All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Orkusalan biðst afsökunar á rafmagnsleysi í Fjallabyggð

Orðsending frá Orkusölunni til íbúa Fjallabyggðar.

Kæru viðskiptavinir.

Föstudaginn 21. febrúar sl. varð rekstrartruflun á dreifikerfi RARIK sem gerði það að verkum að Fjallabyggð varð að mestu rafmagnslaus í um fjórar klukkustundir.  Við slíkar aðstæður gegnir Skeiðsfossvirkjun, sem er ein af virkjunum Orkusölunnar, mikilvægu hlutverki í afhendingu raforku inn á dreifikerfi RARIK.

Þrátt fyrir að Orkusalan beri ekki ábyrgð á dreifikerfi RARIK eða uppbyggingu þess gerum við okkur grein fyrir því að rétt samspil virkjunarinnar og dreifikerfis RARIK er mikilvægt og tökum við hlutverk okkar vegna þess alvarlega.

Virkjunin var í fullum rekstri þennan dag en sló út við rekstrartruflunina eins og eðlilegt er við slíkar aðstæður og varnir hennar og dreifikerfis RARIK gera ráð fyrir.  Virkjunin var tafarlaust keyrð upp aftur og var að fullu til reiðu fyrir dreifikerfi RARIK frá þeim tímapunkti.

Orkusalan telur að sá tími sem tók að koma rafmagni á Fjallabyggð eftir rekstrartruflunina sé óásættanlegur fyrir alla aðila og hafa sérfræðingar fyrirtækisins nú þegar átt fund með RARIK varðandi lausnir svo koma megi í veg fyrir sambærilegt ástand í framtíðinni.

Ljóst er að nokkrir þættir hafa breyst á síðustu árum sem gætu haft áhrif á þann tíma sem tekur að koma rafmagni á Fjallabyggð við slíkar aðstæður.  Má þar meðal annars nefna aukningu jarðstrengja í dreifikerfi RARIK, að ekki sé lengur varaafl til reiðu í Fjallabyggð ásamt aldri á stjórn- og rafbúnaði tveggja véla Skeiðsfossvirkjunar.

Nú þegar hefur verið tekin ákvörðun hjá Orkusölunni um að endurnýja stjórn- og rafbúnað í vélum Skeiðsfossvirkjunar.  Er von okkar að með því geti Orkusalan lagt sitt af mörkum til að stytta þann tíma sem tekur að koma rafmagni á Fjallabyggð komi til sambærilegrar rekstrartruflana í framtíðinni.  Yfirferð og úrbætur á öðrum atriðum er varða afhendingaröryggi rafmagns í Fjallabyggð er alfarið í höndum RARIK.  Orkusalan mun samt sem áður, í samvinnu við RARIK, fylgja eftir nauðsynlegum úrbótum sem gera þarf vegna tengingar virkjunarinnar við dreifikerfið þannig að ef tenging við landskerfið rofnar sé tryggt að rafmagn komist sem allra fyrst frá virkjuninni til viðskiptavina í Fjallabyggð.

Þjónustugæði og rekstraröryggi er mikilvægur þáttur í starfsemi okkar og ánægja viðskiptavina skiptir okkur öllu máli.  Við gerum okkur því grein fyrir því að rekstrartruflun á dreifikerfi RARIK sem þessi kemur illa við fólk.

Ég vil fyrir hönd Orkusölunnar biðja ykkur innilega afsökunar á óþægindunum sem þetta hafði í för með sér.

Með vinsemd og virðingu,

Magnús Kristjánsson.

framkvæmdastjóri Orkusölunnar

Bátasmíðanámskeið Síldarminjasafnsins

Síldarminjasafn Íslands stendur fyrir námskeiði um bátavernd og viðgerð gamalla trébáta vikuna
30. mars – 3. apríl nk. Námskeiðið er ætlað iðnnemum, safnmönnum og öðrum áhugamönnum um bátavernd. Hafliði Aðalsteinsson bátasmiður og heiðursiðnaðarmaður ársins 2020 sér um kennslu en Hafliði hefur áralangra reynslu af nýsmíði trébáta sem og viðgerðum gamalla. Sambærileg námskeið hafa farið fram á vegum safnsins síðustu ár og tekist afar vel til.

Í upphafi námskeiðs fer fram leiðsögn um það hvernig ástand gamals báts skal metið og í framhaldinu verður hafist handa við verklega kennslu. Námskeiðið fer fram með þeim hætti að unnið er alla daga, frá mánudegi til föstudags, frá 8:00 – 18:00 síðdegis. Nemendur taki fullan þátt í smíði og annarri vinnu undir handleiðslu kennara.
Unnið verður að viðgerð tveggja báta sem varðveittir eru í Gamla Slippnum. Gunnhildur ÓF18 er 2 brl. afturbyggður súðbyrðingur úr furu og eik og verður unnnið að viðgerð á byrðingi hennar. Lóa er vestfirskur árabátur árabát úr furu frá árinu 1930, smíðuð af Sigurði Sigurðssyni beyki í Bolungarvík. Báturinn þarfnast töluverðra viðgerða og þarf að skipta um efsta umfarið, borðstokkinn, endursmíða kollharða og bönd.

Meðal markmiða Síldarminjasafnsins er að standa vörð um forna þekkingu á smíði opinna tréskipa á Íslandi og er námskeiðið skipulagt í samræmi við samning safnsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Gamli Slippurinn er kjörinn vettvangur til námskeiðshalds, en um er að ræða verkstæði frá árinu 1934, sem komst í eigu Síldarminjasafnsins árið 2011. Þar er að finna gömul verkfæri og trésmíðavélar til bátasmíða sem nemendur notast við á meðan námskeiðinu stendur. Sem dæmi má nefna stóran amerískan þykktarhefil og bandsög sem eru orðin hundrað ára gömul, og enn í notkun.

Staðsetning: Gamli Slippurinn, Siglufirði
Tími: 30. mars – 3. apríl 2020
Fjöldi: 7 nemendur að hámarki
Verð: Ekkert námskeiðsgjald. Uppihald á eigin kostnað.
Umsóknarfrestur: 16. mars 2020
Skráning: anita@sild.is

9 félagskipti hjá KF á síðustu dögum

Það hefur verið nóg að gera á skrifstofunni hjá Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar á síðustu dögum og vikum. Nú í vikunni gengu í gegn 9 félagskipti hjá KF. Félagið safnar nú leikmönnum fyrir sumarið enda hafa margir máttarstólpar liðsins fært sig um set fyrir komandi tímabil, og þarf að fylla í þær stöður. Ungir leikmenn halda áfram að koma á lánssamningum til félagsins eins og undanfarin ár og nokkrir hafa gert ótímabundin félagskipti. Svo er einnig spurning hvort erlendir leikmenn komi rétt fyrir Íslandsmótið eins og undanfarin ár.

Nýir leikmenn:

Andri Snær Sævarsson kemur frá KA á ótímabundnum samningi, en hann hefur leikið sem lánsmaður sl. ár hjá KF og staðið sig virkilega vel.

Bjarki Baldursson kemur á láni frá Þór. Hann er 21 árs og spilaði með Tindastóli á síðustu leiktíð.

Björgvin Daði Sigurbergsson er uppalinn leikmaður KF og snýr til baka til liðsins frá Samherjum.

Helgi Már Kjartansson er kominn frá KA, hann er 18 ára og er að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki.

Ingi Freyr Hilmarsson er kominn frá Þór og er reynslumikill leikmaður sem getur spilað sem bakvörður og kantmaður.

Jón Óskar Sigurðsson kemur á lánssamningi frá Þór, en hann spilaði með Tindastóli á síðustu leiktíð.

Kristófer Andri Ólafsson kemur frá Samherjum, en hann hefur áður leikið nokkur tímabil með KF.

Ómar Logi Kárason kemur frá KA, hann er 20 ára og er að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki.

Þá var Valur Reykjalín Þrastarson farinn til Hauka, eins og við greindum frá fyrir nokkrum dögum.

Mynd frá Frétta- og fræðslusíða UÍF.

 

Frítt í sund og á skíði í vetrarfríinu á Akureyri

Akureyrarbær býður í sund og á skíði í vetrafríinu, án kostnaðar fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum. Miðvikudaginn 26. febrúar, fimmtudaginn 27. febrúar og föstudaginn 28. febrúar geta grunn- og framhaldsskólanemar á Akureyri farið í skíðalyfturnar í Hlíðarfjalli og í sundlaugar Akureyrarbæjar án endurgjalds.

Grunnskólanemendur gefa upp kennitölu og nafn skóla í afgreiðslu og framhaldsskólanemar VMA og MA framvísa nemendaskírteinum.

Athugið að krakkarnir þurfa að eiga rafrænt kort eða kaupa slíkt á 1.000 krónur í skíðalyfturnar. Kortin fást í afgreiðslu Hlíðarfjalls.

Öskudagsskemmtun í Ólafsfirði

Skíðafélag Ólafsfjarðar verður með öskudagsskemmtun í Íþróttahúsinu í Ólafsfirði á öskudag, 26. febrúar kl. 14:15-15:15.  Kötturinn verður sleginn úr tunnunni og þrautabraut verður í boði.

Rúta fer frá Grunnskólanum á Siglufirði kl. 13:45 og frá Grunnskólanum í Ólafsfirði kl. 15:25.

Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Bilun kom upp í stjórnbúnaði Múlabergs

Björgunarskipið Sigurvin fylgdi togaranum Múlabergi SI-22 inn Siglufjörð og til hafnar í dag en bilun hafði komið upp í stjórnbúnaði togarns. Múlabergi var svo lagt að bryggju án aðstoðar um kl. 19:00 en rétt þótti að hafa aðstoð til taks til öryggis.

Björgunarsveitin Strákar greindu fyrst frá þessu á fésbókarsíðu sinni.

Mynd frá Björgunarsveitin Strákar.
Mynd: Björgunarsveitin Strákar.

KF fór vel af stað í Lengjubikarnum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Einherji mættust í dag í Lengjubikarnum. Leikurinn fór fram í Boganum á Akureyri og taldist heimaleikur KF.

Nokkrir nýir leikmenn eru núna á láni hjá KF til að brúa bilið fram að Íslandsmóti en mögulega eru einhverjir þeirra á lengri lánssamningi. Einn nýr leikmaður er einnig í hópnum, Ingi Freyr Hilmarsson og kom hann beint inn í byrjunarliðið. Hann hefur spilað 199 leiki í meistaraflokki í deild- og bikarleikjum og tæplega 100 leiki deildarbikar Kjarnafæðismótinu með Þór, KA og Leiftri. Ingi Freyr kemur með mikla reynslu inn í liðið, en margir öflugir leikmenn hafa horfið á braut frá síðsta ári.

Ungu strákarnir og lánsmennirnir taka núna stærra hlutverk fram að Íslandsmótinu þar til hópurinn verður fullskipaður. Sævar Gylfason minnti hressilega á sig í þessum leik og skoraði fyrsta mark leiksins í fyrri hálfleik og kom KF í 1-0 og var það einnig staðan í hálfleik.

Allt stefndi í 1-0 sigur hjá KF en í blálokin skoraði Sævar aftur, og sitt annað mark og gulltryggði góðan sigur á Einherja.

Flottur sigur hjá KF en þessi lið gjörþekkja hvert annað og hafa leikið fjölda leikja síðustu árin enda fylgst að í deildinni.

 

Heimsmeistaramót kvenna í íshokkí á Akureyri

Heimsmeistaramót kvenna í íshokkí 2020 hefst í dag, sunnudaginn 23. febrúar í Skautahöllinni á Akureyri. Fyrsti leikur íslenska liðsins er í dag gegn Ástralíu.  Þátttökuþjóðir auk Íslands eru Ástralía, Króatía, Ukraína, Nýja Sjáland og Tyrkland. Dagpassi kostar 2000 kr. og vikupassi á alla leiki 6000 kr. Streymi frá leikjunum verður hér á Youtube.

Liðin eru í 2. deild og há harða baráttu um að komast upp um deild. Stuðningur við stelpurnar okkar skiptir miklu máli og því eru íbúar og stuðningsmenn hvattir til að mæta á leiki íslenska liðsins og hvetja það til sigurs. Tveir þriðju hlutar íslenska liðsins eru Akureyringar. Nánari upplýsingar um miðasölu og dagskrá er að finna á heimasíðu Íshokkísambands Íslands.

Leikir Íslands:

Ísland – Ástralía 23. febrúar kl. 20.00
Ísland – Nýja Sjáland 24. febrúar kl. 20.00
Ísland – Tyrkland 26. febrúar kl. 20.00
Ísland – Croatía 27. febrúar kl. 20.00
Ísland – Ukraína 29. febrúar kl. 17.00

Landslið kvenna 2020:

Alexandra Hafsteinsdóttir
Anna Sonja Ágústsdóttir
Berglind Rós Leifsdóttir
Birta Júlía Þorbjörnsdóttir
Brynhildur Hjaltested
Elín Darkoh Alexdóttir
Eva María Karvelsdóttir
Flosrún Vaka Jóhannesdóttir
Guðrún Marín Viðarsdóttir
Herborg Rut Geirsdóttir
Hilma Bóel Bergsdóttir
Jónína Margrét Guðbjartsdóttir
Karítas Sif Halldórsdóttir
Kolbrún María Garðarsdóttir
Kristín Ingadóttir
Ragnhildur Kjartansdóttir
Saga Margrét Sigurðardóttir
Sarah Smiley
Sigrún Agatha Árnadóttir
Silvía Rán Björgvinsdóttir
Sunna Björgvinsdóttir
Teresa Regína Snorradóttir

Þjálfarar eru Jón Benedikt Gíslason og Sami Petteri Lehtinen.
Liðsstjóri: Brynja Vignisdóttir.
Tækjastjóri: Hulda Sigurðardóttir.
Kírópraktor: Margrét Ýr Prebensdóttir.
Sálfræðingur: Richard Tahtinen.

Image result for skautahöll akureyrar

Hoffell vill byggja íbúðir í Varmahlíð og á Hofsósi

Fyrirtækið Hoffell ehf. hefur óskað eftir viðræðum við fulltrúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar um uppbyggingu nokkurra íbúða á Hofsósi og í Varmahlíð. Þessar íbúðir gætu hentað þeim sem vildu flytja úr stærri fasteignum í minni.

Hoffell flytur inn byggingarefni og byggir hús  samkvæmt skandinavískri fyrirmynd. Fyrirtækið er samstarfsaðili arkitektastofunnar Urbanhus í Noregi sem hannar útlit húsanna, í samstarfi við arkitekta á Íslandi.

Einbýlishús

Opið í Skíðasvæðinu í Skarðsdal

Opið er í dag á Skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði. Opið er frá 10-16 í dag og verða tvær lyftur opnar samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmanni. Í dag fer fram Stubbamót SSS fyrir 10 ára og yngri.

Lokað var á svæðinu í gær en gríðarlega mikill snjór var á svæðinu og var allt á kafi. Moka þurfti veginn að skíðasvæðinu og frelsa vinnutæki sem voru á kafi í snjó.

Mynd frá Skíðasvæðið Skarðsdal Siglufirði.
Myndir: Skíðasvæðið í Skarðsdal.

Mynd frá Skíðasvæðið Skarðsdal Siglufirði.

Veður með versta móti í Skagafirði í vetur

Veðrið hefur verið með versta móti það sem af er vetri í Skagafirði. Hefur veðrið og tilheyrandi ófærð haft mikil áhrif á daglega starfsemi í héraðinu. Einkum hefur tíðin verið rysjótt frá norðanóveðrinu sem gekk yfir landið 10.-11. desember 2019. Þetta kemur fram á vef Skagafjarðar.

Má þannig nefna að þjóðvegur 1 um Vatnsskarð hefur verið lokaður í 16 skipti síðan 10. desember sl., þjóðvegur 1 um Öxnadalsheiði í 19 skipti frá sama tíma, Þverárfjall um 26 skipti og Siglufjarðarvegur um 24 skipti. Þess má geta að þjóðvegur 1 um Vatnsskarð og Öxnadalsheiði er í þjónustuflokki 2 hjá Vegagerðinni á meðan Þverárfjallsvegur og Siglufjarðarvegur eru í þjónustuflokki 3, sem skýrir þennan mun á fjölda lokunardaga.

Einnig hefur verið mikil ófærð á vegum innan héraðs og í þrígang hefur sjór flætt yfir hafnarsvæðið og Strandveg á Sauðárkróki.

Þá hefur skólahald oft fallið niður í grunnskólum héraðsins. Sem dæmi um það hafa 4 heilir kennsludagar fallið niður í Árskóla á Sauðárkróki vegna ófærðar eða rafmagnsleysis, í Varmahlíðarskóla hafa 7 dagar fallið niður og í Grunnskólanum austan Vatna hafa 8 dagar fallið niður. Þessu til viðbótar hafa nokkur tilfelli verið þar sem hluti kennsludaga hefur fallið niður.

Þá hafa verið tíðar lokanir í leikskólum, tónlistarskóla og íþróttamannvirkjum af sömu völdum.

Mynd: Skagafjörður.is

55 án atvinnu í Fjallabyggð

Atvinnuleysi mælist nú 5% í Fjallabyggð og hefur ekki mælst svona hátt síðan í janúar 2019. Alls voru 55 án atvinnu í janúar 2020 í Fjallabyggð, 26 karlar og 29 konur og fjölgaði um 10 á milli mánuða. Er þetta mestur fjöldi atvinnulausra í Fjallabyggð síðan í apríl 2017 en þá voru 56 án atvinnu.

Lokað til Fjallabyggðar í dag

Báðir vegirnir til Fjallabyggðar, Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli hafa verið lokaðir í dag. Siglufjarðarvegur er lokaður vegna ófærðar og snjóflóðahættu og opnar ekki í dag. Ólafsfjarðarmúli hefur verið lokaður vegna snjóflóðahættu í dag. Hættustig er enn í gildi og vegurinn verður ekki opnaður í dag.

Að auki fór rafmagn af í Fjallabyggð í dag í nokkra klukkutíma og lokuðu sum fyrirtæki í dag vegna þessa.

Einn skólastjóri fyrir Dalvíkurskóla og Árskógarskóla til framtíðar

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt að einn skólastjóri verði yfir Dalvíkurskóla og Árskógarskóla ótímabundið.
Friðrik Arnarson var ráðinn skólastjóri Dalvíkurskóla á síðasta ári og hefur gengt stöðu skólastjóra Árskógarskóla í vetur, en enginn sótti um stöðuna þegar hún var auglýst sl. haust. Friðrik mun því gegna báðum stöðum til framtíðar.
Með því að hafa einn stjórnanda yfir báðum skólunum eru miklir möguleikar til samstarfs sem nýtist bæði nemendum og starfsfólki. Með þessu fyrirkomulagi fæst stöðugleiki í skólastarfið til framtíðar hjá báðum skólum.

Valur Reykjalín yfirgefur KF í annað sinn

Valur Reykjalín Þrastarson hefur yfirgefið Knattspyrnufélag Fjallabyggðar fyrir Hauka í Hafnarfirði. Valur er uppalinn hjá KF og hefur spilað frá unga aldri með félaginu. Hann hafði einnig félagskipti við Val í Reykjavík árið 2018 en kom til baka í fyrra og spilaði með KF eftir erfið meiðsli.  Valur hefur leikið 58 leiki í meistaraflokki og skorað 6 mörk og einnig leikið 22 leiki í deildarbikar og Norðurlandsmótinu og skorað 11 mörk. Valur hjálpaði KF að komast uppúr 3. deildinni í fyrra og lék 22 leiki og skoraði 3.

Haukar hafa verið duglegir að bæta við nýjum leikmönnum í upphafi árs og er Valur einn þeirra. Félagið leikur í 2. deildinni í sumar og ætlar sér örugglega að komast beint upp í 1. deildina.

KF og Haukar mætast á Ólafsfjarðarvelli, 6. júní, og gæti hann leikið þar gegn sínu uppeldisfélagi.

Valur flutti á höfuðborgarsvæðið sl. haust og stefnir á nám. Óskum honum velfarnaðar hjá nýju félagi.

Mynd frá Valur Reykjalín Þrastarson.

Björgunarsveitir stóðu vaktina í Fjallabyggð

Mörg verkefni voru í gangi fyrir Björgunarsveitirnar í Fjallabyggð í gærkvöldi en óveður skall á og fuku þakplötur af tveimur húsum á Siglufirði, ruslatunnur og fleira lauslegt fauk um bæinn. Björgunarsveitin Strákar fylgdu sjúkrabílnum í tvö útköll sem bárust nánast á sama tíma.

Annar björgunarsveitarbíll Stráka fylgdi sjúkrabíl í forgangsakstri til Akureyrar og svo var öðrum bíl fylgt að bílveltu í Fljótum. Björgunarsveitin Tindur í Ólafsfirði komu til aðstoðar meðan bílar Stráka sinntu fylgd sjúkrabílanna.

Myndir með fréttinni koma frá Björgunarsveitinni Strákum.

Mynd frá Björgunarsveitin Strákar.
Myndir frá Strákum.

Mynd frá Björgunarsveitin Strákar.

Mynd frá Björgunarsveitin Strákar.

 

Tvö gull til Siglufjarðar í badminton

Tennis- og badmintonfélag Siglufjarðar(TBS) sendi nokkra iðkendur á Landsbankamót ÍA á Akranesi sem fór fram dagana 15.-16. febrúar. Hrafnhildur Edda Ingvarsdóttir frá TBS gerði sér lítið fyrir og vann til gullverðlauna bæði í einliða – og tvíliðaleik í flokki U13A Tátur. Í tvíliðaleiknum lék hún með iðkanda frá ÍA. Aðrir keppendur TBS náðu ekki í verðlaunasæti á þessu móti.

Voru all 136 keppendur skráðir til leiks í flokkum U11 – U19. Mótið er hluti af stjörnumótaröð unglinga og gefur stig á styrkleikalista þess.

Mynd: https://www.badminton.is/

Endurnýja skólalóðina hjá Leikhólum í Ólafsfirði

Til stendur að endurnýja skólalóð leikskólans í Ólafsfirði í sumar. Forhönnun lóðarinnar liggur fyrir og verða teikningar hengdar upp á deildum Leikhóla og lagðar fram til kynningar á fundi foreldraráðs Leikskóla Fjallabyggðar.

Þegar þessum áfanga lýkur hafa allar skólalóðir við Leik- og Grunnskóla Fjallabyggðar verið endurnýjaðar.

Leikskólinn Leikhólar var stofnaður 1982.

Leikskólinn Leikhólar í Ólafsfirði

 

Blakfélag Fjallabyggðar mætti HK-b

Blakfélag Fjallabyggðar og HK-b mættust á Siglufirði um helgina í 1. deild karla í blaki. BF hafði aðeins unnið einn leik af síðustu 5 leikjum í deildinni og kom sigurleikurinn í byrjun nóvember. HK-b hafði unnið 3 af síðustu 5 leikjum sínum í deildinni og er í toppbaráttunni, en BF er að berjast fyrir veru sinni í deildinni eftir erfiðan vetur.

HK mætti með þunnskipað lið og voru aðeins sex í hópnum og var einnig spilandi þjálfari. HK var með tvo erlenda leikmenn í þessum hópi. Ungu strákarnir í BF eru að fá dýrmætar míntútur í hverjum leik núna og ákveðin kynslóðaskipti að fara af stað enda lykilmenn liðsins farnir að eldast talsvert (nefnum engin nöfn).

HK náði fljótlega yfirhöndinni í fyrstu hrinu og leiddu leikinn. Staðan var 5-5 og tók þá HK-vélin af stað og komust í 6-11, 7-13 og 10-17 en þá tók BF leikhlé. BF minnkaði muninn í 14-18 en HK komst í 18-22 og unnu hrinuna 17-25.

Önnur hrina var betri hjá BF og var jöfn framan af, staðan var 3-3 og 6-7 þegar HK náði góðu forskoti 6-10. BF minnkaði muninn í 11-12 og komust yfir 15-14 eftir mikla baráttu. Liðin skiptust á að skora en BF náði loks að brjóta ísinn og komst í 22-19 og tóku þá gestirnir leikhlé. HK minnkaði muninn í 23-21 og tók nú BF leikhlé enda mikið í húfi á lokamínútum hrinunnar. Jafnt var í 24-24 og fór leikurinn í upphækkun, BF var sterkara í lokin og unnu 26-24 eftir spennandi lokamínútur og jöfnuðu leikinn 1-1.

HK var sterkara liðið í þriðju hrinunni og komst í 1-6 og tóku BF strákarnir leikhlé. BF minnkaði muninn í 6-8 og 10-11. BF jafnaði svo í 13-13 en HK tók öll völd eftir það og komust í 14-18 og 16-23 með góðu spili. BF tók hér leikhlé, en munurinn var of mikill og HK vann 17-25 og voru komnir í 1-2.

HK byrjaði fjórðu hrinuna vel og komust í 0-4 en BF bitu frá sér og minnkuðu muninn í 4-5 og 6-7. HK komst í 9-10 og tók í framhaldinu aftur völdin á leiknum og komust í 9-12 og 13-19 eftir talsverða baráttu við heimamenn. BF tók hér leikhlé og gerði skiptingar á liðinu en komust ekki aftur inn í leikinn og HK vann hrinuna örugglega 14-25 og leikinn 1-3.

BF á nú tvo leiki eftir á Íslandsmótinu og fara þeir fram í marsmánuði og eru báðir leikirnir útileikir.

Flugvél Transavia lenti á Akureyri í morgun

Flugvél hollenska flugfélagsins Transavia lenti á Akureyrarflugvelli í morgun, með fyrstu farþegana sem koma til Norðurlands í vetur á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel. Þetta er í fyrsta sinn sem Voigt Travel býður upp á beint flug frá Hollandi til Norðurlands að vetrarlagi, en ferðaskrifstofan bauð upp á sumarferðir árið 2019 sem vöktu mikla lukku. Þá, eins og á komandi sumri, var flogið frá Rotterdam til Akureyrar en í vetrarferðunum nú er flogið frá Amsterdam. Alls verða farnar 8 ferðir til Norðurlands, tvisvar í viku fram til 9. mars.

Nýverið var ILS aðflugsbúnaður tekinn í notkun á Akureyrarflugvelli og er Transavia fyrsta flugfélagið sem nýtir þennan búnað til aðflugs í reglubundnu millilandaflugi. Ljóst er að slíkur búnaður skiptir miklu máli fyrir flugfélagið, eins og öll önnur flugfélög og auðveldar aðflugið til muna frá því sem áður var.

Ferðaskrifstofa Akureyrar hefur einnig boðið upp á ferðir til Amsterdam í samstarfi við Voigt Travel og má með sanni segja að Norðlendingar hafi gripið tækifærið til að skreppa til hollensku höfuðborgarinnar, jafnvel svo mikið að uppselt er í nokkrar flugferðir eða fá sæti laus.

Eins og áður segir mun Voigt Travel áfram skipuleggja sumarferðir til Norðurlands frá Rotterdam, einu sinni í viku frá byrjun júní til loka ágúst, og að auki geta Íslendingar áfram keypt sér ferðir til Hollands í sumar eins og verið hefur.

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Akureyrarflugvöllur. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

 

Nemendur safna fé með mokstri

Nemendur í Menntaskólanum á Tröllaskaga sem eru í áfanganum Matur og Menning í Evrópu, safna nú fé fyrir ferð sinni til Portúgals, sem verður í apríl. Nemendur bjóða nú uppá snjómokstur og snjóblásara gegn greiðslu. Skóflumokstur er frá  4000 kr. og við bætist 2000 kr. ef verkið tekur meira en klukkustund. Fyrir snjóblásara kostar 6000 kr og einnig 2000 kr. ef verkið tekur meira en klukkustund. Nemendur eru klárir að koma núna um helgina. Hægt er að hafa samband við Idu í síma 695-7718 eða ida@mtr.is.

Endilega hafið samband og styrkið þessa nemendur til náms.

Mynd frá Ida Semey.