All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Alþjóðlegt skákmót í Hofi í tilefni af aldarafmæli Skákfélags Akureyrar

Skákfélag Akureyrar varð 100 ára þann 10. febrúar síðastliðinn.  Í tilefni af aldarafmælinu stendur félagið fyrir öflugasta skákmóti sem nokkru sinni hefur verið haldið á Akureyri.  Jafnframt er mótið haldið til minningar um Guðmund Arason skákfrömuð, en öld er nú liðin frá fæðingu hans.

Mótið fer fram í Hofi dagana 25. maí til 1. júní nk. Um sextíu keppendur eru skráðir til þátttöku, bæði innlendir og erlendir. Þekktustu erlendu gestirnir eru stórmeistaranir Ivan Sokolov frá Hollandi og svíinn Tiger Hillarp-Persson.  Auk þess að vera öflugir stórmeistarar eru þeir báðir þekktir fræðimenn og skákrithöfundar.

Á mótinu verður teflt um þrjá Íslandsmeistaratitla.  Þar munu flestir af okkar sterkustu stórmeisturum tefla um titilinn „Skákmeistari Íslands“. Má nefna meistara fyrra árs, Helga Áss Grétarsson, tólffaldan Íslandsmeistara Hannes Hlífar Stefánsson og þá Héðin Steingrímsson og Braga Þorfinnsson.  Einnig mætir til leiks margfaldur Íslandsmeistari kvenna, Lenka Ptácniková sem mun freista þess að verja meistaratitil sinn í kvennaflokki.

Mótið verður sett af bæjarstjóranum á Akureyri laugardaginn 25. maí kl. 15:00. Teflt verður á hverjum degi þar til mótinu lýkur viku síðar, laugardaginn 1. júní.

Hæfileikamótun KSÍ á Norðurlandi

Hæfileikamótun N1 og KSÍ verður á Norðurlandi þriðjudaginn 28. maí og fara æfingarnar fram á gervigrasvelli Tindastóls á Sauðárkróki.  Lúðvík Gunnarsson, yfirmaður Hæfileikamótun N1 og KSÍ, mun stjórna æfingunum.

Einn úr þessi úrtaki er spilar með 4. flokki KF og er það Jón Frímann Kjartansson. Flestir koma frá KA og Þór, en einnig frá Tindastóli, Völsungi og Hvöt.

 

Dagskrá

Stúlkur æfa kl. 17:00 – 18:30

Drengir æfa kl. 18:30 – 20:00

Hóparnir

Stúlkur – mæting kl. 16:45

Emma Karen Jónsdóttir | Hvöt

Amalía Árnadóttir | KA

Iðunn Rán Gunnarsdóttir | KA

Ísabella Júlía Óskarsdóttir | KA

Sonja Kristín Sigurðardóttir | KA

Tanía Sól Hjartardóttir | KA

Margrét Rún Stefánsdóttir | Tindastóll

Marsilía Guðmundsdóttir | Tindastóll

Berta María Björnsdóttir | Völsungur

Sigrún Marta Jónsdóttir | Völsungur

Agnes Björg Einarsdóttir | Þór

Angela Mary Helgadóttir | Þór

Hildur Jana Hilmarsdóttir | Þór

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir | Þór

Sonja Björg Sigurðardóttir | Þór

Steingerður Snorradóttir | Þór

Una Móeiður Hlynsdóttir | Þór

Piltar – mæting kl. 18:15

Ágúst Ívar Árnason | KA

Björn Orri Þorleifsson | KA

Breki Hólm Baldursson | KA

Guðmundur Jón Bergmannsson | KA

Hákon Orri Hauksson | KA

Hjörtur Freyr Ævarsson | KA

Ívar Arnbro Þórhallsson | KA

Jóhannes Geir Gestsson | KA

Sindri Sigurðsson | KA

Valdimar Logi Sævarsson | KA

Jón Frímann Kjartansson | KF

Bragi Skúlason | Tindastóll

Einar Ísfjörð Sigurpálsson | Tindastóll

Trausti Thorlacius | Tindastóll

Benedikt Kristján Guðmundsson | Völsungur

Hermann Veigar Ragnarsson | Völsungur

Jakob Héðinn Róbertsson | Völsungur

Guðmundur Páll Björnsson | Þór

Ingimar Arnar Kristjánsson | Þór

Mikael Örn Reynisson | Þór

Nökkvi Hjörvarsson | Þór

Nýtt rútufyrirtæki keyrir með skólabörn í Fjallabyggð

Hópferðabílar Akureyrar munu hætta sinna skóla- og frístundaakstri í Fjallabyggð þann 23. maí n.k. vegna gjaldþrotabeiðnar Arion banka.  Í framhaldi hefur verið gerður tímabundinn samningur við Akureyri Excursion um að sinna skóla- og frístundaakstri til 31. maí 2019.  Frístundaakstur vegna sumarmánaða er í verðkönnun hjá Fjallabyggð.

Fjallabyggð mun bjóða út aksturinn fyrir næsta skólaár.

Bæjarráð samþykkir að fela deildarstjóra að bjóða út skóla- og frístundaakstur fyrir næsta skólaár og samþykkir fyrirliggjandi samning við Akureyri Excursions ehf.

Mynd: akureyriexcursions.com

Raffó bauð lægst í götulýsingu í Fjallabyggð

Raffó ehf á Siglufirði bauð lægst í 1. áfanga í útskipti á ljóskerum og stólpum vegna götulýsingar í Fjallabyggð. Tvö tilboð bárust þegar Fjallabyggð auglýsti eftir tilboðum í verkið og voru tilboð opnuð 20. maí síðastliðinn.

Raffó bauð rúmlega 21,2 milljónir og Ingvi Óskarsson ehf bauð rúmlega 28,1 milljón, en kostnaðaráætlun var rúmar 20,4 milljónir. Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að taka tilboði Raffó ehf.  Fyrirtækið Raffó var stofnað árið 2008, eftir að fyrirtækið Rafbær lagðist af.

Eftirfarandi tilboð bárust:

Ingvi Óskarsson ehf 28.105.600
Raffó ehf 21.255.984
Kostnaðaráætlun 20.434.000.

Vorhreinsun í Fjallabyggð

Dagana 22. – 26. maí verður árleg vorhreinsun í Fjallabyggð.  Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að hreinsa til á lóðum sínum og nærumhverfi í sameiginlegu átaki dagana 22. – 26. maí.

Fyrirtæki og stofnanir eru sérstaklega hvött til að taka þátt í átakinu. Starfsmenn bæjarins verða á ferðinni mánudaginn 27. maí og þriðjudaginn 28. maí til að fjarlægja garðaúrgang sem settur hefur verið við lóðarmörk.

Athygli skal vakin á því að húseigendum ber að fara með lausafjármuni, spilliefni, timbur, málma og brotajárn á gámasvæði.

Frá þessu er greint á vef Fjallabyggðar.

Lonely Planet velur Norðurstrandarleið á topp 10 lista

Arctic Coast Way – Norðurstrandarleið var í dag valið á topp 10 lista yfir þá áfangastaði í Evrópu sem best er að heimsækja, að mati Lonely Planet sem er einn vinsælasti útgefandi ferðahandbóka í heiminum.

Listann má skoða á vef Lonely Planet.

Þetta er mikil viðurkenning fyrir allt það starf sem nú þegar hefur verið unnið við að koma Arctic Coast Way af stað, en leiðin verður formlega opnuð þann 8. júní næstkomandi. Í umfjöllun Lonely Planet segir meðal annars að á leiðinni sé að finna allt það besta sem Íslandi hafi að bjóða, en um fáfarnari slóðir. „Frá söguslóðum til miðstöðva hvalaskoðunar, þá býður hvert lítið þorp og bær upp á innsýn inn í lífið á toppi veraldarinnar,“ segir meðal annars í umfjölluninni.

Með þróun Norðurstrandarleiðar, verður til aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem vilja halda sig utan alfaraleiðar og gera það með því að fara meðfram strandlengju Norðurlands. Samtals er leiðin um 900 kílómetra löng, með 21 bæ eða þorpi og fjórum eyjum sem auðveldlega er að hægt að komast út í með bát eða ferju. Ferðafólk sem fer þessa leið fær tækifæri til að ná betri tengslum við náttúruna, litskrúðugt menningarlíf og einnig hið daglegt amstur þeirra sem búa í nálægt við norðurheimskautsbauginn.

Leiðin verður formlega opnuð þann 8. júní næstkomandi, en dagskráin verður kynnt síðar.

Texti: Aðsend fréttatilkynning. Mynd með frétt, Markaðsstofa Norðurlands.

Sjómannadagshelgin í Ólafsfirði

Sjómannadagshelgin í Fjallabyggð verður haldin í Ólafsfirði dagana 31.maí til 2. júní 2019. Fjölbreytt og metnaðurfull dagskrá verður alla dagana. Meðal gesta þessa helgina eru Ari Eldjárn, Herra Hnetusmjör og Huginn, Ronja og Ræningjarnir, Trúðurinn Walle og Stebbi Jak, Auddi og Steindi Jr., Andri Ívars, Pétur Jóhann, Eurobandið ásamt Pálma Gunnars.

Á sjómannadaginn, sunnudaginn 2. júní verður árshátíð sjómanna haldin í Íþróttahúsinu í Ólafsfirði. Veislustjóri er Pétur Jóhann. Skemmtiatriði frá Audda og Steinda Jr. og Ara Eldjárn. Hljómsveitin Eurobandið leikur fyrir dansi ásamt Pálma Gunnars.

Gamli skíðaskálinn í Skarðsdal til sölu

Sumarhúsið í Skarðsdal á Siglufirði er nú til sölu, en húsið var áður skíðaskáli og var byggt árið 1985. Óskað er eftir tilboði í húsið sem stendur á stórri lóð (1.117 m2), Húsið sjálft er 70,5 fm á tveimur hæðum.

Húsið stendur því mjög hátt og er á snjóflóðahættusvæði sem takmarkar vetrarnotkun þess.

Nánari upplýsingar má finna hjá Hvammi fasteignasölu.

Útboð á rekstri kaffihúss í Listasafni Akureyrar

Listasafnið á Akureyri leitar eftir aðila eða aðilum til að annast rekstur á kaffihúsi í Listasafninu Góð aðstaða er fyrir spennandi kaffihús á jarðhæð Listasafnsins. Kaffihúsið er sjálfstæð eining á góðum stað í Listagilinu en jafnframt mikilvægur hluti af Listasafninu.

Áhugasamir eru beðnir að óska eftir útboðsgögnum í gegnum netfangið umsarekstur@akureyri.is.

Tilboð skulu hafa borist til Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 600 Akureyri eigi síðar en kl. 11:00 miðvikudaginn 29. maí 2019.

Listasafnið á Akureyri er í eigu Akureyrarbæjar og starfar í þágu almennings. Í ágúst 2018 tók safnið í notkun nýja sýningarsali og kaffihús eftir miklar endurbætur á húsnæði þess.

Listasafnið óskar eftir áhugasömum rekstraraðilum til að taka að sér veitingarekstur í kaffihúsi á jarðhæð safnsins, til þriggja ára, með möguleika á endurnýjun til annarra þriggja ára. Kaffihúsið verður sjálfstæð eining á góðum stað í Listagilinu en jafnframt mikilvægur hluti af Listasafninu. Kaffihúsinu er ætlað að sinna fjölbreyttum hópi almennra gesta og einnig gestum Listasafnsins. Rekstraraðila er ætlað að byggja upp nútímalegt kaffihús með metnaðarfulla veitingastefnu sem rímar við starfsemi safnsins og höfðar jafnframt til breiðs hóps gesta, viðskiptavina, ferðamanna og íbúa bæjarins.

Kaffihúsið er við innganginn með stórum glugga sem vísar til suðurs út í Listagilið. Þar er pláss fyrir 30-40 manns og auk þess verður hægt að sitja úti á verönd á skjólgóðum stað á sumrin.

Heimild: akureyri.is

Myndaveisla úr leik KF og KH á Ólafsfjarðarvelli.

KF vann frábæran sigur á KH á Ólafsfjarðarvelli um helgina í Íslandsmótinu í 3. deild. KF sigraði leikinn 5-1 og gerði Alexander Már Þorláksson fjögur mörk fyrir KF og Vitor Viera Thomas eitt mark.

Það var hart barist í leiknum og gaf dómarinn 6 gul spjöld, þar af tvö til KF. Guðný Ágústsdóttir tók þessar frábæru myndir á vellinum sem við fengum leyfi til að birta hér. – Vegleg umfjöllun um leikinn má finna hér á vefnum.

Ljósmyndasamkeppni í Skagafirði

Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði í samvinnu við Sveitarfélagið Skagafjörð efna til ljósmyndasamkeppninnar “Skagafjörður með þínum augum“.

Reglurnar eru einfaldar:

Myndin skal vera tekin í Skagafirði og sá aðili sem sendir inn myndina skal vera eigandi myndarinnar.

Sérvalin dómnefnd fer yfir myndirnar og verða veglegir vinningar veittir fyrir bestu myndina.

Allar myndir verða til sýnis að keppni lokinni á skagafjordur.is/myndasamkeppni2019 og með þátttöku í ljósmyndasamkeppninni veita þátttakendur leyfi til þess að myndirnar verði notaðar sem kynningarefni fyrir Skagafjörð.

Lokadagur keppninnar er miðnætti þann 30. september 2019.

Hér getur þú sent inn mynd (myndasamkeppni@gmail.com).

Dalvík gerði jafntefli við Leikni

Dalvík/Reynir lék sinn fyrsta heimaleik í 2. deild karla í knattspyrnu um helgina gegn Leikni Fáskrúðsfirði. Leikið var í Boganum á Akureyri þar sem Dalvíkurvöllur er ekki tilbúinn vegna framkvæmda.

Tíðindalítið var í fyrri hálfleik og var markalaust í leikhlé. Þjálfari Dalvíkur gerði tvær skiptingar í upphafi síðari hálfleiks til að hressa upp á sóknarleikinn og komu Viktor Daði og Jóhann Örn inná fyrir Núma Kárason og Joan De Lorenzo Jimenez, sem var að leika sinn fyrsta leik fyrir félagið í deildinni.

Skiptingin í síðari hálfleik skilaði svo marki á 75. mínútu þegar Viktor Daði skoraði fyrsta mark leiksins og kom Dalvík/Reyni í 1-0. Rúnar Helgi og Gunnar Már voru settir inná skömmu eftir markið fyrir Steinar Loga og Borja Lopez. Allt stefndi í sigur D/R en á sjöttu mínútu uppbótartíma jöfnuðu gestirnir leikinn.

Fleiri urðu mörkin ekki og voru lokatölur 1-1 í þessum leik. Svekkjandi jafntefli hjá Dalvík/Reyni og gestirnir væntanlega sáttir með stigið. D/R er í 10. sæti eftir þrjár umferðir með 2 stig. D/R leikur næst við Tindastól , föstudaginn 24. maí á Sauðárkróki.

Alexander Már með fernu fyrir KF – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Knattspyrnufélagið Hlíðarendi mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag. KH var stofnað árið 2010 og er varalið Vals í Reykjavík. Þetta eru strákar sem æfa við topp aðstöðu allt árið um kring, eitthvað sem KF strákarnir láta sig bara dreyma um í Fjallabyggð.  KF hefur styrkt sig fyrir sumarið og búast aðdáendur þeirra við því að þeir verði í toppbaráttunni í sumar. Miklar vonir eru bundnar um markaskorarann Alexander Már sem kom til félagsins skömmu fyrir mót, en liðinu hefur sárlega vantað alvöru markaskorarar frá því hann fór frá KF árið 2015.

Völlurinn var í topp standi í dag og hitinn var aðeins 6° og skýjað. Tvær breytingar voru á byrjunarliði KF frá sigurleiknum gegn Augnabliki í síðustu umferð, Halldór Logi og Stefán Bjarki voru í byrjunarliðinu en Óliver var ekki í hóp og Ljubomir á bekknum. Þá var Aksentije Milisic ekki í leikmannahóp heldur í liðstjórn KF í dag.

KF byrjaði leikinn mjög vel og þurftu áhorfendur ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu. KF fékk hornspyrnu á upphafsmínútum leiksins, og úr henni skoraði Alexander Már (Nr.10), með góðum skalla, og staðan orðin 1-0  eftir fjórar mínútur. KF skoraði aftur á 17. mínútu með marki frá Alexander Már, 2-0 og frábær byrjun hjá KF.

Á 38. mínútu komst KF í 3-0 þegar Vitor Vieira (Nr. 14) skoraði, og var KF því með örugga forystu í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks þá skoruðu gestirnir beint úr aukaspyrnu og minnkuðu muninn í 3-1 á 51. mínútu. Aðeins fimmtán mínútum síðar skoraði KF aftur og var það Alexander Már sem það gerði, hans þriðja mark í leiknum og breytti stöðunni í 4-1.  Á 71. mínútu kom Ljubomir inná fyrir Halldór Loga, og Jakob Auðun fyrir Patrek.  Á 79. mínútu kom svo þriðja skiptingin hjá KF, þegar Grétar Áki kom inná fyrir Val Reykjalín. Á 85. mínútu kom Þorsteinn Már inná fyrir Vitor og skömmu síðar kom Sævar inná fyrir Ljubomir sem hafði aðeins verið inná í tæpar tuttugu mínútur. Varamennirnir voru semsagt vel nýttir í þessum leik.

Það var svo markaskorarinn mikli, Alexander Már sem kórónaði leik sinn og KF og skoraði fjórða mark sitt í leiknum og fimmta mark KF á lokamínútunni. Frábær leikur hjá KF og stórsigur á KH í dag.

KF er núna í 2. sæti í deildinni eftir þrjá leiki með 7 stig. Frábær byrjun á mótinu.

Núna er meiri samkeppni um stöður hjá KF en undanfarin ár og breiðari hópur. Þetta heldur leikmönnum á tánum því enginn vill missa sæti sitt í byrjunarliðinu. Það verður spennandi að fylgjast með næstu leikjum hjá KF.

 

Óskað eftir tilboðum í endurbætur á Ráðhúsi Fjallabyggðar

Fjallabyggð hefur óskað eftir tilboðum í endurbætur utanhúss á Ráðhúsi Fjallabyggðar, Gránugötu 24, Siglufirði. Verkið er áfangaskipt og verður unnið í tveimur áföngum á árunum 2019-2020. Fjarlægja þarf eldri múr og einangrun, og múrhúða, einangra og mála á eftir.

Helstu magntölur eru:

  • Fjarlægja eldri múr og einangrun 320m2
  • Múrhúðun og uppsetning einangrunar 320m2
  • Málun 320m2

 

Nánari upplýsingar og tilboðsgögn veitir Ármann Viðar Sigurðsson hjá tæknideild Fjallabyggðar, armann@fjallabyggd.is

Tilboði skal skila í Ráðhús Fjallabyggðar eigi síðar en 3. júní 2019 kl. 14:00 og verða þau þá opnuð í viðurvist þeirra bjóðenda sem þess óska.

Heimild: Fjallabyggd.is

Háskólalestin í Fjallabyggð í dag

Áhöfn Háskólalestarinnar slær upp Vísindaveislu í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði í dag frá kl. 12:00-16:00.  Vísindaveislan er opin öllum og góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Vísindaveislan er fjölbreytt og lifandi, þar sem áhersla er lögð á fjör og fræði, skemmtun og fræðslugildi. Gestum gefst færi á að sjá frábærar tilraunir, fylgjast með mælingum og pælingum eðlisfræðinga og kynnast margvíslegum undrum jarðar hjá jarðfræðingunum og margt fleira.

Allir eru hjartanlega velkomnir – enginn aðgangseyrir.

Háskóli Ãslands

KF mætir KH á Ólafsfjarðarvelli

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Fyrsti heimaleikur Knattspyurnufélags Fjallabyggðar verður í sumar verður laugardaginn 18. apríl kl. 16:00. Völlurinn er í mjög góðu ástandi miðað við árstíma og kemur vel undan vetri.

Strákarnir í KF hafa byrjað vel á Íslandsmótinu í 3. deild og eru taplausir eftir fyrstu tvo leikina.  Liðin mættust í deildinni síðasta sumar og voru alls skoruð 10 mörk í þeim leikjum, en KF vann heimaleikinn sinn og KH sinn heimaleik.

Hvetjum íbúa til að fjölmenna á völlinn og láta heyra í sér í stúkunni.

Umfjöllun um leikinn verður að leik loknum.

49 án atvinnu í Fjallabyggð

Alls voru 49 án atvinnu í Fjallabyggð í apríl 2019. Alls eru 28 karlar og 21 kona án atvinnu í Fjallabyggð og mælist nú 4,4% og lækkaði um 0,4% á milli mánaða.

Þá voru 23 án atvinnu í Dalvíkurbyggð í apríl 2019. Alls eru 13 karlar og 10 konur án atvinnu og mælist atvinnuleysi 2,1% í Dalvíkurbyggð.

Vorsýning nemenda MTR

Vorsýning nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga verður opnuð í skólnaum, laugardaginn 18. maí kl. 13:00.  Meðal annars gefur að líta verk úr portrettmálun, frumkvöðlafræði, listrænni sköpun, skapandi hannyrðum, jákvæðri sálfræði, fagurfræði, heimspeki og ljóð úr íslenskunni svo fátt eitt sé nefnt.

Lokaverkefni nemanda á listabraut hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir efnistök og hugmyndalega nálgun. Þar er unnið úr efnivið sem nemandinn tók með sér úr sjálfboðastarfi með flóttamönnum á grísku eynni Lesbos.

Sýningin verður opin kl. 13-16 á laugardag en í næstu viku verður einnig hægt að njóta hennar á skólatíma fram að útskrift laugardaginn 25. maí.

Ferðafélagið Trölli gengur á Múlakollu

Ferðafélagið Trölli í Ólafsfirði stendur fyrir göngu á Múlakollu laugardaginn 18. maí. Lagt af stað frá Vallarhúsi KF við Ægisgötu kl. 10:00.  Gönguhækkun er um 900m, göngutími 3 klst. og erfiðleikastig 4 skór.

Gjald fyrir gönguna er kr. 1.500.- (500 kr. ef greitt er árgjald). Ferðafélagið býður uppá árgjald 6.500.- (maí – sept).

Múlakolla er 984 m á hæð.

Settu upp myndasafn utan á Tjarnarborg

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur sett upp ljósmyndasýningu utan á menningarhúsið Tjarnarborg í Ólafsfirði, líkt og gert hefur verið undanfarin misseri.  Myndirnar sem eru núna til sýnis eru teknar á óvenjulegum stöðum í Ólafsfirði.

Tilgangur myndanna er að auðga mannlífið í miðbæ Ólafsfjarðar og vekja athygli gesta á því sem vert er að skoða.

Tjarnarborg
Ljósmynd: Alda María Traustadóttir.

 

 

Vilja efla kvennahlaup ÍSÍ á Siglufirði

Umf Glói á Siglufirði mun halda Sjóvá kvennahlaup ÍSÍ sextánda árið í röð þann 15. júní nk. Þetta verður þrítugasta Kvennahlaupið og verður því meira um dýrðir en nokkur sinni fyrr.

Því miður hefur þátttaka í hlaupinu á Siglufirði verið að dala undanfarin ár eins og víðar á landinu og vill því Umf Glói snúa þeirri þróun við á afmælisárinu. Stofnuð hefur verið sérstök síða á fésbókinni fyrir hlaupið á Siglufirði.

Sjóvá Kvenna­hlaup ÍSÍ er haldið á yfir 80 stöðum á land­inu. Fjöl­menn­asta hlaupið er haldið í Garðabæ og einnig fer stórt hlaup fram í Mos­fellsbæ. Á lands­byggðinni fara einnig fram fjöl­menn hlaup sem skipu­lögð eru af öfl­ugum konum í hverju bæj­ar­fé­lagi fyrir sig.

Fyrsta Kvenna­hlaupið var haldið árið 1990. Upp­haf­lega var markmið hlaups­ins að fá fleiri konur út að hreyfa sig og að hvetja konur til þátt­töku í starfi íþrótta­hreyf­ing­ar­innar á Íslandi. Þau markmið hafa um margt náðst þar sem konur hreyfa sig mun meira í dag en fyrir 30 árum, ís­lenskar íþrótta­konur eru að ná frá­bærum ár­angri á heimsvísu og margar konur í for­svari fyrir íþrótta­hreyf­ing­una hér­lendis.

Í dag er áherslan ekki hvað síst á sam­stöðu kvenna, að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum for­sendum og eigi ánægju­lega sam­veru­stund með fjöl­skyldu og vinum.

Hlaupið er ár­viss viðburður hjá mörgum konum sem taka dag­inn frá til að hlaupa með dætrum, mæðrum, ömmum, systrum, frænkum og vin­konum sínum og margir karl­menn slást líka í hóp­inn.

KF náði í tvo fyrir lokun félagaskiptagluggans

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hefur bætt við sig tveimur leikmönnum í dag, en félagaskiptaglugginn lokar á miðnætti. Um er að ræða tvo leikmenn frá Magna í Grenivík sem komu á lánssamningi.

Björn Andri Ingólfsson er kominn aftur á láni en hann lék með KF á síðustu leiktíð, skoraði 6 mörk í 20 leikjum og var markahæstur í hópnum.

Birkir Már Hauksson kemur einnig frá Magna að láni, hann er 20 ára og hefur leikið upp yngri flokkana hjá Þór en á ennþá eftir að leika KSÍ leiki fyrir meistaraflokk.

Þá hefur Björgvin Daði skipt yfir í Samherja, en hann hefur fengið fá tækifæri með meistaraflokki í ár og á síðustu leiktíð. Einnig hefur Helgi Már Kjartansson, 17 ára leikmaður KF skipt yfir í KA, en hann lék tvö leiki með liðinu í vetur á Kjarnafæðismótinu.

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar.

Vortónleikar Tónskólans

Vortónleikar Tónlistarkólans á Tröllaskaga standa nú yfir þessa dagana, en í dag voru tónleikar í Siglufjarðarkirkju og í Dalvíkurkirkju. Á morgun verður haldið áfram og verða tónleikar á Hornbrekku kl. 14,30 og í Tjarnarborg kl.  17.00. Þá verða tónleikar í Víkurröst í Dalvíkurbyggð kl. 16.30. og 17.30, á morgun, fimmtudaginn 16. maí.

Skólaslit grunnskólans í Siglufjarðarkirkju

Skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar hefur kynnt fyrirkomulag skólaslita grunnskólans sem verða 31. maí.  Í ár verða skólaslit Grunnskóla Fjallabyggðar í Siglufjarðarkirkju fyrir alla árganga. Skólaslit verða í tveimur hlutum. 1. – 5. bekkur mæta kl. 12:00 og 6.- 10. bekkur kl. 17:00.

Í framtíðinni er stefnt að því að skólaslit 6.-10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar verði í menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði.

Alþjóðleg samstarfsverkefni í Grunnskóla Fjallabyggðar

Alls verða þrjú alþjóðleg samstarfsverkefni í gangi í Grunnskóla Fjallabyggðar eða hefjast á næsta skólaári. Grunnskóli Fjallabyggð er í samstarfi með Tékklandi og Frakklandi í eTwinnng verkefni en það gengur út á endurvinnslu á plastrusli sem týnt er í fjörum og á víðavangi. Verkefnið mun standa yfir í tvö ár.

Stærsta verkefnið er Erasmus verkefni sem ber nafnið Singing Gardens for learning through and into nature. Ásamt Grunnskóla Fjallabyggðar eru skólar frá fjórum öðrum löndum: Kýpur, Ítalíu, Belgíu og Svíþjóð.
Þetta verkefni snýst um að búa til “garð” í skólastofunni, rækta og vinna með náttúrutengd verkefni í samvinnu við foreldra.

Einnig er grunnskólinn í samstarfi við sænskan skóla í Nordplus verkefni en það snýst um heimsóknir bæði nemenda og kennara. Áhersla er á forvarnir gegn einelti. Á næsta skólaári munu nemendur og kennari frá Grunnskóla Fjallabyggðar sækja Svíana heim.