All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Hertar reglur taka gildi 31. október

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögur sóttvarnalæknis um hertar sóttvarnaráðstafanir sem taka gildi laugardaginn 31. október. Sömu reglur munu gilda um allt land. Meginbreytingin felst í 10 manna fjöldatakmörkum í stað 20 áður. Allt íþróttastarf verður óheimilt og sviðslistir sömuleiðis. Gert er ráð fyrir að reglur um hertar aðgerðir gildi til og með 17. nóvember. Þær verða endurmetnar eftir aðstæðum með hliðsjón af því hvort hægt verði að aflétta þeim fyrr, eða hvort framlenging sé nauðsynleg.

 

Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að smit í samfélaginu sé enn mikið, þrátt fyrir hertar sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til 20. október síðastliðinn. Því sé hætta á að hópsýkingar brjótist út og valdi enn meira álagi á heilbrigðiskerfið sem sé mikið fyrir. Bent er á að Landspítali sé á neyðarstigi vegna mikils álags og að margvíslegri heilbrigðisstarfsemi hafi verið frestað til 15. nóvember. Mikið álag sé á þeim fimm farsóttarhúsum sem nú eru starfrækt og meira um veikindi meðal þeirra sem þar eru í einangrun en áður hefur verið í faraldrinum. Því er það mat sóttvarnalæknis að grípa þurfi til hertra aðgerða til að takmarka útbreiðslu veirunnar og koma þannig í veg fyrir alvarlegar afleiðingar af völdum COVID-19 og annarra sjúkdóma.

Helstu takmarkanir:

 • Allar takmarkanir ná til landsins alls.
 • 10 manna fjöldatakmörk meginregla.
  – Heimild fyrir 30 manns í útförum en 10 að hámarki í erfidrykkjum.
  – 50 manna hámarksfjöldi í lyfja- og matvöruverslunum en reglur um aukinn fjölda með hliðsjón af stærð húsnæðisins.
  – Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug eða störf viðbragðsaðila.
  – Fjöldatakmarkanir gilda ekki um störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, Alþingis og dómstóla.
 • 10 manna fjöldatakmörk eiga ekki við þegar fleiri búa á sama heimili.
 • Íþróttir óheimilar.
 • Sundlaugum lokað.
 • Sviðslistir óheimilar.
 • Krám og skemmtistöðum lokað.
 • Veitingastaðir með vínveitingaleyfi mega ekki hafa opið lengur en til 21.00.
 • Grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
 • Börn fædd 2015 og síðar undanþegin 2 metra reglu, fjöldamörkum og grímuskyldu (gilti áður um börn fædd 2005 og síðar).

Undanþáguheimildir:

 • Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkunum vegna félagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast. Þar undir fellur m.a. heilbrigðisstarfsemi og félagsþjónusta.
 • Ráðherra getur veitt undanþágu við banni frá íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, til dæmis alþjóðlegra keppnisleikja.

Reglugerð um samkomutakmarkanir vegna farsóttar
Minnisblað sóttvarnalæknis

Ný reglugerð um takmarkanir á skólastarfi verður kynnt í næstu viku.

Skíðadeild Tindastóls fær nýjan snjótroðara

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur keypt snjótroðara af gerðinni Leitner Leitwolf, árgerð 2011 fyrir Skíðadeild Tindastóls.

Um er að ræða troðara sem var upptekinn á verkstæði hjá Prinorth í ágúst 2020. Snjótroðari þessi telst eign Sveitarfélagsins Skagafjarðar og er viðbót við aðrar eignir sveitarfélagsins á skíðasvæðinu í Tindastóli.

Sveitarfélagið styrkir Tindastól og byggir stúku

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur samþykkt að styrkja knattspyrnudeild Ungmennafélagsins Tindastóls um 1.700.000 kr. vegna framúrskarandi árangurs meistaraflokks kvenna þar sem liðið varð deildarmeistari í 1. deild og mun leika í efstu deild á næsta keppnistímabili.

Jafnframt hefur verið samþykkt að farið verði í uppbyggingu á stúku og viðeigandi aðstöðu við gervigrasvöll félagsins sem uppfyllir skilyrði mannvirkjanefndar KSÍ um leiki í efstu deild.

12 skagfirsk fyrirtæki meðal Framúrskarandi fyrirtækja 2020

Listi Creditinfo um Framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi var birtur nýverið, en í 11 ár hefur Creditinfo unnið greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og veitt framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu fyrir árangurinn. Framúrskarandi fyrirtæki byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag fjárfesta og hluthafa. Það er því eftirsóknarvert að komast á lista Framúrskarandi fyrirtækja og njóta þannig aukins trausts.

Tólf skagfirsk fyrirtæki eru meðal þessara fyrirtækja í ár:

 • FISK-Seafood
 • Friðrik Jónsson ehf.
 • Kaupfélag Skagfirðinga
 • Norðurtak ehf.
 • Ó.K. Gámaþjónusta-sorphirða ehf.
 • Raðhús ehf.
 • Spíra ehf.
 • Steinull hf.
 • Steypustöð Skagafjarðar ehf.
 • Tengill ehf.
 • Vinnuvélar Símonar ehf.
 • Vörumiðlun ehf.

Til þess að teljast framúrskarandi þurfa fyrirtækin að uppfylla ströng skilyrði sem eru listuð hér að neðan.

 • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
 • Ársreikningi skilað lögum samkvæmt eigi síðar en átta mánuðum eftir uppgjörsdag
 • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
 • Framkvæmdarstjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
 • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár
 • Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu þrjú ár
 • Jákvæð ársniðurstaða síðustu þrjú ár
 • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár
 • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár

 

Heimild: www.creditinfo.is

Byggðarráð Skagafjarðar þrýstir á jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar

Á undanförnum árum hefur Sveitarfélagið Skagafjörður þrýst mjög á þingmenn og Vegagerðina um hröðun undirbúnings og framkvæmda við jarðgöng á milli Fljóta og Siglufjarðar. Nú sem aldrei fyrr er lífsnauðsynlegt að göngin komist til framkvæmda því jarðsig, skriðuföll og grjóthrun hefur verið með mesta móti á undanförnum misserum eins og þeir þekkja sem aka daglega um veginn. Tíðar jarðskjálftahrinur úti fyrir Tröllaskaga eru ekki til að bæta ástandið. Það er mál manna að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær Siglufjarðarvegur rofnar á löngum kafla.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á alþingismenn og samgönguráðherra að tryggja að undirbúningi jarðganga á milli Fljóta og Siglufjarðar verði lokið sem fyrst og tryggja fjármögnun til að framkvæmdir við gerð þeirra geti hafist innan tíðar. Byggðarráð hvetur Vegagerðina jafnframt til að hafa heimamenn í Fljótum og á Siglufirði með í ráðum við greiningu á heppilegri legu ganganna.

Þetta kom fram á síðasta fundi Byggðarráðs Skagafjarðar.

Eldur kom upp í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki

Slökkviliðið í Skagafirði var boðað út rétt fyrir kl. 23.00 í gærkvöldi vegna elds í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki.
Um var að ræða eld í útblástursröri, sem liggur frá verksmiðjunni. Eldurinn náði að læsa sig í lauslegt dót sem var fyrir neðan rörið.
Útbreiðsluhætta var lítil og greiðlega gekk að slökkva eldinn. Eignartjón er minniháttar.

Fækkun sorpmóttökustaða í framhéraði Skagafjarðar

Vegna opnunar á sorpmóttökusvæði í Varmahlíð er fyrirhugað að fækka móttökustöðvum fyrir sorp í framhéraði Skagafjarðar. Nýja svæðið verður afgirt með 2m grindargirðingu og verður opið á fyrirfram ákveðnum opnunartímum. Starfsmaður verður á svæðinu á meðan það er opið og aðstoðar við flokkun.

Ein helsta forsenda ákvörðunar sveitarfélagsins Skagafjarðar um byggingu nýrrar sorpmóttökustöðvar í Varmahlíð var að bæta flokkun.

Umhverfis og samgöngunefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar  hefur ákveðið að öllum gámastöðum verði lokað vestan Héraðsvatna þegar að nýja móttakan verður opnuð.

 

Ný ostaframleiðsla á Brúnastöðum í Fljótum

Hjónin á Brúnastöðum í Fljótum, Stefanía Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Helgi Ríkharðsson, hafa fjárfest í búnaði til að framleiða og þróa eigin osta og aðrar afurðir. Núna er aðeins beðið eftir söluleyfi frá MAST en eftir það fara ostarnir á markað.

Eftir mjög langan undirbúning sem hófst vorið 2018 með námskeiði í Farskólanum, Matarsmiðjan beint frá býli, þá hefur fjölskyldan á Brúnastöðum í Fljótum opnað eigin matarsmiðju. Það er ekki einfalt ferli eða ódýrt að fara í slíkar framkvæmdir hér á Íslandi þar sem kröfurnar eru miklar, bæði hvað varðar húsnæðið og öll leyfi.

Fyrstu afurðirnar eru að líta dagsins ljós þessa dagana en það eru geitaostar. Mjólkurfræðingurinn Guðni Hannes Guðmundsson hefur verið þeim hjónum innan handar varðandi hönnun á ostum og ráðgjöf á kaupum tækja.

Það hentar greinilega geitunum á Brúnastöðum vel að spranga um undir fjallgarðinum því gæði mjólkurinnar er mikil, bæði próteinrík og feit og virðist henta afar vel til ostagerðar.
Geiturnar fá hrat frá Bruggverksmiðjunni Segli 67 á Siglufirði.  Hjónin hafa einnig aðeins unnið með mjólk úr kindum og stefna þau að vinna með það meira næsta sumar.

Myndir: stefanía hjördís.

Háskólinn á Hólum hlaut styrk frá Rannsóknarsjóði Bandaríkjanna

Háskólinn á Hólum (HH) og University of Massachusetts í Boston (UMass Boston) hafa hlotið styrk að upphæð $297.000 eða um 40 milljónir ISK frá Rannsóknarsjóði Bandaríkjanna (National Science Foundation) til að rannsaka elstu byggð og byggðaþróun í Hjaltadal. Guðný Zoëga (Ferðamáladeild HH) og John Steinberg (Fiske Center for Archaeological Research, UMass Boston) stýra verkefninu, sem er sjálfstætt framhald fyrri rannsókna þeirra á landnámi, kirkjusögu og búsetuþróun í Hegranesi og á Langholti í Skagafirði. Þetta er í þriðja sinn sem þau hljóta styrk frá sjóðnum til sameiginlegra rannsókna.
Styrkurinn er til þriggja ára og munu bæði íslenskir og bandarískir sérfræðingar og nemar koma að rannsókninni, sem er mikilvæg fyrir sögu byggðaþróunar í Hjaltadal og til viðbótar og samanburðar við fyrirliggjandi þekkingu á búsetumunstri á fyrstu öldum byggðar í Skagafirði. Um er að ræða mikilvægan grunn til frekari rannsókna og heildstæðrar kynningar auk miðlunar upplýsinga á Hólastað og getur skapað mikilvægan grundvöll fyrir frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu í Skagafirði og víðar.
Ísland býður upp á einstaka möguleika í að rannsaka hvernig óbyggt land var numið og hvernig byggð þróaðist, bæði félagslega og efnahagslega. Rannsóknir á Langholti og í Hegranesi sýndu mismunandi form landnáms, annarsvegar stórar einingar í fyrstu sem síðar var skipt upp og hins vegar smærri einingar sem lögðust af fremur snemma. Hegranesrannsóknir benda til að heimiliskirkjur og kirkjugarðar hafði verið á nánast hverjum bæ á 11. öld, sem flestir hurfu úr notkun um sama leyti og biskupssetur var stofnað á Hólum. Í Hjaltadal eru einstakir möguleikar til að kanna hvernig uppbygging valdamiðstöðvar, eins og á Hólum, hafði áhrif á nærumhverfið, bæði varðandi stærð jarða og nýtingu lands.
Hólarannsóknin sem fram fór á Hólastað og í Kolkuósi fyrr á þessari öld sýndu m.a. margháttuð tengsl við útlönd og ríkulegan innflutning. Hjaltadalsrannsóknin snýr hinsvegar að svæðisbundnum þáttum, s.s. hvenær Hólar byggðust, hver stærð jarðarinnar var í upphafi og hvort greina megi breytingar á stærð og búsetu á Hólum og nágrannajörðunum eftir því sem staðurinn styrktist sem valdamiðstöð. Rannsóknin mun fara fram í formi víðtækrar borkjarnatöku, sem gerir það kleift að skilgreina aldur og stærð jarða og grafnir verða könnunarskurðir í öskuhauga, mögulega kirkjugarða og aðra útvalda staði til að skilgreina gerð, efnahag og aldur byggðar.
Hluti rannsóknarinnar er sagnfræðileg úttekt á elstu heimildum um efnahag og landnýtingu Hólastaðar og munu sérfræðingar Ferðamáladeildar, þær Sigríður Sigurðardóttir og Anna Guðrún Þórhallsdóttir, sjá um þann þátt.

Takmörkun á skólastarfi hjá FNV

Samkvæmt 5. grein reglugerðar 958/2020 er skólastarf heimilt í öllum byggingum framhaldsskóla að því tilskildu að nemendur og starfsfólk geti haft minnst 1metra fjarlægð sín á milli og hámarksfjöldi nemenda í hverri kennslustofu fari ekki yfir 30. Blöndum nemenda á milli hópa er ekki heimil.

Þetta þýðir fyrir FNV að allt almennt bóklegt nám færist í Teams. Kennsla í skóla verður áfram á eftirfarandi námsbrautum/námsgreinum: Verklegt- og fagbóklegt nám á iðnbrautum og hestabraut, starfsbraut, kvikmyndagerð, nám fyrir grunnskólanema og helgarnám í húsasmíði, rafvirkjun og sjúkraliðanámi.

Nemendur í dreifnámi mæta í dreifnámsstofur á Blönduósi, Hvammstanga og Hólmavík. Kennarar og nemendur sem mæta í skólann skulu nota grímur.

Íþróttir: Nemendur í bóknámi, sem stunda nám eingöngu í gegnum Teams, sækja verklega íþróttatíma samkvæmt stundaskrá. Nemendur í staðnámi sækja ekki verklega íþróttatíma. Kennarar nemenda í Þreksportstímum og Jóga munu hafa samband við sína nemendur um útfærslu.

Heimavistin verður opin en gestir ekki leyfðir.

Hádegismatur verður fyrir nemendur í mötuneyti klukkan 12:30 – 13:00.

Hægt er að panta viðtalstíma hjá námsráðgjafa og félagsráðgjafa í síma 455-8000 eða á eftirtöldum netföngum: margret@fnv.is og adalbjorg@fnv.is.

Bókasafnið verður lokað, en hægt er að fá aðstoð með því að senda póst á netfangið gretar@fnv.is.

Reglugerð 958/2020 er hér: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=d7c191c0-7f9b-466c-8354-ab06a6b959b6

Yfirlitsmynd af húsnæði skólans

Háskólinn á Hólum hlaut 56 milljón króna styrk frá Erasmus

Háskólinn á Hólum hefur hlotið styrk frá Erasmus+ til að vinna að rannsóknaverkefninu „Blue region Initiatives for developing growth, employability and skills in the farming of finfish“ sem útleggja má sem Frumkvæði á „bláum svæðum“ til aukins þroska, ráðningarhæfni og fjölhæfi einstaklinga í fiskeldi.
   Styrkurinn hljóðar upp á 4 m. Evra og þar af koma tæplega 350 þús. Evra (Um 56 milljónir króna) til Háskólans á
Hólum.
Verkefnið er samstarfsverkefni skóla og fyrirtækja í Noregi, Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi og er meginmarkmið þess að bæta kennslu í fiskeldi með áherslu á starfsnám í fiskeldisstöðvum.
Kennsluaðferðir og kennsluefni verður þróað fyrir greinina og áhersla verður lögð á stafrænt kennsluefni. Þróa á kennslu sem blandar saman stafrænni miðlun, hefðbundinni miðlun og vinnu í
verknámsstöð.
Stofna á samstarfsnet fagaðila frá löndunum fjórum og skapa þar með tækifæri fyrir fulltrúa greinarinnar til að læra hver að öðrum og samnýta námsefni og lærdómsviðmið við gerð námsefnis. Aukið samræmi í menntun einstaklinga í fiskeldi í samstarfslöndunum fjórum á að auðvelda fólki atvinnuþátttöku þvert á landamæri. Sérstaklega verður unnið að því að tengja kennslu í fiskeldi á lægri stigum við fagháskólanám í fiskeldi. Jafnframt verður séstök áhersla lögð á stuðning við frumkvöðlastarf og nýsköpun í fiskeldi.

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2020

Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir eftir tilnefningum fyrir Samfélagsverðlaun Skagafjarðar. Samfélagsverðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel. Tilnefningar þurfa að berast fyrir föstudaginn 25. september nk.
Hægt er að senda inn tilnefningu eftir þremur leiðum:
 • Senda inn rafrænt hér
 • Senda inn tilnefningu á heba(hja)skagafjordur.is
 • Skila inn skriflegri tilnefningu í afgreiðslu ráðhússins

Heitt vatn tekið af Hvammstanga, Laugarbakka, Miðfirði og Víðidal mánudaginn 13. júlí

Loka þarf fyrir heita vatnið á Hvammstanga, Laugarbakka, Miðfirði og Víðidal mánudaginn 13. júlí. Lokað verður um kl. 15 og mun vera lokað í nokkrar klukkustundir. Það getur tekið fram eftir kvöldi að koma vatni á alls staðar.

Verið er skipta um dælu í borholu og gera breytingar í dælustöð á Laugarbakka.

Þjónusturof hitaveitu – ábending til húsráðenda

 1. Hafa þarf í huga að loft getur komist á kerfið þegar vatni er hleypt á að nýju með viðeigandi óhljóðum.
 2. Húsráðendum er bent á að við viðgerðir kunna óhreinindi að fara af stað í lögnum þegar vatni er hleypt á. Því er nauðsynlegt að skola kerfið vel út með því að láta vatn renna um stund. Best er að útskolun fari fram sem næst inntaksstað sé þess kostur.
 3. Sé húsráðandi í vafa um hvernig bregðast á við skal undantekningalaust haft samband við pípulagningameistara.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þessu kann að fylgja.

Litla kjötbolluhátíðin haldin á Hólum

Öflugt starf er unnið við Háskólann á Hólum í Hjaltadal en í sumar sækir töluverður fjöldi fólks sumarnám við háskólann sem er í boði sökum COVID19 vírusins sem herjað hefur á heimsbyggðina.  Áfanginn Matur og menning er meðal áfanga sem eru kenndir og er hluti áfangans að halda matartengdan viðburð. Niðurstaða nemanda í hópnum var að útbúa ódýran og góðan skyndibita úr íslensku hráefni og auglýsa réttinn með uppákomu.  Úr varð réttur þar sem aðal hráefnið eru bollur úr folaldakjöti ásamt byggi, karöflumús og öðru meðlæti og hefur þess nýji og holli skyndibiti fengið nafnið Follubollur.

Gestum og gangandi gefst hið einstaka tækifæri á að smakka þennan nýja og spennandi skyndibita er hann verður kynntur á Litlu kjötbolluhátíðinni 7. júlí á Hólum í Hjaltadal en nánari upplýsingar er að finna á fésbókarsíðu Litlu kjötbolluhátíðarinnar.”

Mynd frá Daníel Pétur Daníelsson.

Sæluvika 2020 haldin í lok september

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Sveitarfélagins Skagafjarðar hefur samþykkt að halda Sæluviku Skagfirðinga í lok september. Hátíðin verður haldin dagana 27. september til 3. október 2020.

Vegna aðstæðna í samfélaginu af völdum Covid-19 var ekki unnt að halda Sæluviku Skagfirðinga í lok apríl eins og hefð er fyrir.

Mikið um framkvæmdir í Skagafirði

Mikið er um framkvæmdir í Skagafirði þessa dagana og mikill uppgangur. Unnið er hörðum höndum að Sauðárkrókslínu 2 milli Varmahlíðar og Sauðárkróks og tengiviki rísa á Sauðárkróki og í Varmahlíð, en með Sauðárkrókslínu 2 eykst orkuöryggi þar sem flutningsgeta raforku til Sauðárkróks mun tvöfaldast.

Framkvæmdir eru hafnar að viðbyggingu við Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi, sem mun hýsa starfsemi leikskólans og kemur til með að stórbæta leikskólaaðstöðu á Hofsósi. Hafin er vinna við nýtt sorpmóttökusvæði í Varmahlíð og þá hefur útlit Sundlaugar Sauðárkróks breyst töluvert, en fyrsta áfanga endurbóta við sundlaugina er lokið.

Rafmagnsleysi í Skagafirði aðfararnótt 19. júní

Vegna vinnu í aðveitustöð í Varmahlíð verða rafmagnstruflanir og rafmagnsleysi í Skagafirði aðfararnótt föstudagsins 19. júní.
Rafmagnslaust verður í sveitum frá miðnætti til kl. 04:00 um nóttina.

Rafmagnstruflanir verða í Fljótum, Sléttuhlíð, Hofsós, Unadal og Deildardal kl. 23 að kvöldi fimmtudagsins og aftur að vinnu lokinni um kl. 04:00 aðfararnótt föstudags.

Keyrt verður varaafl á Sauðárkrók, Reykjaströnd og á austanverðum Skaga en búast má við truflunum og mögulegu rafmagnsleysi.  Íbúar eru kvattir til að stilla rafmagnsnotkun í hóf þessa nótt.

RARIK Norðurlandi.

Auglýsing um skipan í kjördeildir við forsetakosningar 27. júní 2020

Skipan í kjördeildir í Sveitarfélaginu Skagafirði við forsetakosningar sem fram fara  laugardaginn 27. júní n.k. er sem hér segir:

Kjördeild í Félagsheimilinu Skagaseli,

þar kjósa íbúar fyrrum Skefilstaðahrepps – kjörfundur hefst kl. 12:00

Kjördeild í Bóknámshúsi FNV,

þar kjósa íbúar Sauðárkróks og fyrrum Skarðs- og Rípurhrepps

– kjörfundur hefst kl. 09:00

Kjördeild í Félagsheimilinu Árgarði, 

þar kjósa íbúar fyrrum Lýtingsstaðahrepps – kjörfundur hefst kl. 12:00

Kjördeild í Grunnskólanum að Hólum,

þar kjósa íbúar fyrrum Hóla- og Viðvíkurhrepps – kjörfundur hefst kl. 12:00

Kjördeild í Höfðaborg Hofsósi,

þar kjósa íbúar fyrrum Hofshrepps – kjörfundur hefst kl. 10:00

Kjördeild í Grunnskólanum á Sólgörðum,

þar kjósa íbúar fyrrum Fljótahrepps – kjörfundur hefst kl 12:00

Kjördeild í Varmahlíðarskóla,

þar kjósa íbúar fyrrum Staðar – og Seyluhrepps  – kjörfundur hefst kl. 10:00

Kjördeild í Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki,

kjörfundur hefst kl. 13:00

 

Kjörfundi má slíta 8 klst. eftir að kjörfundur hefst, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram, og hvenær sem er ef allir sem á kjörskrá standa hafa greitt atkvæði.

Kjörfundi má einnig slíta fimm klukkustundum eftir opnun ef öll kjörstjórnin er sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.

Kjörfundi skal slitið eigi síðar en kl. 22:00

Unnt er að kjósa utan kjörfundar hjá sýslumanni Norðurlands vestra á Sauðárkróki frá kl. 09:00 til kl. 15:00 virka daga fram að kjördegi og kl. 16:00-18:00 á kjördag þ. 27. júní  2020.  Lokað verður 17. júní.

Yfirkjörstjórn verður með aðstöðu í Bóknámshúsi FNV.

Sveitarfélagið Skagafjörður hlýtur styrk úr Ísland ljóstengt

Föstudaginn 12. júní síðastliðinn hlaut Sveitarfélagið Skagafjörður styrkúthlutun að fjárhæð 23,5 milljónum króna til ljósleiðaravæðingar í dreifbýli. Kemur styrkurinn úr landsátakinu Ísland ljóstengt á grundvelli fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar. Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar veitti styrknum viðtöku.

Alls voru 443 milljónum kr. úthlutað til ljósleiðaravæðingu í dreifbýli. Námu styrkir til sveitarfélaga 317,5 milljónum kr. og fékk Neyðarlínan úthlun að fjárhæð 125,5 milljónum kr. til að leggja ljósleiðara og til uppbyggingar fjarskiptainnviða utan markaðssvæða. Þessi auka fjárveiting er liður í sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki stjórnvalda til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar COVID-19.

1568 á kjörskrá í Fjallabyggð

Alls 1568 eru á kjörskrá í Fjallabyggð. Á Siglufirði eru 951 á kjörskrá og í Ólafsfirði 617.

Kjörskrár vegna forsetakosninga þann 27. júní 2020 verða lagðar fram 16. júní n.k. almenningi til sýnis og verða aðgengilegar á auglýstum opnunartíma bæjarskrifstofunnar í Ráðhúsi Fjallabyggðar að Gránugötu 24, Siglufirði og bókasafninu að Ólafsvegi 2, Ólafsfirði.

Tjaldbúar á Siglufirði

Þónokkrir ferðamenn gista nú á tjaldsvæðum Fjallabyggðar á Siglufirði. Húsbílar eru í meirihluta, en einnig tjaldvagnar, fellihýsi og hjólhýsi.  Þessi mynd er tekin skömmu fyrir hádegið í morgun. Hitastigið í dag á Siglufirði var um 11° en í nótt var kaldast um 5° stiga hiti.

Ársmiðasala Knattspyrnufélags Fjallabyggðar

Ársmiðar á heimaleiki KF eru nú komnir í sölu. Innifalið er kaffi og bakkelsi í hálfleik í Vallarhúsinu.
KF eru komnir upp í 2. deild og baráttan verður mikil í sumar.

Félagið og leikmenn vonast til að sem flestir komi og hvetji liðið áfram. Stuðningur úr stúkunni skiptir miklu máli.

Verð ársmiða er 15.000 kr. og fyrir togarasjómenn 8.000 kr.

Aðalfundur KF

Aðalfundur Knattspyrnufélags Fjallabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 16. júní í Vallarhúsinu Ólafsfirði kl.20:00.

Dagskrá fundar:

Venjuleg aðalfundarstörf.

Það er vöntun á fólki bæði í stjórn og ráð hjá félaginu þannig að eðileg endurnýjun geti átt sér stað.

Hvetjum alla þá sem láta sig félagið varða til að mæta.

Stjórn KF

Aðalfundur KF

Aðalfundur Knattspyrnufélags Fjallabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 16. júní í Vallarhúsinu Ólafsfirði kl.20:00.

Dagskrá fundar:

Venjuleg aðalfundarstörf.

Það er vöntun á fólki bæði í stjórn og ráð hjá félaginu þannig að eðileg endurnýjun geti átt sér stað.

Hvetjum alla þá sem láta sig félagið varða til að mæta.

Stjórn KF

Sumaropnun í Hlíðarfjalli á Akureyri

Stólalyftan og Fjarkinn í Hlíðarfjalli verður opin frá 2. júlí til 30. ágúst í sumar. Í Hlíðarfjalli er góð aðstaða til útivistar bæði fyrir hjóla- og göngufólk. Hægt er að taka hjólið með sér í lyftuna og gangandi geta tekið lyftuna bæði upp og niður og þá fyrir sama verð.

Fjórar hjólabrautir eru í fjallinu, Suðurgil, Andrés, Hjalteyrin, Ævintýraleið og svo eru þrjár aðrar, tvær frá gönguhúsi og ein frá lyftuskúr við Fjarkann sem allar liggja yfir í Glerárdal. Fyrir þá sem eru gangandi er tilvalið að stoppa við Strýtuskála og njóta útsýnis yfir Akureyrabæ og Eyjafjörð. Frá Strýtuskála er svo merkt gönguleið upp á brún Hlíðarfjalls. Þegar þangað er komið er til dæmis hægt að ganga að Harðarvörðu, Blátind, Bungu, Strýtu, Kistu eða á Vindheimajökul og á góðviðrisdögum má oft sjá yfir í Mývatnssveit, Herðubreið eða vestur í Skagafjörð svo eitthvað sé nefnt.

Opnunartímar                                      Verðskrá  fullorðnir börn/ellilífeyrisþegar
Fimmtudagar  frá kl. 17 – 21 Ein ferð     1.100                600
Föstudagar       frá kl. 16 – 20 1. dagur     4.300             1.600
Laugardagar    frá kl. 10 – 18 Helgarpassi   10.600             3.900
Sunnudagar     frá kl. 10 – 16 Sumarkort   26.400           13.300

Helgihald í Sauðárkrókskirkju í júní

Helgihald verður í Sauðárkrókskirkju í júní. Messa verður á þjóðhátíðardaginn og einnig fermingarmessa 28. júní.

Dagskrá:

17. júní. Messa á þjóðhátíðardegi kl. 11:00
Fermd verða: Auður Ásta Þorsteinsdóttir, Jörundur Örvar Árnason og Fannar Páll Ásbjörnsson

28. júní. Messa kl. 11:00
Fermd verða: Daníel Esekíel Agnarsson og Klara Sólveig Björgvinsdóttir

Kirkjan er opin eftir samkomulagi. Sími kirkjuvarðar: 892 5536

Mynd frá Sauðárkrókskirkja.

118% aukning í framhaldsnám leikskólakennara

Umsóknum um kennaranám hefur fjölgað verulega á milli ára í háskólunum fjórum; Háskólanum á Akureyri, Listaháskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands fjölgar umsóknum um framhaldsnám leikskólakennara um 118% í ár, grunnskólakennaranám um 85%, framhaldsskólakennaranám um 47% og 67% í íþróttakennaranámið.

Umsóknum um nám við listkennsludeild Listaháskóla Íslands fjölgar um 12% milli ára en þar varð algjör sprenging í umsóknum í fyrra, alls 122%, með tilkomu nýrrar deildar við skólann. Athygli vekur hversu margir karlar sækja um kennaranám listaháskólans í ár en fjöldi þeirra nífaldast frá því í fyrra.

„Þetta eru virkilega gleðileg tíðindi – það að fjölga starfandi kennurum og stuðla að nýliðun í kennarastétt er langhlaup en fjölgun umsókna er frábært fyrsta skref. Það er spennandi nám og starfsvettvangur í boði, sem býður upp á bæði sveigjanleika og starfsöryggi. Samfélagið hefur áttað sig á mikilvægi kennarastarfsins, ekki síst í ljósi atburða síðustu mánaða,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að efla menntun í landinu er að stuðla að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og því bjóðast kennaranemum nú launað starfsnám og hvatningarstyrkir að upphæð 800.000 kr. Þá geta starfandi kennarar einnig fengið styrk til þess að efla sig í starfi og bæta við sig námi í starfstengdri leiðsögn. Vísbendingar komu strax fram um jákvæð áhrif þessara aðgerða sl. vor þegar umsóknum um kennaranám fjölgaði og heldur sú þróun áfram nú. Í haust verður í fyrsta sinn boðið upp á nýja gráðu til kennsluréttinda hér á landi, MT-gráðu (e. Master of Teaching) en það er 120 eininga nám á meistarastigi sem lýkur með námskeiðum í stað lokaverkefnis.

Umsóknum fjölgaði einnig um meistaranám Háskólans í Reykjavík sem menntar íþróttakennara. Umsóknafrestur kennaradeildar Háskólans á Akureyri er til 15. júní en þegar hafa borist óvenjumargar umsóknir þangað í bæði grunn- og framhaldsnám miðað við sama tíma í fyrra, ekki síst í leikskólakennarafræði. Umsóknafrestur vegna grunnnáms á Menntavísindasviði Háskóla Íslands er til 15. júní nk.

Heimild: stjornarrad.is