All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Norðurlands Jakinn 2018

Norðurlands Jakinn, keppni sterkustu manna landsins er aflraunakeppni sem fram fer á Norðurlandi og er hún í anda Vestfjarðarvíkingsins. Keppt er í einni grein í bæjarfélögum víðsvegar á Norðurlandi. Keppni sterkustu manna landsins fer fram 23 – 25. ágúst 2018.

Aðgangur er ókeypis og er almenningur hvattur til að mæta og sjá sterkustu menn landsins sýna krafta sína. Umsjónarmaður keppninnar er Magnús Ver Magnússon. Keppt er á Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki, Ólafsfirði og á Mývatni.

Dagskrá:

 

Fimmtudagur 23. ágúst
Kl. 13:00 Blönduós, Drumbalyfta, Bæjartorginu við félagsheimilið
Kl. 17:00 Skagaströnd, Kast yfir vegg, Grundarhólum við Spákonuhof

Föstudagur 24. ágúst
Kl. 12:00 Sauðárkrókur, Réttstöðulyfta, við safnhús Skagfirðinga
Kl. 17:00 Ólafsfjörður, Víkingapressa og Mylluganga, við Menningarhúsið Tjarnarborg

Laugardagur 25. ágúst
Kl. 12:00 Mývatn, Framhald og Réttstöðuhald, við Dimmuborgir

Dalvík/Reynir með 6 stiga forskot í 3. deildinni

Dalvík/Reynir keppti við lið KFG á Samsungvellinum í Garðabæ í gær. Var þetta leikur í 14. umferð Íslandsmótsins, en núna eru aðeins fjórar umferðir eftir. Dalvík/Reynir vann fyrri leik liðana á heimavelli 2-0 nú í sumar og einnig útileikinn á síðasta tímabili, en KFG vann á Dalvíkurvelli í fyrri leik liðanna í deildinni 2017. KFG er í mikilli baráttu um 2. sæti deildarinnar og hefur reynslumikla fyrrum landsliðsmenn í sínu liði, og var því búist við hörku leik.

Staðan var 0-0 í fyrri hálfleik, en KFG menn náðu sér í þrjú gul spjöld. Gunnar Már kom inn á hjá Dalvík/Reyni strax í síðari hálfleik fyrir Steinar Loga. Á 63. mínútu kom Angantýr Máni inná fyrir Jóhann Örn. Lokaskipting Dalvík kom svo á 83. mínútu þegar Pálmi Heiðmann kom inná fyrir Fannar Daða. Bæði lið náðu sér svo í tvo gul spjöld í síðari hálfleik, en hvorugu liðinu tókst að nýta þau færi sem komu í leiknum, og voru lokatölur 0-0.

Dalvík/Reynir hefur núna 6 stiga forskot þegar 4 leikir eru eftir, og eru 12 stig í pottinum. Dalvík/Reynir leika næst við Einherja á Dalvíkurvelli, miðvikudaginn 22. ágúst kl. 18:30. Einherji hefur tapað öllum sex útileikjum sínum til þessa, en hafa unnið 7 heimaleiki og tapað einum.

Fréttin er upphaflega birt á Dal.is.

KF í góðri stöðu eftir sigur á heimavelli – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Vængir Júpíters mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag í mikilvægum leik fyrir bæði liðin. Gert var ráð fyrir jöfnum leik, enda voru bæði liðin með svipaðan árangur í leikjum sumarsins.  Bæði liðin hefðu með sigri nálgast 2. sæti deildarinnar og var því mikið í húfi enda fáir leikir eftir í deildinni.

Slobodan Milisic þjálfari KF gerði enga breytingu á byrjunarliði sínu sem vann góðan sigur á Sindra á útivelli í síðustu umferð.  Algengt er að hann geri 1-3 breytingar á milli leikja, en nú virðist hann hafa fundið ákveðið jafnvægi í þessu byrjunarliði. Baráttan um sæti í byrjunarliðinu er hörð og margir góðir leikmenn sem bíða tækifæris á bekknum og koma inná sem varamenn til að sýna að þeir eigi heima í byrjunarliðinu.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en Vængir Júpiters fengu þó 2 gul spjöld. Strax í síðari hálfleik þá gerir þjálfari Vængjanna eina skiptingu, en hann hefur ekki verið ánægður með liðið eftir fyrri hálfleikinn. Á 64. mínútu leiksins kemur fyrsta mark leiksins og var það Hákon Leó (Nr.3) sem gerði það fyrir KF, hans fyrsta mark í deild og bikar síðan 2016 og hans annað mark fyrir félagið í 51 leik. Aðeins fjórum mínútum síðar skorar fyrirliðinn Grétar Áki (Nr. 11) og kemur KF í þægilega stöðu, 2-0 þegar um 22 mínútur voru eftir. Strax eftir markið fer Austin Diaz útaf fyrir Björn Andra, markahæsta mann KF í sumar. Vængirnir gerðu einnig strax tvöfalda skiptingu eftir annað mark KF, og ætluðu að bæta í sóknina og fá ferska leikmenn inn á völlinn. Ljubomir Delic fór útaf fyrir Halldór Loga, en Ljubo var á gulu spjaldi, en Halldór Logi náði sér strax í gult spjald þegar hann kom inná. Aksentije Milisic fór útaf fyrir Kristófer Andra þegar um 5 mínútur voru eftir af leiktímanum. Vængirnir höfðu enn tíma fyrir tvöfalda skiptingu þegar um 3 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

KF hélt út og Halldór Ingvar varði allt sem kom á markið og liðið landaði gríðarlega mikilvægum 2-0 sigri þegar aðeins 4 leikir eru eftir af mótinu. Liðið er nú komið í 4. sæti þegar 12 stig eru eftir í pottinum. KF er nú aðeins tveimur stigum frá KH sem er í 2. sæti og einu stigi frá KFG sem er í 3. sæti.

KF leikur næst við Ægi í Þorlákshöfn, laugardaginn 25. ágúst kl. 16:00.

kf-

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra settur á mánudag

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra verður settur mánudag 20. ágúst kl. 8:00. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá kl. 09:45 sama dag. Það fyrirkomulag verður viðhaft fyrsta daginn að nemendur sækja kennslustundir mánudags og þriðjudags á víxl.
Hver áfangi er kenndur tvær kennslustundir í senn. Á mánudag sækir nemandinn fyrri kennslustundina skv. stundaskrá mánudags og þá seinni skv. stundaskrá þriðjudags.
Á þriðjudag verður svo kennsla með venjubundnum hætti samkvæmt stundaskrá.

Lions gaf Árskóla tvö fótboltaspil

Nú rétt fyrir skólabyrjun mættu nokkrir vaskir fulltrúar frá Lionsklúbbi Sauðárkróks í Árskóla á Sauðárkróki og færðu skólanum að gjöf tvö fótboltaspil. Tilefni gjafanna er 20 ára afmæli Árskóla. Spilin eru sterkbyggð og hentug fyrir skóla og frístundastarf. Ekki er vafi á að fótboltaspilin munu nýtast nemendum Árskóla vel og vera skemmtilegur valkostur í frímínútum.

KF mætir Vængjum Júpíters á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Heil umferð fer fram í 3. deild karla í knattspyrnu í dag. KF mætir Vængjum Júpíters á Ólafsfjarðarvelli kl. 14:00. Vængirnir eru með einu stigi meira en KF en eru í 4. sæti á meðan KF er í 6. sæti. Bæði liðin geta með sigri nálgast 2. sæti deildarinnar, en mesta baráttan er um það sæti þar sem Dalvíkingar hafa 5 stiga forskot í toppsætinu. Vængirnir unnu fyrri leik liðanna í júní 2-0 á sínum heimavelli en KF vann heimaleikinn í fyrra öruggulega 5-0 á meðan útileikurinn tapaðist 5-3. Það hafa því verið miklir markaleikir á milli þessa liða og spurning hvort svo verði núna? Vængirnir komu upp úr 4. deildinni árið 2016 og náðu að tryggja sér áframhaldandi sæti í 3. deildinni í fyrra. Liðið hefur svo náð góðum árangri í sumar og er til alls líklegt.

KF hefur aðeins tapað einum leik af síðustu 5 í deildinni, unnið 3 og gert 1 jafntefli. Vængirnir eru með sama árangur í síðustu 5 leikjum og er því reiknað með afar jöfnum leik og mikilli baráttu.

Markahæsti maður Vængja er Daníel Rögnvaldsson, en hann hefur skorað 6 mörk í 9 deildarleikjum í sumar. Jónas Breki Svavarsson hefur skorað 5 mörk í 11 leikjum í deildinni í sumar fyrir Vængina og Eyþór Þorvaldsson 3 mörk, en þetta eru þeirra hættulegustu menn. Vængirnir eru þekktir fyrir að ná að skora mark á fyrstu 30. mínútum leiksins, en 7 mörk hafa komið hjá þeim í sumar á þeim tíma, og einnig skorað þeir mikið á síðustu 15. mínútum síðari hálfleiks, en 5 mörk hafa komið í sumar hjá þeim á því tímabili leiksins.

Nú eru aðeins 5 umferðir eftir í deildinni og 15 stig í pottinum. Mikið er eftir að innbyrðis viðureignum liðanna í toppsætunum og er því talsverð spenna í efri hluta deildarinnar. KF er til alls líklegt og eru því stuðningsmenn hvattir til að styðja sérstaklega vel við liðið og fjölmenna á heimaleikina sem eftir eru. Nánari verður fjallað um úrslit leiksins að leik loknum.

Þórarinn Hannesson með tónleika í Bátahúsi Síldarminjasafnsins

Þórarinn Hannesson verður með tónleikaröðina sína “40 ár – 40 tónleikar” í Bátahúsi Síldarminjasafnsins á Siglufirði, laugardaginn 18. ágúst kl. 13:00.  Tónleikarnir verða í bíóskúrnum í Bátahúsinu, og eru auglýstir með skömmum fyrirvara. Íbúar Fjallabyggðar hafa ókeypis aðgang að safninu.
Þórarinn flytur aðeins eigin lagasmíðar við eigin texta og annarra í þessari tónleikaröð sinni.

32 án atvinnu í Fjallabyggð í júlí

Alls eru 32 án atvinnu í Fjallabyggð í júlí 2018, en voru 35 í júní 2018. Atvinnuleysi mælist nú 2,8% í Fjallabyggð. Alls eru þetta 16 konur og 16 karlar í atvinnuleit í Fjallabyggð.

Í Dalvíkurbyggð eru 17 án atvinnu og þar mælist 1,6% atvinnuleysi. Í Skagafirði eru 20 án atvinnu og þar mælist aðeins 0,9% atvinnuleysi.  Á Akureyri eru 212 án atvinnu og þar mælist 2% atvinnuleysi.  Þá eru 39 án atvinnu í Norðurþingi og þar mælist 1,8% atvinnuleysi.

Tölulegar upplýsingar eru frá Vinnumálastofnun.

 

Skólasetning hjá Menntaskólanum á Tröllaskaga

Skólasetning Menntaskólans á Tröllaskaga verður mánudaginn 20. ágúst kl. 08:10. Að lokinni skólasetningu hitta nemendur umsjónarkennara sína en að því búnu hefst hefðbundinn skóladagur samkvæmt stundaskrá sem nemendur finna í Innu (www.inna.is). Skólabíll fer frá Grunnskóla Fjallabyggðar, Siglufirði klukkan 7:40 og Dalvíkurskóla klukkan 7:45 eins og verður áfram í vetur.

Sumartónleikar í Hóladómkirkju

Sumartónleikar verða haldnir í Hóladómkirkju, sunnudaginn 19. ágúst kl. 16:00.

Fram koma: Tríó Amasia: Hlín Erlendsdóttir fiðluleikari, Ármann Helgason klarinettuleikari og Þröstur Þorbjörnsson gítarleikari.

Kaffihúsa- og götutónlist, djass, eistnesk og armensk þjóðlög, dansar frá Kúbu og Suður-Ameríku og argentísk tangótónlist.

Aðgangur ókeypis.  Allir velkomnir.

Sveitasæla á Sauðárkróki um helgina

Sveitasæla 2018, landbúnaðarsýning og bændahátíð, verður haldin næstkomandi laugardag, 18. ágúst, í reiðhöllinni Svaðastaðir í Skagafirði frá kl. 10:00 – 17:00.

Dagskráin er hin glæsilegasta og allir ættu að finna eitthvað við hæfi. Húsdýragarður, sveitamarkaður – beint frá býli, Leikhópurinn Lotta, Gunni og Felix, Hvolpasveitin, heitjárningar, smalahundasýning, kálfasýning, hrútadómar/hrútaþukl, sem og véla- og fyrirtækjasýning verða m.a. í boði. Þá verður veitingasala á vegum Kiwanisklúbbsins Freyju, en allur ágóði rennur til góðra málefna í heimabyggð.

Finnur Yngvi hefur verið ráðinn sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit

Samþykkt hefur verið að ráða Finn Yngva Kristinsson í starf sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar og tekur hann við af Ólafi Rúnari Ólafssyni sem þegar hefur látið af störfum að eigin ósk.  Finnur Yngvi var valinn úr hópi 22 umsækjenda og kemur til starfa í byrjun september.

Finnur Yngvi lauk BS námi í viðskiptafræði ásamt MBA námi í verkefnisstjórnun frá Arizona í Bandaríkjunum árið 2008 og hefur frá því verið búsettur á Siglufirði þar sem hann hefur ásamt eiginkonu sinni, Sigríði Maríu, leitt rekstur og uppbyggingu Rauðku ehf., sem á meðal annars og rekur Sigló Hótel og veitingastaðina Hannes Boy og Kaffi Rauðku. Finnur Yngvi er einnig rafvirkjameistari og menntaður raf- og rekstrariðnfræðingur frá Tækniháskóla Íslands.

„Eftir rúm níu ár í þessari viðamiklu uppbyggingu á Siglufirði var kominn tími á breytingar hjá okkur hjónum og þegar ég sá þetta spennandi tækifæri opnast í Eyjafjarðarsveit ákvað ég að láta slag standa“ segir Finnur Yngvi. „Ég þrífst vel í fjölbreyttum verkefnum og nýt þess að stuðla að framförum þess samfélags sem ég bý í og el börn mín upp í. Ég tel starf sveitastjóra Eyjafjarðasveitar afar spennandi starf, bæði fjölbreytt og krefjandi. Það eru mörg spennandi verkefni í farvatninu hjá Eyjafjarðarsveit og er mér heiður af því að taka þátt í því starfi á komandi árum“.

Finnur Yngvi er 39 ára og giftur Sigríði Maríu Róbertsdóttur og eiga þau þrjú börn. „Það tók okkur hjónin ekki langan tíma að ákveða okkur hvort við værum til í að búa í Eyjafjarðarsveit. Maður hugsar alltaf fyrst um börnin sín. Hér hefur metnaðarfullt starf verið unnið fyrir ungu kynslóðina og er grunnskólinn sérstaklega öflugur og framsækinn. Umhverfið er líka bæði aðlaðandi og fjölskylduvænt og hlakkar okkur því til að koma á svæðið.“ bætir Finnur Yngvi við að lokum.

Texti: Fréttatilkynning/ esveit.is

Föstudagur á Berjadögum

Þrír viðburðir verða á Berjadögum í Ólafsfirði, föstudaginn 17. ágúst. Viðburðir verða á Hornbrekku, í Ólafsfjarðarkirkju og á Kaffi Klöru.

Föstudagur 17. ágúst kl. 15:30 – Dvalarheimilið Hornbrekka

Venju samkvæmt koma listamenn Berjadaga í heimsókn í Dvalarheimilið Hornbrekku og eiga notalega stund með heimilisfólki og gestum. Þar verður flutt úrval af dagskrá Berjadaga. Listamennirnir sem fram koma eru Vera Panitch, Sigursveinn Magnússon, Edda Björk Jónsdóttir og Ave Kara Sillaots.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

 

Föstudagur 17. ágúst kl. 20 –  Ólafsfjarðarkirkja

Hátíðartónleikar Berjadaga

Kristján Jóhannsson tenór
Bjarni Frímann Bjarnason píanó
Ólöf Sigursveinsdóttir selló
Vera Panitch fiðla
Eyjólfur Eyjólfsson tenór

Föstudagskvöldið 17. ágúst verður hátíð í Ólafsfjarðarkirkju þegar Bjarni Frímann Bjarnason kemur fram ásamt Kristjáni Jóhannssyni tenórsöngvara, Ólöfu Sigursveinsdóttur sellóleikara, Eyjólfi Eyjólfssyni tenórsöngvara og Veru Panitch fiðluleikara á Berjadögum. Hér verður brugðið út af vananum með galakvöldi í kirkjunni og reidd fram hver krásin á fætur annari af gnægtaborði tónbókmenntanna.

Kristján Jóhannsson flytur meðal annars hina frægu aríu „Vesti la giubba“ eftir Leoncavallo og „Gígjuna“ ástælu eftir Sigfús Einarsson. Á tónleikunum hljómar einnig hin fagra „Arpeggione” sónata eftir Schubert í flutningi Ólafar Sigursveinsdóttur og Bjarna Frímanns. Eyjólfur Eyjólfsson tenór syngur ennfremur sjaldheyrð þjóðlög úr ranni Haydns þar sem píanótríó Veru, Ólafar og Bjarna fær að njóta sín. Einn af hápunktum kvöldsins verður vafalaust þegar Bjarni leikur einleik á slaghörpuna í Ólafsfjarðarkirkju.

Miðaverð: 3.500 kr. / Frítt fyrir börn og unglinga 18 ára og yngri
Hátíðarpassi Berjadaga: 7.000 kr. (allir viðburðir)
Miðasala: midi.is og tix.is, og við inngang Ólafsfjarðarkirkju

 

Föstudagur 17. ágúst kl. 22:15 – Kaffi Klara

Það eru allir velkomnir á Kaffi Klöru í berjakokteil og lifandi tónlist eftir hátíðartónleika í Ólafsfjarðarkirkju. Listamenn Berjadaga, Edda Björk Jónsdóttir sópransöngkona, Ave Kara Sillaots harmónikkuleikari og Sigrún Valgerður Gestsdóttir skemmta gestum og gangandi.

Allir velkomnir á hornið!

Björgunarsveitin býðst til að greiða viðgerðarkostnað vegna óhapps

Óhapp varð við flugeldasýningu sem haldin var við lok Fiskidagsins mikla, þegar eldur komst í dekkjaþybbur á Suðurgarði á Dalvíkurhöfn. Talið er að um 55 dekk séu ónýt og er nauðsynlegt að skipta um dekkjastæður á um 60 metra kafla. Formaður Björgunarsveitar Dalvíkur hefur sent afsökunarbeiðni til Dalvíkurbyggðar og hefur sveitin boðist til að greiða kostnaðinn af viðgerðum vegna óhappsins. Dalvíkurbyggð hyggst ræða við formann sveitarinnar um hver aðkoma hennar gæti orðið á viðgerðinni. – Fréttavefurinn í Dalvíkurbyggð, Dal.is greindi fyrst frá þessu.

Ljósmynd: Bjarni Eiríksson

Staða Múlaganga rædd í bæjarráði Fjallabyggðar

Bæjarráð Fjallabyggðar ræddi í gær stöðu Múlaganga við Ólafsfjörð, en göngin eru einbreið og 3,4 km á lengd með innskotum fyrir 4 bíla með reglulegu millibili. Göngin sinna ekki lengur þeim umferðarþunga sem kemur þegar stórar hátíðir eru í Fjallabyggð eða Dalvíkurbyggð.

Í ljósi þeirra umferðartafa og öngþveitis sem skapaðist hjá vegfarendum í Múlagöngum á sunnudag sl. þegar gestir Fiskidagsins mikla voru að fara til síns heima hefur bæjarráð Fjallabyggðar lýst áhyggjum sínum af öryggi íbúa og gesta Fjallabyggðar þegar slíkar aðstæður skapast.  Má til dæmis benda á mikilvægi þess að neyðarþjónusta í forgangsakstri svo sem lögregla og sjúkrabílar þurfa að geta komist klakklaust leiðar sinna á dögum sem þessum, þegar umferðarþungi er mikill um göngin. – Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Fjallabyggðar.
Lögreglan sinnti umferðarstjórnun á föstudegi og laugardegi á Fiskideginum mikla og gekk umferð um göngin vel þá daga. Engin umferðarstjórn var á sunnudeginum og var þá mikill umferðarþungi í gegnum göngin.

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur boðað lögreglustjóra á næsta fund ráðsins til að ræða málin frekar.

Mynd: Umferðarstýring við Múlagöng árið 2016.

Erla Gunnlaugsdóttir nýr skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að ráða Erlu Gunnlaugsdóttur í starf skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar. Erla var metin hæfust í starfið af þremur umsækjendum. Héðinsfjörður.is greindi fyrstur vefmiðla frá þessu þann 11. ágúst síðastliðinn að lagt hefði verið til að Erla yrði ráðin í starfið. Erla hefur starfað sem verkefnastjóri sérkennslu við Grunnskóla Fjallabyggðar. Jónína Magnúsdóttir sagði starfi sínu lausu í sumar sem skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar og tekur hún við starfi aðstoðarskólastjóra Grunnskólans í Þorlákshöfn.

Fiskidagurinn litli í Mörkinni í Reykjavík

Með stuðningi Fiskidagsins mikla er Fiskidagurinn litli haldinn á hjúkrunarheimlinu Mörk fyrsta fimmtudag eftir Fiskidaginn mikla ár hvert og nú í fjórða sinn. Fiskidagurinn mikli sendir Fiskidagsblöðrur, merki, Fiskidagsblaðið og DVD disk með tónleikum hvers árs. Fiskborgarar, hráefni í súpu og fleira í boði Samherja. Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla og Friðrik V. yfirkokkur Fiskidagsins mikla mæta og taka þátt í gleðinni. Tónlistarmaðurinn K.K. syngur. Í Mörk búa um 240-250 manns og 200 til viðbótar eru á launaskrá. Einnig mæta vinir og ættingjar

Ljósmyndir: Bjarni Eiríksson

Fimmtudagur á Berjadögum

Afmælishelgi Berjadaga hefst fimmtudagskvöldið 16. ágúst í Ólafsfjarðarkirkju. Helgin hefst með fjörmikillli dagskrá fiðluleikaranna Páli Palomares og Veru Panitch. Páll og Vera sitja nú bæði í leiðandi stöðum við Sinfóníuhljómsveit Íslands eftir langt og strangt einleikaranám. Þau eru upprennandi listamenn á Íslandi eftir búsetu í Danmörku, sem er heimaland Veru.

Á tónleikunum hljómar hin stóra Chaconna eftir Bach auk einleiksstykkja eftir Fritz Kreisler og Manuel de Falla. Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari bætist við í verkum eftir Piotr Tchaikovsky og Pablo de Sarasate fyrir fiðlu og píanó. Páll og Vera léku heillandi dagskrá í Ríkisútvarpið á aðfangadagskvöld þar sem þau fluttu dúetta. Núna endurtaka þau samleikinn á Berjadögum. Í þetta skiptið er það margslungið tónmál dúettasnillingsins Béla Bartók. Einnig leika þau sjaldheyrð lög eftir Shostakovich ásamt Evu Þyri.

Fimmtudagur 16. ágúst kl. 20 – Ólafsfjarðarkirkja

Upphafstónleikar

Páll og Vera

Páll Palomares fiðla
Vera Panitch fiðla
Eva Þyri Hilmarsdóttir píanó

 

Miðaverð: 3.000 kr. / Frítt fyrir börn og unglinga 18 ára og yngri
Hátíðarpassi Berjadaga: 7.000 kr. (allir viðburðir)
Miðasala: midi.is og tix.is, og við inngang Ólafsfjarðarkirkju

Fyrsta meistaramótinu lokið á Siglógolf

Meistaramóti Golfklúbbs Siglufjarðar lauk um síðustu helgi á Siglógolf á Siglufirði. Alls voru 13 sem tóku þátt í mótinu, en spilað var í þremur flokkum, 1.-2. flokki karla og 1. flokki kvenna, þar sem þrjár konur tóku þátt. Í 1. flokki karla voru sex keppendur. Í 2. flokki karla kepptu fjórir kylfingar úr GKS. Fyrstu 18 holurnar þurfti að spila frá þriðjudegi til föstudags, næstu 18 á laugardegi og síðustu 18 á sunnudeginum. Verðlaunaafhending var við nýja golfskálann í lok móts. Golfskálinn er nú langt kominn, búið er að glerja skálann en eftir á að setja upp innréttingar og gera ýmsan lokafrágang.

Dómarar voru þeir Arnar Freyr Þrastarson og Kári Arnar Kárason. Öll nánari úrslit má finna á golf.is.

Í 1. flokki karla var Jóhann Már Sigurbjörnsson með besta skorið og fór hringina þrjá á aðeins 203 höggum. Í 1. flokki kvenna var Ólína Þ. Guðjónsdóttir með besta skorið og var á 294 höggum. Í 2. flokki karla var Finnur Mar Ragnarsson með besta skorið og var á 267 höggum.

Þátttaka var nokkru meiri í ár en árið 2016, en þá voru aðeins 8 þátttakendur. Vinsældir vallarins eiga bara eftir að aukast og má búast við að fleiri sæki mótinu á næsta ári.

KF fær 1.636.884 krónur frá KSÍ

KSÍ greiðir 200 milljónir króna til aðildarfélaga KSÍ vegna HM í Rússlandi. Fjármunum sem veitt er til aðildarfélaga skal eingöngu varið til knattspyrnutengdra verkefna félaganna. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar (KF) nýtur góðs af þessu og fær greiddar 1.636.884 kr. Önnur lið á Norðurlandi fá einnig greiðslur.   Dalvík/Reynir fær 1.636.884 kr., Tindastóll fær 3.682.990 kr., KA fær 6.319.847 kr., Þór fær 5.501.432 kr., Völsungur fær 3.273.769 kr.

Framlag til aðildarfélaga byggist fyrst og fremst á stöðu meistaraflokks karla og kvenna í deildum sl. 2 ár, 2017 og 2018, en við úthlutun eftir EM 2016 var miðað við árin 2014-2016. Félögum er skipt upp í tvo flokka. Annars vegar félög í deildarkeppni, sem eru með unglingastarf og hins vegar félög sem ekki standa fyrir barna- og unglingastarfi.

 

Sigfús Ingi nýr sveitarstjóri Skagafjarðar

Samþykkt hefur verið að ráða Sigfús Inga Sigfússon í starf sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar kjörtímabilið 2018-2022. Þetta kemur fram á Skagafjordur.is.

Sigfús Ingi er 42 ára gamall og hefur undanfarin ár starfað sem verkefnastjóri í atvinnu-, menningar- og kynningarmálum hjá sveitarfélaginu. Sigfús Ingi hefur viðamikla reynslu úr störfum í opinberri stjórnsýslu hjá bæði ríki og sveitarfélagi og hefur einnig starfað hjá fyrirtækjum á einkamarkaði.

Sigfús lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og MBA-gráðu frá University of Stirling í Skotlandi árið 2002, auk þess hefur hann stundað nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Alls sóttu 17 einstaklingar um starfið en 4 drógu umsókn sína til baka. Ráðningarferlið var í höndum ráðninga- og ráðgjafafyrirtækisins Hagvangs og að teknu tilliti til faglegs mats og umsagnar Hagvangs var ákveðið að ráða Sigfús Inga í starfið.

Áætlað er að Sigfús taki til starfa 22. ágúst.

Sigfús Ingi er kvæntur Laufeyju Leifsdóttur, ritstjóra hjá Forlaginu, og eiga þau þrjú börn.

Heimild: skagafjordur.is.

Sunnudagsviðburður í Þjóðlagasetrinu

Sunnudagskvöldið 19. ágúst mun fjöllistakonan Unnur Malín Sigurðardóttir skapa notalega stemmningu með söng, gítarleik og upplestri í Bjarnastofu Þjóðlagasetursins á Siglufirði. Flutt verða fjölþjóðleg sönglög, flest frumsamin, en einnig fá nokkrar vel valdar ábreiður að fljóta með í bland. Til að brjóta upp tónaflóðið mun Unnur Malín að auki krydda efnisskrána með upplestri úr nokkrum vel völdum bókum. Upplesturinn samanstendur af léttum og stuttum köflum úr verkum Elísabetar Jökulsdóttur, Örlygs Sigurðssonar, föðurafa Unnar Malínar, og fleirri höfunda.

Unni Malínu finnst gaman að spinna af fingrum fram og þannig vinna með allt litróf tilfinningaskalans. Tónlist hennar er fjölbreytt, oft þjóðlagaskotin og dálítið djössuð. Finna má seiðandi lúppur og kjafttakta, aðlaðandi og grípandi laglínur við texta á hinum ýmsu tungumálum. Hljóðheimurinn er fjölbreyttur og áhugaverður, dramatískur og fyndinn.

Unnur Malín er afar fjölhæfur listamaður sem hefur rannsakað hina ýmsu kima listarinnar. Hún hefur haldið alls kyns tónleika þar sem hún leikur á mörg ólík hljóðfæri og syngur af hjartans lyst. Hún hefur fengist við leiklist með áhugaleikfélögum, lesið upp ljóð og texta og framið gjörninga. Þá hefur hún sinnt myndlist í hjáverkum og eftir hana liggja tvívíð og þrívíð verk. Unnur Malín hefur einnig fengist við tónsmíðar og meðal þeirra flytjenda sem flutt hafa verk hennar eru Duo Harpverk, Kammerkór Suðurlands, Skálholtskórinn og Lúðrasveit Reykjavíkur.

Um árabil lék Unnur Malín í hljómsveitinni Ojba Rasta. Hljómsveitin átti nokkrum vinsældum að fagna, túraði vítt og breytt um landið og gaf út tvær breiðskífur. Með Ojba Rasta lék Unnur Malín í fyrsta sinn á Siglufirði – en hún hefur alla tíð haft sterka tenginu við fjörðinn og má segja að hún hagi sér líkt og farfugl sem kemur á hverju sumri (eða svona næstum). Unnur Malín hélt sína fyrstu sólótónleika  í Alþýðuhúsinu á Siglufirði fyrir rúmum tveimur árum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, ný lög litið dagsins ljós og sum tekið stökkbreytingum. 

Láttu þessa stund ekki framhjá þér fara. Ef þú veist ekki í hverju þú átt að vera, vertu þá bara í góðu skapi.

Kvöldstundin hefst klukkan 20:00, sunnudaginn 19. ágúst, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir!

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Ærslabelgur kominn í Ólafsfjörð

Foreldrafélag Leifturs í Ólafsfirði hefur fært börnum í Fjallabyggð ærslabelg sem settur hefur verið upp við Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar í Ólafsfirði og nærri tjaldsvæði bæjarins.  Þetta kemur fram á vef Fjallabyggðar.

Foreldrafélag Leiftur í Ólafsfirði hefur í nokkur ár unnið að því að styrkja börnin í íþróttum sem og íþróttafélög í Ólafsfirði en félagið hefur unnið sér inn pening með blaðburði í sjálfboðastarfi foreldra.

Stjórn félagsins er að hætta og taldi þeim peningum sem félagið á vel varið við kaup á ærslabelg og um leið stuðla að heilsueflandi leikaðstöðu fyrir börnin í Fjallabyggð. Foreldrafélagið sótti um styrk til Fjallabyggðar sem styrkti verkefnið til helminga ásamt því að koma ærslabelgnum fyrir.

Heimild og mynd: Fjallabyggð.is.

 

Fiskidagurinn mikli 2018 – Fréttatilkynning

Föstudaginn 10. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Vináttukeðjan er hlý og notaleg stund þar sem að staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Þar er tónlistarflutningur og vinátturæðuna flutti Geir Jón Þórisson. Heimamenn færðu gestum fléttuð vináttuarmbönd, vináttufána, knúskort og í lokin var innilegt fjöldaknús til að leggja línurnar fyrir helgina og það má með sanni segja það það hafi enst út helgina.

Fiskisúpukvöldið mikla
Á föstudagskvöldinu buðu um 130 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Einstaklega gott og ljúft kvöld í góðu veðri. Mikill fjöldi fólks rölti um bæinn þetta kvöld þar sem að súpa, vinátta og einstök samvera var í aðalhlutverki.

 

Fiskidagurinn mikli – Matseðillinn og maturinn alltaf betri og betri

Laugardaginn 11. ágúst milli kl 11.00  og 17.00 var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur í átjánda sinn á hafnarsvæðinu á Dalvík og einn eitt skiptið  sól og einstakri veðurblíðu. Um130.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti Fiskidagsins mikla.  Matseðillinn var gómsætur og fjölbreyttur að vanda og það mátti heyra á mörgum gestum að hann hafi verið sá allra besti frá upphafi.  Mjög fjölbreytt dagskrá var á sviði og hátíðarsvæðinu allan daginn. Um 150 manns komu fram í frábærri og vel heppnaðri dagskrá á sviðinu og á svæðinu .

 

Hamarhaus á fiskasýningunni og sýningin sló svo sannarlega í gegn

Á Fiskideginum mikla frá upphafi hefur Skarphéðinn Ásbjörnsson með hjálp góðra manna sett upp fiskasýningu. Gestafjöldinn var mikill á sýningunni og áhugi og undrun fólks leyndi sér ekki. Fyrir fiskasýninguna í ár bar vel í veiði þar sem að sýningunni barst hákarlstegundin hamarshaus.

 

Tónleikar á heimsmælikvarða  – Óvæntur leynigestur – Glæsileg flugeldasýning
Hátíðinni lauk síðan með Fiskidagstónleikum og flugeldasýningu í boði Samherja.  gerðinni í. Boðið var uppá einstakan tónlistarviðburð. Í farabroddi voru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt, Eyþór Ingi. Meðal annara sem komu fram voru:  Helgi Björnsson, Jón Jónsson, Helga Möller, Eiríkur Hauksson, Katrín Halldóra, Ragnheiður Gröndal, Egill Ólafsson, Jói P og Króli, Páll Rósinkrans og svo öllum að óvörum kom Bubbi Mortheins og sló botninn í glæsilega tónleika á eftirminnilega hátt.  Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar á Dalvík setti lokapunktinn á einstaka fjölskylduhátíð.  Aldrei hafa fleiri verið samankomnir fyrir neðan kaupfélagsbakkann, mannhafið var mikið og tignarlegt.
Björgunarsveitin á Dalvík á mikið lof skilið fyrir eina bestu flugeldasýningu sem að sett hefur verið upp hér á landi, algjörlega mögnuð sýning sem að verður seint toppuð.

 

Júlíus Kristjánsson heiðraður á Fiskidaginn mikla 2018.

Frá upphafi hefur Fiskidagurinn mikli heiðrað þá sem hafa með einhverjum hætti haft áhrif á atvinnusögu okkar og íslenskan sjávarútveg.

Í ár veitir Fiskidagurinn mikli viðurkenningu fyrir framlag til menntunar sjómanna og heiðrar Júlíus Kristjánsson fyrir hans mikilvæga þátt í uppbyggingu og umsjón með  skipstjórnarfræðslu á Dalvík.

Á áttunda áratug síðustu aldar hóf Júlíus að kenna nemendum við Gagnfræðaskóla Dalvíkur skipstjórnarfræði og meðferð veiðarfæra.

Árið 1981 heimilaði menntamálaráðuneytið að starfrækt yrði skipstjórnarbraut við Dalvíkurskóla og var forsenda þess að Júlíus Kristjánsson hefði umsjón með deildinni. Stýrimannaskólinn á Dalvík naut mikilla vinsælda strax frá upphafi og árið 1987 heimilaði ráðuneytið að kennsla færi einnig af stað á 2. stigi skipstjórnarnáms.

Í þau um 20 ár sem stýrimannaskólinn starfaði á Dalvík hafði Júlíus umsjón með náminu, en á þeim tíma útskrifuðust 190 nemendur af 1. stigi skipstjórnar og 134 með 2. stig frá skólanum. Margir þeirra eru farsælir skipstjórnarmenn í dag.

Texti: Aðsend fréttatilkynning. Ljósmyndir: Bjarni Eiríksson.

Dalvík gerði jafntefli við KV

Dalvík/Reynir tóku á móti Knattspyrnufélagi Vesturbæjar(KV) í Fiskidagsleiknum á Dalvíkurvelli, sem fram fór fimmtudaginn 9. ágúst. Fyrri leik liðana lauk með 3-2 sigri KV og var því búist við hörku leik. Hvorugu liðinu tókst að skora í þessum leik og var niðurstaðan 0-0 jafntefli. Dalvík/Reynir eru því með 5 stiga forskot á KH sem eru í öðru sæti. Fimm umferðir eru nú eftir og 15 stig í pottinum.

Dalvík leikur næst við KFG á Samsungvellinum, laugardaginn 18. ágúst kl. 14:00. KFG er í þriðja sæti deildarinnar með 22. stig og á einnig góða möguleika að komast upp um deild. Þetta verður því mikill baráttuleikur þar sem mikið er undir fyrir bæði lið.

Júlíus Kristjánsson heiðraður á Fiskidaginn mikla 2018

Frá upphafi hefur Fiskidagurinn mikli heiðrað þá sem hafa með einhverjum hætti haft áhrif á atvinnusögu okkar og íslenskan sjávarútveg.

Í ár veitir Fiskidagurinn mikli viðurkenningu fyrir framlag til menntunar sjómanna og heiðrar Júlíus Kristjánsson fyrir hans mikilvæga þátt í uppbyggingu og umsjón með  skipstjórnarfræðslu á Dalvík.

Á áttunda áratug síðustu aldar hóf Júlíus að kenna nemendum við Gagnfræðaskóla Dalvíkur skipstjórnarfræði og meðferð veiðarfæra.

Árið 1981 heimilaði menntamálaráðuneytið að starfrækt yrði skipstjórnarbraut við Dalvíkurskóla og var forsenda þess að Júlíus Kristjánsson hefði umsjón með deildinni. Stýrimannaskólinn á Dalvík naut mikilla vinsælda strax frá upphafi og árið 1987 heimilaði ráðuneytið að kennsla færi einnig af stað á 2. stigi skipstjórnarnáms.

Í þau um 20 ár sem stýrimannaskólinn starfaði á Dalvík hafði Júlíus umsjón með náminu, en á þeim tíma útskrifuðust 190 nemendur af 1. stigi skipstjórnar og 134 með 2. stig frá skólanum. Margir þeirra eru farsælir skipstjórnarmenn í dag.

Aðsend fréttatilkynning.

Ljósmyndari: Bjarni Eiríksson

KF komið í sjötta sæti eftir sigur á Sindra – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Sindra á Hornafirði í dag í lokaleik 13. umferðar í 3. deild karla. Sex stig skyldu liðin að í dag en Sindri var í 9. sæti með 10 stig en KF var í 8. sæti með 16 stig. Búist var við hörkuleik en Sindramenn hafa haft mjög gott tak á KF undanfarin ár og hafði unnið síðustu 5 leiki liðins með nokkrum yfirburðum. KF komu því úthvíldir og með gott leikplan en liðið gisti á Fáskrúðsfirði nóttina áður til að stytta ferðalagið á Hornafjörð. KF hafði ekki unnið neinn útileik í deildinni í sumar í sex leikjum, en aðeins náð einu jafntefli.

Björn Andri, markahæsti maður KF byrjaði á bekknum, en hann er í mikilli baráttu um byrjunarliðssæti við Austin Diaz sem hefur byrjaði vel í sínum fyrstu leikjum fyrir félagið.  Grétar Áki var fyrirliði liðsins í þessum leik, en Halldór Ingvar markmaður hefur gengt því hlutverki undanfarin ár.

Það var bjart í veðri þegar leikurinn hófst og hitinn um 14 gráður, hægur vindur og aðstæður til fótboltaiðkunar til fyrirmyndar. KF byrjaði leikinn betur og náðu að skora mark snemma í fyrri hálfleik eða á 14. mínútu, og var þar að verki Friðrik Örn Ásgeirsson, en markið var sögulegt, en þetta var hans fyrsta mark fyrir félagið í 56 meistaraflokks leikjum í deild og bikar. KF var betra liðið í fyrri hálfleik og hélt boltanum vel og náðu góðu spili upp völlinn. Staðan var 0-1 fyrir KF í hálfleik en Sindri gerði strax eina skiptingu á 46. mínútu. Í síðari hálfleik þá var Sindri meira með boltann án þess að ná að skapa sér hættuleg færi.  KF beitti skyndisóknum þegar þeir gátu í síðari hálfleik. Þegar leið á síðari hálfleik gerðu bæði lið tvær skiptingar til að fá ferska menn inn á en KF skipti Birni Andra inná og síðar Halldóri Loga þegar skammt var eftir. KF hélt út og landaði dýrmætum 0-1 sigri á þessum erfiða útivelli.

KF er nú komið í 6. sæti með 19 stig, en er með lakari markatölu en KV, KF er nú 5 stigum frá 2. sæti deildarinnar, en það þarf margt að gerast svo að liðið komist á þann stað á þessu tímabili. En með góðum úrslitum er raunhæft að liðið geti náð 3.-4. sæti deildarinnar eins og staðan er núna og eins ef önnur úrslit verða liðinu hagstæð. Þetta var fyrsti útileikjasigurinn hjá KF í sumar en liðið hafði aðeins náð í 1 stig í 6 útileikjum fyrir þennan leik.

Næsti leikur KF er á Ólafsfjarðarvelli gegn Vængjum Júpíters, laugardaginn 18. ágúst.

Skólasetning Grunnskóla Fjallabyggðar verður 22. ágúst

Undirbúningur skólastarfs Grunnskóla Fjallabyggðar stendur nú yfir og eru starfsmenn skólans að undirbúa komu nemenda næstu daga.  Skólasetning fer fram miðvikudaginn 22. ágúst nk.,stundaskrár og ritföng verða afhent. Þetta kemur fram á vef Fjallabyggðar.

Nemendur 1. bekkjar mæta í boðuð viðtöl til umsjónarkennara.
Nemendur í 2.-5. bekk mæta í skólahúsið á Siglufirði kl. 11:00. Skólabíll fer frá Ólafsfirði kl. 10:40 og til baka að lokinni skólasetningu.
Nemendur í 6.-10. bekk mæta kl. 13.00 í skólahúsið í Ólafsfirði. Skólabíll fer frá Siglufirði kl. 12:40 og til baka að lokinni skólasetningu.

Frístund
Nemendum í 1.-4. bekk stendur til boða að sækja Frístund að loknum skóladegi kl. 13:35-14:30. Frístund er tómstundastarf skipulagt af Fjallabyggð í samstarfi við tónlistarskóla, grunnskóla og íþróttafélög. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og skráningar verða sendar í næstu viku í tölvupósti.

Lengd viðvera
Nemendur í 1.-3. bekk hafa möguleika á að sækja lengda viðveru kl. 14.30-16.00. Fyrir þá gæslu greiða foreldrar skv. gjaldskrá. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og skráningar verða sendar í næstu viku.

Heimild: Fjallabyggð.