All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Róbert vill láta lagfæra Selvíkurvita við Siglufjörð

Athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson hefur óskað eftir afstöðu Fjallabyggðar og hafnarstjórnar Fjallabyggðar til að taka upp viðræður við Selvík ehf. um endurbætur á Selvíkurvita sem stendur Selvíkurnefi við Siglufjörð. Vitinn var byggður árið 1930 og er gamall innsiglingarviti fyrir Siglufjörð og gegndi mikilvægu hlutverki hinnar fjölförnu síldarhafnar sem Siglufjörður var. Vitinn er á vinsælu göngusvæði við Siglufjörð og koma þangað töluvert af ferðamönnum á ári hverju.

Árið 2011 átti fyrrum bæjarstjóri Fjallabyggðar í viðræðum við Siglingastofnun um viðhald og eignarhald á Selvíkurnefsvita.
Eftir þær viðræður var ljóst að Fjallabyggð hafði á þeim tíma fullt umráð og eignarhald yfir vitanum sem þarfnaðist mikils viðhalds og að Siglingastofnun myndi ekki koma að endurbótum.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar hafði áður lagt fram viðgerðaráætlun vegna vitans í lok árs 2008.

Frítt að læra á tré- og málblásturshljóðfæri í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga

Boðið verður upp á gjaldfrjálst nám í tré- og málmblæstri í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga skólaárið 2017 – 2018. Kennt er hálftíma á viku í einkakennslu. Síðan þegar nemendur hafa náð smá styrk og tækni á hljóðfærið bætist við klukkutími samæfing og svo tónfræði. Aðra gjaldskrá má finna á vef Tónlistarskólans.
Innritun í Tónlistarskólann á Tröllaskaga fer fram dagana 14. ágúst til 31. ágúst 2017.

Á síðasta skólaári í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga voru nemendur í hljóðfæranámi alls 206. Kennsla fer fram í húsnæði Tónlistarskólans við Skíðabraut á Dalvík og í Árskógarskóla, Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði og svo húsnæði skólans á Siglufirði.

Í skólanum starfa 15 tónlistarkennarar ýmist í hluta- og fullu starfi. Í skólanum er kennt á píanó, fiðlu, gítar, blokk­flautu, þverflautu, trompet, klarínett, saxófón, rafmagnsgítar, bassagítar, trommur og einnig er kenndur söngur. Forskólinn er fyrir nemendur 1.-4. bekkjar í grunnskólanum. Þar er lögð áhersla á söng, hrynþjálfun og grundvallarþekkingu á nótum. Samvinna milli Tónlistarskólans og Grunnskóla á Tröllaskaga er í góðum farvegi og í stöðugri þróun.

Árlegur fræðsludagur skólanna í Skagafirði

Árlegur fræðsludagur leik–, grunn-, og tónlistarskóla Skagafjarðar var haldinn áttunda sinn í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð í vikunni.  Á fræðsludegi koma saman allir starfsmenn skólanna sem eru um 200 manns. Markmiðið með deginum er að vera saman og kynna ýmis verkefni sem framundan eru í skólastarfinu. Að þessi sinni var sérfræðiþjónusta við skólana yfirfarin. Fjallað um nýútgefna lestrarstefnu og henni dreift til allra starfsmanna. Einnig var umfjöllun um svokallaðan Skólaspegil, staðfest sjálfsmat, sem er samstarfsverkefni fræðsluyfirvalda og skólanna í sveitarfélaginu sem farið verður af stað með í grunnskólunum þremur á þessu skólaári.

Elísa Guðnadóttir, sálfræðingur, fjallaði um streitu og álag í starfi og leiðir til lausna, ásamt því að vera með erindi um hagnýtar leiðir til þess að bæta hegðun og líðan leikskólabarna. Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi, hélt utan um kynningar á upplýsingatækni í grunnskólum ásamt samkennurum sínum. Starfsmenn tónlistarskólans hlýddu á tvo góða gesti, þær Helgu Sighvatsdóttur, aðstoðarskólastjóra við Tónlistarskóla Árnesinga sem fjallaði um þróun tónlistarskóla og Freyju Gunnlaugsdóttur aðstoðarskólastjóra við Tónlistarskóla Reykjavíkur sem kynnti tónlistarmenntaskóla.

Heimild: skagafjordur.is

Skógardagur Norðurlands í Kjarnaskógi

Skógardagur Norðurlands verður haldinn laugardag 19. ágúst í Kjarnaskógi. Hápunktur dagsins er taka formlega í notkun nýtt útivistar- og grillsvæði við Birkivöll. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri ávarpar afmælisbarnið og skrifað verður undir samning um nýjan Yndisgarð sem stefnt er að koma upp í skóginum með úrvali skrautrunnategunda.
Fræðsla verður um Yndisgarðinn í „fundarsal“ sem útbúinn hefur verið undir greinum stórra grenitrjáa í skóginum.

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sýnir ýmsar sveppategundir sem lifa í skóginum. Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi Skógræktarinnar kennir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að prófa að tálga töfrasprota og fleira. Skátar kynna hátíð sem fer fram á Hömrum um kvöldið og svo verður auðvitað ketilkaffi, lummur, popp, svaladrykkir, sveppasúpa, ratleikur, fræðsluganga um Birkivöll og nágrenni ásamt fleiru.
Loks er vert að geta þess að nú hefur verið útbúinn létthringur í Kjarnaskógi sem fær verður öllu fólki. Hringur þessi liggur m.a. um hinn nýja Birkivöll.

181 fengu lækkun á fasteignaskatti í Skagafirði

Endurreikningi afsláttar á fasteignaskatt vegna ársins 2017 hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er lokið. Við álagningu fasteignagjalda í janúar s.l. var tilkynnt að inneign eða skuld gæti myndast við endanlegan útreikning á afslætti vegna fasteignaskatts, á íbúðum elli- og örorkulífeyrisþega. Samtals fengu 181 fasteignaeigendur lækkun á fasteignaskatt þetta árið, að upphæð 6,9 milljónir króna samtals.  Þeir elli- og örorkulífeyrisþegar sem sveitarfélagið þarf að krefja um endurgreiðslu afsláttarins hafa fengið sendan greiðsluseðil fyrir ofgreiðslunni.

Ef inneign hefur myndast þá verður henni fyrst ráðstafað upp í ógreidd fasteignagjöld og eftirstöðvar, ef einhverjar eru, síðan greiddar inn á bankareikning viðkomandi.

Skilyrði til lækkunar fasteignaskatts er að viðkomandi elli- eða örorkulífeyrisþegi eigi lögheimili í sveitarfélaginu, búi í eigin íbúð og sé 67 ára á árinu eða eldri, eða hafi verið úrskurðaður 75% öryrki.  Afsláttur nær eingöngu til þeirrar íbúðar sem viðkomandi býr í.  Afslátturinn er tekjutengdur og er að hámarki kr. 58.000.  Afslátturinn er hlutfallslegur að teknu tilliti til allra skattskyldra tekna þ.m.t. fjármagnstekna,  skv. skattframtali 2017.

Grunnskóli Fjallabyggðar starfar eftir nýrri fræðslustefnu

Skólasetning Grunnskóla Fjallabyggðar fer fram miðvikudaginn 23. ágúst næstkomandi, stundaskrár og ritföng verða afhent nemendum. Nemendur 1. bekkjar mæta í boðuð viðtöl til umsjónarkennara.  Skólastarf er undirbúið samkvæmt nýrri fræðslustefnu og munu nemendur 1.-5. bekkjar verða á Siglufirði og nemendur 6.-10. bekkjar í Ólafsfirði. Kennsla í 1.-5.bekk hefst kl. 8.30 en kennsla í 6.-10.bekk hefst kl. 8.10.

Skráðir nemendur Grunnskóla Fjallabyggðar eru 196. Þar af eru 106 nemendur eru í starfsstöðinni á Siglufirði og 90 í starfsstöðinni í Ólafsfirði.

Nemendum í 1.-4. bekk stendur til boða að sækja Frístund að loknum skóladegi kl. 13.30-14.30. Frístund er tómstundastarf skipulagt af Fjallabyggð í samstarfi við tónlistarskóla, grunnskóla og íþróttafélög. Nemendur í 1.-3. bekk hafa möguleika á að sækja lengda viðveru kl. 14.30-16.00.

Samstarf Grunnskóla Fjallabyggðar við MTR hefur verið aukið. Nokkrir nemendur í unglingadeild sækja þar valgreinar (vélmennafræði og blak), sem er viðbót við ensku og grunnáfanga í náttúru- og félagsvísindum sem 10. bekkingar hafa getað stundað sl. ár.

50 starfsmenn mæta til starfa í haust, 32 kennarar og 18 aðrir starfsmenn. Meiri mannabreytingar eru nú miðað við síðustu ár. Sólveig Rósa Sigurðardóttir aðstoðarskólastjóri var ráðin 1. ágúst ásamt Ásu Björk Stefánsdóttur umsjónarkennara 5. bekkjar, Gurrý Önnu Ingvarsdóttur sérkennara og Gunnlaugu Björk Guðbjörnsdóttur sérkennara. Sigríður Ásta Hauksdóttir náms- og starfsráðgjafi verður í 20% starfi við skólann en hún mun einnig vinna við MTR.

 

Kammertónleikar Berjadaga á föstudaginn

Kammertónleikar Berjadaga í Ólafsfirði verða á föstudaginn næstkomandi í Ólafsfjarðarkirkju, en hátíðin hefst á fimmtudaginn.
Hin unga og upprennandi Hulda Jónsdóttir fiðluleikari og Bjarni Frímann Bjarnason leiða saman hesta sína í stórkostlegum verkum: Fluttar verða tvær franskar fiðlusónötur eftir þá meistara Francis Poulenc og Camille Saint-Saëns. Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari verður þeim Bjarna og Huldu til fulltingis í hinu magnaða píanótríói hins stórhuga Beethovens sem nefnt hefur verið „Drauga-tríóið“.

Tónlistarhátíðin Berjadagar 2017 fer fram á Ólafsfirði 17.-20. ágúst. Á hverju kvöldi verða klassískir tónleikar og fleiri viðburðir á daginn. Dagskráin er fyrir alla aldurshópa og ókeypis aðgangur fyrir 18 ára og yngri.  Hátíðarpassi fyrir alla tónleika og viðburði hátíðarinnar kostar 9500 kr. og miðar á staka tónleika á 3000 kr.

Nýtt ferðaþjónustufyrirtæki með sjóferðir frá Ólafsfirði

Fairytale At Sea er nýtt ferðaþjónustufyrirtæki í Ólafsfirði sem sérhæfir sig í stuttum sjóferðum með leiðsögumanni á sæþotum allt árið um kring. Eigendur eru Halldór Guðmundsson og Sölvi Lárusson, en var fyrirtækið stofnað í sumar.  Flestir viðskiptavinir fram til þessa hafa verið Íslendingar og eru heimamenn duglegir að sækja þessar ferðir.  Samkvæmt gjaldskrá fyrirtækisins þá kostar sjóferð 29.900 ef þú ert einn á þotu, annars  19.900 ef tveir eru á þotu. Aðeins er hægt að taka 7 manns í hverja ferð sem tekur um 2-3 klukkutíma. Einnig er hægt að fá styttri ferð sem tekur 1-1,5 klst. og kostar hún 19.900 ef þú ert einn á þotu, annars 12.000 ef tveir eru á þotu.  Allur öryggisbúnaður og klæðnaður er innifalinn í verði.

Lögð er áhersla að njóta útsýnisins við Ólafsfjarðarmúla þar sem bjargið kallar fram hinar ótrúlegustu kynjamyndir og Hvanndalabjarg sem er stærsta standberg frá sjó á landinu, eða 630 metrar í sjó niður.

Mikið er um víkur á þessum slóðum sem skemmtilegt er að staldra við, hlusta á kyrrðina, gleyma stund og stað og njóta eða fljóta.  Á björtum sumarkvöldum er dásamlegt að upplifa miðnætursólina sem lýsir upp hafsflötinn eins og glóandi gull.  Mikið er um fuglalíf á þessum slóðum og einnig er stundum hægt að sjá hvali.

Fairytale At Sea býður einnig upp á sérferðir allt eftir óskum viðskiptavinarins.

 

Alexander Már með þrennu gegn KF

KF og Kári léku í 3. deild karla í dag á Ólafsfjarðarvelli í 10 stiga hita. KF gerði tvær breytingar frá síðasta leik sem var 29. júlí og hefur liðið því ekki leikið í töluverðan tíma í þessu hléi. Hákon Leó og Magnús Aron komu inn í liðið fyrir Bozo og Friðrik Örn.

Eins og greint var hér frá þá var búist við erfiðum leik, og sú varð raunin. Gestirnir frá Akranesi voru komnir í 0-2 eftir tæpar 10 mínútur. Alexander Már fyrrum leikmaður KF skoraði í upphafi leiks en hann er jafnframt markahæsti maður Kára og var með 8 mörk í 12 leikjum fyrir þennan leik. Annar fyrrum leikmaður KF, Páll Sindri Einarsson gerði annað mark leiksins og sitt fyrsta í sumar. Staðan var 0-2 fyrir gestina í hálfleik og því á brattan að sækja fyrir KF.

Alexander Már gerði svo sitt annað mark í leiknum á 89. mínútu, en enn var tími fyrir eitt mark í viðbót því Kári fékk vítaspyrnu á 93. mínútu leiksins, og skoraði Alexander Már einnig úr því, lokatölur á Ólafsfjarðarvelli 0-4 í þessum toppbaráttuslag.

Svekkjandi úrslit fyrir KF sem eru enn í öðru sæti með jafnmörg stig og Vængir Júpíters. Næsti leikur KF er útileikur gegn Þrótti Vogum, en sá völlur er erfiður útivöllur.

Toppbarátta á Ólafsfjarðarvelli í dag

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar leikur við Kára frá Akranesi í lokaleik 13. umferðar í 3. deild karla í dag. Aðeins munar þremur stigum á liðunum, en Kári er í 1. sæti og KF í 2. sæti deildarinnar. Stutt er í næstu 3 lið og aðeins fimm leikir eftir að Íslandsmótinu eftir þennan leik, svo hvert stig er gríðarlega mikilvægt.  Fyrri leikur liðanna fór heldur illa fyrir KF, en Kári sigraði þann leik 6-1 í Akraneshöllinni í byrjun sumars.  Liðin hafa bæði unnið 8 leiki, en Kári hefur aðeins tapað einum leik, en KF hefur tapað 4 leikjum. Kári hefur aðeins fengið á sig 9 mörk í deildinni og má búast við erfiðum leik í þessum toppslag í 3. deildinni.

Leikurinn hefst kl. 14:00 á Ólafsfjarðarvelli og er stuðningur áhorfenda gríðarlega mikilvægur.

Tæplega 2500 bílar um Múlagöng í gær

Eins og venja hefur verið síðustu ár þá hefur umferð um Múlagöng verið margföld um helgina þar sem Fiskidagurinn mikli hefur verið haldinn á Dalvík. Í gær var aðal kvöldið á Fiskideginum á Dalvík og fóru 2478 bílar um göngin til miðnættis, og tæplega 500 til viðbótar um nóttina.  Mestur fjöldi á hverjar 10 mínútur var á slaginu 01:00 eftir miðnætti í nótt, en þá fóru 108 bílar í gegn, og á næstu 10 mínútum fóru aftur tæplega 100 bílar, svo það hefur verið mikið álag á þeim tíma að fara í gegn um göngin.

Föstudagsumferðin var einnig talsverð í Múlagöngum en þá fóru 1672 bílar í gegnum göngin.

Um Hámundarstaðarháls var einnig mikil umferð, en þar fóru í gær 7788 bílar og tæplega 2000 eftir miðnætti. Föstudagsumferðin var einnig talsverð, eða 5308 bílar.

Opnunartónleikar Berjadaga 2017

Þríeyki glæsilegra söngvara setur tóninn fyrir Berjadaga að þessu sinni með hrífandi söngdagskrá í Ólafsfjarðarkirkju, fimmtudaginn 17. ágúst kl. 20:00. Tenórarnir frá Siglufirði ásamt Elfu Dröfn flytja þekktar aríur og dúetta í bland við lög eftir Bjarna Þorsteinsson, Sigfús Halldórsson og Ingibjörgu Þorbergs. Bjarni Frímann Bjarnason er meðleikari kvöldsins.

Flytjendur:
Hlöðver Sigurðsson tenór, Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór, Elfa Dröfn Stefánsdóttir mezzósópran, Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari.

Tónlistarhátíðin Berjadagar 2017 fer fram í Ólafsfirði 17.-20. ágúst. Á hverju kvöldi verða klassískir tónleikar og fleiri viðburðir á daginn. Dagskráin er fyrir alla aldurshópa og ókeypis aðgangur fyrir 18 ára og yngri.

Nýr togari vígður á Dalvík

Hinu nýja skipi Samherja á Dalvík var formlega gefið nafnið Björgúlfur EA-312 við hátíðlega athöfn í gær.  Koma Björgúlfs er hluti af mjög metnaðarfullri uppbyggingu í útgerð og landvinnslu á Dalvík, þar sem einnig er hafinn undirbúningur að byggingu fullkomnasta fiskvinnsluhúsi heims. Þarna er ekki fjárfest í auknum aflaheimildum heldur meira verðmæti aflans sem sóttur er, með nýrri tækni, betri nýtingu, nýsköpun og vöruþróun. 

Fjölmenni tók þátt í þessari hátíðlegu athöfn á Dalvík.

 

Köld nótt á Siglufirði

Tjaldbúar á Siglufirði og í Ólafsfirði hafa líklega fundið aðeins fyrir kuldanum í nótt, hitinn fór niður fyrir 2° í nótt, en hiti mældist á miðnætti 1,8°.  Aftur fór að hlýna þegar leið á nóttina og í morgun var hitinn kl. 08:00 orðinn 10,2°.  Aðeins hlýrra var í Ólafsfirði, en hitinn þar var lægstur 3° kl. 03:00 í nótt, en hitinn var svo kominn í 9,3° kl. 08:00 í morgun.

Nýr togari á leið til Sauðárkróks

Nýr togari FISK Seafood, Drangey SK-2, hélt af stað til Sauðárkróks föstudaginn 4. ágúst síðastliðinn. Áætlaður siglingartími í Skagafjörðinn er um hálfur mánuður og því áætluð heimkoma í kringum 18. ágúst.  Skipið var smíðað hjá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Skrifað var undir samning um smíði á skipinu þann 24. júlí 2014. Skipið var sjósett þann 22. apríl síðastliðinn og afhent formlega þann 26. júlí í Tyrklandi.

Drangey er þriðja af fjórum systurskipum sem smíðuð eru hjá Cemre. Hin þrjú skipin, Kaldbakur, Björgúlfur og Björg, fara til Samherja og ÚA. Skipin eru hönnuð af Verkfræðistofunni Skipatækni og Bárði Hafsteinssyni. Skipið er tæknilega fullkomið og við hönnun var lögð áhersla á hagkvæmni í orkunýtingu. Drangey er 62,5 metra langt skip og 13,5 metra breitt. Skipið er með nýstárlegt skrokklag og stórt og áberandi perustefni sem á að tryggja betri siglingareiginleika, meiri stöðugleika og aukna hagkvæmi. Skipið er skráð 2081 brúttótonn, hefur 14 hnúta hámarks siglingarhraða og 40 tonna togkraft. Skipstjóri á skipinu er Snorri Snorrason.

Það eru rúm 44 ár síðan það kom síðast nýsmíðaður togari á Sauðákrók. Það skip hét líka Drangey en bar einkennisstafina SK-1. Það skip kom í fjörðinn frá Japan þann 5. maí 1973. Drangey kemur til með að leysa Klakk SK-5 af hólmi en Klakkur er 40 ára gamalt skip.

Biðlistar í Menntaskólann á Tröllaskaga

Starfsmenn Menntaskólans á Tröllaskaga vinna nú hörðum höndum að undirbúa haustönn skólans.  Byrjað er að taka umsækjendur af biðlistum inn í skólann en þeir sem ekki hafa greitt skólagjöld á réttum tíma missa sitt pláss. Mikil aðsókn er á haustönn skólans í ár.  Á vorönn 2017 voru um 350 nemendur í skólanum og hafði verið 12% aukning frá haustönn 2016. Þar af voru um 250 fjarnemar við skólann, en  langflestir stunda félags- og hugvísindabraut skólans.

 

Búast við umferðartöfum í Múlagöngum

Búast má við mikilli umferð um Múlagöngin við Ólafsfjörð um helgina og einhverjum umferðartöfum. Lögregla verður á staðnum og mun stýra umferð þegar þurfa þykir. Vegfarendur eru beðnir að taka tillit til þess og sýna þolinmæði.  Fiskidagurinn mikli er haldinn á Dalvík og má búast við tugþúsundum gesta þar og einnig er Pæjumótið haldið á Siglufirði um helgina.

Fiskidagurinn mikli á Dalvík

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er nú haldinn í 17. sinn. Frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Ennfremur er allur matur og skemmtan á hátíðarsvæðinu ókeypis.

Vináttukeðjan 2017 – Setning fjölskylduhátíðarinnar “Fiskidagurinn mikli”

Vináttukeðjan er um klst. löng dagskrá.
Framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla Júlíus Júlíusson setur hátíðina. Soffía Vagnsdóttir fræðslustjóri Akureyrarbæjar og stofnandi ástarvikunnar í Bolungarvík flytur vináttukeðjuræðuna 2017. Leikskólabörnin syngja, Guðmundur Kristjánsson og Selma dóttir hans taka lagið og Örn og Valdimar heilla gesti Vináttukeðjunnar. Friðrik Ómar, Gyða Jóhannesdóttir og karlaraddir ljúka dagskránni að venju með “Mömmu” laginu. Börnin fá vináttufána og knúskorti og vináttuböndum verður dreift, flugeldum skotið upp. Að venju verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleikslínur fyrir helgina.

Fiskisúpukvöldið haldið í þrettánda sinn
Fiskisúpukvöldið er nú haldið í þréttánda sinn, þetta er viðburður sem hefur svo sannarlega slegið í gegn. Heimamenn bjóða gestum og gangandi uppá mismunandi fiskisúpur í heimahúsum, görðum eða á götum úti. Súpukvöldið hefst að vanda kl. 20:15.

Fiskidagurinn mikli sjálfur
Á sjálfum Fiskideginum mikla, laugardeginum 12. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 verður að vanda margt í boði. Stundvíslega kl. 11:00 opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst. Björgúlfur EA 312 nýr skuttogari Samherja verður til sýnis við hafnargarðinn á hátíðarsvæðinu.

Fjölbreyttur matseðill
Matseðill Fiskidagsins er afar fjölbreyttur að vanda. Þar má að sjáfsögðu finna gamla og góða rétti þar má nefna ljúffenga síld og rúgbrauð, fersku rækjurnar og fiskborgarana. Salka Fiskmiðlun býður upp á harðfisk og smjör. Tandoori bleikja með naan brauði frá Indian Curry Hut á Akureyri. Akureyri FISH og Reykjavík FISH koma með Fish and chips. Rækjusalat  í boði Dögunar. Filsur sem eru fiskipylsur. Nýjar sósur og kryddblöndur á  fisknum á grillunum, bleikjunni, þorsknum og saltfisknum. NINGS fjölskyldan mætir með risasúpupottinn þar sem að boðið verður uppá austurlenska rækju og bleikjusúpu. Grímur kokkur kemur frá Eyjum með uppáhald allra plokkfiskinn góða og fiskistangir. Aðstoðarkokkur Fiskidagsins mikla Addi Yellow eða Arnþór Sigurðsson stýrir sasimistöðinni þar sem að lax og hrefna verða í boði. Nú verður í fyrsta skipti lax í boði og kemur hann frá Arnarlaxi sem er nýr og öflugur aðili í hópi aðalstyrktaraðila Fiskidagsins mikla. Kaffibrennslan býður uppá besta kaffið, svartan Rúbín, Íspinnarnir frá Samhentum Umbúðamiðlun klikka aldrei og Samherji býður uppá sælgæti.

Barnadagskrá
Að venju er vel hugsað um börnin já eða fjölskylduna alla á fjölskylduhátíðinni Fiskideginum mikla. Meðal dagskrárliða sem eru sérstaklega hugsaðir fyrir börn eru: Brúðubíllinn í boði KEA. Íþróttaálfurinn, Halla hrekkjusvín, Siggi sæti og Solla stirða og andlitsmálun í boði Samherja. Leikhópurinn Lotta með Ljóta andarungann, teikniveröld, uppblásinn fótboltavöllur í boði Vífilfells, veiði á bryggjunni og fleira.

Samherji og Fiskidagurinn bjóða börnum að skapa nýja fiskiveröld.
Náttúran hefur skapað marga fiskana og í hafinu leynast þúsundir tegunda. Samherji veiðir t.d. um 50 þeirra. Á Fiskidaginn mikla milli kl 11.00 og 17.00 í salthúsinu verður börnum boðið að skapa og nota hugmyndaflugið til að búa til enn fleiri fiska. Börn á öllum aldri eru hvött til að teikna fisk, gefa honum nafn og hengja hann upp og allir sem skila mynd fá glaðning.

Ný fiskasýning og nú innandyra í Allahúsinu
Allt frá árinu 2002 hefur verið sett upp áhugaverð fiskasýning á Fiskideginum mikla, sýning þar sem að sýndir hafa verið á þriðja hundrað tegundir af ferskum fiskum sem glatt hafa þúsundir manns.  Sýningin hefur ávallt verið utandyra. Í ár verður sýningin færð inn í hús og sett upp á nýjan máta með textum, lýsingum og á skjám. Það er að venju Skarphéðinn Ásbjörnsson sem heldur utan um sýninguna og hefur hann lagt mikla vinnu í þetta áhugaverða verkefni. Sýningin í ár er eitthvað sem að enginn ætti að missa af. Að venju verður hákarlinn af sýningunni skorinn kl. 15.00 og nú á nýjum stað, það er Gunnar Reimarsson sem sýnir listir sínar við hákarlaskurðinn. 

Myndataka í búrhvalskjalfti
Í ár verður til sýnis efri skoltur úr Búrhval og verður hann settur þannig upp að gestir geta sest í hann eða stillt sér upp við hann til myndatöku. Skolturinn kom í botntroll hjá Björgvin EA 311  togara Samherja sumarið 2014. Skipið var á veiðum í Reykjafjarðarál á um 300 m dýpi. 66°52N-20°32V. Skipið var á þorskveiðum  þegar beinið kom í trollið. 

Ný og öflugur aðili í hóp aðalstyrktaraðila Fiskidagsins mikla
Arnarlax bætist nú í öflugan hóp eftirtaldra aðalstyrktaraðila Fiskidagsins mikla. Samherji hf. Samskip, Sæplast, Vífilfell, Marel, Dalvíkurbyggð, Landsbankinn,Valeska-Fiskmarkaður Norðurlands, KEA, Kristjánsbakarí, Ásbjörn Ólafsson, Salka Fiskmiðlun og vinir frá Nígeríu, og Marúlfur. Arnarlax verður með aðstöðu á hafnargarðinum og í sasimibásnum í ár verður boðið uppá lax frá þeim.

Kvöldtónleikar og flugeldasýning í boði Samherja. 
Enn á ný er lagt af stað með stórtónleika að kvöldi Fiskidagsins mikla. Tónleikarnir eru samvinnuverkefni Samherja, RIGG viðburðafyrirtækis Friðriks Ómars, Fiskidagsins Mikla, Exton og fleiri. Á fimmta tug tæknimanna, söngvara og hljóðfæraleikara taka þátt í þessari stór sýningu sem er að öllum líkindum ein sú stærsta og viðamesta sem hefur verið sett upp á Íslandi. Meðal þeirra sem koma fram eru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Björgvin Halldórsson, Jónas Sig, Ragga Gísla, Birgitta Haukdal, Andrea Gylfadóttir, Friðrik Dór, Pálmi Gunnars, Blaz Rocka, að ógleymdum Ragga Bjarna. Að venju er það stórhljómsveit Rigg viðburða eða með öðrum orðum landslið Íslands sem spilar undir. Dagskráin endar með risaflugeldasýningu sem björgunarsveitin á Dalvík sér um, sýningin er einnig í boði Samherja.

Harmóníkan hljómar í gegnum fjölbreytta efnisskrá

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir frá Húsavík, Kristina Bjørdal Farstad frá Tennfjord í Noregi og Marius Berglund frá Moelv í Noregi hafa öll verið að læra saman á harmóníku í Norges musikkhøgskole. Þau halda ferna tónleika á Íslandi í sumar, og mánudaginn 14. ágúst verða þau í Siglufjarðarkirkju.

Lagavalið á tónleikunum er mjög fjölbreytt og stiklað er á stóru. Þau munu spila sóló, dúó og tríó verk frá öllum áttum. Meðal annars munu Marius og Kristina kynna hlið harmóníkunnar í þjóðlagatónlist Norðmanna sem birtist oft á tíðum í allskonar danstegundum. Þessi hlið harmóníkunnar er að mörgu leiti lík þeirri harmóníkumenningu sem hefur verið ríkjandi á Íslandi. Einnig verður leikin barrokk tónlist, rússnesk sígild harmóníkutónlist, nýlega skrifað skandinavískt tónverk ásamt fleiru. Með þessu munu þau miðla fjölbreyttri harmóníkutónlist og kynna margbrotnar hliðar harmóníkunnar.

Húsavíkurkirkju                                          Reykjahlíðarkirkju

fimmtudaginn 10. Ágúst                               föstudaginn 11. Ágúst

klukkan 20                                                     klukkan 19

           

Siglufjarðarkirkju                                       Hannesarholti í Reykjavík

mánudaginn 14.ágúst                                    fimmtudaginn 17. Ágúst

klukkan 19                                                     klukkan 19

Bókamarkaðurinn mikli á Dalvík

Bókasafnið á Dalvík mun standa fyrir sölu á þeim bókum sem þurft hefur að grisja á árinu. Flestar bækurnar koma frá Náttúrusetrinu á Húsabakka sem lagt var niður í haust en bækurnar þar var sameinaður bókum Bókasafns Dalvíkurbyggðar. Bókaunnendur munu eflaust geta gert góð kaup því hér ræðir um margar verðmætar og fágætar bókmenntir. Einstakt tækifæri sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Bókamarkaðurinn verður staðsettur fyrir framan bókasafnið eða Menningarhúsið Berg og opið verður föstudaginn 11. ágúst kl. 12.00-17.00 og laugardaginn 12. ágúst kl. 13.00-18.00.

Varðandi breytingar að hefja akstur með yngstu börnin frá Ólafsfirði til Siglufjarðar og óvissa með miðstig

Íbúar í Fjallabyggð halda áfram að berjast gegn breyttri fræðslustefnu sem Fjallabyggð hefur boðað fyrir Grunnskóla Fjallabyggðar. Rúmlega 38% af kjörstofni í Fjallabyggð mótmæla nýrri fræðslustefnu. Héðinsfjörður.is var beðinn um að birta þetta bréf sem sent var til ráðamanna.

Eftirfarandi bréf frá Sigríði V. Vigfúsdóttur hefur verið sent til barnaverndar, umboðsmanna barna, mennta- og menningarmálaráðherra, skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar, Bæjarstjóra Fjallabyggðar, talsmann barna á Alþingi og aðalmenn Bæjarstjórnar Fjallabyggðar.

Efni: Varðandi breytingar að hefja akstur með yngstu börnin frá Ólafsfirði til Siglufjarðar og óvissa með miðstig

Fjallabyggð ber samkvæmt sveitastjórnarlögum að láta atkvæðagreiðslu vegna fræðslustefnu Fjallabyggðar fara fram innan eins árs frá því óskað var eftir að hún færi fram. Fjallabyggð hefur móttekið undirskriftalista þar sem  samkv. Þjóðskrá 38,1% af kjörstofni mótmæla nýrri Fræðslustefnu Fjallabyggðar. Alls söfnuðust 612 undirskriftir í Fjallabyggð. Þrátt fyrir niðurstöður um lögbundnar kosningar hyggst sveitarfélagið knýja fram breytingarnar þó að auglóst sé að þær muni ekki halda þegar kosið verður um málið.

Ég spyr hvort skólinn hafi fengið utanaðkomandi sérfræðiálit hjá aðilum með sérþekkingu á velferð barna og á því hvaða afleiðingar það getur haft á börn að keyra þessar breytingar í gegn, nánast með vissu um að breyta verður aftur að ári liðnu þegar kosningar um málið hafa farið fram?

Í Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna kveður 3. grein á um það sem barninu er fyrir bestu og þar  segir:

“Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.”

Geta þeir aðilar hér í Fjallabyggð sem starfa að hagsmunum barna hunsað þá staðreynd að það getur ekki verið gott fyrir börnin að fara út í svo umfangsmiklar breytingar á skólagöngu sem einungis munu taka gildi í mánuði eða mesta lagi einn skólavetur?

Á vef umboðsmanns barna segir:  “Eins og allir vita eru börn ekki þrýstihópur í stjórnmálalegu tilliti og sú staðreynd liggur fyrir að sjónarmið þeirra gleymast oft og tíðum í heimi hinna fullorðnu þótt það sé auðvitað ekki algilt”

Hvernig má það vera að þeir aðilar sem starfa að hagsumunum barna í Fjallabyggð hafa virt sjónarmið barna að vettugi?

Það vekur óhug og undrun mína og hundruð annara íbúa í Fjallabyggð að þeir aðilar og fagaðilar sem ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að velferð og líðan barna í sveitarfélaginu ætli að taka þátt í þessari framkvæmd sem hefur þegar myndað sár sem ekki sér fyrir endan á að grói á meðan börn eru hér höfð að pólitísku bitbeini. Þetta mál snýst eingöngu um börn og aftur börn en ekki búfénað! Það hefur gleymst í þessu máli að það eru börnin sjálf sem skipta mestu máli.

Ég bið um svör við spurningunni um hver axli ábyrgð á því ef þessar breytingar fram og til baka hafi vondar afleiðingar, þó ekki sé nema fyrir eitt barn sem illa þolir breytingar?

Þess má að lokum geta að skv. upplýsingum Samgöngustofu eru enn ekki gerðar sömu öryggiskröfur fyrir ung börn í rútubílum og einkabílum. Hefur það mál verið skoðað sérstaklega?

 

Afrit af pósti þessum fá eftirfarandi:

 

  • Hjörtur Hjartarson – barnavernd
  • Salvör Nordal – umboðsmaður barna
  • Kristján Þór Júlíusson – mennta- og menningarmálaráðherra
  • Jónína Magnúsdóttir – skólastjóri
  • Gunnar Birgisson – bæjarstjóri
  • Bjarkey Olsen – talsmaður barna á Alþingi
  • Bæjarstjórn- aðalmenn

Með kærri kveðju,
Sigríður V. Vigfúsdóttir

Pæjumótið á Siglufirði

Hið árlega Pæjumót Knattspyrnufélags Fjallabyggðar verður haldið laugardaginn 12. ágúst.  Keppt verður í 6. og 7. flokki kvenna en að þessu sinni verður Pæjumótið dagsmót. Flestir keppendur mæta á föstudag en allir leikir fara fram á laugardag á Siglufjarðarvelli. Það eru 32 lið skráð til leiks sem koma frá 8 félögum.

Fyrstu leikir byrja kl. 9.30 á laugardagsmorgun og verður spilað fram á miðjan dag. Félögin sem taka þátt á mótinu í ár eru: KF, KA, Þór, Kormákur, Hvöt, Haukar, Fram og Vestri. Veður spáin er ágæt og er spáð heiðskíru veðri, en ekki miklum hita, og því er gott að klæða sig eftir veðri og kíkja á völlinn og styðja stelpurnar.

 

 

Króksmót Fisk Seafood á Sauðárkróki

Króksmótið í fótbolta fer fram helgina 12.-13. ágúst á Sauðárkróki eins og undanfarin ár. Sú breyting er þó í ár að mótið er einungis fyrir 6. og 7. flokk en ekki 5. flokk eins og síðustu ár. Ástæðan fyrir þessu er að fá lið hafa skráð sig undanfarin ár í 5. flokki en mikil fjölgun hefur orðið í 6. og 7. flokki. Núna eru í kringum 130 lið skráð til leiks með um 750 iðkendum. Til samanburðar þá voru 81 lið á Landsbankamótinu í júní.

Króksmótið hefur verið haldið í áraraðir á Sauðárkróki en mótið er fyrir stráka í 6. og 7 .flokki.   Allir leikir fara fram á aðalíþróttasvæðinu í hjarta bæjarins.  Gisting er í skólum sem eru við hlið vallarsvæðisins og eins er boðið upp á tjaldsvæði á svokölluðum Nöfum ofan við íþróttasvæðið.

Hólahátíð – Siðbót í samtíð

500 ára siðbótarafmælis Marteins Lúthers verður minnst með með óvenjulega veglegum hætti í ár á Hólahátíð 11.-13. ágúst, að Hólum í Hjaltadal.

Hátíðin hefst föstudaginn 11. ágúst með listgjörningnum Tesur á Hólahátíð sem hefst kl. 17:00 í Auðunarstofu. Þar munu myndlistarlistakonurnar Guðrún Kristjánsdóttir og Ólöf Nordal kynna gjörninginn. Síðan er gengið í Nýjabæ og Hóladómkirkju.

Gestum verður boðið að semja og teikna sínar eigin “tesur” sem prentaðar verða með háprenti á pappír og síðan neglir hver og einn sína tesu á tréhurð í kirkjunni. Myndlistargjörningurinn fer fram alla helgina fram eftir kvöldi.

Verkið á að minna á gjörninginn þegar Lúther negldi “tesurnar” 95 á kirkjudyr í Wittenberg og markaði þannig upphaf siðbótar í Evrópu.

Laugardaginn 12. ágúst kl. 9:00 f.h. verður pílagrímaganga eftir Hallgrímsveginum frá Gröf á Höfðaströnd heim að Hólum. Leiðin er 22 km. á jafnsléttu. Bílferðir verða í boði fyrir og eftir göngu frá Hólum og er hægt að panta þær hjá sr. Gylfa í síma 895-5550.

Kl. 16:00 eða að göngu lokinni verður sérstök athöfn sem kölluð er endurnýjun skírnarinnar og eftir hana er altarisganga í Hóladómkirkju. Þetta er einföld og falleg athöfn sem höfðar til persónulegrar upplifunar hvers og eins. Öllum er velkomið að taka þátt í þeirri athöfn hvort sem þau hafa gengið pílagrímagönguna eða ekki.

Kl. 19:00 er síðan kvöldverður “Undir Byrðunni” í anda hátíðarinnar.

Sunnudaginn 13. ágúst. kl. 11:00 verður flutt tón-leikhús um tvær siðbótarkonur, þær Elísabetu Cruciger og Halldóru Guðbrandsdóttur í Hóladómkirkju. Elísabet var nunna sem snerist til hins nýja siðar og var eitt af fyrstu sálmaskáldum siðbótarinnar og samstarfskona Marteins Lúthers. Hún átti sálm í fyrstu sálmabók Lúthers og í fyrstu útgáfu Grallarans, messubók Guðbrands Þorlákssonar, biskups á Hólum. Halldóra var dóttir Guðbrands biskups og var fóstra Hallgríms Péturssonar og bústýra á Hólum með leyfi konungs í forföllum föður sins. Það eru þær Diljá Sigursveinsdóttir og Guðný Einarsdóttir sem hafa sett leikhúsið saman með tónlist frá barokktímanaum í Þýskalandi og grallarasöng frá siðbótartímanum á Íslandi. Það er ReykjavíkBarokk sem flytur verkið, en fram koma 12 hljóðfæraleikarar, fjórir söngvarar og leikkona auk kirkjukóra Hofsóss- og Hólaprestakalls.

Kl. 14:00 á sunnudeginum er hátíðarmessa í Hóladómkirkju með þátttöku ReykjavíkBarokk. Í messunni verður mag.theol Stefanía Guðlaug Steinsdóttir vígð til prestsþjónustu í Lögmannshlíðarprestakalli.

Eftir messuna er að venju veglegt veislukaffi í Hólaskóla, sem öllum kirkjugestum er boðið í.

Kl. 16:30 er hátíðasamkoma í Hóladómkirkju.

ReykjavíkBarokk sér um tónlist og hátíðarræðu flytur sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir fyrsta konan sem hlaut prestsvígslu á Íslandi.

Tónlistarhátíðin Berjadagar haldin í Ólafsfirði

Tónlistarhátíðin Berjadagar fer fram í Ólafsfirði 17.-19. ágúst. Á hverju kvöldi verða klassískir tónleikar og ýmsir viðburðir í boði á daginn. Dagskráin er fyrir alla aldurshópa og ókeypis aðgangur fyrir 18 ára og yngri. Opnunartónleikarnir „Líttu sérhvert sólarlag“ verða í Ólafsfjarðarkirkju á fimmtudagskvöldinu þar sem flutt verða þekkt ljóð og aríur. Á föstudagskvöldinu verða kammertónleikarnir „Reimleikar” í Ólafsfjarðarkirkju og Stelpurófan rappar fyrir börn og unglinga á laugardeginum. Gestir eru hvattir til að tryggja sér miða á  „Tapas og tónlist í Tjarnarborg“ sem fram fer laugardagskvöldið 19. ágúst í Menningarhúsinu Tjarnarborg þar sem gestir munu gæða sér á tapasréttum og ljá suðrænni tónlist eyra. Bjarni Frímann Bjarnason kemur fram ásamt glæsilegum hópi tónlistarmanna og söngvara. Sérstakur gestur hátíðarinnar að þessu sinni er þýska söngstjarnan Frédérique Friess. Klykkt er út með Berjamessu og gönguferð sunnudaginn 20. ágúst.

Nýr Skarðsvegur fyrir skíðasvæðið á Siglufirði

Vegagerðin bauð út nýbyggingu Skarðsvegar í Skarðsdal í Siglufirði, á kafla sem byrjar skammt neðan við Skíðaskálans í Skarðsdal og nær að fyrirhuguðum nýjum skíðaskála, sunnan Leyningsár.  Lengd vegkaflans í útboðinu er um 1,22 km auk 5.300 m2 bílastæðis við efri enda kaflans.   Verkinu skal að fullu lokið 1. október 2018.

Tilboð voru opnuð 1. ágúst síðastliðinn og bárust tvö tilboð í verkið.  Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 146.100.000 kr, lægasta tilboðið átti Árni Helgason ehf. í Fjallabyggð.

Tilboðin sem komu voru:

 

Árni Helgason ehf. 125.905.000 kr.
Norðurtak ehf. 162.943.800 kr.

400 ára gömul popplög og baðstofurapp 

Þjóðlagasetrið á Siglufirði hefur í sumar staðið fyrir nokkrum mjög velsóttum viðburðum og næsta fimmtudagskvöld þann 10. ágúst kl. 20:30, verður haldin síðasta kvöldstund sumarsins. Sérstakir gestir verða sópransöngkonan góðkunna Hallveig Rúnarsdóttir og hin fjölhæfa tónlistarkona Jennifer Bliss Bennett frá Englandi. Sungin verða 16. og 17. aldar dægurlög, leikið á barokk-fiðlu og hið hljómfagra endurreisnarhljóðfæri viola da gamba. Einnig mun Eyjólfur Eyjólfsson slá á langspil og félagar úr Kvæðamannafélaginu Rímu kveða rímur og syngja tvísöngva.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!

Opnaði nýjan bar um verslunarmannahelgina á Siglufirði

Nýr bar hefur opnað á Siglufirði við Suðurgötu 10 þar sem Leikfélag Siglufjarðar var áður með sal og aðsetur. Eigandinn er rakarinn vinsæli, Jón Hrólfur Baldursson og Ólöf kona hans. Hrólfur eins og hann er kallaður, hefur gengið lengi með þessa hugmynd og hefur verið að leita að hentugu húsnæði á Siglufirði síðustu árin. Barinn heitir Kveldúlfur Bjór og Bús og verður hann rekinn samhliða rakarastofunni Hrímnir Hár og Skegg sem er til húsa í sömu byggingu. Í fyrstu verður opið á miðvikudögum og fimmtudögum frá 20:00-23:00 og á föstudögum og laugardögum frá 20:00-01:00. Staðurinn tekur 30 manns í sæti en leyfi er fyrir 40-45 manns. Unnið hefur verið að breytingum frá byrjun júnímánaðar á húsnæðinu. Hrólfur festi kaup á léninu kveldulfur.is síðastliðið haust og hefur hafist handa við að útbúa heimasíðu fyrir barinn, en hann hefur einnig gert fésbókarsíðu þar sem hægt er að nálgast upplýsingar og myndir.

Um helgina var fyrsti opnunardagur sem var nokkurskonar reynsluopnun sem var óauglýst nema til nokkra vina þeirra hjóna. Kvöldið heppnaðist afar vel að sögn Hrólfs þar sem þau vildi prófa þetta í rólegheitum. “Stundum er þetta óvænta skemmtilegra en það sem er fyrirfram vitað“. – Segir Hrólfur í samtali við Héðinsfjörð.is.

Hvernig gekk lokaundirbúningurinn fyrir opnunardaginn?

“Ölgerðin Egill Skallagrímsson hefur verið okkur ótrúlega hjálpleg og gerði okkur það kleift að opna um helgina með ótrúlega hraðri og góðri þjónustu og vildu allt fyrir okkur gera til þess að þetta tækist hjá okkur. Einnig var hann Matti hjá Siglfirsku bjórframleiðslunni Segli 67 snöggur að redda okkur og þökkum við þeim mikið og vel fyrir.” – Segir Hrólfur.

Ekki er matsala á staðnum en gestir geta gripið í spilastokka og ýmis önnur spil sem eru á borðunum og hlustað á góða tónlist. Kveldúlfur Bjór og Bús er tilvalinn fyrir þá sem vilja slaka á eftir amstur dagsins og fá sér áfengan eða óáfengan drykk á notalegum stað.  Nafnið Kveldúlfur kemur frá stærstu Síldarverksmiðju í Evrópu sem var byggð árið 1937 á Hjalteyri við Eyjafjörð.

 

 

Um 60 manns tóku þátt í listasmiðju barna og aðstandenda

Listasmiðja fyrir börn og aðstandendur sem miðar að jafnræði í sköpun milli kynslóða var haldin í Alþýðuhúsinu á Siglufirði í morgun. Þetta er í fimmta sinn sem Aðalheiður Eysteinsdóttir heldur slíka smiðju um verslunarmannahelgina á Siglufirði. Alþýðuhúsið er hennar vinnustofa og heimili með menningarlegu ívafi.

Á morgun, sunnudaginn 6. ágúst kl. 14.30 – 15.30 munu Arnar Steinn og Helena Stefánsdóttir ( í Ljósastöðinni) vera með erindi á Sunnudagskaffi með skapandi fólki.
Guðný Kristmannsdóttir sýnir verk sín alla helgina í Kompunni frá kl. 14.00 – 17.00. 

Frítt er á alla viðburði.