All posts by Magnús Rúnar Magnússon

KF sigraði Berserki

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar keppti við Berserki í 3. deild karla á Ólafsfjarðarvelli í dag.  Benjamin O’Farrell spilaði sinn fyrsta leik í byrjunarliði KF og átti eftir að nýta tækifærið vel en hann hafði komið tvisvar inná sem varamaður í fyrstu leikjum Íslandsmótsins. KF gerði fyrsta mark leiksins á 42. mínútu og var það Benjamin O’Farrell sem gerði það. Staðan var 1-0 í hálfleik en Berserkir náðu að jafna leikinn á 57. mínútu. Aðeins sex mínútum síðar komst KF aftur yfir og var það inn Nýsjálenski Benjamin O’Farrell með sitt annað mark í leiknum. Lokatölur leiksins urðu 2-1 og þrjú stig í hús hjá heimamönnum sem hafa nú sex stig eftir þrjá leiki. KF leikur næst útileik gegn Kára á Akranresi eftir viku.

Reitir ekki á Siglufirði í sumar

Reitir, Alþjóðlegt skapandi samvinnuverkefni hefur verið haldið á Siglufirði síðustu ár fimm ár og sett mikinn svip á bæinn. Verkefnið verður ekki haldi í ár heldur munu stjórnendur Reita einbeita sér að lærdómi frá nýútgefinni bók Reita og þróa smiðjuna áfram. Samvinnuverkefnið Reitir mun ekki starfa í þessari mynd áfram heldur verður nýtt samstarf milli Alþýðuhússins og nýrri listastofnum sem heitir USE. Stjórnendur Reita munu einnig í sumar vinna að spennandi þróunarverkefni og munu kynna lausnina í Alþýðuhúsinu 14.-16. júlí í sumar á Siglufirði.

 

Þórarinn endurkjörinn formaður UÍF á ársþingi

Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar hélt ársþing sitt í Ólafsfirði 23. maí síðastliðinn. Alls voru 24 þingfulltrúar mættir af 32 sem rétt höfðu til þingsetu.  Þingforseti var Linda Lea Bogadóttir.  Töluverðar breytingar voru gerðar á reglugerð um lottóúthlutun til aðildarfélaga sem lutu aðallega að því að styðja enn betur við yngri iðkendur. Þórarinn Hannesson var endurkjörinn formaður UÍF með lófaklappi.

Guðný Helgadóttir, fyrrum formaður UÍF, var sæmd Gullmerki ÍSÍ fyrir hennar góðu störf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Guðný var kjörin fyrsti formaður Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar árið 2009, eftir sameiningu ÍBS og UÍÓ og gegndi því embætti allt til ársins 2016. Ingi Þór Ágústsson afhenti Guðnýju heiðursviðurkenninguna á þinginu fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ.

Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri voru fulltrúar ÍSÍ á þinginu.

Heimild: isi.is

Útboð í ræstingu stofnana Dalvíkurbyggðar

Dalvíkurbyggð óskar eftir tilboðum í reglulega ræstingu og aðrar ræstingar á húsnæði Dalvíkurbyggðar. Um er að ræða u.þ.b. 2.516,9 fermetra húsnæði í 3 aðskildum byggingum sem eru: Bæjarskrifstofur, Krílakot og Víkurröst. Jafnframt útboði á reglulegri ræstingu er óskað eftir tilboðum í einingaverð í hverja unna klst. við hreingerningar.
Reiknað er með að ræsting á grundvelli útboðsins hefjist þann 1. september 2017.
Útboðsgögn verða afhent á bæjarskrifstofum Dalvíkurbyggðar, Ráðhúsinu, 620 Dalvík. Tilboðin verða opnuð á sama stað
miðvikudaginn 21. júní kl. 13:30 að viðstöddum þeim sem þess óska.

Málþing um Vaðlaheiðargöng

Málþing um stöðu mála í Vaðlaheiðargöngum fer fram í  Menningarhúsinu Hofi á Akureyri mánudaginn 29. maí næstkomandi. Vaðlaheiðargöng hf. standa fyrir málþinginu.  Viðburðurinn hefst klukkan 16:00 og stendur til klukkan 18:00.  Skráning fer fram á Mak.is.

Framsögumenn eru:

 • Dagbjört Jónsdóttir, sveitastóri fjallar um gildi Vaðlheiðarganga fyrir samfélagið.
 • Björn A. Harðarsson, umsjónarmaður verkkaupa.  – Helstu áskoranir og frávik við gerð Vaðlheiðarganga.
 • Friðleifur Ingi Brynjarsson, Vegagerðin.  – Umferðaþróun.
 • Ólafur Ásgeirsson, IFS Greining.  – Viðskiptaáætlun Vaðlaheiðarganga.

Málþinginu lýkur með pallaborðsumræðum með þátttöku frummælenda.

 

KF keppir á Ólafsfjarðarvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætir Berserkjum á Ólafsfjarðarvelli næstkomandi laugardag kl. 14:00, í 3. deild karla. Í tilkynningu frá KF eru allir íbúar Fjallabyggðar hvattir til að mæta á völlinn og hvetja strákana til dáða.
Fyrstu tveir leikirnir hafa sýnt að 3. deildin verður erfið í sumar og mikilvægt að njóta góðs stuðnings áhorfenda, jafnt heima sem heiman. – Segir formmaður KF.
KF hefur unnið einn leik og tapað einum og er þetta þriðja umferð Íslandsmótsins. Lið Berserkja er án stiga í neðsta sæti, hefur skorað eitt mark og fengið á sig ellefu mörk. Berserkir komu upp úr 4. deildinni í fyrra og eru nýliðar í 3. deild.

Fiskbúð Fjallabyggðar auglýst til sölu

Fiskbúð Fjallabyggðar við Aðalgötuna á Siglufirði hefur verið auglýst til sölu. Eigendur eru Hákon Sæmundsson og Valgerður Þorsteinsdóttir en þau keyptu búðina af Eysteini Aðalsteinssyni sem hafði staðið vaktina þarna í um 40 ár. Þau breyttu búðinni áður en hún var opnuð í júní 2016. Hjónin segja að eftir mikla umhugsun hafi þetta verið niðurstaðan.

Héðinsfjörður.is birti viðtal við þau í júní 2016 þegar þau höfðu nýlega opnað búðina sem lesa má hér á vefnum.

 

Ekkert Síldarævintýri í ár

Enginn aðili vildi taka að sér framkvæmd Síldarævintýris 2017, en Fjallabyggð auglýsti eftir áhugasömum aðila til viðræðna við sveitarfélagið. Engin viðbrögð voru við auglýsingunni og hefur því verið ákveðið að halda ekki Síldarævintýrið í ár.

Fjallabyggð mun hins vegar halda fjölskylduhátíðina Trilludaga  29.-30. júlí í sumar.

Hátíð hjá Weyergans Studió Sigló

Fyrirtækið Weyergans Studió Sigló er staðsett að Hólavegi 83 á Siglufirði og sérhæfir sig í heilsumeðferðum og vörum þeim tengdum. Nokkrar meðferðir eru í boði,  innrauð gufa, sogæða- og andlitsmeðferðir ásamt meðferðum sem flýta fyrir endurheimt eftir æfingar og flýta fyrir bata eftir aðgerðir og meiðsl.
Á miðvikudag og fimmtudag (24.-25. maí) verður mikil hátíð hjá fyrirtækinu en þá mun Sandra eigandi Heilsu og útlit, sem staðsett er í Kópavogi koma í heimsókn. Sandra mun bjóða upp á fitufrystingu ef áhugi er nægur og verða áhugasamir að hafa samband sem fyrst til að bóka tíma.
Á miðvikudeginum verður 50% afsláttur á öllum meðferðum ásamt tilboðum á kortum og vörum. Því er tilvalið að hafa samband og bóka tíma enda afslátturinn frábær.
Á fimmtudeginum verður svo opið hús á milli kl 13 og 18 þar sem áhugasamir geta kíkt í heimsókn, skoðað aðstöðuna, fengið fræðslu um meðferðirnar og vörurnar sem í boði eru og síðast en ekki síst fengið 15 mínútna ókeypis prufutíma í ýmsar meðferðir (getur verið öruggara að panta prufutíma).
Endilega hafið samband við Önnu Maríu í síma 699-8817 ef þið viljið panta tíma eða fá nánari upplýsingar.
Með kveðju, eigendur Weyergans Studió Sigló.

Texti: Auglýsing – Aðsent.

Skráning í Vinnuskólann í Skagafirði

Skráningar eru byrjaðar í Vinnuskóla Skagafjarðar sem verður starfræktur frá 6. júní til 11. ágúst. Skólinn er fyrir börn á aldrinum 13-16 ára, fædd 2001-2004. Skráningu þarf að vera lokið fyrir 25. maí næstkomandi.  Yngstu krakkarnir starfa í 2 vikur, þau næstyngstu, 14 ára, í 4 vikur, 15 ára í 6 vikur og 16 ára í 8 vikur.

Sautján brautskráðir frá MTR

Sautján nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga um helgina og hafa þá 160 lokið námi á þeim sjö árum sem skólinn hefur starfað. Sjö þeirra sem brautskráðust voru fjarnemar og voru þeir allir viðstaddir utan einn. Þetta er stærsti fjarnemahópur sem skólinn hefur útskrifað. Á vorönn voru nemendur við skólann um 340 og hafa aldrei verið fleiri. Þar af voru fjarnemar um 240. Átta nemendur útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, tveir af íþróttabraut – íþróttasviði, tveir af náttúruvísindabraut, tveir af listabraut – myndlistarsviði og tónlistarsviði, tveir af starfsbraut og einn lauk viðbót við starfsnám til stúdentsprófs. Lára Stefánsdóttir skólameistari flutti ávarp og ræddi hraðar breytingar á vinnumarkaði.

Tveir nýstúdentar fluttu ávarp, Erla Marý Sigurpálsdóttir, fyrir hönd staðnema og Hafrún Eva Kristjánsdóttir fyrir hönd fjarnema.  Sérstök verðlaun fyrir afburða námsárangur hlaut Erla Marý Sigurpálsdóttir sem var dúx skólans með 9,17 í meðaleinkunn. Hún fékk einnig verðlaun fyrir árangur í dönsku, ensku, íþróttum og stærðfræði.

Texti og mynd: mtr.is

 

Fjölmenni við móttökuathöfn Sólbergs

Það var fjölmenni sem beið eftir að komast upp í nýja frystitogarann Sólberg í Fjallabyggð. Nokkur ávörp voru áður en gestir fengu að stíga um borð.  Ólafur Marteinsson framkvæmdastjóri Ramma bauð gesti velkomna og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fluttu ávarp. Að lokum var það sóknarpresturinn í Ólafsfirði, Sr. Sigríður Munda Jónsdóttir sem blessaði skipið.

 

KF tapaði í 8 marka leik

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar keppti við Vængi Júpíters í Egilshöll í Grafarvogi í dag í 3. deild karla. Vængir Júpíters eru á sínu öðru ári í 3. deildinni en liðið vann sig upp úr 4. deild árið 2015. Heimamenn byrjuðu leikinn betur og voru komnir í 2-0 eftir 12. mínútur. KF svaraði á 29. mínútu með marki frá Ljubomir Delic, hans annað mark í tveimur leikjum með KF.  Heimamenn komust  svo í 3-1 á 37. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. KF minnkaði svo muninn á 52. mínutu með marki frá Vítor Vieira, hans annað mark í tveimur deildarleikjum í sumar. Staðan 3-2, en Vængir Júpíters fengu vítaspyrnu á 56. mínútu og skoruðu og voru komnir í góða stöðu, 4-2. Grétar Áki skoraði fyrir KF á 71. mínútu, staðan 4-3 og smá séns fyrir KF að jafna. Svo fór að heimamenn skoruðu lokamarkið í leiknum á 90. mínútu og urðu því lokatölur 5-3 í þessum mikla markaleik. KF notaði sínar 5 skiptingar og þar af tvær í kringum hálfleikinn. Liðið fékk fjögur gul spjöld í leiknum á móti einu hjá heimamönnum.

Leikskýrsluna má lesa á vef KSÍ.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands svarar íbúum Fjallabyggðar

Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands hefur sent íbúum Fjallabyggðar eftirfarandi pistil:

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hefur borist undirskriftalisti íbúa og bókun sveitarstjórnar Fjallabyggðar varðandi þá ákvörðun HSN að leggja niður sjúkraflutningavakt í Ólafsfirði. Stofnunin hefur skoðað þau sjónarmið sem komið hafa fram í samtölum við sveitarstjórnamenn og íbúa í Fjallabyggð varðandi umrædda ákvörðun. Ákvörðunin um að vera með tvær vaktir sjúkraflutninga á Dalvík og Fjallabyggð í stað þriggja, er tekin eftir vandlega greiningu og samráð. Auknar kröfur um menntun og þjálfun sjúkraflutningamanna gera það að verkum að nauðsynlegt er að reka færri og öflugri lið. Stofnunin mun því standa við ákvörðun sína og telur að með því verði þjónustan öflugri til lengri tíma litið.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands kemur að uppbyggingu vettvangsliða á fjölmörgum stöðum á starfssvæðinu. Slík lið eru byggð upp í samstarfi við björgunarsveit og/eða slökkvilið viðkomandi byggðarlaga og verður til framtíðar ein styrkasta stoðin í öryggi íbúa á starfsvæði HSN. Hlutverk vettvangsliða er að koma að bráðum atburðum en ekki að flytja sjúklinga. HSN hefur áhuga á að koma að uppbyggingu slíks liðs í Ólafsfirði.

Varðandi opnunartíma heilsugæslu í Ólafsfirði þá eru þær breytingar m.a. tengdar læknamönnun yfir sumarmánuðina og til að hafa meiri samfellu í þjónustunni. Þjónusta heilsugæslunnar í Fjallabyggð er með því allra besta sem gerist á starfssvæði stofnunarinnar. Stefnt er að því að efla hana enn frekar með aukinni mönnun hjúkrunarfræðinga og ráðningu sálfræðings á starfssvæðið.

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins á Siglufirði

Skemmtiferðaskipið Ocean Diamond kom til Siglufjarðar í morgun og er það fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins.  Skipið er á 10 daga siglingu um landið og stoppar á 9 stöðum og getur tekið 190 farþega. Á Norðurlandi er þetta Siglufjörður, Grímsey, Akureyri og Húsavík.  Siglingin byrjar svo og endar í Reykjavík.  Stoppað er í hálfan dag á Siglufirði og er Síldarminjasafnið meðal annars heimsótt. Skipið lagði af stað frá Reykjavík þann 16. maí og endar aftur í Reykjavík 25. maí. Alls er von á 35 skipakomum til Siglufjarðar í sumar sem er met.

Tillaga starfshóps um samþættingu skóla- og frístundastarfi í Fjallabyggð

Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum í dag þann 18. maí eftirfarandi tillögu starfsfólks um samþættingu á skóla- og frístundastarfi í Fjallabyggð.

 • Samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar frá 21. apríl 2017 verður 1.-5. bekk grunnskólans kennt í húsnæði skólans á Siglufirði og 6.-10. bekk í húsnæði skólans í Ólafsfirði.
 • Starfshópurinn leggur til að kennsla barna í 1.-5. bekk hefjist kl. 8:30. Lýkur þá kennslu 1.-4. bekkjar kl. 13:30 og kennslu 5. bekkjar kl. 14:30.
 • Starfshópurinn leggur til að skólabíll fari frá Ólafsfirði kl. 8:05 og að boðið verði upp á gæslu fyrir nemendur 1.-5. bekkjar í skólahúsnæði á Siglufirði frá kl. 8:00. Þar verði boðið upp á hafragraut fyrir nemendur 1.-5. bekkjar, foreldrum að kostnaðarlausu, áður en kennsla hefst. Foreldrar skrá börn sín í morgunmat á Mentor.
 • Að loknum skóladegi 1.-4. bekkjar taki við skipulagt íþrótta- og tómstundastarf sem kallað verður Frístund og varir frá kl. 13:30 til 14:30.
 • Í upphafi skólaárs og við áramót gefst nemendum 1.-4. bekkjar kostur á að skrá sig í Frístund og velja á milli mismunandi valkosta í íþrótta- og tómstundastarfi.

Markmið með Frístund

 • Að efla og styðja við félagsleg tengsl og þroska nemenda.
 • Að jafna möguleika nemenda til að stunda tómstundastarf.
 • Að allir nemendur hafi aðgang að félagsskap að loknum skóladegi.
 • Að gefa nemendum kost á að sækja íþróttaæfingar og tónlistarskóla í beinu framhaldi af skóladegi.
 • Að a.m.k. 90% nemenda nýti sér frístund að loknum skóladegi.

Leiðir að markmiðum

 • Sett verður upp skipulag að Frístund í beinu framhaldi af skóladegi. Frá kl. 13:30- 14:30 eiga allir nemendur í 1.-4. bekk kost á að velja sér viðfangsefni sem tengist tómstundastarfi, tónlistarnámi eða íþróttaæfingum.
 • Tómstundastarf (annað en tónlistarnám og íþróttaæfingar) er nemendum að kostnaðarlausu.
 • Nemendur sem velja tónlistarnám á frístundartíma þurfa að vera skráðir nemendur í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga
 • Nemendur sem velja íþróttaæfingar á frístundartíma þurfa að vera skráðir iðkendur hjá viðkomandi félagi.
 • Að lokinni Frístund fá nemendur ávaxtabita áður en haldið er heim eða farið í Lengda viðveru. Ávaxtabiti verður einnig í boði fyrir nemendur 5. bekkjar. Ávaxtabiti verður í boði án endurgjalds.

Tónlistarnám

 • Einkakennsla fer fram í húsnæði Tónlistarskólans við Aðalgötu, Siglufirði. Kennarar tónlistarskólans sækja börn og fylgja til baka í skólann við Norðurgötu óski foreldrar þess.
 • Samhæfingar og samspil fer fram í húsnæði tónlistarskólans við Aðalgötu, Siglufirði. Kennarar tónlistarskólans sækja börn og fylgja til baka í skólann við Norðurgötu.
 • Kóræfingar fara fram í húsnæði Grunnskólans við Norðurgötu.

Íþróttaæfingar

 • Íþróttaæfingar fara bæði fram í íþróttasal grunnskólans við Norðurgötu og í Íþróttamiðstöðinni.
 • Iðkendum verður keyrt til og frá íþróttamiðstöð.
 • Íþróttafélög sem bjóða upp á íþróttaæfingar í Frístund eru Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, Blakfélag Fjallabyggðar, Tennis- og babmintonfélag Siglufjarðar og Ungmennafélagið Glói.

Lengd viðvera

 • Lengd viðvera tekur við að lokinni Frístund kl. 14:30- 16:00 í skólahúsnæði grunnskólans á Siglufirði fyrir þá sem það kjósa. Greitt er fyrir Lengda viðveru samkvæmt gjaldskrá. Í Lengdri viðveru verður m.a. boðið upp á frjálsan leik, heimanámsaðstoð og síðdegishressingu.
 • Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu strax að lokinni Lengdri viðveru kl. 15:45. Með því móti er skóladagur barna sem nýta sér Lengda viðveru jafn langur.

Skólabíll

 • Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu að loknum skóladegi kl. 13:35 fyrir þá nemendur 1.-4. bekkjar sem ekki hafa hug á að nýta sér Frístund.
 • Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu strax að lokinni Frístund kl. 14:35 fyrir þá nemendur 1.-4. bekkjar sem ekki nýta sér Lengda viðveru og nemendur 5. bekkjar sem þá hafa lokið skóladegi.
 • Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu með börn úr Lengdri viðveru kl. 15:45.
 • Rútuliði verður í öllum ferðum skólabíls.

Mat á Frístund

 • Að minnsta kosti 1x í mánuði er haldinn fundur með starfsfólki Frístundar þar sem farið er yfir starfið í Frístund og fundnar leiðir til að laga það sem úrskeiðis fer.
 • Meta skal árangur og ánægju með Frístund árlega meðal foreldra. Í því mati er horft til markmiða með Frístund.

Ábyrgð og utanumhald á Frístund

 • Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála ber ábyrgð á starfi Frístundar og heldur utan um það í samvinnu við Grunnskólann í Fjallabyggð, Tónlistarskólann á Tröllaskaga og þau íþróttafélög sem taka þátt í starfinu.
 • Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála boðar til samráðsfundar vegna Frístundar og sér til þess að starfið sé metið.
 • Ritari Grunnskóla Fjallabyggðar tekur á móti skráningum í Frístund og útbýr þátttökulista.

Hugmynd að skipulagi Frístundar

Hugmynd að skipulagi Frístundar

Á fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar þann 21. apríl sl. var starfshópur um samþættingu á skóla- og frístundastarfi skipaður. Eftirtaldir aðilar voru skipaðir í hópinn:

Helga Helgadóttir, forseti bæjarstjórnar
Steinunn María Sveinsdóttir, formaður bæjarráðs
S. Guðrún Hauksdóttir, formaður fræðslu- og frístundanefndar
Jónína Magnúsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar
Ríkey Sigurbjörnsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar
Magnús G. Ólafsson, skólastjóri Tónlistarskólans á Tröllaskaga

Starfshópurinn fundaði fimm sinnum. Á einn af þeim fundum mættu 7 fulltrúar íþróttafélaga í Fjallabyggð og ræddu um mögulega aðkomu íþróttafélaganna að skipulagningu frístundastarfs strax að loknu skólastarfi. Í framhaldinu lýstu 4 íþróttafélög yfir vilja til þess að taka þátt í starfinu, þ.e. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, Blakfélag Fjallabyggðar, Ungmennafélagið Glói og Tennis-og badmintonfélag Siglufjarðar.

Meirihluti bæjarstjórnar Fjallabyggðar þakkar fulltrúum grunnskóla, tónlistarskóla og íþróttafélaga fyrir þeirra framlag til samþættingar á skóla- og frístundastarfi fyrir börn í
1.-4. bekk. Meirihluti bæjarstjórnar telur að hér hafi stórt og mikilvægt framfaraskref verið stigið í þágu frístundastarfs barna í sveitarfélaginu og vonast til þess að jákvæð viðbrögð fulltrúa íþróttafélaga í Fjallabyggð leiði til áframhaldandi samþættingar á skóla- og frístundastarfi fyrir börn og unglinga.

Texti: fjallabyggd.is

Fjallabyggð svarar foreldrafélagi Grunnskóla Fjallabyggðar

Fjallabyggð hefur svarað Foreldrafélagi Grunnskóla Fjallabyggðar vegna breytinga á skólastarfi Grunnskóla Fjallabyggðar.

Greiningarvinna
Ítrekað hefur verið bent á að ytra mat Menntamálastofnunar sem framkvæmt var í október 2015 er grundvallarskoðun á skólanum. Í því felst greining á skólanum, styrkleikum hans og veikleikum, ógnunum og tækifærum sem framkvæmd er af óháðum aðilum. Þar sem ný slík greining liggur fyrir var og er ekki talin ástæða til að framkvæma aðra slíka greiningu. Þetta hefur ítrekað komið fram. Ekkert sem kemur fram í skýrslu um ytra mat er á þann veg að það beri að véfengja.

Haldnir voru fundir með foreldrum um niðurstöður ytra mats og skýrsla um matið hefur bæði verið aðgengileg á heimasíðu Fjallabyggðar og á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Foreldrum var þannig gert kleift að koma skoðunum sínum á framfæri um viðbrögð og úrvinnslu vegna ytra mats skólans.

Samfélagsleg áhrif
Þegar kemur að því að meta lykilþætti sem einkenna gott samfélag er almennt litið svo á að góður grunnskóli og öflugt frístundastarf séu mikilvægir þættir.

Siglufjörður vs. Ólafsfjörður
Starfshópur um endurskoðun fræðslustefnu Fjallabyggðar fór yfir kosti og galla bygginga, leiksvæða, umhverfis, íþrótta, sundsvæða og ræddi ítarlega. Niðurstaðan var sú að að teknu tilliti til kosta og galla væri húsnæði ekki afgerandi þáttur í ákvörðun um skipulag kennslufyrirkomulags. Mikilvægt væri þó að þróa útfærsluleiðir á hvorum þeim stað sem valinn væri sem hentuðu þeim aldri sem þar væri við nám.

Skólahús grunnskólans eru sambærileg og geta hvort sem er nýst yngri og eldri nemendum. Í sumar verður ráðist í endurbætur á skólalóð við Norðurgötu sem henta vel fyrir yngri nemendur. Endurbætur á skólalóð við Tjarnarstíg eru áætlaðar á næsta ári.

Það að nemendur 1.-4. bekkjar komi saman strax í 1. bekk auðveldar nemendum félagatengsl þar sem um sömu bekkjarfélaga er að ræða frá ári til árs. Auðveldara verður að skipuleggja starf sem tryggir nemendum sömu tækifæri til náms-, íþrótta- og tómstundastarfs. Þekking og skólaþróun verður markvissari þegar yngri nemendum er kennt á sama stað. Það sama á við um eldri nemendur.

Hvað hefur breyst?
Spurt er hvað hefur breyst frá ákvörðun um skipulag kennslu frá 2011. Það sem hefur breyst frá 2011 er að komin er reynsla á það fyrirkomulag sem þá var ákveðið og ytra mat á þeirri reynslu sem nauðsynlegt er að bregðast við.

Útfærsla á nýju námsmati sem byggir á aðalnámskrá grunnskóla frá 2011, greinarsviðshluti fá 2013, lá ekki fyrir árið 2011. Innleiðing á nýju námsmati hófst fyrir u.þ.b. tveimur árum. Eitt af markmiðum þess er að gera skólaskil grunnskóla og framhaldsskóla auðveldari. Breytingar á námsmati grunnskóla leiða til breytinga frá því sem verið hefur og því nauðsynlegt að horfa til framtíðarskipulags en ekki þess sem áður hefur verið ákveðið. Skýrt kemur fram í ytra mati að efla beri samstarf skólastiga og auka hlutfall valgreina í 8.-10. bekk. Í ljósi þess að um breytingu á landsvísu er að ræða er áhersla lögð á að nýta kosti samfélagsins sem best. Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur samþykkt samstarf um þessi atriði ásamt því að miðla sérþekkingu sinni um kennsluhætti, skipulag skólastarfs og beitingu upplýsingatækni ef eftir því verður leitað. Með því að kenna eldri nemendum á Ólafsfirði er unnt að tryggja nemendum unglingadeildar betra aðgengi að námi í MTR sem staðnemendum. Möguleikar á að kenna valgreinar í samstarfi við MTR verða fleiri. Samstarf kennara GF og MTR verður auðveldara sem eykur tækifæri til skólaþróunar.

Í ytra mati kemur einnig fram að samræma verði betur kennslu í 1.-4. bekk á Siglufirði og í Ólafsfirði. Árgangar eru misstórir frá ári til árs og því er ekki mögulegt að tryggja að sama fyrirkomulag sé við lýði á yngsta stiginu í báðum byggðakjörnum ef að árgangar eru of fjölmennir. Til þess að hægt sé að tryggja að nemendur fái sömu námstækifæri er ákjósanlegast að taka upp árgagnakennslu á einum stað og leggja niður núverandi fyrirkomulag sem felur í sér samkennslu í 1.-4. bekk á Siglufirði og í Ólafsfirði.

Reynsla er einnig komin á skólaakstur. Í ljós hefur komið að fella þarf niður skólaakstur einungis nokkra daga á skólaári vegna veðurs og/eða færðar. Til þess að mæta þeim aðstæðum hefur verið brugðið á það ráð að taka á móti nemendum í skólahús í þeim byggðarkjarna sem þau eru búsett í.

Samræmd próf
Rétt er að nemendur í 4. bekk hafa alla jafna staðið betur að vígi í samræmdum prófum en nemendur í 7. og 10. bekk. Af því má draga þá ályktun að við upphaf skólagöngu hafa nemendur möguleika sem tapast við skólagöngu þeirra í skólanum. Nemendur hafa rétt á því að nýta getu sína alla skólagönguna í grunnskólanum og ber að bregðast við þessari alvarlegu stöðu. Nemendur eiga þann skýlausa rétt. Breytingar á skipulagi fela í sér endurskoðun á því sem verið hefur og eru til þess fallnar að ýta undir skólaþróun eins og fram hefur komið. Með skólaþróun skal stefnt að auknum námsárangri nemenda. Niðurstöður samræmdra prófa í Grunnskóla Fjallabyggðar má sjá í skýrslu um ytra mat á skólanum á vef Menningar- og menntamálaráðuneytisins.

Lengd viðvera, tómstundir og íþróttir
Fyrir liggur tillaga starfshóps um samþættingu skóla- og frístundastarfs fyrir 1.-4. bekk sem unnin var í samstarfi við íþróttafélög í Fjallabyggð, Tónlistarskólann á Tröllaskaga og Grunnskóla Fjallabyggðar. Markmiðið með því er að gefa nemendum kost á að sækja íþróttaæfingar, tónlistarnám og skipulagt tómstundastarf í beinu framhaldi af skóladegi í Frístund. Sett verður upp skipulag að Frístund og kl. 13.30- 14.30 eiga allir nemendur í 1.-4. bekk kost á að velja sér viðfangsefni sem tengist tómstundastarfi, tónlistarnámi eða íþróttaæfingum. Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu strax að lokinni Frístund kl. 14:35 fyrir þá sem ekki kjósa að taka þátt í Frístund.

Lengd viðvera verður starfrækt í skólahúsinu á Siglufirði fyrir nemendur í 1.-4. bekk og tekur við að lokinni Frístund fyrir þá sem það kjósa. Starfsemi lengdrar viðveru verður frá kl. 14:30-16:00. Greitt er fyrir Lengda viðveru samkvæmt gjaldskrá. Í Lengdri viðveru verður m.a. boðið upp á frjálsan leik, skipulagt starf og heimanámsaðstoð. Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu til Ólafsfjarðar kl. 15:45. Með því móti verður skóladagur barna í Fjallabyggð sem nýta Lengda viðveru jafnlangur.

Nánari upplýsingar um Frístund og Lengda viðveru eru aðgengilegar í fréttatilkynningu um samþættingu á skóla- og frístundastarfi á vef Fjallabyggðar.

Fjölgun nemenda
Gera má ráð fyrir sveiflum í árgöngum í Grunnskóla Fjallabyggðar alla tíð og verður tekist á við það verkefni hverju sinni eftir því sem við á. Meðal annars er hægt að mæta fjölmennum árgöngum með tveggja kennara kerfi og hópaskiptingu eins og gert er víða um land. 1. og 2. bekk er hægt að kenna í báðum byggðarkjörnum en það er mun síðri kostur en að hafa árganga á sama stað. Rökin má sjá hér að framan.

Samræða við unglinga
Athugasemdir frá unglingum hafa verið mótteknar og á þær hlustað. Skólastjórar hafa einnig rætt við unglinga og fengið viðbótarupplýsingar varðandi það sem þeim þykir að betur megi fara í breyttu skipulagi. Við athugasemdum unglinga um úrbætur, vegna m.a. húsgagna, tónlistar, aðgengi að interneti og matvælum frá Aðalbakaríi í skólahúsi við Tjarnarstíg verður brugðist eins og kostur er. Í Fjallabyggð er starfandi ungmennaráð sem er samráðsvettvangur ungmenna og sveitarfélagsins.

Upphaf og lok skóladags
Samkvæmt því skipulagi sem stillt hefur verið upp mun kennsla barna í 1.-5. bekk hefjast kl. 8:30. Skólabíll fer frá skólahúsi við Tjarnarstíg kl. 8:05 og boðið verður upp á gæslu í skólahúsi við Norðurgötu frá kl. 8:00 – 8:30. Stefnt er að því að bjóða nemendum 1.- 5. bekkjar upp á hafragraut áður en kennsla hefst. Reiknað er með að eldri nemendur hefji skóladag kl. 8:10 eins og er í dag. Skólabíll fer þá frá Norðurgötu kl. 7:40.

Búnaður íþróttamiðstöðva
Rétt er að íþróttahúsið á Siglufirði er ekki eins vel búið til íþróttakennslu og íþróttahúsið á Ólafsfirði. Búnaður er hins vegar að stærstum hluta í eigu sveitarfélagsins. Óskað verður eftir áætlun vegna tækjakaupa sem tekin verður til umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar. Töluvert af búnaði íþróttamiðstöðvar í Ólafsfirði er eign MTR en til afnota fyrir aðra skóla í Fjallabyggð þegar MTR er ekki að nýta hann.

Ferðir til og frá skóla
Þær fullyrðingar sem koma fram í ályktun foreldrafélags um að akstur hafi áhrif á andlegan og samfélagslegan þroska barna eru okkur óþekktar. Ekki eru okkur heldur kunnugt um að akstur hafi áhrif á nám barna. Hér væri gott að fá rökstuðning byggðan á rannsóknum. Nemendur í Fjallabyggð munu helming námstíma síns vera nærri sínu heimili og helming í hinum byggðarkjarnanum. Daglegur ferðatími til og frá skóla er áætlaður 50 mín., að biðtíma meðtöldum, sem er langt innan þess viðmiðs sem gefið er upp um daglegan heildartíma skólaaksturs í reglum um skólaakstur nr. 656/2009. Þar segir að miðað skuli við að daglegur heildartíma skólaaksturs, að meðtöldum biðtíma, sé ekki lengri en 120 mín.

Skipulag rútuferða
Skólaakstur samkvæmt nýju fyrirkomulagi rúmast innan þess skipulags (ferðafjölda) sem fyrir er. Skólabíll mun hins vegar fara fyrstu ferð frá Siglufirði í stað Ólafsfjarðar eins og nú er. Skólabíll mun fara frá skólahúsi við Norðurgötu að lokinni kennslu hjá 1.- 4. bekk kl. 13:35, að lokinni Frístund kl. 14:35 og kl. 15:45 með þau börn sem nýta Lengda viðveru. Rútuliði er og verður alltaf til staðar í skólabíl á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Nemendum með skilgreinda fötlun verður fylgt í skólabíl. Næsta vetur má gera ráð fyrir þremur starfsmönnum í skólabíl frá Ólafsfirði kl. 8:05. Engar reglur eru til um fjölda rútuliða á hvern nemanda. Almennt er skipulag aksturs á milli byggðarkjarna í reglulegri endurskoðun með tilliti til þess að mæta þörfum eins og kostur er.

Ferðaveiki og kvíði
Einstaklingsvanda nemenda verður að taka fyrir hverju sinni, ekki er hægt að leysa það fyrir heild enda geta slík mál rekist á milli barna.

Leikskóli og rútuferðir
Nemendur í leikskólum Fjallabyggðar hafa farið í rútuferðir og hefur það gengið vel. Gert er ráð fyrir heimsóknum leikskólabarna með rútu í grunnskólann.

Andlegt, félagslegt og líkamlegt öryggi nemenda
Fjallabyggð mun nú sem áður leggja mikla áherslu á öryggi nemenda.

Viðbragðsáætlun
Viðbragðsáætlun liggur fyrir á heimasíðu Grunnskóla Fjallabyggðar. Hafi foreldrar athugasemdir við þá áætlun er óskað eftir því að þeir komi þeim á framfæri við skólastjórnendur eða bæjaryfirvöld.

Að lokum
Meirihluti bæjarstjórnar þakkar Foreldrafélagi Grunnskóla Fjallabyggðar fyrir bréfið og áréttar ákvörðun um breytingu á skólastarfi samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar frá 21. apríl sl. og samþykkt bæjarstjórnar á tillögu starfshóps um samþættingu á skóla- og frístundastarfi þann 18. maí. 2017.

Texti: fjallabyggd.is

Er viðbragðskerfið sprungið vegna fjölgunar ferðamanna á Íslandi?

Slysavarnafélagið Landsbjörg og Háskólinn á Akureyri standa fyrir ráðstefnu í tengslum við landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem haldið verður á Akureyri dagana 19. – 20. maí 2017. Ráðstefnan verður undir fyrirsögninni: Er viðbragðskerfið sprungið vegna fjölgunar ferðamanna á Íslandi?

Á ráðstefnunni verður fjallað um þær áskoranir sem viðbragðsaðilar standa frammi fyrir vegna þeirrar miklu fjölgunar ferðamanna sem orðið hefur á Íslandi á síðustu árum. Ísland hefur margháttaða sérstöðu hvað varðar uppbyggingu innviða og þjónustu við ferðamenn, meðal annars vegna þess hve landið er strjálbýlt og einnig vegna þess að hluti hluti viðbragðskerfisins byggist á framlagi sjálfboðaliða.

Ráðstefnan verður haldin í Háskólanum á Akureyri föstudaginn 19. maí frá 09:00 til 12:00.

Frummælendur eru:

 

 • Jessica M. Shadian, Nansenprófessor við Háskólann á Akureyri og University of Toronto
 • Edward H. Huijbens, Prófessor við Háskólann á Akureyri
 • Kjartan Ólafsson, Deildarformaður félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri
 • Viðar Magnússon, yfirlæknir bráðþjónustu utan sjúkrahúsa

 

Að loknum erindum frummælenda verða pallborðsumræður.

 

Í panelumræðum verða:

 

 • Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar
 • Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnar¬ráðherra
 • Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra
 • Eva Björk Harðardóttir, oddviti sveitarstjórnar Skaftárhrepps og hótelstjóri Hótels Laka
 • Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar
 • Viðar Magnússon, yfirlæknir bráðþjónustu utan sjúkrahúsa

Minni aðsókn og færri opnunardagar í Skarðsdal

Minni aðsókn var í Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði í vetur. Færri opnunardagar voru í ár vegna veðurs, en alls komu um 7000 gestir á skíðasvæðið og voru 79 opnunardagar. Þetta er fækkun um 2800 gesti en í fyrra var opið í 100 daga. Aðsóknin var þó sú þriðja mesta á landinu samkvæmt upplýsingum frá rekstaraðila, en Bláfjöll og Hlíðarfjall eru vinsælust í ár.

Mikil aukning var af fjallaskíðafólki í Skarðsdal en um 500-700 slíkir gestir komu á svæðið og um 90% af þeim erlendir gestir.

 

Rammi hf tekur í notkun nýjan Frystitogara

Rammi hf í Fjallabyggð tekur formlega á móti nýjum frystitogara, Sólberg ÓF-1, laugardaginn 20. maí næstkomandi.  Af því tilefni býður Rammi hf. til móttöku sem haldin verður laugardaginn 20. maí á Siglufirði.

Dagskrá:

 • Kl. 13.30 Framkvæmdastjóri Ramma hf., Ólafur Helgi Marteinsson, býður gesti velkomna.
 • Kl. 13:35 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, flytur ávarp.
 • Kl. 13:50 Álfhildur Stefánsdóttir gefur skipinu formlega nafn.
 • Kl. 13:55 Sóknarpresturinn í Ólafsfirði, Sr. Sigríður Munda Jónsdóttir, blessar skipið.
 • Kl. 14:00 Gestum boðið að skoða skipið.

Þrír farnir frá KF og einn nýr Króati kominn

Þrír leikmenn fóru frá Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar áður en félagskiptaglugganum lokaði í gær.  Hrannar Snær Magnússon fæddur 2001, hann fór til KA en hann hefur leikið með þriðja flokki KF.  Tómas Veigar Eiríksson kom sem lánsmaður frá KA í mars 2017 er farinn aftur til KA.  Otto Fernando Tulinius er fæddur 1995 er farinn til Geisla, en hann kom frá Magna í mars 2017.

Þá er kominn til liðsins leikmaður frá Króatíu,  Bozo Predojevic, en hann fær leikheimild 17. maí. Hann hefur ekki leikið áður á Íslandi og er þrítugur miðjumaður.

 

Abbý sýnir í Ráðhúsi Fjallabyggðar

Arnfinna Björnsdóttir, bæjarlistamaður Fjallabyggðar opnar yfirlitssýningu á verkum sínum í Ráðhúsi Fjallabyggðar, dagana 20. og 21. maí frá kl. 14:00-17:00.

Abbý hefur fengist við listir og handverk í 55 ár á Siglufirði. Draumur hennar á yngri árum var að fara í listnám en örlögin leiddu hana í Verslunarskólann og í framhaldi af því í skrifstofuvinnu fyrir Siglufjarðarkaupstað og gegndi hún því starfi í 35 ár. Í gegnum tíðina hefur Arnfinna sótt ýmis námskeið á sviði lista undir leiðsögn Örlygs Kristfinnssonar og Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Frá því hún hætti störfum hjá Siglufjarðarkaupstað, síðastliðin 15 ár, hefur hún einbeitt sér að listinni. Hún heldur vinnustofu á Siglufirði þar sem hún vinnur daglega að verkum sínum og hefur opið almenningi.

Vilja loka heilsugæslunni í Ólafsfirði eftir hádegið í sumar

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur hafnað beiðni forstjóra Heilbrigðisstofnunar á Norðurlandi um aðkomu Slökkviliðs Fjallabyggðar við að koma á fót vettvangshópi í Ólafsfirði í kjölfar þess að vakt sjúkraflutningamanna verður lögð niður. Verkefnið er alfarið á ábyrgð Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og því er það HSN að leysa þau verkefni sem tengjast heilbrigðisþjónustu á vegum ríkisvaldsins í Fjallabyggð. Þetta kemur fram í fundargerð Bæjarráðs Fjallabyggðar.

Bæjarráð Fjallabyggðar mótmælir jafnframt harðlega þeirri þjónustuskerðingu sem fyrirhuguð er hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Fjallabyggð. Bæjarráð telur óásættanlegt að vakt sjúkraflutningamanna í Ólafsfirði verði lögð niður. Jafnframt telur bæjarráð óásættanlegt að heilsugæslan í Ólafsfirði verði lokuð eftir hádegi yfir sumartímann. Ekki er einungis um að ræða skertan aðgang íbúa að heilsugæslu heldur einnig lengri afgreiðslufrest á lyfjum.

Bæjarráð Fjallabyggðar hvetur forstjóra HSN til að leita annarra leiða svo ekki þurfi til þjónustuskerðingar að koma.

KF sigraði Dalvík á Ólafsfjarðarvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mættust í 3. deild karla í knattspyrnu í dag á Ólafsfjarðarvelli. KF heldur áfram að safna lið og ætla gera allt sem þeir geta til að komast strax aftur upp í 2. deildina. Í dag fengu þrír erlendir leikmenn leikheimild með KF fyrir sumarið, og eru það tveir Serbar og einn frá Nýja Sjálandi. Þá hafa sex leikmenn gengið til liðs við KF í maí og alls ellefu á þessu ári. Þessir glænýju leikmenn KF eru Milan Marinkovic, 31 árs, sem lék með KF árið 2015 og á skráða 17 leiki fyrir félagið og 1 mark. Ljubomir Delic er nýkominn til félagsins og hefur ekki leikið áður á Íslandi, hann er 22 ára. Benjamin O’Farrell er frá Nýja Sjálandi og hefur ekki leikið áður á Íslandi, hann er 19 ára.

Völlurinn var í góðu ástandi í dag, hægur 4 m/s vindur og um 8 gráðu hiti. Það voru gestirnir sem gerðu fyrsta markið rétt fyrir leikhlé, en Þröstur Jónasson skoraði á 44. mínútu. Staðan var 0-1 í hálfleik fyrir Dalvík. KF jafnar leikinn á 54. mínútu með marki frá Milan Marinkovic, hans annað mark fyrir KF á ferlinum. Sjö mínútum síðar kemst KF yfir með marki frá hinum unga og efnilega Vitor Vieira Thomas, hans fyrsta mark í deild- og bikarkeppni fyrir KF. Nýliðinn Ljubomir Delic skorar svo mark á lokamínútunni og tryggir sigurinn fyrir heimamenn, 3-1.

Dalvík gerði 5 innáskiptingar í leiknum, en það er leyfilegt í 3. deild karla, þeir gerðu meðal annars tvöfalda skiptingu strax í hálfleik og einnig þegar 7 mínútur voru eftir. Dalvík hafði fengið hinn reynslumikla Sandor Matus í markið, en hann hefur leikið 296 leiki á Íslandi og er 41 árs gamall og á eflaust eftir að nýtast Dalvíkingum vel í sumar.

Góð byrjun á mótinu hjá KF, góður heimasigur í fyrsta leik. Næsti leikur er þann 20. maí gegn Vængjum Júpíters á gervigrasvelli Fjölnis í Grafarvogi.

Samherji byggir nýja og fullkomnari landvinnslu á Dalvík

Samherji hefur undirritað lóðaleigusamning við Dalvíkurbyggð um 23.000 fermetra lóð undir nýtt húsnæði landvinnslu félagsins á Dalvík. Með samningnum er stigið stórt skref í átt að nýrri og fullkomnari vinnslu Samherja á Dalvík. Flutningur starfsemi Samherja á hafnarsvæðið skapar jafnframt möguleika fyrir bæjarfélagið að skipuleggja svæðið með öðrum hætti til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Áætluð fjárfesting Samherja í húsnæði og búnaði eru um 3.500 milljónir króna. Það eru AVH arkitektar á Akureyri sem sjá um hönnun nýja hússins.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, opinberaði þessi áform fyrirtækisins á fjölmennum hátíðarfundi með starfsfólki Samherja á Dalvík og forsvarsmönnum Dalvíkurbyggðar síðdegis í gær.

Í ræðu sinni sagði hann gaman að geta þess að hafi Samherji tekið á móti nýjum Björgúlfi EA í Tyrklandi. Nýja skipið muni leysa hinn 40 ára gamla nafna sinn af hólmi og komi til heimahafnar á Dalvík í byrjun júní.

„Með nýju vinnslunni hér og smíði Björgúlfs EA er Samherji að fjárfesta í veiðum og vinnslu á Dalvík fyrir a.m.k. 6.000 milljónir króna. Heildarfjárfesting Samherja í veiðum og vinnslu í Eyjafirði verður því um 11.000 milljónir króna á einungis þremur árum,“ sagði Þorsteinn Már.

Ákvörðun um byggingu nýrrar landvinnslu Samherja á Dalvík hefur átt sér langan aðdraganda. Samherji fékk úthlutað lóð við hlið núverandi vinnslu, því upphaflega stóð til að byggja við núverandi húsnæði. Ennfremur hefur staðið til hjá Dalvíkurbyggð að hefja framkvæmdir og landfyllingu við hafnarsvæðið, óháð áætlunum Samherja, m.a. til að mæta mikilli fjölgun ferðamanna og tengdri starfsemi.

Vinna við undirbúning ofangreindrar ákvörðunar hefur verið í nánu samstarfi við Dalvíkurbyggð. Mikil sátt ríkir því um ákvörðunina sem báðir aðilar telja til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Nýja staðsetningin er til þess fallin að auka öryggi í umferð og færa þungaflutninga úr alfaraleið í gegnum bæinn.

Heimild: samherji.is

Heimild: Samherji, Dalvíkurbyggð