hjólreiðastíg í Eyjafjarðarsveit

Síðastliðinn laugardag tók Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, fyrstu skóflustunguna að nýjum göngu- og hjólreiðastíg sem tengir Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit og Akureyri. Þetta ásamt ljósleiðaratengingu allra heimila, er eitt stærsta framkvæmdaverkefni Eyjafjarðarsveitar á kjörtímabilinu en sveitarfélagið stendur að framkvæmdinni við stíginn ásamt Vegagerðinni.

Stígurinn er um 7,5 kílómetra langur og liggur meðfram Eyjafjarðarbraut vestari frá Hrafnagilshverfi að bæjarmörkum Akureyrar. Stígurinn verður 4,5 metra breiður og þar af verða 2,5 metrar klæddir slitlagi. Verkið verður unnið í tveimur áföngum, þ.e. undirbygging og fleiri verkþættir í fyrri áfanga sem áætlað er að verði lokið fyrir jól. Sá verkhluti var boðinn út fyrr í sumar og átti Finnur ehf. lægsta tilboð, 81,5 milljónir króna. Síðari áfangi verksins er slitlagslögnin og verður hún boðin út síðla næsta vetrar. Gert er ráð fyrir að stígurinn verði fullbúinn í sumarbyrjun 2018.

Jón Stefánsson, oddviti sveitarstjórnar, sagði framkvæmdina í senn framlag til útivistar almennings og mikið öryggisatriði. Umferð gangandi, hlaupandi og hjólandi vegfarenda á veginum milli Hrafnagilshverfis og Akureyrar sé mikil og nauðsynlegt að aðskilja hana með þessum hætti. Fram kom í máli hans að framan af undirbúningi var Akureyrarbær einnig þátttakandi í verkefninu en tók ákvörðun á síðari stigum um að draga sig út úr því. Jón þakkaði sérstaklega landeigendum á vegstæðinu, en gott samstarf við þá og velvilji hefur reynst mikilvægur fyrir framvindu verkefnisins.
Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, sagði í ávarpi við þetta tækifæri að rekja megi aðdraganda þessarar framkvæmdar til þeirrar lagabreytingar sem gerð var fyrir 10 árum þegar Vegagerðinni var heimilað að taka þátt í gerð göngu- og hjólastíga í samráði við sveitarfélögin. „Fram að því höfðu slík verkefni verið alfarið á borði sveitarfélaganna en það var ekki síst með tilliti til umferðaröryggisins og aukinnar áherslu á þann þátt sem við unnum að því að fá þetta inn í lög,“ sagði Hreinn en fram til þessa hafa flest slík verkefni verið á suðvesturhorni landsins. Fyrstu tvö stígaverkefnin utan höfuðborgarsvæðisins líta dagsins ljós í ár og er stígurinn í Eyjafjarðarsveit það stærsta.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, sagði til fyrirmyndar hversu ötullega sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hafi unnið að framgangi verkefnisins. „Sú leið sem við erum að fara, sem er ekki alveg óþekkt, þ.e. að til verður samstarfsverkefni þar sem allir leggjast á eitt um að bæta lífsgæði fólks, er til fyrirmyndar og eitthvað sem við viljum sjá gerast í ríkara mæli. Svona verkefni er þegar upp er staðið mikilvægt til að ýta undir bylgju breytts lífsstíls og alls þess jákvæða sem fylgir því að greiða fyrir almenningssamgöngum og að hjólið og gangan verði raunhæfur samgöngumáti. Það skilar sér að lokum til okkar í bættri lýðheilsu. Þannig verður samfélagslegur ávinningur að svona framkvæmdum umfram það sem við höfum almennt lagt mat á í samgöngumálum til þessa.“ – Sagði Jón Gunnarsson, samgönguráðherra.

Heimild: esveit.is

Getraunaleikur Knattspyrnufélags Fjallabyggðar – fréttatilkynning

Um helgina eru að hefjast getraunaleikir á vegum Knattspyrnufélags Fjallabyggðar.  Keppt er í liðakeppni og einstaklingskeppni.  Verðlaun veitt fyrir efstu sætin.

Getraunaþjónustan á Siglufirði er opin frá kl.11-13 á laugardögum í Aðalbakaríinu. Frekari upplýsingar um leikinn á Siglufirði veitir Grétar Sveins í síma 891-6399.
Getraunaþjónustan á Ólafsfirði er opin á föstudagskvöldum frá kl.20-22 í Vallarhúsinu. Frekari upplýsingar um leikinn veitir Þorsteinn Sigursveins í síma 861-4188.

Minnum líka á að þeir sem ekki taka þátt í leiknum er velkomið að koma á opnunartíma og tippa.

Hvetjum að sjálfsögðu alla til að taka þátt í skemmtilegum leik.

Texti: Fréttatilkynning KF.

Lýðheilsugöngur um allt land

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands verða á öllu landinu og eru einn af hápunktum í glæsilegri afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Þetta eru fjölskylduvænar göngur sem taka um 60-90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Fjallabyggð hefur ákveðið að taka þátt í verkefninu með FÍ og eru bæjarbúar hvattir til að taka þátt.

Nokkra lýðheilsugöngur verða í Fjallabyggð og hefst fyrsta gangan í dag, 7. september í Ólafsfirði. Fararstjóri er Harpa Hlín Jónsdóttir. Mæting er kl. 16.50 við ÚÍF húsið, keyrt verður  fram að Reykjum í einkabílum, gengið upp að Reykjafossi og áfram upp Reykjadalinn eftir slóða. Ganga við allra hæfi og allir velkomnir.

Fararstjórar í Fjallabyggð eru Harpa Hlín Jónsdóttir (Ólafsfjörður) og Gestur Hansson (Siglufjörður).

Næstu göngur verða sem hér segir:

Miðvikud. 7. sept. kl. 16:50 – Gengið upp að Reykjafossi og upp Reykjadal við Ólafsfjörð

Miðvikud. 13. sept. kl. 16:50 – Gengið með Hörpu Hlín við Ólafsfjörð
Miðvikud. 13. sept. kl. 18:00 – Gengið með Gesti Hansa við Siglufjörð

Miðvikud. 20. sept. kl. 16:50 – Gengið með Hörpu Hlín við Ólafsfjörð
Miðvikud. 20. sept. kl. 18:00 – Gengið með Gesti Hansa við Siglufjörð

Miðvikud. 27. sept. kl. 16:50 – Gengið með Hörpu Hlín við Ólafsfjörð
Miðvikud. 27. sept. kl. 18:00 – Gengið með Gesti Hansa við Siglufjörð

Athugið að allar göngur taka mið af færð og veðri hverju sinni og gætu færst til ef veður er slæmt.