All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Fræðsludagur skólanna í Skagafirði

Árlegur fræðsludagur skólanna í Skagafirði var haldinn í Miðgarði fimmtudaginn 15. ágúst síðastliðinn. Dagur þessi markar upphaf nýs skólaárs og er helgaður faglegu starfi þeirra. Dagurinn er einnig vettvangur skólafólks til að kynna og fjalla um ýmis starfsþróunar- og nýbreytniverkefni sem starfsfólk skólanna vinnur að og er jafnframt vettvangur allra starfsmanna til hittast og eiga góða stund saman.

Þetta er í 10. sinn sem allir starfsmenn í leik- grunn- og tónlistarskólum Skagafjarðar koma saman en nú bættust líka í hópinn starfsmenn Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Einnig var undirritaður samstarfssamningur á milli Embætti Landlæknis og Sveitarfélagsins Skagafjarðar um að Skagafjörður gerðist með formlegum hætti aðili að verkefninu Heilsueflandi Samfélag. Í því felst að sveitarfélagið skuldbindur sig til að vinna með markvissum hætti að markmiðum og leiðarljósum verkefnisins á öllum stigum stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélagsins.

Úrslit í Benecta Open á Siglógolf

Golfmótið Benecta Open var haldið í dag á Sigógolf á Siglufirði í blautu og köldu veðri.  Alls mættu 17 lið til leiks og keppt var í Texas Scramble. Keppendur skemmtu sér vel þrátt fyrir að veður hafi ekki verið upp á sitt besta og var það rætt á milli keppenda að völlurinn væri í góðu standi eftir þær miklu rigningar sem hafa staðið linnulaust yfir síðustu daga. Kaffi og tertur voru svo í boði eftir verðlaunaafhendingu.

Úrslit:

1. sæti. Lið Við tvö. Jóhanna Þorleifsdóttir og Hallgrímur Sveinn Vilhelmsson.
2. sæti. Lið Maó. Eiður Stefánsson og Hjörtur Sigurðsson.
3. sæti. Lið Team H&B. Þórveig Hulda Alfreðsdóttir og Björn Steinar Stefánsson.

Nándarverðlaun:

6. hola. Jóhann Már Sigurbjörnsson. 216 cm.
7. hola. Jóhanna Þorleifsdóttir. 52,5 cm.
9. hola. Haukur Óskarsson. 178 cm.

Lengsta upphafshögg á 8. holu:

Konur: Ása Guðrún Sverrisdóttir.
Karlar: Jóhann Már Sigurbjörnsson.

Heimild og myndir: Siglógolf.

Myndir: Siglógolf

Mynd frá Siglo Golf.

Mynd frá Siglo Golf.

Brimbrettamenn í erfiðleikum í Ólafsfirði

Um klukkan fimmleytið í dag voru þrír einstaklingar í vandræðum í sjónum við Ólafsfjörð, um 200 metrum frá landi. Einstaklingarnir þrír voru allir á brimbrettum og rétt sást í kollinn á þeim í sjónum. Mikill öldugangur var á vettvangi og mikið útsog svo að þremenningarnir áttu erfitt með að komast að landi. Þeir náðu þó að sameinast og koma sér á eitt brimbretti.

Allt tiltækt björgunarlið var kallað út en erfiðlega gekk að komast að fólkinu i sjónum. Þremenningarnir náðu að lokum að komast úr útsoginu og koma sér í land. Þeim varð ekki meint af. Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi fyrst frá þessu.

Tindastóll vann KFG

Tindastóll og KFG léku á Sauðárkróksvelli í gær í 16. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Tindastóll berst fyrir lífi sínu í deildinni og þurfti nauðsynlega á öllum stigunum að halda, en liðið er í neðsta sæti deildarinnar og hafði aðeins unnið einn leik í sumar í deildinni. KFG voru í næstneðsta sæti fyrir leikinn og gátu með sigri komist úr fallsæti.

Stólarnir byrjuðu leikinn af krafti og settu tóninn á fyrstu mínútum leiksins. Arnar Ólafsson skoraði strax á 5. mínútu og kom heimamönnum í 1-0, hans fjórða mark í deildinni í sumar. Aðeins tæpum 10 mínútum síðar skoraði Tindastóll aftur með marki frá Kyen Nicholas, hans þriðja mark í fjórum leikjum og kom Stólunum í 2-0. Staðan var svo 2-0 í hálfleik þegar dómarinn flautaði til leikhlés og heimamenn í góðri stöðu.

Tindastóll gerði tvær skiptingar um miðjan síðari hálfleik, en þegar um 8 mínútur voru eftir af leiktímanum þá skoruðu heimamenn sitt þriðja mark þegar Kyen Nicholas skoraði sitt annað mark í leiknum. Þjálfari Tindastóls gerði svo tvær skiptingar til viðbótar á síðustu mínútum leiksins og lét ferska menn inná. Tindastóll vann leikinn nokkuð örugglega 3-0 og unnu sinn annan sigur í sumar.

Stólarnir eru nú sex stigu frá KFG og 8 stigum frá öruggu sæti í deildinni þegar 6 leikir eru eftir. Liðið leikur næst við Leikni í Fjarðabyggðarhöllinni, miðvikudaginn 21. ágúst kl. 17:30.

KF vann mikilvægan sigur á KV – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Knattspyrnufélag Vesturbæjar mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag í 17. umferð í 3. deild karla. Sex stig skyldu liðin að, en KF var í 2. sæti fyrir leikinn og KV í 3. sætinu. KV þurfti nauðsynlega sigur í þessum leik til að minnka muninn í 3 stig og eiga betri möguleika á að komast upp í 2. deild að ári. KF gat með sigri nálgast Kórdrengi sem höfðu fjögra stiga forskot fyrir leikinn. KV vann fyrri leik liðanna í sumar 2-1 og liðin mættust einnig í fyrra og unnu þá bæði liðin sína heimaleiki. Búist var við hörkuleik enda svokallaður sex stiga leikur.

Þjálfari KF gerði tvær breytingar frá síðasta leik, en Alexander Már var kominn aftur í liðið eftir smávægileg meiðsli og Vitor var kominn inn í liðið eftir að hafa byrjað á  varamannabekknum í síðasta leik.

KF byrjaði leikinn af krafti og skoruðu strax á 3. mínútu, og það var að sjálfsögðu Alexander Már sem markið skoraði en hann hefur reynst happafengur fyrir KF á þessu tímabili.  KF þurfti að gera skiptingu strax á 14. mínútu þegar Ljubomir Delic meiddist, og inná kom Hákon Leó Hilmarsson. Á 34. mínútu skoraði KF aftur og var núna Andri Snær sem var þar að verki og kom KF í 2-0. KF leiddi því 2-0 þegar dómarinn flautaði til hálfleiks.

KV reyndu hvað þeir gátu að komast betur inn í leikinn og gerði þjálfari þeirra þrefalda skiptingu á 60. mínútu til að hressa upp á sóknarleik liðsins. En það var KF sem skoraði næsta mark og aftur var það Andri Snær sem átti frábæran leik í dag eins og margir aðrir leikmenn KF. Staðan 3-0 og aðeins 20. mínútur eftir. Strax eftir markið gerði þjálfari KF skiptingu þegar Valur Reykjalín fór útaf fyrir Sævar Þór og skömmu síðar kom Tómas Veigar inná fyrir Aksentije Milisic.

Gestirnir í KV náðu aðeins að klóra í bakkann og minnkuðu muninn í 3-1 á 78. mínútu og settu smá spennu í leikinn. KF gerði tvær skiptingar til viðbótar þegar Óliver og Jakob Auðun komu inná fyrir Stefán Bjarka og Alexander Má. Fleiri urðu mörkin ekki og KF vann gríðarlega mikilvægan sigur á KV og er núna komið með 9 stiga forskot og aðeins stigi á eftir Kórdrengjum.

Þremur golfmótum frestað vegna rigninga

Fresta hefur þurft þremur golfmótum síðustu daga sem fara fram áttu á Siglógolf á Siglufirði. Kvennamótið ChitoCare Beauty átti að fara fram 11. ágúst, Rauðkumótaröð númer 9 átti að fara fram 14. ágúst og Siglfirðingagolfmótið átt að fara fram í dag, en öllum mótunum var sem sagt frestað vegna mikilla rigna. Völlurinn var þó sleginn í vikunni en er sagður talsvert blautur.  Á morgun fer fram Benecta open golfmótið á Siglógolf, og er skráning mjög góð.

Myndir með fréttinni eru teknar fyrr í sumar.

Benecta open á Siglógolf

Golfmótið Benecta open fer fram á Siglógolf, sunnudaginn 18. ágúst. Leiknar verða 18. holur í Texas scramble. Ræst verður út frá öllum teigum kl. 10:00. Nú þegar hafa 32 kylfingar skráð sig til leiks á mótið en skráningu lýkur í dag. Verðlaun verða veitt fyrir 1.-3. sætið, fyrir lengsta höggið á 8. braut auk nándarverðlauna par 3 brautum. Allir sem taka þátt í mótinu fá teiggjöf upp í golfskálanum.

Myndir með fréttinni eru teknar fyrr í sumar.

 

Dalvík/Reynir tapaði fyrir Selfossi

Dalvík/Reynir og Selfoss mættust á Jáverk-vellinum á Selfossi í gærkvöldi í 16. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Selfoss hafði tapað síðustu þremur leikjum fyrir þennan leik á meðan Dalvík hafði unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum. Bæði liðin gátu blandað sér ennfrekar í toppbaráttuna með sigri í þessum leik, þar sem mjög þéttur pakki er í toppbaráttunni í deildinni. Selfoss var í 6. sæti með 23 stig og D/R var með 24 stig í 5. sætinu. Selfoss er með vel mannað lið og í því eru tveir af markahæstu mönnum 2. deildar. Fyrri leikur liðanna fór 1-1 í vor í deildinni.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og komust yfir strax á 17. mínútu með marki frá Kenan Turudija. Skömmu fyrir leikhlé var Kenan Turudija aftur á ferðinni og kom heimamönnum í 2-0 og þannig var staðan í hálfleik. Þjálfari D/R gerði strax eina skiptingu í hálfleik til að reyna breyta gangi leiksins en inná kom Númi Kárason og útaf fór Pálmi Heiðmann. Þegar rúmar 20. mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þá gerði D/R tvöfalda skiptingu þegar Alexander Ingi og Ottó Björn komu inná fyrir Viktor Daða og Gunnlaug Bjarnar. Skömmu síðar kom svo Reynir Helgi inná fyrir Steinar Loga. Þrátt fyrir þessar skiptingar þá náði D/R ekki að nýta færin og fengu á sig þriðja markið á 74. mínútu þegar Adam Örn Sveinbjörnsson gulltryggði sigur heimamanna og kom þeim í 3-0 þegar skammt var eftir.

D/R gerðu sína fimmtu skiptingu á 79. mínútu þegar Brynjar Skjóldal kom inná fyrir Jón Björgvin. Selfoss skoraði svo lokamarkið á 84. mínútu þegar Guðmundur Tyrfingsson skoraði, en það er 16 ára strákur sem hefur leikið 13 leiki í sumar og skoraði 2 mörk fyrir Selfoss. Lokatölur 4-0 og sanngjarn sigur heimamanna í þessum leik.

Dalvík/Reynir er í 6. sætinu eftir þetta tap en liðin fyrir neðan eiga leik til góða og geta komist yfir D/R í deildinni. D/R leikur næst við Völsung á Dalvíkurvelli, miðvikudaginn 21. ágúst kl. 18:00.

Selfoss vann örugglega. Mynd frá Selfoss.net.

Vatn lak inn í safnhús Síldarminjasafnsins

Óvenju mikið hefur rignt á Siglufirði undanfarna daga, svo mikið að flætt hefur inn í hús og fráveitukerfi ekki haft undan vatnsflaumnum. Á lóð Síldarminjasafnsins á Siglufirði safnaðist ekki bara rigningarvatnið sem féll til jarðar, heldur streymdi þangað vatn undan byggðinni við fjórar götur í hlíðinni ofan við safnið. Jarðvatn bæði spratt undan bakkanum ofan safnhúsanna á um það bil 180 metra kafla og rann einnig stríðum straumi í lækjarbunum frá Hafnargötunni. Þetta leiddi til þess að mikið vatn safnaðist upp milli Gránu og Bátahússins og flæddi inn í Njarðarskemmu, en húsið er áfast Gránu og þar er sýning um raforkuframleiðslu í þágu síldariðnaðarins, sem opnaði árið 2015. Dýpi vatnsins í húsinu var 80 cm. þegar mest var á mánudag. Starfsfólk safnsins lagði sig fram við að bjarga því sem bjargað varð og fjarlægja gripi sem ýmist lágu á kafi í vatni eða flutu um húsið. Að sama skapi flæddi vatn inn í Ásgeirsskemmu og Frystihúsið syðst á safnlóðinni, en þar tókst starfsfólki safnsins að forða frekara tjóni með því að grafa skurði og veita vatnsflaumnum þannig að mestu út í lónið við Róaldsbrakka.

Haustið 2015 sköpuðust svipaðar aðstæður á Siglufirði eftir mikið vatnsveður í ágústmánuði. Þá safnaðist mikið vatn fyrir á safnlóðinni en vatnsdýptin í Njarðarskemmu varð þó ekki jafn mikil og nú. Í kjölfarið óskaði Síldarminjasafnið eftir því að sveitarfélagið kæmi fyrir fráveitulögn á svæðinu til að mæta slíkum flóðum í framtíðinni og sporna við frekara tjóni. Vel var tekið í erindið og því vísað til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016.

Skemmst er frá því að segja að enn hefur ekkert gerst, og ástandið því enn verra nú en fyrir fjórum árum. Enn er töluvert af vatni á safnlóðinni og hægt og bítandi lækkar vatnið í Njarðarskemmu. Starfsmenn safnsins eiga fyrir höndum mikla vinnu við að þurrka húsið, koma sýningunni aftur í samt horf, þurrka gripi og meta ástand þeirra. Á sama tíma binda forsvarsmenn safnsins vonir sínar við að sveitarfélagið standi við fyrri samþykkt og ráði bót á frárennslismálum á svæðinu, áður en að næsta vatnsveðri kemur.

Frá þessu er greint á vef Síldarminjasafnsins.

Heimild og myndir: Sild.is.

 

Hringferð gegn ofbeldi á börnum

Stöðvum feluleikinn – átak UNICEF gegn ofbeldi á Íslandi í fullum gangi Einar Hansberg crossfit kappi heimsækir 36 sveitarfélög landsins Rær, skíðar eða hjólar fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi

Í dag, föstudaginn 16. ágúst, hefja UNICEF á Íslandi og crossfit kappinn Einar Hansberg Árnason hringferð gegn ofbeldi á börnum. Átak UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum sem hófst í vor undir yfirskriftinni Stöðvum feluleikinn er enn í fullum gangi. Þá boðaði UNICEF byltingu fyrir börn, sem mun nú berast um allt land dagana 16. – 24. ágúst þegar Einar fer hringinn í kringum landið til að styðja baráttu UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum með heldur óvenjulegum hætti. Einar, fjölskylda hans og vinir, munu stoppa í 36 sveitarfélögum á einni viku þar sem Einar ætlar að róa, skíða eða hjóla 13 þúsund metra á hverjum stað, einn fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi. Í heildina mun Einar því fara um 500 kílómetra.

„Einar hafði samband við okkur og vildi leggja leggja sitt af mörkum til að styðja baráttu okkar gegn ofbeldi. Við hjá UNICEF á Íslandi höfum vakið athygli á því að ofbeldi er ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. Þetta er ofbeldi sem hefur verið falið í samfélaginu í alltof langan tíma. Við gripum því að sjálfsögðu tækifærið til að vekja athygli á þessu alvarlega samfélagsmeini og um leið heimsækja fjölda sveitarfélaga landsins og ítreka ákall okkar. Sveitarfélögin leika mjög mikilvægt hlutverk í lífi barna, enda stýra þau stærstum hluta þeirra verkefna sem hafa bein áhrif á daglegt líf þeirra,“ segir Ingibjörg Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá UNICEF á Íslandi.

Markmið átaksins er að vekja athygli á því hversu alvarlegt ofbeldi gegn börnum á Íslandi er (13.000 börn á Íslandi verða fyrir ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn), þrýsta á stjórnvöld að standa vaktina og búa til breiðfylkingu fólks sem heitir því að bregðast við ofbeldi gegn börnum. Nú þegar hafa yfir 11 þúsund manns skrifað undir ákall UNICEF.

„Það er svo auðvelt að horfa í hina áttina og vonast til að einhver annar taki slaginn. En það þarf ákveðið hugrekki til að rísa upp og taka slaginn sjálfur,“ segir Einar aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að hefja þessa áskorun. Hann hyggst síðan enda hringferðina með því að hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu þann 24. ágúst til stuðnings UNICEF.

UNICEF skorar á sveitarfélög

Hópurinn heldur af stað frá Reykjavík þann 16. ágúst og hringferðinni lýkur í Reykjavíkurmaraþoninu þann 24. ágúst. Viðkomustaðirnir eru fjölmargir, meðal annars Hofsós, Sauðárkrókur, Siglufjörður, Akureyri, Dalvík, Húsavík, Raufarhöfn og Vestmannaeyjar. Einar og UNICEF vonast til að sem flestir mæti á staðina, kynni sér málefnið og setji nafn sitt á bakvið þessa mikilvægu baráttu. Dagskráin er hér að neðan en hún verður einnig uppfærð hér.

Samhliða hringferðinni mun UNICEF á Íslandi ítreka áskorun sína á sveitarfélög landsins að taka þátt og bregðast við ofbeldi á börnum. UNICEF hefur nú þegar sent ákall á öll sveitarfélög landsins og mun nýta slagkraftinn sem myndast með hringferðinni til að þrýsta á að öll sveitarfélög landsins setji sér skýra viðbragðsáætlun gegn ofbeldi.

Hægt er að skrifa undir ákall UNICEF hér: https://feluleikur.unicef.is/

Hægt er að heita á Einar í Reykjavíkurmaraþoninu hér. Framlögin renna í baráttu UNICEF gegn ofbeldi á börnum á Íslandi.

Dagskrá hringferðar gegn ofbeldi:

Föstudagur 16. ágúst

10:00 Akranes

14:00 Stykkishólmur

17:00 Búðardalur

22:00 Patreksfjörður – Gisting

 

Laugardagur 17. ágúst

10:00 Ísafjörður

12:30 Súðavík

16:30 Hólmavík

19:30 Hvammstangi – Gisting

 

Sunnudagur 18. ágúst

09:00 Blönduós

12:00 Sauðárkrókur

14:00 Hofsós

16:30 Siglufjörður

18:00 Dalvík

 

Mánudagur 19. ágúst

12:00 Akureyri

15:00 Húsavík

18:00 Þórshöfn

20:00 Vopnafjörður – Gisting

 

 

Þriðjudagur 20. ágúst

11:00 Egilsstaðir

14:30 Seyðisfjörður

16:30 Fáskrúðsfjörður

19:00 Djúpivogur

21:00 Höfn – Gisting

 

Miðvikudagur 21. ágúst

10:00 Vík

14:30 Vestmannaeyjar

18:30 Hella

21:00 Flúðir

 

Fimmtudagur 22. ágúst

10:00 Laugarvatn

12:00 Hveragerði

14:00 Stokkseyri

16:30 Þorlákshöfn

 

Föstudagur 23. ágúst

09:00 Grindavík

11:00 Garður

13:00 Reykjanesbær

15:00 Vogar

17:00 – 20:00

Hafnafjörður – Garðabær

Álftanes – Kópavogur

Reykjavík – Mosó

 

Laugardagur 24. ágúst

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka

 

 

Viðtöl og nánari upplýsingar veitir:

Ingibjörg Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá UNICEF á Íslandi, s. 6184420 / ingibjorg@unicef.is

 

 

Um UNICEF:

UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna) hefur í tæpa sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Við berjumst fyrir réttindum barna á heimsvísu og sinnum bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. UNICEF treystir eingöngu á frjáls framlög og hefur að leiðarljósi þá bjargföstu trú að öll heimsins börn eigi rétt á heilsugæslu, menntun, jafnrétti og vernd. Við erum á vettvangi í yfir 190 löndum og leggjum áherslu á að ná til allra barna – hvar sem þau eru.

Fylgist með okkur á www.unicef.is og www.facebook.com/unicefisland

Mynd frá UNICEF á Íslandi.

 

25.000 gestir taldir vera á Fiskideginum mikla

Um síðustu helgi var Fiskidagurinn mikli haldinn í Dalvíkurbyggð.  Lögreglan á Norðurlandi eystra var með mikinn viðbúnað enda stærsti viðburðurinn í umdæminu á ári hverju.  Vegagerðin hefur áætlað að heildarfjöldi einstaklingsheimsókna til Dalvíkur yfir Fiskidagshelgina frá föstudegi til sunnudags hafi verið um 25.000 manns sem er töluvert færra en síðastliðnar Fiskidagshelgar. Þar hefur eflaust spilað inn í stórtónleikar Ed Sheeran í Reykajvík og svo slæm veðurspá fyrir svæðið. Tölur sem Vegagerðin hefur birt áætluðu að 36.000 manns hafi verið á Fiskidögum árið 2018, sem hafi einnig verið fjölmennasta hátíðin fram til þessa.

Lögreglan hefur greint frá því að engin alvarleg mál hafi komið upp en mikill erill var þessa helgi hjá lögreglunni.

Mestur fjöldi fólks kom til að hlusta á tónleikana á laugardagskvöldið á Fiskideginum mikla.  Mikill erill var um kvöldið og fram undir morgun á svæðinu. Ölvun var mikil og þurftu fimm aðilar að gista í fangageymslum sökum ölvunar og óspekta. Þá var öflugt fíkniefnaeftirlit þessa helgi og meðal annars var lögreglan með tvo fíkniefnahunda við vinnu. Forvarnargildi þeirra var mikið en alls komu upp 13 minniháttar fíkniefnamál.

Umferð um helgina gekk vel og var lögreglan með yfirumsjón á umferðarstýringu yfir Fiskidagshelgina.

Mynd frá Lögreglan á Norðurlandi eystra.

Mynd: Fiskidagurinn mikli / Bjarni Eiríksson

37 án atvinnu í Fjallabyggð

Alls voru 37 án atvinnu í júlí 2019 í Fjallabyggð. Þar af voru 19 karlar og 18 konur. Atvinnuleysi mælist nú 3,4% í Fjallabyggð og lækkaði um 0,3 % á milli mánaða og hefur nú lækkaði fimm mánuði í röð.

Í Dalvíkurbyggð er atvinnuleysi aðeins 1,9% og eru 20 án atvinnu. Í Skagafirði er atvinnuleysi aðeins 0,7% og eru þar 15 án atvinnu. Á Akureyri eru 292 án atvinnu og mælist 2,8% atvinnuleysi.

Sauðárkrókur

Tónleikar í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Fimmtudaginn 15. ágúst kl. 20:00 verða Ife Tolentino og Óskar Guðjónsson með tónleika í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.  Húsið opnar kl. 19.45 og er tekið við frjálsum framlögum við innganginn.

Ife Tolentino og Óskar Guðjónsson ferðast nú um landið og fagna 20 ára vináttu og samspilsafmæli með tónleikum.
Á tónleikaferðalaginu heiðra þeir einnig minningu João Gilberto, einn upphafsmanna Bossa Nova tónlistar. Gilberto fann upp nýja aðferð við að syngja og spila á kassagítar á fimmta og sjötta áratugnum, sem síðar varð frægt og nýtur virðingar um allan heim.
Tónleikar og Óskars innihalda einnig brasilíska tónlist með jazz, rokk, barrokk og rómantískt klassísku ívafi.

Mynd: Aðsend
Texti og mynd: Fjallabyggð.is

Eftir Fiskidaginn mikla – Fréttatilkynning

Fiskidagurinn mikli var nú haldinn í 19. sinn í Dalvíkurbyggð. Þúsundir gesta nutu gestrisni gestgjafanna. Það var magnað og stjórnendum til mikillar gleði að sjá trausta gesti mæta sem aldrei fyrr þrátt fyrir að í heila viku hafi verið spáð afar vondu veðri sem að sannarlega kom ekki á meðan að Fiskidagurinn mikli stóð yfir. Matseðill Fiskidagsins mikla hefur aldrei verið eins fjölbreyttur enda um 25 réttir á seðlinum og má þar nefna, Sushi, plokkfisk, steiktar gellur, bleikju í tandoori, graflax, fiskborgara, fiskipylsur, fish and chip, harðfisk, rækjusalat og fiskisúpu.
Hinsegin dagar í Reykjavík voru heiðursgestir Fiskidagsins mikla og þeim tengt var tónlistardagskrá, regnbogagata vígð, ræðumaður á setningunni var fulltrúi þeirra og víða var flaggað og skreytt. Stjórnendur Fiskidagsins mikla, gestir og heimamenn höfðu á orði að það hefði verið dásamlegt að hafa þessa heiðursgesti og að geta stutt mannréttindi og margbreytileika. Á endanum er eitt sem stendur uppúr eftir svona stóra helgi en það er kærleiksrík samvera með fjölskyldu og vinum.

Vináttukeðjan – Fjöldaknús.

Föstudaginn 9. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Vináttukeðjan er notaleg stund þar sem staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Það var Sigurður Þorri Gunnarsson útvarpsmaður á K100 sem sá um vináttukeðjuræðuna sem fulltrúi hinsegin daga í Reykjavík. Hljómsveitirnar Angurværð og Ljótu hálfvitarnir glöddu gesti og Friðrik Ómar Hjörleifsson og Gyða Jóhannesdóttir ásamt karlaröddum úr Dalvíkurbyggð fluttu hið árlega lag Mamma.  Heimamenn færðu gestum fléttuð vináttuarmbönd, vináttufána, knúskort og í lokin var innilegt fjöldaknús til að leggja línurnar fyrir helgina.

Fiskisúpukvöldið mikla haldið í 15. sinn.
Á föstudagskvöldinu buðu um 120 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína  uppskrift. Þetta var einstaklega gott og ljúft kvöld, gestir röltu um bæinn og nutu þess að smakka fjölbreyttar súpur og áttu innihaldsríka samveru með fjölskyldu og vinum.

 

Rusl til sýnis – Fjörur hreinsaðar. 

Arctic Adventures ásamt sjálfboðaliðum tók þátt í dagskránni í ár með hreinsun á fjörum við utanverðan Eyjafjörð. Arctic Adventures er nýtt fyrirtæki í hópi aðalstyrktaraðila Fiskidagsins mikla. Verkefnið að hreinsa fjörurnar er stærra en skipuleggjendur gerðu sér grein fyrir og munum við halda áfram með skipulagningu og hafa þetta áfram á dagskránni. Mikið magn af rusli fannst og var það til sýnis í tveimur gámafletum. Gestum fannst þetta áhugavert og voru margir undrandi yfir því hve mikið magn þetta var.

Samhjálp fær matarsendingu
Fiskidagurinn mikli færir Samhjálp í Reykjavík mat sem m.a var eftir eftir Fiskidaginn, þetta hefur verið gert í nokkur ár það gleður stjórnendur Fiskidagsins að ekkert fari til spillis og að geta glatt  og gefið af okkur á fleiri stöðum

 

Tónleikar á heimsmælikvarða – Kraftmikil flugeldasýning.
Hátíðinni lauk með Fiskidagstónleikum og flugeldasýningu í boði Samherja. Það er óhætt að segja að enn eina ferðina hafi gestir sem mættu fyrir neðan hafnarbakkann á Dalvík orðið vitni að einum glæsilegustu tónleikum sem haldnir eru hér á landi og fagmennskan var í fyrirrúmi. Í fararbroddi voru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi. Meðal annara sem komu fram voru: Páll Óskar, Auður, Herra Hnetusmjör, Þorgeir Ástvaldsson, Eyjólfur Kristjánsson, Svala Björgvins, Bjartmar Guðlaugsson, Valdimar, Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson. Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar á Dalvík setti lokapunktinn á einstaka fjölskylduhátíð með kraftmikilli og magnaðri flugeldasýningu þar sem að gasbyssur léku nýtt hlutverk. Þessi sýning var að margra mati ein sú besta frá upphafi.

 

Fiskidagurinn mikli 2019 heiðrar Gunnar Arason fyrrverandi skipstjóra.

Gunnar var heiðraður fyrir framlag sitt til sjávarútvegs og farsælan skipstjóraferil með skip frá Dalvík. Hann varð skipstjóri hjá útgerð Aðalsteins Loftssonar á Dalvík árið 1963, þá aðeins 22 ára gamall, fyrst með Baldvin Þorvaldsson EA 24 og síðan Loft Baldvinsson EA 124.

Árið 1968 tók hann við nýju og glæsilegu skipi, Lofti Baldvinssyni EA 24. Síldin hafði þá breytt göngu sinni frá hefðbundnum miðum íslenskra fiskiskipa. Hinu nýja skipi var þá um haustið haldið til veiða í Norðursjónum og náði á stuttum tíma frábærum árangri við síldveiðar þar og frágang aflans, sem tryggði þeim hæstu verð. Það varð með öðru til þess að Loftur Baldvinsson EA 24 var um árabil með mestu verðmæti allra íslenskra fiskiskipa.  Gullaldarár skipsins voru þegar best gekk í Norðursjónum á árunum 1970 til 1975.

Skipverjar á Lofti Baldvinssyni voru flestir frá Dalvík og það munaði um það að tekjuhæstu sjómenn landsins bjuggu hér. Það er stundum talað um það að heil gata hafi meira og minna verið byggð einbýlishúsum skipverja á Lofti á þessum árum.

Aukin verðmæti vegna gæða aflans urðu aðall áhafnar Lofts Baldvinssonar og þar fór skipstjórinn fremstur meðal jafningja.

Ljósmyndari: Bjarni Eiríksson

Fjallabyggð – Fréttatilkynning vegna mikillar úrkomu í Fjallabyggð

Af gefnu tilefni vilja undirritaðir benda á eftirfarandi atriði vegna mikillar úrkomu í Fjallabyggð undanfarna sólarhringa.

 1. Magn úrkomu á utanverðum Tröllaskaga var gífurleg undanfarna sólarhringa. Úrkomumagnið var litlu minna en í hamfaraúrkomu sem varð 28. ágúst 2015 en náði yfir lengri tíma.

 

 1. Undanfarin ár hefur Fjallabyggð verið markvisst að endurbæta holræsakerfið í báðum byggðarkjörnum með tilliti til mengunar- og umhverfismála ásamt því að gera kerfið betra varðandi aukið álag vegna flóða og úrkomu.

 

 1. Ef framangreint hefði ekki verið framkvæmt hefðu afleiðingarnar orðið mun verri, en raunin var. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mörg hús flæddi inn í, en tilkynnt var til tæknideildar um leka inn í kjallara í þremur húsum á Siglufirði og tvö í Ólafsfirði.

 

 1. Endurgerð holræsakerfisins er langt komin og lýkur á næsta ári. Þær endurbætur sem gerðar hafa verið koma í veg fyrir innstreymi sjávar inn í holræsakerfin en þegar mikið álag er á kerfunum þá safnast upp vatn í lögnunum þar sem há sjávarstaða heldur á móti rennslinu. Þá má benda á að lægsti punktur á Siglufirði er í kóta +1,1 en flóðhæð er frá +1,0 – +1,3.

 

 1. Til að draga úr hættu á innrennsli í kjallara húsa var dælt úr brunnum og lögnum í báðum bæjarkjörnum með tveimur slökkviliðsbílum og tveimur sérútbúnum dælubílum ásamt lausum dælum.

____________________________

Gunnar I. Birgisson

Bæjarstjóri

____________________________

Ármann Viðar Sigurðsson

Deildarstjóri tæknideildar

Gífurleg rigning í Fjallabyggð síðustu daga

Gríðarlega mikil rigning hefur verið í Fjallabyggð síðustu tvo daga, bæði í Ólafsfirði og á Siglufirði. Tjaldsvæðið í Ólafsfirði og svæðið þar í kring hefur illa ráðið við alla þessa úrkomu síðustu daga og hafa myndast stórir pollar þar og hefur Slökkvilið Fjallabyggðar haft næg verkefni undanfarna daga.  Sólahrings úrkoma á Siglufirði hefur verið 130 mm en 98,6 mm á Ólafsfirði. Mun minni rigning hefur verið t.d. á Akureyri en þar hefur aðeins rignt 25 mm síðastliðinn sólahring.

Ljósmyndir með fréttinni koma frá Guðmundi Inga Bjarnasyni, umsjónarmanni tjaldsvæðanna í Fjallabyggð og eru birtar með hans leyfi.

Fiskidagurinn mikli 2019 heiðrar Gunnar Arason

Fiskidagurinn mikli 2019 heiðrar Gunnar Arason, fyrrverandi skipstjóra.  Gunnar er heiðraður fyrir framlag sitt til sjávarútvegs og farsælan skipstjóraferil með skip frá Dalvík. Hann varð skipstjóri hjá útgerð Aðalsteins Loftssonar á Dalvík árið 1963, þá aðeins 22 ára gamall, fyrst með Baldvin Þorvaldsson EA 24 og síðan Loft Baldvinsson EA 124.  Haft

Árið 1968 tók hann við nýju og glæsilegu skipi, Lofti Baldvinssyni EA 24. Síldin hafði þá breytt göngu sinni frá hefðbundnum miðum íslenskra fiskiskipa. Hinu nýja skipi var þá um haustið haldið til veiða í Norðursjónum og náði á stuttum tíma frábærum árangri við síldveiðar þar og frágang aflans, sem tryggði þeim hæstu verð. Það varð með öðru til þess að Loftur Baldvinsson EA 24 var um árabil með mestu verðmæti allra íslenskra fiskiskipa.  Gullaldarár skipsins voru þegar best gekk í Norðursjónum á árunum 1970 til 1975.

Skipverjar á Lofti Baldvinssyni voru flestir frá Dalvík og það munaði um það  að tekjuhæstu sjómenn landsins bjuggu hér. Það er stundum talað um það að heil gata hafi meira og minna verið byggð einbýlishúsum skipverja á Lofti á þessum árum.

Aukin verðmæti vegna gæða aflans urðu aðall áhafnar Lofts Baldvinssonar og þar fór skipstjórinn fremstur meðal jafningja.

Texti og mynd: Aðsend fréttatilkynning.

Metaðsókn að Ljóðasetrinu í ár

Aldrei hafa fleiri heimsótt Ljóðasetur Íslands á Siglufirði á einu ári frá stofnun þess líkt og í ár. Nú hafa 1330 gestir heimsótt safnið í ár, en metið var áður 1310 gestir sem komu árið 2015. Búast má við því að enn fleiri heimsæki safnið í haust, þar sem skólahópar og Ljóðahátíðin Haustglæður dregur alltaf gesti að. Setrið hefur verið opið í um 200 klukkustundir það sem af er ári, en það er Þórarinn Hannesson sem er forstöðumaður setursins. Stefnt er að því að gestir setursins í ár verði yfir 1500.

Á þessu ári hafa verið nokkrir viðburðir sem hafa hjálpað að ná þessum heimsóknafjölda, en í byrjun árs kom fjöldi breta í heimsókn sem komu með beinu flugi til Akureyrar með Super Break. Eins var fjölbreytt dagskrá um verslunarmannahelgina og komu þá yfir 200 gestir.

Íbúar og gestir í Fjallabyggð eru hvattir til að kíkja við á Ljóðasetrið þegar viðburðir eru þar haldnir.

 

 

KF vann nauman sigur á Sindra – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Sindri frá Hornafirði mættust í gær á Sindravöllum í Hornafirði í 16. umferð Íslandsmótsins i 3. deild karla í knattspyrnu. KF liðið þurfti að ferðast langt til að spila þennan leik og gisti því liðið á Djúpavogi í eina nótt fyrir leikinn. Sindri var með 18 stig í 8. sæti fyrir þennan leik og KF var með 35 stig í 2. sæti.  Liðin mættust síðast þann 1. júní sl. á Ólafsfjarðarvelli og vann þá KF nauman sigur með marki í uppbótartíma. Liðin mættust einnig í deildinni árið 2018 og vann þá KF útileikinn 0-1 og Sindri vann á Ólafsfjarðarveli 0-3.

Þjálfari KF gerði fjórar breytingar frá síðasta leik, en inn í byrjunarliðið komu Grétar Áki, Tómas Veigar, Þorsteinn Már og Ljubomir Delic. Markahrókurinn Alexander Már var ekki í hóp og er sennilega að glíma við meiðsli.

Sindri var sterkari í fyrri hálfleik og náðu forskoti í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Þorlákur Pálmason skoraði og kom þeim yfir 1-0 skömmu fyrir hlé. KF strákarnir komu mun sterkari til leiks í síðari hálfleik og fengu sín færi. Vitor var sendur inn á völlinn á 64. mínútu og útaf fór Þorsteinn Már. Skömmu síðar kom Óliver inná fyrir Stefán Bjarka. Á 71. mínútu þá jafnar KF leikinn þegar Jordan Damachoua skorar sitt 5 mark í sumar, en hann hefur reynst drjúgur í markaskorun eftir að hann var færður á miðjuna. Rúmur hálftími var eftir og leikurinn í járnum en allt stefndi í jafntefli en þegar komið var fram á 97. mínútu í uppbótartíma, þá skoraði Ljubomir Delic þetta mikilvæga sigurmark og kom KF í 1-2 þegar leiktíminn var við það að renna út. KF landaði dýrmætum sigri og tæpara mátti ekki standa. Ljubomir var að skora sitt 5 mark í sumar í 18 leikjum í deild og bikar.

KF eltir enn Kórdrengi sem eru með 41 stig í 1. sæti. KF er í 2. sæti með 38 stig og KV er með 32 stig í 3. sæti og KF núna kom með 6 stiga forskot og í góðri stöðu í 2. sæti.

KF spilar næst mjög mikilvægan leik við KV á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 17. ágúst kl. 16:00. KF á nú sex leiki eftir, og verða þetta allt erfiðir leikir, þar á meðal við toppliðin.

 

 

 

 

Úrslit í tíundu miðvikudagsmótaröðinni hjá GFB

Golfklúbbur Fjallabyggð hélt tíundu miðvikudagsmótaröðina þann 7. ágúst síðastliðinn á Skeggjabrekkuvelli. Alls verða mótin 12 svo nú líður að lokum í þessari mótaröð, þar sem 5 bestu mótin gilda til lokaúrslita. Keppt var í Áskorendaflokki og opnum flokki. Alls tóku 19 kylfingar þátt í þessu móti, sem er innanfélagsmót GFB. Öll úrslit má finna á golf.is.

Úrslit í áskorendaflokki:

 1. Jóhann Júlíus Jóhannsson með 19 punkta
 2. Smári Sigurðsson með 14 punkta
 3. Róbert Pálsson með 11 punkta

Úrslit í opnum flokki:

 1. Sigríður Guðmundsdóttir með 17 punkta
 2. Bergur Rúnar Björnsson með 17 punkta
 3. Ármann Viðar Sigurðsson með 16 punkta

Handverksmaður ársins krýndur á Handverkshátíð

Handverksmaður ársins var krýndur fyrsta dag Handverkshátíðar og var það Meiður trésmiðja sem hreppti hnossið 2019. Glæsilega muni úr tré má finna hjá Meiður sem allir eru sérlega vandaðir og mikið lagt í.

Ívaf var valinn nýliði ársins 2019 af dómnefnd enda með glæsilegar vörur til sýnis á Handverkshátíð 2019. Sérlega gaman er að sjá hve vandaðar vörurnar eru og hve mikið er lagt í hönnun þeirra.

Einnig var flottasti bás Handverkshátíðar 2019 valinn af dómnefnd en eftir vandað val og mikla vinnu varð Litla Sif fyrir valinu en básinn er sérlega skemmtilega fram settur og nýtur sín vel á sýningunni.

Valnefndin í ár var skipuð flottu fagfólki. Almari Alfreðssyni vöruhönnuði, Elínu Björgu útstillingahönnuði og eiganda Eftirtekt.is og Gunnhildi Helgadóttur myndlistamanni.

Myndir: Esveit.is

Ãvaf

Flottasti bás ársins 2019

Handverkshátíðin í Eyjafirði um helgina

Handverkshátíðin í Eyjafirði er nú haldin í 27. sinn og hófst á fimmtudaginn. Um 100 hönnuðir og handverksfólk selja fatnað, keramik, snyrtivörur, textílvörur og skart sem oftar en ekki er unnið úr rammíslensku hráefni. Á útisvæðinu er hægt að bragða á og kaupa góðgæti frá Beint frá býli auk fjölda annarra aðila. Ýmsar uppákomur eru í boði alla dagana s.s. sýning á gömlum traktorum og miðaldabúðir.

Handverkshátíð 2019

Um 700 strákar á Króksmótinu

Tindastóll heldur Króksmótið á Sauðárkróki um helgina. Um 700 strákar taka þátt frá rúmlega 20 liðum í 6.-7. flokki. Búast má við að um 2500 manns komi á mótið, foreldrar, þjálfarar og aðrir fylgjendur. Fjöldi leikja verður í dag og á morgun þar sem keppt verður á 12 völlum og hófst dagskráin kl. 9:00 og stendur frameftir degi. Leikið er í 2×8 mínútur.

Flest liðin koma frá KA en félagið kemur með 19 lið, Þór kemur með 15 lið, Valur með 11 lið og Tindastóll 10 lið. Önnur lið á mótinu eru: Afturelding, Fylkir, Einherji, Grindavík, Grótta, Hvöt, Höttur, KF/Dalvík, Kormákur, Leiknir, Magni, Smári, UMF Langnesinga, Vestri og Völsungur.

DCIM100MEDIA

Dalvík vann Tindastól á Dalvíkurvelli

Dalvík/Reynir og Tindastóll frá Sauðárkróki mættust á Dalvíkurvelli í kvöld í 15. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla. Leikurinn fór fram í hinni einu og sönnu fiskidagsviku og því mikill stemningsleikur sem boðið var uppá. Búist var við hörkuleik þótt að liðið séu að berjast á sitthvorum endanum í deildinni, þá er alltaf hart barist þegar nágrannalið mætast.

Stólarnir höfðu aðeins unnið einn leik af 14 áður en kom að þessum leik svo þeir voru mættir til að berjast til síðasta dropa.  Liðin mættust í upphafi móts og þá vann D/R 1-2 á útivelli.

Í fyrri hálfleik þá veifaði dómari leiksins gula spjaldinu fjórum sinnum.  Skömmu fyrir hálfleik þá tóku gestirnir forystu þegar Aðalgeir Axelsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Tindastól. Stólarnir leiddu því 0-1 í hálfleik.

Heimamenn komu ákveðnir til leiks og uppskáru vítaspyrnu á 57. mínútu og úr henni skoraði Sveinn Margeir Hauksson, hans fyrsta mark í deild og bikar fyrir Dalvík í 31 leik. Staðan orðin 1-1 og rúmur hálftími eftir. Þjálfari Dalvíkur gerði tvær skiptingar skömmu eftir markið og kom Jóhann Örn og Viktor Daði inná fyrir Núma Kára og Pálma Heiðmann.

Halldór Broddi varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 72. mínútu fyrir Tindastól og kom D/R í 2-1. Honum var skipt af leikvelli á sömu mínútu og gerði þjálfari Tindastóls tvöfalda skiptingu, en Arnar Ólafsson fór einnig út af og inná komu Alvaro og Ísak Sigurjónsson. Dalvík nýtti einnig tækifærið og sendi Alexander Inga inná fyrir Gunnlaug Bjarnar.

Dalvík/Reynir komst í 3-1 á 79. mínútu með marki frá Þresti Jónassyni, hans annað mark í sumar og D/R komust í þægilega stöðu þegar skammt var eftir.

Aðeins þremur mínútum síðar eða á 82. mínútu fengu gestirnir dæmda vítaspyrnu, og úr henni skoraði Konráð Sigurðsson og minnkaði hann muninn í 3-2, þegar 8 mínútur voru eftir auk uppbótartíma.  Dómarinn hélt áfram að veifa gula spjaldinu og náði fjórum til viðbótar á síðustu 15 mínútum leiksins. Dalvík hélt út og sigruðu 3-2 í þessum fjöruga leik.

Dalvík/Reynir eru núna í 3. sæti deildarinnar með 24 stig en liðin fyrir neðan eiga einn leik til góða og getur því liðið færst niður þegar umferðinni lýkur.

Mikil aðsókn í MTR

Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur tekið inn nemendur sem voru á biðlistum og er skólinn yfirfullur á haustönn.  Skóli hefst samkvæmt þann 19. ágúst 2019 klukkan 8:10. Skólameistari heldur stutt ávarp þar sem hún kynnir starfsmenn skólans og nemendur hitta umsjónarkennara sína. Eftir það hefst kennsla samkvæmt stundaskrá.

Þann 19. ágúst fer rúta frá Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði kl. 7:40 og frá Dalvíkurskóla kl. 7:50. Strætó fer frá Hofi á Akureyri kl. 7:59.

Fundur með forráðamönnum nemenda er 28. ágúst klukkan 17:00 í skólanum.

Frábær þátttaka í Minningarmóti GFB

Minningarmót Golfklúbbs Fjallabyggðar fór fram mánudaginn 5. ágúst á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði. Leiknar voru 18 holur í punktakeppni og var ræst út af öllum teigum. Alls tóku 45 kylfingar þátt í mótinu og komu þeir frá fjölmörgum klúbbum. Tæplega 9 stiga hiti var á meðan á mótinu stóð og hægur vindur.

Veitt voru verðlaun í karla- og kvennaflokki og fyrir besta skor í höggleik. Nándarverðlaun voru veitt á 8/17 braut.

Kaffihlaðborð var að loknu móti.

Úrslit í karlaflokki:

 1. sæti Þorgeir Örn Sigurbjörnsson, GFB, 41 punktur
 2. sæti Friðrik Hermann Eggertsson, GFB, 40 punktar
 3. sæti Haukur Hilmarsson, GR, 36 punktar

Úrslit í kvennaflokki:

 1. sæti Sigríður Guðmundsdóttir, GFB, 37 punktar
 2. sæti Dagný Finnsdóttir, GFB, 36 punktar
 3. sæti Björg Traustadóttir, GFB, 35 punktar

Veiga kayakræðari og transkona farin frá Siglufirði

Veiga Grétarsdóttir, kayakræðari og transkona frá Ísafirði rær nú á kayak umhverfis Ísland og safnar áheitum fyrir Píeta samtökin, sem sinna þjónustu við fólk í sjálfsvígshættu, með sjálfsskaða og aðstandendu þeirrar.

Veiga kom til Siglufjarðar um kl. 18:00 í gær. Björgunarsveitin Strákar frá Siglufirði tóku á móti henni við minni Héðinsfjarðar og Gestur Hansson og fjölskylda úr Top Mountaineering mættu henni við Selvíkurvita og fylgdu henni einnig síðasta spölinn. Fjölmenni var við fjöruna þar sem Veigu kom í land.  Sigló Hótel bauð Veigu svo gistingu síðastliðna nótt.

Veiga hélt fyrirlestur í gærkvöldi í Ráðhúsi Fjallabyggðar, þar sem hún talaði um reynslu sína af vanlíðan, sjálfsvígshugsunum, kynleiðréttingarferlinu og hvernig kajaksiglingar hafa hjálpað henni að finna tilgang með lífinu.

Veiga lagði svo af stað frá Siglufirði rétt eftir kl. 10:00 í morgun og var komin út fyrir Siglufjörð um klukkutíma síðar. Næsta stopp hjá henni var rétt við Haganesvík.

Frekari upplýsingar um Veigu og verkefnið hennar má finna á eftirfarandi vefslóðum: http://www.veiga.is og https://pieta.is/a-moti-straumnum/

Ljósmyndir: Fjallabyggð.isHeimild: Fjallabyggð.is

Fjölmenni mætti á nýja Síldarævintýrið

Heimamenn á Siglufirði stóðu fyrir nýju Síldarævintýri um verslunarmannahelgina. Þriggja manna stjórn byrjaði að skipuleggja hátíðina í vor og fengu fyrirtæki og einstaklinga til að styrkja ýmsa viðburði á Síldarævintýrinu. Hátíðin var með breyttu sniði og hafði ekki verið haldin undanfarin tvö ár, en um marga litla viðburði var að ræða og ekki stórt svið á Ráðhústorginu. Fram til þessa hafði Fjallabyggð haldið hátíðina og lagt til fé, en sveitarfélagið styrkti ekki nýju hátíðina í ár með fjárstyrk og var umsókn um styrk hafnað án skýringa, sveitarfélagið lagið þó til ýmsan búnað sem var notaður við hátíðina. Heimamenn söfnuðu því fyrir hátíðinni svo hún yrði sem glæsilegust. Dagskrá hátíðarinnar var svo komin viku fyrir hátíð og var send til allra íbúa Fjallabyggðar. Eins og með allar hátíðir þá var erfitt að áætla hversu margir myndu koma á hátíðinna, en það var mál manna að um 4000 manns hefðu heimsótt hátíðina í ár.

Fjölmargir viðburðir voru fyrir börnin á þessari hátíð sem var skipulögð fyrir fjölskyldur. Heimamenn skiptu hverfunum í litahverfi og héldu götugrill á fimmtudeginum. Hoppuskastalar voru á svæðinu, hægt var að fara á hestbak, sögustund í Ljóðasetrinu, hlaup fyrir 6-13 ára og fjölmargir íþrótta- og menningarviðburðir voru þessa helgina sem komu í bland við góða dagskrá. Nokkur lítil svið voru í Aðalgötunni þar sem heimamenn héldu uppi tónlistardagskrá. Veitingahúsin í miðbænum nutu góðs af fjölmenninu og var þétt setið á öllum veitingahúsum um helgina.  Tjaldsvæðin á Siglufirði voru full af fólki, húsbílum, hjólhýsum og tjöldum. Skemmtiferðaskip komu til Siglufjarðar yfir verslunarmannahelgina og settu svip sinn á bæinn.

Bryggjusöngur var haldinn á laugardagskvöld og var þar saman komið mikið fjölmenni og gríðarleg stemning og heyra mátti sönginn upp í efri byggð Siglufjarðar.

Umferðin gekk vel til og frá Fjallabyggðar fyrir og eftir hátíðina og þurft enga aðkomu lögreglu eins og stundum gerist þegar stórar hátíðir eru haldnar í Fjallabyggð.

Telja má að þessi hátíð sé aftur komin til að vera og að stjórnendur bjóði sig flestir aftur fram til að leiða hátíðina og skipuleggja. Stjórnendur hafa nú fengið dýrmæta reynslu og geta byggt á henni á næsta Síldarævintýri.

 

Fjölskyldan saman á Fiskideginum mikla – fréttatilkynning

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er nú haldinn í 19. sinn. Frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Ennfremur er allur matur og skemmtun á hátíðarsvæðinu ókeypis.

Fjölskyldan saman á Fiskideginum mikla, dagana 8. til 11. ágúst 2019 í Dalvíkurbyggð.

 • Fjölbreyttur matseðill.
 • Strandhreinsun Fiskidagsins mikla.
 • Þyrla Landhelgisgæslunnar.
 • Fiskisúpukvöldið 15 ára.
 • Stórkostleg tónlistarveisla.
 • Glæsileg flugeldasýning.
 • Góðir heiðursgestir.
 • 20 ára aldurstakmark á tjaldsvæðunum.

Þátttaka íbúa og gesta á öllum aldri er áhugaverð.
Á nítjánda ári Fiskidagsins mikla þegar horft er til baka er margt að hugsa um. Eitt af því sem er frábært er þátttaka íbúa og gesta á öllum aldri. Það er magnað að ár eftir ár taki á fjórða hundrað sjálfboðaliðar þátt í að búa til það ævintýri sem fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn Mikli sannarlega er, þessir allra yngstu taka þátt í pökkun og skreytingum og þeir allra elstu pakka, skreyta, baka, afgreiða, grilla svo að fá eitt sé nefnt.

 20 ára aldurstakmark.

Það er von aðstandenda Fiskidagsins Mikla að allir skemmti sér vel, njóti matarins og þeirra atriða sem í boði eru. Sérstaklega vonumst við til þess að allir eigi góðar og ljúfar stundir með fjölskyldu og vinum. Fiskidagurinn Mikli er fjölskylduhátíð þar sem hvorki er pláss fyrir dóp né drykkjulæti og leggja aðstandendur mikla áherslu á að íbúar og gestir hafi ekki áfengi um hönd á auglýstum dagskrárliðum Fiskidagsins Mikla: Vináttukeðjunni og á Fiskideginum milli kl. 11:00 og 17:00. Frá upphafi höfum við haft frábæra gesti sem hafa gengið einstaklega vel um og fyrir það viljum við þakka sérstaklega.  Því miður þurfum við að breyta aldurstakmarki á tjaldstæðunum  í 20 ára, viljum við beina því til foreldra og ungmenna að VIRÐA þetta.

  Þyrlusýning Landhelgisgæslunnar – Mætum snemma.

Þyrlusýning hefst kl. 10:30 og dagskrá á sviði er frá klukkan 11:00 til 17:00.

Á sjálfum Fiskideginum Mikla, laugardaginn 10. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 verður að vanda margt í boði. Stundvíslega kl. 11:00 opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst. Við mælum með því að gestir séu mættir tímanlega en í ár kemur þyrla landhelgisgæslunnar og sýnir listir sínar og björgun úr sjó kl.10.30. Í kjölfarið hefst Fiskidagurinn Mikli sjálfur og þá er gott aðgengi að öllum stöðvum og enginn missir af neinu. Bent er á að verðlaunaafhendingar fyrir fjölskylduratleik og fleira verður snemma í dagskránni og þeir sem eru dregnir út í verðlaunaleikjum verða að vera á staðnum.

 

Gellur, plokkfiskur, ostafylltar fiskibollur, indverskt og Egils Appelsín.

Matseðill Fiskidagsins 2019 er áhugaverður að vanda, Friðrik V. er yfirkokkur og  lagði línurnar að góðum matseðli ásamt sínu fólki. Þar má að sjálfsögðu finna gamla og góða rétti eins og síld og rúgbrauð, filsur sem eru fiskipylsur í brauði, harðfisk og íslenskt smjör, fersku rækjurnar og fiskborgarana. Það er öflug grillsveit sem grillar fiskborgarana en líkt og á síðasta ári sameinast árgangur 1965 árgangi 1966 sem hefur staðið vaktina í mörg ár. Allir drykkir á hátíðinni eru í boði Egils Appelsín. Sushi Corner á Akureyri mætir aftur til okkar eftir að hafa slegið í gegn í fyrra. Fiskurinn á grillunum er með nýju sniði, bleikja í Pang Gang sósu og þorskur í karamellu og mangósósu. Á bás Friðrik V. verður í boði Hríseyjarhvannargrafin bleikja eins og á síðasta ári en nýjung á þeim bás verða djúpsteiktar gellur. Akureyri FISH og Reykjavík FISH koma með Fish and chips. Indverskt rækjusalat í boði Dögunar verður á sér bás. NINGS fjölskyldan mætir með risasúpupottinn þar sem boðið verður uppá austurlenska rækju og bleikjusúpu. Aðstoðarkokkur Fiskidagsins mikla Addi Yellow stýrir sasimi stöðinni þar sem að langreyður frá Hval h.f. og bleikja verða í boði.  Grímur kokkur mætir sjóðandi heitur eftir árshlé með plokkfiskinn góða og ostafylltar fiskibollur, það sama er uppá teningnum hjá Moorthy og fjölskyldu í Indian Curry House á Akureyri þau mæta til baka eftir árshlé með Taandoori bleikju og Naan brauð. Kaffibrennslan býður uppá besta kaffið svartan Rúbín. Íspinnarnir frá Samhentum Umbúðamiðlun vinum Fiskidagsins mikla númer 1. klikka aldrei. Samherji býður uppá sælgæti og merki dagsins.
Allar nánari upplýsingar um matseðilinn veitir Friðrik V. í síma 863-6746

 

Fiskasýning, Andlitsmálun, Disney kastali, þyrluflug og  sýndarveruleikavideó.

Skemmti og afþreyingar dagskráin á hátíðarsvæðinu milli 10.30 og 17.00 er fjölbreytt. Dagskráin hefst með látum þegar þyrla landhelgisgæslunnar sýnir listir sínar. Árni frá Skottafilm á Sauðárkróki verður með sýndarveruleikavideó frá vinnslu og veiðum. GG sjósport leyfir öllum að prófa  Sit-On-Top kajakana. Fjöldi fallegra og fægðra fornbíla frá Bílaklúbbi Akureyrar verða til sýnis. Danshópurinn vefarinn sýnir þjóðdansa vítt og breytt um svæðið. Frá Reykjavík kemur hinn magnaði danshópur Superkidsclubjr. Teikniveröld fyrir börnin í salthúsinu og börnin fá glaðning þegar þau skila mynd. Fimleikafélag Akureyrar sér um andlitsmálun. Grímseyjarferjan verður við ferjubryggjuna. Myndasýning um starfsemi Samherja til sjós og lands. Vinir okkar úr Latabæ dreifa happadrættismiðum. Leikhópurinn Lotta verður með tvær sýningar yfir daginn á hátíðarsvæðinu þar sem að þau verða með söngva úr leikritunum sem að þau hafa sýnt s.l. 11 ár. Fiskasýningin magnaða var sett upp innandyra í fyrra og endurbætt og nú höldum við þeim endurbótum áfram með lýsingu, textum, myndböndum og fleiru. Um miðjan daginn verður sýndur hákarlaskurður. Listamenn dansa, syngja, spila, mála, teikna og sýna listir sínar víða um svæðið. Að venju er Björgunarsveitin á Dalvík með tjald á bryggjunni þar sem að hægt er að fá skyndihjálp og leita má til þeirra vegna týndra barna og fleira.

Nánari upplýsingar um Fiskasýninguna veitir Skarphéðinn Ásbjörnsson í síma 8926662

 

Vináttukeðja – setning hátíðarinnar – mætum tímanlega.

Setning Fiskidagsins Mikla  er á Vináttukeðjunni föstudaginn 9. ágúst kl. 18:00. Vináttu, gleði og kærleiksfánum verður dreift til barna í upphafi dagskrár. Við skorum á gesti að mæta snemma. Meðal þeirra sem fram koma á Vináttukeðjunni eru: Ljótu  hálfvitarnir  sem verða með tónleika í Menningarhúsinu Bergi á föstudagskvöldinu kl. 22.30 eftir að súpukvöldinu lýkur formlega  hljómsveitin Angurværð sem á lag á topplag á vinsældarlista Rásar 2 með lagið ferðalangur, Friðrik Ómar Hjörleifsson, Gyða Jóhannesdóttir og karlaraddir úr Dalvíkurbyggð. Vinátturæðuna 2019 flytur Sigurður Þorri Gunnarsson útvarpsmaður fulltrúi Hinsegin daga í Reykjavík. Að venju verður flutt lagið Mamma  eftir Friðrik Ómar Hjörleifsson og textinn eftir stjórnarformann Fiskidagsins Mikla Þorstein Má Aðalsteinsson. Í lokin verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleiks línur fyrir helgina. Knúskortum og vináttuböndum verður dreift í lok dagskrár.

Fiskisúpukvöldið 15 ára.

Föstudagskvöldið 9. ágúst verður Fiskisúpukvöldið en það er einstakt á sína vísu og er nú haldið í 15. sinn. Að venju eru fjöldinn allur af fjölskyldum sem tekur þátt. Súpukvöldið hefst kl. 20:15 og þar bjóða íbúar gestum og gangandi heim í fiskisúpu og að njóta einlægrar gestrisni. Þungi þessa verkefnis liggur á herðum íbúanna og gesta þeirra en góðir aðilar leggja þessu verkefni mikið og gott lið. Það eru MS með rjóma, Kristjánsbakarí með brauði og Samherji með fiski. Í tilefni afmælisins verða margir súpugestgjafar með myndasýningar frá fyrri súpukvöldum.

 

Bílastæða mál

Skipuleggjendur Fiskidagsins mikla leggja áherslu á að gestir virði leiðbeiningar björgunarsveitarfólks og lögreglumanna um bílastæði. Á Dalvík eru allar vegalengdir stuttar svo það á ekki að vera mikið mál fyrir gesti að ganga. Einnig er óskað eftir því að heimamenn og gestir þeirra geymi bílana heima um þessa helgi.

Kvöldtónleikar og flugeldasýning í boði Samherja
Enn á ný er lagt af stað með stórtónleika að kvöldi Fiskidagsins mikla. Á áttunda tug tæknimanna, söngvara og hljóðfæraleikara taka þátt í þessari stórsýningu.  Meðal þeirra sem fram koma eru  heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi Gunnlaugsson. Svo má nefna Valdimar, Svölu Björgvins, Siggu og Grétar í Stjórninni, Auði, Pál Óskar, Herra Hnetusmjör, Bjartmar Guðlaugsson, Eyjólfur Kristjánsson, Þorgeir Ástvaldsson og fleiri. Að venju er það stórhljómsveit Rigg viðburða sem leikur undir og dansarar undir stjórn Birnu Björnsdóttur. Dagskráin endar með flugeldasýningu sem björgunarsveitin á Dalvík sér um.

 

Nánari upplýsingar um tónleikana veitir Friðrik Ómar  í síma 868-9353
Nánari upplýsingar um flugeldasýninguna veitir Haukur í síma 8538565

Fjörur hreinsaðar – ruslið til sýnis. – nýr aðalstyrktaraðili.

Arctic Adventures í samvinnu við góða aðila munu taka þátt í dagskránni í ár með hreinsun á fjörum við utanverðan Eyjafjörð. Arctic Adventures mun útvega báta og búnað til að fara upp í fjörur og hreinsa þar til. Farið verður í þessa hreinsun fimmtudaginn 8. ágúst með þátttöku íbúa og gesta hátíðarinnar. Skráning og nánari upplýsingar á facebooksiðunni „Strandhreinsun Fiskidagsins mikla“ .Ruslið og það sem finnst við strendurnar verður til sýnis á laugardeginum eða sjálfum Fiskideginum mikla. Mikil vakning hefur orðið fyrir mikilvægi þess að hreinsa hafið og strandlengjur landsins. Við utanverðan Eyjafjörð eru margar fjörur illfærar og þar mun verkefnið að mestu fara fram. Það verður spennandi að sjá þetta verkefni blómstra. Það verða ýmisr samstarfsaðilar í þessu verkefni m.a. Samál sem mun endurvinna allt ál sem finnst og Gámþjónusta norðurlands sem flokkar og vinnur úr ruslinu, Sæplast sem sér um ker fyrir ruslið sem finnst, allir sjálfboðaliðarnir og fleiri.

 

Flokkun á rusli
Á s.l ári hófst samstarf  fjögurra aðila, Samáls samtaka álframleiðenda, Sæplasts, Gámaþjónustu Norðurlands og Fiskidagsins mikla. Þá var álpappír, plast og almennt sorp  flokkað ásamt dósum og plastflöskum sem voru flokkaðar af Björgunarsveitinni á Dalvík.  Í ár höldum við áfram með sömu flokkun. Sæplast setur upp litakerfi og merkingar á Sæplastkör sem verða víða á hátíðarsvæðinu og standa vonir til þess að gestir kynni sér merkingar og leggi verkefninu lið. Gámaþjónusta Norðurlands sér að venju um að taka það sem flokkað er og kemur á rétta staði. Samál tekur síðan allan álpappír og endurvinnur

 Góða skemmtun á  fjölskylduhátíðinni Fiskideginum mikla í Dalvíkurbyggð.

Allar nánari upplýsingar veitir Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins Mikla 8979748

Ljósmynd: Bjarni Eiríksson.

Ljósmynd: Bjarni Eiríksson.

 

Úrslit í Sigló Hótel open golfmótinu

Sigló Hótel open golfmótið var haldið laugardaginn 3. ágúst á Siglógolf á Siglufirði og mættu 53 kylfingar til leiks. Síldarævintýrið á Siglufirði stóð sem hæst, og voru nokkrir kylfingar komnir langt að til að taka þátt í mótinu.

Veðrið var mjög fínt þegar mótið hófst, sólarglæta að skein í gegnum þokuna og veðrið hið besta þegar allir komu upp í golfskála eftir að móti lauk. Fólk var almennt séð ánægt með daginn og þá sérstaklega hvað völlurinn var frábær og rennslið á flötunum gott.

Sigló Hótel og Hannes Boy styrktu mótið með frábærum vinningum.

Úrslit:

Karlaflokkur:

 1. Jóhann Már Sigurbjörnsson, frá GKS – 35 punktar (betri seinni 9 holurnar)
 2. Salmann Héðinn Árnasson, frá GKS – 35 punktar
 3. Óðinn Freyr Rögnvaldsson, frá GKS – 34 punktar

Kvennaflokkur:

 1. Ólína Þórey Guðjónsdóttir, frá GKS – 40 punktar
 2. Guðrún Þorsteinsdóttir, frá GS – 37 punktar
 3. Sólrún Ólína Sigurðardóttir, frá GR – 34 punktar

 

Nándarverðlaun á par 3 brautum:
6. hola – Tómas Kárason
7. hola – Arnar Freyr Þrastarson
9. hola – Ólafur Haukur Kárason