All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Nýr hjúkrunarforstjóri Hornbrekku

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt tillögu bæjarstjóra og deildarstjóra félagsmáladeildar Fjallabyggðar að Elísa Rán Ingvarsdóttir verði ráðin sem hjúkrunarforstjóri dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hornbrekku í Ólafsfirði.  Elísa hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á Hornbrekku og Heilsugæslu Dalvíkur.

Jónsmessutónleikar í tanki Síldarminjasafnsins

Tónleikar verða haldnir í tanki Síldarminjasafnsins á Siglufirði í kvöld, 23. júní kl. 20:00. Tankurinn er nýjasti safngripur safnsins.  Tvísöngvar, rímnakveðskapur, langspilsleikur, gömul og “frumsamin” þjóðlög og raddspuni mun hljóma í gömlum olíutanki sem nú öðlast nýtt hlutverk í samvinnu við Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar.

Flytjendur eru: 
Eyjólfur Eyjólfsson
Gústaf Daníelsson
Hrafnhildur Árnadóttir
Örlygur Kristfinnsson

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Úrslit í Jónsmessublakmóti á Siglufirði

Hið árlega Jónsmessumót Kjarnafæðis í strandblaki fór fram á strandblaksvellinum við Rauðku á Siglufirði fyrir skemmstu. Mótið hefur fest sig í sessi sem glæsilegt strandblaksmót sem lið víðs vegar af Norðurlandinu sækja. Mótið var tvískipt í þetta sinn en karlarnir spiluðu föstudaginn 16.júní og dömurnar miðvikudaginn 21.júní.
Karlamótið var jafnt og skemmtilegt og sáust mörg glæsi tilþrifin en sex lið mættu til leiks og spiluðu allir við alla. Lokaleikur mótsins var hreinn úrslitaleikur milli heimadrengjanna Óskars og Karols og Akureyrarpiltanna Arnars og Þorra. Leikurinn var hnífjafn allan tímann en að lokum voru það heimadrengirnir sem lönduðu sigri, 21-19.
Hjá dömunum mættu sjö lið til leiks og var spilað í tveimur riðlum og svo úrslitaleikir. Örlítill vindur var á meðan á mótinu stóð sem hafði áhrif á spilamennskuna en tilþrifin létu veðrið ekki trufla sig. Eftir hnífjafna riðlakeppni voru það heimadömurnar Helga Eir og Rut sem spiluðu úrslitaleikinn við Kristínu og Eyrúnu frá Akureyri. Hinar ungu heimadömur sýndu flotta spilamennsku í úrslitaleiknum og sigruðu nokkuð örugglega eða 21-10.
Mótshaldarar vilja þakka Kjarnafæði sérstaklega fyrir stuðninginn en fyrirtækið hefur styrkt Jónsmessumótið undanfarin ár með veglegum verðlaunum.
Næsta mót sem fram fer á Strandblaksvellinum á Siglufirði er PARAMÓT en stefnt er að því að það fari fram fimmtudaginn 13.júlí.

Kvikmyndasýning á Síldarminjasafninu

Laugardaginn 24. júní kl. 16:00 verður kvikmyndin Viljans Merki frá árinu 1954 sýnd í Gránu, bræðsluhúsi Síldarminjasafnsins á Siglufirði.  Jón Ólafur Björgvinsson kynnir myndina og segir frá leit sinni að gömlum ljós- og kvikmyndum í sænskum söfnum.  Myndin er almenn kynningarmynd um Ísland, menningu og þjóð og í lok myndarinnar er komið til Siglufjarðar þar sem ljómi síldarævintýrisins blasir við.  Allir velkomnir – enginn aðgangseyrir.

Samfélags- og menningarsjóður Siglufjarðar veitir styrki

Stjórn Samfélags- og menningarsjóðs Siglufjarðar hefur tekið ákvörðun um úthlutun á styrkjum fyrir árið 2017 sem hljóðar upp á 9.535.000 til 20 aðila.  Í stjórn Samfélags- og menningarsjóðs Siglufjarðar eru Jón Hrólfur Baldursson, Oddgeir Reynisson og Sigurður Friðfinnur Hauksson.

 

Neðangreindir aðilar fengu úthlutaðan styrk í ár:

Styrkþegi Styrkur Styrkur vegna
Alþýðuhúsið á Siglufirði            250.000     Styrkur til að standa fyrir opinberu menningarstarfi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Arnfinna Björnsdóttir              50.000     Styrkur vegna 3ja sýninga
Barnastarf Kirkjunnar            500.000     Ýmsir munir fyrir barnastarf kirkjunnar
Björgunarsveitin Strákar            600.000     Styrkur vegna kaupa á Björgunarbát
Björgunarsveitin Smástrákar        1.050.000     Styrkur vegna tækjakaupa fyrir ungliðastarf
Blakfélag Fjallabyggðar-Barna- og unglingastarf            250.000     Tæki og tól fyrir ungmennastarf í blaki
Félag eldri borgara Siglufirði        2.340.000     Púttvöllur í nágrenni Sunnuhlíðar
Grunnskóli Fjallabyggðar        1.250.000     Færanlegt hljóðkerfi og sýndarveruleikabúnaður
Hestamannafélagið Glæsir            400.000     Hnakkur fyrir fatlaða og styrkur til barnastarfs
Kát Töfrateppi            500.000     Söfnun fyrir töfrateppi
KF barna- og unglingastarf            245.000     Búnaður fyrir yngriflokkaþjálfun
Kvæðamannafélagið Ríma              50.000     Hljóðritun og hljóðblöndun
Leikfélag Fjallabyggðar            250.000     Uppfærsla á leikverki
Ljóðasetur Íslands            250.000     Styrkur til að standa straum af menningarstarfi í Ljóðasetrinu
Skíðafélag Siglufjarðar            400.000     Búnaðar til skíðaþjálfunar
Systrafélag Siglufjarðarkirkju            600.000     Styrkur til endurbóta á safnaðarheimili
Vildarvinir Siglufjarðar            200.000     Vegna varðveislu á gömlum heimildum.
Þjóðlagahátíð á Siglufirði            200.000     Styrkur vegna þjóðlagahátíðar
Þjóðlagasetur Sr. Bjarna Þorsteinssonar            100.000     Styrkur fyrir upptöku á þjóðlögum
Örnefnafélagið Snókur              50.000     Styrkur til að koma síðunni snokur.is í hendur Fjallabyggðar

 

Landsbankamót Tindastóls um næstu helgi

Landsbankamót Tindastóls fer fram helgina 24.-25. júní á Sauðárkróki og stefnir allt í að mótið verði það fjölmennasta fram að þessu. Mótið er fyrir stelpur í 6. flokki og hefur stækkað ört undanfarið en í ár eru skráð rúmlega 100 lið til leiks frá um 20 félögum. Liðin mæta á föstudagskvöld en mótið sjálft hefst á laugardagsmorgun. Kvöldvaka er haldin á laugardagskvöld þar sem Salka Sól mætir og skemmtir stelpunum. Mótinu lýkur síðan á sunnudeginum með úrslitaleikjum og verðlaunaafhendingu.

 

Tónlistarhátíðin Drangey Music Festival

Tónlistarhátíðin Drangey Music Festival fer fram í þriðja skiptið, laugardagskvöldið 24. júní 2017 í Skagafirði. Líkt og fyrri ár verður áherslan á frábæra tónlist og fallega stemmingu í glæsilegri náttúru þar sem Drangey blasir við frá Reykjum á Reykjaströnd þar sem tónleikarnir fara fram. Hátíðin byrjar kl. 18:00 og kostar miðinn 6500 kr.  Á Reykjum er tjaldstæði, næg bílastæði, kaffihús og auðvitað Grettislaug.
Fram koma:
Mugison
Jónas Sigurðsson og ritvélar framtíðarinnar
Amabadama
Contalgen Funeral
Emmsjé Gauti

 

KF tapaði á heimavelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék við Knattspyrnufélag Garðabæjar (KFB) í 3. deild karla í knattspyrnu á Ólafsfjarðarvelli í dag. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum og var búist við jöfnum og spennandi leik. KF hafði ekki tapað stigum á heimavelli í deildinni í ár, en heimavöllurinn hefur verið sterkur.

Það voru Garðbæingarnir sem skoruðu fyrsta markið á 27. mínútu og leiddu 0-1 í hálfleik. Þegar um sjö mínútur voru eftir af leiknum skoruðu heimamenn, og jöfnuðu leikinn í 1-1, en það var Milan Marinkovic sem skoraði sitt annað mark á mótinu. Það voru hins vegar gestirnir í KFB sem skoruðu sigurmarkið á 88. mínútu, og var það Brynjar Már Björnsson sem það gerði, og var það fyrsta mark hans í meistaraflokki í 40 leikjum. Lokatölur leiksins urðu því 1-2.

KF er eftir leikinn í 6. sæti með 9 stig eftir 6 leiki. KFB skaust hins vegar upp í 3. sætið með þessum sigri. Næsti leikur KF er útileikur gegn Reyni í Sandgerði. Þess má geta að KFB er ungt lið, stofnað árið 2008.

Siglufjarðarkirkja máluð

Í vikunni hefur verið unnið að því að mála Siglufjarðarkirkju. Turn kirkjunnar er ansi hár og þarf til þess körfubíl Slökkviliðs Fjallabyggðar, sem er árgerð 1969.  Það er Anton Mark Duffield fyrrum knattspyrnumaður Leifturs og KS sem sér um verkið.

Bygging Siglufjarðarkirkju hófst 16. maí 1931, hornsteinn var lagður 15. ágúst 1931. Kirkjan var vígð 28. ágúst 1932. Kirkjan tekur um 400 manns í sæti. Í kirkjuturni er stundaklukka og klukkuspil sem gefið var til minningar um sr. Bjarna Þorsteinssonar á aldarafmæli hans 14. október 1961. Árið 1974 voru gluggar kirkjunnar endurnýjaði og settir í þá steindar rúður. Á kirkjuloftinu þar sem Gagnfræðaskóli Siglufjarðar hafði verið til húsa í 23 ár var standsett safnaðarheimili og tekið í notkun á 50 ára afmæli kirkjunnar í september 1982. Þann 25. ágúst 1996 var vígt 24 radda mekaniskt pípuorgel, tveggja hljómborða og pedal. Umfangsmikla lagfæringar hafa verið gerðar á kirkjunni á s.l. 12-17 árum. Kirkjan var einangruð utan og klædd Í-Múr, þakklæðning og þakgluggar endurnýjaðir.

Kvennahlaup ÍSÍ í Skagafirði

Kvennahlaup ÍSÍ fer fram í Skagafirði sunnudaginn 18. júní á nokkrum stöðum. Frítt er í sund að loknu hlaupi.

Staðsetningar:

 • Sauðárkróki – hefst við sundlaug kl. 10
 • Hofsósi – hefst við sundlaug kl. 11
 • Varmahlíð – hefst við sundlauginni kl. 11
 • Hólum – hefst við háskólann kl. 10:30
 • Ketilás – hefst kl. 10:30

 

Útboð vegna gervigrasvallar á Sauðárkróki

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur auglýst eftir tilboðum í jarðvinnu, lagnavinnu, uppsteypu og frágang vegna gervigrasvallar á Sauðárkróki.  Verkið felst í uppsteypu stoðveggja, tæknirýmis og undirstaðna undir ljósamöstur, jarðvinnu, frárennslis- og snjóbræðslulagnir, hellulögn o.fl. Allri uppsteypu ásamt frágangi undir gervigras skal vera lokið eigi síðar en 31. ágúst 2017. Lagning gervigrass er ekki hluti af útboði. Verklok eru 1. nóvember 2017.

Helstu verkþættir eru:

 • Gröftur 2.000 m³
 • Aðflutt efni, burðarlag og jöfnunarlag 3.000 m³
 • Steypumót 550 m²
 • Bendistál 7.500 kg
 • Steinsteypa 110 m³
 • Fráveitulagnir 220 m
 • Niðurlögn snjóbræðslulagna 37.000 m
 • Grindagirðingar 220 m
 • Hellulögn 305 m²

Útboðsgögn verða til afhendingar á Verkfræðistofunni Stoð ehf. á Aðalgötu 21 á Sauðárkróki frá og með mánudegi 12. júní. Einnig er hægt að óska eftir útboðsgögnum í tölvupósti á netfangið atli@stodehf.is.  Tilboð verða opnuð þriðjudaginn 27. júní nk. kl 13:00 á Verkfræðistofunni Stoð ehf. á Sauðárkróki.

Framkvæmdir við Ólafsfjarðarvöll

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Fjallabyggð hafa skrifað undir samkomulag um niðurrif gömlu sjoppunnar við Ólafsfjarðarvöll og byggingu nýrrar sjoppu í staðinn.

Gamla sjoppan var komin til ára sinna, klæðningin brotin og húsið farið að fúna. Mikil þörf var á endurnýjun og því er það fagnaðarefni að tilkynna um þetta samkomulag.
Áformað er að byrja framkvæmdir mánudaginn 19. júní næstkomandi og standa vonir til að nýja sjoppan verði risin fyrir næstu mánaðarmót.

17. júní dagskrá á Dalvík

17. júní verður haldin hátíðlegur á Dalvík. Meðal annars verður 17. júní hlaupið, skrúðganga og hátíðarstund í Bergi menningarhúsi.

Dagskrá:

 • Kl. 08:00    Fánar dregnir að húni – allir fánar á loft!
 • Kl. 11:00    17. júní hlaupið fer fram á íþróttavellinum á Dalvík í umsjón frjálsíþróttadeildar UMFS. Skráning á staðnum fyrir hlaup og verðlaunaafhending að hlaupi loknu.
 • Kl. 13:00  Skrúðganga leggur af stað frá Íþróttamiðstöð að Menningarhúsinu. Þátttakendur eru beðnir um að mæta tímanlega og taka með sér fána og veifur.
 • Kl. 13:30 Hátíðarstund í Menningarhúsinu Bergi
 • Ávarp fjallkonunnar
 • Hátíðarræða
 • Tónlistaratriði
 • Það spáir karamellurigningu í kringum Berg
 • Að lokinni hátíðarstund við Berg:
 • Hestamennska – Sveinbjörn Hjörleifsson og aðstoðarmenn hans teyma hesta undir börnum við Krílakot.
 • Leiktæki í umsjón flokksstjóra Vinnuskóla Dalvíkurbyggðar í kirkjubrekku – Sápubolti, vatnsrennibraut, vatnaboltinn og fleira skemmtilegt. Gamla tívolístemningin endurvakin. Foreldrar athugið: það verður hægt að bleyta sig í sumum leiktækjum og því æskilegt að börnin hafi föt til skiptanna.
 • Hátíðarkaffi –  Barna– og unglinaráð knattspyrnudeildar UMFS selur hátíðarkaffi í safnaðarheimili Dalvíkurkirkju að lokinni hátíðarstund. Verð 13 ára og eldri 1.500 kr, börn 6-12 ára 500 kr. Frítt fyrir börn 0-6 ára miðast við leikskólaaldur. Kaffið stendur yfir frá kl. 14:00-17:00.
 • Tónleikar í Bergi – Söngfjelagið flytur Fuglakabarett með texta eftir Hjörleif Hjartarson og tónlist eftir Daníel Þorsteinsson í Bergi menningarhúsi kl. 17:00. Hluta verksins fluttir kórinn á síðasta Vetrardags-hátíð í Iðnó vorið 2017. Verð kr. 2.500.-

Jónsmessublakmót á Siglufirði

Fyrri hluti Jónsmessumóts Kjarnafæðis í strandblaki fer fram í kvöld, föstudaginn 16. júní á strandblaksvellinum við Rauðku á Siglufirði. Í þessum fyrri hluta spila karlarnir en sex karlalið eru skráð til leiks og spila allir við alla. Fyrsti leikurinn hefst kl. 17:30 og áætlað er að síðasti leikurinn hefjist kl. 21:00.
Síðari hluti mótsins verður svo spilaður á miðvikudag eða fimmtudag og þá spila dömurnar.

Ljósmyndasýning í Saga-Fotografia á Siglufirði

Laugardaginn 17. júní verður opnuð sýning með ljósmyndum Björns Valdimarssonar í Saga-Fotografia ljósmyndasögusafninu á Siglufirði.

Sýndar verða myndir úr þrem seríum sem Björn hefur unnið að síðustu árin. FÓLKIÐ Á SIGLÓ, sem byggir á myndum af fólki sem tengist Siglufirði. LÍFIÐ Á SAUÐANESI er með myndum frá bænum Sauðanesi við Siglufjörð. Auk hefðbundinna bústarfa eru hjónin þar meðal annars með vitaeftirlit, veðurathuganir og hestaleigu. Þriðja myndaröðin nefnist MINNISVARÐAR og er hún með myndum af eyðibýlum, öðrum mannvirkjum og gömlum farartækjum í landslaginu á Norðurlandi sem flest eiga það sameiginlegt að vera að eyðast og smám saman að verða hluti af náttúrunni.

Sýningin verður opin á opnunartíma safnsins kl. 13:00 til 16:00 nú í sumar. Hægt er að semja um aðra skoðunartíma fyrir hópa.

 

 

 

Flugdagur á Akureyri á 17. júní

Flugsafn Íslands heldur árlegan Flugdag á 17. júní næstkomandi á Akureyrarflugvelli.  Að vanda verður margt skemmtilegt og forvitnilegt í boði. Ýmsar stórar og smáar flugvélar munu fljúga. Landhelgisgæslan, Icelandair, Norlandair, Air Iceland Connect og Circle Air taka virkan þátt.  Boðið verður upp á útsýnisflug gegn vægu gjaldi. Einnig má búast við herþotum sem eru staðsettar á Keflavík núna við loftrýmisgæslu.  Þyrluflug, módelflug, drónar og fleira fallegt.

Kaffi, vöfflur, pylsur og gos til hressingar. Svæðið opnar kl: 13:00. Aðgangseyrir 1000 kr. fyrir 12 ára og eldri.

Fréttir af Foreldrafélagi Leikskála á Siglufirði

Aðsend frétt frá Foreldrafélagi Leikskólans Leikskála á Siglufirði.

————————————-

Aðalfundur Foreldrafélags Leikskála var haldinn miðvikudaginn 7. júní síðastliðinn.  Á fundinum var farið yfir störf og fjáraflanir félagsins á árinu, en megin markmið félagsins er að styðja við starf leikskólans sem og að gleðja börnin með skipulögðum vettvangsferðum, gjöfum, leiksýningum eða öðru slíku. Helstu tekjulindir Foreldrafélagsins eru árlegur kökubasar, bingó og myndlistarsýning í Ráðhúsi þar sem listaverk barnanna eru seld.

Á núlíðandi leikskólaári hefur Foreldrafélagið stutt rausnarlega við leikskólann, en til að mynda var keyptur svokallaður flettisófi þegar viðbygging leikskólans var tekin í notkun í nóvember síðastliðinn. Þar að auki hefur Foreldrafélagið fært leikskólanum þráðlausa hátalara á allar deildar, nýjar litríkar gólfmottur með stafrófi, tölustöfum og dýrum á hverja deild. Burstakubba, sérsaumaða íþróttadýnu sem nýtist við klifur og aðrar æfingar barnanna. Leikfangahirslur og dúkkur á Nautaskál auk þess sem Foreldrafélagið færði Leikskólanum hitamæli og sólarvörn fyrir börnin í upphafi sumars. Foreldrafélagið stóð fyrir sveitaferð á Sauðanes, leiksýningunni Maxímús Músíkús á sumarhátíð leikskólans og brúðuleiksýningunni Íslenski fíllinn á vordögum. Þar að auki létti Foreldrafélagið undir með bæði jólasveininum og páskahéranum, til þess að tryggja að öll börn á leikskólanum fengju veglega gjöf frá jólasveininum og páskaegg í tilefni páskanna.

Foreldrafélag Leikskála þakkar fyrirtækjum á staðnum, foreldrum, ömmum, öfum og öllum þeim sem styðja við fjáraflanir félagsins kærlega fyrir – stuðningur ykkar er grundvöllur þess að við getum stutt rausnarlega við leikskólann og glatt börnin okkar.

Kraftlyftingafélag Ólafsfjarðar stofnað

Búið er að stofna nýtt íþróttafélag í Fjallabyggð, en það er Kraftlyftingafélag Ólafsfjarðar. Stofnfundur var haldinn 22. maí síðastliðinn og hefur félagið í framhaldinu fengið inngöngu í Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar (UÍF) og öðlast keppnisrétt.

Ungt kraftlyftingafólk frá Ólafsfirði hefur náð frábærum árangri að undanförnu, en Kara Gautadóttir náði þremur verðlaunum á Evrópumeistaramóti ungmenna og keppti fyrir Kraftlyftingafélag Akureyrar þar sem ekkert félag var starfandi í Fjallabyggð.

Ágætis aðstaða er í íþróttamiðstöð Fjallabyggðar í Ólafsfirði fyrir lyftingarfólk.

Stjórn félagsins er:
Rúnar Friðriksson formaður
Aðalbjörg Snorradóttir gjaldkeri
Magnea Guðbjörnsdóttir ritari
Tómas Atli Einarsson varamaður
Kjartan Helgason varamaður

 

Er Fjallabyggð góður kostur fyrir fjölskyldufólk?

Aðsend grein eftir Sigríði Vigdísi Vigfúsdóttur, íbúa í Fjallabyggð.

————————————————————————————

Er Fjallabyggð góður kostur fyrir fjölskyldufólk?

 Það er vægt til orða tekið að stór hluti foreldra og íbúa í Fjallabyggð er ósáttur við nýja fræðslustefnu bæjarins og framgangs bæjaryfirvalda sem hafa valið að hunsað vilja stórs hluta bæjarbúa í þessu máli. Í öll þau ár sem ég hef búið hér þá man ég ekki eftir að bæjaryfirvöld hafi sýnt okkur íbúunum jafn mikið virðingarleysi og bæjarstjórn hefur gert í þessu máli. Held reyndar að það þurfi að fara langt aftur í tímann til að finna slík dæmi, þessi valdníðsla minnir helst á þá tíma þegar sýslumenn og aðrir embættismenn gátu komið fram við lýðinn að eigin geðþótta.

 

Virðingarleysi bæjarstjórnar gagnvart skoðunum og óskum íbúanna

Staðan í skólamálum í Fjallabyggð er dapurleg og engin leið að skilja hvað vakir fyrir þeim sem tóku þessa ákvörðun. Það hefur ríkt sátt um núverandi fyrirkomulag, þó svo að enginn óski þess að skólaakstur þurfi yfir höfuð að eiga sér stað, og þá síst hjá yngstu börnunum. Afhverju er verið að skerða lífsgæði barna í sveitarfélaginu með þessum auknu flutningum á milli bæjarhluta?

 

Aukin akstur skerðir lífsgæði grunnskólabarna

Það hefur kannski gleymst að hugsa út í það að börn Siglufjarðarmegin gætu verið búin að fá nóg af rútuferðalögum þegar kemur að því að fara í menntaskóla og velja því frekar heimavist á Akureyri eða aðra kosti.

 

Hvað gengur bæjarstjórn til með að gera Fjallabyggð og ekki síst Ólafsfjörð að lakari kosti en nú er, þegar barnafjölskyldur eru að velja sér hreiður? Hvers vegna að bjóða litlum börnum upp á fimmtíu mínutna rútuferð á dag þegar aðrar lausnir hafa verið og eru í boði. Fegurðin við að búa í litlum samfélögum er nálægðin, sá kostur sem vegur þungt þegar valið er um búsetu.

 

Nemendur í samkennslu hafa komið betur út í samræmdum prófum

Slæmur námsárangur í Grunnskóla Fjallabyggðar er mál sem foreldrar og aðrir íbúar hafa virkilegar áhyggjur af. Því skyldi ætla að bæjarstjórn hefði það einnig og því lagt metnað sinn í að finna leiðir og kynna fyrir íbúum áætlun um hvernig á að bæta úr því. Þeir nemendur sem voru í samkennslu (4. bekkur) komu þó best út í samræmdu prófunum, þannig að ekki kallaði slakur námsárangur þar á þær breytingar sem nú er verið að gera.

 

Eins og staðan er, þá er það allavega er nokkuð ljóst að það eru ekki allir nemendur í 10. bekk sem geta sleppt til dæmis íslenskutíma í heila önn til að stunda enskutíma í MTR, og þar af leiðandi er varla tímabært að hvetja nemendur grunnskólans til að velja sér fög til að stunda framhaldsnám samhliða grunnskólanámi.

 

Hagsmunir örfárra nemenda í fjarnámi í MTR kveikjan að breytingunum

Það er út í hött að setja ímyndaða hagsmuni þeirra örfáu nemenda sem eru í fjarnámi í MTR í forgang, en á feisbókarsíðu vinnuhópsins sem mótaði nýju fræðslustefnuna kemur glöggt fram að upphaflega hugmyndin að þessari breytingu tengdist þeim.

 

Við munum flest að þegar sameining skólanna átti sér stað, stóð til að yngstu börnunum yrði ekið á milli bæjarhluta, en vegna mikilla óánægju íbúanna var horfið frá því. Þá bar bæjarstjórn gæfu til að virða vilja þeirra, jafnvel þó engu hafi verið lofað um íbúalýðræði í þá daga. Við foreldrar vitum of hvað er börnum okkar fyrir bestu og ekki ástæða til þess að tala niður til okkar þegar við tjáum skoðanir okkar líkt og forystumenn hafa nú gert.

 

Ekki of seint a snúa til baka

Það er einlæg von mín að bæjaryfirvöld endurskoði hug sinn varðandi jafn veigamikið og viðkvæm mál sem skólamál eru. Það er ekki gott fyrir okkar samfélag og alls ekki góð byggðastefna að setja fræðslumál í upplausn eins gerst hefur. Það er ekki of seint að snúa við og gera samfélagið okkar þannig að sátt verði um skólamálin. Með því setjum við menntun og líðan barnanna okkar í öndvegi.

 

Með vinsemd og virðingu,

Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir

 

 

 

 

 

 

Dalvíkurbyggð eflir eldvarnir á heimilum og vinnustöðum

Dalvíkurbyggð hefur gert samkomulag við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir á heimilum starfsmanna og í stofnunum sveitarfélagsins. Samstarfið felur í sér að Dalvíkurbyggð innleiðir eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum í haust samkvæmt leiðbeiningum, gátlistum og öðrum gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út. Jafnframt innleiðir Dalvíkurbyggð verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um varúðarráðstafanir vegna logavinnu.

Áður hafa Akranes, Húnaþing vestra, Akureyri og Fjarðabyggð innleitt eigið eldvarnaeftirlit í samstarfi við Eldvarnabandalagið og lofar árangur af samstarfinu góðu.

Eldvarnabandalagið hefur útbúið leiðbeiningar og önnur gögn vegna eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana og verða þau höfð til hliðsjónar í samstarfinu við Dalvíkurbyggð. Þjálfaðir verða eldvarnafulltrúar sem annast mánaðarlegt og árlegt eftirlit með eldvörnum í stofnunum Dalvíkurbyggðar samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins.

Þá fá allir starfsmenn sveitarfélagsins fræðslu um eldvarnir á vinnustaðnum og heima fyrir og verður þeim afhent handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt efni og ráðgjöf án endurgjalds.

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.

Sjómannadagurinn í Ólafsfirði

Sjómannadagurinn, sunnudaginn 11. júní hefst með skrúðgöngu frá hafnarvog í Ólafsfirði að Ólafsfjarðarkirkju en þar verður hátíðarmessa. Eftir hádegið verður fjölskylduskemmtun við menningarhúsið Tjarnarborg en þar koma fram: Jónsi í svörtum fötum, Sveppi, Pétur Jóhann, Steindi Jr og Auddi Blö. Um miðjan daginn verður kaffisala Slysavarnardeildar kvenna í Tjarnarborg og um kvöldið verður árshátíð sjómanna í íþróttahúsinu í Ólafsfirði.

Sjómannadagurinn 11. júní
10:15 Skrúðganga frá hafnarvog til Ólafsfjarðarkirkju. Hátíðarmessa, sjómenn heiðraðir
13:30 Fjölskylduskemmtun við Tjarnarborg. Jónsi í svörtum fötum, Sveppi, Pétur Jóhann, Steindi Jr og Auddi Blö.
Hoppukastalar, sölubásar og stanslaust fjör.
14:30-17:00 Kaffisala Slysavarnardeildar kvenna í Tjarnarborg
19:00 Árshátíð sjómanna í íþróttahúsi.
Skemmtiatriði og veislustjórn í höndum Péturs Jóhanns.
Auddi Blö, Steindi Jr. og Sveppi láta öllum illum látum.
Afrek helgarinnar verðlaunuð.
Uppistand frá Ara Eldjárn heimamanni.
Matur frá Bautanum.
Hljómsveitin Rokkabillýbandið – Matti Matt, Magni Ásgeirs og Regína Ósk

23:00-02:00 Opið ball.
Verð kr. 3.000 á ballið
Miðaverð á árshátíðina er 9.000kr.

KF sigraði og hélt hreinu

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar keppti við Þrótt úr Vogum í hádeginu í dag á Ólafsfjarðarvelli. Fyrirfram var búist við jöfnum leik enda liðin á svipuðum stað í deildinni. Heimamenn voru ákveðnir í að selja sig dýrt í þessum leik eftir slæm úrslit í síðasta leik. KF hafði frumkvæðið í leiknum og skoraði fyrsta mark leiksins á 35. mínútu og var það Bozo Predojevic með sitt fyrsta mark fyrir KF, en hann kom til félagsins rétt fyrir Íslandsmótið. Staðan var 1-0 í hálfleik fyrir heimamenn. Þróttur gerir svo 5 skiptingar á 11 mínútum í síðari hálfleik, en allt kom fyrir ekki, KF skoraði annað mark á 80. mínútu en það var Ljubomir Delic með sitt þriðja mark í fjórum leikjum fyrir KF, en hann er einnig nýr leikmaður hjá félaginu.  Heimamenn nýttu einnig allar sýnar innáskiptingar, en þær komu seint í leiknum. Svo fór að KF hélt forystunni til loka, og unnu leikinn 2-0. Þrjú stig í hús á sjómannadagshelginni og er KF komið í 5. sætið eftir fimm umferðir, með þrjá sigra og tvö töp.

Skemmtiferðaskipið Callisto afboðar 14 komur til Siglufjarðar

Skemmtiferðaskipið Callisto mun ekki koma til Íslands þetta árið en skipið bilaði á leiðinni til landsins og er komið til Panama í viðgerð.  Skipið var með bókaðar 14 komur til Siglufjarðar í sumar en ekkert verður af þeim heimsóknum í ár. Áætlað var að Callisto kæmi með 50 farþega í 14 heimsóknum sem eru alls 700 farþegar yfir sumarið. Von var á 35 skipakomum til Siglufjarðar í sumar, en ljóst er að þeim fækkar og verða alls 21. Gert er ráð fyrir að skemmtiferðaskipið Callisto komi til Íslands næsta sumar og þessar bókanir verði færðar til ársins 2018.

Skipið sjálft er aðeins 50 metrar á lengd og 8 metrar á breiddina. Inni eru aðeins 17 klefar og 16-18 manns í áhöfn. Skipið var allt endurinnréttað á árunum 2015-16.

Opna leikskóladeild fyrir 5 ára í Glerárskóla

Akureyrarbær hefur tekið ákvörðun að 5 ára leikskóladeild verði starfrækt í húsnæði Glerárskóla næsta skólaár. Deildin verður undir stjórn leikskólans Tröllaborga.  Umsóknir um leikskólapláss á deildinni eru þú þegar farnar að berast eftir kynningu sem haldin var nýlega.  Rétt er að taka fram að hér er um að ræða nýjan valkost fyrir foreldra 5 ára barna í Glerárskólahverfi. Þeir foreldrar sem hafa áhuga á að skrá börn sín í þessa nýju deild þurfa að sækja um það sérstaklega.  Einnig voru skoðaðar hugmyndir um að opna sambærilega deild í Síðuskóla á Akureyri en af því verður ekki að sinni.  Vonast er til að með þessum hætti verði hægt að mæta aukinni þörf fyrir leikskólapláss haustið 2017.

Kaupa nýja stólalyftu í Hlíðarfjall

Akureyrarbær og Vinir Hlíðarfjalls, fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags, hafa undirritað samning um að félagið fjármagni kaup á nýrri stólalyftu sem sett verður upp í Hlíðarfjalli fyrir haustið 2018.  Vinir Hlíðarfjalls munu sjá um kaup á lyftunni og að hún verði reist en Akureyrarbær leigir hana síðan og rekur samkvæmt sérstökum samningi. Að loknum 15 ára leigutíma á Akureyrarbær forkaupsrétt á skíðalyftunni. Skíðalyftan mun rísa sunnan við núverandi Stromplyftu. Áætlaður heildarkostnaður við verkið er 363 milljónir króna en félagið fjármagnar framkvæmdina með 100 milljóna króna hlutafé og 263 milljóna króna láni til 15 ára. Leigufjárhæðin til Akureyrarbæjar mun nema afborgunum, vöxtum og verðbótum af láninu á hverjum tíma.

Keypt verður notuð skíðalyfta af gerðinni Doppelmayr. Hún verður kærkomin viðbót við þær lyftur sem fyrir eru á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli sem er eitt það albesta á landinu. Í Hlíðarfjalli er nú ein fjögurra sæta stólalyfta, fjórar toglyftur, togbraut og skemmtilegt „töfrateppi“ fyrir allra yngsta skíðafólkið.

 

Sjómannadagurinn á Sauðárkróki og Hofsósi

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur á Sauðárkróki í dag og á Hofsósi á sunnudag. Það verður ýmislegt til skemmtunar og kaffisala slysavarnafélaganna verður á sínum stað á báðum stöðum.  Sjávarsælan á Sauðárkróki hefst með dorgveiðikeppni kl. 10:00 og í kjölfarið er skemmtisigling með Málmey SK 1 kl. 12:00 og dagskrá á hafnarsvæðinu fram eftir degi. Það verða hefðbundin skemmtiatriði eins og reipitog og koddaslagur, í boði verða grillaðar pylsur og fiskisúpa, hoppukastali og furðufiskasýning ásamt mörgu fleiru. Kaffisala slysavarnardeildarinnar Drangeyjar og Skagfirðingasveitar verður á Mælifelli kl 12-16.

Um kvöldið verður skemmtun í íþróttahúsinu á Sauðárkróki þar sem Guðbrandur Guðbrandsson sér um veislustjórn og hljómsveitin Made in sveitin heldur uppi fjörinu fram á nótt.

Dagskráin á Hofsósi hefst kl 12:30 á sunnudeginum við minnisvarðann um látna sjómenn með helgistund. Að henni lokinni hefst dagskráin á hafnarsvæðinu þar sem í boði verður m.a. dorgveiðikeppni, koddaslagur og sigling. Kaffisala slysavarnardeildarinnar Hörpu hefst kl 15 í Höfðaborg.

Sjómannadagshelgin í Ólafsfirði

Það er þétt dagskrá um Sjómannadagshelgina í Ólafsfirði. Dagskráin á laugardag hefst með Golfmóti sjómanna og dorgveiðikeppni fyrir börnin. Sigling verður í boði Rammans og kappróður sjómanna. Um kvöldið verður svo útiskemmtun við menningarhúsið Tjarnarborg þar sem  Auddi Blö, Steindi Jr, Sveppi, Rúnar Eff og fleiri skemmta.

Laugardagur 10.júní
09:00 Golfmót sjómanna(vanur/óvanur)Mæta tímalega
10:00-10:50 Dorgveiðikeppni fyrir börnin við höfnina, keppendur verða að vera í björgunarvestum (vesti eru til á bryggjunni)
11:00 Sigling í boði Rammans (grillaðar pylsur og svali fyrir alla á eftir)
12:45 Kappróður sjómanna við höfnina
14:00 Keppni um Alfreðsstöngina, tímaþraut og trukkadráttur (við Tjarnarborg og í sundlaug) Ramminn býður upp á hina sívinsælu sjávarréttarsúpu við harmonikkuleik Stúlla. Ís fyrir börnin
15:00 Nýja náttúrugripasafnið okkar Fjallasalir-Safnahús opnar í Pálshúsi. Kristinn G. Jóhannsson sýnir í listsalnum.
17:30 Leirdúfuskotmót sjómanna á skotsvæði SKÓ
19:30 Kappleikur Sjómenn – Landmenn á Ólafsfjarðarvelli (2x20mín)
21:00 Útiskemmtun við Tjarnarborg. Auddi Blö, Steindi Jr, Sveppi, Rúnar Eff og fleiri
23:00 Pubquiz á Höllinni

Pálshús og Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar opna

Pálshús í Ólafsfirði opnar eftir miklar endurbætur laugardaginn 10. júní klukkan 15:00. Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar opnar sýninguna Flugþrá í nýjum húsakynnum safnsins í Pálshúsi við Strandgötu. Á sýningunni Flugþrá ber að líta alla íslensku varpfuglana ásamt því að fjallað er um flugþrá mannsins og sögu flugsins.  Myndlistarmaðurinn Kristinn G. Jóhannsson mun opna málverkasýninguna Farangur úr fortíðinni í nýjum myndlistarsal í húsinu. Við opnunina mun Ólöf Sigursveinsdóttir spila á selló og Bræðrabandið syngja nokkur lög en bandið skipa bræðurnir Björn Þór, Stefán Víglundur og Guðmundur Ólafssynir.