All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Skólahald í Fjallabyggð með eðlilegum hætti fimmtudaginn 12. desember

Skólahald verður með eðlilegum hætti í leik- og grunnskólum Fjallabyggðar á morgun fimmtudaginn 12. desember, að því gefnu að rafmagn verði í lagi.

Eru foreldrar- og forráðamenn barna beðnir um að fylgjast vel með fréttum af fyrirhuguðu skólastarfi en sendur verður tölvupóstur og smáskilaboð (sms) á alla foreldra- og forráðamenn klukkan 7:00 í fyrramálið.

Tjón á mannvirkjum í Grímsey

Talsvert tjón hefur orðið í Grímsey í óveðrinu sem nú gengur yfir. Klæðning er fokin af húsi útgerðarinnar Sæbjargar að hluta, landgangur á flotbryggju við höfnina er fokinn út í veður og vind, og grindverk og girðingar hafa víða brotnað eða lagst niður í vindinum.

Það fer þó vel um fólk í eyjunni og það nýtur þess að hafa rafmagn enda gengur nýja díselstöðin eins og klukka og hefur strax sannað gildi sitt.

Heimild: akureyri.is

Skólahald á Akureyri með eðlilegum hætti á fimmtudag

Skólahald verður í öllum skólum Akureyrarbæjar á morgun, fimmtudaginn 12. desember, samkvæmt dagskrá.

Veðrið virðist ganga hægar niður en spáð var og því hefur gengið heldur hægt að hreinsa götur á Akureyri. Framkvæmdamiðstöð reiknar með að moka fram á kvöld og hefja mokstur aftur kl. 4 í fyrramálið. Veðurspáin hljóðar upp á 13-18 m/s og él.

Búast má við að hluti starfsfólks eigi í erfiðleikum með að komast til vinnu í fyrramálið og að öll umferð gangi hægar fyrir sig en venjulega.

Foreldrar skulu sjálfir meta aðstæður og ef erfitt er að koma til skóla strax í fyrramálið munu skólastjórnendur sýna því skilning. Þó er eindregið óskað eftir því að starfsfólk viðkomandi skóla sé látið vita að börnin séu á öruggum stað.

Heimild: akureyri.is

Þakplötur og brak úr húsum fuku í nótt á Ólafsfirði

Í Ólafsfirði voru þakplötur og brak úr tveimur húsum að fjúka í nótt. Félagar frá björgunarsveitinni Tindi í Ólafsfirði hafa gefið þessu auga en vegna veðurofsa var ekki hægt að koma við neinum aðgerðum til að fergja húsin eða hindra fok frá þeim. Þessi hús eru við Pálsbergsgötu og hús Norlandia. Brak frá þessum byggingum hefur fokið inn á Aðalgötu, Strandgötu, Kirkjuveg, Vesturgötu og fleiri götur undan veðrinu.

Björgunarsveitarmenn vilja vara sérstaklega við þessu og hvetja fólk til að vera mjög á varðbergi gagnvart þessu og alls ekki á ferðinni þar sem brak úr húsunum getur farið um.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá þessu í snemma morgun.

Mynd frá Guðmundur Ingi Bjarnason.
Mynd: Guðmundur Ingi Bjarnason

Tilkynning frá aðgerðarstjórn almannavarnarnefndar Skagafjarðar

Aðgerðarstjórn Almannavarnarnefndar Skagafjarðar vill benda íbúum og gestum svæðisins á að allir vegir á svæðinu eru lokaðir vegna ófærðar og slæms veðurs. Þá eru rafmagnslínur víða signar niður undir jörð vegna ísingar og dreifing raforku um svæðið ótrygg. Björgunarsveitafólk og viðbragðsaðilar hafa verið að störfum og unnið sleitulaust frá því í gærmorgun og hafa þurft að sinna fjölda aðstoðarbeiðna.

Beinir aðgerðarstjórn því til allra íbúa á svæðinu að enn er í gildi hættuástand almannavarna biður fólk að gæta varúðar og halda sig innandyra meðan ástandið varir og ekki vera á ferð utandyra nema nauðsyn krefji en gleyma þó ekki að huga að náunganum. Jafnframt beinir aðgerðarstjórn því til almennings að fara sparlega með rafmagn.

Tilkynning frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra

Í dag hafa verið fjölmörg verkefni viðbragðsaðila vegna veðurofsans sem að geysar nú um landið. Stærstu verkefnin eru vegna rafmagnsleysis og fjarskiptatruflana sem að er á stóru svæði. En búið er að vera rafmagnslaust í nokkurn tíma víðs vegar á svæðinu.

Viðkomandi aðilar vinna hörðum höndum í því verkefni en slíkt er tímafrekt vegna veðurs og mun vara í einhvern tíma. Erum ekki með nákvæman tíma hvað rafmagnsleysið mun vara lengi en það verður mismunandi eftir svæðum. Verið er að reyna koma upp einhverju rafmagni á Siglufirði til að hitamálin komist í eðlilegra horf. Einnig er víða mikil ófærð ennþá og því beinum við því að fólki að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

Björgunarsveitir og lögregla hafa verið að sinna því að koma heilbrigðisstarfsfólki í og úr vinnu til að sú þjónusta verði fyrir minnstu raski. 4G netkerfið var tekið niður á ákveðnum svæðum til að lengja líftíma símasenda sem að margir keyra á varaafli.

Þetta er gríðarstórt verkefni fyrir okkar samfélag og eru allir að leggjast á eitt til að tryggja öryggi og skila þessum stormi af landinu sem fyrst.

Tilkynning frá Fjallabyggð vegna rafmagnsleysis

Rafmagnstruflun er í gangi í landskerfinu á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði í dag og unnið við að byggja upp kerfið. Enn er óljóst hvenær rafmagn kemst á aftur í Fjallabyggð.

Heitt vatn er komið í öll hús í Ólafsfirði sem ekki eru með lokuð kerfi og komið er rafmagn á hitaveitudælur á Siglufirði. Íbúum er bent á að fara sparleg með heita vatnið eins og kostur er.

Ef íbúar þarfnast aðstoðar er þeim bent á að hafa samband við Björgunarsveitina Stráka á Siglufirði í síma 467-1801 eða Björgunarsveitina Tind í Ólafsfirði í síma 466-2050

Rauði Krossinn er einnig á vaktinni ef íbúar þurfa á þarf að halda. Síminn þar er 861-2268.

Tekin verður ákvörðun um skólahald á morgun seinna í dag.

Viljum við einnig biðla til íbúa að huga að nágrönnum sínum.

Fjallabyggð.

Afsláttur á vetrarkortum

Skíðadeild Tindastóls hefur sett í sölu vetrarkortin fyrir komandi vertíð og verða þau á 20% afslætti til 20. desember.

Það er um að gera að notfæra sér þetta frábæra tilboð, meðfylgjandi er einnig Norðurlandskortið sem gildir fyrir tvö skipti á skíðasvæðin í Hlíðarfjalli, Dalvík og Siglufirði.

  • Vetrarkort fyrir fullorðin 30.000 kr.
  • Vetrarkort fyrir börn 7 til 17 ára 15.000 kr.
  • Vetrarkort á gönguskíði 15.000 kr.

 

Óveður framundan á Húsavík – skólum lokað

Vegna veðurútlits nú í kvöld og næstu nótt er ljóst að það versta af veðrinu er framundan á Húsavík og í Þingeyjarsýslum. Úrkoma og kólnandi veður segir okkur það að reikna megi með mikilli ófærð bæði í dreifbýli og sérstaklega innanbæjar á Húsavík í fyrramálið.

Vegna þessa hafa Almannavarnir í héraði og fulltrúar Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra tekið undir með og ráðlagt skólastjórnendum Borgarhólsskóla og Grænuvalla á Húsavík að hafa skólana lokaða á morgun, miðvikudag og fólk sé því ekki að fara út í veðrið og ófærðina að óþörfu með börnin sín.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá þessu.

Almannavarnir hækka yfir á hættustig vegna aftakaveðurs

Ákvörðun á hækkun almannavarna yfir á hættustig vegna aftakaveðurs fyrir Strandir, N-vestra og N-eystra

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið í samráði við lögreglustjórana á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra að hækka viðbúnaðarstig af óvissustigi yfir á hættustig almannavarna vegna óveðurs í samráði við Veðurstofu Íslands . Almannavarnir áttu stöðufund með Veðurstofu Íslands og kom fram að veðrið væri ekki búið að ná hámarki en farið að hafa veruleg áhrif á samfélög þessara lögregluumdæma. Varðandi Vestfirði er aðallega um að ræða Strandir í takt við rauða viðvörun Veðurstofunnar. Búast má við áframhaldandi óveðri og ófærð auk þess sem er stórstreymt er þessa daganna. Við þessar aðstæður hefur myndast ísing á raflínum með tilfallandi rafmagnsleysi.

Skilgreining á hættustigi almannavarna:


Ef hættumat leiðir í ljós að hætta fer vaxandi verður að grípa til tafarlausra ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja. Slíkt er gert með því að efla viðbúnað neyðar- og öryggisþjónustunnar á viðkomandi svæði, ásamt því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða s.s. rýmingar, brottflutnings eða lokunar svæða. Einnig eru leiðbeiningar og viðvaranir einkennandi fyrir þetta stig (almannavarnir.is).

Stórhríð á norðanverðu landinu

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Mið-Norðurlandi. Snjóað hefur á Norðurlandi frá því snemma í morgun og enn er að bæta í úrkomu og vind.  Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli eru lokaðir vegna veðurs og snjóflóðahættu. Búast má við því að frekari snjóflóðahætta geti skapast í fjalllendi í Skagafirði, Tröllaskaga og austur fyrir Eyjafjörð.

Veðurstofa Íslands greinir frá þessu.

Skólahald á Akureyri féll niður eftir hádegið

Skólahald í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar féll niður frá kl. 13:00 í dag vegna veðurs. Sama gilti um Tónlistarskólann á Akureyri og framhaldsskólana, MA og VMA.

Spáð er aftakaveðri næsta sólarhringinn. Nú þegar er farið að hvessa og má búast við norðanstórhríð seinnipartinn og fram eftir degi á morgun.

Foreldrar voru beðnir um að sækja börn í skóla og frístund um hádegi.

Ferðir Strætisvagna Akureyrar falla niður

Allar ferðir Strætisvagna Akureyrar falla niður í kvöld og í fyrramálið vegna ofsaveðurs og ófærðar. Síðustu ferðir dagsins verða farnar á sjötta tímanum:

Leið 1 fer síðustu ferð frá Miðbæ klukkan 17:30
Leið 2 fer síðustu ferð frá Miðbæ klukkan 17:07
Leið 3 fer síðustu ferð frá Miðbæ klukkan 17:06
Leið 4 fer síðustu ferð frá Miðbæ klukkan 17:35
Leið 5 fer síðustu ferð frá Miðbæ klukkan 17:10
Leið 6 fer síðustu ferð frá Miðbæ klukkan 17:18

Í fyrramálið er gert ráð fyrir að það verði mikil ófærð Á Akureyri og ekkert ferðaveður og er því ekki gert ráð fyrir að farnar verði ferðir fyrir hádegi.

Skólahald fellur niður í Fjallabyggð á miðvikudag

Í ljósi spár um versnandi veður og aukna ofankomu hefur verið tekin ákvörðun um að skólahald leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla í Fjallabyggð falli niður á morgun miðvikudaginn 11. desember. Þá eru foreldrar hvattir til að ná í börn sín við fyrsta tækifæri í leikskólann í dag. Veðrið á enn eftir að versna ef spár ganga eftir og víst er að færð á eftir að þyngjast verulega. Opnun félagsmiðstöðvarinnar Neon fellur einnig niður á morgun miðvikudag.

Frá þessu er greint á vef Fjallabyggðar.

Ríkislögreglustjóri lýsir yfir óvissustigi á landinu

Ríkislögreglustjóri lýsir yfir óvissustigi á landinu þar sem spáð er aftakaveðri. Ákvörðunin er tekin í samráði við alla lögreglustjóra landsins og í samræmi við veðurspá Veðurstofu Íslands. Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað. Samráð á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið. Fylgist með frekari upplýsingum fra almannavörnum, á Facebook https://www.facebook.com/Almannavarnir/ um veðurspá á www.vedur.is, færð á vegum vegagerdin.is og upplýsingum á textavarpinu, www.textavarp.is

English The National Commissioner of the Icelandic Police in association with the District Commissioners in Iceland declares an uncertainty phase due to weather forecast from the Meteorological Office of a violent storm with hurricane force winds in all areas in Iceland Travel advisory for all areas is in effect. Uncertainty phase/level is characterized by an event which has already started and could lead to a threat to people, communities or the environment. At this stage the collaboration and coordination between the Civil Protection Authorities and stakeholders is elevated. More information on the weather forecast at the Meteorological Office website https://en.vedur.is/ and for road conditions http://www.road.is/ Follow the Civil Protection updates on Facebook /https://www.facebook.com/Almannavarnir/

Siglufjarðarvegi og Ólafsfjarðarmúla mögulega lokað

Vegna yfirvofandi óveðurs eftir hádegi á morgun þurfa vegfarendur að gera ráðstafanir í tíma.  Spáð er óvenju hvössu með stórhríð og miklu kófi frá Eyfjafirði og vestur á Snæfellsnes.

Á heimasíðu Vegagerðarinnar má sjá lista af vegum sem verða mögulega lokaðir á morgun.

Miðað við veðurspá gæti þurft að loka einhverjum vegum á meðan veðrið sem spáð er gengur yfir. Þeir vegir sem mestar líkur eru á að þurfi að loka eru í töflunni hér að neðan. Ef veðurspá breytist – eða aðrar aðstæður – verður tekið mið af því. Reynt verður eftir megni að halda aðalleiðum opnum.

Mögulegar lokanir á Norðurlandi:

Öxnadalsheiði, Ólafsfjarðarmúli, Siglufjarðarvegur, Þverárfjall, Vatnsskarð, Húnavatnssýslur og Holtavörðuheiði. Ítarlegri listi er á vef Vegagerðarinnar.

Íbúar hvattir til að huga að lausum munum

Í ljósi mjög slæmrar veðurspár næstu tvo daga eru íbúar Fjallabyggðar hvattir til að huga að lausum munum eins og sorptunnum. Einnig hefur tæknideild Fjallabyggðar hvatt íbúa til að vera ekki á ferðinni meira en nauðsyn krefur. Ef spár um ofankomu ganga eftir má búast við ófærð á Siglufirði og í Ólafsfirði.  Frá þessu er greint á vef Fjallabyggðar.

 

 

Kennsla fellur niður í MTR á þriðjudag og miðvikudag

Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur ákveðið að fella niður staðbundna kennslu þriðjudaginn 10. desember og miðvikudaginn 11. desember vegna alvarlegrar óveðurspár og fellur því hefðbundin kennsla niður. Nemendur læra heima og hafa samband við kennara á Moodle. Það verða starfsmenn úr Ólafsfirði í skólanum þannig að skólinn verður opinn.

Frá þessu er greint á vef MTR.is.

BF heimsótti Aftureldingu

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti Aftureldingu X í dag í Mosfellsbænum eftir að hafa unnið Grundfirðinga á laugardaginn. Búist var við erfiðum leik, en Afturelding er eitt af toppliðunum í deildinni.

BF stelpurnar byrjuðu fyrstu hrinuna feikilega vel og náðu sannfærandi forystu á tímabili og komust í 4-10 og tóku þá heimastelpurnar leikhlé. BF hélt áfram að skora og komst í 9-15 og 15-19 og aftur tóku Afturelding leikhlé. Afturelding náði góðum leikkafla og jafnaði metin í 21-21. BF tókst erfiðlega að klára hrinuna og heimakonur voru sterkari á lokamínútum hrinunnar og unnu 25-23 eftir frábæra frammistöðu BF í hrinunni, og virkilega sárt fyrir þær að tapa eftir góða spilamennsku.

Önnur hrina var algerlega eign BF og voru þær yfir allan tíman og höfðu á tímabili yfirburða forystu. Eftir jafnar upphafsmínútur þegar jafnt var á 3-3, 8-8 og 9-9 þá tók BF öll völd á vellinum. BF skoraði sex stig í röð og breyttu stöðunni í 9-15 og 10-20 og á þessum kafla tók þjálfari Aftureldingar tvö leikhlé, en það skilaði engu. BF vann hrinuna afar sannfærandi 11-25 og hafði mikla yfirburði.

Í þriðju hrinu byrjaði Afturelding betur og komst í 4-0 og 11-6 en BF minnkaði muninn í 12-10. Afturelding skoraði þá sex stig í röð og komust í 18-10 og í 20-13 en þá loksins kom frábær kafli hjá BF og minnkuðu muninn í 20-16. Mikil spenna var á lokamínútum hrinunnar og jafnaðist leikurinn verulega. Afturelding komst í 22-19 en BF jafnaði 23-23 og aftur var jafnt 25-25 og fór hrinan í upphækkun. Jafnt var í 27-27 og 28-28, en Afturelding braut ísinn og skoraði tvö stig í röð og komst í 30-28 og voru komnar í 2-1 og þurftu aðeins eina hrinu til viðbótar.

Í fjórðu hrinu höfðu heimakonur yfirhöndina alla hrinuna og komust í 4-0 og 9-4 en þá tók BF leikhlé. BF minnkaði muninn í 11-8 og 15-13 en Afturelding svaraði og náðu góðri forystu, 21-14 sem erfitt var að vinna upp.  Aftur tók BF leikhlé ogn náðu þær aðeins að ógna í lok hrinunnar og minnkuðu muninn í 23-19 en Afturelding kláraði hrinuna 25-19 og unni leikinn 3-1, sem var heilt yfir jafnt og spennandi og voru BF stelpur óheppnar að vinna ekki tvær hrinur í þessum leik.

Forsala vetrarkorta í Skarðsdal

Forsala vetrarkorts í Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði er hafin og stendur til 8. desember.  Fullorðinskort kosta kr 21.000.- í stað 26.000.- börn 11-17 ára kr 9.000.- í stað 11.000.- og framhalds/háskólanemar kr 13.000.- í stað 16.000.-, frítt er fyrir 10 ára og yngri (1-4 bekkur), eingöngu að kaupa plastkort ef þarf. Kortin eru til sölu í Aðalbakaríinu á Siglufirði og einnig er hægt að kaupa með því að leggja inn á reikning 348-26-1254 kt 640908-0680 og senda kvittun í tölvupóst á skard@simnet.is.

Tryggið ykkur kort á góða verðinu.

Jólatrésala Skógræktafélags Eyfirðinga

Skógræktarfélag Eyfirðinga býður fólki að höggva sín eigin jólatré í Laugalandsskógi á Þelamörk helgarnar 14. – 15. desember og 21. – 22. desember, kl. 11-15. Boðið er upp á ketilkaffi, kakó og piparkökur þegar draumatréð er fundið. Oft skapast skemmtileg útivistarstemmning á svæðinu og heimsókn á Þelamörkina er ómissandi fyrir margar fjölskyldur í aðdraganda jóla.

Jólatré kostar kr. 8.000 á tré óháð stærð, mest er um stafafuru en líka von um rauðgreni og blágreni. Einnig verður til sölu eldiviður, íslenskar jólagreinar, tröpputrén sívinsælu og mögulega handverk unnið úr skógunum.

 

BF vann sannfærandi sigur á Grundarfirði

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti til Grundarfjarðar í dag og lék við UMFG í Benecta-deildinni í blaki. Liðin mættust á Siglufirði fyrr í vetur og vann BF 3-1 sigur.

BF byrjaði vel og komst fljótlega í 4-8 og 8-14 og hafði liðið örugga forystu í hrinunni. UMFG tók leikhlé í stöðunni 10-19 enda staðan ekki góð fyrir liðið. BF kláraði hrinuna örugglega 12-25 og gat leyft sér að gera skiptingar á leikmönnum og dreifa álaginu en liðið mættu með 11 leikmenn í þennan leik.

BF hafði einnig góð tök á annarri hrinu og komst í 3-11 og 10-16. Grundfirðingar minnkuðu svo muninn og var staðan orðin 14-18 þegar BF tók leikhlé. BF gerði skiptingu og komst í 14-21 og kláruðu hrinuna af öryggi 16-25.

Þriðja hrinan var örlítið jafnari fyrstu mínúturnar en BF stelpurnar tóku fljótt völdin og komust í 4-9 og 7-18. UMFG tóku tvö leikhlé á þessum kafla en það skilaði engu í þeirra leik. BF vann hrinuna örugglega 14-25 og unnu þægilegan 0-3 útisigur í Grundarfirði.

BF er komið í 4. sæti eftir þennan frábæra sigur og hefur núna spilaði 11 leiki í deildinni en liðin fyrir ofan hafa sumhver spilað færri leiki. UMFG er neðst í deildinni og hafa aðeins unnið einn leik.

BF leikur gegn Aftureldingu-X í Mosfellsbæ á morgun kl. 13:00, og verður það síðasti leikur liðsins fyrir jólafrí.