All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Verkefni á Norðurlandi valin á dagskrá aldar afmælis fullveldis Íslands

Nokkur verkefni á Norðurlandi hafa verið valin á dagskrá aldar afmælis fullveldis Íslands. Kallað var eftir hugmyndum af verkefnum og hafa nú 100 verkefni verið valin og hljóta þau mismunandi styrki fyrir verkefnum.

Á Siglufirði hlaut Vitafélagið vilyrði fyrir 1 milljón króna vegna Norrænar strandmenningarhátíð á Siglufirði 2018.  Hátíðin er haldin í tilefni af 100 ára afmæli Siglufjarðarkaupstaðar, 200 ára verslunarsögu og aldarafmæli
sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli á strandmenningu þjóðarinnar sem einum merkasta hornsteini í menningararfi hennar og sögu. Þetta er gert með því að gefa sérfræðingum og
almenningi tækifæri á að hittast, læra, miðla og skapa tengsl. Markmiðið er einnig að styðja strandmenninguna og kynna hana fyrir almenningi.

Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði hefur hlotið vilyrði fyrir 400 þús. króna styrk vegna verkefnis Þjóðlagaarfur Íslendinga í nýjum búningi. Taka á upp í hljóð og mynd flutning á 20 íslenskum þjóðlögum úr Þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar sem kom út árið 1906. Þjóðlögin verða í nýjum búningi. Þau verða útsett á einfaldan hátt fyrir söng og hljóðfæraleik til þess að gera þau aðgengilegri almenningi. Leikið verður á hljóðfæri sem voru til á Íslandi fyrr á öldum. Flytjendur eru Spilmenn Ríkínís. Þeir syngja lögin og leika undir. Lögin verða sýnd á sérstakri sýningu í Þjóðlagasetrinu á Siglufirði í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands. Þá munu Spilmenn Ríkínís flytja lögin á opnunartónleikum Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði.

Skagfirski kammerkórinn hlaut vilyrði fyrir 900 þús. króna styrk vegna tónleikanna Í takt við tímann.  Skagfirski kammerkórinn ræðst í stórverkefni í tilefni afmælisársins en það er verkið Magnificat eftir breska
tónskáldið John Rutter. Það má segja að það sýni þróunina í verkefnavali almennra kóra á 100 árum og hvað Íslendingar eru að fást við í dag, á 100 ára afmæli fullveldisins. Hinn hluti tónleikanna er helgaður íslenska
einsöngslaginu en það hefur lifað með þjóðinni í 100 ár. Í þeim hluta er ætlunin að gera íslenska einsöngslaginu hærra undir höfði með nýjum hljómsveitarútsetningum. Valin verða einsöngslög ólíkra höfunda með áherslu á
skagfirska arfinn. Haldnir verða þrennir tónleikar í þrem landshlutum.

Akureyrarbær hefur fengið vilyrði fyrir 800 þús. króna styrk vegna Fullveldisvorhátíðar í Sundlaug Akureyrar.  Hugmyndin með verkefninu er að setja hugtakið fullveldi og hugmyndina um fullvalda lýðveldi í ýmiss konar
búning sem hentar öllum aldri og setja saman dagskrá sem er á sama tíma fræðandi, spennandi og skemmtileg, að fjalla um og nálgast fullveldishugtakið á víðum grunni með það að markmiði að það kveiki áhuga hjá öllum
aldurshópum og að þátttakan verði almenn. Vettvangurinn er Sundlaug Akureyrar sem er afar fjölsóttur samkomustaður og eru gestirnir bæði íbúar og ferðamenn. Markmiðið með að nýta Sundlaug Akureyrar sem
viðburðastað er að ná til þátttakenda sem ekki myndu endilega mæta á venjulegt málþing um efnið. Rými sundlaugarinnar sem eru fjölmörg og mismunandi verða notuð til viðburðahalds en jafnframt verður þess gætt
að þeir geti líka notið sem ekki vilja fara í sund.

Listasafnið á Akureyri hefur fengið vilyrði fyrir 800 þús. króna styrk  vegna sýningar Fullveldið í dag.  Setja á upp sýningu á verkum 10 ólíkra myndlistarmanna sem gerð eru sérstaklega í tilefni af 100 ára afmæli
fullveldis Íslands árið 2018. Sýningin er útisýning sett upp á stöndum á völdum stöðum sem mynda gönguleið frá gömlu höfninni í miðbæ Akureyrar (Torfunefsbryggju) að menningarhúsinu Hofi, í gegnum miðbæinn, upp Listagilið hjá Listasafninu, upp að Sundlaug Akureyrar og að verkinu Landnemum eftir Jónas S. Jakobsson af Þórunni hyrnu og Helga magra landnámsmönnum sem stendur á Hamarkotsklöppum. Markmiðið er að skapa nýja sýn á stöðu fullveldis Íslands í dag, á 100 ára afmæli þess, séð með augum ólíkra myndlistarmanna, gera sýningu sem fær almenning til að velta fyrir sér ólíkum sjónarhornum á fullveldið í dag og skoða hugmyndir og útfærslur.
Textar um sýninguna verða á íslensku og ensku og aðgengilegir hjá hverju verki í almenningsrými en einnig á netinu.

Guðmundur Ragnarsson f.h. áhugahóps um sögu Dana á Sauðárkróki í upphafi 20. aldar hefur fengið vilyrði fyrir styrk að upphæð 800 þús krónur vegna verkefnis Danirnir á Króknum – Um þátttöku Dana í bæjarlífi Sauðárkróks í upphafi 20. aldar.  Fyrirhugað er að fagna 100 ára fullveldi Íslands með því að setja upp sýningu í tali og tónum þann 1. desember 2018. Sýningunni er ætlað að gera sögu Dana á Sauðárkróki í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. nokkur skil með jákvæðum og skemmtilegum hætti. Gert er ráð fyrir tveimur sýningum á Sauðárkróki. Sýningin samanstendur af lestri texta um Danina okkar og veru þeirra hér og á milli upplesinna texta og leikinna atriða verður flutt dönsk og íslensk tónlist þar sem leitast er við að fanga tíðarandann í upphafi 20. aldarinnar. Um er að ræða samstarfsverkefni þar sem koma saman nokkur félagasamtök og stofnanir í Skagafirði og standa að viðburðinum.

Háskólinn á Hólum í Hjaltadal hefur fengið vilyrði fyrir 600 þús. króna styrk vegna verkefnis Áhrif skólahalds á Hólum í Hjaltadal.  Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á hlutverk og áhrif skólahalds á Hólum á þróun íslensks samfélags frá fullveldi til framtíðar. Sérstaklega verður horft til áhrifa Hólamanna á umhverfi sitt með hliðsjón af sjálfstæði, byggðaþróun, menntunarstigi og tækniframförum. Haldin verður tveggja daga ráðstefnu að Hólum í Hjaltadal. Ráðstefnan verður öllum opin og munu fræðimenn og fyrrverandi nemendur skólans halda erindi um hugðarefni sín sem tengjast yfirskriftum málstofa en þær eru sjálfstæði, byggðaþróun, menntun og tækniframfarir.

Sögusetur íslenska hestsins hefur hlotið vilyrði fyrir 500 þús. króna styrk vegna verkefnins Íslenski hesturinn – þjóðarhesturinn – efling og uppgangur við fullveldi.  Sögusetur íslenska hestsins hyggstsetja upp sýningu um íslenska hestinn og hestamennsku, stöðu hestamennsku um fullveldið og framfarasókn á fullveldistímanum. Í sýningunni kristallast hvernig frjáls og fullvalda þjóð hefur tryggt vöxt og viðgang síns þjóðarhests og komið honum á framfæri við heimsbyggðina og skapað honum þar, í samstarfi við aðrar þjóðir þar sem áhugi hefur verið til staðar, viðgang og virðingu. Sýningin verður fyrst sett upp á Landsmóti hestamanna 2018 en síða varanlega í Skagafirði.

Fleiri félög hafa hlotið styrki á Norðurlandi, eins og Kammerkór Norðurlands, Mótorhjólasafn Íslands, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Amtsbókasafnið á Akureyri, Minjaasfnið á Akureyri og Varmahlíðarskóli.

Skíðasvæðin á Norðurlandi opin um helgina

Flest skíðasvæðin á Norðurlandi verða opin um helgina.  Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði verður opið í dag frá kl. 11-16.  Skíðasvæðið í Tindastóli á Sauðárkróki er opið í dag frá kl. 11-16. Skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli á Dalvík er opið í dag frá kl. 12-15. Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli á Akureyri er opið í dag frá kl. 10-16. Engar upplýsingar er að finna um skíðasvæðið í Tindaöxl í Ólafsfirði, en svæðið hefur verið lokað undanfarið vegna snjóleysis.

Skíðasvæðið í Skarðsdal aftur opið

Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði opnaði aftur í dag, en lokað var um síðustu helgi vegna aðstæðna. Töluvert af snjó hefur nú komið í fjallið og er færið mjög gott í troðnum brekkum.  Samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmönnum svæðisins þá er útlit fyrir gott skíðafæri næstu daga í fjallinu. Þá er tilboð á vetrarkortum til 24. desember og tilvalið að gefa slíkt í jólapakkann. Frítt er fyrir börn yngri en 8 ára á svæðið.

 

 

Jólakvöld í Ólafsfirði í kvöld

Í kvöld, föstudagskvöldið 8. desember verður hið árlega jólakvöld haldið í miðbæ Ólafsfjarðar. Hefst það kl.19:30 og stendur fram eftir kvöldi. Þá verður miðbærinn lokaður fyrir umferð ökutækja og hluti Aðalgötunnar gerður að göngugötu.  Ýmis konar varningur verður til sölu í jólahúsum, Pálshúsi, Gallerý Uglu og Smíðakompu Kristínar. Einnig verða Kaffi Klara og Kjörbúðin opin.

Jólasveinasafn Egils Sigvaldasonar verður til sýnis í Pálshúsi. Tónlistarfók kemur fram á svæðinu og húsum í kring.

Lifandi tónlist kl.21:30 í Tjarnarborg.

Jólasýning í Alþýðuhúsinu

Í dag opnaði Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sína árlegu jólasýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Á sýningunni eru lágmyndir sem Aðalheiður hefur gert að undanförnu í bland við skúlptúra og málverk.
Einnig eru minni skúlptúrar til sýnis og sölu í anddyri hússins.

 

Opnunartími og dagskrá næstu daga:

8. – 14. desember, opið frá kl. 14.00 – 17.00. Opið í anddyri Alþýðuhússins og í Kompunni þar sem smáskúlptúrar eru til sýnis og sölu.

17. desember, opið frá kl. 14.00 – 15.30. Álfan og eyjan – Ferðasögur í tíma og rúmi.
Halldór Friðrik Þorsteinsson les upp úr nýútkominni ferðasögu sinni, Rétt undir sólinni.
Einar Falur Ingólfsson les úr nýútkominni bók sinni Landsýn.

Fjallabyggð samþykkir kaup á nýju strætóskýli

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt kaup á nýju strætóskýli við Snorragötu á Siglufirði, eftir að ábending barst að ekki rúmist öll börn fyrir í því á morgnanna á leiðinni til skóla. Fjallabyggð fékk tilboð í nýtt skýli og uppsetningu sem hljóðaði upp á  2.480.000 kr. án virðisaukaskatts.  Ekki liggur fyrir hversu langur tími líður þar til nýtt skýli verður uppsett.

 

Sex tilnefndir sem íþróttamaður ársins í Dalvíkurbyggð

Íbúar Dalvíkurbyggðar sem eru 15 ára og eldri geta nú kosið um íþróttamann ársins til og með miðvikudagsins 20. desember 2017.  Samanlögð kosning íbúa og fulltrúa í íþrótta- og æskulýðsráði mun svo ráða úrslitum um það hver verður kjörinn.

Kjöri á Íþróttamanni Dalvíkurbyggðar verður lýst við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Bergi fimmtudaginn 4. janúar 2018 kl. 17:00.

Tilnefningar:

Andrea Björk Birkisdóttir Skíði
Amalía Nanna Júlíusdóttir Sund
Amanda Guðrún Bjarnadóttir Golf
Ingvi Örn Friðriksson Kraftlyftingar
Svavar Örn Hreiðarsson Hestar
Viktor Hugi Júlíusson Frjálsar

Menntaskólinn á Tröllaskaga í samstarf við menningarstofnanir

Menntaskólinn á Tröllaskaga ætlar auka samstarf við menningarstofnanir á Tröllaskaga og hefur þegar verið gengið frá viljayfirlýsingum um samstarf við Síldarminjasafn Íslands og Ljóðasetur Íslands á Siglufirði. Samstarfið getur falist í ýmsum þáttum en gert er ráð fyrir heimsóknum nemenda á Síldarminjasafnið og nýtingu á safnkosti og sýningarhúsum til skapandi starfa og verkefna, eins og í ljósmyndun og smíði eða viðgerðir á gömlum trébátum undir handleiðslu sérfræðinga.

Samstarf við Ljóðasetrið getur meðal annars falist í heimsóknum nemenda og fræðslu um íslenska ljóðlist, heimsóknum ljóðskálda á vegum setursins, sérfræðiráðgjöf til kennara í Menntaskólanum á Tröllaskaga og námskeiðum í skapandi skrifum og ljóðlist.  Þá er vilji til að nemendur skólans fái tækifæri til að lesa upp á Ljóðasetrinu og taki þátt í ljóðakvöldum og árlegri ljóðahátíð. Áformað er að semja við fleiri menningarstofnanir um sambærilegt samstarf.

Heimild: mtr.is

Norðurlandsmót í júdó á Blönduósi

Norðurlandsmót í júdó var haldið á Blönduósi um síðastliðna helgi.  Alls voru keppendur 42 og komu frá þremur júdófélögum á Norðurlandi: Pardusi á Blönduósi, Tindastóli á Sauðárkróki og KA á Akureyri.

Þó félögin þrjú hjálpist að við mótshaldið ber Pardus hitann og þungann af skipulagningunni. Mótið var haldið í íþróttamiðstöðinni á Blönduósi og var þátttakendum og foreldrum boðið frítt í sund ásamt því sem keppendum var boðin heit súpa eftir mótið.

Keppendur frá Tindastóli voru fimmtán talsins. Árangurinn lét heldur ekki á sér standa og hirti Tindastóll sex gullverðlaun, fimm silfurverðlaun og þrjú bronsverðlaun. Það verður að teljast frábær árangur.

Uppskeruhátíð frjálsíþróttafólks í Skagafirði 

Uppskeruhátíð frjálsíþróttafólks í Skagafirði var haldin 26. nóvember síðastliðinn en þar var afreksfólki UMSS veitt verðlaun fyrir árið 2017.

Frjálsíþróttafólk UMSS 2017:

Kvennaflokkur: Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir.

Karlaflokkur: Ísak Óli Traustason.

Verðlaun ungra og efnilegra:

Óskar Aron Stefánsson og Aníta Ýr Atladóttir.

Þá voru einnig heiðruð öll þau sem unnu Íslandsmeistaratitla og Unglingalandsmótstitla í frjálsíþróttum á árinu.

Nemendasýning í Menntaskólanum á Tröllaskaga

Laugardaginn 9. desember kl. 13:00-16:00 verður sýning á verkum nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga. Á sýningunni gefur að líta afrakstur mikillar vinnu og sköpunar sem hefur farið fram á haustönn.  Að venju verður fjölbreytt sköpun á önninni gerð sýnileg með ýmsum hætti. Margskonar myndverk verða áberandi en einnig listrænar ljósmyndir, myndbönd og fleira.

Aðstaða til sýningarhalds hefur stórbatnað í skólanum með tilkomu salarins Hrafnavoga sem er hluti af nýrri viðbyggingu.

Sýningin stendur til útskriftar 16. desember og er opin á opnunartíma skólans.

Nemendasýning í Menntaskólanum á Tröllaskaga

Laugardaginn 9. desember kl. 13:00-16:00 verður sýning á verkum nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga. Á sýningunni gefur að líta afrakstur mikillar vinnu og sköpunar sem hefur farið fram á haustönn.  Að venju verður fjölbreytt sköpun á önninni gerð sýnileg með ýmsum hætti. Margskonar myndverk verða áberandi en einnig listrænar ljósmyndir, myndbönd og fleira.

Aðstaða til sýningarhalds hefur stórbatnað í skólanum með tilkomu salarins Hrafnavoga sem er hluti af nýrri viðbyggingu.

Sýningin stendur til útskriftar 16. desember og er opin á opnunartíma skólans.

Hverfisgata 17 rifin á Siglufirði

Fjallabyggð hefur samþykkt tilboð frá Sölva Sölvasyni ehf. um niðurrif á húsi við Hverfisgötu 17 á Siglufirði. Sveitarfélagið hafði gert verðkönnun og fengum tvö tilboð í verkið.  Sölvi Sölvason ehf. var lægstbjóðandi með 2.150.000 kr. og bauð Bás ehf. 2.320.000 kr.  Ljúka þarf verkinu fyrir 30. desember næstkomandi.  Húsið er einbýlishús byggt árið 1939 og er 157 fm á stærð.

Fyrir fjórum árum þá fauk hluti þaksins af húsinu í heilu lagi og lenti á götunni, en þá var mikið hvassviðri á Siglufirði.

 

Áætlunarflug hafið til Sauðárkróks

Í gær lenti fyrsta áætlunarvélin á Sauðárkróki eftir nokkurra ára hlé. Það ríkti gleði í flugstöð Alexandersflugvallar þegar beðið var eftir vélinni sem lenti kl. 13:40 í gær, þann 1. desember. Isavia bauð upp á kaffi og veitingar og sagðist Hjördís Þórhallsdóttir, umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi, fagna því að byrjað væri að fljúga á Sauðákrók á ný og lýsti yfir ánægju með samstarf allra þeirra aðila sem að fluginu standa.

Sigríður Svavarsdóttir, forseti sveitarstjórnar sagðist einnig fagna þessum tímamótum og vonast til að flugið sé komið til að vera. Sigríður sagði að flugið væri sérstaklega mikið gleðiefni fyrir Skagfirðinga en auk þess gætu falist í því tækifæri fyrir ferðamenn sem vilja sækja Skagafjörð heim, ekki síst yfir vetrarmánuðina.

Hörður Guðmundsson lýsti yfir ánægju sinni með að Ernir væru byrjaðir að fljúga á Sauðárkrók og hvatti fólk til að nýta sér flugið. Hann nefndi í ræðu sinni að þó að einn farþegi færi með vélinni kæmu um 20 starfsmenn í hinum ýmsu störfum að því að koma viðkomandi á milli staða. Verkefnið er tilraunaverkefni til sex mánaða en Hörður sagðist vonast til þess að áætlunarflugið myndi ganga vel um ókomin ár.

Fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir á Norðurlandi vestra hafa mörg hver tekið vel í að styrkja verkefnið með kaupum á miðum eða niðurgreiðslu til félagsmanna sinna.

Til að byrja með verður flogið fjórum sinnum í viku, eitt flug á föstudögum, eitt á mánudögum og tvö flug á þriðjudögum.

Heimild og myndir: skagafjordur.is.

Yfirlýsing frá stjórnendum Varmahlíðarskóla

Í Fréttablaðinu þann 29. nóvember síðastliðinn, er umfjöllun um niðurstöður samræmdra prófa haustið 2017 þar sem fram kemur að einkunnir hafi verið jafnari milli kjördæma en áður. Þegar litið er til góðs árangurs á prófunum eru landshlutar og kjördæmi nefnd en þegar kemur að slökum árangri eru einstakir skólar nafngreindir og þar með talið okkar skóli, Varmahlíðarskóli í Skagafirði, sem er fámennur skóli með 109 nemendur. Þessi umfjöllun er ámælisverð og viljum við gera athugasemdir við fréttaflutninginn sem vart getur talist uppbyggjandi fyrir neinn.

Bekkjarstærðir skóla á Íslandi eru mjög misjafnar og samanburður því vandmeðfarinn. Með því að birta nöfn skóla með fámenna nemendahópa í slíkri umfjöllun er nánast verið að benda á einstaklinga. Einstaklinga í smáu samfélagi þar sem nánd er mikil.

Slík vinnubrögð blaðamanna eru óviðunandi. Hver er tilgangurinn með slíkum fréttaflutningi?

Þátttökuhlutfall í samræmdum prófum er misjafnt eftir skólum. Samkvæmt upplýsingum frá Menntamálastofnun er þátttökuhlutfall nemenda í 4. bekk á landinu öllu 93,6% í íslensku og 94,4% í stærðfræði. Sé horft til grunnskólanna þriggja í Skagafirði er þátttökuhlutfall 98,1% í íslensku og 96,2% í stærðfræði. Í greininni er haft eftir Sverri Óskarssyni, sviðsstjóra matssviðs Menntamálastofnunar að 92-93% þátttaka  á samræmdum prófum stofnunarinnar beri vitni um metnaðarfullt skólastarf.  Að þessu sinni var þátttökuhlutfall nemenda í 4. bekk Varmahlíðarskóla 100%. Hvaða orð er þá hægt nota um 100% þátttöku?  Við teljum okkur geta fullyrt að þátttökuhlutfall nemenda á samræmdum prófum í Varmahlíðarskóla í gegnum árin hafi að öllu jöfnu verið nærri því  100%. Við gerum ráð fyrir því að orð sviðsstjóra MMS séu þarna slitin úr samhengi og hann, eins og við, viti það að metnaðarfullt skólastarf ræðst  af mörgum ólíkum þáttum og þátttaka skólans í samræmdum prófum er aðeins einn þeirra.

Sé horft á  niðurstöður samræmdu prófanna er vert að benda á mikilvægi þess að hópastærð sé höfð í huga. Menntamálastofnun birtir ekki tölur skóla í sínum gagnagrunni nema að þátttaka nemenda sé 11 nemendur eða fleiri. Sökum fámennis í okkar skóla eru niðurstöður stundum birtar og stundum ekki. Sveiflur í litlum árgöngum hafa meiri áhrif en í stórum hópum og því er samanburður við fjölmennari skóla erfiður og ósanngjarn um margt. Hópastærðir Varmahlíðarskóla á samræmdum prófum frá árinu 2010 hafa verið frá 5 – 20 nemendur og því vegur árangur hvers einstaks nemanda meira en í meðaltali stærri hópa.

Niðurstaða Varmahlíðarskóla á samræmdum prófum hefur að sjálfsögðu sveiflast á milli ára, það er eðlilegt vegna fámennis. Sé miðað við að landsmeðaltalið í íslensku og stærðfræði  á samræmdum prófum sé 30,0 þá höfum við, á árunum 2011-2016,  séð meðaltöl hópa hér sem liggja frá 27,0 og upp í 38,9.  Séu niðurstöður sömu ára  í íslensku og stærðfræði skoðaðar kemur í ljós að í 76% tilvika eru nemendur hér yfir 30,o í landsmeðaltali og í 24% tilvika undir því.  Í ljósi þessa er umfjöllun eins og við sjáum í Fréttablaðinu í dag mjög ósanngjörn og óvægin í garð skólans og núverandi nemendahóps. Við vitum að árangur einstakra nemenda í litlum hópum hefur mikið að segja í meðaltalinu og skoðum  því ævinlega niðurstöður hópanna með tilliti til þess.

Við munum nú sem áður leggja metnað okkar í að nýta niðurstöður prófanna til að ígrunda frekari áherslur í náminu eins og lagt er upp með í markmiðum samræmdra könnunarprófa. Mælistika metnaðarfulls skólastarfs er ekki árangur eins skóla á einu afmörkuðu samræmdu prófi heldur hið fjölþætta og fjölbreytta starf sem fram fer á hverjum degi.  Við hvetjum til uppbyggilegri frétta af metnaðarfullu skólastarfi sem sjá má í ýmsum myndum dags daglega.

 

Jólastemning á Sauðárkróki

Í ár eru 70 ár liðin frá því að Sauðárkrókur fékk kaupstaðarréttindi. Af því tilefni býður Sveitarfélagið Skagafjörður upp á afmælisköku og kaffi í húsnæði Náttúrustofu sem áður hýsti barnaskólann, laugardaginn 2. desember, frá kl. 14:00-15:30.

Jólaljós verða tendruð á jólatrénu á Kirkjutorgi kl. 15:30 laugardaginn 2. desember. Að þessu sinni er jólatréð ræktað í heimabyggð og kemur úr skógi Skógræktarinnar í Reykjarhóli. Gróðursetning þar hófst árið 1947 eða sama ár og Sauðárkrókur fékk kaupstaðarréttindi.

Á Kirkjutorginu mun barnakór Varmahlíðarskóla syngja jólalög og Lydía Einarsdóttir syngja lagið Rúdolf með rauða nefið við undirleik Stefáns Gíslasonar. Þá mun Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs flytja hátíðarávarp.

Hinn landsþekkti tónlistarmaður Pálmi Gunnarsson mun syngja nokkur lög við undirleik Stefáns Gíslasonar og hljómsveitar og að því loknu munu tveir nemendur Varmahlíðarskóla tendra ljósin á trénu.

Bresk ferðaskrifstofa flýgur til Akureyrar næsta sumar og vetur

Breska ferðaskrifstofan Super Break, sem stendur fyrir flugferðum frá Bretlandi beint til Akureyrar í janúar og febrúar næstkomandi, hefur nú ákveðið að fljúga með farþega frá Bretlandi til Akureyrar næsta sumar og sömuleiðis næsta vetur 2018-2019. Þetta var tilkynnt á fundi forsvarsmanns Super Break, Chris Hagan, með fulltrúum ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi sem haldin var á Hótel KEA í morgun.

Þetta eru afar ánægjulegar fréttir og er enn frekar til marks um þann árangur sem Flugklasinn Air 66N hefur náð. Þegar Flugklasinn var stofnaður árið 2011 var áherslan lögð á að markaðssetja Norðurland sem áfangastað yfir vetrartímann og þá sérstaklega fyrir Breta.

Nýting flugsæta í þeim 14 ferðum sem verða farnar nú í vetur er langtum betri en Super Break átti von á og stefnir í að hún verði 95%. Með þennan mikla áhuga Breta að leiðarljósi, var ákveðið að fljúga einnig næsta sumar til Akureyrar og fljúga enn oftar til Akureyrar næsta vetur en nú. Samtals verður flogið sjö sinnum til Akureyrar næsta sumar, en næsta vetur verða flugferðirnar að minnsta kosti 22 talsins. Sumarflugin verða frá 11. júní til 6. júlí en vetrarflugin frá 10. desember til febrúarloka. Super Break stefnir í framhaldinu af því að fjölga ferðum enn frekar og markmiðið er að bjóða upp á ferðir til Akureyrar allt árið um kring.

Á fundinum í morgun tók Hagan það sérstaklega fram hve mikil jákvæðni væri gagnvart þessum ferðum Super Break meðal ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu og sagði að hann og hans starfsfólk hefði aldrei upplifað annað eins. Það væri greinilegt að hér á svæðinu væri bæði nægt úrval ferðaþjónustufyrirtækja og einnig greinilegur áhugi og metnaður fyrir á því að gera eins vel við ferðamenn og hægt er.

Tæplega 25 þúsund gistinætur

Þegar rýnt er í tölurnar, hvað varðar ferðamannafjölda og gistináttafjölda, kemur í ljós að miðað við 95% nýtingu flugsæta í janúar og febrúar 2018 komi um það bil 2.500 manns frá Bretlandi til Norðurlands og gistinæturnar verða um það bil 8.750. Næsta sumar, miðað við 85% nýtingu sæta verða þetta um 1.100 manns og 3900 gistinætur.

Næsta vetur stefnir í að um 3.500 manns komi til Norðurlands með þessu beina flugi og að gistinæturnar verði 12.250, og því ljóst að næsta vetrartímabil mun verða nokkuð ólíkt því sem við höfum hingað til séð.

Texti: Fréttatilkynning frá Markaðsstofu Norðurlands

Ljósin tendruð á Siglufirði

Jólastemning verður á Siglufirði sunnudaginn 3. desember næstkomandi þegar ljósin verða tendruð á jólatrénu á Ráðhústorginu kl. 16:00. Börn úr leikskólanum tónlistarskólanum syngja jólalög. Börn úr barnastarfi Siglufjarðarkirkju hengja jólaskraut á tréð. Jólasveinarnir koma í heimsókn og dansa í kringum jólatréð.

Aðventumarkaður í Bergi

Árlegur aðventumarkaður verður haldin í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík, fimmtudaginn 30. nóvember milli klukkan 19:00 og 22:00. Fjöldi aðila er skráður með söluborð og verður vöruúrvalið af ýmsum stærðum og gerðum. Undanfarin ár hefur jólastemmningin verið mikil í Bergi á þessu kvöldi og hvetjum við alla til að líta við.

Skíðakennsla að hefjast í Skarðsdal

Skíðakennsla á Skíðasvæðinu í Skarðsdal hefst á föstudaginn 1. desember og er alla daga sem opið er.  Skráning er á netfanginu skard@simnet.is,  virka daga frá kl. 16-19 og um helgar frá kl. 13-16.  Hver tími er 30 mínútur og kostar kr. 2.000. Þeir sem þurfa skíðabúnað geta fengið lánað á staðnum.  Kennari er Kristín Guðmundsdóttir.

Vetrarleikagarður og tendrun jólatrés í Ólafsfirði

Laugardaginn 2. desember næstkomandi mun Skíðafélag Ólafsfjarðar setja upp vetrarleikgarð í miðbæ Ólafsfjarðar við Gullatún. Þetta er gert í tengslum við Jólamarkað við Tjarnarborg og tendrun jólatrésins.   Mikil aðsókn hefur verið í bæinn á þessum degi undanfarin ár.  Vetrarleikgarðurinn verður opinn frá kl. 13:00-15:00.

Ljósin verða tendruð á jólatrénu við Menningarhúsið Tjarnarborg í Ólafsfirði laugardaginn 2. desember kl. 16:00. Ávarp flytur Haraldur Gunnlaugsson, kór eldriborgara flytur jólalög og börn úr leikskólanum syngja jólalög. Jólasveinar koma og dansa í kringum jólatréð. Klukkan 20:00 verða svo tónleikarnir Litróf í Menningarhúsinu Tjarnarborg.

 

Fjallabyggð sendir inn umsókn um opnun Siglufjarðarflugvallar

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að senda inn umsókn til Samgöngustofu þess efnis að Siglufjarðarflugvöllur verði skráður sem lendingarstaður. Framtakið mun styðja við framfarir í ferðaþjónustu í sveitarfélaginu en jafnframt er flugbrautin mikilvægt öryggismannvirki fyrir íbúa Fjallabyggðar. Með breyttri skráningu yrði hlutverk sveitarfélagsins fyrst og fremst upplýsingjagjöf um ástand lendingarbrautar til flugmanna sem lenda þar á eigin ábyrgð.  Flugvöllurinn var formlega afskráður af ISAVIA í október árið 2014.

Endurbæturnar á flugstöðinni voru gerðar í vor og voru í samræmi við samning ISAVIA við Framkvæmdasýslu ríkisins sem hefur leigt húsið undir vinnu við snjóflóðavarnir.

Fyrr í vor vonaðist Fjallabyggð til að flugbrautin sjálf yrði opnuð á árinu 2018 ef kæmu fjárveitingar í viðhald og lagfæringu á slitlagi á vellinum.

Mínus fimmtán á Alexandersflugvelli

Mjög kalt hefur verið á Sauðárkróki í nótt og dag. Á veðurstöðinni á Alexandersflugvelli á Sauðárkróki mældist -15,4° kl. 05:00 í nótt og – 15,1° kl. 10 í morgun. Flugfélagið Ernir hefur áætlunarflug til Sauðárkróks þann 1. desember næstkomandi og verður flogið þrisvar sinnum í viku.

Töluvert hlýrra var á Þverárfjallinu í dag en kaldast mældist þar -7,1° kl. 11:00 í morgun. Á Skagatá mældist kaldast – 4,6° kl. 03:00 í nótt.

Stórt snjóflóð féll á Stóra-Bola á Siglufirði

Í veðrinu sem gekk yfir norðurhluta landsins í síðustu viku féllu mörg snjóflóð, einkum á norðanverðum Vestfjörðum og á Tröllaskaga. Snjóflóð lokuðu vegum og nokkuð stórt snjóflóð féll á varnargarðinn Stóra-Bola sem er leiðigarður undir Strengsgili á Siglufirði. Garðurinn sinnti hlutverki sínu vel og beindi flóðinu í átt frá byggðinni og nam flóðið staðar við garðendann. Eins og sjá má á meðfylgjandi korti er ekki ólíklegt að flóðið hefði náð niður í byggð ef garðurinn hefði ekki beint því til suðurs. Sjá mátti ummerki um flóðið á garðinum sem benda til þess að það hafi náð upp í u.þ.b. þriðjungi af hæð garðsins sem er 18 metra hár. Flóðið bar með sér stóra grjóthnullunga og það reif með sér girðingu og snjódýptarmæli sem komið hafði verið fyrir í efri hluta hlíðarinnar.

Suðurhluti Siglufjarðar var eitt af þeim svæðum í byggð þar sem snjóflóðahætta var hvað mest fyrir byggingu garðsins sem reistur var árið 1999. Á hann hafa áður fallið nokkur flóð.

Texti: vedur.is

Skagafjarðarveitur hækka gjaldskrá fyrir árið 2018

Tillaga um hækkun gjaldskrár Skagafjarðarveitna var lögð fyrir veitunefnd Skagafjarðar í vikunni. Gert er ráð fyrir að gjaldskrá fyrir heitavatnsnotkun ásamt föstum gjöldum fyrir hemla og mæla hækki um 5% frá og með 1. janúar 2018.  Gjöldin sem lagt er til að hækki að þessu sinni hafa hækkað um alls 3,5% síðan í júlí 2013. Síðan þá hefur vísitala neysluverðs hækkað um 8,3%, byggingavísitala um 13,8% og launavísitala um 37,8%.

Gert er ráð fyrir að gjaldskrá vatnsveitu hækki um 4,5% í samræmi við hækkun byggingavísitölu.  Tillögum þessum hefur verið vísað til Byggðarráðs Skagafjarðar til frekari afgreiðslu.

Opið í Skarðsdal í dag

Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði verður opið í dag frá kl. 11:00-15:00. Í tilkynningu frá umsjónarmönnum svæðisins er gert ráð fyrir að tvær lyftur verði opnar. Svæðið opnaði fyrir viku og er skíðatímabilið hafið á Siglufirði. Forsala vetrarkorta er í fullum gangi og hægt að tryggja sér kort tilboði til 3. desember.

Skíðasvæðið í Ólafsfirði opnar

Stefnt er að því að opna skíðasvæðið í Tindaöxl í Ólafsfirði, sunnudaginn 26. nóvember. Töluverður snjór eru í fjallinu og unnið er að því að troða niður.  Stefnt er að því að opna lyftuna kl. 13:00 og Bárubraut. Frítt verður í fjallið og hefst æfing í alpagrenium og skíðagöngu kl. 13:00. Í dag verður hins vegar vinnudagur í fjallinu og eru allir velkomnir að koma og hjálpa til við verkin.

Skíðasvæðið á Dalvík opnar

Í dag,  laugardaginn 25. nóvember verður Skíðasvæðið í Böggvisstaðafjalli á Dalvík opnað í fyrsta skiptið í vetur og verður opið frá kl. 14:00 til 16:00 ef veður leyfir.
Frítt verður í fjallið á fyrsta opnunnardegi eins og hefð er fyrir. Á sunnudaginn er stefnt að því að opið verði frá kl 12:00 til 16:00 en þá hefst sala lyftukorta samkvæmt gjaldskrá.  Fyrst um sinn verður neðri lyftan opin eða þar til búið er að gera efra svæðið klárt.  Töluverðan snjó hefur sett í fjallið undanfarna daga og hafa starfsmenn skíðasvæðisins og sjálfboðaliðar unnið hörðum höndum við að troða brekkur og gera klárt fyrir vertíðina.