All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Stórt blakmót á Siglufirði um næstu helgi

Um næstu helgi fer fram Sigló Hótel – Benecta mót Blakfélags Fjallabyggðar. Mótið hefur verið að stækka undanfarin ár enda vinsældir blaksins sífellt að aukast.  Á mótinu í ár munu 59 lið taka (42 kvennalið og 17 karlalið) eða rúmlega 420 keppendur og verða spilaðir 145 leikir.  Þessi fjöldi liða gerir mótið að stærsta helgarblakmóti landsins á keppnistímabilinu.

Mótið hefst óformlega kl. 17:00 föstudaginn 23. febrúar með leik Blakfélags Fjallabyggðar og Fylkis í 1.deild karla í íþróttahúsinu á Siglufirði en formlega hefst mótið með leikjum kl. 19:00 í íþróttahúsinu á Siglufirði og í Ólafsfirði.  Spilað verður til rúmlega 23:00 á föstudagskvöldinu og á laugardeginum er svo spilað frá 08:00 til u.þ.b. 18:00 í báðum íþróttahúsunum.
Sjö lið frá BF taka þátt á mótinu, þ.e. tvö karlalið og fimm kvennalið og hægt verður að fylgjast með leikjum og úrslitum leikja á blak.is.
Lokahóf mótsins fer svo fram á laugardagskvöldinu og eru yfir 200 manns skráðir á hófið sem fram fer á Rauðku.
Áhugafólk getur líka fylgst með upplýsingum um mótið á facebooksíðu mótsins.

Deildarskipting

Hér að neðan er hægt að sjá endanlega deildarskiptingu mótsins.
1.deild kvenna: Völsungur C – Fylkir A – Krákurnar – Skutlur/Eik A – Rimar A – Völsungur B – Krækjur – BF 1.
2.deild kvenna: Birnur – Fylkir B – Sisters – StepSisters – One Hit Wonders – Dalalæður – Skautar A – Skutlur/Eik B.
3.deild kvenna: Krækjur B – BF 2 – Skautar B – Mývetningur – Rimar B – Þróttur Nes – BF 3 – KA Freyjur A.
4.deild kvenna: Skautar C – Krákurnar B – Dalalæður 2 – Rimar C – Völsungur D – Bjarkir.
5.deild kvenna: KA Freyjur B – Mývetningur A – Álkur – Bryðjur – Stellur – Skutlur/Eik C.
6.deild kvenna: Rimar D – Álkur 2 – BF 4 – Stellur Á – Stellur G – BF Kjúllar.
1.deild karla: BF A – Fylkir – KA Ö – Snörtur – Rimar – KA K.
2.deild karla: BF B – Fylkir V – Umf Efling – Leiftur – Úlfarnir – Völsungur.
3.deild karla: Umf Efling 2 – VarÚlfarnir – Óðinn 1 – Rimar Á – Splæsir.

Jarðskjálfti uppá 5,2 við Grímsey

Jarðskjálftahrina við Grímsey heldur áfram.  Í dag, 19. febrúar kl. 01:03 varð skjálfti 3,3 að stærð, kl. 02:24 var skjálfti 3,7 og kl. 02:39 var skjálfti 3,5 að stærð við Grímsey. Kl. 03:02 og 03:04 voru tveir skjálftar 4,0 að stærð.

Kl. 05:34 varð skjálfti 4,5 að stærð og kl. 05:38 varð skjálfti 5.2 að stærð og var 14,2 km ANA af Grímsey.  Skjálftar hafa fundist vel á Akureyri, Húsavík og í Grímsey. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Óvissustig vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi.

Jarðskjálftahrina austan við Grímsey heldur áfram en undir morgun mældist skjálfti upp á 5,2. Umrætt svæði er þekkt jarðskjálftasvæði og var svipuð hrina í gangi á svæðinu 2013.

Fjöldi misgengja er á þessu svæði og ómögulegt er að segja hvaða áhrif stóri skjálftinn í nótt muni hafa á þau misgengi. Svæðið er hluti af Tjörnesbrotabeltinu; misgengissvæði milli rekbeltanna sem liggja um Ísland og norður eftir Kolbeinseyjarhrygg, og algengt er að þarna komi hrinur skjálfta. Síðasti stóri skjálftinn, 5.4 að stærð, var árið 2013 á þessum slóðum.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hvetja fólk sem býr á þekktum jarðskjálftasvæðum til þess að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta. Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra (www.almannavarnir.is) má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr tjóni og/eða slysum í jarðskjálfta, bæði á heimilum og vinnustöðum.

Á vef Veðurstofunnar er hægt að senda inn tilkynningar hafi fólk fundið fyrir jarðskjálfta og sjá yfirlit yfir jarðskjálfta síðustu 48 klst.

Lausir úr gæsluvarðhaldi á Akureyri

Fjórir einstaklingar grunaðir um aðild að líkamsárás og frelsissviptingu hafa verið látnir lausir úr gæsluvarðhaldi hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra. Ekki var talið að rannsóknarhagsmunir krefðust þess lengur að halda þeim, þar sem yfirheyrslur hafa gefið skýrari mynd af því sem átti sér stað.  Rannsóknin heldur áfram og næstu skref snúa að þeim sönnunargögnum sem aflað hefur verið.

Nýr þjálfari yngra flokka hjá knattspyrnudeild Tindastóls

Konráð Freyr Sigurðsson hefur verið ráðinn í fullt starf með yngri flokka og unglingaakademíu knattspyrnudeildar Tindastóls. Konráð hefur lokið fyrstu þremur stigunum í menntunarkerfi KSÍ og stefnir á að mennta sig meira í þjálfunarfræðum á næstunni.
Hann er fyrirliði meistaraflokks Tindastóls er góð fyrirmynd fyrir börn og unglinga, enda bindindismaður og reglusamur í hvívetna.

Blakfélag Fjallabyggðar tapaði gegn Vestra

Blakfélag Fjallabyggðar lék við Vestra í 1. deild karla í blaki í dag á Siglufirði. Leikurinn fór í fimm hrinur og var jafn og spennandi á köflum. Heimamenn í BF létu finna fyrir sér í fyrstu hrinu og voru aðeins 16 mínútur að klára hana, 25-13, eftir að hafa komist í 6-0. Í annari hrinu voru gestirnir mættir til leiks en BF komst í 22-14 en erfiðlega gekk að klára hrinuna, BF vann þó á endanum 25-23,  og staðan 2-0. Vestramenn komu sterkir í þriðju hrinu og unnu hana 21-25 og minnkuðu muninn í 2-1. Í fjórðu hrinu voru Vestramenn mun sterkari og unnu 16-25 og staðan orðin 2-2. Í lokahrinunni voru Vestramenn sterkari og leiddu alla hrinuna og unnu 15-13, og leikinn 2-3.

Skólastjóri Árskógarskóla segir upp störfum

Skólastjóri Árskógarskóla í Dalvíkurbyggð hefur sagt upp störfum og tekur uppsögnin gildi frá og með 30. júní 2018.  Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson hefur verið skólastjóri skólans og formaður byggðaráðs Dalvíkurbyggðar.  Lagt hefur verið til að staðan verði auglýst sem fyrst.  Skólinn hefur verið rekinn heildstæður frá árinu 2012 þegar Árskógarskóli og leikskólinn Leikbær sameinuðust. Börn geta verið í skólanum til 7. bekks en þá færast þau yfir í Dalvíkurskóla.

Myndir: Frá vef Dalvíkurbyggðar.

Fyrirlestur fyrir nemendur og foreldra um netnoktun

Fræðsla um netnotkun verður miðvikudaginn 21. febrúar næstkomandi  á vegum Foreldrafélags Grunnskóla Fjallabyggðar. Ólína Freysteinsdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur og SAFT fyrirlesari sér um fræðsluna í samstarfi við Heimili og skóla, landssamtök foreldra.  Fræðslan verður fyrir nemendur í 4.-10. bekk á skólatíma og fyrir foreldra um kvöldið í Menningarhúsinu Tjarnarborg. (Foreldrar geta komið í bekkjarfræðslu ef þeir komast ekki um kvöldið.)

Fræðsla á Siglufirði:

 • 4. og 5. bekkur kl. 9.00 -9.30

 

Fræðsla í Ólafsfirði:

 • 6. og 7. bekkur kl. 10.40-11.40
 • 8.-10. bekkur kl. 12.10 – 13.10

 

Fræðsla til foreldra:

Fyrirlestur fyrir foreldra í Menningarhúsinu Tjarnarborg kl. 20.00.

 

Baldvin Freyr til KF

Knattspyrnumaðurinn Baldvin Freyr Ásmundsson hefur gert félagsskipti úr Mídas í Knattspyrnufélag Fjallabyggðar. Baldvin er fæddur árið 1995 og fær leikheimild 21. febrúar til að spila með KF.  Hann hefur leikið í 4. deildinni síðustu árin og hefur leikið 25 leiki og gert 3 mörk síðustu 3 árin.  Hann hefur meðal annars leikið fyrir Skallagrím og Úlfana, en lék upp yngri flokkana með Fram. Hann var á samning hjá Fram á árunum 2014-2016 en lék þá sem lánsmaður í 4. deildinni.

Baldvin lék 2 leiki á Kjarnafæðismótinu með KF í janúar og febrúar og var í byrjunarliðinu í þeim leikjum. Það voru fleiri leikmenn til reynslu í þessum leikjum, og fleiri leikmenn bætast mögulega við á næstu vikum og mánuðum fyrir baráttuna í 3. deildinni, en eins og síðasta ár þá stefnir KF að komast aftur í 2. deildina.

Stubbamót Skíðafélags Siglufjarðar

Stubbamót Skíðafélags Siglufjarðar er dagsmót fyrir börn á aldrinum 5-8 ára, (elsti árg. leikskóla og 1.-3.bekkur grunnskóla). Keppt verður í Stubbabraut í neðstu lyftu og farnar verða tvær umferðir.
Keppt verður í hverjum aldursflokki fyrir sig. Öllum keppendum verða veitt verðlaun í lok móts.  Brautarskoðun er kl. 11:30 og mótið byrjar kl. 12:00. Mótið stendur eitthvað fram eftir degi.
Mótsgjaldið er 2000 kr. á barn. Innifalið er lyftugjald, verðlaunapeningur, drykkur og veitingar í lok móts.
Skráning er á netfanginu: stinaanna7@gmail.com, skráning stendur til 19. febrúar kl. 19:00.

Leggja skal mótsgjald á reikning Skíðafélags Siglufjarðar:
0348-26-2431 kt.590269-0779, með skýringu nafn barns eða félags ef borgað er fyrir hóp.
Senda skal fullt nafn keppanda og fæðingarár við skráningu.

Kennara vantar í Árskóla á Sauðárkróki

Grunnskólakennara vantar frá og með 1. mars í Árskóla á Sauðárkróki. Um er að ræða 100% starfshlutfall umsjónarkennara á unglingastigi. Staðan er afleysing til 5. júní 2018.  Um 340 nemendur eru við skólann.  Umsóknarfrestur er til og með 25. febrúar 2018.

Tímabil starfs: 1. mars 2018 – 5. júní 2018.

Starfsheiti: Umsjónarkennari (á unglingastigi).

Starfshlutfall: 100% starfshlutfall.

Lýsing á starfinu: Afleysing vegna barnsburðarleyfis. Umsjónarkennari hefur umsjón með nemendum í bekk/námshópi. Grunnskólakennarar starfa samkvæmt lögum og reglugerðum um grunnskóla, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá, skólanámskrá og stefnu sveitarfélagsins.

Menntunarkröfur: Grunnskólakennari með leyfisbréf til kennslu í grunnskóla.

Hæfniskröfur: Faglegur metnaður og áhugi á að starfa í skapandi og metnaðarfullu umhverfi. Mikilvægt er að umsækjendur búi yfir góðri færni í mannlegum samskiptum og þjónustulipurð. Lögð er áhersla á gagnkvæma virðingu, háttvísi, stundvísi og áreiðanleika í starfi. Reynsla af kennslu er æskileg.

 

 

Nánari upplýsingar: Óskar G. Björnsson, skólastjóri, í síma 822-1141 eða oskargb@arskoli.is.

Karlar, sem og konur, eru hvattir til að sækja um.

Fjarðargangan í Ólafsfirði

Fjarðargangan í Ólafsfirði er ein af sex almenningsgöngum í Íslandsgöngunni. Í ár verður gangan haldin á nýjum stað og verður brautarlögnin sérstaklega hugsuð fyrir hinn almenna skíðagöngumann. Gangan fer fram laugardaginn 24. febrúar kl. 12:00.

Vegalengdir í boði:

 • 20 km aldursflokkar skv. reglum Íslandsgöngunnar, kr. 5.000
 • 10 km dömur og herrar, kr. 3.000
 • 5 km dömur og herrar, kr. 3.000
 • 2 km krílaflokkur kr. 1.000

Eftir kl. 18:00 föstudaginn 23.febrúar hækkar skráningargjaldið í 20km í kr 7.000
Verðlaunaafhending og kökuhlaðborð að keppni lokinni.
Skráning á skiol@simnet.is.

Íslandsgangan

Fyrsta móti Íslandsgöngunnar er lokið en Hermannsgangan fór fram í Kjarnaskógi við Akureyri laugardaginn 3. febrúar. Til stóð að halda gönguna í Hlíðarfjalli en sökum veðurs var gangan færð í Kjarnaskóg. Aðstæður til keppni voru góðar og var keppt í 4km, 8km og 24km hefðbundum göngum í fallegu umhverfi.

Næstu keppnir:

 • 10.-11. mars – Strandagangan – Hólmavík
 • 17.-18. mars – Bláfjallagangan – Reykjavík – nánar hér (Frestað vegna veðurs 10.-11. febrúar)
 • 14.-15. apríl – Orkugangan – Húsavík
 • 26.-28. apríl – Fossavatnsgangan – Ísafjörður

Elsa Guðrún endaði í 78. sæti á Vetrarólympíuleikunum

Elsa Guðrún Jónsdóttir, skíðakona úr Fjallabyggð varð í morgun fyrsta íslenska konan sem keppir í skíðagöngu á Vetrarólympíuleikunum.  Hún keppti í 10 km. skíðagöngu kvenna í PyeungChang í morgun þar sem hún hafnaði í 78. sæti af 90 keppendum.  Elsa Guðrún fór brautina á 31:12 mínútum og var ríflega sex mínútum á eftir Ólympíumeistaranum Ragnhildi Haga frá Noregi.

Beint flug milli Akureyrar og Keflavíkur hættir

Frá og með 15. maí 2018 hætt­ir flug­fé­lagið Air Ice­land Conn­ect að fljúga milli Ak­ur­eyr­ar og Kefla­vík­ur.  Að meðaltali er flogið fimm til sex sinn­um í viku frá Ak­ur­eyri til Kefla­vík­ur til að ná morg­un­flug­inu frá Kefla­vík. Þetta er sam­kvæmt vetr­aráætl­un flug­fé­lags­ins. Of lítil eftirspurn og lág sætanýting er ástæðan fyrir þessu en illa hefur tekist að ná til erlendra ferðamanna í þetta flug. Akureyringar hafa verið í meirihluta af þeim sem nýtt hafa sér þessar ferðir. Vefurinn Túristi.is greindi fyrst frá þessu.

Flugið er eingöngu ætlað þeim sem að eru á leið í og úr millilandaflugi í Keflavík og geta farþegar sem nýta sér þessa þjónustu því ferðast alla leið frá Akureyri til endanlegs áfangastaðar.

Konudagsblóm Knattspyrnufélags Fjallabyggðar

Líkt og undangengin ár verður Knattspyrnufélag Fjallabyggðar með til sölu blóm á konudaginn.  Boðið verður uppá blandaðan vönd á kr. 3.000 og er innifalin frí heimsending á Ólafsfirði, Siglufirði og Akureyri þéttbýli. Keyrt verður út á sunnudagsmorgun. Vöndurinn er annað hvort staðgreiddur eða sendur reikningur á kaupanda.

Þeir sem hafa áhuga að að kaupa vönd/vendi vinsamlega sendi pöntun á kf@kfbolti.is , eða hafi samband við Þorra í síma 660-4760 (Ólafsfjörður) eða Steinar í síma 842-5465 (Siglufjörður).

Með pöntun þarf að fylgja nafn og kennitala kaupanda, auk nafns og heimilisfang hjá viðtakanda.

Pantanir berist fyrir kl. 15:00 á laugardag.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar

 

Texti: Fréttatilkynning – aðsent.

Frítt í sund og á skíði hjá nemendum á Akureyri í vetrarfríi

Akureyrarbær býður grunn- og framhaldsskólanemum á Akureyri frítt í sund og á skíði í vetrarfríi grunnskóla á Akureyri.  Fimmtudaginn 15. febrúar geta grunn- og framhaldsskólanemar farið í skíðalyfturnar í Hlíðarfjalli án endurgjalds. Opið verður frá kl. 10-19. Lyftumiðar eru afhendir í afgreiðslu. Athugið að krakkarnir þurfa að eiga rafrænt kort eða kaupa slíkt á 1.000 kr. í afgreiðslu Hlíðarfjalls.

Föstudaginn 16. febrúar geta grunn- og framhaldsskólanemar farið frítt í Sundlaugina á Akureyri (opið frá kl. 6.45-21.00), Glerárlaug (opið frá kl. 6.30-21.00) og sundlaugina í Hrísey (opið frá kl. 15-18). Frítt verður fyrir sama hóp í sundlaugina í Grímsey laugardaginn 17. febrúar (opið frá kl. 14-16).

Grunnskólanemendur gefa upp kennitölu og nafn skóla í afgreiðslu og framhaldsskólanemar VMA og MA framvísa nemendaskírteinum.

Viðburður hjá Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar og styrkveitingar

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar verður með dagskrá laugardaginn 24.febrúar á Hornbrekku, dvalarheimili aldraðra í Ólafsfirði í tilefni styrkveitinga á Rótarýdaginn. Þar verður meðal annars kynning á hreyfingunni og samfélagsstarfi. Þá verður veittur fjárstyrkur til Pálshúss og til Team Rynkeby vegna krabbameinssjúkra barna.

Dagskrá:

 • Kl:  14:45.   Kynning á Rótarýhreyfingunni,  og samfélagsstarfi klúbbsins.  Erindi stutt ljósmyndum á skjá.
 • Kl:   15:00.  Kaffisamsæti með heimilisfólki, starfsfólki og gestum í boði klúbbsins.

Á meðan á kaffisamsæti stendur verða veittir styrkir úr samfélagssjóði Rótarýkúbbs Ólafsfjarðar:  Gjafir frá sjóðnum til  Hornbrekku –  ýmis áhöld.  Fjárstyrkur til Pálshúss afhentur. Fjárstyrkur til Team Rynkeby vegna krabbameinssjúkra barna.  Tilefnið árleg hjólreiða- og söfnunarferð þeirra frá Kaupmannahöfn til Parísar.  Eftir styrkveitingarnar verður tónlistarflutningur í umsjá Ave Köru Sillaots tónlistarkennara.

Leikskólinn Tröllaborg í Skagafirði í forvarnarverkefni gegn einelti

Á degi leikskólans 6. febrúar síðastliðinn hófst forvarnarverkefni gegn einelti í leikskólanum Tröllaborg í Skagafirði með skemmtilegri heimsókn þar sem bangsinn Blær kom upp úr kössum bæði á Hofsósi og Hólum. Á kössunum var kort af Íslandi og leikskólinn merktur inn á kortið.

Bangsinn Blær er hluti af vinaverkefni, námsefni sem leikskólinn keypti af Barnaheill og heitir Vinátta og var þróað í Danmörku þar sem það hefur verið notað síðan 2007. Kannanir í leikskólum sem nota efnið sýna að einelti hefur minnkað til muna en verkefnið byggir á að eineltið sé á ábyrgð hinna fullorðnu sem umgangast börnin dagsdaglega og hafa tækifæri og ber skylda til að fyrirbyggja einelti.

Verkefnið byggir á fjórum grunngildum:

 • Umburðarlyndi: Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og koma fram við alla af virðingu.
 • Virðing: Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og virða mismunandi hátterni annarra.
 • Umhyggja: Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
 • Hugrekki: Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

Með verkefninu er gert ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi og þau verði samofin öllu starfi og samskiptum í leikskólasamfélaginu. Allir eru þátttakendur í verkefninu, börn, foreldrar þeirra og starfsmenn leikskólans.

Íbúum fjölgaði á Siglufirði en fækkaði í Ólafsfirði

Íbúafjöldi í Fjallabyggð eykst á milli ára og voru í lok árs 2017, alls 1997, og fjölgaði um 7. Í Ólafsfirði var fækkun um 3, en þar eru íbúar 796, á móti 1201 á Siglufirði, en þar fjölgaði um 10 á milli ára.

 

Ártal 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017
Siglufjörður 1192 1203 1190 1190 1219 1191 1201
Ólafsfjörður 802 799 790 785 782 799 796
Íbúafjöldi alls 1994 2002 1980 1975 2001 1990 1997

Heimild: Hagstofa.is

Hefur þú áhuga á bæjarmálum í Fjallabyggð?

Vinstri græn halda opinn fund miðvikudaginn 14. febrúar kl. 20:00 á Kaffi Klöru. Á fundinn mæta Bjarkey og Steingrímur J.  Á fundinum verður rætt um mögulegt framboð fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar undir merkjum VG eða hvort kanna eigi blandað framboð. Hér er tækifæri fyrir þá sem vilja hafa áhrif á stjórn sveitarfélagins okkar.

Allir sem áhuga hafa á að bjóða sig fram eða starfa að framboði eru hvattir til að láta sjá sig.

Heitt á könnunni.

Vinstri græn í Fjallabyggð

 

Texti: Aðsent.

Hörgársveit hlýtur Orðsporið 2018

Sveitarfélagið Hörgársveit hlýtur Orðsporið 2018 – hvatningarverðlaun sem eru veitt á Degi leikskólans, 6. febrúar ár hvert. Hörgársveit hlýtur verðlaunin í ár fyrir að vera það sveitarfélag sem státar af hæsta hlutfalli leikskólakennara sem starfa við uppeldi og menntun leikskólabarna.
Samkvæmt lögum eiga að lágmarki tveir þriðju, eða 66,66%, þeirra sem starfa við uppeldi og menntun leikskólabarna að hafa leyfisbréf til kennslu í leikskóla. Hlutfall leikskólakennara í leikskólanum Álfasteini í Hörgársveit er 84 prósent og því vel yfir hinu lögbundna lágmarki – og jafnframt það hæsta hér á landi.

Orðsporið 2018 er veitt á Degi leikskólans, 6. febrúar en haldið er upp á þennan dag í ellefta sinn. Sjötti febrúar er merkilegur dagur í íslenskri leikskólasögu því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Markmið dagsins er að stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarf og beina athygli fólks að því faglega og metnaðarfulla starfi sem innt er af hendi í leikskólum dagsins á degi hverjum. Þetta er sjötta árið sem verðlaunin eru veitt.

Efnt var til hátíðarhalda í leikskólanum Álfasteini og afhenti Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, Orðsporið 2018. Við verðlaununum tók Hugrún Ósk Hermannsdóttir, leikskólastjóri Álfasteins í Hörgársveit.
Björk Óttarsdóttir, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, flutti ávarp. Hún fór yfir sögu Dags leikskólans í stuttu máli og ræddi mikilvægi þess að í leikskólum sé metnaðarfullt og vel menntað starfsfólk. Leikskólabörnin í Álfasteini sungu fyrir gesti.

Heilsuleikskólinn Álfasteinn er eini leikskóli Hörgársveitar, hefur verið starfræktur í 22 ár og rúmar 32 börn. Leikskólastjóri er Hugrún Ósk Hermannsdóttir og hefur hún verið við stjórnvölinn nánast frá upphafi. Einkunnarorð Álfasteins eru „með sól í hjarta“ og mikil áhersla er lögð á umhyggju fyrir barninu. „Skólabragurinn er jákvæður og nægur tími gefst til að hlusta á börnin, leyfa þeim að prófa sig áfram og sinna þeim öllum persónulega. Því getur kennarinn upplifað nánd og endurgjöf og fundið að starf hans er mikils virði. Það er gaman og gott að vinna og vera til á Álfasteini,“ segir Hugrún.

Samstarfshóp um Dag leikskólans skipa Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli.

Aðalfundur Sjálfstæðisfélags Siglufjarðar

Sjálfstæðisfélag Siglufjarðar og fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Fjallabyggð verða með aðalfund fimmtudaginn 15. febrúar kl.19:30 í Ráðhúsi
Fjallabyggðar, annarri hæð.

Dagskrá fundarins:

• Hefðbundin aðalfundarstörf
• Kosning í stjórnir félaganna
• Umræður um sameiningu sjálfstæðisfélaganna í Fjallabyggð
• Kjör fulltrúa á landsfund Sjálfstæðisflokksins 16.-18.mars n.k.
• Umræður um Sveitastjórnakosningar 2018

Allir velkomnir

Fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald

Fjórir einstaklingar voru í gær úrskurðaðir í gæsluvarðhald af Héraðsdómi Norðurlands eystra að kröfu Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, vegna gruns um alvarlega líkamsárás og frelsissviptingu. Var þeim gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til laugardagsins 17. febrúar kl. 15:00. Þá var þeim gert að sæta einangrun á meðan rannsóknarhagsmunir standa til þess. Tveir þeirra lýstu því yfir að þeir hyggðust kæra úrskurðinn til Landsréttar í því skyni að fá hann felldan úr gildi.

Yfirheyrslur í gær yfir tveimur sakborningum af þeim sex sem handteknir hafa verið vegna málsins, hafa nú leitt til þess að þeim tveimur hefur nú verið sleppt úr haldi.