All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Atvinnuleysi lækkar um 0,7% á milli mánaða í Fjallabyggð

Atvinnuleysi mældist 2,9% í september 2019 í Fjallabyggð og lækkaði um 0,7% á milli mánuða. Alls voru 32 án atvinnu í Fjallabyggð í september en voru 39 í ágúst. Alls eru 19 konur og 13 karlar án atvinnu í Fjallabyggð, en 8 færri karlar voru án atvinnu í september miðað við ágúst 2019.

Þá voru 21 án atvinnu í september 2019 í Dalvíkurbyggð. Þar af voru 12 karlar og 9 konur og mældist atvinnuleysi 2,0% í Dalvíkurbyggð.

Á Akureyri voru 329 án atvinnu og 16 í Eyjafjarðarsveit. Í Skagafirði voru aðeins 12 án atvinnu og mældist atvinnuleysi aðeins 0,5%.

Menntuðum leikskólakennurum fækkar

Í desember 2018 störfuðu 1.600 leikskólakennarar í leikskólum á Íslandi, eða 28,1% starfsfólks við uppeldi og menntun barna, og hefur þeim fækkað um 360 frá árinu 2013 þegar þeir voru flestir. Leikskólakennurum undir þrítugu fækkaði sérstaklega mikið, enda var nám leikskólakennara lengt um tvö ár fyrir nokkrum árum. Lenging námsins er þó ekki eina skýringin á fækkun leikskólakennara, því þeim fækkaði í öllum aldurshópum undir 50 ára aldri.

Starfsfólk við uppeldi og menntun barna, sem hefur lokið annarri uppeldismenntun, s.s. grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum eða leikskólaliðanámi var 1.068 talsins. Ófaglært starfsfólk var rúmlega helmingur (53,2%) starfsfólks við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2018.

Alls störfuðu 6.176 í leikskólum í desember 2018 og hafði fjölgað um 158 (2,6%) frá fyrra ári, þrátt fyrir að leikskólabörnum hafi fækkað á milli ára. Stöðugildum fjölgaði um 2,1% og voru 5.400.

Hagstofan greinir frá þessu.

Mynd 1. Starfsfólk við uppeldi og menntun eftir menntun 2018

Tæplega helmingur eins árs barna sækja leikskóla
Í desember 2018 sóttu tæplega 19 þúsund börn leikskóla á Íslandi, og fækkaði um 1,4% frá árinu áður. Barngildum, sem eru reiknuð ígildi barna til að meta þörf fyrir starfsfólk, fækkaði þó minna, eða um 0,8%. Skýringin er sú að yngri börnum fjölgaði meira en þau vega þyngra í útreikningi barngilda þar sem krafist er fleira starfsfólks fyrir yngri börn en þau sem eldri eru.

Hlutfall barna sem sækir leikskóla er óbreytt frá fyrra ári eða 87%, þegar litið er til 1-5 ára barna. Alls sóttu 95-97% tveggja til fimm ára barna leikskóla og 48% eins árs barna.

Miklu munar á hlutfalli eins árs barna í leikskólum eftir landsvæðum. Á Vestfjörðum sóttu 79% eins árs barna leikskóla og 68% á Austurlandi. Hlutfall eins árs barna í leikskóla var langlægst á Suðurnesjum, eða 11%.

Börnum með erlent móðurmál og erlent ríkisfang fjölgar
Börn með erlent móðurmál voru 2.572 í desember 2018, 13,7% leikskólabarna, og hafa ekki áður verið fleiri börn með erlent móðurmál í íslenskum leikskólum. Pólska er algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna eins og undanfarin ár, og höfðu 985 börn pólsku að móðurmáli. Næst flest börn hafa ensku að móðurmáli (265 börn) og því næst koma spænska (117 börn) og litháska (103 börn). Önnur erlend tungumál voru töluð af færri en 100 leikskólabörnum.

Börnum með erlent ríkisfang fjölgaði einnig, og voru 1.362 í desember 2018, 7,3% leikskólabarna. Einkum fjölgaði börnum frá Asíu, Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum.

Tæplega 1.900 börn njóta sérstaks stuðnings
Í desember 2018 nutu 1.888 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, eða 10,1% leikskólabarna. Hlutfall barna sem nutu stuðnings var svipað og árið 2015 en hærra en árin 2016 og 2017, þegar 9,7% barna nutu stuðnings. Eins og undanfarin ár voru fleiri drengir í þessum hópi og nutu 12,9% drengja og 7,2% stúlkna stuðnings árið 2018. Þetta er hæsta hlutfall stúlkna með stuðning sem Hagstofan hefur mælt í sínum könnunum.

Rúmlega 250 leikskólar starfandi
Í desember 2018 voru 253 leikskólar starfandi, einum færri en árið áður. Sveitarfélögin ráku 211 leikskóla en 42 leikskólar voru reknir af öðrum aðilum. Árið 2018 voru 15 leikskólar opnir allt árið en 184 skólar voru opnir í 48-49 vikur. Leikskólum sem eru opnir allt árið hefur fækkað en þeir voru 25 árið 2008 og 89 árið 1998. Allir leikskólarnir sem voru opnir allt árið 2018 voru á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur.

Texti: Hagstofan.is

Heilt hús flutt um miðbæ Ólafsfjarðar

Í lok síðustu viku var gamalt bárujárnsklætt timburhús flutt í miðbæ Ólafsfjarðar en húsið var flutt frá Reykjum. Húsið hafði áður verið flutt frá Ólafsfirði árið 1982 þegar Sparisjóðshúsið við Aðalgötu 14 var byggt.

Það var Árni Helgason verktaki sem flutti húsið ásamt aðstoðarmönnum. Húsinu var svo lyft með stórum krana á nýjan stað eftir flutninginn.  Fyrirtækið Trésmíði hefur yfirumsjón með verkinu.

Myndir með frétt: Jón Valgeir Baldursson
Myndir með frétt: Jón Valgeir Baldursson

Myndir með frétt: Jón Valgeir Baldursson

Karlalið BF vann HKarlana örugglega

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við HKarlana í Benecta deildinni í blaki í dag á Siglufirði. HKarlarnir eru sumir hverjir með mikla reynslu í blaki í meistaraflokki en aðrir aðeins með reynslu úr öldungamótum. HKarlarnir mættu þó með þunnskipaðan hóp í þetta verkefni og vantað meðal annars Karl Sigurðsson sem er margfaldur Íslandsmeistari með HK. HKarlarnir höfðu þó tapað síðustu tveimur leikjum og BF tapað síðustu þremur leikjum.

Gonzalo þjálfari BF var í stuttbuxum á hliðarlínunni og var kominn á leikskýrsluna og gerði sig líklegan að taka þátt ef einhver væri ekki að standa sig í dag. Daníel Pétur Daníelsson var kominn aftur í lið BF eftir fjarveru í fyrstu leikjum vetrarins, og munar um minna.

HKarlarnir byrjuðu fyrstu hrinu ágætlega og komust í 1-5 og var uppspilarinn Birkir Elmarsson öruggur í sínum aðgerðum og verkfræðingurinn Guðmundur Jónsson var öflugur í hávörninni að vanda. BF komust hinsvegar fljótt inn í leikinn og jöfnuðu 7-7 og náðu í framhaldi forskoti og yfirhöndinni í hrinunni. BF komst í 13-9 og 18-11 og tóku nú HKarlarnir leikhlé til að kasta mæðinni, enda liðið komið yfir léttasta skeiðið. BF hélt áfram að spila vel og komust í 21-12 og 24-15 og höfðu mikla yfirburði í hrinunni. Uppspilið var almennt með ágætum hjá liðinu og minna var um þessa föstu skotbolta sem hafa ekki verið að ganga upp í síðustu leikjum. BF kláraði hrinuna örugglega 25-16 og var komið í 1-0.

Í annarri hrinu var meiri sveifla á forystunni en BF byrjaði vel og komst í 7-3 en þá hrukku HKarlarnir í gang og skoruðu 9 stig í röð og breyttu stöðunni í 7-12 og í millitíðinni tók þjálfari BF leikhlé. BF komst aftur í gang og minnkuðu muninn í 12-14 og jöfnuðu svo 17-17. BF náði loks yfirhöndinni og komust í forystu 21-18 og 22-20 og var talsverð spenna í lok hrinunnar. BF kláraði svo hrinuna örugglega 25-21 eftir sveiflukenndan leik. Staðan orðin 2-0.

Í þriðju hrinu gekk allt upp hjá BF í upphafi hrinunnar og komst liðið í 9-2 og tóku þreyttir HKarlar leikhlé. BF komst í 12-2 en þá tóku HKarlar við sér og náðu nokkrum stigum til baka og breyttu stöðunni í 14-6. BF komst í 17-6 og 18-11 en hér hafði HKarlar skoraði 4 stig í röð og voru komnir í gang aftur. BF færðist nær sigrinum og komst í 20-11 en HKarlar minnkuðu muninn í 20-13 og 22-17. BF var við það að sigra í stöðunni 24-17 en gestirnir settu spennu í leikinn og léku vel á meðan BF gerði ódýr mistök og minnkuðu muninn í 24-21. BF áttu þó lokastigið og kláruðu leikinn 25-21 og sigruðu leikinn sanngjarn 3-0.

Spilið var að ganga betur í þessum leik og var uppspilið vel yfir netinu í góðum boga svo smassarar höfðu betri tíma til að klára sóknina vel í flest skiptin. Enn er hægt að bæta leikinn og minnka mistökin. Fyrsti sigurinn í fjórum tilraunum hjá karlaliði BF í haust og var vel fagnað í leikslok.

Kvennalið BF keppti við Aftureldingu X í blaki

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Aftureldingu X sem er nýsamsett lið í Benecta deildinni og hefur leikið tvo leiki og unnið báða. Mikil gróska er í blakinu í Mosfellsbæ og er félagið einnig með liðið Afturelding B í sömu deild. BF hafði tapað síðustu tveimur leikjum og ætluðu sér að sækja sigur í þessum leik.

Stelpurnar í BF mættu ákveðnar til leiks í fyrstu hrinu og voru með yfirhöndina alla hrinuna og náðu á köflum ágætis forskoti. Þær komust í 6-2, 9-5 og 15-9 en þá tóku gestirnir leikhlé. BF hélt áfram að skora og komust í 17-10 og 19-13. Afturelding saxaði aðeins niður forskotið og gerðu sig líklega til að komast inn í leikinn og var staðan orðin 20-19 eftir góðan kafla hjá þeim og fjögur stig í röð. Lokamínúturnar voru æsispennandi og var leikurinn jafn í 22-22 en BF skoraði síðustu þrjú stigin og unnu 25-22 og voru komnar í 1-0.

Önnur hrina var frekar köflótt og skiptust liðin á að eiga góða leikkafla en Afturelding var heilt yfir sterkari í þessari hrinu og leiddu oft með miklum mun. Afturelding komst í 5-9 og 8-14 og tók þá þjálfari BF leikhlé. Gestirnir héldu áfram að skora og komust í 10-19 og 13-20. Í stöðunni 14-23 leit allt út fyrir að gestirnir myndu klára hrinuna með öruggri forystu en BF stelpurnar komu til baka og minnkuðu muninn í 20-23 með sex stigum í röð og settu spennu í leikinn aftur. BF komst í 22-24 en Afturelding náði lokastiginu og vann hrinuna 22-25 og jafnaði leikinn 1-1.

Þriðja hrina var líka jöfn og spennandi en Afturelding leiddi þó hrinuna að mestu leiti.  Gestirnir komust í 3-6 og 8-10 en BF jafnaði 13-13. Aftur var jafnt í 16-16 og 19-19 og var eyddi BF mikilli orku í að vinna upp muninn. Áfram var jafnt og spennandi á lokamínútum hrinunnar og var staðan 20-20 og 22-22. Ekkert leikhlé var tekið á lokakaflanum og skoraði Afturelding síðustu þrjú stigin og vann hrinuna 22-25 og komst í 1-2.

BF stelpurnar komu aftur ákveðnar til leiks og leiddu í upphafi hrinunnar 6-2, 8-3 og 10-6. Afturelding komst jafnt og þétt inn í leikinn og náðu undirtökunum eftir þetta. Þær jöfnuðu loks leikinn 11-11 og sigu framúr og náðu öruggri forystu. Í stöðunni 13-17 tók þjálfari BF loks leikhlé til að koma upplýsingum til leikmanna. Afturelding herti tökin og allt virtist ganga upp hjá þeim og þær komust í 14-20 og aftur tók BF leikhlé. Afturelding var mun betra liðið á lokakaflanum og unnu hrinuna örugglega 16-25 og leikinn þar með 1-3.

Það vantaði bara herslu muninn í þessum leik að BF fengi fleiri sigraðar hrinur. Nýr þjálfari er enn að fínpússa liðið saman og koma með sínar áherslur inn á völlinn.

Laust starf skjalastjóra hjá Fjallabyggð

Fjallabyggð óskar eftir að ráða til sín skjalastjóra í tímabundna afleysingu. Um er að ræða 50% hlutastarf. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst en gert er ráð fyrir afleysingu til 31.12.2020. Umsóknarfrestur er til og með 28. október nk.

Skjalastjóri hefur umsjón með frágangi skjalasafns og eftirfylgni með skjalaskráningu. Ábyrgð og umsjón með þróun skjalastefnu og verklags við skjalastjórnun.  Almenn skrifstofustörf og þjónusta við stjórnendur og starfsmenn.

Menntunar og hæfniskröfur:

 • Háskólapróf sem nýtist í starfi, t.d. í bókasafns- og upplýsingafræði æskilegt
 • Gott vald á íslensku og ensku í ræðu og riti
 • Þekking og reynsla á skjalastjórn æskileg
 • Góð almenn tölvukunnátta skilyrði
 • Þekking og reynsla á opinberri stjórnsýslu, einkum sveitarfélaga, er æskileg
 • Frumkvæði, metnaður og nákvæmni í starfi
 • Jákvæðni og góðir samstarfshæfileikar

Hægt er að sækja um starfið á vef Fjallabyggðar.

 

Nánari upplýsingar um starfið veitir Guðrún Sif Guðbrandsdóttir, deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála í síma 464 9100 eða gudrun@fjallabyggd.is.

Blakveisla í Fjallabyggð og söfnun

Laugardaginn 19. október verður sannkölluð blakveisla í íþróttahúsinu á Siglufirði þar sem tveir leikir fara fram í Benectadeild kvenna og karla. Kvennaleikurinn hefst kl. 14:00 þar sem BF mætir Aftureldingu en karlalið BF spilar kl. 16:00 á móti HKörlum.

Aðgangseyrir á leikina er 1.000.- kr. eða frjáls framlög.
Aðgangseyririnn rennur óskiptur í styrktarsjóð lítils blakvinar sem fæddist með hjartagalla og er nýkominn heim frá Svíþjóð þar sem hann gekkst undir aðgerð.  Fyrir þá sem eiga ekki kost á að mæta í íþróttahúsið er unnt að millifæra inn á reikning BF nr. 0348-13-200210 og kennitala 551079-0159.

Sjoppa á staðnum og áhorfendur ganga inn að sunnanverðu.

Hvetjum alla til að styðja við bakið á Blakfélagi Fjallabyggðar og styrkja í leiðinni gott málefni.

Gáfu listaverkagjöf til Fjallabyggðar

Afkomendur Stefáns Friðbjarnarsonar fyrrum bæjarstjóra Siglufjarðar (1966-1974) færðu Fjallabyggð málverk eftir Herbert Sigfússon að gjöf í minningu föður þeirra.  Málverkið sem málað er árið 1947 er af Siglufirði og prýddi heimili Stefáns og fjölskyldu hans allt til dánardags Stefáns. Eins og fyrr segir eru það börn Stefáns, þau Sigmundur, Kjartan og Sigríður sem eru gefendur málverksins en hjónin Kjartan Stefánsson og Guðrún K. Sigurðardóttir afhentu gjöfina til Fjallabyggðar.

Við gjöfinni tóku Gunnar Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar,  Ríkey Sigurbjörndóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda og menningarmála og Ægir Bergsson varaformaður markaðs- og menningarnefndar .

Heimild: Fjallabyggð.is

Myndir með frétt: Fjallabyggð.is

Umræða um framtíð Upplýsingamiðstöðva Ferðamála

Stjórn Akureyrarstofu fundaði í síðustu viku og ræddu stöðu Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna á Akureyri. Nokkur umræða fer nú fram um rekstur upplýsingamiðstöða og hefur Ferðamálastofa látið að því liggja síðustu ár að hún muni fyrir hönd Ríkisins hætta fjárhagslegum stuðningi við miðstöðvar víðsvegar um landið og taka upp rafræna þjónustu þess í stað. Ekki liggur fyrir hvernig sú þjónusta myndi leysa af hólmi þá þjónustu sem veitt er augliti til auglitis af upplýsingafulltrúum.

Auk þessa hefur verið rætt um mikilvægi þjónustu upplýsingamiðstöðvarinnar á Akureyri fyrir farþega skemmtiferðaskipa og mögulega aðkomu Hafnasamlags Norðurlands að rekstrinum.

Ljósmynd: Héðinsfjörður/ Magnús Rúnar Magnússon
Ljósmynd: Héðinsfjörður/ Magnús Rúnar Magnússon
Akureyri
Ljósmynd: Héðinsfjörður/ Magnús Rúnar Magnússon

Hollvinasamtök stofnuð fyrir Dalbæ á 40 ára afmælinu

Um helgina var haldið upp á 40 ára afmæli Dalbæjar í Dalvíkurbyggð en heimilið tók til starfa þann 1. júlí 1979 en var ekki formlega vígt fyrr en 12. janúar 1980. Stofnendur voru Dalvík og Svarfaðardalshreppur, en síðar bættist Árskógshreppur við. Þessum áfanga var því fagnað með hátíðarhöldum fyrir heimilisfólk, starfsmenn og góða gesti.

Við þetta tilefni voru svo kynnt til sögunnar Hollvinasamtök Dalbæjar en tilgangur þessara nýju samtaka er að styðja við Dvalarheimilið Dalbæ með framlögum til tækjakaupa og ýmiss konar búnaðar. Framlögum í félagið er safnað með félagsgjöldum félagsmanna og er árgjaldið 5.000 kr.  Skráning í félagið er á vefsíðu sem stofnuð var í tilefni afmælis Dalbæjar og stofnun Hollvinasamtakanna, www.dalbaer.is

Með stofnun samtakanna er vonast til að hægt verði að stuðla að bættari aðstöðu bæði heimilisfólk og starfsfólks. Vonast er til að sem flestir sjái sér kost á gerast félagar í samtökunum svo að sem flestir geti hjálpast að við að ná settu markmiði. Margar hendur vinna létt verk og margt smátt gerir eitt stórt.

Heimilið er sjálfseignastofnun og er rekið á daggjöldum frá Sjúkratryggingum Íslands. Dalbær hefur einnig sótt styrki til Dalvíkurbyggðar og fengið úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna framkvæmda við húsnæði.

Fyrst var Dalbær eingöngu dvalarheimili, en í maí 1985 fékkst leyfi til reksturs hjúkrunardeildar. Í dag eru 26 hjúkrunarrými, 11 dvalarrými og eitt rými fyrir skammtímainnlagnir, tveir aðilar leigja út herbergi og þá má segja að það búi 40 manns á heimilinu. Að auki hefur heimilið 14 dagdvalarrými. Einnig er félagsstarf fyrir aldraða og öryrkja í Dalvíkurbyggð rekið á Dalbæ yfir vetrartímann. Í dag eru 59 starfsmenn á Dalbæ í u.þ.b. 36 stöðugildum.

Í stjórn samtakanna eru:

Rúna Kristín Sigurðardóttir – formaður
Júlíus Júlíusson – varaformaður
Dagbjört Sigurpálsdóttir – ritari
Kristín Svava Stefánsdóttir – gjaldkeri

Aðrir meðstjórnendur eru:
Arnar Símonarson
Eva Björg Guðmundsdóttir
Helga Mattína Björnsdóttir
séra Oddur Bjarni Þorkelsson
Þorvaldur Eyfjörð Kristjánsson

Mynd: Dalbær.is

Lengdur opnunartími sundlauga í Fjallabyggð

Sundlaugar í Fjallabyggð verða framvegis með lengdan opnunartíma á þriðjudögum og fimmtudögum. Þessa daga verður opið til klukkan 20:30 á Siglufirði og til 20:00 í Ólafsfirði. Breytingin tekur gildi þriðjudaginn 15. október næstkomandi.

Opnunartíminn verður lengdur til reynslu þar til annað verður ákveðið.

Sundlaugin í Ólafsfirði. Ljósmynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon

Gamla bankaútibúið í Ólafsfirði kostar aðeins 55 milljónir

Aðalgata 14 í Ólafsfirði, þar sem Sparisjóður Ólafsfjarðar og síðar Arion banki voru til húsa hefur verið auglýst til sölu í nokkrun tíma. Fyrst var aðeins óskað eftir tilboði í eignina en í dag er verðmiðinn aðeins 55 milljónir króna. Húsið er 792,5 fm á stærð, með kjallara, hæð, 2. hæð og risþaki. Húsið var byggt árið 1982 og stendur á frábærum stað í Ólafsfirði. Lyfta er húsinu sem eykur möguleika á notkun þess.

Margir hafa beðið eftir að sveitarfélagið Fjallabyggð myndi kaupa húsið og nota fyrir bókasafn, upplýsingamiðstöð eða annað.

Íslandsmót í blaki í Fjallabyggð um helgina

Um helgina fer fram fyrsta helgin af þremur á Íslandsmóti neðri deilda. Í Fjallabyggð munu 3. deild kvenna og 5. deild kvenna koma saman og spila. Blakfélag Fjallabyggðar á lið í báðum þessum deildum en í 3.deild spilar BF Súlur og í 5.deild BF Benecta.  Í 3.deild eru 11 lið og í 5. deild eru 10 lið. Spilaðir verða 50 leikir í heildina í Fjallabyggð. Áætla má að um 200 manns komi til Fjallabyggðar um helgina í tengslum við mótið.

Á laugardeginum hefjast leikir kl. 09:00 í báðum íþróttahúsunum í Fjallabyggð. Áætlað er að leikir séu búnir kl. 13:30 í Ólafsfirði en kl 18:15 á Siglufirði.
Á sunnudeginum er einungis spilað á Siglufirði og hefjast leikir kl. 08:30 og áætlað að síðustu leikir séu búnir um kl. 16:30.

Íbúar og blakunnendur eru hvattir til að kíkja við í íþróttahúsunum og hvetja BF liðin en þeir sem ekki komast geta fylgst með leikjunum á eftirfarandi síðum:
3.deild kvenna: http://bli-web.dataproject.com/CompetitionHome.aspx?ID=48
5.deild kvenna: http://bli-web.dataproject.com/CompetitionHome.aspx?ID=50

Fjallabyggð auglýsir styrki úr bæjarsjóði fyrir árið 2020

Fjallabyggð auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar styrkja til menningarmála, fræðslumála, rekstrarstyrkja til safna og setra, styrkja vegna hátíða og styrkja til greiðslu fasteignaskatts félaga og félagasamtaka.

Allir einstaklingar og félagasamtök sem hafa hug á að sækja um styrki eða framlög vegna ársins 2020 er bent á að senda inn rafrænar umsóknir gegnum íbúagáttina “Mín Fjallabyggð” sem finna má hér á heimasíðu Fjallabyggðar.

Framlag sveitarfélagsins til UÍF verður hækkað og úthlutun einstaka frístundastyrkja verður hætt.
Umsækjendum er bent á að styrkur til fræðslumála getur aldrei orðið hærri en 50% alls kostnaðar eða að hámarki kr. 100.000.-  og greiðist að verkefni loknu.
Styrkur til menningarmála getur aldrei orðið hærri en 50% alls kostnaðar eða að hámarki kr. 350.000 og greiðist að verkefni loknu.
Hver lögaðili getur einungis sótt um styrk fyrir eitt verkefni auk fasteignaskatts.
Umsækjendur um styrk skulu hafa lögheimili eða með fasta starfsemi á ársgrundvelli í Fjallabyggð.
Ekki eru veittir styrkir vegna atvinnustarfsemi.

Helstu breytingar sem gerða hafa verið á ferli umsókna um styrki Fjallabyggðar  eru þær að umsóknum hefur verið skipt upp í fimm flokka:

 • Styrkir til menningarmála
 • Styrkir til fræðslumála
 • Rekstrarstyrkir safna eða setra
 • Styrkir til hátíða
 • Styrkir til greiðslu fasteignaskatts til félaga eða félagasamtaka

Nánar um flokkana á vef Fjallabyggðar.

 

Skilafrestur umsókna er til og með 24. október 2019.

Reglur Fjallabyggðar um styrki má nálgast hér.

Gert er ráð fyrir að úthlutun fari fram í janúar 2020.

Fyrirspurnir og nánari upplýsingar veita markaðs- og menningarfulltrúi, Linda Lea Bogadóttir s. 464-9100 og deildarstjóri fræðslu,- frístunda- og menningarmála, Ríkey Sigurbjörnsdóttir, sími: 464-9100 eða gegnum netfangið fjallabyggd@fjallabyggd.is

Ljósmynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon

Fjallabyggð býður í líkamsrækt undir leiðsögn einkaþjálfara

Heilsueflandi samfélag og Fjallabyggð bjóða íbúum í líkamsrækt undir leiðsögn einkaþjálfara Íþróttamiðstöðvum Fjallabyggðar næstu fjórar vikur.
Aðgangur að líkamsræktinni verður gjaldfrjáls á þessum tímum.

Á Siglufirði mun Guðrún Ósk Gestsdóttir, einkaþjálfari, annast leiðsögn dagana 15. október, 22. október, 29. október og 5. nóvember frá kl. 17:15 – 18:15.

Í Ólafsfirði mun Sólveig Brynjudóttir, einkaþjálfari,  annast leiðsögn dagana 10. október, 17. október,  24. október og 31. október frá kl. 17:15 – 18:15.

Líkamsrækt undir leiðsögn einkaþjálfara er örugg leið til árangurs.

 

Bókin um Gústa Guðsmann væntanleg til landsins í lok október

Bókin um Gústa Guðsmann er væntanleg til landsins í lok október. Bókin er prentuð í Lettlandi og fór í prentsmiðjuna í lok ágústmánaðar eða byrjun september. Höfundur bókarinnar er Sigurður Ægisson. Útgefandi bókarinnar er Bókaútgáfan Hólar. Bókin mun án efa verða vinsæl í jólapakkann í Fjallabyggð og víðar í ár.

Bókin, sem verður um 300 blaðsíður, er afrakstur næstum tveggja áratuga heimildasöfnunar.

Grunnskólanemendur í Fjallabyggð söfnuðu tæplega 700 þúsund krónum fyrir Sigurbogann

Í gær var Sigurboganum, styrktarsjóði Sigurbjörns Boga Halldórssonar, afhentur styrkur frá nemendum í 6.-10. bekkjar Grunnskóla Fjallayggðar að upphæð 697 þúsund krónum.

Upphæðin safnaðist með áheitahlaupi nemenda og voru það Sigurbjörn Bogi og Bryndís móðir hans sem veittu styrknum móttöku við Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði. Nemendur hlupu í Ólympíuhlaupi ÍSÍ í lok september og var þátttaka góð, 79 tóku þátt og voru 655 km sem hlaupið var samanlagt.

Ljósmynd: Grunnskóli Fjallabyggðar.

Samstarf milli Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt að hefja samstarf milli íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar.

Forstöðumaður íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar og íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Dalvíkurbyggðar óskuðu eftir því við nefndina að komið yrði á formlegu samstarfi milli sveitarfélaganna í samnýtingu sund- og líkamsræktarkorta. Þeir sem eiga gild tímabilskort hjá annarri íþróttamiðstöðinni geta því fengið aðgang að líkamsrækt eða sundi í allt að tvö skipti á viku á hvorum stað.

Að auki verði tímabundinn aðgangur fyrir korthafa þegar annar aðilinn er með lokað vegna viðhalds eða þrifa.

Heimild: fjallabyggd.is

Mynd: Héðinsfjörður.is/Magnús Rúnar Magnússon

Auglýst eftir umsóknum listamanna í Fjallabyggð

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar hefur auglýst eftir umsóknum frá listamönnum búsettum í Fjallabyggð eða rökstuddum ábendingum um hver hljóta skuli nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2020.  Aðeins þeir listamenn sem búsettir hafa verið í Fjallabyggð að minnsta kosti um tveggja ára skeið koma til greina. Nafnbótin getur hvort sem er hlotnast einstaklingum eða hópi. Auk nafnbótarinnar er bæjarlistamanni veittur menningarstyrkur og verður útnefning að vanda tilkynnt í janúar 2020.

Umsækjendur og þeir sem senda inn ábendingar eru beðnir um að haga umsóknum í samræmi við reglur um Bæjarlistamann sem finna má á heimasíðu bæjarins www.fjallabyggd.is Umsóknir og tilnefningar þurfa að vera rökstuddar. Listamenn láti ítarlegar upplýsingar um náms- og starfsferil sinn fylgja sem og hugmyndir um á hvern hátt nýta eigi styrkinn við listsköpun.

Umsóknum og/eða ábendingum skal skilað fyrir 24. október næstkomandi í gegnum heimasíðu bæjarins „Rafræn Fjallabyggð – Umsóknir – menningarmál“,  með tölvupósti á netfangið lindalea@fjallabyggd.is eða bréfleiðis á Bæjarskrifstofur Fjallabyggðar, Gránugötu 24, 580 Siglufjörður merkt  „Bæjarlistamaður 2020“.

Texti: Fjallabyggd.is.

 

Einar Mikael töframaður í Tjarnarborg

Einar Mikael töframaður verður með sýningu í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði, föstudaginn 11. október kl. 17:00.

Einar Mikael töframaður hefur notið ómældra vinsælda meðal yngstu kynslóðarinnar. Töfrar og sjónhverfingar er ný sýning sem er troðfull af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum. Einar leyfir áhorfendum að taka virkan þátt í sýningunni og velur hann oftar en ekki unga áhorfendur úr sal til að aðstoða hann í töfrabrögðunum nú er um að gera að nýta tækifærið og sjá Einar Mikael með öll sín bestu atriði.

Strax eftir sýningarnar er gestum boðið uppá myndatöku með Einari.
Miðaverð er 2.000 kr. Miðarnir eru seldir við hurð síðan er hægt að panta miða með því að senda póst á einarmidar@gmail.com taka fram nafn og fjölda miða.
Mynd frá Einar Mikael töframaður.

Kvennalið BF mætti HK í Fagralundi

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti HK-B í Fagralundi í dag og hófst leikurinn strax á eftir karlaleiknum sem var fyrr um daginn. Í liði HK er Elsa Sæný  Valgeirsdóttir, fyrrum þjálfari karla- og kvennaliðs HK og einnig fyrrum aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í blaki. Hún er mikill leiðtogi á vellinum og öflug blakkona.  Þjálfari HK er fyrrum landsliðsmaðurinn Emil Gunnarsson en mikið uppbyggingarstarf hefur verið hjá HK undanfarin áratug. BF var að spila sinn annan leik um helgina á meðan HK spilaði síðast í september og komu þær því nokkuð óþreyttar til leiks á meðan BF konur fengu aðeins sólahring í hvíld.

Fyrsta hrina gekk fljótt fyrir sig og var aðeins 16. mínútur.  BF gekk ágætlega á upphafsmínútum leiksins og var jafnt á fyrstu tölum, 3-3 og 5-5. Eftir það tók HK völdin og skoruðu 5 stig í röð og breyttu stöðunni í 10-5. BF minnkaði muninn í 10-8 og 13-11. HK var svo mun sterkara liðið og gerði fá mistök og skoruðu tólf stig á móti þremur og unnu fyrstu hrinuna með yfirburðum 25-14.

Önnur hrina var mun jafnari og æsispennandi í lokin. Liðin skiptust á að leiða og tókst hvorugu liðinu að stinga af. Staðan var 10-10, 13-13 og 14-17 fyrir BF og tók nú þjálfari HK leikhlé. HK minnkaði muninn í 17-18 og komust yfir 21-19. Mikill spenna var nú í þessari hrinu síðustu mínúturnar. HK komst í 24-20 en BF konur skoruðu fimm stig í röð og komust yfir 24-25 og voru hársbreidd frá sigri í hrinunni. HK tók rándýrt leikhlé og skoruðu í framhaldinu þrjú stig og unnu 27-25 í upphækkun. Svekkjandi niðurstaða fyrir BF eftir mikla baráttu og góðan leik. Staðan orðin 2-0 fyrir HK.

Þriðja hrina var eign BF og byrjuðu þær af miklum krafti og átti HK engin svör. BF komst í 1-8 en HK minnkaði muninn í 5-9 áður en BF jók aftur forystuna í 5-13. HK skoraði næsta stig en svo kom frábær kafli hjá BF sem skoraði 7 stig í röð og lagði grunninn að sigrinum í þessari hrinu, staðan orðin 6-20. HK tók leikhlé í þessari törn hjá en það bar engan árangur, BF hélt áfram og komst í 9-21 og 14-23 og tók nú þjálfari BF leikhlé. BF kláraði hrinuna 16-25 og voru aftur komnar inn í leikinn og staðan 2-1.

HK stelpurnar voru svo sterkara liðið í fjórðu hrinu og byrjuðu þær hrinuna mjög vel og tóku forystu og komust í 8-3 og 13-8. BF minnkaði muninn í 15-12 og eigði smá von að komast inn í leikinn en HK komst í 20-13 og 23-15 og gerðu út um leikinn. HK vann svo 25-16 og leikinn þar með 3-1.

BF stelpurnar voru óheppnar að vinna ekki tvær hrinur í þessum leik, en svona er þetta stundum.

 

 

BF heimsótti HK-B í Fagralund

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti HK-B í Fagralundi í dag í Benecta-deildinni í blaki. HK lék tvo leiki í miðri viku og vann Þrótt Vogum 0-3 en tapaði fyrir Hamar 1-3 í Fagralundi. BF lék í gær við úrvalslið Aftureldingar og tapaði 0-3 og komu þeir því ekki eins ferskir til leiks eins og HK sem hafði verið í 3 daga fríi. HK liðið er skipað nokkrum strákum sem eru í hóp hjá aðalliði HK í Mizuno deildinni og einnig strákum úr 2. flokki HK, einnig er í liðinu fyrrverandi landsliðsmaðurinn Emil Gunnarsson, og munar um minna. Allt mjög efnilegir og góðir leikmenn. BF var með sama hóp og leiknum í gær, með aðeins einn mann á bekknum. Nýi þjálfarinn hefur gert breytingar á skipulagi liðsins og er nú Tóti að leika sem Liberó. Þjálfarinn er lagt upp með að spila hraðan bolta og reynir uppspilarinn að spila eftir því, en það kemur of oft fyrir að boltinn er hreinlega of lágur og ekki næst að smassa boltann almennilega yfir netið, eða sóknarmaðurinn er hreinlega of seinn fyrir svona fasta skotbolta. Fastir skotboltar í uppspili hentar vel á miðju en eru erfiðari í spili út á kant og má engin mistök gera svo að það takist.

HK menn voru mættir með sína 11 menn og voru klárir í slaginn í fyrstu hrinu. BF byrjaði hrinuna með ágætum og komust í 0-3, 1-4 og 5-8. HK menn komust svo í gang og skoruðu sex stig í röð og breyttu stöðunni í 11-8. BF gekk illa að vinna upp muninn og tóku leikhlé í stöðunni 16-12. HK voru langt komnir með að vinna hrinuna í stöðunni 21-14 en BF skoraði þá þrjú stig í röð og minnkuðu muninn í 21-17 og tók nú HK leikhlé. Heimamenn voru sterkari á lokakaflanum og kláruðu hrinuna hratt og örugglega 25-20.

HK menn höfðu einnig talsverða yfirburði í annarri hrinu og komust í 10-4 og tók nú BF leikhlé. Talsvert var um mistök leikmanna BF í þessari hrinu og fóru of margar uppgjafir beint í netið eða misskilningur var á milli leikmanna og datt boltinn í gólfið án þess að einhver gerði tilraun til að taka boltann.  Ef til vill þreyta í einhverjum leikmönnum eftir leik gærdagsins, en það vantað aðeins meiri ákafa á köflum. HK hélt áfram að raða inn stigum og komust í 17-6 og 20-7. Alls ekki góð hrina hjá BF en þeir komu þó aðeins til baka og áttu ágætis sóknir og í stöðunni 22-9 skoraði BF fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 22-12 og síðar í 24-15. HK var hinsvegar aldrei að fara tapa þessari hrinu og unnu örugglega 25-15.

Þriðja hrinan var sú jafnasta í leiknum og var jafnræði með liðunum í upphafi hrinunnar, jafnt var í stöðunni 4-4 og 11-11, en liðin skiptust á að leiða með 2-3 stigum og voru að skora 2-3 stig í röð á þessum kafla. HK tókst að komast í 17-13 en BF léku ágætan bolta og minnkuðu muninn 19-17. Aftur var jafnt í 20-20 og gerðu nú HK þrjú stig í röð og komust í 23-20 og tók þjálfari BF nú leikhlé. HK kláraði hrinuna og unnu 25-21 og leikinn sannfærandi 3-0.

BF liðið átti ekkert mjög sannfærandi leik á köflum en Ólafur Björnsson var þó mesta ógnin þegar uppspilið var með besta móti. Of mörg mistöku voru gerð í þessum leik sem er dýrkeypt gegn góðu liði eins og HK.  HK liðið gat leyft sér að skipta óþreyttum mönnum inná eftir þörfum, sem er eitthvað sem BF liðinu vantar að geta gert.

Þriðji tapleikur BF í röð í deildinni, en liðið á enn heilmikið inni og þjálfarinn er enn að kynnast liðinu og styrkleikum þess.

 

17 fyrirtæki á Siglufirði gáfu Kærleiksbókina til sunnudagaskólans

Sautján fyrirtæki á Siglufirði hafa gefið fræðsluefni til sunnudagaskólans í Siglufjarðarkirkju, sem er einnig nefndur Kirkjuskólinn. Bókin heitir Kærleiksbókin mín og er gefin í 100 eintökum. Það er bók sem Skálholtsútgáfan, útgáfufélag þjóðkirkjunnar, gaf út í ár og í henni er að finna endursagnir á sögum um Jesú frá Nasaret. Sögurnar eru á léttu og fallegu máli, börnin fá svo límmiða til að fullgera sumar myndanna í bókinni.

Fyrirtækin sautján eru: Aðalbakarinn ehf., Byggingafélagið Berg ehf., Efnalaugin Lind ehf., Hótel Siglunes ehf., L-7 ehf., Minný ehf., Premium ehf., Primex ehf., Raffó ehf., Rammi hf., Siglósport, Siglufjarðar Apótek ehf., SR-Byggingavörur ehf., TAG ehf., Tónaflóð heimasíðugerð slf., Veitingastaðurinn Torgið ehf. og Videoval ehf.

Frá þessu er greint á kirkjan.is og einnig siglfirdingur.is.

39 án atvinnu í Fjallabyggð

Alls voru 39 án atvinnu í lok ágúst 2019 í Fjallabyggð og mældist atvinnuleysi 3,6%. Alls voru 21 karlar 18 konur án atvinnu í lok ágústmánaðar í Fjallabyggð.

Í Dalvíkurbyggð mældist atvinnuleysi 2,1% og voru 22 án atvinnu í lok ágústmánaðar, þar af voru 11 karlar og 11 konur.

Í Skagafirði voru 13 án atvinnu og mældist atvinnuleysi aðeins 0,6% í sveitarfélaginu.

Á Akureyri mældist atvinnuleysi 3% og voru 312 án atvinnu í lok ágústmánaðar.

Tölulegar upplýsingar í fréttinni koma úr gögnum Vinnumálastofnunnar.

Kvennalið BF mætti Ými

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Ými í Fagralundi í Kópavogi í dag. Ýmir vann Álftanes í síðasta leik en BF vann KA-B 3-0 en tapaði fyrir Álftanesi í fyrsta mótsleik á Íslandsmótinu.

Leikurinn átti eftir að vera jafn og skemmtilegur. BF stelpurnar voru komnar til Reykjavíkur með 10 liðsmenn og höfðu því fjóra varamenn til skiptanna.

Fyrsta hrinan fór jafnt af stað en Ýmir komst í 2-0 og BF skoraði þá fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 2-4. Ýmir skoraði þá fjögur stig í röð og komust í 6-4. Jafnt var á næstu tölum og í stöðunni 9-9 tók þjálfari BF leikhlé. Hvorugu liðinu tókst að ná afgerandi forystu og skiptust á að leiða með 1-2 stigum. Í stöðunni 18-18 kom góður kafli hjá Ými og lögðu þær grunninn af sigrinum í hrinunni með sjö stigum á móti einu frá BF og unnu 25-19.

Í annarri hrinu byrjaði BF ágætlega og komst í 3-5 en þá koma svakalegur kafli hjá Ými sem skoraði 10 stig á móti einu frá BF og komust þær í 13-6 og tók BF leikhlé í þessum kafla. Ýmis liðið var að spila vel í hrinunni og héldu góðu forskoti á BF. Í stöðunni 18-10 kom aftur góður kafli hjá BF sem minnkuðu muninn í 19-16. Ýmir var sterkari á lokamínútum hrinunnar og unnu 25-18.

Í þriðju hrinu var að duga eða drepast fyrir BF og komu þær mjög ákveðnar til leiks og leiddu í upphafi hrinunnar og komust í 3-8 og 6-11. Í stöðunni 7-12 tók Ýmir leikhlé en það skilaði engu og BF konur héldu áfram að skora og auka forystuna og komust í 7-17. Allt gekk vel í þessari hrinu og lítið um mistök hjá BF, og komust þær í 12-21 og unnu hrinuna 18-25 og var nú staðan 2-1.

BF byrjaði ágætlega í fjórðu hrinu og leiddu 2-6 eftir að hafa skorað sex stig í röð. Ýmir skoraði þá þrjú sig og minnkaði muninn í 5-6 og svo var jafnt á tölunum í 7-7 og 9-9. Ýmir átti í framhaldinu góðan kafla og voru með forystu og komust í 16-12 og 19-16. BF stelpurnar gáfust þó ekki upp og jöfnuðu 20-20 og tók nú Ýmir leikhlé enda mikil spenna komin í leikinn. Aftur var jafnt 21-21 og tók nú þjálfari BF leikhlé. BF komst í 22-23 og voru hársbreidd frá því að klára hrinuna, en það var Ýmir sem vann hrinuna 25-23 og leikinn 3-1.

Blakfélag Fjallabyggðar lék við Aftureldingu

Blakfélag Fjallabyggðar og Afturelding B mættust í Benecta-deildinni í blaki í dag í Íþróttahúsinu Varmá í Mosfellsbæ. Afturelding vann fyrsta leikinn á Íslandsmótinu gegn Þrótti Vogum nokkuð örugglega 3-0 á meðan BF tapaði gegn Hamar 0-3. Lið BF var frekar þunnskipað í þessum leik og aðeins einn varamaður, sem skipti reglulega við Þórarinn sem hefur verið að glíma við meiðsli í baki undanfarnar vikur. Þess ber að geta að Afturelding notaði marga leikmenn úr Mizunodeildinni í þessum leik, þar sem Afturelding er með sitt aðal lið og firnasterkt.

BF byrjaði þó fyrstu hrinu glimrandi vel og komust í 0-3 en heimamenn voru fljótir að svara fyrir sig og jafna í 3-3. Jafnt var í 7-7 en þá tóku heimamenn forystu í leiknum og komst í 12-8 og tók nú BF leikhlé. Afturelding var áfram sterkari aðilinn og áttu gestirnir erfitt með að verjast öflugri sókn þeirra og uppgjöfum sem rötuðu oft beint í gólfið. Heimamenn komust í 16-10 og 20-12. Eftirleikurinn var auðveldur og unnu heimamenn fyrstu hrinuna 25-14. Talsvert var um mistök og ekki nægilega góða staðsetningu á leikmönnum BF sem gerði öflugum sóknarmönnum í Aftureldingu auðvelt fyrir að smassa beint í gólfið.

Í annarri hrinu var einnig jafnt á tölum fyrstu mínúturnar og náðu heimamenn ekki afgerandi forystu.  Jafnt var á tölum í 3-3, 7-7 og 9-9 en þá tóku heimamenn forystuna og komust í 12-9 og tók nú þjálfari BF leikhlé. Afturelding var áfram sterkara liðið og komust í 15-11 og 16-14. Sóknin hjá heimamönnum var öflug í þessum leik og erfitt að var fyrir BF að verjast þeim. Afturelding komst í 20-15 og 24-18 og unnu loks hrinuna 25-20 og voru komnir í 2-0.

Þriðja hrinan byrjaði svipuð og fyrstu tvær og var jafnræði með liðunum en Afturelding seig fljótt fram úr og komust í 8-5 og 12-6 og tók nú þjálfari BF leikhlé. Í stöðunni 16-10 tóku heimamenn öll völdin og voru mun betra liðið á vellinum og gerðu færri mistök. Afturelding komst í 19-10 áður en BF náði að svara fyrir sig og minnka muninn í 20-13. Heimamenn kláruðu hrinuna frekar auðveldlega og unnu 25-16 og leikinn örugglega 3-0.

BF vantar meiri breidd á bekkinn þegar leikmenn eiga ekki sinn besta dag og þurfa hvíld. Þrátt fyrir meiðsli hjá Þórarni þá átti hann ansi margar reddingar í lágvörn og bjargaði mörgum stigum. Of mikið var gert af mistökum í leiknum hjá BF sem er ekki í boði gegn svona góðu liði eins og Aftureldingu.

BF leikur næst við HK-B á morgun kl. 12:00 í Fagralundi í Kópavogi.

Viðtal við Val Reykjalín leikmann KF

Valur Reykjalín Þrastarson er einn af uppöldu leikmönnum Knattspyrnufélags Fjallabyggðar og þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hann leikið 58 leiki í deild og bikar með meistaraflokki og skorað 6 mörk fyrir KF. Fyrstu tveir deildarleikirnir hans fyrir KF komu árið 2015 þegar hann var aðeins 16 ára.  Á 17. ári lék hann svo 15 leiki í deild og bikar með KF og skoraði sitt fyrsta mark með meistaraflokki. Árið 2017 átti Valur gott tímabil og lék 19 leiki og skoraði 3 mörk. Eftir það tímabil skipti hann yfir í Val Reykjavík og byrjaði strax að leika með 2. flokki liðsins og fékk tækifæri í fjórum leikjum með meistaraflokki á Reykjavíkurmótinu og Lengjubikarnum. Í framhaldinu lenti Valur í meiðslum og var frá fótbolta í langan tíma þar til hann samdi aftur við KF í lok apríl 2019. Valur byrjaði svo mótið af krafti og skoraði strax í 2. umferð Íslandsmótsins og kom við sögu í öllum deildarleikjum sumars og lék alls 22 leiki og skoraði 2 mörk í deildinni. Valur var í viðtali hjá okkur í vikunni og svaraði nokkrum spurningum.

VIÐTAL

Hvað var uppleggið fyrir mótið og voru áherslubreytingar frá þjálfara? Uppleggið var einfaldlega að hlaupa yfir liðin en svo fannst mér það aðeins breytast eftir 3-4 umferðir þá fórum við að reyna halda boltanum meira og reyna stjórna leikjunum.

Hvernig tilfinning var það að koma aftur í KF í vor og taka þátt í velgengninni í sumar? Það er alltaf gaman að koma aftur heim, strákarnir tóku vel á móti mér og sumarið og úrslitin voru frábær.

Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?   Skallagrímur heima var geggjaður leikur sem endaði 8-1.

Þú gekkst til liðs við Val Reykjavík í byrjun árs 2018 og lentir í meiðslum. Hvernig var sá tími fyrir þig og var þjálfun og aðstaða á allt öðru stigi ?  Sá tími var erfiður þetta tók aðeins lengri tíma en ég vildi en frábært fólk í kringum mig til að hjálpa mér í gegnum þetta, varðandi þjálfun og aðstöðu þá fylgir þetta oftast bara í hvaða deild liðið er í en Valur er með frábæra aðstöðu og fólk í kringum félagið

Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2014 ? Liðið þarf bara að byrja að halda sér í deildinni og svo eftir það er hægt að skoða eitthvað meira, hef samt fulla trú að liðið  muni halda sér léttilega í deildinni.

Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverjum mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn? Gervigras mun skipta sköpum fyrir félag eins og KF, við búum á Íslandi og erum fyrir norðan í þokkabót er grasið lengi að verða gott en ef það væri gervigras þá væri hægt að æfa á Ólafsfirði eitthvað yfir veturinn og vera með góðan völl strax þegar keppinstímabilið byrjar.

Hversu mikilvægur hefur Alexander Már verið fyrir lið í sumar? Var mikil pressa á honum að skora þegar leið á mótið? Alli var nátturulega mjög mikilvægur, það leita öll lið af framherja sem skorar mörk og Alli skorar nú oftast nokkur þegar hann spilar heilt tímabil með liði. Held að það hafi ekki verið mikil utan af komandi pressa en hann setur einhverja pressu á sig sjálfur til að skora mörk.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Brynhildur Reykjalín Vilhjálmsdóttir.