All posts by Magnús Rúnar Magnússon

BF vann HKarlana 3-0

Blakfélag Fjallabyggðar keppti við HKarlana úr Kópavogi í dag á Siglufirði í 1. deildinni í blaki. Gestirnir byrjuðu leikinn vel og komust í 1-4 og 5-9 en þá tók við góður kafli heimamanna og jöfnuðu þeir metin í 9-9 og komust yfir í 10-9 og tóku þá gestirnir leikhlé til að ræða málin. Jafnt var á næstu tölum en í stöðunni 13-13 þá tók BF völdin á vellinum og komst í 17-13. Kom þá mjög góður kafli BF og komust þeir í 21-14. Gestirnir svöruðu fyrir sig og minnkuðu muninn í 21-18 og 22-19, en BF kláraði hrinuna og unnu 25-19 eftir töluverða baráttu.

Í annari hrinu var mikið jafnræði með liðunum en BF komst þú í 3-1 í upphafi og gestirnir svöruðu og komust í 3-5 og áfram var jafnræði með liðunum í stöðunni 7-7, 9-9 og 14-13 en þá tóku gestirnir leikhlé. Kom núna góður kafli BF manna, og komust þeir í 19-15 en gestirnir skoruðu þá þrjú stig í röð og staðan orðin 19-18 og tóku þá BF menn leikhlé. Áfram var jafnt út hrinuna en BF menn leiddu þó og var staðan 22-20 og 24-22 og töluverð spenna síðustu mínútur hrinunnar, en heimamenn kláruðu hrinuna 25-22.

Í þriðju hrinu var BF miklu betra og sigurinn aldrei í hættu. BF komst í 6-2 og tóku þá gestirnir strax leikhlé til að stilla saman strengi en það dugði skammt. BF komst í 8-3 og 10-5. Kom þá sterkur kafli heimamenna sem komust í 14-5 og 17-6 og tóku þá gestirnir annað leikhlé. BF var áfram með forystu síðustu mínútur hrinunnar og komust í 20-8 og endaði hrinan 25-8 og glæsilegur 3-0 sigur Blakfélags Fjallabyggðar gegn HKörlum.

KF og Tindastóll saman í riðli í Lengjubikar

KSÍ hefur dregið í riðla í Lengjubikar 2019. Mótið hefst í lok febrúar og stendur fram til loka mars mánaðar. KF og Tindastóll eru í B-deild karla og drógust í riðill 1 ásamt Kára, Skallagrím, Reyni Sandgerði, og Víði í Garði.

Dalvík/Reynir og Völsungur drógust í riðil 4 í B-deild. Önnur lið í riðli 4 eru: Einherji, Fjarðarbyggð, Huginn/Höttur og Leiknir F.

Meiri blakveisla í Fjallabyggð

Blakfélag Fjallabyggðar leikur tvo leiki í Íþróttahúsinu á Siglufirði, sunnudaginn 18. nóvember. Karlaliðið leikur gegn HKörlum kl. 13:00 og kvennaliðið gegn Ými kl. 15:00 eða þegar karla leiknum lýkur ef hann dregst á langinn.

HKarlar hafa spilað 3 leiki á mótinu og eru enn án sigurs. BF hefur spilað 2 leiki, unnið 1 og tapað einum.

Kvennalið Ýmis hafa spilað 4 leiki á mótinu og unnið þá alla. Kvennalið BF hafa spilað 1 leik á mótinu sem þær unnu. Búast má við hörku viðureignum í þessum leikjum. Stuðningur í stúkunni getur skipt sköpum í jöfnum leikjum og eru stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna á leikina.

Benectadeild karla og kvenna
Sunnudagurinn 18. nóvember
13:00 BF – HKarlar í Benectadeild karla
15:00 BF – Ýmir í Benectadeild kvenna

Ný sýning væntanleg í Pálshús næsta vor

Hafin er vinna við uppgerð efri hæðar á Pálshúsi í Ólafsfirði. Það er Hollvinafélag Pálshúss sem stendur að uppbyggingu hússins. Neðri hæð hússins var tekin í gegn síðustu árin og hafa ýmsar sýningar verið þar frá opnun safnsins. Nú er verið að vinna að nýrri sýningu á neðri hæð hússins sem tengist hinu merkilega Ólafsfjarðarvatni og er áætlað að sýningin verði tilbúin í apríl 2019. Sýningar á efri hæð hússins ættu svo að geta opnað árið 2020 ef framkvæmdir ganga vel. Samtökin leita nú að fólki sem getur aðstoðað með málngarvinnu á efri hæð hússins.

Ljósmyndir: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon

 

Bleik messa í Ólafsfjarðarkirkju

Sunnudagurinn 18. nóvember verður Bleik messa í Ólafsfjarðarkirkju kl. 20:00. Tónlist og hugleiðingar verða á dagskránni. Fyrr um daginn verður barnastarf og koma nemendur Tónlistarskólans á Tröllskaga í heimsókn.

Dagskrá:

Barnastarf kl. 11:00
Nemendur úr tónskólanum koma í heimsókn

Helgistund á Hornbrekku kl. 14:30

Bleik messa kl. 20:00
Eva Karlotta, Ragna Dís og Gulli Helga sjá um tónlistina
Hugleiðingar flytja Regína Ólafsdóttir, sálfræðingur Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis og Anna Hulda Júlíusdóttir, verslunareigandi Í hjarta bæjarins á Siglufirði.

Bjóða beint flug frá Hollandi til Akureyrar

Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur nú hafið sölu á skipulögðum ferðum til Akureyrar með leiguflugi frá Hollandi. Ferðaskrifstofan áætlar að fljúga með ferðamenn yfir tvö tímabil á næsta ári, annars vegar yfir næsta sumar og hins vegar næsta vetur frá desember fram í mars.

Markaðsstofa Norðurlands og Flugklasinn Air 66N hafa leitt verkefnið og nú standa yfir viðræður við ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi um samstarf við ferðaskrifstofuna og þjónustu við farþega. Ljóst er að slíkar ferðir kalla á ýmis konar þjónustu, eins og komið hefur í ljós með ferðum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break. Áhersla ferðaskrifstofunnar verður bæði á ferðalög þar sem ferðamenn keyra sjálfir á milli staða og hópaferðalög með fararstjóra. Sú fjölbreytni þýðir betri dreifingu þessara gesta um allt Norðurland, allt frá Hvammstanga til Langaness.

Voigt Travel er ferðaskrifstofa í Hollandi með 30 ára reynslu af ferðum fyrir Hollendinga á norðlægar slóðir, þ.á.m. til Finnlands, Noregs og Svíþjóðar.

 

Afrakstur síðustu ára að koma í ljós

Verkefnastjóri Flugklasans Air 66N  hafði fyrst samband við Voigt Travel í apríl 2017 og kynnti þar möguleikann á því að fljúga beint til Akureyrar. Það var svo núna í sumar sem hjólin fóru að snúast af alvöru og síðustu mánuði hefur verið unnið mjög markvisst að undirbúningi verkefnisins. Svona verkefni þurfa mikinn undirbúning og hafa oftast langan aðdraganda fram að fyrstu flugferð.

„Það er ánægjulegt að geta tilkynnt um þetta, því hér er afrakstur vinnu síðustu ára að koma í ljós. Það er ljóst að beint millilandaflug á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break frá Bretlandi til Akureyrar hefur haft jákvæð áhrif á þróun millilandaflugs um Akureyrarflugvöll og vakið athygli fleiri ferðaskrifstofa og flugfélaga á áfangastaðnum,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans Air 66N.

Rétt að taka fram að nýlegar fréttir um að ILS aðflugsbúnaður fyrir aðflug úr norðri á Akureyrarflugvöll verði settur upp á næsta ári, hafði góð áhrif á ákvörðun Voigt Travel um að hefja sölu á ferðum til Norðurlands. Þá skipti stuðningur Flugþróunarsjóðs sköpum við að láta þetta verkefni verða að veruleika.

 

Tilkynning frá Voigt Travel

„Hvar finnur þú landslag með endalausu víðerni, hverum sem spýta upp heitu vatni og virk eldfjöll? Á Íslandi að sjálfsögðu! Voigt Travel hefur nú bætt Íslandi við sem áfangastað í úrval sitt á Norðurslóðum. Frá lokum maí á næsta ári mun Voigt Travel, í samstarfi við flugfélagið Transavia, bjóða upp á beint flug til Akureyrar frá Rotterdam.

Flest ferðalög á Íslandi byrja í Reykjavík. Ekki með Voigt Travel. Ferðaskrifstofan vill kynna Norðurland fyrir ferðamönnum, sem er nokkuð óþekkt í samanburði við önnur svæði á landinu. Gullni hringurinn er vel þekktur, en á eyjunni má einnig finna Demantshringinn sem fer í gegnum Mývatnssveit og jarðhitasvæðið þar, framhjá hinum ægilega Dettifossi og inn á Húsavík þar sem hvalaskoðun er upplifun sem enginn má missa af. Hér fá ferðamenn að kynnast Íslandi í sinni tærustu og bestu mynd.

 

„Þó að þetta sé minna þekktur áfangastaður á hinu vinsæla Íslandi, þá þýðir það í raun að hann er meira aðlaðandi í augum ferðamannsins sem vill upplifa meira en Gullna hringinn. Slíkt passar mjög vel við stefnu Voigt Travel, því markmiðið okkar er að okkar viðskiptavinir kynnist betur hinum óþekktu svæðum í Norður Evrópu með flugi beint frá Hollandi, ekki bara á veturna heldur á sumrin líka. Þegar við ákveðum að taka af skarið og hefja flug til nýrra áfangastaða þá er sjálfbærni verkefnisins líka mikilvægt. Þess vegna viljum við vinna með fólki á svæðinu og hjálpa við að byggja upp innviði fyrir ferðamenn sem nýtast allt árið um kring. Slíkt þjónar einnig hagsmunum allra svæða á Íslandi,“ segir Cees van den Bosch, framkvæmdastjóri Voigt Travel.

Voigt Travel býður þegar upp á ferðir til sex áfangastaða í Skandinavíu. Þess vegna passar Ísland frábærlega inn í úrval áfangastaða í Norður Evrópu og hjálpar ferðaskrifstofunni að ná því markmiði að verða sú stærsta í ferðum til Norðurlanda. Þar er ekki einungis að finna þekkingu og reynslu í skipulagningu á ferðum þangað, heldur hefur ferðaskrifstofan þá sérstöðu að geta ráðist fljótt í að bjóða upp á slíkar ferðir. Nú er réttur tími til að dreifa ferðamönnum betur um Ísland og með flugi til Akureyrar fá hollenskir ferðamenn að kynnast undurfagurri náttúrunni á Norðurlandi.

„Transavia er mjög stolt af samstarfinu við Voigt Travel, sem er fyrsta ferðaskrifstofan til að bjóða upp á beint flug til Akureyrar yfir sumartímann. Þetta gerir hollenskum ferðamönnum auðvelt fyrir að ferðast nær heimskautsbaugnum, á aðeins þremur tímum, bæði að sumri til og vetri,“ segir Erik-Jan Gelink, viðskiptastjóri Transavia.“

Vilja úttekt á stöðu vega í Skagafirði

Umhverfis- og samgöngunefnd Skagafjarðar hefur lagt til að unnin verði úttekt á stöðu vega í Skagafirði með tilliti til notkunar og umferðaröryggis í samráði við Vegagerðina. Úttektin verði nýtt til forgangsröðunar vegaframkvæmda í Skagafirði.

Löngu er vitað að sumum íbúum sveitarfélagsins hefur þótt vegir og þjónusta við þá ekki vera í samræmi við notkun í ljósi aukinnar umferðar vegna ferðaþjónustu og aukinnar vinnu utan heimila í dreifbýlinu.

Nemendur á Sauðárkróki heimsóttu sveitarstjóra Skagafjarðar

Nemendur úr 8. bekk Árskóla á Sauðárkróki heimsóttu Sigfús Inga Sigfússon, sveitarstjóra Skagafjarðar í dag. Tilefnið var að afhenda honum niðurstöður úr verkefni sem þau unnu í valgrein sem nefnist Heimabyggðarval. Í valgreininni gerðu þau verkefni þar sem þau reyndu að komast að því hvað væri gott við Sauðárkrók og svo hvað mætti bæta.  Nefndu nemendurnir helst að íþróttaaðstaðan væri góð, skólinn, sundlaugin, veitingastaðir og stærðin á Sveitarfélaginu. Þær ábendingar sem krökkunum fannst vanta var helst: Ærslabelgur, aparólu, dýragarð, fleiri ruslatunnur og skyndibitastaði.

Sveitarstjórinn fagnaði heimsókninni og lagði áherslu á að með því að koma með ábendingar væri hægt að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Sigfús sagði jafnframt að erindinu yrði vísað áfram innan stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Hér er listi yfir það sem þau komust að:

Gott:

Íþróttaaðstaða er góð, fótboltavellirnir, íþróttahúsið, skíðasvæðið (sem fer stækkandi) og golfvöllurinn.

Sundlaugin (þegar hún verður tilbúin).

Góð stærð á bænum og gott fólk.

Góð leiksvæði.

Árskóli er góður.

Hafnarsvæðið er gott og góðir veiðistaðir.

Veitingastaðir eru góðir og bakaríið.

Þegar Bragðarefurinn er á afslætti á Bláfelli.

Nafirnar.

KS.

Vantar:

Betra tjaldstæði, ærslabelg, brettabraut, aparólu og fleiri leiktæki.

Dýragarð og gæludýrapössun.

Fleiri og stærri bíósali.

Go-kart braut.

Betri sundlaug með rennibrautum og SPA.

Betri veiðiaðstöðu eins og t.d. gönguleið ofan á nýja garðinn.

Betra sjúkrahús og nota flugvöllinn.

Stærra hótel og meira að gera í bænum.

Draugasafn.

Fjölbreyttari mat í skólanum og rólur á skólalóðina.

Trampolíngarð og tívolí.

Hafnarboltavöll.

Fleiri ruslatunnur.

Í Skaffó vantar: Nörda- og tölvubúð, ísbúð og nammibar og hafa opið á sunnudögum.

N1 mætti hafa betri nammibar.

Einnig væri gott ef það væru fleiri verslanir hér eins og t.d. Hagkaup, Bónus og Nettó og jafnvel verslunarmiðstöð.

Skyndibitastaðir eins og t.d. Subway, Dominos og KFC.

Mynd: skagafjordur.is

 

Lesið úr nýjum bókum á Bókasafninu á Sauðárkróki

Í kvöld, miðvikudagskvöldið 14. nóvember  verður lesið úr nýjum bókum á bókasafninu  á Sauðárkróki og hefst samkoman kl. 20:00.

Rithöfundarnir: Arnar Már Arngrímsson, Davíð Logi Sigurðsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Þórdís Gísladóttir lesa úr nýútkomnum bókum sínum.

Jólate og konfekt

Allir velkomnir

 

Galdranámskeið í Menningarhúsinu Tjarnarborg

Galdranámskeið Einars Mikaels verður haldið í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði, laugardaginn 17. nóvember kl. 16:00-18:00.

Einar Mikael hefur sérhæft sig í mismunandi töfranámskeiðum fyrir börn síðastliðinn 8 ár núna er Galdraskólinn að opna aftur eftir 3 ára pásu.
Einar hefur kennt yfir 12.000 krökkum töfrabrögð á Íslandi.
Börn sem voru feimnir, óöruggir og með lítið sjálfstraust hafa tekið gríðarlegum breytingum eftir töfranámskeið með Einari Mikael.

Á námskeiðinu læra börnin ótrúlega galdra og magnaðar sjónhverfingar. Þau læra undirstöðuatriði í töfrabrögðum, einfalda og skemmtilega spilagaldra, hugsanalestur og sjónhverfingar.
Námskeiðið veitir börnunum aukið sjálfstraust, styrkir mannleg samskipti og þau læra að gera ótrúlega hluti.
Töfrahetjubíó þar sem horft verður á einn þátt úr sjónvarpsþáttunum Töfrahetjunum sem sýndir eru á Stöð 2.
Töfradúfan Ásta mætir og allir frá að halda á Ástu.
Allir fá galdradót og sjónhverfingar sem þau meiga taka með sér heim.

Hér er hægt að skoða myndbrot frá námskeiði
https://www.youtube.com/watch?v=qHcLQyxy5kA

Staðsetning: Tjarnarborg
Dagssetning: Laugardagurinn 17. nóvember
Tími: 16:00 til 18:00
Aldur: 6 til 12 ára
Verð: 4.000 kr. allt námskeiðsefni innifalið þar á meðal galdradót.
Hægt er að skrá sig með því að senda póst á galdranamskeid@gmail.com með nafni og aldri greiða þarf fyrir námskeiðið áður en námskeiðið hefst.

Hátíðin Jónas með hreim haldin á Akureyri

Hátíðin Jónas með hreim verður haldin á Akureyri dagana 15.-17. nóvember í tengslum við Dag íslenskrar tungu sem er 16. nóvember en það er fæðingardagur skáldsins Jónasar Hallgrímssonar.

Markmið hátíðarinnar er að kynna íslenskuna í öllum þeim fjölbreyttu hljómbrigðum sem finnast og vekja athygli á að íslenskan sameini okkur öll sem hana tölum, hvort sem hún er okkar fyrsta tungumál, annað eða þriðja. Hátíðin fer fram á ýmsum stöðum á Akureyri. Alþjóðastofa Akureyrarbæjar í samstarfi við aðrar stofnanir, hópa, samtök og einstaklinga heldur utan um viðburði hátíðarinnar.

Samstarfs- og styrktaraðilar eru: Akureyrarbær, Akureyrarstofa, Alþjóðastofa, Amtsbókasafnið á Akureyri, Innflytjendaráð á Akureyri, Eyþing, Háskólinn á Akureyri, KEA, Listasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Orðakaffi, Norðurorka, Ós Pressan og Penninn Eymundsson.

DAGSKRÁ:

Fimmtudagurinn 15. nóvember:
Sögustund með hreim á Amtsbókasafninu kl. 16.30

Föstudagurinn 16. nóvember:
Dagskrá í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi kl. 10-11:
– Leikskólabörn af erlendum uppruna syngja Frost er úti fuglinn minn
– Ljóð eftir Jónas Hallgrímsson lesin upp með hreim

Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús kl. 10-19:
Opið í Nonnahúsi, æskuheimili hins víðförla rithöfundar Nonna sem fæddist 16. nóvember eins og Jónas

Laugardagurinn 17. nóvember:
Amtsbókasafnið á Akureyri kl. 12-13:
Upplestur og verðlaunaafhending útfrá ljóða-og smásögukeppni grunnskólabarna af erlendum uppruna, fer fram á Amtsbókasafninu
Listasafnið á Akureyri, Ketilhús kl. 14-16:
Alþjóðlegt eldhús 2018 Innflytjendaráð á Akureyri /Multicultural Council á Akureyri býður gestum upp á smakk frá ýmsum löndum

Í gangi alla dagana:
– Ratleikur á Amtsbókasafninu. Leikur að orðum!
– Sýning á verkum leikskólabarna og Óspressunnar, tileinkuð íslenskri tungu í gluggum Eymundsson

Heimild: akureyri.is

Ráðinn þjálfari Tindastóls

Tindastóll hefur samið við Yngva Magnús Borgþórsson um þjálfun meistaraflokks karla í knattspyrnu. Yngvi hefur áður þjálfað lið Skallagríms og er fæddur árið 1975. Tindastóll leikur í 2. deild næsta sumar, en liðið endaði í 8. sæti á Íslandsmótinu í sumar og var aðeins þremur stigum frá fallsæti.

Sem leikmaður spilaði Yngvi með ÍBV, KFS, Einherja, Dalvík og Víkingi í Reykjavík. En þess má geta að í heildina á hann 260 leiki í meistaraflokki og náði að skora 63 mörk.

Yngvi mun flytjast búferlum á Sauðárkrók í byrjun janúar 2019 og hefja þá formlega störf hjá Tindastól.

Yngvi Magnús (t.v.) og Þórhallur Rúnar Rúnarsson, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls.

Viðtalið – Jón Valgeir hjá JVB-Pípulögnum

Jón Valgeir Baldursson er 45 ára Ólafsfirðingur og eigandi JVB-Pípulagna ehf. Hann er giftur Hrönn Gylfadóttur, og eiga þau þrjú börn, Ágúst Örn, Ívan Darra og Sunnu Karen. Fyrirtækið er innan fjölskyldurnnar og hefur sonur Jóns starfað með honum og stundar nú nám við pípulagnir. Þá hefur eiginkona hans unnið skrifstofustörf fyrir fyrirtækið. Á sínum yngri árum stundaði Jón skíðamennsku, og einnig hefur fjölskyldan hans verið dugleg á skíðum.

Jón stundaði á yngri árum nám við Verkmenntaskólann á Akureyri og við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Jón var háseti á frystitogaranum Sigurbjörg ÓF-1 í 16 ár en ákvað þá að skella sér í nám í pípulögnum og loks í meistaranám. Hann vann við sjúkraflutninga í Ólafsfirði og hjá Slökkviliði Fjallabyggðar og hefur verið baráttumaður fyrir því að halda sjúkrabíl í bænum. Þá hefur hann unnið fyrir Vélsmiðju Ólafsfjarðar, en ákvað svo að hefja eigin rekstur. Jón var á lista Framsóknarmanna í sveitastjórnarkosningum í Fjallabyggð árið 2014. Hann var svo Oddviti H-listans fyrir Heildina árið 2018 og hlaut næstflest atkvæði kjörinna fulltrúa. Við fengum Jón í viðtal hér á vefnum og spurðum hann nokkura spurninga.

Fleiri viðtöl má finna á vefnum hér.

Viðtal við Jón Valgeir hjá JVB-Pípulögnum

 

 1. Hvenær var fyrirtækið JVB-Pípulagnir stofnað og hver er saga þess?

JVB-Pípulagnir ehf. var stofnað ágústmánuði 2015.  Sagan er stutt, ég var starfsmaður á Vélsmiðju Ólafsfjarðar þegar við hjónin ákváðum í sameiningu að hætta okkur út í það að stofna okkar eigið fyrirtæki.  Ég er pípulagningameistari að mennt. Verkefnastaða fyrirtækisins varð fljótlega mjög góð.  Lengst framan af var ég eini starfsmaður fyrirtækisins, en hef verið að fá í vinnu til mín nokkra góða félaga mína, sem hafa dottið inn í vinnu í smá tíma í senn. Elsti sonur minn ákvað að prófa að koma og prófa að vinna með mér og endaði á því að fara í pípulagninganámið og er að að fara að útskrifast núna eftir þessa önn og ætlar þá að koma og vinna hjá fyrirtækinu.

 1. Hvað starfa margir hjá fyrirtækinu, og eru ráðnir inn sumarstarfsmenn ?

Við erum tveir sem störfum að jafnaði hjá fyrirtækinu, við erum ekki að ráða inn sumarstarfsmenn sérstaklega en höfum aðila sem við getum hóað í þegar okkur vantar fleiri hendur til vinnu. Eiginkonan byrjaði nýlega að vinna á skrifstofunni heima fyrir.

 1. Eru einhver eftirminnileg, stór eða flókin verkefni sem JVB hefur unnið síðustu árin?

Á þessum stutta tíma sem fyrirtækið hefur verið starfrækt þá höfum við tekist á við nokkur þokkalega stór og krefjandi verkefni.

Á meðan ég var að vinna á Vélsmiðju Ólafsfjarðar þá útskrifaðist ég sem pípulagningameistari og fyrsta verkefnið sem ég tók ég að mér að vera pípulagningameistari yfir var Sigló Hótel og vorum við að vinna í því þegar ég tók þá ákvörðun að stofna eigið fyrirtæki og kom það verkefni með mér yfir í mitt fyrirtæki og varð endaspretturinn á því eitt af fyrstu verkefnum JVB-Pípulagna.

Við lögðum í viðbygginguna á leikskólanum á Siglufirði, viðbygginguna í líkamsræktinni í Ólafsfirði, viðbygginguna á Menntaskólanum á Tröllaskaga, við smíðuðum sprinklerkerfi í Róaldsbrakka í Síldarminjasafninu á Siglufirði,  við smíðuðum hönnuðum hluta af lagnakerfinu í rúmlega 800 fm gróðurhús sem verið var að reisa á Laugarmýri í Skagafirði ásamt því að tengja dælustöð fyrir borholu sem var boruð til ná í heitt vatn fyrir gróðurhúsið. Núna er eitt af verkefnunum okkar 2000 fm fjós sem verið er að reisa á Syðri Hofdölum í Skagafirði. 

Annað eftirminnilegt verkefni var vinna við er Kaffihúsi Gísla, Eiríks og Helga á Dalvík (Kaffihús Bakkabræðra). Það er sennilegasta ein magnaðasta verkefni sem ég hef tekist á við, þar mátti helst ekki leggja lagnirnar beinar, eða eftir bókinni, allt varð að vera í anda þeirra Bakkabræðra, sérstaklega í kjallaranum og á efri hæðinni. Það voru ekki keypt blöndunartæki á efri hæðina, heldur útbjó ég allt varðandi neysluvatnið á verkstæðinu mínu, vaskurinn á barnum er gamall bali og vaskinn á klósettinu fékk ég Vélsmiðju Ólafsfjarðar til að útbúa.

 

 1. Eru einhver verkefni eða þjónusta sem er vinsælust hjá ykkur og mikið beðið um?

Fyrirtækið vinnur öll almenn verkefni tengdum pípulagningaþjónustu og er því ekki hægt að segja að einhver verkefni séu vinsælli en önnur, heldur tökumst við á við þau verkefni sem við erum beðin um að takast á við. Hinsvegar þá réðumst við í það núna í vor að fjárfesta í búnaði til að fræsa niður gólfhitalagnir í steingólf, og  getum boðið uppá allann pakkann í gólfhitalögnum. Það er farið að vera töluverð eftirspurn eftir þeirri vinnu.

 1. Vinnið þið mikið fyrir heimamenn , eða er ykkar sterkasti markaður nær Akureyri?

Við vinnum mikið fyrir heimamenn, en við vinnum einnig mikið utan heimabyggðarinnar, verkefnin okkar dreifast á nokkuð stórt svæði, þ.e. inni í Eyjafirði, úti í Hrísey,  á Akureyri, Dalvík, Fjallabyggð, Fljótum  og Skagafirði, höfum verið að takast á við þokkalega stór verkefni í Skagafirði.

 1. Er mikil samkeppni um verkefni í pípulögnum í Fjallabyggð?

Eins og staðan hjá okkur er í dag, þá er varla hægt að halda því fram að það sé mikil samkeppni að okkar hálfu þar sem við erum með töluvert hátt hlutfall verkefna okkar utan Fjallabyggðar, en ég held að eingöngu hér í Fjallabyggð séu ekki næg verkefni handa öllum pípurum.

 1. Hefur þú tölu á því hversu margir faglærðir píparar starfa í Fjallabyggð?

Ég held að við séum 3 faglærðir eins og staðan er í dag, einn meistari og tveir sveinar, ég veit að það er einn að læra til sveins sem bætist þá við flóruna og svo er annar af sveinunum að læra til meistara.

 1. Eitthvað að lokum sem JVB vill koma á framfæri?

Við viljum þakka kærlega fyrir þær frábæru viðtökur sem við höfum fengið frá stofnun fyrirtækisins.

 

Viðtal frá nóvember 2018.

Ljósmyndir úr einkasafni Jóns V. Baldurssonar.

Vestri og BF mættust á Siglufirði

Lið Vestra í karla- og kvennaflokki mætti til Fjallabyggðar á sunnudaginn og spiluðu við Blakfélag Fjallabyggðar í Íþróttahúsinu á Siglufirði.  Karlalið Vestra heimsótti lið Völsungs á Húsavík á laugardeginum og unnu þar öruggan sigur 0-3. Búist var við erfiðum leik fyrir heimamenn ,en Vestri hafði unnið fyrstu tvo leiki sína á mótinu án þessa að tapa hrinu. Hægt var að sjá báða leikinn beint á Facebook og var það skemmtileg nýjung. Vegna tæknivandamála þá virkuðu rafrænu leikskýrslunar ekki og urðu því stigaverðir að handskrifa skýrsluna á gamla mátann.

Svo fór að Vestri vann fyrstu hrinuna 17-25 og í annari hrinu voru þeir mun sterkara liðið og unnu örugglega 13-25. Í þriðju hrinu gerðu BF menn hvað þeir gátu, en Vestramenn voru talsvert sterkari heilt yfir og unnu 16-25, og leikinn þar með 0-3.

Kvennaliðin mættust svo kl. 15:00 og úr varð rúmlega tveggja klukkustunda háspennuleikur. BF vann fyrstu hrinuna naumlega 25-23. Gestirnir unnu næstu tvær hrinur 17-25 og 21-25. BF tóku fjórðu hrinuna mjög örugglega 25-13, og einnig oddahrinuna 15-8 og unnu þar með leikinn 3-2.

Bæði karla- og kvennaliðin leika aftur um næstu helgi á Siglufirði, og skiptir stuðningar íbúa þar miklu máli. Karlaliðið tekur á móti HKörlum og kvennaliðið á móti Ými.

Sunnudagurinn 18.nóvember í íþróttahúsinu á Siglufirði.
13:00 BF – HKarlar í Benectadeild karla
15:00 BF – Ýmir í Benectadeild kvenna

Bjórböðin hljóta nýsköpunarverðlauna SAF 2018

Bjórböðin á Árskógssandi hljóta nýsköpunarverðlauna Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2018. Eliza Reid, forsetafrú, afhenti Bjórböðunum verðlaunin á 20 ára afmæli Samtaka ferðaþjónustunnar sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica laugardagskvöldið 10. nóvember.

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í fimmtánda sinn sem SAF veita nýsköpunarverðlaun samtakanna en þetta árið bárust 33 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og formaður dómnefndar nýsköpunarverðlaunanna, gerði grein fyrir niðurstöðu dómnefndar. Dómnefndina skipuðu auk Bjarnheiðar þau Andri Kristinsson, forstjóri og stofnandi Travelade og fulltrúi fyrirtækja innan SAF og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Nýsköpun í formi upplifunar

Sem fyrr endurspegla tilnefningarnar til nýsköpunarverðlauna SAF mikla grósku og nýsköpun í ferðaþjónustu um allt land. Hugmyndaauðgi, stórhugur og fagmennska einkennir mörg þau fyrirtæki sem tilnefnd voru og dómnefnd því ákveðinn vandi á höndum. Nefndarmenn voru þó einróma samþykkir því að handhafi verðlaunanna í ár séu Bjórböðin ehf.

Bjórböðin voru opnuð í júní 2017 og vöktu þegar mikla athygli bæði hérlendis sem erlendis enda eru slík böð ekki að finna hvar sem er í heiminum. Fyrirtækið kom því ekki aðeins nýtt inn á markaðinn, heldur kom það inn með glænýja upplifun þar sem vellíðan og slökun gegnir lykilhlutverki á nýstárlegan hátt.

Bjórböðin hafa skapað sér ákveðna sérstöðu í ferðaþjónustu og ferðaskrifstofur verið fljótar að taka við sér með því að bjóða upp á ferðir þar sem viðkoma í böðunum er innifalin. Bjórböðin eru því þegar orðin mikilvægur segull fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi og styrkja markaðssetningu áfangastaðarins allt árið um kring.

Bjórböðin voru útnefnd Sproti ársins á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi haustið 2017.

Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson, eigendur bruggverksmiðjunnar Kalda á Árskógssandi í Eyjafirði, stofnuðu fyrirtækið Bjórböðin ehf. árið 2015 ásamt syni þeirra og tengdadóttur. Í bjórböðunum er ger úr bjórbrugginu nýtt sem annars hefði verið hent. Bjórböðin eru lýsandi dæmi um frjóan frumkvöðla anda sem skilar sér í áhugaverðri ferðavöru og atvinnuskapandi starfsemi allt árið um kring.

Bjórböðin ehf. eru því verðskuldaðir handhafar nýsköpunarverðlauna SAF árið 2018.

Verðlaunin mikil viðurkenning

„Við hjá Bjórböðunum erum ótrúlega þakklát og stolt að hafa verið veitt þessa flotta viðurkenning. Þegar við fórum af stað í þetta verkefni höfðum við mikla trú á því að við gætum skapað nýja og ógleymanlega upplifun í ferðaþjónustu. Viðbrögðin frá gestum hafa verið gríðarlega góð og eru því þessi verðlaun mikil viðurkenning af okkar starfi og þökkum við kærlega fyrir okkur,“ segja þau Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson, eigendur Bjórbaðanna.

Verðlaunin afhent í fimmtánda sinn

Er þetta í 15. skipti sem nýsköpunarverðlaun SAF voru afhent, en verðlaunahafar til þessa hafa verið:

 • 2018 – Bjórböðin
 • 2017 – Friðheimar í Bláskógabyggð
 • 2016 – Óbyggðasetur Íslands
 • 2015 – Into The Glacier
 • 2014 – Gestastofan Þorvaldseyri
 • 2013 – Saga Travel
 • 2012 – Pink Iceland
 • 2011 – KEX hostel
 • 2010 – Íslenskir fjallaleiðsögumenn
 • 2009 – Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit
 • 2008 – Menningarsetrið Þórbergssetur, Hala í Suðursveit
 • 2007 – Norðursigling – Húsavík
 • 2006 – Landnámssetur Íslands
 • 2005 – Adrenalín.is, VEG Guesthouse á Suðureyri og Fjord Fishing
 • 2004 – Sel Hótel Mývatn og Hótel Aldan

Barátta gegn einelti í Dalvíkurskóla

Nemendur og starfsfólk Dalvíkurskóla gáfu einelti rauða spjaldið þann 8. nóvember síðastliðinn, en sá dagur er helgaður baráttunni gegn einelti. Gísli Bjarnason skólastjóri hélt stutta ræðu um einelti og hvað það getur haft í för með sér. Síðan lyftu nemendur rauða spjaldinu og þögðu í eina mínútu og voru það táknræn mótmæli gegn einelti í skólanum. Margir nemendur og starfsfólk klæddust einhverju grænu í tilefni dagsins.

Kelvin Sarkorh framlengir við Dalvík/Reyni

Varnarmaðurinn öflugi Kelvin W. Sarkorh hjá Dalvík/Reyni hefur framlengt samning sinn við félagið. Hann kom til félagins í sl. vor og lék 20 leiki í deild og bikar með félaginu.
Kelvin var valinn leikmaður ársins á lokahófi félagsins og einnig valinn í lið ársins í 3. deildinni.

Kelvin er fæddur 1993 í Líberíu en fluttist ungur til Bandaríkjanna. Síðasta sumar tók hann virkann þátt í lífinu á Dalvík og setti strax svip sinn á starf félagsins. Hann starfaði meðal annars sem yngriflokkaþjálfari.

Dalviksport.is greindi fyrst frá þessu.

Ljósmynd með frétt er frá dalviksport.is

Súpufundur með afþreyingar- og ferðaþjónustuaðilum í Fjallabyggð

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar stendur fyrir fundi með afþreyingar- og ferðaþjónustuaðilum í Fjallabyggð fimmtudaginn 22. nóvember frá kl. 18:00 – 20:00.
Fundurinn verður haldinn í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði.  Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffi á fundinum.  Skráning er á vef Fjallabyggðar.

Dagskrá:

Kl. 18:00-18:10   Markaðsstefna Fjallabyggðar
Kl. 18:10-18:25    Komur skemmtiferðaskipa
Kl. 18:25-18:40   Niðurstöður ferðavenjukönnunar sumarið 2017
Kl. 18:40-19:00   Samstarfs ferðaþjónustuaðila í Fjallabyggð
Kl. 19:00-19:30   Kynningar ferðaþjónustuaðila
Kl. 19:30-20:00  Umræður

Fundarstjóri: Ólafur Stefánsson

Blakveisla í íþróttahúsinu á Siglufirði

Fyrstu heimaleikir Blakfélags Fjallabyggðar í Benecta-deild karla og kvenna fara fram sunnudaginn 11. nóvember þegar Vestri mætir í heimsókn. Karlaleikurinn hefst kl. 13:00 og áætlað er að kvennaleikurinn hefjist kl. 15:00, eða þegar karlaleiknum lýkur.

Karlalið BF er með 3 stig eftir sigur í fyrsta leik, en kvennaliðið er að leika sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu og er án stiga. Karlalið Vestra er með 3 stig eftir sigur í fyrsta leik en kvennalið Vestra er að leika sinn fyrsta leik á mótinu.

Jólamarkaður í Burstabrekku í Ólafsfirði

Jólamarkaður verður haldinn helgina 23.-25. nóvember í Burstabrekku í Ólafsfirði hjá Hólmfríði Vídalín Arngríms, Bæjarlistamanni Fjallabyggðar 2019. Á föstudeginum verður opið frá 18:00-21:00,  laugardag og sunnudag frá 13:00-16:00.
Það verður 15% afsláttur af öllum vörum þessa helgi, allt frá bollum í stór verk. Staðsetning vinnustofunnar er um 1 km austan við Olís í Ólafsfirði.

Vilja láta kanna hraðakstur á Hvanneyrarbraut á Siglufirði

Íbúar sem búa við norðurhluta Hvanneyrarbrautar á Siglufirði hafa farið fram á við bæjaryfirvöld í Fjallabyggð og Vegagerðina að það verði látið athuga hraðakstur ökutækja í götunni og viðeigandi úrbætur verði gerðar.  Íbúarnir hafa afhent undirskriftalista til Fjallabyggðar með tæplega 40 undirskriftum þar sem þessi beiðni er lögð fram. Í erindinu kemur fram að sérstaklega er ekið hratt frá grindarhliði neðan við Strákagöng og á leið til Siglufjarðar og eins frá sundlauginni við Hvanneyrarbraut og út úr bænum í átt að Strákagöngum. Mörg börn búa við Hvanneyrarbraut og leika sér í grennd við götuna. Íbúar fara fram á þrengingar eða hraðamyndavélar á þessu svæði til að draga úr hraða ökutækja. Á svæðinu er nú þegar blikkandi skilti sem blikkar á bíla sem aka yfir hraðamörkum, en það virðist ekki duga til.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur fjallað um málið og hefur falið tæknideild Fjallabyggðar að fara í samstarf við Vegagerðina í að finna leið að úrbótum til að draga úr hraðakstri við Hvanneyrarbraut á Siglufirði.

Útnefnd Bæjarlistmaður Fjallabyggðar 2019

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt útnefna Hólmfríði Vídalín Arngrímsdóttur sem Bæjarlistamann Fjallabyggðar 2019. Fjallabyggð greinir frá þessu á vef sínum.

Hólmfríður er fædd í Reykjavík og hefur búið í Ólafsfirði frá árinu 1976 og hefur starfað að myndlist með leir sem aðalefni í 28 ár.  Hólmfríður rekur keramikverkstæði í Ólafsfirði og tók einnig um tíma þátt í rekstri gallerísins Kaolin í Reykjavík.
Á árunum 2009 – 2012 stundaði hún nám við keramikdeild Århus kunstakademi í Danmörku. Frá árinu 2016 hefur hún stundað nám í myndlist við Menntaskólann á Tröllaskaga.
Hólmfríður hefur tekið þátt í samsýningum í Danmörku og á Íslandi í Reykjavík, á Akureyri og Dalvík. Hún átti verk á sýningunni Keramik í Listasafni Árnesinga, sem sett var upp í tilefni 35 ára afmæli Leirlistafélags Íslands árið 2016. Hólmfríður er félagi hinum ýmsu félagasamtökum s.s. SÍM félag myndlistamanna, Leirlistafélagi Íslands, Myndlistafélagi Akureyrar, Handverk og Hönnun og Kunsthåndværkere og Designere.

Hólmfríður vinnur aðalega við gerð skúlptúra og einstakra nytjahluta en frá 2018 hefur hún eingöngu unnið skúlptúra úr verkum sem hafa misheppnast í vinnslu, gefið þeim nýtt líf og bætt. Til þess notar hún ólík efni eins og nagla, vír, hænsnanet o.fl. Innblásturinn af vinnu sinni fær hún innra með sér og frá hinni öfgafullu náttúru Íslands. Hver hlutur í listaverkum Hólmfríðar er einstakur í bæði áferð og formi enda spilar hún með bæði liti, glerunga og brennslu þar til hún sér jafnvægið í verkinu.

Bæjarlistamaður Fjallabyggðar verður útnefndur í Menningarhúsinu Tjarnarborg fimmtudaginn 24. janúar 2019 kl. 18:00. Við sama tilefni verða afhentir menningarstyrkir Fjallabyggðar fyrir árið 2019.

Fjölmargar tilnefningar til markaðs- og menningarnefndar Fjallabyggðar.

20 skemmtiferðaskipakomur bókaðar næsta sumar

Alls er búið að bóka 20 skemmtiferðaskipakomur til Siglufjarðar næsta sumar. Búast má við að komunum fjölgi enn frekar.  Í ár var algjör sprengja þegar 42 skipakomur voru á Siglufirði. Árið 2017 voru 22 skipakomur og 14 árið 2016 og 19 árið 2015. Mun fjölbreyttari dagskrá er komin fyrir þessa skipafarþega sem stoppa flestir í um hálfan dag eða skemur á Siglufirði. Vinsælast er að heimsækja Síldarminjasafnið og eins er nýjung að heimsækja Segul 67 brugghúsið. Þá fara sumir farþegar beint í rútu og fara til Akureyrar eða Mývatns og eru svo sóttir á Húsavík eða Akureyri af skipinu.

Rúmlega 18 þúsund tonnum landað á Siglufirði í ár

Hafnarstjórn Fjallabyggðar hefur birt aflatölur úr Fjallabyggð og samanburð síðustu ára. Frá 1. janúar til 5. nóvember hefur verið landað 18.649 tonnum á Siglufirði og 420 tonnum í Ólafsfirði.  Á sama tíma í fyrra var aðeins búið að landa 13661 tonnum á Siglufirði.

Aflatölur og aflagjöld 2018

Tímabilið 1. janúar – 5. nóvember 2018.

2018 Siglufjörður 18649 tonn í 1641 löndunum.
2018 Ólafsfjörður 420 tonn í 426 löndunum.
2017 Siglufjörður 13661 tonn í 1928 löndunum.
2017 Ólafsfjörður 525 tonn í 497 löndunum.
2016 Siglufjörður 20432 tonn í 1996 löndunum.
2016 Ólafsfjörður 543 tonn í 535 löndunum.

Sjómannafélag Ólafsfjarðar auglýsir eftir framboðslistum til stjórnar

Sjómannafélag Ólafsfjarðar, auglýsir samkvæmt lögum félagsins, eftir framboðslistum til stjórnar, varastjórnar og í trúnaðarráð fyrir aðalfund félagsins sem haldin verður 28. desember 2018.
Framboðslistum þarf að skila á skrifstofu félagsins, þar sem nánari upplýsingar fást.
Framboðslistum ásamt nafnalista með tilskyldum fjölda meðmælenda þarf að skila á skrifstofu félagsins fyrir kl. 15.00 fimmtudaginn 13. desember 2018.

Höfnin í Ólafsfirði

Georg Óskar sýnir í Kompunni á Siglufirði

Laugardaginn 10. nóvember kl. 15:00 opnar Georg Óskar sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem ber yfirskriftina “ Í stofunni heima “.

Verkin á sýningunni eru unnin sérstaklega fyrir Kompuna og leikur Georg sér með bakgrunnslit fyrir málverkin þannig að í raun má tala um innsetningu í rýmið.
Sýningin stendur til 25. nóvember og er opin daglega frá kl. 14:00 – 17:00.

Georg flutti frá Akureyri til Berlínar í Þýskalandi snemma í janúar 2018, þar sem hann hefur sinnt málverkinu af miklum krafti. Hann hefur vakið töluverða athygli fyrir málverk sín og fengið þónokkra umfjöllun í tímaritum og fjölmiðlum. Georg hóf sýningarárið í janúar með samsýningunni “ Sköpun bernskunar “ í Listasafninu á Akureyri, og hefur síðan tekið þátt í samsýningum í Hollandi, Þýskalandi og í Noregi. Hann fór með einkasýningu til Sviss og aðra sem er nýlokið í Kanada. Sýningarárinu lýkur Georg svo á um það bil sömu slóðum og það hófst, fyrir norðan í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Um verkin

Myndræn, jafnvel naumhyggja, en á sama tíma lausleg uppbygging, er viðeigandi lýsing á stíl Georgs. Frá því snemma á ferli hans hefur listamaðurinn verið trúr upprunalegum stíl sínum og myndmáli. Náin og einlæg tengsl við strigann bera þeirri staðreynd vitni að hann heldur ótrauður sínar eigin leiðir. Snarleg vinnubrögð eru aðferð hans og flæða litir og línur iðulega á frjálsa vegu í myndverkunum. Með því lagi nær Georg að festa líðandi stund á myndflötinn undir djúpum áhrifum af þeirri ástríðu sinni að segja sögur sem knýja á um tjáningu. Listamaðurinn grípur á lofti áhugaverða atburði, sleppir ímyndunarafli sínu lausu um leið og hann rifjar upp eftirminnileg atvik í eigin lífi. Gjarnan er sótt í tónlist og ljóðlist til auðgunar. Einstaklingurinn, mannskepnan, er það sem myndlist Georgs snýst um. En hvorki sem fyrirmynd eður viðfang í sjálfu sér heldur aðferðin, hjólið, sem ber undur dagsins og ímyndunarafl um pensilinn. Iðulega dregur Georg persónur sínar fram á sviðið þar sem þær birtast í einveru sinni en umluktar lifandi náttúru, hversdagslegu umhverfi eða jafnvel í framandi heimum.

Jólakvöld á Siglufirði – lengri opnunartími verslana

Fimmtudagskvöldið 8. nóvember verður lengri opnunartími hjá verslunum á Siglufirði frá kl. 19:00-22:00. Fyrirtækin sem hafa lengri opnunartíma og jólatilboð eru:
Aðalbakarí, Siglufjarðar Apótek, Frida Súkkulaðikaffihús, Harbour House Café, Hjarta bæjarins, Hannes Boy, Segull 67, Snyrtistofa Hönnu, Sigló Hótel, Siglósport, SR Byggingavörur og Torgið.

Góð jólatilboð í gangi, gjafavörur, fatnaður, snyrtivörur, jólabakstur, ýmsar jólavörur og margt, margt fleira.

Norræn spilavika hafin á Akureyri

Norræna spilavikan fer fram dagana 5.-11. nóvember á Akureyri. Markmið vikunnar er að kynna spil og spilamenningu í sinni fjölbreyttustu mynd. Boðið verður upp á ýmsa spilatengda viðburði og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi; borðspil, félagsvist, barsvar, skiptimarkaður með spil og púsl, skraflkeppni og margt fleira.

Að Norrænu spilavikunni á Akureyri standa Akureyrarstofa/Akureyrarbær, Amtsbókasafnið, FÉLAK (félagsmiðstöðvar Akureyrar), Gil kaffihús, Félag hugleikjaáhugamanna í MA, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Kaktus, Myndlistarfélagið, Sjónarspil, Skákfélag Akureyrar, Ungmennahúsið í Rósenborg og Öldrunarheimili Akureyrar.

Dagskrá:

MÁNUDAGUR 5. NÓV.

Kl. 16 – 18   Amtsbókasafnið á Akureyri – Tefldu með Skákfélagi Akureyrar

Kl. 20 – 22   Félagsmiðstöðin Trója – Rósenborg – Spilakvöld

Kl. 20 – 22   Félagsmiðstöðin Dimmuborgir – Giljaskóli – Spilakvöld

 

ÞRIÐJUDAGUR 6. NÓV.

Kl. 13.30 – 15.30   Öldrunarheimilið Hlíð – Félagsvist

Kl. 17   Menntaskólinn á Akureyri / Stofa H1 – Spunaspilið Dungeons and Dragons í boði HáMA

Kl. 20   Rósenborg – Beep – Heimildarmynd um sögu tölvuleikjatónlistar

 

MIÐVIKUDAGUR 7. NÓV.

Kl. 16 – 20   Ungmennahúsið – Rósenborg – Heitustu spilin í dag – Kynnt og spilað

Kl. 19.30 – 21.30   Félagsmiðstöðin Undirheimar – Síðuskóli – Spilakvöld

Kl. 19.30 – 21.30   Félagsmiðstöðin Stjörnuríki – Oddeyrarskóli – Spilakvöld

Kl. 20 – 22   Mjólkurbúðin – Salur Myndlistarfélagsins – Pictionary

 

FIMMTUDAGUR 8. NÓV.

Kl. 16.30   Amtsbókasafnið á Akureyri – Spilasögustund

Kl. 19.30 – 21.30   Félagsmiðstöðin Trója – Naustaskóli – Spilakvöld

Kl. 20 – 23   KAKTUS – Strandgata 11b – 10.000 & Nintendo

Kl. 20 – 22   Félagsmiðstöðin Himnaríki – Glerárskóli – Spilakvöld

 

FÖSTUDAGUR 9. NÓV.

Kl. 16 – 19   Amtsbókasafnið á Akureyri – Spilaskiptimarkaður

Kl. 20   Gil kaffihús – Listasafnið á Akureyri – BARsvar

 

LAUGARDAGUR 10. NÓV.

Kl. 11 – 15.30   Amtsbókasafnið á Akureyri – Spilaskiptimarkaður

 Kl. 13 – 15   Iðnaðarsafnið á Akureyri – Gömlu borðspilin – Spilað

 Kl. 14 – 15   Amtsbókasafnið á Akureyri – Skraflkeppni Amtsins

 

SUNNUDAGUR 11. NÓV.

Kl.  14 – 14.40   Rósenborg – Að búa til borðspil, hvað getur klikkað? – Bergur Hallgrímsson

Kl. 14.45 – 15.45   Rósenborg – Sjónarspil – Kynnt og spilað

Starfsmenn Síldarminjasafnsins höfundar nýrrar ljósmyndabókar

Starfsfólk Síldarminjasafnsins á Siglufirði hefur unnið að útgáfu ljósmyndabókar undanfarið ár. Mikill metnaður var lagður í gerð bókarinnar sem telur rúmar 300 síður.
Bókin, sem ber heitið Siglufjörður. Ljósmyndir 1872-2018, er væntanleg úr prentun í byrjun desember 2018.  Bókina er hægt að panta í forsölu hjá Síldarminjasafninu. Annað hvort með tölvupósti á netfangið safn@sild.is eða með því að hringja í síma 467-1604. Bókin kostar kr. 9.500 hjá Síldarminjasafninu. Höfundar bókarinnar eru: Anita Elefsen safna- og sagnfræðingur, Steinunn M. Sveinsdóttir sagnfræðingur og Örlygur Kristfinnsson, fyrrum safnstjóri.

Á kápu bókarinnar segir:

Siglufjörður. Fáir bæir eiga jafn viðburðaríka sögu og Siglufjörður; hið ótrúlega ris staðarins sem byggðist á síldinni, einum helsta örlagavaldi Íslendinga á 20. öld. Lítið og afskekkt hákarlaþorp komst óvænt í alfaraleið erlendra fiskveiðiþjóða og varð að höfuðstað síldarinnar í Atlantshafi. En svo hvarf síldin – hvað gerðist þá í þessari litlu borg við ysta haf?
Hér er sagan rakin í 140 völdum ljósmyndum og stuttum textum á íslensku og ensku. Samtímis því að skoða meginþættina í sögu staðarins er skyggnst ofan í hið smáa og hversdagslega, athafnir hinna fullorðnu og leiki barnanna svo dæmi séu nefnd.
Þetta er bók sem allir þeir sem áhuga hafa á sögu Siglufjarðar, eða tengjast honum á einn eða annan hátt, ættu að eiga.