All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Meira pláss fyrir húsbíla á tjaldsvæðinu á Siglufirði

Mun fleiri húsbílum má nú koma fyrir á tjaldsvæðinu í miðbæ Siglufjarðar þar sem hús Egilssíldar var áður, eða Gránugata 27-29. Þetta er kærkomið pláss enda voru ekki sérstök stæði fyrir húsbíla á þessu svæði nema helst á grasblettinum sjálfum. Tvö tjaldsvæði eru á Siglufirði, annað þeirra er innar í bænum. Tjaldsvæði í Ólafsfirði er svo við sundlaugina.

Hús Egilssíldar við Gránugötu 27-29 á Siglufirði var rifið árið 2017, en húsið hýsti í mörg ár fyrirtækið Egilssíld. Húsið var byggt árið 1936 og var rúmlega 965 fm á stærð.

Fyrirtækið Egilssíld er fiskvinnslufyrirtæki sem framleiðir aðallega reyktar afurðir úr laxi og síld.  Egils sjávarafurðir rekur rætur sínar aftur til ársins 1921 er Egill Stefánsson hóf að reykja síld á Siglufirði. Þá var síldarævintýrið í algleymingi, einhver mesti uppgangstími í atvinnusögu þjóðarinnar. Egill rak fyrirtækið til dauðadags 1978, en þá tók sonur hans Jóhannes við. Jóhannes féll frá árið 2011 og nýir eigendur sem reka fyrirtækið í dag tóku þá við rekstrinum.

Stofnfundur Markaðsstofu Ólafsfjarðar

Stofnfundur Markaðsstofu Ólafsfjarðar var haldinn 19. júní síðastliðinn í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði. Áhrifafólk, fyrirtækjaeigendur og aðrir áhugasamir mættu á fundinn. Kynning var á samþykktum félagsins og þær bornar til samþykkis. Þá var kosið í stjórn félagsins og hún kynnt. Verkefnastjóri Markaðsstofu Norðurlands hélt fyrirlestur um stöðu og framtíðarsýn. Hörður Elís hjá Iceland Travel var með fyrirlestur um hvernig eigi að nýta tækifærin og í lokin var farið yfir önnur mál.

Landsbankamótið um helgina á Sauðárkróki

Landsbankamót Tindastóls verður haldið dagana 23. – 24. júní. Mótið er fyrir stelpur í 6.flokki og það hefur vaxið frá ári til árs. Leikið er á glæsilegu svæði Tindastóls í miðbæ Sauðárkróks.  Flest lið spila 4 leiki á laugardegi og 3 á sunnudegi en sum lenda í því að spila 5 á laugardegi og 2 á sunnudegi. Mótið í ár mun samanstanda af 12 völlum. Fjórir þeirra verða á aðalvellinum (gras) en 8 vellir verða á nýju gervigrasi.

Gisting er í skólum sem eru rétt við hlið vallana og síðan er boðið upp á gistingu á tjaldsvæði sem er á Nöfum ofan við íþróttasvæðið.

Dagskrá:

Föstudagur 22. júní

18:00                 Gististaðir opna

19.00-21.00      Afhending armbanda og móttaka liða í Árskóla

Laugardagur 23. júní

07.00-9.00         Morgunmatur í íþróttahúsinu

9.00              Fyrstu leikir hefjast

9-12              Öll lið mæti í myndatöku við Vallarhús

10-16            Strandblak og hoppkastalar við sundlaugina.

11.30-13.00      Matur fyrir keppendur og liðsstjóra (Fótboltasnúður, skyrdrykkur og ávöxtur). Sótt í íþróttahúsið.

14-16               Systkinamót 3-5 ára, skráning fyrir kl.12.00 í sjoppunni (Kr.2.000).

17.30-19.30      Kvöldverður í íþróttahúsinu

19.30-20.15     Kvöldvaka

 

Sunnudagur 13. ágúst

07.00-09.00      Morgunmatur í íþróttahúsinu

09.00                Fyrstu leikir hefjast

11.00-13.00      Hádegisverður í íþrottahúsinu (Pizzur)

14.00-15.00 Síðustu leikjum líkur. Verðlaun afhent eftir síðasta leik hvers liðs.

Jónsmessuhátíð á Akureyri

Jónsmessuhátíð á Akureyri er 24 tíma hátíð sem hefst á hádegi laugardaginn 23. júní og stendur til kl. 12:00 sunnudaginn 24. júní. Á dagskránni eru 24 fjölbreyttir viðburðir út um allan bæ. Alla dagskránna má finna á jonsmessa.is.

Listasafnið á Akureyri býður öllum frítt inn á sýningarnar „Bleikur og grænn” og „Fullveldið endurskoðað” en upptaktur að Jónsmessuhátíð verður fjölskylduleiðsögn um fyrri sýninguna kl. 11 sem verður fylgt eftir með listasmiðju fyrir börnin. Vasaljósaleiðsögn um sömu sýningu verður síðan kl. 1 um nóttina. Einnig verður boðið upp á leiðsögn um sýninguna „Fullveldið endurskoðað” kl. 15 og ætti enginn að láta fram hjá sér fara að forvitnast um þessi verk sem gefa Akureyrarbæ líf og lit í sumar.

Margt verður í boði fyrir alla fjölskylduna. Í Glerárlaug verður alvöru sumarpartý frá kl 16-18 með uppblásnum strandleikföngum, grænum plöntum og DJ. Veðurspáin er góð en það skiptir engu máli því tryggt er að sumarið og sólin verða í Glerárlaug frá kl. 16-18.

Fornbíladeild Bílaklúbbs Akureyrar keyrir gamla klassíska rúntinn um Hafnarstrætið kl. 21 til að minnast þess að 50 ár eru síðan að skipt var yfir í hægri umferð á Íslandi. Hluti leiðarinnar verður ekinn með gamla laginu, gegnt núverandi akstursstefnu.

Á sunnudagsmorgun verður boðið upp á brauð til að gefa öndunum á Andapollinum morgunmat og eftir það verður sögustund í boði Amtsbókasafnsins í Minjasafnsgarðinum frá kl. 9-11. Við hvetjum fólk til þess að mæta með nesti, sperrt eyru og njóta morgunsins saman.

Í Davíðshúsi verður leiðsögn um leyndardóma hússins kl. 14 þar sem dregið verður fram ýmislegt sem er ekki bersýnilegt og býður Iðnaðarsafnið til göngu um Gleráreyrar kl. 15 þar sem hægt verður að fræðast um þann iðnað sem þar hefur verið í gegnum tíðina.

Í Ketilhúsinu bregða Vandræðaskáldin á leik kl. 20 á laugardagskvöld og verða til vandræða á Jónsmessunni. Það má búast við hnyttnum textum og skemmtilegum sögum með smá ádeilu í bland, eins og þeirra er von og vísa. Þá tekur við Draumur á Jónsmessunótt sem svífur yfir og allt um kring í Lystigarðinum.

Setning Listasumars verður síðan kl. 15 á sunnudeginum í Hofi en þar verða atriði af Listasumri sýnd og litríkar veitingar í boði. Á sama tíma verður opnuð sýning á málverkum Stefáns V. Jónssonar, Stórvals, í Hofi. Opnunin fer fram á fæðingardegi listamannsins.

Heimild: akureyri.is

Bæjarhátíðin Hofsós heim

Bæjarhátíðin Hofsós heim verður haldin dagana 29. júní til 1. júlí, frá föstudegi til sunnudags. Fjölbreytt skemmtun verður á þessari hátíð fyrir alla. Laugardaginn 30. júní verður settur upp paintballvöllur á Hofsósi í fyrsta skipti. Á laugardagskvöldinu verður kvöldvaka og dansleikur (18 ára aldurstakmark).  Á dansleiknum verður lögð áhersla á að allir fái eitthvað við sitt hæfi. Stúlli og Danni hefja kvöldið og spila allskonar tónlist. Vínarkrus, vals, ræl, hringdans, diskó, tjútt og allt þar á milli. DJ Jón Gestur tekur svo við og þeytir skífum inn í nóttina.

Sumarsveitaball með Hvanndalsbræðrum verður á föstudagskvöldinu í Höfðaborg frá kl. 23:00-03:00.

Dagskrá:

– Dansað fram á nótt með Hvanndalsbræðrum.
– Hofsósingar og nærsveitamenn bjóða í morgunkaffi.
– Ljúffeng kjötsúpa.
– Útijóga í guðsgrænni náttúrunni.
– Sjósund.
– Ilmandi grillveisla.
– Varðeldur, fjöldasöngur og grillaðir sykurpúðar.
– Leikir og karamelluregn.
– Kvöldvaka.
– Sögustund og myndasýning Finns Sigurbjörnssonar.
– Bændamarkaður.
– Gömlu dansarnir.
– Gönguferð.
– Söngvakeppni barnanna.
– Handverksmarkaður.
– Fjölskylduball.
– Ljósmyndasýningar.
– Spiderman hoppukastali.

Sumarsólstöðuhátíð Þjóðlagasetursins

Sumarsólstöðuhátíð Þjóðlagaseturs sr. Bjarna Þorsteinssonar verður haldin laugardagskvöldið 23. júní klukkan 20:00 í Bjarnastofu Þjóðlagasetursins. Margrét Hrafnsdóttir sópransöngkona og Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari flytja þjóðlagaútsetningar eftir Snorra Sigfús Birgisson, Eyjólfur Eyjólfsson leikur á langspil og félagar úr Kvæðamannafélaginu Rímu kveða, flytja tvísöngva og leiða samsöng. Að dagskrá lokinni verður haldið yfir í Brugghús Seguls 67 þar sem áfram verður kveðið og sungið, en framleiðsla hússins verður á sérstökum hátíðarafslætti.
Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!

 

 

Vilja fá leyfi til að lenda þyrlu við Sigló hótel

Viking Heliskiing hefur óskað eftir leyfi frá Fjallabyggð að lenda þyrlu sinni á malarplani sunnan við Hótel Sigló. Þá hefur fyrirtækið sótt um leyfi til að setja niður olíutank af nýjustu gerð á planinu. Viking Heliskiing hefur greint frá því að þeir muni girða svæðið af og sjá til þess að svæðið verði tryggt. Bæjarráð Fjallabyggðar hefur vísað erindinu til skipulags- og umhverfisnefndar.

Birna Björnsdóttir verði ráðin hjúkrunarforstjóri Hornbrekku

Aðeins tvær umsóknir bárust um stöðu hjúkrunarforstjóra og forstöðumanns Hornbrekku, dvalar- og hjúkrunarheimilisins  í Ólafsfirði, en umsóknarfresturinn rann út þann 11.júní síðastliðinn.

Umsækjendur voru Sunna Eir Haraldsdóttir og Birna Björnsdóttir.

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að ráða Birnu Björnsdóttur sem hjúkrunarforstjóra dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hornbrekku í Ólafsfirði.

 

Fjallabyggð semur við Höllina um skólamáltíðir

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að ganga til samninga við veitingahúsið Höllina í Ólafsfirði um skólamáltíðir fyrir nemendur og kennara Grunnskóla Fjallabyggðar. Fjallabyggð leitaði tilboða í maímánuði og fengu tilboð frá Rauðku, Höllinni og Bolla og Bedda ehf (Kaffi Klara). Um er að ræða samning til 2020.

Tilboðin voru þessi:

Rauðka ehf. bauð kr. 930 í máltíð fyrir nemendur og kr. 1.150 fyrir starfsfólk.
Höllin ehf. bauð kr. 870 í máltíð fyrir nemendur og kr. 1.150 fyrir starfsfólk.
Bolli og Beddi ehf. bauð kr. 890 í máltíðir fyrir nemendur og starfsfólk.

 

Nýr vefur fyrir Sigló golf á Siglufirði

Búið er að opna vefinn siglogolf.is þar sem allar upplýsingar má finna um nýja golfvöllinn á Siglufirði sem ber nafnið Sigló golf. Þar kemur fram að stakur hringur á vellinum fyrir einstakling kosti 5900 kr., Eldri borgarar borga 3900 kr. og yngri en 18 ára borga 2900. Hjón fá 20% afslátt af vallargjaldinu. Hægt er að bóka á golf.is eða á Sigló hótel. Mikil upplifun er fyrir kylfinga á þessum glæsilega velli, og fyrir þá sem vilja njóta náttúrunnar og sólarlags í skjóli fjallanna og útivistarsvæðinu í Skarðsdal.  Golfskálinn fyrir svæðið er í byggingu og verður vígður í júlí ef allar áætlanir standast.

Brautskráning frá Háskólanum á Hólum

Brautskráning frá Háskólanum á Hólum fór fram föstudaginn 8. júní síðastliðinn. Athöfnin fór fram í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð, og var með hefðbundnum hætti, þar sem fléttað var saman stuttum ávörpum og tónlistaratriðum, auk brautskráninganna. Fyrst steig í ræðustól Erla Björk Örnólfsdóttir rektor. Deildarstjórar sögðu einnig nokkur orð áður en þeir brautskráðu sína nemendur og veittu þeir auk þess nokkrar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í námi.
Sveinn Ragnarsson, deildarstjóri Hestafræðideildar brautskráði 17 nemendur með BS-próf  í reiðmennsku og reiðkennslu. Viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur hlaut Caeli Elizabeth Peters Cavanagh.
Hefðbundið er að nemendur í fiskeldisfræði ljúki námi sínu að sumri til, en Bjarni Kristófer Kristjánsson,  deildarstjóri Fiskeldis- og fiskalíffræðidieldar, brautskráði einn nemanda með diplómu í þeirri grein.
Laufey Haraldsdóttir, deildarstjóri Ferðamáladeildar, brautskráði 11 nemendur með diplómu í viðburðastjórnum, 17 með BA-gráðu í ferðamálafræði og einn með MA-gráðu í sömu grein. Ingibjörgu Elínu Jónasdóttur hlotnaðist viðurkenning fyrir heildarnámsárangur í BA-námi og Alexöndru Eiri Andrésdóttur, fyrir góðan árangur í diplómunámi.
Dagskránni lauk með því að Caeli Cavanagh, BS í reiðmennsku og reiðkennslu, flutti ræðu fyrir hönd nýbrautskráðra.
Þau Dana Ýr Antonsdóttir og Daníel Andri Eggertsson önnuðust tónlistarflutning við athöfnina, sem stýrt var af Önnu Vilborgu Einarsdóttur, lektor við Ferðamáladeild. Að athöfn lokinni bauð skólinn til kaffisamsætis, í umsjón Ferðaþjónustunnar á Hólum.
Heimild: holar.is

Hátíðarhöld fóru vel fram í Skagafirði

Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur á Sauðárkróki þann 17. júní. Börn fóru á hestbak, skátarnir sáu um andlitsmálun og skrúðganga fór frá Skagfirðingabúð á íþróttavöllinn. Þar tóku við hátíðarhöld fram eftir degi. Fjallkonan í ár var Brynja Sif Harðardóttir og flutti hún Ljóðið Ísland eftir Jón Thoroddsen. Hátíðarræðu flutti Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir, kennari við Grunnskólann austan Vatna. Matthildur Ingimarsdóttir söngkona frá Flugumýri söng fyrir gesti og Sæþór Máni sá um undirleik. Bræðurnir Ingi Sigþór og Róbert Smári sungu einnig stórglæsilega fyrir gesti, en Fúsi Ben sá um undirleik hjá þeim. Ingó töframaður sýndi töfrabrögð, ungum sem öldnum til mikillar gleði. Því næst var nýi gervigrasvöllurinn vígður, en um það sáu Stefán Vagn Stefánsson og Sigríður Svavarsdóttir. Að lokum var opnað fyrir leiki og hoppukastala, en þar fengu gestir að spreyta sig á hinum ýmsu leikjum sem verða í boði á landsmótinu sem haldið verður á Sauðárkróki dagana 12. – 15. júlí næstkomandi. Nú er bara um að gera að skrá sig á landsmót.

Texti og myndir: skagafjordur.is

Opið lengur í sundlauginni á Akureyri og HM sýnt úti

Afgreiðslutími Sundlaugarinnar á Akureyri hefur nú verið lengdur þannig að í sumar verður opið til kl. 21:00 á laugardagskvöldum og 19.30 á sunnudagskvöldum. Aukin aðsókn hefur verið um helgar eftir að nýju vatnsrennibrautirnar voru teknar í notkun og er þetta gert til að létta á álaginu. Þá er nýr heitur pottur einnig mjög vinsæll.

Þá er búið að koma upp 75″ tommu sjónvarpsskjá við nýju heitu pottana og þar verða flestir fótboltaleikirnir á HM sýndir þegar veður og aðstæður leyfa.

Nýjir strandblakvellir á Dalvík

Opnaðir hafa verið tveir glæsilegir strandblakvellir í Dalvíkurbyggð en vellirnir eru staðsettir sunnan við íþróttamiðstöðina á Dalvík.  Það eru félagar í blakfélaginu Rimum sem eiga veg og vanda af þessu framtaki en félagið vann alla vinnu og skipulag í kringum vellina í sjálfboðavinnu með góðum styrkjum frá Dalvíkurbyggð, Samskip og Kötlu ehf. Vellirnir eru tveir, eins og áður sagði, og heita þeir Samskipa-völlurinn (austan megin) og Kötlu-völlurinn (vestan megin).

Hægt er að bóka vellina með því að fara inn á facebook síðu vallanna Strandblak Dalvik en þar er að finna skráningarskjal til að bóka vellina. Fyrir þá sem ekki hafa aðgang að tölvu er hægt að hafa samband við íþróttamiðstöðin og biðja starfsfólk þar um að bóka völlinn.

Umsjónarmenn vallanna biðja notendur þeirra að ganga vel um svæðið, týna upp rusl og skilja svæðið eftir í góðu ásigkomulagi. Eins er vert að minna á að þeir sem eiga völlinn bókaðan ganga fyrir og ber þeim sem eru á vellinum á þeim tíma að víkja þegar bókaður tími byrjar.

Heimild: dalvik.is

Isavia hefur afhent Landsbjörgu níu hópslysakerrur

Fimmtudaginn 14. júní lauk Isavia með formlegum hætti við að afhenda Slysavarnafélaginu Landsbjörgu hópslysakerrur, sem eru afrakstur sameiginlegs verkefnis styrktarsjóðs Isavia og Slysavarnafélagsins. Afhendingin fór fram á Reykjavíkurflugvelli. Kerrurnar eru níu talsins og eru sérhannaðar af félögunum tveimur og munu stórefla hópslysaviðbúnað á Íslandi. Kerrurnar eru smíðaðar af Óslandi ehf. í Ólafsfirði. Þær eru ætlaðar til nota á svæðum þar sem er hætta á hópslysum og viðbragð vegna staðsetningar takmarkað. Ákveðinn grunnbúnaður er í kerrunum og miðast er við að hægt sé að veita skjól og aðhlynningu á vettvangi þar sem sjúkraflutningar og sérhæfð bráðaaðstoð þarf að fara um langan veg. Á Norðurlandi verður kerra við Varmahlíð og við Mývatn.

Í hverri kerru er m.a. að finna:

 • 18 sjúkrabörur
 • 30 fm tjald
 • Rafstöð
 • Hitablásara
 • 30 ullarteppi

Nánar um verkefnið:

Styrktarsjóður Isavia og Slysavarnafélagsins Landsbjargar var stofnaður árið 2012 með það að markmiði að efla hópslysaviðbúnað í nágrenni flugvalla á Íslandi. Markmiðið var síðar útvíkkað og styrkjum einnig beint til svæða nálægt fjölförnum ferðamannastöðum. Frá stofnun hefur Isavia styrkt björgunarsveitir um allt land um tæplega 40 milljónir króna. Með kerruverkefninu mun Isavia styrkja sveitirnar um 36 milljónir króna til viðbótar. Áhersla Isavia er að vera ábyrgur aðili í ferðaþjónustu, fyrst var farið í að styrkja viðbúnað á og við flugvelli en síðar einnig að efla þau svæði þar sem viðbragð vegna staðsetningar er takmarkað.

Fram til ársins 2019 er það hlutverk sjóðsins að koma upp sérstökum hópslysakerrum með öllum helsta búnaði sem grípa þarf til, t.d. við rútuslys. Kerrurnar eru afhentar björgunarsveitum sem eru við fjölfarna ferðamannastaði og eru í umhverfi þar sem langt er í aðstoð annarra viðbragðsaðila. Isavia gerði samantekt á hvar þörfin væri mest og kerrum þessum forgangsraðað samkvæmt þeirri samantekt. Samstarf Isavia og björgunarsveita hefur verið farsælt um árabil en sveitirnar eru hryggjarstykkið í almannavarnarviðbúnaði landsins, þ.m.t. á flugvöllum.

Búnaðurinn í kerrunum miðast við að björgunarsveitafólk geti veitt skjól og aðhlynningu á slysstað utan alfaraleiðar á stöðum þar sem langt er í heilbrigðisþjónustu og aðrar bjargir. Við val á staðsetningu kerranna var tekið mið af fjölda ferðamanna, viðbragðsaðilum á viðkomandi svæði, áhættugreiningu almannavarna og hópslysaskýrslu Isavia.

Isavia er einn stærsti styrktaraðili Slysavarnafélagsins Landsbjargar og hefur undanfarin ár styrkt hópslysaviðbúnað björgunarsveita í kringum ferðamannastaði og flugvelli um allt land úr styrktarsjóði sínum og þannig bætt hópslysaviðbúnað mjög á þeim stöðum. Nú er gengið skrefinu lengra og hópslysaviðbúnaður efldur þar sem upp á vantar.

Heimild og myndir: isavia.is

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, og Smári Sigurðsson, formaður stjórnar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, þegar hópslysakerrurnar voru afhentar á Reykjavíkurflugvelli.

Sól og gleði á 17. júní í Ólafsfirði

Dagurinn var haldinn hátíðlegur í Ólafsfirði og er löng hefð fyrir því að halda vel upp á þjóðhátíðardaginn þar í firðinum. Bjarni Grétar Magnússon liðsmaður vefsins var á svæðinu og fangaði stemninguna í miðbæ Ólafsfjarðar í dag. Gunnar Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar hélt hátíðarræðu og Fjallkonan ávarpaði viðstadda. Þá voru hoppukastalar, tónlistaratriði og fleira fyrir börnin við menningarhúsið Tjarnarborg. Dagurinn var bjartur og sólin skein fram eftir degi. Einn af vinsælustu viðburðunum er stærasta vatnsrennibraut landsins, sem er skíðastökkpallurinn í Ólafsfirði, en þar er gerð löng rennibraut fyrir ofurhuga.

Ljósmyndir: Bjarni Grétar Magnússon36 atvinnuleitendur í Fjallabyggð

Alls voru 36 án atvinnu í Fjallabyggð í maí mánuði. Óbreyttur fjöldi frá apríl mánuði, 21 karl og 15 konur. Atvinnuleysi mælist nú 3,14% í Fjallabyggð. Séu tölurnar greindar nánar þá eru í hópnum 20-29 ára 10 án atvinnu, 30-39 ára eru 9 án atvinnu, 40-49 ára eru 7 án atvinnu, 50-59 ára eru 3 án atvinnu og  60-69 ára eru 7 án atvinnu. Í atvinnugreininni Fiskveiðar og fiskvinnsla eru 12 án ativnnu, í Fjármál og tryggingar er 6 án atvinnu og í Verslun, gisting og veitingar eru 5. Færri eru svo í öðrum greinum. Þá eru 17  af þessum 36 í starfsgreininni Verkafólk. Sé menntunarstigið skoðað þá eru 19 af 36 með grunnskólapróf, 3 með iðnám, 4 með stúdentspróf, 7 með háskólapróf og 3 með ýmiskonar framhaldsmenntun. Þá hafa 21 af 36 verið án atvinnu í 0-6 mánuði sem telst vera skammtíma atvinnuleysi, 3 hafa verið í 6-12 mánuði og 12 meira en 12 mánuði sem telst langtíma atvinnuleysi. Af þessum 36 þá eru 28 íslenskir ríkisborgarar og 8 eru erlendir ríkisborgarar.

 

Gögn: Vinnumálastofnun

Tölfræðiupplýsingar koma frá Vinnumálastofnun.

Endurskoða tekjuskatts- og bótakerfi einstaklinga og fjölskyldna

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað tvo hópa til að vinna að endurskoðun tekjuskatts- og bótakerfa hjá einstaklingum og fjölskyldum.  Þessir hópar, þ.e. stefnumótandi stýrinefnd og sérfræðingahópur, eru stofnaðir í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarnar frá 27. febrúar 2018 um aðgerðir í þágu félagslegs stöðugleika í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum markaði. Þar kemur fram að endurskoða eigi tekjuskattskerfið með áherslu á lækkun skattbyrði og mögulegar breytingar gerðar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspili við bótakerfi sem ætlað er að styðja við tekjulægri hópa. Meðal þess sem skoðað verður að sett verði á fót heildstætt kerfi sem taki jafnt til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og stuðnings vegna húsnæðiskostnaðar, hvort heldur er fyrir íbúðareigendur eða leigjendur.

Í stýrinefndinni sitja eftirtaldir aðstoðarmenn þriggja ráðherra:

 • Páll Ásgeir Guðmundsson, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra, sem verður formaður,
 • Bergþóra Benediktsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra og
 • Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður félags- og jafnréttismálaráðherra.

Meginhlutverk stýrinefndarinnar er að fylgjast með framvindu verkefnisins í sérfræðingahópnum og taka þátt í mótun og samþykkt einstakra tillagna sem verða til á vettvangi sérfræðingahópsins. Stýrinefndin hefur reglulegt samráð við samtök launþega og aðra þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta við tillögugerðina.

Í sérfræðingahópnum sitja eftirtaldir sérfræðingar:

 • Axel Hall, hagfræðingur og lektor í HR, sem verður formaður hópsins,
 • Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu,
 • Elín Alma Arthúrsdóttir, sviðsstjóri hjá RSK,
 • Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og
 • Ólafur Darri Andrason, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu

Sérfræðingahópurinn hefur það hlutverk að annast greiningu verkefnisins, talnalega meðferð og útfærslu tillagna, m.a. á grundvelli fyrri skýrslna af sama meiði. Jafnframt skal horft til kerfa annarra landa, einkum Norðurlandanna.

Fyrstu tillögur hópanna munu liggja fyrir á haustmánuðum 2018.

Heimild: Stjornarrad.is

Nemendur og kennarar á Akureyri fengu viðurkenningar

Fimmtudaginn 14. júní boðaði Fræðsluráð Akureyrarbæjar til samverustundar í Hofi, þar sem nemendum, kennurum og starfsfólki leik- og grunnskóla Akureyrarbæjar voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í störfum, skólaárið 2017-2018.  Óskað var eftir tilnefningum frá starfsfólki skóla og foreldrum um nemendur, starfsfólk eða verkefni sem talin voru hafa skarað fram úr í starfi skólanna á síðasta skólaári. Valnefnd, sem skipuð var fulltrúum frá fræðsluráði, Samtökum foreldra og Miðstöð skólaþróunar við HA fór yfir allar tilnefningar og lagði fram tillögu til fræðsluráðs til samþykktar.

Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs, bauð gesti velkomna og kynnti atriði frá Tónlistarskólanum en það voru systurnar Sólrún Svava og Sunneva Ævarsdætur sem spiluðu á fiðlu og selló, sænskt þjóðlag. Að því loknu afhenti Ingibjörg Isaksen, formaður fræðsluráðs, viðurkenningar. Að dagskrá lokinni var gestum boðið að þiggja veitingar.

Viðurkenningar hlutu:

 • Tumi Snær Sigurðsson, nemandi í Brekkuskóla, fyrir vandvirkni í störfum, einstaka hjálpsemi og víðsýni í hugsun.
 • Dagbjört Elva Kristjánsdóttir, nemandi í Giljaskóla, fyrir félagslega færni, vandvirkni og metnað í námi.
 • María Catharina Ólafsdóttir Gros, nemandi í Giljaskóla, fyrir einstakan árangur í íþróttum, elju og úthald í námi.
 • Ásbjörn Garðar Yngvason, nemandi í Hlíðarskóla fyrir einstaka samviskusemi í námi og framfarir í félagsfærni.
 • Bryndís Þóra Björnsdóttir, nemandi í Oddeyrarskóla, fyrir framúrskarandi námsárangur og að vera jákvæður leiðtogi.
 • Halldór Birgir Eydal, nemandi í Síðuskóla, fyrir þrautseigju og einstaka frammistöðu í námi og félagslífi.
 • Elín Sigríður Eyjólfsdóttir, ritari/umsjónarmaður Frístundar Giljaskóla, fyrir dugnað og útsjónarsemi í fjölþættum störfum í þágu Giljaskóla.
 • Birna Margrét Arnþórsdóttir, kennari Lundarskóla, fyrir fagmennsku, metnað og skipulag í kennslu og starfsháttum.
 • Hulda Guðný Jónsdóttir og Andrea Diljá Ólafsdóttir, kennarar Síðuskóla, fyrir hlýtt viðmót og sköpunargleði með fjölbreyttum hópi nemenda.
 • Fjóla Kristín Helgadóttir, Oddeyrarskóla, Vala Stefánsdóttir, Giljaskóla, Helga Ragnheiður Gunnlaugsdóttir, Lundarskóla, Steinunn H. Jónsdóttir, Brekkuskóla, Aðalheiður Skúladóttir, Naustaskóla, Helga Halldórsdóttir, Glerárskóla og Anna Bergrós Arnarsdóttir, Síðuskóla, fyrir eljusemi, lausnamiðaða hugsun og skapandi hugmyndir í vinnu valgreinanefndar grunnskólanna.
 • Ólöf Pálmadóttir, Kristjana I. Gunnarsdóttir, Fríða Rún Guðjónsdóttir, Kristbjörg Guðmundsdóttir og Kristín Linda Helgadóttir, leikskólanum Pálmholti, fyrir metnaðarfulla , faglega og fjölbreytta kennsluhætti í lestri og stærðfræði.

Heimild: akureyri.is

 

17. júní dagskrá á Akureyri

Að vanda verður fjölbreytt dagskrá á á Akureyri á 17. júní. Dagskrá verður í Lystigarðinum á Akureyri frá kl. 13:00-14:00. Dagskrá verður í miðbænum frá 14:00-16:00 og aftur frá kl. 20:00 til miðnættis.

 

Dagskráin er sem hér segir:

Kl. 13-13.45: Hátíðardagskrá í Lystigarðinum

 • Lúðrasveit Akureyrar spilar. Stjórnandi: Una Björg Hjartardóttir
 • Fánahylling
 • Hugvekja, Sunna Kristrún Gunnlaugsdóttir, djákni í Glerárkirkju
 • Kirkjukór Akureyrarkirkju. Stjórnandi: Eyþór Ingi Jónsson
 • Ungskáldið Sölvi Halldórsson flytur ljóð
 • Hátíðarávarp: Nýr forseti bæjarstjórnar
 • Vandræðaskáld fjalla um lýðveldið með sínum hætti

Kl. 13.45-14: Skrúðganga frá Lystigarðinum að Ráðhústorgi
Lögregla, Skátafélagið Klakkur og Lúðrasveit Akureyrar leiða gönguna.

Kl. 14-16: Fjölskyldu- og hátíðardagskrá á Ráðhústorgi

 • Lúðrasveit Akureyrar
 • Fjallkona
 • Nýstúdent
 • Gutti og Selma kynna dagskrána
 • Einar Mikael töframaður
 • Villi vísindamaður
 • Söngvaflóð
 • Steps dancecenter
 • Leikhópurinn Lotta

Kl. 17 siglir Húni II frá Torfunefsbryggju, ókeypis fyrir alla.

Kl. 20-24: Kvölddagskrá í miðbænum

 • Skátakvöldvaka í Skátagilinu
 • Tónleikar á Ráðhústorgi
 • Gringlo
 • Villi Naglbítur
 • Volta
 • Norður
 • Hamrabandið
 • Marsering nýstúdenta Menntaskólans á Akureyri kl. 23.30

17. júní dagskrá á Sauðárkróki

Fjölbreytt dagskrá er á Sauðárkróki og í Skagafirði á þjóðhátíðardaginn.

Dagskrá:

12:00 Teymt verður undir börnum við Skagfirðingabúð

12:30 Andlitsmálun við Skagfirðingabúð

 • Félagar úr Skátafélaginu Eilífsbúum selja gasblöðrur.

13:00 Skrúðganga frá Skagfirðingabúð að íþróttavelli.

14:00 Hátíðardagskrá á íþróttavellinum:

 • Hátíðarræðu flytur Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir, kennari við Grunnskólann austan Vatna.
 • Lagaflutningur – Matthildur Ingimarsdóttir syngur.
 • Ingi Sigþór og Róbert Smári koma fram ásamt Fúsa Ben.
 • Ingó töframaður verður með sýningu.
 • Vígsla á nýja gervigrasvellinum.

Í framhaldi af hátíðardagskrá heldur gleðin áfram!

 • Hvolpasveitin kíkir í heimsókn.
 • Hoppukastalar.
 • Leikir og þrautir.

Vegavinnufólk í lífshættu

Starfsmenn verktaka og Vegagerðarinnar sem vinna nú að viðhaldi á vegakerfinu eru oft í mikilli hættu við störf sín og jafnvel lífshættu þar sem ökumenn virða ekki hraðatakmarkanir  á vinnusvæðum. Nú þegar aukinn kraftur er settur í viðhald vega og umferð hefur aukist gríðarlega þá eykst hættan á alvarlegum slysum að sama skapi. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Því er enn mikilvægara en áður að ökumenn og vegfarendur virði hraðatakmarkanir og aðrar takmarkanir sem settar eru í umferðinni til að sinna megi því viðhaldi sem algjörlega nauðsynlegt er að sinna. Mörg tilvik hafa orðið nú í sumar þar sem legið hefur við slysum og hefur Vegagerðin og verktakar sem vinna við viðhald og aðrar framkvæmdir stórar áhyggjur af ástandinu sem virðist frekar fara versnandi en hitt.

Sérstaklega veldur það áhyggjum að í auknum mæli virða atvinnubílstjórar ekki heldur merkingar og tilmæli um að draga úr hraða. Það segir sig sjálft að það þarf ekki að spyrja að því hvað gerist ef eitthvað fer úrskeiðis hjá tuga tonna þungum vörubíl á vinnusvæði þar sem starfsmenn hafa ekki annað sér til varnar en hjálm og stáltáarskó.

Framkvæmdasvæði eiga að vera vel merkt og þeir sem starfa fyrir Vegagerðina fá ekki að vinna verk nema starfsmaður hjá þeim hafi farið á ítarlegt námskeið um vinnusvæðamerkingar. Þrátt fyrir að merkingar hafi batnað og séu víða til fyrirmyndar dugir það ekki til ef ökumenn taka ekki mark á þeim merkingum.

Því eru ökumenn hvattir til að sýna varúð við vinnusvæði og virða merkingar. Hraði á höfuðborgarsvæðinu t.d. er tekinn niður úr 60 eða 80 niður í 50 eða jafnvel 30 á stuttum köflum. Það segir sig sjálft að það er ekki mikið mál fyrir ökumann á 500 m kafla að aka á 50 í stað 80 eða 30 í stað 50, það mun ekki skipta sköpum hvort menn eru hálfri mínútunni lengur á leiðinni en vanalega.

Bið vegna framkvæmda getur auðvitað orðið lengri en þá er gott fyrir vegfarendur að hafa í huga að viðhald er algerlega nauðsynlegt og betra hlýtur að vera að tefjast um fáar mínútur að sumri til og losna í staðinn við að keyra það sem eftir er árs á holóttum vegi. Í raun ættu vegfarendur að fagna þessum töfum því þær bæta vegakerfið og tryggja greiða leið allra næstu mánuði og jafnvel ár.

Vegagerðin óskar eftir góðri samvinnu við alla þá sem eru á ferðinni, að fólk sýni tillitssemi og minnist þess að alvarlegt slys verður ekki aftur tekið en sekúndu eða mínútu flýting skiptir litlu. Flýtið ykkur hægt og virðið allar merkingar, lífið er dýrmætt.

Á efri myndinni má sjá stærsta stuðari á Íslandi. Þjónustustöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði hefur tekið í notkun stóra varnarbifreið með öryggispúða sem notaður verður sem árekstrarvörn við vinnu á umferðarmestu vegum svæðisins. Varnarbifreiðin er búin tveimur stefnuvirkum gulum viðvörunarljósum (merkjaskjöldum) sem blikka samtímis og gefa vegfarendum viðeigandi merki.

Myndir: Vegagerðin

Heimild: Vegag.is

Skipan í stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur skipað fulltrúa í stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál, sbr. ákvæði 2. gr. laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015. Hlutverk stýrihópsins er að efla samhæfingu innan Stjórnarráðsins í málefnum sem snúa að byggðamálum og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í þessum málaflokki.

Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar allra ráðuneyta og fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk áheyrnarfulltrúa frá Byggðastofnun og landshlutasamtökum sveitarfélaga. Hópurinn vinnur út frá þeirri skilgreiningu að byggðamál séu öll þau viðfangsefni sem hafi áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, s.s. búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúi að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta. Samkvæmt þessari skilgreiningu, sem og lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta, eru byggðamál viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti og ná til alls landsins.

Meðal verkefna stýrihópsins samkvæmt erindisbréfi er að:

 • Vera ríkisstjórn til ráðgjafar í byggðamálum.
 • Auka samráð ráðuneyta á sviði byggðamála.
 • Vinna að því að samhæfa byggðamál að annarri stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera þannig að horft sé til byggðaþróunar með heildstæðum hætti.
 • Hafa aðkomu að gerð byggðaáætlunar og fylgjast með framvindu hennar.
 • Vinna með landshlutasamtökum sveitarfélaga að því að sóknaráætlanir verði farvegur fyrir samstarf ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd byggðaáætlunar.
 • Vinna að því að fella fleiri viðfangsefni og samninga að sóknaráætlunum landshluta.
 • Styðja landshlutasamtök sveitarfélaga við gerð og framkvæmd sóknaráætlana landshluta.
 • Skila árlegri greinargerð til ráðherra byggðamála um framvindu sóknaráætlanasamninga og ráðstöfun fjármuna.
 • Vinna drög að viðmiðunarreglum vegna útdeilingar fjármuna milli landshluta.
 • Staðfesta sóknaráætlanir landshluta og áhersluverkefni þeirra.
 • Staðfesta verklagsreglur landshlutasamtaka vegna úthlutana úr uppbyggingarsjóðum.
 • Hafa almennt samráð og samskipti um framkvæmd sóknaráætlunarsamninga og fylgja eftir ákvæðum samninga um skil og upplýsingagjöf.

Heimild: stjornarrad.is

Minnsta skemmtiferðaskip sumarsins á Siglufirði

Pan Orama kom til Siglufjarðar með 49 farþega á fimmtudaginn í sinni fyrstu heimsókn til fjarðarins. Áætlað er að skipi komi alls 16 sinnum í sumar og fram í september. Skipið siglir undir grísku flaggi og er með 16-18 manna áhöfn og 24 herbergi fyrir farþega. Skipið stoppaði í sólarhring á Siglufirði en upphaflega var áætlað að stoppa 4 tíma. Pan Orama var byggt árið 1993 og endurbyggt árið 2001. Skipið hefur oft farið yfir Atlantshafið, Svartahafið og heimsótt lönd eins og Túnis og Króatíu.

Pan Orama sigldi svo til Akureyrar og tók ferðin um 4 tíma, en þar var stoppað í rúman sólahring. Skipið fer í 8 daga ferðir um Ísland, stoppar meðal annars á Húsavík, Akureyri, Ísafirði, Patreksfirði, Akranesi, Vestmannaeyjum og Reykjavík. Ferðin kostar frá 285.000 kr.- 390.000 kr. eftir því hvaða herbergi þú pantar. Skipið kemur næst til Siglufjarðar 18. júní.