All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Málþing um unga fólkið á Akureyri

Miðvikudaginn 23. janúar kl. 17:00-19:00 verður haldið málþing um stöðu unga fólksins á Akureyri í Menningarhúsinu Hofi.  Þar kynnir Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur frá Rannsóknum og greiningu, niðurstöður rannsóknarinnar “Ungt fólk á Akureyri”. Lögreglan kynnir starf sitt í málaflokkum sem snerta ungmenni og Jón Áki Jensson, geðlæknir hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri, flytur erindi um orsakir og afleiðingar vímuefnanotkunar.

Pallborðsumræður verða að loknum erindunum.

Ungmenni, foreldrar, fagfólk og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta.

Samsýning í Segli 67 á Siglufirði

Síðastliðnar tvær vikur hafa útskriftarnemendur við myndlistardeild Listaháskóla Íslands dvalið á vegum Alþýðuhússins á Siglufirði.

Nemendurnir hafa starfað undir handleiðslu Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur og Sindra Leifssonar ásamt því að hafa kynnst heimamönnum og menningarstarfsemi í Siglufirði og Eyjafirði. Allir eru hjartanlega velkomnir á samsýningu þeirra Suðsuðves í Segli 67 á Siglufirði, þar sem sýndur verður afrakstur síðustu vikna. Opnun Suðsuðves fer fram milli 15:00 og 18:00 laugardaginn 26. janúar en sýningin mun jafnframt standa opin sunnudaginn 27. janúar frá 14:00 til 17:00.

Listamenn sem sýna eru:
Anna Margrét Ólafsdóttir, Bernharð Þórsson, Harpa Dís Hákonardóttir , Hákon Bragason, Helena Margrét Jónsdóttir, Hildur Elísa Jónsdóttir, Hjördís Gréta Guðmundsdóttir, Jóhann Ingi Skúlason, Jóhanna Rakel, Katla Rúnarsdóttir, María Rún Þrándardóttir, Nína Kristín Guðmundsdóttir, Ólöf Björk Ingólfsdóttir, Óskar Þór Ámundason, Patricia Carolina, Salka Rósinkranz, Sigrún Erna Sigurðardóttir og Valey Sól.

Styrktar- og samstarfsaðilar Listaháskóla Íslands eru Alþýðuhúsið á Siglufirði, Herhúsið, Aðalbakarí, Fjallabyggð, Húsasmiðjan, Kjörbúðin, Norðurorka, Ramminn hf., Segull 67, Torgið og Uppbyggingasjóður Eyþings.

32 karlar og 13 konur án atvinnu í Fjallabyggð

Í lok desember 2018 voru alls 45 án atvinnu í Fjallabyggð og jókst um 12 manns frá nóvember 2018.  Alls eru nú 32 karlar og 13 konur án atvinnu í Fjallabyggð og hefur ekki verið hærra hlutfall síðan í febrúar 2018 þegar 50 voru án atvinnu.  Þetta má sjá í gögnum frá Vinnumálastofnun.

Í Dalvíkurbyggð voru 23 án atvinnu í desember 2018, á Akureyri voru 263 án atvinnu og 26 voru án atvinnu í Sveitarfélaginu Skagafirði.

Undankeppni söngkeppni Samfés haldin í Fjallabyggð

NorðurOrg sem er undankeppni félagsmiðstöðva á Norðurlandi fyrir Samfés, verður haldin í Fjallabyggð föstudaginn 25. janúar næstkomandi.  Viðburðurinn verður haldinn í Íþróttahúsinu í Ólafsfirði og hefst keppnin kl. 19:00 en húsið opnar 18:30.  Ball verður haldið eftir að keppni lýkur.  Búast má við 350-500 unglingum á viðburðinn.  NorðurOrg var haldið á Sauðárkróki fyrir ári síðan.

 

Leikhópurinn Lotta sýnir Rauðhettu í Ólafsfirði

Leikhópurinn Lotta sýnir Rauðhettu í Ólafsfirði, í Menningarhúsinu Tjarnarborg fimmtudaginn 31. janúar. Sýningin hefst klukkan 17.30.
Stórskemmtilegur söngleikur fyrir alla fjölskylduna með Rauðhettu og úlfinum, Hans og Grétu og grísunum þremur. Frumleg ævintýrablanda í boði Lottu sem hefur hlotið frábærar viðtökur.

Miðasala er á Tix.is, og kostar miðinn 2900 kr.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins með viðtalstíma

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð hafa ákveðið að hafa viðtalstíma einu sinni í mánuði í Fjallabyggð, þar sem íbúum gefst kostur á að koma og spjalla við bæjarfulltrúa.

Fyrsti viðtalstíminn er á morgun, mánudaginn 21. janúar í Ráðhúsi Fjallabyggðar á Siglufirði frá kl 16:30 – 17:30 en þar verða bæjarfulltrúarnir Helga Helgadóttir, S.Guðrún Hauksdóttir og Tómas Atli Einarsson. Íbúar eru hvattir til að koma í spjall.

Í næstu viku verður viðtalstími í Ólafsfirði.

Glæsileg kynningarmyndbönd um Dalvíkurbyggð

Dalvíkurbyggð hefur gefið út kynningarmyndbönd fyrir sveitarfélagið í samvinnu við Hype auglýsingastofu. Myndböndin eru alls þrjú og er markmið þeirra að kynna Dalvíkurbyggð og hvetja fólk til að skoða sveitarfélagið sem góðan kost til búsetu.
Í myndbandinu segja íbúar frá sinni upplifun á Dalvíkurbyggð og sýnt er frá umhverfinu í kring sem hefur að geyma fjölbreytta náttúru og dýralíf.

Blakfélag Fjallabyggðar heimsótti Vestra á Ísafirði

Karla- og kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mættu liði Vestra í dag í íþróttahúsinu Torfnesi á Ísafirði. Leikur karlanna hófst á undan en lið Vestra er á toppi deildarinnar og er með betri liðum í deildinni. Lið BF mætti frekar þunnskipað til leiks og var enginn varamaður í hópnum og vantaði meðal annars Marcin og Daníel Pétursson.

Karlaliðið

Heimamenn í Vestra byrjuðu leikinn betur og komust í 4-1 þegar BF tók leikhlé. Vestri komst í 8-2 en þá kom góður kafli hjá BF sem skoruðu sex stig í röð og jöfnuðu leikinn í 8-8. Vestri skreið áfram fram úr og komst í 16-10 og 20-13. Svo fór að heimamenn kláruðu hrinuna 25-19.

Í annari hrinu byrjaði BF kröftulega og gáfu allt í leikinn og komust í 0-4 og 4-8. Í stöðunni 7-10 kom góður kafli hjá Vestra sem skoraði sex stig í röð og breyttu stöðunni í 13-10. BF skoraði þá fjögur stig í röð og komust yfir 13-14. Liðin héldu áfram að skiptast á að skora nokkur stig í röð og 17-14 og 19-15 fyrir Vestra, en þá skoraði BF næstu fjögur stigin og staðan 19-19. Heimamenn voru sterkari á endasprettinum og unnu 25-21 og voru komnir í 2-0.

Í þriðju hrinu voru BF sterkara liðið og leiddu nánast alla hrinuna. Staðan var 2-4 og 3-7 í upphafi leiks. BF leiddi áfram 7-12 og 10-14 en þá beit Vestri frá sér og minnkaði muninn í 13-14 og tók þá BF leikhlé. BF gáfu ekkert eftir og komust í 14-18 og 18-22. BF var nú sterkara í lok hrinunnar og unnu 18-25 og staðan orðin 2-1.

Fjórða hrinan var frekar jöfn en Vestri leiddi þó nánast alla hrinuna en komst aldrei langt á undan BF. Staðan var 2-3 fyrir BF í upphafi hrinunnar og var það í eina skipti sem þeir komust yfir í hrinunni.  Vestri komst í 6-4 og 9-5 og tók þá BF leikhlé. Vestri leiddi áfram og var staðan fljótlega 13-9 og 17-12. BF gékk erfiðlega að minnka forskotið í seinna hluta hrinunnar og var forskotið öruggt. Vestri komust í 22-17 og gerðu síðustu þrjú stigin og kláruðu leikinn 25-17 og unnu 3-1.

Kvennaliðið

Kvennaliðinu gekk ekki vel í sínum leik en Vestri var með talsvert sterkara lið. BF stelpurnar byrjuðu þó fyrstu hrinuna af krafti og komust í 0-4 og 1-5 en þá tók Vestri yfirhöndina og komu af miklum krafti til baka. Vestri breytti stöðunni í 10-5 og tóku BF stelpurnar tvö leikhlé með stuttu millibili á þessum leikkafla. Yfirburðir Vestra voru miklir til loka hrinunnar og komust í 16-7 og 21-8. Lokatölur í fyrstu hrinunni voru 25-9 fyrir Vestra.

Í annari hrinu var leikurinn aðeins jafnari í upphafi en Vestri tók svo öll völd eftir sem leið á hrinuna. Vestri komst í 6-2 og 12-6 og erfiðlega gekk fyrir BF að sækja stigin. Staðan var 16-8 og 19-9 og loks 23-11. BF skoraði þá fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 23-15. Vestri vann þó hrinuna 25-16 og voru komnar í 2-0.

Þriðjan hrinan var líka hálfgerð einstefna og byrjuðu Vestra stelpur vel kom komust í 3-0 og 6-3. Í stöðunni 7-5 tók Vestri aftur afgerandi forystu og komust í 16-6. BF stelpur skoruðu þá fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 16-10. Vestri átti næstu fjögur stig og var það staðan orðin erfið fyrir BF, 20-10.  BF stelpur komust þó í 23-15 en hrinunni lauk 25-15 og 3-0 fyrir heimakonur.

 

Amanda Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2018

Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2018 er Amanda Guðrún Bjarnadóttir, kylfingur hjá Golfklúbbnum Hamri Dalvík.  Tilnefndir til Íþróttamanns Dalvíkurbyggðar 2018 voru þau Andrea Björk Birkisdóttir (skíði), Amanda Guðrún Bjarnadóttir (golf), Ingvi Örn Friðriksson (kraflyftingar), Snorri Eldjárn Hauksson (knattspyrna), Svavar Örn Hreiðarsson (hestar) og Viktor Hugi Júlíusson (frjálsar).

Ástæða tilnefningar frá GHD var rökstudd með eftirfarandi hætti:

Amanda Guðrún hefur á síðustu árum verið fremst í sínum aldursflokki á Íslandsbankamótaröðinni og alltaf bætt sig á milli ára. Í ár dreifði hún álaginu betur í samráði við þjálfara sinn með því að leggja áherslu á stærstu mót hvorrar mótaraðar, Íslandsbanka og Eimskips, en fórnaði þess í stað möguleikanum á að verja stigameistaratitil sinn á Íslandsbankamótaröðinni.  Hún mætir mjög vel á æfingar og leggur sig ávallt 100% fram við þau verkefni sem fyrir hana eru lögð á æfingum og í keppni. Hún aðstoðar við þjálfun yngri kynslóðarinnar á sumrin, gerir það vel og er þeim mjög góð fyrirmynd. Amanda stefnir enn lengra í íþrótt sinni og leggur hart að sér við æfingar til að svo megi verða.

Árangur:

Íslandsbankamótaröðin:

 • Íslandsmeistari í höggleik í flokki stúlkna 17 – 18 ára
 • Íslandsmeistari í holukeppni í flokki stúlkna 17 – 18 ára

(eini kylfingurinn sem hampaði báðum titlunum í ár)

 • 12. sæti á Íslandsmóti fullorðinna í höggleik
 • Hársbreidd frá 8 manna úrslitum á Íslandsmóti fullorðinna í holukeppni. Var jöfn að stigum en með færri unnar holur.
 • Besti árangur á Eimskipsmótaröðinni, mótaröð þeirra bestu, var í 4. sæti.
 • Stigameistari á Norðurlandsmótaröðinni í flokki stúlkna 18 – 21 árs.
 • Valin í kvennalandsliðshóp fyrir 2019

 

Aðrir titlar / sigrar / mót

 • 14. sæti á stigalista Eimskipsmótaraðarinnar. Lék aðeins á 4 mótum af 6.
 • Lék með U18 landsliði Íslands á Evrópumóti stúlknalandsliða U18 í Kungsbacka í Svíþjóð.
 • European Spring Junior, Murcia Spáni. 9 sæti í flokki stúlkna 17 – 18 ára.
 • Finnish Amateur Championship, Helsinki Finnlandi. 18. sæti í kvennaflokki.

Heimild: dalvik.is

KF tapaði stórt gegn Tindastóli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Tindastóll mættust í B-deild Kjarnafæðismótsins í Boganum á Akureyri, seint í gærkvöldi. KF tapaði 0-4 fyrir Höttur/Huginn í síðasta leik og Tindastóll gerði jafntefli við Þór-2.  Búist var við hörku leik eins og oftast er þegar þessi nágrannafélög mætast. Það voru hins vegar Stólarnir sem áttu leikinn og kom fyrst mark þeirra á 33. mínútu þegar Benjamín Gunnlaugsson skoraði og kom Tindastóli í 0-1, og þannig var staðan í hálfleik. Þegar um 10 mínútur voru eftir að leiknum opnuðust flóðgáttir og Stólarnir gengu á lagið. Benjamín kom Tindastól í 0-2 á 80. mínútu og fjórum mínútum síðar skoraði hann sitt þriðja mark, staðan 0-3. Eftir þetta mark skiptir KF um markmann og aðeins mínútu síðar kemur fjórða mark Stólanna og gerði það varamaðurinn Jóhann Gíslason. Á lokamínútu leiksins kom fimmta og síðaasta mark Stólanna, en það  gerði Jón Gylfi Jónsson. Lokatölur 0-5 fyrir Tindastól.

Tindastóll var með nýjan þjálfara í brúnni í þessum leik, en Yngvi Borgþórsson var ráðinn þjálfari liðsins fyrir skömmu. Þrír ungir leikmenn KA voru á reynslu hjá KF í þessum leik og voru þeir allir í byrjunarliðinu.

Ráðinn framkvæmdastjóri Menningarfélagsins Bergs

Dagur Óskarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Menningarfélagsins Bergs.  Alls bárust fimm umsóknir um starfið og ákvað stjórn Menningarfélagsins að ganga til samninga við Dag.  Dagur mun hefja störf 1. mars næstkomandi.

Dagur lauk stúdentsprófi af raungreinadeild Verkmenntaskólans á Akureyri árið 1998. Hann stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri árið 2003 – 2005 í fornáms- og  fagurlistadeild. Hann lauk BA prófi frá Listaháskóla Íslands úr Hönnunar og arkitektúradeild í vöruhönnun 2008 og diploma við Listaháskóla Íslands við listkennsludeild árið 2010.  Síðan þá hefur Dagur starfað hjá Sæplast Iceland ehf. við vöruhönnun og verkefnisstjóri þróunar og vöruhönnunarverkefna.

Meðfram námi starfaði Dagur m.a. sem kennari og vöruhönnuður og vann m.a. við uppsetningu sýninga og aðstoð við listamenn við uppsetningar sýninga og frágang verka. Þá hefur hann átt verk á mörgum sýningum. Dagur stundar nú APME nám í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík.

 

Heimild: dalvik.is

Samið um sérfræðiráðgjöf fyrir Grunnskóla Fjallabyggðar

Samningur hefur verið gerður við Tröppu ráðgjöf ehf. um sérfræðiráðgjöf við Grunnskóla Fjallabyggðar. Megin áhersla ráðgjafarinnar er framkvæmd á skólastefnu sveitarfélagsins og endurgerð á skólanámaskrá, sýn og stefnu grunnskólans með það fyrir augum að í daglegu starfi skólans endurspeglist starf í anda nýrrar fræðslustefnu Fjallabyggðar, núgildandi aðalnámskrár og ríkjandi menntastefnu í landinu – menntun án aðgreiningar. Í samkomulagi Tröppu ráðgjafar og Fjallabyggðar verður unnið eftir sýn um framúrskarandi skóla þar sem gert er ráð fyrir að ná árangri umfram væntingar. Áhersla verður lögð á fjölbreytta kennsluhætti.

Síðastliðinn mánudag var haldinn kynningarfundur þar sem Kristrún Lind Birgisdóttir og Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson ráðgjafar frá Tröppu ráðgjöf ehf. kynntu vinnuna framundan fyrir fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar og fulltrúum foreldra og kennara í nefndinni, bæjarfulltrúum, stjórn foreldrafélags grunnskólans og skólaráði grunnskólans.

Vinna með starfsmönnum grunnskólans hefst í febrúar og í kjölfarið verður haldinn opinn kynningarfundur fyrir foreldra.

Heimild: Fjallabyggð.is

Fundur um eflingu innanlandsflugs og uppbygging flugvalla

Fundur um eflingu innanlandsflugs og uppbyggingu flugvalla verður haldinn í Ráðhúsi Fjallabyggðar, laugardaginn 26. janúar kl. 11:00.  Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður í Norðausturkjördæmi mun gera grein fyrir skýrslu starfshóps og tillögum um niðurgreiðslu flugfargjalda samkvæmt hinni svokölluðu skosku leið og uppbyggingu flugvalla.

Allir eru velkomnir á fundinn í sal Ráðhúss Fjallabyggðar.

Auglýst eftir forstjóra Barnaverndarstofu

Starf forstjóra Barnaverndarstofu hefur verið auglýst laust til umsóknar og er umsóknarfrestur til 28. janúar 2019. Forstjóri Barnaverndarstofu stýrir starfi stofnunarinnar og heyrir undir félags- og barnamálaráðherra.  Barnaverndarstofa vinnur að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og er ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum. Hún hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknastarf á sviði barnaverndar. Barnaverndarstofa hefur með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu. Enn fremur hefur Barnaverndarstofa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda. Barnaverndarstofa annast leyfisveitingar til fósturforeldra, tekur ákvarðanir og veitir barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum, fer með yfirstjórn heimila og stofnana sem ríkinu ber að sjá til að séu tiltæk og hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót. Stofan hefur yfirumsjón með vistun barna á þessum heimilum og stofnunum.

Félagsmálaráðuneytið vinnur nú að heildarendurskoðun á barnaverndarlöggjöf og framkvæmd þjónustunnar við börn og geta breytingar orðið sem hafa áhrif á starfsemi Barnaverndarstofu.

Félags- og barnamálaráðherra skip­ar for­stjóra Barnaverndastofu til fimm ára í senn. Bragi Guðbrandsson lét af starfi forstjóra í febrúar í fyrra eftir að hafa tekið sæti í Barna­rétt­ar­nefnd Sam­einuðu þjóðanna fyr­ir Íslands hönd og tekið að sér sérverkefni á vegum velferðarráðuneytisins. Staðgengill hans, Heiða Björg Pálma­dótt­ir, hefur gegnt starfi forstjóra Barnaverndarstofu tímabundið.

Heimild: stjornarrad.is

Unnið að framkvæmd byggðaáætlunar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinnur í nánu samstarfi við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál, landshlutasamtök sveitarfélaga og fleiri aðila að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018 til 2024.   Áætlunin lýsir stefnu ríkisins í byggðamálum og er ætlað að stuðla að jákvæðri þróun byggða um land allt og bæta skilyrði til búsetu.  Meginmarkmið hennar er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla er lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

54 aðgerðir byggðaáætlunar
Margvíslegar áherslur á sviði byggðamála eru tíundaðar í áætluninni sem ýmist leiða til beinna aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að framangreindum markmiðum verði náð. Alls inniheldur áætlunin 54 aðgerðir og verða 30 þeirra fjármagnaðar af byggðalið fjárlaga, samtals að upphæð 3,5 milljarðar á tímabilinu.

Fyrir liggur að kostnaður við áætlunina verður umtalsvert meiri en það fjármagn sem kemur af byggðalið fjárlaga. Með samþættingu við aðrar opinberar áætlanir verður hægt að fjármagna aðgerðir, ýmist af fjárheimild viðkomandi málaflokks eingöngu eða með samfjármögnun málaflokksins og byggðaliðar. Þá eru nokkrar aðgerðir þar sem ekki er gert ráð fyrir verulegum kostnaði.

160 milljónum úthlutað úr samkeppnissjóðum
Til að tryggja jafnræði, hlutlægni, gagnsæis og samkeppnissjónarmiða við úthlutun og umsýslu styrkja og framlaga úr byggðaáætlun gaf ráðherra út sérstakar reglur í ágúst 2018. Reglurnar kveða meðal annars á um að ráðherra upplýsi árlega um skiptingu fjárheimilda til byggðaáætlunar og annarra byggðatengdra verkefna. Upplýsingarnar nái bæði til skuldbundinna framlaga en einnig styrkja og framlaga sem ráðherra úthlutar að undangengnu umsóknarferli. Þá fjalla reglurnar um hvernig standa skuli á auglýsingum um styrki og framlög, úthlutunarskilmálum og annarri framkvæmd styrkveitinga.

Sérstök valnefnd hefur verið skipuð sem annast mat á umsóknum um styrki á grundvelli byggðaáætlunar, en hana skipa þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Magnús Karel Hannesson, fv. starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, sem var formaður. Með valnefnd starfa Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu og Sigríður K. Þorgrímsdóttir, sérfræðingur hjá Byggðastofnun.

Á árinu 2018 var auglýst eftir umsóknum um styrki vegna þriggja aðgerða byggðaáætlunar þ.e. sértækra verkefna sóknaráætlana, fjarvinnslustöðva og verslunar í strjálbýli. Alls var úthlutað 160 m.kr. til 19 verkefna á grundvelli aðgerðanna þriggja.

Unnið er skipulega að framkvæmd annarra aðgerða byggðaáætlunar, svo sem stuðningi við brothættar byggðir, fjarheilbrigðisþjónustu og Ísland ljóstengt, en 230 m.kr. runnu til þessara verkefna á síðasta ári úr byggðaáætlun.

Skipting fjárheimilda 2019 og nýjar auglýsingar
Á næstu dögum mun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra birta yfirlit yfir skiptingu fjármuna byggðaáætlunar eftir aðgerðum og einstökum verkefnum á sviði byggðamála, á grundvelli framangreindra reglna og með vísan til fjárheimilda.

Heimild: stjornarrad.is

Kraftajötnar íþróttamenn Akureyrar 2018

Kjöri íþróttamanns Akureyrar 2018 var lýst við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi í gærkvöldi. Þetta var í fertugasta skipti sem íþróttamaður Akureyrar er heiðraður.  Alls hlutu 13 íþróttakonur og 15 íþróttakarlar úr röðum aðildarfélaga ÍBA atkvæði til kjörsins.  Frístundaráð Akureyrarbæjar veitti viðurkenningar fyrir Íslandsmeistaratitla og sérstakar heiðursviðurkenningar auk þess sem Afrekssjóður Akureyrarbæjar veitti afreksstyrki og aðildarfélögum styrki fyrir landsliðsmenn.

Íþróttakona Akureyrar 2018 var kjörin Hulda B. Waage úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar. Í 2. sæti varð Silvía Rán Björgvinsdóttir íshokkíkona úr Skautafélagi Akureyrar og í 3. sæti varð Martha Hermannsdóttir handknattleikskona úr KA/Þór.

Á árinu 2018 varð Hulda Íslands- og bikarmeistari í kraftlyftingum og bekkpress auk þess að setja fjölmörg Íslandsmet. Hulda var stigahæsta kraftlyftingarkona árisns 2018 og stigahæsta kona ársins í samanlögðu, bekkpressu og hnébeygju. Hulda, sem var valinn Kraflyftingarkona ársins 2018 af ÍSÍ, er stigahæsta kraftlyftingarkona Íslands frá upphafi. Árið 2018 var Hulda í 12. sæti á lista evrópska Kraftlyfingarsambandsins og 19. sæti í -84 kg flokki á á lista Alþjóðlega Kraftlyftingarsambandsins. Hulda lenti í 8. sæti í -84 kg flokki á Evrópumótinu í kraftlyftingum og 4. sæti í -84 kg flokki á Western European Championship í kraftlyftingum 2018. Á árinu 2018 náði Hulda mest að lyfta 230 kg í hnébeygju. 147,5 kg í bekkpressu, 180 kg í réttstöðulyftu og 550 kg í samanlögðu.

Íþróttakarl Akureyrar 2018 var kjörinn Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar.  Í 2. sæti varð Filip Szewczyk blakmaður úr KA og í 3. sæti varð Alexander Hinriksson júdómaður úr KA.

Á árinu 2018 varð Viktor Íslandsmeistari í kraftlyftingum og bekkpressu auk þess að setja fjölmörg Íslandsmet. Viktor var stigahæsti karl ársins í samanlögðu, bekkpressu og hnébeygju, stigahæsti kraftlyftingarmaður ársins 2018 og er um leið stigahæsti kraftlyftingarmaður Íslands frá upphafi. Viktor lenti í 4. sæti í -120 kg flokki á Evrópumótinu í kraftlyftingum 2018 og 3. sæti í -120 kg flokki á Western European Championship í kraftlyftingum. Á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum lenti Viktor í 8. sæti í -120 kg flokki. Árið 2018 var Viktor í 4. sæti á lista evrópska kraftlyftingarsambandsins og í 8. sæti á lista Alþjóplega Kraftlyftingarsambandsins í -120 kg flokki. Á árinu 2018 náði Viktor mest að lyfta 387,5 kg í hnébeygju. 307,5 kg í bekkpressu, 322,5 kg í réttstöðulyftu og 1010 kg í samanlögðu.

Heiðursviðurkenningar frístundaráðs hlutu þau Árni Óðinsson fv. formaður Þórs og Hrefna G. Torfadóttir fv. formaður KA, bæði fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta- og félagsmála á Akureyri.

Frístundaráð veitti viðurkenningar til 15 aðildarfélaga vegna 190 Íslandsmeistara á síðasta ári og Afrekssjóður veitti 16 einstaklingum afreksstyrki fyrir samtals rúmar 4 milljónir og 11 aðildarfélögum 1 milljón í styrki vegna 108 landsliðsmanna árið 2018.

Heimild: akureyri.is

Skíðasvæðið í Skarðsdal opnaði aftur

Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði opnaði loksins aftur í dag eftir að hafa verið lokað í tæplega 4 vikur, en síðasti opnunardagur var á Þorláksmessu. Veður hefur verið óhagstætt, mikil hlýindi og ekki næg snjókoma fyrr en undanfarna daga. Tvær lyftur voru opnaðar í dag og verða allar lyftur opnar um næstkomandi helgi.  Nú er rétta tækifærið til að drífa sig á skíði í paradísinni á Siglufirði.

Ferðasýningin Mannamót

Ferðaþjónustuaðilar frá öllu landinu fjölmenna nú í lok janúar til höfuðborgarinnar í sjötta skiptið til þess að taka þátt í ferðasýningunni Mannamóti. Mikill kraftur einkennir ferðaþjónustuna eins og áður og eru fyrirtæki frá landshlutunum 270 talsins en þeim fylgir hópur hátt í 400 einstaklinga sem munu taka á móti gestum sínum frá höfuðborgarsvæðinu og kynna fyrir þeim þjónustu, spennandi áfangastaði og ýmsar nýjungar. Mannamót hefur vaxið hratt frá því að vera lítil hugmynd um að búa til ákjósanlegan vettvang fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni til að kynna sig fyrir ferðaþjónustuaðilunum í Reykjavík, yfir í það að vera ein af lykilstoðum vaxtar og nýsköpunar í ferðaþjónustu. Á þessum vettvangi verða á hverju ári til gríðarlega mikil viðskipti, nýjar hugmyndir fæðast og samstarf verður til um ýmis verkefni. Tengsl styrkjast, auk þess að myndast á staðnum, enda er Mannamót frábær stökkpallur fyrir ný fyrirtæki inn í atvinnugreinina.

Sérstaða ferðaþjónustunnar á Íslandi felst í mannauðnum sem skapar eftirsótta þjónustu og vinnur sig í gegnum ýmsar áskoranir sem tengjast því að koma erlendum ferðamönnum á áfangastaðinn og heim aftur með frábæra upplifun í farteskinu. Undanfarin ár hefur ferðaþjónustan þurft að vinna hratt að því að þróa þjónustu sína og byggja upp innviði þar sem vöxtur í komum erlendra ferðamanna til Íslands hefur verið gríðarlega hraður. Mörg svæði hafa náð að byggja upp kröftuga ferðaþjónustu en í flestum landshlutum er enn mikil þörf á þróun og uppbyggingu, þar sem við höfum ekki náð að byggja upp heilsársferðaþjónustu um allt land. Síðastliðin ár hefur hvert svæði sett ákveðin verkefni í forgang sem nauðsynlegt er að vinna til að byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu um allt landið en þessi verkefni tengjast samgöngum, uppbyggingu og skipulagi við nátttúruperlur, fjármögnun innviða og nýsköpunar, markaðssetningu og upplýsingagjöf svo eitthvað sé nefnt. Þessi verkefni verða aðeins unnin í góðu samstarfi ríkis og fyrirtækja í ferðaþjónustu. Ef horft er til fjölda þátttakenda í Mannamóti þá er engan bilbug að finna á ferðaþjónustuaðilum og við getum áfram horft með bjartsýni til ferðaþjónustunnar sem einnar meginatvinnugreinar Íslendinga.

Texti: aðsent/Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands

Snjóflóðaeftirlitsmenn í Fjallabyggð vilja samning um nauðsynlegan búnað

Snjóflóðaeftirlitsmenn í Fjallabyggð hafa óskað eftir samningi við Fjallabyggð vegna kostnaðar við nauðsynlegan búnað sem sveitarfélögum er skylt að útvega samkvæmt reglugerð þar um og endurnýjun hans.

Málið var tekið fyrir á fundi Bæjarráðs Fjallabyggðar í gær og var á endanum vísað til frekari skoðunar hjá Gunnar Birgissyni bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar.

 

Snjór um víða veröld í Skarðsdal

Snjór um víða veröld er alþjóðlegur skíðadagur sem haldinn verður á Skíðasvæðinu í Skarðsdal, sunnudaginn 20. janúar kl. 13:00.

Allir eru hvattir að fara út að leika, skíði, bretti, þotur, sleðar ofl.  Foreldrar og börn leika saman í Skarðsdalnum, kennsla, skíðabúnaður, lyftumiðar fyrir alla frá kl 13:00 þennan dag, og svo allir í kakó og kökur.

Getraunaleikur Knattspyrnufélags Fjallabyggðar

Föstudaginn 18 .janúar hefur göngu sína nýr getraunaleikur Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í Ólafsfirði.
Getraunaþjónustan verður opin á föstudagskvöldum frá kl. 20:00-22:00 í Vallarhúsinu Ólafsfirði.

Bæði er keppt í einstaklingskeppni sem og liðakeppni.

Það er öllum velkomið að taka þátt hvar sem þeir eiga sína búsetu þar
sem hægt er að skila inn röðum á tölvupósti, símleiðis eða á staðnum.

Hvetjum alla til að taka þátt í skemmtilegum leik.

Frekari upplýsingar um leikinn er að finna hér:
https://kfbolti.is/2019/01/15/nyr-getraunaleikur/

Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar í Bergi

Kjöri á Íþróttamanni Dalvíkurbyggðar 2018 verður lýst við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Bergi fimmtudaginn 17. janúar 2019 kl. 17:00. Veittar verða viðurkenningar og tónlistaratriði verða frá Tónlistarskólanum á Tröllaskaga.

Dagskrá

 • 17:00 Gestir boðnir velkomnir með kaffi og kósýheitum
 • 17:10 Tónlistaratriði frá Tónlistarskólanum á Tröllaskaga
 • 17:15 Fulltrúi íþrótta- og æskulýðsráðs veitir viðurkenningar úr Afreks – og styrktarsjóði Dalvíkurbyggðar
 • 17:35 Tónlistaratriði frá Tónlistarskólanum á Tröllaskaga
 • 17:45 Heiðursviðukenning íþrótta- og æskulýðsráðs afhent
 • 17:55 Fulltrúi íþrótta- og æskulýðsráðs lýsir kjöri Íþróttamanns Dalvíkurbyggðar 2018
 • 18:30 Athöfn lokið

Allir velkomnir.

 

Heimild: dalvikurbyggd.is

Barnvænni skólalóð á Siglufirði

Lóð Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði hefur tekið miklum breytingum síðustu árin. Búið er að endurnýja stóran part lóðarinnar og eru nú mun öruggari og barnvænni tæki í boði fyrir nemendur og gesti. Áður fyrr var malbik yfir allri lóðinni, rólur og kastali og hættulegur brettapallur sem var tekinn fyrir nokkrum árum. Sparkvöllurinn hefur þó verið í nokkur ár og frábær afþreying.  Síðastliðið sumar og haust voru gerðar miklar endurbætur og er nú undirlagið við leiktækin úr gervigrasi sem dregur úr slysahættu við leik nemenda.

Endurbótum lýkur í vor þegar verður settur upp körfuboltavöllur.

 

Fagfjárfestingasjóður nýr hluthafi í Genís

Líftæknifyrirtækið Genís á Siglufirði hefur lokið fyrsta áfanga af fjármögnun til að styðja við frekari vöxt félagsins og mun TFII, fagfjárfestasjóður í rekstri Íslenskra verðbréfa, koma inn í félagið sem nýr hluthafi. GAMMA var ráðgjafi Genís við fjármögnunina.

Genís hf. er líftæknifyrirtæki á Siglufirði sem hefur að undanförnu lagt áherslu á að markaðssetja fæðubótarefnið Benecta hér á landi og erlendis. Hið nýja fjármagn verður meðal annars nýtt til að ráðast í næstu skref í þróun félagsins. Unnið er að framleiðslu á lyfjabæti sem er í klínískum prófunum. Þá hefur félagið lokið dýratilraunum með ígræðsluefni fyrir bein. Einnig er félagið með í undirbúningi þróun á líftæknilyfi byggðu á þekkingargrunni félagsins.

„Það er afar ánægjulegt að hafa náð að ljúka þessu fjármögnunarverkefni með Genís með svo farsælum hætti. Það verður spennandi að fylgjast með þessu öfluga félagi á komandi árum,“ segir Valdimar Ármann forstjóri GAMMA.

„Við hjá Genís fögnum því að hafa fengið nýjan og öflugan hluthafa til liðs við okkur. Við horfum jákvæðum augum til framtíðar og stefnum nú ótrauð á frekari sókn inn á erlenda markaði,“ segir Róbert Guðfinnsson, stofnandi og stjórnarformaður Genís.

Texti: fréttatilkynning/Gamma.is.

Menningarsjóður Akureyrarbæjar styrkir ungt listafólk

Stjórn Akureyrarstofu hefur samþykkt að í ár verði úthlutað 1-2 styrkjum úr Menningarsjóði Akureyrarbæjar til ungs og efnilegs listafólks á aldrinum 18- 25 ára sem er í framhaldsnámi eða á leið í framhaldsnám í sinni grein. Upphæð hvers styrks verði kr. 600.000. Markmiðið er aðviðkomandi geti dregið úr sumarvinnu með námi og þess í stað lagt stund á list sína bæði með æfingum og viðburðum.  Á mótistyrknum mun viðkomandi koma fram á viðburðum á sumarhátíðum bæjarins, allt eftir nánara samkomulagi við Akureyrarstofu hverju sinni.

Einnig hefur verið samþykkt að auglýst verði eftir umsóknum um tvo sérstaka styrki sem geta verið allt að 600 þús. hvor sem ætlaðir eru til stærri verkefna í tengslum við Jónsmessuhátíð, Listasumar eða Akureyrarvöku.

Ráðstefna um fiskeldi í Eyjafirði

Laugardaginn 19. janúar kl. 11:00 stendur Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar fyrir ráðstefnu í Hofi um áhrif fiskeldis í Eyjafirði.  Ráðstefnan verður upplýsandi samtal fræðasamfélagsins og almennings um fiskeldi sem fræðigrein og atvinnugrein. Léttur hádegisverður.  Allir velkomnir.

Dagskrá:
▪ Haffræði Eyjafjarðar,  Steingrímur Jónsson (Hafrannsóknarstofnun og Háskólinn á Akureyri)
▪ Umhverfismál fiskeldis: Almennt yfirlit,  Stefán Óli Steingrímsson (Háskólinn á Hólum)
▪ Laxeldi,  Þorleifur Ágústsson (NORCE)
▪ Áhrif fiskeldis á lífríki Eyjafjarðar,  Þorleifur Eiríksson (RORUM)
▪ Áhætta erfðablöndunar og mótvægisaðgerðir,  Ragnar Jóhannsson (Hafrannsóknarstofnun)
▪ Áhrif fiskeldis á sjálfbærni og seiglu samfélaga,  Anna Guðrún Edvardsdóttir (RORUM)
▪ Valkostir í fiskeldi við Eyjafjörð,  Helgi Thorarensen (Háskólinn á Hólum)

Umræður og fyrirspurnir.

Auglýst eftir safnverði í Dalvíkurbyggð

Dalvíkurbyggð leitar að starfsmanni í 100 % starf sem skiptist niður á söfn Dalvíkurbyggðar, þ.e. bókasafn, héraðsskjalasafn og byggðasafn. Um er að ræða tímabundna ráðningu í allt að 11 mánuði. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.  Umsóknafrestur er til 20. janúar 2019. Nánari upplýsingar má finna á vef Dalvíkurbyggðar.

Frekari upplýsingar veitir Björk Hólm Þorsteinsdóttir, forstöðumaður safna í Dalvíkurbyggð í síma: 460-4931 / 8483248 eða á netfanginu: bjork@dalvikurbyggd.is

KF tapaði fyrsta leik ársins

KF lék sinn annan leik á Kjarnafæðismótinu í dag gegn sameiginlegu liði Hattar/Hugins frá Austurlandi. Leikið var á Akureyri í Boganum. Bæði lið höfðu leikið einn leik á mótinu og voru taplaus fyrir leikinn.

Höttur/Huginn var mun sterkara liðið í þessum leik og nýtti vel færin.  Fyrsta mark leikins kom á 27. mínútu og var það Höttur/Huginn sem það gerði. Staðan var 0-1 í hálfleik, en í upphafi síðari hálfleiks þá gerði Höttur/Huginn tvö mörk og kláruðu leikinn. Fjórða mark þeirra kom þegar tæplega 20 mínútur voru eftir af leiknum, en lokatölur urðu 0-4 fyrir strákana á Austurlandi.

KF spilaði á sínum heimamönnum auk tveggja ungra leikmanna sem eru á reynslu hjá félaginu, sem fengu að sína sig í þessum leik.

Næsti leikur KF er gegn Tindastóli, föstudaginn 18. janúar kl. 21:00.