All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Sjálfstæðisfélög Fjallabyggðar boða til aðalfundar

Sjálfstæðisfélög Fjallabyggðar boða til aðalfundar fimmtudaginn 28. mars 2019 kl. 20:00 í Ráðhúsinu.

Dagskrá fundarins:
• Skýrsla formanns um störf félaganna 2018–2019
• Ársreikningar Sjálfstæðisfélaga 2018 kynntir af gjaldkerum
• Helga Helgadóttir oddviti flokksins fer yfir bæjarmálin
• Ákvörðun um félagsgjald fyrir árið 2019
• Kosning formanns
• Kosning í stjórn ( 3 aðalmenn og 2 varamenn)
• Kosning í fulltrúaráð og kjördæmisráð
• Önnur mál

Allir sem eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn hafa rétt til að bjóða sig fram til setu í stjórn, fulltrúaráð eða kjördæmisráð og hvetjum við fólk sem hefur áhuga á að gegna trúnaðarstörfum fyrir flokkinn að senda tölvupóst á Erlu Gunnlaugsdóttur formann fulltrúaráðs á netfangið sudurgata56@gmail.com en einnig er hægt að tilkynna framboð á sjálfum fundinum.

Hægt er að skrá sig í flokkinn á https://xd.is/ganga-i-flokkinn

Aðalfundur fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaga í Fjallabyggð verður haldinn í Ráðhúsinu fimmtudaginn 28. mars nk. kl. 21:15

Dagskrá fundarins
• Hefðbundin aðalfundastörf
• Skýrsla stjórnar
• Kjör formanns
• Kjör stjórnar
• Önnur mál

Skriflegum framboðum til stjórnar skal skilað til formanns fulltrúaráðs með tölvupósti á netfangið sudurgata56@gmail.com. En einnig er hægt að tilkynna framboð á fundinum sjálfum. Kjörgengir eru allir meðlimir fulltrúaráðsins.
Athugið að seturétt á fundinum hafa eingöngu þeir sem hafa verið kjörnir í fulltrúaráð á aðalfundum sjálfstæðisfélaganna í Fjallabyggð.

Um fulltrúaráð
Þar sem fleira en eitt félag er innan sama sveitarfélags mynda félögin sameiginlegt fulltrúaráð, sem fer með stjórn sameiginlegra mála félaganna á starfssvæðinu. Í Fjallabyggð eru 21 sæti í fulltrúaráði, 12 fyrir Siglufjörð og 9 fyrir Ólafsfjörð eða 1 fulltrúi fyrir hverja 100 íbúa.
Sjálfstæðisflokkurinn í Fjallabyggð

Páskadagskrá í Alþýðuhúsinu

Það verður fjölbreytt dagskrá í Alþýðuhúsinu á Siglufirði um páskana. Á Föstudaginn langa (19. apríl) opnar Unnar Örn J. Auðarson sýningu í Kompunni og sama dag verður gjörningadagskrá eins og undanfarin sex ár. Þeir listamenn sem koma fram með gjörninga eru Ásdís Sif Gunnarsdottir, Styrmir Örn Guðmundsson, Aðalsteinn Þórsson, og Katrín Inga Jónsdóttir. Laugardaginn 20. apríl verða tónleikar þar sem ung tónskáld koma fram. Þórir Hermann Óskarsson píanó og Daníel Sigurðsson trompet flytja verk eftir Þóri, og eftir hlé flytur Daníel Helgason gítar ein verk en hann er nýkjörinn bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaununum.

Dægurlagamessa í Siglufjarðarkirkju 24. mars

Sunnudaginn 24. mars kl. 17.00, verður síðasta dægurlagamessa þessa vetrar í Siglufjarðarkirkju.

Karlakórinn í Fjallabyggð og Kirkjukór Siglufjarðar syngja.

Einsöngvari verður Baldvin Júlíusson.

Undirleikarar og stjórnendur verða Elías Þorvaldsson og Rodrigo J. Thomas. Hugleiðingu flytur Gunnar Rögnvaldsson, uppistandari og staðarhaldari á Löngumýri í Skagafirði, sem verður með gítarinn nærri sér og leiðir m.a. almennan söng í lokin.

Aðgangur ókeypis.

Uppgangur í blaki í Fjallabyggð

Árangur Blakfélags Fjallabyggðar (BF) hefur ekki farið framhjá neinum eftir að félagið var formlega stofnað í maí 2016. Félagið varð Íslandsmeistari karla á sínu fyrsta starfsári í 2. deild karla í blaki árið 2017, og í ár varð karlaliðið í 2. sæti í 1. deildinni, mjög góður árangur það. Liðið hélt einnig úti svokölluðu B-liði sem spilaði í 3. deild karla í blaki í ár. Liðið er aðalega hugsað fyrir yngri liðsmenn aðalliðsins en aldur er þó blandaður og reynsluboltar styrkja liðið.  BF-B gerði sér lítið fyrir og vann 3. deild karla í blaki, en síðustu leikir mótsins voru nú um síðastliðna helgi í Kórnum í Kópavogi. Liðið endaði með 38 stig, fimm stigum ofar en Haukar A sem voru með 33 stig.

Liðið lék fimm leiki núna um sl. helgi á Íslandsmótinu, fyrsti sigurinn kom gegn Haukum B, lokatölur 0-2 (9-25,13-25).  Næsti leikur var  gegn Haukum A, og vannst hann 1-2 (17-25, 26-24, 12-15). Þriðji leikurinn var gegn Eflingu Laugaskóli, og vannst hann 0-2 (15-25,17-25). Næsti leikur var gegn Sindra og vannst hann 2-0 (25-18, 25-17). Lokaleikurinn var gegn Álftanesi C, og var hann jafn, en BF-B vann þó 2-0 (25-23, 25-21).

Liðið var ekki með neinn varamann í þessum fimm leikjum og því mátti ekkert útaf bregða. Frábær árangur hjá liðinu í 3. deild karla í blaki. Þegar blakvertíðinni lýkur í vor þá tekur við strandblakið á Siglufirði.

Siglfirðingur.is greindi fyrst frá tíðindunum.

Image may contain: 7 people, people smiling, people playing sports and basketball court
Mynd: Blakfélag Fjallabyggðar.

Unglingar í Fjallabyggð mótmæltu aðgerðarleysi stjórnvalda í loftlagsmálum

Í lok síðustu viku tóku flestir nemendur í unglingadeild Grunnskóla Fjallabyggðar þátt í loftlagsverkfalli ungmenna og gengu út úr skólanum kl. 12:00.  Þau gengu um Ólafsfjörð og mótmæltu aðgerðarleysi stjórnvalda í loftlagsmálum og fóru svo yfir á Siglufjörð þar sem þau mótmæltu við Ráðhús Fjallabyggðar. Frá þessu er greint á vef Grunnskóla Fjallabyggðar.

Mynd: Grunnskóli Fjallabyggðar

Local Food Festival á Akureyri lauk í dag

Margmenni var í Hofi, Menningarhúsi Akureyringa í dag þar sem 38 fyrirtæki tóku á móti gestum og gangandi.  Viðburðir voru margir á sýningunni í ár og krýndir voru Local Food meistara í þremur flokkum.  Forréttarkeppni matreiðslu nema, aðalréttakeppni matreiðslumanna og eftirréttarakeppni bakara og matreiðslunema og matreiðslumanna.

Forréttarkeppni matreiðslunema:               

Forréttur sem  verður að innihalda bleikju og blómkál í aðalatriði.

Koma má með allt hráefni unnið og því aðeins um lokaeldun og uppstillingu á réttinum að ræða.

Keppandi verður að vera skráður á námssamning í matreiðslu.

Keppandi verður að skila fullbúinni uppskrift og lýsingu réttarins. Eitt eintak til sýnis við keppnisborð með nafni og eitt nafnlaust eintak til dómara. Uppskrift verður eign Klúbbs matreiðslumeistara á norðurlandi.

Sigurvegari – Bjarni Þór Ævarsson hjá Strikinu

Aðalréttakeppni matreiðslumanna:

Aðalréttur sem verður að innhalda lamb á tvo vegu.

Koma má með allt hráefni unnið og því aðeins lokaeldun og uppstillingu á réttinum að ræða

Keppandi verður að vera með sveinsbréf í matreiðslu.

Keppandi verður að skila fullbúinni uppskrift og lýsingu réttarins. Eitt eintak til sýnis við keppnisborð með nafni og eitt nafnlaust eintak til dómara. Uppskrift verður eign Klúbbs matreiðslumeistara á norðurlandi.

Sigurvegari – Árni Þór Árnason hjá Strikinu

Eftirréttarakeppni bakara og matreiðslunema/-manna:

Eftirréttur sem verður að innhalda Ricotta ost og vanillu

Koma má með allt hráefni unnið og því aðeins lokaeldun og uppstillingu á réttinum að ræða

Keppandi verður að vera á námssamning/- með sveinsbréf í matreiðslu/- eða bakstri

Keppandi verður að skila fullbúinni uppskrift og lýsingu réttarins. Eitt eintak til sýnis við keppnisborð með nafni og eitt nafnlaust eintak til dómara. Uppskrift verður eign Klúbbs matreiðslumeistara á norðurlandi.

Sigurvegari – Jón Arnar Ómarsson hjá Strikinu.

Flottustu básarnir:

Veitt voru verðlaun fyrir fallegasta básinn og frumlegasta básinn. Einnig voru veitt verðlaun sem nefnd eru frumkvöðull ársins í mat og matarmenningu.

Fallegasti básinn: Matarkista Skagafjarðar

Frumlegasti básinn: Milli fjöru og fjalla

Frumkvöðull ársins: Norðlenska

Á sýningunni fór fram uppboð þar sem söfnuðust um 250.000 kr. til styrktar Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

Myndir: Linda Ólafsdóttir. Texti: Fréttatilkynning

Texti og myndir: Aðsend fréttatilkynning.

 

KF náði ekki að manna lið gegn Kára

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Kári á Akranesi (B-lið ÍA) áttu að mætast í dag á Akranesi í Lengjubikarnum í frestuðum leik.  KF hafði þegar fengið leiknum frestað í eitt skipti en fékk ekki aftur frestun. KF náði ekki að manna lið fyrir þennan leik og voru því Káramönnum dæmdur 3-0 sigur gegn KF.  Í hópnum eru meiðsli og einnig voru nokkrir nýir leikmenn í öðrum verkefnum og því náðist ekki að stilla upp liði fyrir þennan leik.

Næsti leikur KF verður gegn Tindastóli á Sauðárkróksvelli, laugardaginn 23. mars í Lengjubikarnum.

KF heldur áfram að styrkja sig fyrir Íslandsmótið

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hefur fengið til sín þrjá nýja leikmenn í mars mánuði.  Einn kemur á láni en aðrir gera samning við félagið. Ingi Freyr Hilmarsson kemur á láni frá Þór. Hann er með mikla reynslu og er 32 ára. Hann hefur leikið 199 leiki í meistaraflokki með Þór, KA, KS/Leiftur og Leiftur/Dalvík.

Þorsteinn Már Þorvaldsson kemur frá KA, hann er fæddur árið 2001, og hefur áður komið við sögu hjá KF, en hann lék með liðinu sl. vor á Kjarnafæðismótinu. Hann lék síðasta tímabil með 2. flokki KA.

Sævar Gylfason kemur frá Dalvík, hann er 18 ára. Hann hefur leikið með 2. flokki KA og Dalvík og 3. flokki KA þar á undan.

Alls hafa því ellefu nýjir leikmenn bæst við hópinn hjá KF núna í vor. Íslandsmótið í 3. deild hefst í upphafi maí mánaðar, en KF leikur fyrst við Álftanes, 4. maí á úti velli. Í annari umferð leikur KF við Augnablik á útivelli og loks KH á heimavelli, 18. maí. Það er spurning hvort Ólafsfjarðarvöllur verði tilbúinn fyrir þann tíma.

Endurbætur á skólalóð Dalvíkurskóla hefst í sumar

Í sumar verður hafist handa við endurbætur á skólalóð Dalvíkurskóla í Dalvíkurbyggð.  Lokið var við að að hanna skólalóðina út frá hugmyndum nemenda og starfsfólks síðastliðið vor og stefnt er að því að framkvæmdum ljúki á næstu þrem árum.  Heildarkostnaður við hönnun og frágang lóðar er áætlaður um 43 milljónir. Þetta kemur fram á vef Dalvíkurbyggðar.

Í fyrsta áfanga verður lagður göngustígur frá nýju sleppisvæði við Mímisveg að skólanum, nýr kastali settur upp og undirlag á leiksvæði norðan við skólann endurnýjað. Þá verður keyptur ærslabelgur (merktur gulur á myndinni) sem staðstettur verður norðan við gervigrasvöllinn.  Búið er að kaupa tvo litla færanlega fótboltavelli með lágum böttum og verður þeim komið fyrir við skólann.

Í öðrum áfanga er m.a. gert ráð fyrir að endurbæta malbiksvellina, fótbolta- og körfuboltavöll auk minni leiktækja og í þriðja áfanga verður hugað að útikennslusvæði við skólann og gróðri.

Á teikningunni með fréttinni má sjá hvernig skólalóðin mun líta út eftir rúm tvö ár þegar framkvæmdum lýkur.

Heimild: dalvik.is

Fréttaskot Markaðsstofu Norðurlands

Skráning samstarfsfyrirtækja í Arctic Coast Way hefst í næstu viku og verður hún nánar auglýst á allra næstu dögum. Verkefnið hefur vakið mikla athygli bæði hérlendis og erlendis en leiðin verður formlega opnuð þann 8. júní næstkomandi, á Degi hafsins.

Markaðssetning safna og setra á Norðurlandi

Þriðjudaginn 26. mars næstkomandi stendur Markaðsstofan fyrir fundi á Greifanum á Akureyri, þar sem farið verður yfir samstarf í markaðssetningu á söfnum og setrum á Norðurlandi. Þangað verða forstöðumenn safna og setra á Norðurlandi sérstaklega boðaðir, en fundurinn verður á milli 13 og 16. Hægt er að skrá sig á fundinn með því að senda tölvupóst á bjorn@nordurland.is eða hringja í síma 462-3300.

Einnig minnum við á könnunina sem send var í tölvupósti til allra samstarfsfyrirtækja okkar, sem er gerð í tengslum við markaðsrannsóknina sem Björn H. Reynisson leiðir og RMF og Háskólinn á Hólum vinna fyrir MN. Frestur til að svara könnuninni er til 22. mars.

Ferðamönnum fjölgar yfir veturinn

Eins og undanfarin ár hefur Markaðsstofan fengið skýrslu frá Rannsóknum og ráðgjöf um komu erlendra ferðamanna til Norðurlands, þar sem farið er yfir árið 2018. Í skýrslunni sést meðal annars aukning í komu ferðamanna yfir veturinn. Norðurlandi er skipt upp í fjögur svæði í skýrslunni, sem sjá má með því að smella hér.

Ferðakaupstefnur erlendis

Starfsmenn Markaðsstofunnar hafa verið duglegir við að sækja ráðstefnur og ferðakaupsýningar í Evrópu. Halldór Óli fór á vinnustofu í London í febrúar, Hjalti Páll sótti hollensku sýninguna Vakantieburs í janúar þar sem Voigt Travel var með stóran bás og Norðurland mjög áberandi. Markaðsstofan var svo að venju á Mid-Antlantic í Reykjavík í byrjun febrúar og að lokum hélt Arnheiður til Berlínar í síðustu viku þar sem ITB fór fram, en sú ferðakaupstefna er ein sú elsta og stærsta í heimi. Þangað hélt hún með markaðsefni á þýsku, með sérstaka áherslu á Arctic Coast Way. Gaman er að segja frá því að allt það efni, bæklingar og fleira, kláraðist og því áþreifanlegur áhugi á Norðurlandi sem áfangastað.

Uppfært markaðsefni frá samstarfsfyrirtækjum

Markaðsstofan minnir samstarfsfyrirtæki á að gott er að senda okkur reglulega uppfært markaðsefni, upplýsingar um viðburði eða hvað annað sem þið viljið koma á framfæri. Við fáum stöðugt fyrirspurnir um slíkt efni, tökum það með okkur á ferðakaupstefnur erlendis og dreifum því líka til ferðaskrifstofa, blaðamanna og almannatengslaskrifstofa sem við vinnum með í gegnum Íslandsstofu. Allt myndefni, sem okkur er heimilt að dreifa, er þegið með þökkum eins og raunar allt markaðsefni.

Texti: aðsend fréttatilkynning.

Prest vantar í afleysingar í Laugalandsprestakall

Biskup Íslands auglýsir eftir presti til að sinna sóknarprestsþjónustu í Laugalandsprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og héraðsprestsskyldum í prófastsdæminu.

Laugalandsprestakall er myndað af Grundar-, Hóla-, Kaupangs-, Munkaþverár-, Möðruvalla- og Saurbæjarsóknum. Íbúar prestakallsins eru rúmlega 1.000 talsins.

Prestsembættinu fylgja héraðsprestsskyldur allt að 50%, einkum við Akureyrarprestakall og afleysing í leyfum sóknarprests Laufásprestakalls. Prófastur ákvarðar að öðru leyti tilhögun héraðsprestsskyldna embættisins í samræmi við starfsreglur þar að lútandi. Æskilegt er að umsækjandi geti starfað óslitið sumarið 2019 vegna framangreindrar afleysingaskyld.

Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti miðvikudaginn 20. mars 2019.

Háskólalestin heimsækir Fjallabyggð í maí

Háskólalestin verður í Fjallabyggð dagana 17. og 18. maí nk. og mun þá bjóða grunnskólabörnum upp á námskeið í samstarfi við Grunnskóla Fjallabyggðar föstudaginn 17. maí þar sem nemendum gefst kostur á að sjá og kynnast tækjum og vísindum sem ekki eru í boði í Fjallabyggð. Vísindaveisla, opin öllum, verður svo laugardaginn 18. maí.

Heimsókn Háskólalestarinnar er skólum og nemendum að kostnaðarlausu – og Vísindaveislan er sömuleiðis öllum opin, endurgjaldslaust.

Fjallabyggð styrkir heimsóknina með afnot af Menningarhúsinu Tjarnarborg.

Undanfarin ár hefur Háskólalestin ferðast um landið við miklar vinsældir. Í lestinni er lögð áhersla á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðtökur hafa verið með eindæmum góðar og hafa landsmenn á öllum aldri fjölmennt á viðburði Háskólalestarinnar.

Í Háskólalestinni eru valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanemendur og jafnvel leikskólabörn og framhaldskólanemendur. Að auki er slegið upp litríkum vísindaveislum fyrir alla heimamenn með stjörnuveri, sýnitilraunum, mælingum og pælingum, að ógleymdu Sprengjugenginu landsfræga.

BB Byggingar bauð lægst í þakdúk á MTR

Fjallabyggð leitaði nýverið tilboða í endurnýjun á þakdúki á húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga í Ólafsfirði. Alls bárust þrjú tilboð en kostnaðaráætlun fyrir verkið var 9.083.500 kr.  Talsverður munur var á hæsta tilboðinu og tveimur lægstu. Fjallabyggð hefur samþykkt að taka tilboði lægstbjóðenda sem er BB Byggingar ehf en tilboð þeirra hljóðaði upp á 8.976.250 kr.

Eftirfarandi tilboð bárust:

Ferningar ehf kr. 14.585.680
L7 ehf kr. 9.627.380
BB Byggingar ehf kr. 8.976.250

Víðir lagði KF í Lengjubikarnum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Víðir áttust við í dag í Lengjubikarnum, en leikurinn fór fram á Akureyri. KF spilaði nokkuð breyttu liði og vantaði nokkra fastamenn í byrjunarliðið, en ný andlit fengu að spreyta sig í dag. Í markinu var t.d. Sindri Leó Svavarsson (18 ára) að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik (KSÍ leik) fyrir félagið, hann hafði þó leikið nokkra leiki á Kjarnafæðismótinu, en þeir telja ekki sem KSÍ leikir.  Víðir hefur spilað síðustu árin í 2. deildinni og hafa fengið til sinn góðan liðstyrk fyrir sumarið, en liðið samdi nýlega við 8 nýja leikmenn.

Það voru Víðismenn sem byrjuðu leikinn mun betur og skoruðu fyrsta markið strax á 7. mínútu og var þar að verki Helgi Þór Jónsson, fyrirliði liðsins. Á 15. mínútu fengu Víðismenn svo vítaspyrnu og úr henni skoraði einnig Helgi Þór, staðan orðin 0-2 í upphafi leiks.  Mehdi Hadraoui skoraði svo þriðja mark Víðismanna á 27. mínútu og var staðan því 0-3 í hálfleik.

Bæði liðin nýttu svo sínar skiptingar í síðari hálfleik, en fleiri urðu mörkin ekki og unnu Víðismenn sannfærandi sigur á KF, 0-3.

Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.

 

Dalvík/Reynir vann stórsigur á Leikni

Dalvík/Reynir og Leiknir F. mættust í Lengjubikarnum í dag í Boganum á Akureyri. Bæði lið höfðu leikið einn leik í riðlinum fyrir þennan leik og var Leiknir með 1 stig en Dalvík 0 stig.

Á 21. varð Leiknir fyrir því óláni að skora sjálfsmark og komst Dalvík því yfir 1-0. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Númi Kárason sitt fyrsta mark og kom Dalvík í 2-0. Pálmi Birgisson kom svo Dalvík í 3-0 á 27. mínútu og var staðan því 3-0 í hálfleik. Númi Kárason skoraði sitt annað mark á 51. mínútu og var nú staðan orðin 4-0. Povilas Krasnovskis skoraði svo mark úr víti fyrir Leikni á 63. mínútu og minnkaði muninn í 4-1. Númi skoraði fjórum mínútum síðar sitt þriðja mark og breytti stöðunni í 5-1 og var svo fljótlega skipt út af eftir markið. Dalvíkingar voru ekki hættir, á 69. mínútu skoraði Pálmi sitt annað mark og staðan orðin 6-1. Jóhann Heiðar innsiglaði svo stórsigur Dalvíkur á 78. mínútu, staðan orðin 7-1 en fleiri urðu mörkin ekki. Frábær leikur hjá Dalvík/Reyni í dag.

BF konur sigruðu Álftanes eftir að hafa lent undir 0-2

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við lið Álftanes 2 í Benectadeildinni í blaki í dag á Siglufirði. Liðin eru bæði í neðri helmingi deildarinnar og því hvert stig dýrmætt. Lið Álftanes mætti með engan varamann og það átti eftir að setja mark sitt á leik þeirra í síðustu hrinum leiksins.

Gestirnir byrjuðu leikinn mun betur og unnu fyrstu hrinuna nokkuð örugglega 16-25.  Meira jafnræði var með liðunum í annari hrinu en þá byrjaði BF betur og komst 6-1 og tóku þá gestirnir strax leikhlé BF náði áfram góðu forskoti og komst í 16-9 og aftur tóku gestirnir leikhlé.  Gestirnir komu sterkar til baka og minnkuðu muninn jafnt og þétt og jöfnuðu leikinn í 18-18. BF komst yfir 22-19 en gestirnir skoruðu fimm stig í röð og voru sterkari í lok hrinunnar, staðan orðin 22-24 og mikil spenna. BF náði einu stigi til viðbótar en Álftanes vann 23-25 og voru komnar í 0-2.

Nú var að duga eða drepast fyrir BF stelpurnar í þriðju hrinunni. Jafnræði var með liðunum í upphafi hrinunar og náði hvorugu liðinu að ná upp forskoti.  Í stöðunni 12-13 er vendipunktur í leiknum þegar leikmaður Álftanes meiðist á kálfa, eða reif vöðva í kálfanum og tóku þær tvöfalt leikhlé á þessum tímapunkti. BF náði að leiða með 2-3 stigum eftir leikhléð og voru sterkara liðið út hrinuna.  Þær unnu svo hrinuna 25-20 og minnkuðu muninn í 1-2.

Í fjórðu hrinu reyndu Álftanes stelpur að spila áfram þrátt fyrir að vera með meiðsli en það gekk ekki eftir og vann BF sigur 25-8 og staðan orðin 2-2. Í lokahrinunni var aftur reynt að byrja og nú tóku gestirnir strax leikhlé áður en stelpurnar voru komnar inn á völlinn, en spiluðu svo í nokkrar mínútur en ein þeirra var bara haltrandi og náði ekki að beita sér. Leiknum var samt hætt vegna slæms mígrenis hjá öðrum leikmanni Álftanes.  Leiknum var því hætt og sigraði BF hrinuna 25-0 og leikinn 3-2.

Flottur endurkomusigur hjá BF stelpunum í dag. Þær unnu fjóra leiki af 12 og enda með ellefu stig í töflunni. Liðin í kring eiga eftir að leika 1-2 leiki svo lokastaðan er ekki ljós á þessari stundu.

BF tryggði sér 2. sætið með góðum sigri

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék síðasta mótsleikinn í Benectadeildinni í dag gegn HK-B. Með sigri hefði HK getað tryggt sér 2. sætið en heimamenn voru ekkert með nein plön um annað en að klára leikinn.

Fyrsta hrina var æsispennandi í lokin, en það var BF sem byrjaði hrinuna af krafti og leiddu nánast alveg til enda. BF komst í 4-0 og 10-6 en HK jafnaði metin 12-12 og virtust alltaf koma til baka þegar BF náði góðu forskoti. BF komst í 18-14 og tóku þá gestirnir leikhlé. BF hélt áfram að halda góðu forskoti og allt leit út fyrir sigur í hrinunni í stöðunni  22-17 en HK minnkaði óðum muninn og í stöðunni 23-21 tóku heimamenn leikhlé. HK skoraði næsta stig, staðan 23-22 og BF tók annað leikhlé. Aftur skoraði HK og jöfnuðu 23-23, 24-24 og komust svo yfir í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 24-25. Hér var mikil spenna í leiknum og nú mátti ekkert klikka hjá heimamönnum. BF jafnaði 25-25 og komst yfir 26-25 og nú tóku gestirnir leikhlé. Heimamenn áttu síðasta stigið og unnu hrinuna 27-25 og voru komnir í 1-0 eftir mikla baráttu.

Í annari hrinu komst HK í 0-2 og var það í eina skiptið sem þeir komust yfir í hrinunni. Jafnræði var fyrstu mínúturnar en þegar leið á hrinuna var BF mun betra liðið og náði góðu forskoti. Jafnt var á tölunum 4-4 og 8-8 en þá náði BF upp góðu forskoti sem HK réð ekki við.  BF komst í 13-9 og 16-11 og tóku þá gestirnir leikhlé. BF hélt áfram að skora og var lítið um varnir hjá HK, staðan var 20-11 og 21-13. HK náði nú ágætis kafla og minnkaði muninn í 22-15 og 22-17. BF kláraði svo hrinuna 25-17 og voru komnir í 2-0.

BF menn voru svo seinir í gang í þriðju hrinu og HK sýndi klærnar. Þeir komust í 2-5 og nú tók BF strax leikhlé. Hlutirnir gengu vel hjá HK og þeir komust í 3-8 og 6-10 en nú vaknaði BF vélin til lífsins og stigin komu á færibandi. BF skoraði nú fimm stig í röð og komust yfir 11-10, en HK svaraði um hæl með fjórum stigum og komust í 11-14 og nú tóku heimamenn hlé til að undirbúa lokaorustuna. BF skoraði nú þrjú í röð og jöfnuðu 14-14 og komust í 20-17 og nú tóku gestirnir leikhlé.  HK minnkaði muninn í 22-19 en lengra náðu þeir ekki, BF skoraði síðustu þrjú stigin og unnu 25-19 og leikinn 3-0.

Frábær úrslit hjá BF sem enda mótið í 2. sæti og geta þeir verið sáttir og stoltir af árangrinum í vetur. BF vann 10 leiki af 14 og enda með 32 stig. Liðið fékk afhentar silfurmedalíur í lok leiks.

KF mætir Víði

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar leikur við Víði úr Garði í Lengjubikarnum, á morgun, sunnudaginn 10. mars. Leikurinn fer fram í Boganum á Akureyri og hefst kl. 17:00. KF hefur leikið einn leik í riðlinum en liðið sigraði Skallagrím 2-0.  Leikið verður þétt í marsmánuði og er fólk hvatt til að fylgja liðinu og mæta á völlinn. Nánar verður greint frá úrslitum leiksins þegar þau liggja fyrir hér á vefnum.

Tveir blakleikir á Siglufirði um helgina

Síðustu leikir karla- og kvennaliðs Blakfélags Fjallabyggðar í Benectadeildunum á tímabilinu eru í dag í Íþróttahúsinu á Siglufirði. Nánar verður greint frá úrslitum leikjana hér á vefnum síðar í dag.
Karlamegin mætir HK B í heimsókn en með sigri tryggir BF sér annað sætið í deildinni en HK B getur tekið það sæti af heimamönnum. Því má búast við hörkuleik.

Dömurnar mæta Álftanes B og BF þarf helst sigur til að tryggja veru sína í deildinni fyrir næsta tímabil. Liðin mættust fyrir stuttu síðan og þá sigraði BF í æsispennandi fimm hrinu leik.
Karlaleikurinn hefst kl. 13:00 og kvennaleikurinn kl. 15:00.

Áhorfendur koma inn að sunnanverðu og það er sjoppa á staðnum. Fólk er hvatt til að fjölmenna á völlinn og hvetja liðin áfram.

Jónsmót haldið á Dalvík

Skíðafélag Dalvíkur stendur fyrir árlegu Jónsmóti til minningar um Jón Bjarnason, einn af stofnendum félagsins.  Mótið hófst í gær og lýkur keppni í dag. Keppt verður í stórsvigi, svigi, 25 m og 50 m bringusundi.

Í fyrsta sinn er keppt um Jóhannsbikarinn á Jónsmótinu, en það er Jákvæðnisbikarinn.  Jóhann var bróðir Jóns og var hann einnig einn af stofnendum Skíðafélags Dalvíkur.

Jákvæðnisbikarinn verður veittur til þess félags sem almennt sýnir mikla jákvæðni og hefur gaman af mótinu, bæði börn og fullorðnir.

No photo description available.

Keilir opnar starfsstöð fyrir flugnám á Sauðárkróki

Flugakademía Keilis hefur opnað starfsstöð fyrir nemendur í verklegu atvinnuflugnámi á Alexandersflugvelli á Sauðárkróki. Bæði nemendur og kennarar sem hafa undanfarið verið staðsettir á Sauðárkróki eru yfir sig ánægðir með bæði innviði og aðstöðu til flugnáms í Skagafirði, en þar eru kjöraðstæður til verklegrar flugkennslu. Reiknað er með að um tuttugu nemendur og 2-3 kennsluvélar verði að jafnaði á flugvellinum allt árið umkring. – Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra greinir frá þessu.

Mikill áhugi er á atvinnuflugnámi hérlendis, bæði meðal Íslendinga og erlendra nemenda, og hefur Flugakademía Keilis vaxið hratt á undanförnum árum. Þannig tvöfaldaðist fjöldi kennsluvéla við skólann á árunum 2014 – 2018, úr sjö í fjórtán flugvélar, og fjölgaði atvinnuflugnemum í á þriðja hundrað.  Eftir kaup Keilis á Flugskóla Íslands fyrr á árinu er fjöldi kennsluvéla orðinn yfir tuttugu og skólinn orðinn einn stærsti flugskóli á Norðurlöndunum.

Ísland er einstakt á heimsvísu til flugnáms

Ólíkt flestum öðrum löndum þar sem boðið er upp á flugnám, eru litlar sem engar takmarkanir á Íslandi þegar kemur að flugi kennsluvéla. Þannig geta nemendur til að mynda tekið á loft á alþjóðaflugvellinum í Keflavík, æft snertilendingar í Vestmannaeyjum og farið í aðflug á Ísafjarðarflugvelli. Krefjandi aðstæður, fjölbreytt landslag og fjöldi mismunandi flugvalla á landinu, gera þannig Ísland einstakt á heimsvísu til kennslu og verklegrar þjálfunar atvinnuflugnema.

Víða um land má finna vannýtta flugvelli sem henta vel til flugnáms, þar sem innviðir og umgjörð bjóða upp á kjöraðstæður til flugnáms. Með auknum fjölda kennsluvéla hefur Keilir fengið tækifæri á að auka við starfsstöðvar skólans.  Megin starfsemi Flugakademíunnar, bæði bóklegt og verklegt nám, mun eftir sem áður fara fram á Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli. En með aukinni áherslu á nýtingu flugvalla á landsbyggðinni vill skólinn tryggja enn betri aðgengi nemenda að verklegri þjálfun.

Samstarf við FNV

Flugakademía Keilis og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra undirrituðu samstarfssamning varðandi þjónustu við flugnema á Alexandersflugvelli við Sauðárkrók, fimmtudaginn 7. mars síðastliðinn. Með samstarfinu fá nemendur aðgang að fullkominni námsaðstöðu skólans og hýsingu á heimavist FNV á meðan þeir stunda nám sitt fyrir norðan. Þá munu skólarnir skoða enn nánara samstarf í framtíðinni meðal annars með möguleika á flugtengdu námi til stúdentsprófs og fjarnámsaðstöðu fyrir nemendur sem leggja stund á bóklegar greinar atvinnuflugnámsins í fjarnámi.

Vilja stofna Íþrótta- og leikjaskóla í Dalvíkurbyggð

Knattspyrnudeild Dalvíkur/Reynis hefur lagt til við Dalvíkurbyggð að stofnaður verði Íþrótta- og leikjaskóli Dalvíkurbyggðar Við gerð fyrirkomulagsins voru íþrótta- og leikjaskólar hjá KA og Þór hafðir að leiðarljósi.  Knattspyrnudeild Dalvíkur/Reynis myndi reka skólann og er lagt til að Dalvíkurbyggð standi straum að launakostnaði starfsmanna og útvegi aðgang að aðstöðu sveitarfélagsins og aðstoð fengist frá vinnuskóla.
Erindið var tekið fyrir á fundi Íþrótta- og æskulýðsráðs Dalvíkurbyggðar í vikunni og var vel tekið í hugmyndina. Hinsvegar er ekki gert ráð fyrir fjármagni á árinu 2019 í slíkt verkefni. Mikilvægt er að stór verkefni sem þarfnast fjármagns komi til ráðsins að hausti áður en vinna við fjárhagsáætlun hefst.
Erindinu hefur því verið vísað til fjárhagsáætlunar 2020 næsta haust.

Fjallabyggð tekur yfir götulýsingarkerfi frá Rarik

Gunnari Birgissyni bæjarstjóra Fjallabyggðar hefur verið falið að undirrita samning um yfirtöku á götulýsingarkerfi til eignar í sveitarfélaginu Fjallabyggð.

Með samningnum mun Fjallabyggð eignast götulýsingarkerfi RARIK í sveitarfélaginu, í því ástandi sem það er við undirritun samnings.  Sambærilegir samningar hafa verið gerðir í öðrum sveitarfélögum eins og Fjarðarbyggð.

Þá hefur Fjallabyggð heimilað að gera lokaða verðkönnun vegna endurnýjunar á götulýsingu.

Eftirfarandi birgjum yrði gefinn kostur á að bjóða í verkið:

Johan Rönning hf
Reykjafell hf
O. Johnson & Kaaber hf
S. Guðjónsson hf
Ískraft hf
Smith & Norland hf
Fálkinn
Jóhann Ólafsson hf
Rafmiðlun hf.

Ljósmyndir með frétt: Vigdís Sverrisdóttir.

Image may contain: sky, cloud, mountain, outdoor and nature

Image may contain: sky, cloud, snow, outdoor and nature

 

Opinn kynningarfundur á atvinnuflugnámsnámi á Alexandersflugvelli á Sauðárkróki

Vegna aukinna umsvifa Flugakademíu Keilis í Skagafirði, verður opinn kynningarfundur á atvinnuflugmannsnámi á Alexandersflugvelli á Sauðárkróki, fimmtudaginn 7. mars kl. 12 – 13. Þá verður einnig skrifað undir samstarfssamning við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra vegna flugnema skólans.

Kjörið tækifæri fyrir áhugasama að kynna sér flugnám í fremstu röð í einum stærsta flugskóla Norðurlanda. Þá verður möguleiki á að skoða flugvélakost skólans. Allir velkomnir.

Fjölskyldufjör í vetrarfríinu í Skagafirði hjá Byggðasafni Skagfirðinga

Fimmtudaginn 7. mars verður fjölskyldufjör hjá Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ, í tilefni af vetrarfríi Grunnskólanna í Skagafirði. Farið verður í ratleik um safnasvæðið, völuspá verður í gamla bænum og sýndarveruleikasýningin „Menning, tunga og tímagöng til 1918“ verður í Gilsstofu.  Dagskráin verður frá kl. 14-16. Frítt verður á safnið fyrir fullorðna í fylgd með börnum.

Í sýndarveruleikasýningunni gefst gestum kostur á því að skyggnast inn í íslenskan veruleika ársins 1918 með aðstoð 360° sýndarveruleikagleraugna og fræðast á lifandi hátt um samgöngur, verslun og viðskipti, um landbúnað og sjósókn en einnig um torfbæina, sem voru bæði heimili og vinnustaður fólks árið 1918.  Sýninguna vann Árni Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður hjá Skotta Film.

Klukkan 14:30 verður hægt að taka þátt í skemmtilegum og fróðlegum ratleik fyrir fjölskylduna sem leiðir gesti safnsins um safnasvæðið. Þá verður einnig völuspá í gamla bænum.

Í Áskaffi verður hægt að fá rjúkandi heitt súkkulaði og pönnuköku á tilboðsverði, á 500 krónur.

Heimild: skagafjordur.is