All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Skóflustunga að nýju gervigrasi á Sauðárkróki

Iðkendur knattspyrnudeildar Tindastóls á Sauðárkróki tóku fyrstu skóflustungur að nýjum gervigrasvelli í dag. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í maí 2018.  Knattspyrnudeild Tindastóls hvatti iðkendur til að mæta með skóflu með sér og taka þannig þátt með táknrænum hætti þátt í að byggja upp enn betri íþróttaaðstöðu á Sauðárkróki. Búið er að girða vinnusvæðið af og gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næstu dögum. Að skóflustungum loknum bauð Knattspyrnudeild Tindastóls upp á grillaðar pylsur og svala.

Myndir: Skagafjordur.is

Nýr hótelstjóri á Deplum í Fljótum

Krist­ín Birgitta Gunn­ars­dótt­ir hef­ur verið ráðin sem nýr hót­el­stjóri á lúx­us­hót­el­inu Depl­ar Farm í Fljót­um í Skagaf­irði. Depl­ar Farm er rekið af banda­ríska fyr­ir­tæk­inu Eleven Experience. Krist­ín Birgitta hef­ur víðtæka reynslu úr ferðaþjón­ustu og hef­ur meðal ann­ars starfað hjá Icelanda­ir og Icelanda­ir Hotels. Þá var hún sölu- og markaðsstjóri á lúx­us­hót­el­inu Tower Suites Reykja­vík en þar var hún einn af lyk­il­starfs­mönn­um við opn­un og mót­un hót­els­ins. Krist­ín Birgitta hef­ur lokið MBA gráðu frá Há­skól­an­um í Reykja­vík.

Depl­ar Farm opnaði form­lega árið 2016 og frá opn­un hef­ur hót­elið verið vel bókað. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu.

Höfuðstöðvar Eleven Experience eru í Col­orado í Banda­ríkj­un­um en fyr­ir­tækið rek­ur jafn­framt lúx­us­hót­el, íbúðir og skíðaskála á fram­andi áfanga­stöðum víða um heim. Á öll­um stöðum á þjón­ust­an sam­eig­in­legt að vera sér­sniðin að þörf­um viðskipta­vina Eleven Experience með til­heyr­andi út­búnaði, þæg­ind­um og mögu­leik­um til afþrey­ing­ar og æv­in­týra. Eleven Experience legg­ur áherslu á sér­sniðna upp­lif­un gesta sinna, nátt­úru­vernd og góða nýt­ingu á nátt­úru­auðlind­um.

Blakfélag Fjallabyggðar með fulltrúa í U19 Landsliðinu

Landsliðsþjálfarar U19 ára landsliðanna í blaki hafa tilkynnt um lokahópa sína fyrir NEVZA ferðina til Kettering á Englandi. Eduardo Herrero Berenguer, aðalþjálfari U19 ára karlalandsliðsins hefur valið 12 manna hóp fyrir verkefnið. Í fyrsta sinn á Blakfélag Fjallabyggðar liðsmann í landsliðinu í blaki, en tveir voru valdir í þetta verkefni frá BF, en það eru Eduard Constantin Bors og Kristinn Freyr Ómarsson. Þeir eru einu leikmennirnir sem koma frá Norðurlandi í karlahópnum, en aðrir leikmenn koma frá Þrótti Nes, HK, Aftureldingu og Vestra.

U19 ára liðin halda til Englands dagana 26.-30. október og taka þátt í NEVZA móti. Fararstjóri er Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir og sjúkraþjálfari Sigurður Örn Gunnarsson.

Sveinn Þór ráðinn þjálfari Dalvíkur

Sveinn Þór Steingrímsson hefur verið ráðinn þjálfari Dalvíkur/Reynis sem spilar í 3. deild karla í knattspyrnu, og hefur hann skrifað undir tveggja ára samning. Sveinn tók við liðinu af Atla Má um mitt sumar 2017 og sýndi af sér mikla fagmennsku og mikinn metnað í því að koma félaginu á hærri stall. Hann er ungur og efnilegur þjálfari, fæddur árið 1984.  Hann lék tvo bikarleiki með Dalvík/Reyni í byrjun sumars, og þjálfaði liðið síðustu 9 leiki sumarsins. Hann lék um tíma með Grindavík og á leiki í efstu deild karla. Hann lék einnig með Hamar í Hveragerði, GG, Þrótti Vogum, Magna og Njarðvík. Hann hefur leikið 87 leiki með meistaraflokki og skoraði í þeim 11 mörk.

Björgunarsveit og slökkvilið að störfum í nótt í Fjallabyggð

Björgunarsveitin Strákar og Slökkvilið Fjallabyggðar og starfsmenn Fjallabyggðar voru að störfum í nótt og morgun vegna mikillar úrkomu sem var allan föstudaginn og í morgun á Siglufirði. Flæddi meðal annars inn í nokkra kjallara en unnið var við að dæla upp ur brunnum og kjöllurum til að koma í veg fyrir meira vatnstjón.  Mesta rigningin var milli klukkan 16:00 til 17:00 í gær, en þá rigndi 7,6 mm á klukkustund samkvæmt gögnum frá Veðurstofu Íslands. Meðfylgjandi myndir koma frá Björgunarsveitinni Strákum og eru birtar með góðfúsu leyfi.

Leikskólarnir á Akureyri loka í 20 virka daga næsta sumar

Fræðsluráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að sumarlokun leikskóla á Akureyri verði með eftirfarandi hætti sumarið 2018.   Leikskólarnir á Akureyri munu loka í 20 virka daga sumarið 2019.

Sumarlokun 2018:

Naustatjörn 25 júní – 20. júlí
Hulduheimar 25 júní – 20. júlí
Iðavöllur 2. júlí -27. júlí
Pálmholt 2. júlí -27. júlí
Hólmasól 2. júlí -27. júlí
Tröllaborgir 2. júlí -27. júlí
Lundarsel 9. júlí – 3. ágúst
Krógaból 9. júlí – 3. ágúst
Kiðagil 9. júlí – 3. ágúst

Finnsk vika í Hofi menningarhúsi

Menningarfélag Akureyrar býður til finnskrar viku í Hofi dagana 16. – 22. október.  Tilefnið er aldarafmæli finnska lýðveldisins og því verður finnsk menning í hávegum höfð. Fjölbreytt dagskrá verður alla vikuna og er frítt inn á viðburði nema lokatónleikana á sunnudeginum.

Hádegisupplestur úr finnskum bókum

Mánudag – föstudags kl. 12.15

1862 Nordic Bistro

 

Mánud. 16. okt. kl. 12.15:  Vetrarundur í Múmíndal Pia Viinikka bókasafnsfræðingur les.

Þriðjud. 17. okt. kl. 12.15:  Pípuhattur galdrakarlsins Jón Páll Eyjólfsson leikhússtjóri les.

Miðvikud. 18. okt. kl. 12.15:  Malarinn sem spangólaði Saga Geirdal Jónsdóttir leikkona les

Fimmtud. 19. okt. kl. 12.15:  Heimsins besti bær Hulda Sif Hermannsdóttir verkefnastjóri les..

Föstud. 20. okt. kl. 12.15:   Dagur í Austurbotni Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri les.

 

Finnskt stuttmyndakvöld

í samvinnu við finnska sendiráðið

 

Miðvikudaginn 18. október kl. 20

Hamrar

 

Allar myndirnar eru með enskum texta

 

Do I have to take care of everything? (2011)

Tilnefnd til óskarsverðlauna í flokki stuttmynda 2012.

Sólríkur laugardagsmorgunn fer allur úr skorðum þegar fjölskyldan reynir að komast í brúðkaup í tæka tíð. Gjöfin týnist, föt krakkanna höfðu gleymst í þvottavélinni og engan lausan leigubíl er að finna. Móðurinni finnst hún þurfa að sjá um allt.

Leikstjóri: Selma Vilhunen.

Clumsy little acts of tenderness  (2012)

Faðir reynir að tengjast dóttur sinni eftir skilnað. Hann reynir sitt best en þungarokk og bílaþvottur virkar ekki. Á ögurstundu í lífi unglingsdótturinnar er hann reiðubúinn til að vera það foreldri sem hún þarf á að halda

Leikstjóri: Teemu Nikki.

Listen (2014)

Hér er gefin góð mynd af því hversuhjálparvana við getum verið ef við tölum ekki sama tungumál. Innflytjandi reynir að segja lögreglunni í Danmörku frá heimilisofbeldi en vegna tungumálaörðugleika skilur hún ekki alvarleika málsins.

Leikstjóri: Hamy Ramezan

Noste (2014)

Hér er farið með áhorfandann inn í ógleymanlegt ferðalag um dansveröld neðansjávar. Þessi kröftuga og fallega sýning vekur upp tilfinningar með litum, fljótandi hreyfingum og undraverðum hæfileikum mannslíkamans.

Leikstjóri: Marko Röhr

 

BAR SVAR um Finnland og finnska menningu

Föstudagur 20.okt. KL 19:30-21:30

R5

Spurningarkeppni í samvinnu við Norræna  Félagið á Akureyri. Tilboð á bjór og ýmsir skemmtilegir vinningar. Hvað veist þú um Finnland?

 

Sögu- og föndurstund fyrir börn

í samstarfi við Amtsbókasafnið

Laugardagur kl. 11 -12

Hamragil

Lesið verður uppúr finnskri barnabók á íslensku, örstutt á finnsku og sænsku, kennt að telja uppá 10 á finnsku og að lokum föndrað.

 

Finnskir tónar á 1862 Nordic Bistro og NÖNNU

 

Laugardagur 21.okt kl 20 á NÖNNU

Sunnudagur 22 okt kl 12-13 á 1862 Nordic Bistro

 

Matti Kallio flytur finnska tónlist á 1862 Nordic Bistro og NÖNNU þar sem finnskt þema verður í fyrirrúmi á matseðlum.

 

TÓNLEIKAKYNNING

Saga lýðræðisbaráttu Finnlands og tónlistar Sibeliusar

Sunnudagur 22.okt. kl 15

Naust

Sendiherra Finnlands Valtteri Hirvonen  fjallar um sögu lýðræðisbaráttunnar og tengsl hennar við verk Sibeliusar í tilefni af aldarafmæli þess. Sérstakur gestur verður Matti Kallio tónlistarmaður.

Boðið verður upp á léttar veitingar með finnsku ívafi.

 

Kista hönnunarverslun

Kynning og tilboð á finnskum vörum alla vikuna.

 

Hápunktur finnsku vikunnar

FINLANDIA OG FRÓN

sunnudagur 22.okt. kl 16

Peter Sakari stjórnar flutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á verkum Síbelíusar og Áskels Mássonar á stórtónleikum. Enn eina ferðina frumflytur hljómsveitin nýtt íslenskt verk en það er slagverkskonsertinn Capriccio eftir Áskel Másson.

 

Allir viðburðir finnsku vikunnar eru án endurgjalds nema tónleikarnir Finlandia og Frón.

Sveitarfélagið Skagafjörður vill kaupa hlut Byggðastofnunar

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur látið gera verðmat á húsinu við Skagfirðingabraut 17-21 á Sauðárkróki, en það er meðal annars Ráðhús og skrifstofur sveitarfélagsins. Húsið er alls 905 fermetrar.  Eigendur hússins eru Sveitarfélagið Skagafjörður 63,48%, Byggðastofnun 35% og Akrahreppur 1,52%. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar vill skoða hvort Byggðastofnun vilji selja Sveitarfélaginu Skagafirði sinn 35% hlut í húsinu.

Menningarminjadagarnir – viðburðir í Fljótum og í Fjallabyggð

Menningarminjadagarnir eru haldnir ár hvert í þeim 50 löndum sem hlut eiga að Menningarsáttmála Evrópu. Markmið þessara daga er að vekja athygli og áhuga á ríkri og fjölbreyttri menningu þeirra samfélaga sem byggja álfuna. Þema ársins 2017 er „Minjar og náttúra“.

Fornleifar í Fljótum

Flutt verða þrjú stutt erindi sem endurspegla áhrif náttúru á staðsetningu minja og mótun menningarlandslags og varðveislu þess. Erindin verða haldin laugardaginn 14. október á Gimbur gistiheimili í Fljótum. Guðmundur St. Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra, mun fjalla um menningarminjar og loftlagsbreytingar, Guðný Zoëga, fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga, gerir grein fyrir fornleifarannsóknum sumarsins í Fljótum og Hjalti Pálsson, ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar, veltir fyrir sér landnámi í Fljótum. Í framhaldinu verður heimsóttur einn af þeim fjölmörgu minjastöðum sem nýlega hefur fundist eða nýjar upplýsingar hafa fengist um.

Dagskrá hefst kl. 13:00 og að erindum loknum verður farið á einkabílum á minjastað í nágrenninu. Áætlað er að dagskrá ljúki eigi síðar en kl 16:00.

 

Leiðsögn um rústir Evangerverksmiðju

Evangerverksmiðjan var reist 1911 og var fyrsta stóra síldarverksmiðja landsins. Segja má að hún hafi markað innreið nútímans á Siglufirði. Snjóflóð féll á Evangerverksmiðjuna árið 1919 og hefur hún verið rústir einar síðan þá. Örlygur Kristfinnson leiðir göngu um minjasvæðið laugardaginn 14. október kl. 13:00 og verður komið saman á bílastæði við Siglufjarðarflugvöll. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Öllum ráðlagt að sjóða neysluvatn í Ólafsfirði

Ekki er vitað annað en að mengun í vatnsveitu Ólafsfjarðar sé bundin við vatnsbólið í Brimnesdal en hugsanlega hefur hluti dreifikerfisins mengast af völdum mengaðs vatns úr vatnsbóli Brimnesdals. Sýni sem tekin voru af Heilbrigðiseftirlitinu fimmtudaginn 12. október greindust menguð. Sýnin voru tekin úr dreifikerfi Brimnesvatnsbóls, þar af tvö sýni sem komin voru inn á Múlalind.

Áfram er talið að svæðið nyrst í bænum sé í lagi þ.m.t hjá fiskvinnslunum í Ólafsfirði. Umhverfis- og tæknideild vinnur að sótthreinsun dreifikerfisins og endurbótum á vatnsbólinu í Brimnesdal en miklar rigningar tefja fyrir viðgerðum.

Flestar E. coli bakteríur eru skaðlitlar, en ef E. coli finnst í neysluvatni, þá bendir það til þess að hættulegar bakteríur geti leynst í vatninu. Öllum íbúum Ólafsfjarðar er því ráðlagt sem varúðarráðstöfun að sjóða vatnið.

Tökur á Ófærð 2 hefjast á morgun á Siglufirði

Á morgun, föstudaginn 13. október hefjast tökur á Ófærð 2. Reiknað er með 12-18 tökudögum á Siglufirði sem munu standa fram í fyrstu vikuna í nóvember. Tökulið þáttanna er um 40-45 manns og eru 5-50 leikarar sem taka þátt á hverjum tökudegi. Tökulið og leikarar gista í heimahúsum og á hótelum í Fjallabyggð.  Fyrstu tökur verða á Ráðhústorginu á Siglufirði um helgina, þar sem teknar verða upp stórar senur sem munu yfirtaka allt torgið á meðan undirbúningi og tökum stendur. Ráðhústorgið verður því lokað fyrir umferð um helgina, bæði á laugardag og sunnudag. Óskað er eftir því að engum bílum sé lagt á torginu frá föstudagskvöldi og fram á sunnudagskvöld. Þá er óskað eftir því að engar myndatökur eigi sér stað á torginu þessa helgina.

Umferðatafir verða á Túngötu, Suðurgötu, Gránagötu og Aðalgötu á Siglufirði um helgina.  Þá verður stöðvuð umferð , rétt á meðan myndavélin rúllar. Hjáleið verður óhindruð um Lindargötu.

Baltasar í leikstjórastólnum

 

Þrjár götur í Ólafsfirði þurfa áfram að sjóða vatn

Í tilkynningu frá Tæknideild Fjallabyggðar og Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, kemur fram að búið sé að staðfesta að mengunin sé bundin við vatnsbólið í Brimnesdal og hefur Veitustofnun Fjallabyggðar einangrað bólið frá veitunni að undanskildum neðangreindum götum.

Íbúar við Hlíðarveg, Hornbrekkuveg og Túngötu í Ólafsfirði þurfa að halda áfram að sjóða neysluvatn.

Neysluvatn í öðrum götum en taldar eru upp hér að ofan er ómengað og því hæft til neyslu.

Flestar E. coli bakteríur eru skaðlitlar, en ef E. coli finnst í neysluvatni, þá bendir það til þess að hættulegar bakteríur geti leynst í vatninu. Íbúum við ofangreindar götur er því ráðlagt sem varúðarráðstöfun að sjóða vatnið. Veitustofnun Fjallabyggðar hefur nú þegar hafið vinnu við endurbætur.

Hárgreiðslustofa til sölu í Ólafsfirði

Í Ólafsfirði er nú til sölu fullbúin hárgreiðslustofa við Kirkjuveg 3.  Húsnæðið rúmlega 59 m² og er í fjölbýli sem er vel staðsett við miðbæ Ólafsfjarðar.  Eignin skiptist í forstofu, snyrtingu, kaffistofu, setustofu og alrými.  Vinnuaðstaða er fyrir tvo í þessu rými. Óskað er eftir tilboðum í eignina með innbúi. Húsið er byggt árið 1964 og er fasteignamatið 3,9 milljónir. Nánari upplýsingar og myndir hjá Hvammi, Eignamiðlun.  Efri hæð hússins er einnig til sölu, en það er stór hæð, rúmlega 170 m² .

Mynd: Kaupa.is, Hvammur, Eignamiðlun.

 

Golfklúbbur Húsavíkur 50 ára

Golfklúbbur Húsavíkur fagnar um þessar mundir 50 ára afmæli sínu og hyggst ráðast í byggingu nýs golfskála norðan Þorvaldsstaðarár. Golfklúbburinn hefur óskað eftir viðræðum við Norðurþing vegna uppbyggingarsamnings til lengri tíma sem og hefðbundins rekstrarsamnings til skemmri tíma til að reka Katlavöll.

Katlavöllur á Húsavík er rótgróinn golfvöllur í fallegu landslagi. Teigar á mörgum brautum standa hátt og útsýnið er stórfenglegt á vellinum. Fjórða braut vallarins er án efa ein sú allra þekktasta á Íslandi. Stutt par 5 hola þar sem flötin liggur inn í lítilli laut.

Þorvaldsstaðaá rennur í gegnum völlinn og kemur við sögu á alls sex brautum vallarins. Gróður setur mikinn svip á Katlavöll og hafa félagsmenn lagt mikla vinnu í að gera völlinn enn fallegri og skemmtilegri. Um 150 félagsmenn eru í Golfklúbbi Húsavíkur.

Stórt blakmót á Dalvík um helgina

Blakfélagið Rimar í Dalvíkurbyggð heldur árlegt októbermót um næstu helgi. Alls hafa 38 lið skráð sig frá 14 félögum. Reiknað er með yfir 220 iðkendum og þar af eru 29 kvennalið.
Spilað verður á þremur völlum frá föstudagskvöldi og fram á laugardagskvöld. Flest liðin koma af Norðurlandi. Mótið hefur aldrei verið svona stórt eins og í ár sem sýnir hvað blakiðkendum fer fjölgandi. Blakfélag Fjallabyggðar sendir t.d. 6 lið,  KA sendir 5 lið, Rimar 5 lið og Völsungur 4 lið, en önnur félög senda færri lið.
Hótel Dalvík hefur boðið þátttakendum sérstakt tilboð á gistingu og morgunmat.
Ekkert kostar inná mótið fyrir gesti og stuðningsmenn og er fólk hvatt til að koma og horfa á skemmtilegt mót. Sjoppa er á staðnum með kaffi og bekkelsi.

Listi Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Haraldur Benediktsson leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þetta var samþykkt á kjördæmiráðsfundi í Norðvesturkjördæmi.

Aðrir á lista:

 1. Har­ald­ur Bene­dikts­son
 2. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir
 3. Teit­ur Björn Ein­ars­son
 4. Haf­dís Gunn­ars­dótt­ir
 5. Jón­ína Erna Arn­ar­dótt­ir
 6. Aðal­steinn Ara­son
 7. June Scholtz
 8. Unn­ur Val­borg Hilm­ars­dótt­ir
 9. Ásgeir Sveins­son
 10. Stein­unn Guðný Ein­ars­dótt­ir
 11. Sig­ríður Ólafs­dótt­ir
 12. Böðvar Sturlu­son
 13. Pálmi Jó­hanns­son
 14. Guðmund­ur Brynj­ar Júlí­us­son
 15. Þrúður Kristjáns­dótt­ir
 16. Ein­ar Krist­inn Guðfinns­son

Ásmundur Einar í efsta sæti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi

Um helgina fór fram tvöfalt kjördæmisþing Framsóknarflokksins á Bifröst í Borgarfirði. Þar var samþykkt að Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi alþingismaður, muni skipa efsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í næstu alþingiskosningum.  Halla Signý Kristjánsdóttir, fjármálastjóri í Bolungarvík, situr í öðru sæti listans og Stefán Vagn Stefánsson, bæjarfulltrúi og yfirlögregluþjónn, á Sauðárkróki, í því þriðja.

Listi Framsóknar í Norðvesturkjördæmi:

1. Ásmundur Einar Daðason, Borgarnesi
2. Halla Signý Kristjánsdóttir, Bolungarvík
3. Stefán Vagn Stefánsson, Sauðárkrókur
4. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Borgarbyggð
5. Guðveig Anna Eyglóardóttir, Borgarnesi
6. Lilja Sigurðardóttir, Patreksfjörður
7. Þorgils Magnússon, Blönduósi
8. Eydís Bára Jóhannsdóttir, Hvammstanga
9. Einar Guðmann Örnólfsson, Borgarbyggð
10. Jón Árnason, Patreksfirði
11. Heiðrún Sandra Grettisdóttir, Dalabyggð
12. Gauti Geirsson, Ísafirði
13. Kristín Erla Guðmundsdóttir, Borgarnesi
14. Jóhanna María Sigmundsdóttir, Borgarbyggð
15. Elsa Lára Arnardóttir, Akranes
16. Elín Sigurðardóttir, Stykkishólmi

Framboðslisti Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

Framboðslisti Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi var samþykktur einróma á aukafundi kjördæmisráðs á Akureyri í kvöld.  Steingrímur J. Sigfússon leiðir listann, nú eins og stundum áður. Edward Hujibens, nýkjörinn varaformaður Vinstri grænna, er í fjórða sæti listans, en á undan honum í röðinni er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður og Ingibjörg Þórðardóttir, framhaldsskólakennari. Í heiðurssæti listans er Kristín Sigfúsdóttir, en hún er systir Steingríms,  sem er í fyrsta sætinu.

 

 1. Steingrímur Jóhann Sigfússon, alþingismaður, Gunnarsstöðum.
 2. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, alþingismaður, Ólafsfirði.
 3. Ingibjörg Þórðardóttir, framhaldsskólakennari, Neskaupstað.
 4. Edward H. Huijbens, varaformaður Vinstri grænna, prófessor, Akureyri.
 5. Óli Halldórsson, forstöðumaður og sveitarstjórnarfulltrúi, Húsavík.
 6. Berglind Häsler, bóndi og matvælaframleiðandi, Djúpavogshreppi.
 7. Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi, Akureyri.
 8. Sindri Geir Óskarsson, guðfræðingur, Dæli.
 9. Þuríður Skarphéðinsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Egilsstöðum.
 10. Hjördís Helga Seljan, grunnskólakennari, Reyðarfirði.
 11. Aðalbjörn Jóhannsson, nemi, Húsavík.
 12. Helgi Hlynur Ásgrímsson, sjómaður, Borgarfirði eystri.
 13. Jóna Björg Hlöðversdóttir, bóndi og varaformaður Ungra bænda, Björgum.
 14. Tryggvi Kristbjörn Guðmundsson, smiður, Dalvík.
 15. Sif Jóhannesdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og sveitarstjórnarfulltrúi, Húsavík.
 16. Björn Halldórsson, bóndi, Akri, Vopnafirði.
 17. Þórunn Hrund Óladóttir, kennari, Seyðisfirði.
 18. Hrafnkell Freyr Lárusson, doktorsnemi, Breiðdalsvík.
 19. Þorsteinn V. Gunnarsson, sérfræðingur hjá Rannís og fyrrv. rektor, Akureyri.
 20. Kristín Sigfúsdóttir, fyrrv. framhaldsskólakennari og bæjarfulltrúi, Akureyri.

Aukaleikara vantar í Ófærð 2 á Siglufirði

Tilkynning frá RvkStudios vegna þáttanna Ófærðar 2 sem teknir verða upp á Siglufirði.

Kæru íbúar.

Nú fara tökur að hefjast á Ófærð 2 og verðum við í tökum frá 13. október til 28. október á Siglufirði. Við erum að leita eftir aukaleikurum á öllum aldri og öllum stærðum til að vera með okkur í tökum yfir þetta tímabil. Þetta eru stórar hópasenur þannig að okkur vantar mikið af fólki, svo ekki hika við að sækja um.

Endilega sendið umsókn og fyrirspurnir á extras@rvkstudios.is með nýlegri mynd og upplýsingum.

 

Dear residents

We are about begin the shooting of Trapped 2 and we will be shooting from the 13th of october until the 28th of october around the area. We are looking for extras of all ages, shapes and sizes over the shooting period. We are shooting big scense and we are looking for alot of people so don´t hesitate to apply.

Please send the application and questions to extras@rvkstudios.is with a recent photo and information.

 

Blakfélag Fjallabyggðar tapaði naumlega í Hveragerði

Blakfélag Fjallabyggðar mætti í dag Hamar frá Hveragerði. BF mætti með níu manna lið auk þjálfara og aðstoðarþjálfara. BF vann fyrstu hrinuna 18-25 og byrjuðu leikinn vel. Í annari hrinu var jafnræði með liðum og unnu heimamenn 25-23. BF vann þriðju hrinuna örugglega 15-25 og leiddu 1-2 og gátu með sigri í næstu hrinu unnið leikinn. Fjórða hrinan var jöfn og endaði svo að heimamenn voru sterkari og unnu 25-22, og staðan orðin 2-2. Í fimmtu hrinu voru heimamenn með færri mistök og kláruðu leikinn 15-12 og unnu samanlegt 3-2.

Sjóða þarf neysluvatn í Ólafsfirði

Staðfest hefur verið að sýni sem Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra tók fimmtudaginn 5. október síðastliðinn í Ólafsfirði, innihéldu Escherichia coli (E. coli) gerla. Vatnsveitan í Ólafsfirði fær vatn úr tveim vatnsbólum það er úr Múla og Brimnesdal. Niðurstaða sýnatöku gaf til kynna að vatnsbólið sem þjónar einkum nyrðri hluta bæjarins m.a. fiskvinnslunum á Ólafsfirði sé í lagi og vandinn sé bundinn við vatnsbólið í Brimnesdal.

Flestar E. coli bakteríur eru skaðlitlar, en ef E. coli finnst í neysluvatni, þá bendir það til þess að hættulegar bakteríur geti leynst í vatninu. Íbúum er því ráðlagt sem varúðarráðstöfun að sjóða vatnið.  Umhverfis- og tæknideild Fjallabyggðar hefur verið upplýst um málið og hefur nú þegar hafið vinnu við endurbætur.

Fyrsti sigur Blakfélags Fjallabyggðar í 1. deild karla

Blakfélag Fjallabyggðar heimsótti Stjörnumenn(3) í íþróttahúsið Álftanesi í gær. BF mætti með 12 leikmenn, en félagið hefur spilandi þjálfara, Raul Rocha og aðstoðarþjálfari er Anna María Björnsdóttir. Í skýrslu dómara kom fram að heimamenn hefðu ekki útvegað boltasæki en lið BF var það fjölmennt að þeir björguðu því. Stjörnumenn höfðu aðeins 8 leikmenn á skýrslu, þar af voru 4 erlendir leikmenn. Að auki kom fram í skýrslu dómara að línur hefði verið ógreinilegar og að ekki hefði verið hægt að strekkja netið nægjanlega vel.

En það voru gestirnir úr Fjallabyggð sem byrjuðu leikinn að krafti og voru ekki nema 15 mínútur að vinna fyrstu hrinu, 15-25. Næsta hrina var jöfn, en heimamenn lönduðu sigri, 25-23 og jöfnuðu leikinn í 1-1. Í þriðju hrinu unnu heimamenn nokkuð örugglega, 25-16. Fjórða hrina var jöfn og spennandi og unnu gestirnir úr Fjallabyggð 24-26. Í úrslitahrinunni var einnig jafnræði með liðunum, en gestirnir úr Fjallabyggð lönduðu sigri, 13-15, og 2-3 í hrinum. Fyrsti sigurinn í hús hjá Blakfélagi Fjallabyggðar í 1. deild karla.

Vilja jöfnun á eldsneytisverði vegna millilandaflugs til og frá Akureyri og Egilsstöðum.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur skorað á stjórnvöld, fjármálaráðherra og ekki síst tilvonandi þingmenn að beita sér fyrir breytingu á núgildandi lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara. Í núgildandi lögum er kveðið á um að jöfnun á flutningskostnaði nái ekki til eldsneytis vegna millilandaflugs.

“Staðan er því sú að flugvélaeldsneyti vegna millilandaflugs er mun dýrara á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík og Reykjavík. Unnið hefur verið að því um árabil að koma á millilandaflugi til Akureyrar og áhugi flugrekstraraðila á því hefur aukist. Ljóst er að verð á eldsneyti getur skipt sköpum í því að þetta verði að veruleika og því afar mikilvægt að nú þegar verði tryggt að verð á flugvélaeldsneyti til notkunar í millilandaflugi sé það sama á öllum alþjóðaflugvöllum landsins. Hér er um byggðasjónarmið að ræða sem skiptir miklu máli við að styðja við og efla byggð í landinu. Það er ljóst að með því að fjölga gáttum inn í landið má jafna fjölda ferðamanna um landið og fjölga þeim ferðamönnum sem koma aftur, en þá á aðra staði en suður- og vesturhluta landsins. Þetta er ekki síður mikilvægt í ljósi þess að dvalartími ferðamanna hefur styst og ein afleiðing þess virðist vera fækkun gistinátta á Norðurlandi. Með tilkomu Flugþróunarsjóðs átti að veita flugfélögum styrki til að hefja millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða en eins og staðan er nú fer megnið af áætluðum styrk til jöfnunar á eldsneytisverði sem aldrei var ætlunin í upphafi. Það er því ófrávíkjanleg krafa bæjarstjórnar að jöfnun á flutningskostnaði á flugvélaeldsneyti verði að veruleika sem allra fyrst.”

Þetta kemur fram í bókun Bæjarstjórnar Akureyrarbæjar.

Ljósmyndasýningin Ein á dag í Bergi

Ljósmyndasýningin Ein á dag er í Bergi menningarhúsi á Dalvík og stendur til 31. október.  Júlíus Júlíusson hefur tekið eina mynd á dag frá 1. janúar 2017 og sett á Instagram reikning sinn @hulio66. Þetta skemmtilega verkefni varð til í göngutúr með allri fjölskyldunni að kvöldi fyrsta dags ársins 2017 þegar Júlíus tók mynd af krossfiski í fjörunni á Dalvík. Til varð hugmyndin “Ein á dag!” út árið.  Nú í október sýnir Júlíus fyrri hluta ársins eða 181 mynd í Menningarhúsinu Bergi.

Myndirnar á sýningunni verða til sölu og fást í fallegum römmum hvítum eða svörtum 23 x 23 og myndirnar sjálfar eru 13 x 13. Hver mynd hefur sína dagsetningu og nafn og er merkt þannig, því er gaman að gefa þær til þeirra sem eiga afmæli viðkomandi dag. Allar myndirnar eru teknar á Samsung 7 edge síma.

 

Enn leitað eftir dagforeldrum í Skagafirði

Fjölskyldusvið Sveitarfélagsins Skagafjarðar leitar eftir samstarfi við aðila sem gætu hugsað sér að taka börn í daggæslu á einkaheimili á Sauðárkróki eða næsta nágrenni. Sveitarfélagið hefur samþykkt hækkun á niðurgreiðslum og reglur sem fela í sér tekjutryggingu og þannig aukið atvinnuöryggi dagforeldra. Sveitarfélagið vill leita frekari leiða til að gera starfið meira aðlaðandi.

Dagforeldrar eru sjálfstætt starfandi verktakar sem taka að sér daggæslu barna á heimili sínu. Félags- og tómstundanefnd veitir starfsleyfi að vissum skilyrðum uppfylltum og Fjölskyldusvið annast niðurgreiðslur vistgjalds, veitir dagforeldrum ráðgjöf og stuðning og sinnir eftirliti með starfseminni eins og kveðið er á um í reglugerð velferðarráðuneytisins nr. 907 frá árinu 2005.

Nánari upplýsingar  veitir Gunnar Sandholt, félagsmálastjóri í síma 4556000 eða með tölvupósti sandholt@skagafjordur.is.

 

15 brautskráðir frá Háskólanum á Hólum

Í gær fór fram brautskráning frá Háskólanum á Hólum við hátíðlega athöfn í Hóladómkirkju. Erla Björk Örnólfsdóttir rektor skólans hélt ávarp ásamt Haraldi Benediktssyni þingmanni.
Alls brautskráðust 15 nemendur, allir af grunnnámsstigi háskólans. Þrír með diplómu í viðburðastjórnun, þrír með BA-gráðu í ferðamálafræði, þrír með diplómu í reiðmennsku og reiðkennslu og sex í fiskeldisfræði. Þar með eru brautskráningar frá Háskólanum á Hólum í ár orðnar alls 74.
Að athöfn lokinni var viðstöddum boðið til veglegs kaffisamsætis, sem Ferðaþjónustan á Hólum annaðist, á veitingastaðnum Undir Byrðunni.

Ljóðahátíðin Haustglæður

Ljóðahátíðin Haustglæður heldur áfram á Siglufirði. Næsti viðburður er á Ljóðasetrinu þriðjudagskvöldið 10. október kl. 20.00.  Valgerður H. Bjarnadóttir húsfreyja í Davíðshúsi á Akureyri, fjallar um um ástarljóð Davíðs Stefánssonar og ástina í lífi hans. Hún gluggar í bréf og bækur, les ljóð og leyfir sér að velta upp hugmyndum um hver þessi maður var, sem hefur hrifið konur og karla í 100 ár.

Davíð er skáld ástarinnar. Hann elskar heitt og einlæglega, oft blítt og barnslega, en stundum er ástin full dulúðar, djúp, tryllt og jafnvel tortímandi.  Áhugavert erindi þar sem m.a. er vitnað í bréf hans til ástkvenna sinna, óbirtar greinar og svo að sjálfsögðu ljóð hans sem lifað hafa með þjóðinni í næstum hundrað ár.

Valgerður H. Bjarnadóttir ólst upp með ljóðum og öðrum verkum Davíðs, eins og þúsundir annarra Íslendinga. Hún las þau, lærði og tengdist sumum þeirra sterkum böndum. Undanfarin sumur hefur hún verið í hlutverki húsfreyju í Davíðshúsi og sökkt sér á ný inn í þennan heim ástar, sögu, trúar, ævintýra og þjáningar, sem fáir hafa náð að mála eins sterkum litum og Davíð. Valgerður er félagsráðgjafi með MA í trúarheimspeki og menningarsögu.

Síldarminjasafnið hlaut Umhverfisverðlaun ferðamálastofu 2017

Síldarminjasafnið á Siglufirði hefur hlotið Umhverfisverðlaun ferðamálastofu árið 2017 fyrir fegrun umhverfis og bætt aðgengi. Verkefnið var lokaáfangi í byggingu bryggjupalla milli safnhúsanna þriggja og uppsetningu lýsingar á svæðinu.

Tenging safnhúsanna þriggja hefur skapað nauðsynlega heildarmynd safnsvæðisins og auðveldað öllum gott aðgengi milli húsa. „Frágangur bryggju og ljósastaura endurvekur tíðaranda en hafa verið aðlagaðir nýju hlutverki. Þessar framkvæmdir hafa að mati dómnefndar verið vel unnar, skapað fallega bæjarmynd og náð að fanga þann staðaranda sem byggir á bæjarsögunni,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, þegar hún tilkynnti um verðlaunin á Ferðamálaþingi 2017 í Hörpu í vikunni og afhenti fulltrúum Síldarminjasafnsins, þeim Anitu Elefsen og Örlygi Kristfinnssyni, verðlaunagripinn Sjónarhól.

Ásýnd bæja, fagurfræðileg gæði og styrking staðaranda er afar mikilvæg fyrir íbúa, en einnig mikilvægur hlekkur í þeirri viðleitni að laða ferðamenn á nýja staði utan þeirra leiða sem mest eru ásetnar nú. Styrking ferðaþjónustu í þéttbýliskjörnum við strendur landsins og uppbygging þjónustutækifæra á þeim stöðum er skref í að stuðla að sjálfbærni ferðaþjónustunnar hér á landi,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Menningar- og atvinnusaga verður að sterku aðdráttarafli

Það var mat dómnefndar að Síldarminjasafnið á Siglufirði sé gott dæmi um frumkvöðlavinnu, þar sem menningar- og atvinnusaga bæjarfélags hefur orðið að aðdráttarafli fyrir ferðafólk og verið mikilvægur liður í að endurnýja bæjarbraginn. Umhverfismálin, ásýnd og aðgengi eru afar mikilvægir þættir í þeirri sköpun.

Dómnefndin í ár var skipuð Halldóri Eiríkssyni arkitekt og formanni stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, Helenu Guttormsdóttur lektor og námsbrautastjóra Umhverfisskipulagsbrautar Landbúnaðarháskóla Íslands og Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra.

Veitt árlega frá árinu 1995

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og var þetta því í 23. sinn sem þau voru afhent. Undanfarin ár hefur sá háttur verið að á að velja verðlaunahafa úr tilnefningum sem borist hafa Ferðamálastofu. Verðlaunin eru nú í annað sinn veitt fyrir verkefni sem hlotið hafa styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða á tímabilinu 2014-2016 og eru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi umhverfistefnu Ferðamálstofu og áherslur Framkvæmdasjóðsins um sjálfbæra þróun og gæði hönnunar og skipulags.

Heimild: ferdamalastofa.is.