All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Sjö mót á dagskrá hjá Golfklúbbi Fjallabyggðar í sumar

Golfklúbbur Fjallabyggðar fagnar 50 ára afmælisári með 7 mótum í sumar, og ef til vill bætast við fleiri mót. Klúbburinn hét áður Golfklúbbur Ólafsfjarðar og var stofnaður í janúar 1968. Klúbburinn breytti um nafn í desember 2015.

Í sumar verður eitt kvennamót, tvö unglingamót og fjögur almenn mót. Sjóarasveifla er fyrsta mótið og verður þann 1. júní 2018. Opna Rammamótið verður háð þann 21. júlí og Opna Kristbjargarmótið 28. júlí. Norðurlandsmótið verður 31. júlí, Minningarmót GFB 6. ágúst og Kvennamót GFB 1. september. Það verða því fjölbreytt mót í sumar á Skeggjabrekkuvelli.

Aðsend grein – Ég styð ljósmæður

Ég styð ljósmæður.

Þetta er stétt sem styður, aðstoðar, veitir sáluhjálp, grípur inn í ef eitthvað bjátar á og veitir fæðingarhjálp.
Nú í aðdraganda sauðburðar getur maður ekki annað en leitt hugann að litlu lömbunum sem stíga sín fyrstu skref undir handleiðslu sér eldri kinda. Ungviðið leikur sér og í leiknum lærir það og þróar með sér hæfileika fyrir framtíðina.
Pólitískur meðgöngutími er yfirleitt styttri en meðgöngutími sauðfjár sem er 143 dagar. Á það sérstaklega við þegar framboðin eru margfeðra.
Á vef hedinsfjardar.is kemur fram að kynna eigi framboð 15. apríl. En að hugsanlega yrði það eitthvað seinna.
Einn íbúi Ólafsfjarðar sem jafnframt hefur verið orðaður við þriðja sætið á nýjum lista Óháðra (Innskot blaðamanns: Listinn hefur ekki fengið nafn)  sagði við mig “sumardagurinn fyrsti er góður dagur” þegar hann var inntur eftir fréttum af framboðinu og hvenær það yrði kynnt.
Nú hef ég ekki persónulega reynslu af því að vera í fæðingarhríðum, en var viðstaddur fæðingu barna minna. Löng fæðing tekur mikið á og stundum þarf inngrip ljósmæðra og eða fæðingarlækna.
Ekki get ég borið saman eiginlegar fæðingarhríðir og pólitískar en þykist vita að þær taki á. Hvor á sinn hátt.
Því spyr ég af einskærri umhyggju og velvild:
Er búið að sóna forystusauðinn?
Ef svo er.
Hvursu mörg lömb er um að ræða?
Er þörf á sérhæfðri aðstoð?

Kveðja, eini fulltrúi dreifbýlisins í framboði. 🙂
Tómas Atli Einarsson, Sjálfstæðisflokknum Fjallabyggð

KF úr leik í Mjólkurbikarnum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Magni frá Grenivík mættust í dag í 2. umferð Mjólkurbikarsins. Leikurinn fór fram á KA-vellinum, og var búist við erfiðum leik fyrir KF í dag en Magni leikur í Inkassódeildinni og KF í 3. deildinni. Liðin mættust síðast fyrir 2 árum en liðin léku þá bæði í 2. deildinni og mættust í 1. umferð bikarsins það vorið.  Þá endaði leikurinn 2-2 en KF vann í vítaspyrnukeppni og mætti FH og tapaði þar stórt í 2. umferð bikarsins.

Fyrir þennan leik þá fóru tveir lánsmenn KF aftur til Magna, en þeir höfðu verið í um 2 mánuði á láni hjá KF og höfðu staðið sig ágætlega í þeim leikjum sem þeir fengu. Þetta voru þeir Marinó Snær Birgisson og Oddgeir Logi Gíslason.  Þá fékk Ljubomir Delic leikheimild skömmu fyrir leik með KF, en hann spilaði síðasta sumar með liðinu og lék 17 leiki og gerði 6 mörk. Slobodan Milisic þjálfari KF var í banni í þessum leik, en hann fékk rautt spjalld í síðasta bikarleik fyrir að ýta við leikmanni Nökkva.

Magni byrjaði leikinn betur og komust yfir strax á 7. mínútu. Á 30. mínútu voru þeir svo komnir í 2-0 og var það einnig staðan í hálfleik. Á 65. mínútu gerir Magni tvöfalda skiptingu, og skömmu síðar skorar KF sjálfsmark sem er skráð á Aksentije Milisic. Á 73. mínútu gerir KF þrefalda skiptingu til að reyna hressa upp á leikinn, en á 76. mínútu skora Magnamenn sitt 4 mark, staðan 4-0. Á 82. mínútu fær Tómas Veigar leikmaður KF sitt annað gult spjald og léku KF því einum færri það sem eftir lifði leiks. Í blá lokin þá skora Magnamenn sitt fimmta mark, og unnu leikinn 5-0 og eru komnir í 3. umferð bikarsins.

Björg Eiríksdóttir bæjarlistamaður Akureyrar

Myndlistakonan Björg Eiríksdóttir hefur verið valin bæjarlistamaður Akureyrar 2018-2019.  Hún á að baki breiða menntun á sviði fagurlista, hugvísinda og menntavísinda frá Myndlistaskólanum á Akureyri, Kennaraháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri.

Frá árinu 2003 hefur Björg haldið átta einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga,  á Akureyri en einnig í Reykjavík og í Noregi, samhliða kennslu myndlistargreina. Í verkum sínum hefur hún fengist við mannlega tilvist, líkama og innra líf, og einnig oft við mynstur. Verkin hefur hún unnið í ýmsa miðla, s.s. málverk, þrykk, útsaum, ljósmyndir og vídeó, allt eftir hugmyndinni hverju sinni. Sjálf lýsir hún kjarna verka sinna sem birtingu á nálægð og tíma og vísar í því sambandi til orða Maurice Merleau-Pontys listheimspekings: „Ef við leyfum okkur, getum við hrifist af umhverfi okkar á djúpan hátt beint í gegnum skynjunina. Þar býr ákveðin merking og við þurfum ekki að hafa hugsað upp hugtök til að verða hennar vör.” Á starfslaunatímanum mun Björg einbeita sér að nýrri einkasýningu sem hún hefur þróað í dágóðan tíma og á rætur að rekja til meistaraprófsrannsóknar hennar, þar sem fjallað var um samskipti manna við umhverfið sitt í gegnum skynjun líkamans.

Akureyrarstofa veitir að auki heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs og er hún veitt einstaklingum sem hafa með framlagi sínu stutt við og auðgað menningarlíf bæjarins. Í ár voru tveir einstaklingar fyrir valinu. Birgir Sveinbjörnsson fyrir framlag sitt til miðlunar sögu og menningar á Íslandi öllu og Rósa Kristín Júlíusdóttir fyrir mikilsvert og óeigingjarnt framlag til myndlistar og myndlistarkennslu á Akureyri.
Menningarfélag Akureyrar býður bæjarlistamanni ár hvert að nýta sér Menningarhúsið Hof eða Samkomuhúsið sem vettvang fyrir sýningu eða annars konar uppákomu í lok starfsársins.

 

42 án atvinnu í Fjallabyggð

Alls eru 42 án atvinnu í lok mars 2018 í Fjallabyggð. Þar af eru 25 karlar og 17 konur. Atvinnuleysi í Fjallabyggð mælist nú 3,7% en var 4,4% í lok febrúar. Í Fjallabyggð eru 1099 manns starfandi á vinnumarkaði.

Í Dalvíkurbyggð eru 25 án atvinnu, Í Skagafirði eru einnig 25 án atvinnu, á Akureyri eru 263 án atvinnu. Upplýsingar koma úr gögnum Hagstofu Íslands.

Tæplega 32% íbúa á landsbyggðinni á aldrinum 25–64 ára aðeins lokið grunnmenntun

Háskólamenntuðum landsmönnum á aldrinum 25–64 ára hefur fjölgað um 14,7 prósentustig frá árinu 2003 en 42,4% íbúa í þessum aldurshópi höfðu lokið háskólamenntun árið 2017, alls 73.600. Á sama tíma fækkaði þeim sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun um rúmlega 11 prósentustig og voru þeir um 39.700 árið 2017, tæplega 23% íbúa á aldrinum 25–64 ára. Hægari breytingar voru á fjölda þeirra sem eingöngu höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun en fjöldinn hefur verið á bilinu 35–39% íbúa á aldrinum 25–64 ára frá árinu 2003. Þetta kemur fram í gögnum frá Hagstofu Íslands.

Konum með háskólamenntun fjölgar hraðar en körlum
Konum með háskólamenntun á aldrinum 25–64 ára hefur fjölgað hraðar en körlum frá árinu 2003. Á síðastliðnum 14 árum hefur konum með háskólamenntun fjölgað um rúm 20 prósentustig og var um helmingur kvenna á aldrinum 25–64 ára með háskólamenntun árið 2017. Á sama tímabili hefur körlum með háskólamenntun fjölgað um tæplega 10 prósentustig og voru tæplega 35% karla á aldrinum 25–64 ára með háskólamenntun árið 2017. Hlutfall háskólamenntaðra var hæst í aldurshópnum 30–49 ára, 39% hjá körlum en tæp 60% hjá konum. Hins vegar voru nærri tvöfalt fleiri karlar en konur á aldrinum 25–64 ára með doktorspróf, 1.400 karlar á móti 800 konum.

Töluverður munur á menntunarstöðu eftir búsetu
Menntunarstig íbúa á landsbyggðinni var talsvert lægra en íbúa á höfuðborgarsvæðinu árið 2017, líkt og fyrri ár. Tæplega 32% íbúa á landsbyggðinni á aldrinum 25–64 ára höfðu eingöngu lokið grunnmenntun og var það næstum tvöfalt hærra hlutfall en á höfuðborgarsvæðinu (17,5%). Þróunin á landsbyggðinni er þó sú sama og á höfuðborgarsvæðinu, þar sem sífellt fleiri sækja sér háskólamenntun. Mestur munur eftir búsetu í aldurshópnum 25–64 ára var á meðal háskólamenntaðra karla, en þeir voru rúmlega 43% íbúa á höfuðborgarsvæðinu en tæplega 20% íbúa á landsbyggðinni.

Atvinnuþátttaka eykst með meiri menntun
Atvinnuþátttaka var mest á meðal háskólamenntaðra einstaklinga í aldurshópnum 25–64 ára, tæplega 95% árið 2017. Meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun var atvinnuþátttakan rúmlega 91% en minnst var hún á meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, tæplega 79%. Atvinnuleysi var mest hjá konum sem eingöngu höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun, 2,3%. Lægst var atvinnuleysið meðal kvenna sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, 1,3%.

Um gögnin
Tölurnar eru byggðar á niðurstöðum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Vinnumarkaðsrannsóknin byggist á alþjóðlegum stöðlum og skilgreiningum. Í úrtökuramma rannsóknarinnar eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar 16–74 ára sem hafa lögheimili á Íslandi. Í úrtak ársins 2017 völdust af handahófi 15.734 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða reyndust búsettir erlendis var nettóúrtakið 15.313 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 10.488 einstaklingum sem jafngildir 68,5% svarhlutfalli. Allar niðurstöður hafa verið vegnar eftir kyni og aldri.

Heimild: hagstofa.is

Vilt þú taka þátt í að móta sveitarfélagið þitt?

Málefnavinna Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar er vel á veg komin. Frambjóðendur vilja þó gjarna fá ábendingar og áherslur frá íbúum áður en lokahönd verður lögð á þá vinnu.
Áhugasömum íbúum um málefnaskrá Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð er því boðið til funda sem verða haldnir í Menningarhúsinu Tjarnarborg laugardaginn 28. apríl kl. 10:30 til 12:00 og í Ráðhúsinu á Siglufirði mánudaginn 30. apríl kl. 19:30 til 21:00.

Þetta er þitt tækifæri til að hafa áhrif.
Allir velkomnir.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð.

Framboðslisti VG og óháðra í Skagafirði

VG og óháðir bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum 2018 í Skagafirði. Bjarni Jónsson leiðir listann.

Framboðslisti VG og óháðra fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018

 1. Bjarni Jónsson, fiskifræðingur og sveitarstjórnarfulltrúi, Sauðárkróki
 2. Álfhildur Leifsdóttir, grunnskólakennari, Sauðárkróki
 3. Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, sölumaður Atlantic leather, Sauðárkróki
 4. Valdimar Óskar Sigmarsson, bóndi, Sólheimum
 5. Auður Björk Birgisdóttir, hárgreiðslumeistari og eigandi Infinity Blue, Grindum
 6. Inga Katrín D. Magnúsdóttir, starfsmaður Byggðasafns Skagfirðinga, Varmahlíð
 7. Úlfar Sveinsson, bóndi, Ingveldarstöðum
 8. Hildur Þóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Pure natura og Álfakletts ehf., Ríp
 9. Ingvar Daði Jóhannsson, húsasmíðameistari og eigandi Haf og Land ehf., Hofsósi
 10. Helga Rós Indriðadóttir, óperusöngkona og söngstjóri, Varmahlíð
 11. Sigurjón Þórðarson, líffræðingur, Sauðárkróki
 12. Jónas Þór Einarsson, sjómaður, Hofsósi
 13. Björg Baldursdóttir, fv. kennari, Hátúni
 14. Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, ráðgjafi, Sauðárkróki
 15. Ingibjörg H. Hafstað, bóndi, Vík
 16. Steinar Skarphéðinsson, vélstjóri, Sauðárkróki
 17. Sigurlaug Kristín Konráðsdóttir, grunnskólakennari, Sauðárkróki
 18. Heiðbjört Kristmundsdóttir, lífeindafræðingur, Sjávarborg

 

Hagnaður af rekstri Dalvíkurbyggðar

Ársreikningur Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2017 var samþykktur í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar þann 17. apríl 2018.

Samkvæmt samstæðureikningi A og B hluta er hagnaður af rekstri sem nemur tæpum 232 milljónum.  Er þetta um 161 milljónum betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun.

Tekjur samstæðunnar námu ríflega 2,28 milljarði og hafa aldrei verið hærri.  Skatttekjur námu ríflega 1,55 milljarði og þar af framlag Jöfnunarsjóðs tæplega 534 milljónum.  Þjónustutekjur voru um 725 milljónir.

Aðalsjóður var rekinn með 90 milljóna hagnaði.  Eignasjóður er með jákvæða rekstrarniðurstöðu sem nemur 52 milljónir.  A hlutinn sem samanstendur af aðalsjóði og eignasjóði var því samtals rekinn með hagnaði upp á 142 milljónir.

B-hluta fyrirtækin skiluðu 90 milljóna afgangi.  Samtals varð því hagnaður A og B hluta 232 milljónir eins og áður segir.

Rekstrargjöld samstæðunnar án afskrifta og fjármagnsliða námu 1.869 milljónum og voru ríflega 166 milljónum hærri en árið 2016.  Þar af hækka laun og launatengd gjöld um 132 milljónir á milli ára.  Helsta ástæða svo mikillar hækkunar launa og launatengdra gjalda er vegna samnings við Brú lífeyrissjóð og nam gjaldfærsla vegna þess um 68 milljónum á árinu 2017.

Samstæðan þ.e. er A og B hluti skiluðu framlegð upp á 18,1%.

Veltufé frá rekstri samstæðunnar sem er það reiðufé sem sveitarfélagið hefur til að standa skil á afborgunum skulda og til fjárfestinga var rúmlega 343 milljónir og handbært fé frá rekstri rúmlega 378 milljónir sem er hækkun um 66 milljónir frá fyrra ári.

Fjárfestingar ársins voru um 502 milljónir en á móti nam söluverð eigna um 102 milljónum.  Helstu fjárfestingar voru hafnarframvæmdir, endurbætur á sundlaug og gatnagerð.  Á árinu voru greidd upp langtímalán að upphæð 157 milljónir og um 16 milljónir voru greiddar vegna lífeyrisskuldbindinga.  Tekin voru ný langtímalán að upphæð 187 milljónir.  Skuldaviðmið sveitarfélagsins lækkar á milli ára og er nú rúmlega 50% og áætlanir gera ráð fyrir að það verði komið í um 40% árið 2021.

Eigið fé samstæðunnar hækkar um 300 milljónir er nú tæplega 2,5 milljarða og er eiginfjárhlutfall samstæðunnar nú komið í 63,3% og hækkar um hálft prósentustig á milli ára

Nýnemum fækkar í starfsnámi á framhaldsskólastigi

Nýnemum á framhaldsskólastigi fer fækkandi og sífellt fleiri nýnemar kjósa að hefja framhaldsskólanám í bóknámi fremur en starfsnámi, þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Á tímabilinu 1997-2016 voru nýnemar á framhaldsskólastigi fæstir árið 2002, 4.268, en flestir 2006, 5.429 talsins. Fjöldi nýnema helst í hendur við fjölda 16 ára íbúa, en haustið 2006 hóf einmitt fjölmennur árgangur 16 ára landsmanna nám í framhaldsskóla. Haustið 2016 voru nýnemar á framhaldsskólastigi 4.595 talsins. Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta sinn tölur um nýnema á framhaldsskólastigi á árunum 1997-2016.

Nýnemum í starfsnámi fer fækkandi
Á fyrri hluta tímabilsins 1997-2016 hóf um fjórðungur nýnema á framhaldsskólastigi nám á starfsnámsbrautum. Hlutfallið hefur farið lækkandi á undanförnum árum en árið 2016 völdu rúmlega 16% nýnema starfsnám. Hluti skýringarinnar á þessari fækkun er sú að sumir nemendur í starfsnámi hefja framhaldsskólanám með námi á bóknámsbraut, t.d. almennri braut, áður en þeir hefja starfsnám og teljast því með nýnemum í bóknámi.

Piltar eru í meirihluta meðal nýnema í starfsnámi en stúlkur voru stærri hluti nýnema í bóknámi. Munurinn á milli kynjanna í bóknámi minnkaði þó á tímabilinu. Árið 1997 voru stúlkur rúmlega 57% nýnema í bóknámi en tæplega 53% árið 2016. Piltar voru tæplega 61% nýnema í starfsnámi árið 1997 og rúm 64% árið 2016.

Flestir nýnemar á framhaldskólastigi eru 16 ára
Langflestir nýnemar eru 16 ára árið sem þeir hefja nám á framhaldsskólastigi og voru 16 ára nýnemar á þessu tímabili flestir 90,7% nýnema árið 2016, 4.166 talsins. Að sama skapi hefur þeim fækkað sem hefja nám á framhaldsskólastigi 17 ára og eldri. Þeir voru fæstir 722 og flestir 1.122 á árunum 1997-2009 en fækkaði í 561 árið 2010 og voru 369 árið 2016, 8,0% nýnema. Auk þess voru 60 nýnemar í framhaldsskólum árið 2016 15 ára og yngri. Að hluta til má skýra þessa þróun með því að síðan árið 2002 hafa yfir 90% nemenda hafið nám á framhaldsskólastigi árið sem þeir verða 16 ára og því fækkar þeim landsmönnum stöðugt sem aldrei hafa stundað nám á framhaldsskólastigi.

Nýnemar í starfsnámi almennt eldri en nýnemar í bóknámi
Meðalaldur nema við upphaf starfsnáms var talsvert hærri en meðal nema við upphaf bóknáms árin 1997-2016. Í starfsnámi voru nýnemar að meðaltali tæplega 22 ára gamlir en tæplega 19 ára í bóknámi þegar allt tímabilið er skoðað. Hér er litið til þess að sumir nýnemar í starfsnámi höfðu áður stundað nám á bóknámsbraut þegar þeir hófu starfsnám.

Meðalaldur nema við upphaf bóknáms hefur farið lækkandi frá árinu 1997 þegar hann var tæplega 21 ár og var kominn niður í rétt rúmlega 17 ár árið 2016. Ekki má sjá sömu lækkun á meðalaldri hjá nýnemum í starfsnámi en hann hefur sveiflast á milli rúmlega 20 ára til tæplega 24 ára. Árið 2016 var meðalaldur hjá nýnemum í starfsnámi tæplega 22 ár.

Nýnemum með erlendan bakgrunn fjölgar
Þegar nýnematölur eru skoðaðar eftir bakgrunni sést að nýnemum af erlendum bakgrunni fjölgaði talsvert á tímabilinu, enda hefur íbúum í landinu með erlendan bakgrunn fjölgað. Þegar tölur um 16 ára nýnema eftir bakgrunni voru bornar saman við mannfjöldann á sama aldri má sjá að nýnemar eru hærra hlutfall 16 ára íbúa árið 2016 en árið 1997 óháð bakgrunni, að undanskildum nemendum af annarri kynslóð innflytjenda. Í þeim hópi voru aðeins þrír 16 ára íbúar árið 1997 og voru þeir allir nýnemar á framhaldsskólastigi.

Árin 2012-2016 var að meðaltali lítill munur á hlutfalli 16 ára nýnema meðal annarrar kynslóðar innflytjenda (95,5%), nemenda sem ekki hafa erlendan bakgrunn (95,2%), nemenda sem eru fæddir erlendis en með íslenskan bakgrunn (93,6%) og þeirra sem eru fæddir á Íslandi en eiga annað foreldrið erlent (91,8%). Hins vegar var hlutfall 16 ára nýnema meðal þeirra sem eru fæddir erlendis og eiga annað foreldrið erlent nokkru lægra þessi ár eða 84,3% og lægst var hlutfall nýnema meðal innflytjenda, 82,3%. Innflytjendur eru þeir sem eru fæddir erlendis og báðir foreldrar eru erlendir.

Um gögnin
Upplýsingum er safnað beint frá skólunum og úr framhaldsskólaforritinu INNU og miðast við fjölda nemenda um miðjan október ár hvert. Nýnemar eru þeir sem stunda nám í fyrsta skipti á framhaldsskólastigi á Íslandi samkvæmt nemendagögnum Hagstofu Íslands. Nám er flokkað í bóknám og starfsnám samkvæmt alþjóðlegu menntunarflokkuninni ISCED 2011. Bakgrunnur nemenda tekur mið af mannfjöldagögnum Hagstofu Íslands.

Heimild: hagstofa.is

Spurt og svarað um samræmd könnunarpróf í 9. bekk 2018

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur birt upplýsingar um samræmd könnunarpróf í 9. bekk árið 2018.

Spurning: Skipta niðurstöður samræmdra könnunarprófa í 9. bekk máli fyrir nemendur sem sækja um framhaldsskóla að loknum grunnskóla? 

Svar: Reglugerð um innritun í framhaldsskóla verður breytt í þá veru að felld verði á brott heimild skólameistara framhaldsskóla til að taka mið af niðurstöðum samræmdra könnunarprófa í 9. bekk við innritun í framhaldsskóla.

Spurning: Gætu orðið lögfræðilegir eftirmálar af ákvörðun ráðherra um að gefa nemendum val um endurtöku prófanna? 
Svar: Ráðuneytið telur þá leið sem varð fyrir valinu rúmast innan ramma grunnskólalaga en þó er nauðsynlegt að gera tímabundnar breytingar á reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa nr. 173/2017 svo framkvæmdin sé í samræmi við reglugerðina.

Spurning: Hvað þurfa nemendur að gera ef þeir kjósa að nýta ekki rétt sinn til próftöku? 
Foreldrar óska eftir því við skólastjóra að börn þeirra verði undanþegin próftöku. Samkvæmt grunnskólalögum geta foreldrar óskað eftir undanþágu frá því að þreyta könnunarpróf í einstökum ef gildar ástæður mæla með því. Ráðuneytið mun breyta reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa tímabundið á þann hátt að þær aðstæður sem uppi eru teljist gildar ástæður í skilningi laganna.

Spurning: Eru uppi áform um að endurskoða framtíðarskipan samræmdra könnunarprófa? 
Ráðherra hefur ákveðið, í samráði við lykilaðila úr skólasamfélaginu, að skipa vinnuhóp sem geri tillögu að framtíðarstefnu um fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Hópurinn á að skila greinargerð ásamt tillögu til ráðherra fyrir árslok 2018.

Spurning: Hvenær verða könnunarprófin í íslensku og ensku haldin aftur? 
Svar: Ráðherra hefur ákveðið að skólastjórnendur grunnskóla hafi val um hvort þeir haldi prófin í sínum skóla annað hvort í vor eða haust. Menntamálastofnun veitir upplýsingar um tímasetningar þeirra.

Spurning: Af hverju verður könnunarprófunum í íslensku og ensku ekki einfaldlega aflýst með öllu þetta skólaár?
Svar: Fyrir því eru nokkrar ástæður. Meðal annars hefur ráðherra ekki heimild til að fella prófin niður að óbreyttum lögum og margir nemendur hafa óskað eftir því að fá að endurtaka prófin. Við ákvörðunartökuna þótti mikilvægt að niðurstaðan væri sanngjörn fyrir nemendur og því var ákveðið að gefa nemendum sem luku prófunum einkunnir sínar og jafnframt að gefa þeim kost á að endurtaka prófin við viðundandi aðstæður.

Spurning: Er ástæða til að endurskoða ákvörðun um að samræmd könnunarpróf séu rafræn? 
Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Menntamálastofnun árið 2015 að undirbúa framkvæmd rafrænna samræmdra könnunarprófa í 4. bekk, 7. bekk og á unglingastigi og er það í samræmi við ákvæði grunnskólalaga frá 2008. Slíkt fyrirkomulag er einnig í samræmi við þróun í öðrum löndum. Ekki eru uppi áform um að hætta við innleiðingu á rafrænum könnunarprófum en ástæða er til að skoða framkvæmd þeirra sérstaklega.

Spurning: Mun ráðuneytið skoða framkvæmd könnunarprófanna sérstaklega? 

Ákveðið hefur verið að kalla saman sérfræðingahóp um samræmd könnunarpróf sem skipaður er af ráðuneytinu. Mun hann greina framkvæmdina og skila ráðuneytinu greinargerð með tillögum til úrbóta. 

Heimild: stjornarrad.is

Starfshópur um fjölbreyttari úrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra hefur skipað starfshóp sem meðal annars er falið að kortleggja og skilgreina þjónustuþörf fyrir gerendur í ofbeldismálum og þá sem eru í hættu á að fremja ofbeldisbrot. Hópnum er ætlað að skila ráðherra niðurstöðum sínum 1. nóvember næstkomandi.
Velferðarráðuneytið hefur undanfarin misseri leitt vinnu við gerð aðgerðaáætlunar gegn ofbeldi í samfélaginu með fulltrúum dómsmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Í því starfi hefur meðal annars verið kallað eftir fjölbreyttari meðferðarúrræðum fyrir gerendur í ofbeldismálum. Í ljósi þessa og umræðunnar sem átt hefur sér stað í samfélaginu um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni ákvað ráðherra að skipa starfshópinn. Hópnum er ætlað að gera tillögur um viðeigandi úrræði og jafnframt um það hvernig megi efla forvarnir og fræðslu til að koma í veg fyrir ofbeldisbrot. Starfshópurinn skal hafa samráð við velferðarþjónustu sveitarfélaganna og eftir atvikum aðra sérfræðinga á þessu sviði.
Formaður starfshópsins er Anna Kristín Newton. Aðrir nefndarmenn eru:
 • Andrés Proppé Ragnarsson, tilnefndur af Heimilisfriði
 • Kristín Einarsdóttir, tilnefnd af dómsmálaráðuneytinu
 • Ingigerður Jenný Ingudóttir, tilnefnd af Embætti landlæknis
 • Sigurður Páll Pálsson, tilnefndur af Landspítala
 • Ragna Björg Guðbrandsdóttir, tilnefnd af Bjarkarhlíð
 • Gísli Rúnar Pálmason, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneytinu
 • Birna Guðmundsdóttir, tilnefnd af Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu
 • Böðvar Einarsson, tilnefndur af Fangelsismálastofnun

Eyfirski safnadagurinn á Ljóðasetri Íslands

Ljóðasetur Íslands er opið á morgun, sumardaginn fyrsta og þá er einnig Eyfirski safnadagurinn. Þemað í ár börn og barnamenning.  Af því tilefni verður sérsýning á vísna- og ljóðabókum fyrir börn á Ljóðasetrinu á morgun og kl. 16.00 verða leikin og sungin lög fyrir krakka á öllum aldri.  Opið kl. 14.00 – 17.00.  Allir velkomnir.  Enginn aðgangseyrir.

Jeppi keyrði inn á Ólafsfjarðarvöll og skemmdi grasið

Ökumaður jeppabifreiðar ók inn á Ólafsfjarðarvöll þann 31. mars síðastliðinn og spólaði upp grasið. Töluverðar skemmdir urðu á grasvellinum sem er heimavöllur Knattspyrnufélags Fjallabyggðar. Kostnaður vegna skemmdanna liggur ekki fyrir. Haft var samband við Lögregluna vegna málsins.

KF leikur fyrsta heimaleik sinn í 3. deild karla, laugardaginn 19. maí næstkomandi.

Eyfirski safnadagurinn

Síldarminjasafnið á Siglufirði verður opið á fimmtudaginn 19. apríl, Sumardaginn fyrsta, frá kl. 13 – 17 í tilefni Eyfirska safnadagsins. Boðið verður upp á fyrirlestur og myndasýningu

Dagskrá: 
Örlygur Kristfinnsson segir frá leikjum barna í síldarbænum, þar sem plönin, bryggjurnar og fjaran voru sem ævintýraheimur.
Sýndar verða valdar ljósmyndir af börnum við leik úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar og gestir hvattir til að greina myndirnar.
Boðið verður upp á kaffi milli dagskrárliða.

Dagskráin hefst kl. 14:00 í Bátahúsinu – allir velkomnir!

Hreinsunarátak á Hofsósi í maí

Efnt verður til hreinsunarátaks á Hofsósi dagana 10. til 14. maí og mun Sveitarfélagið Skagafjörður og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra standa sameiginlega að átakinu.   Lögð verður áhersla á bifreiðar, lausamuni og annað sem skapar mengunarhættu, m.a. sjónmengun og líti á umhverfi.
Umhverfis- og samgöngunefnd Skagafjarðar hefur lagt áherslu á að farið verði í samskonar átak víðar í Sveitarfélaginu.

 

Listi Sjálfstæðisflokks í Skagafirði

Sjálfstæðisflokkurinn í Skagafirði hefur kynnt framboðslista sinn fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

1. Gísli Sigurðsson
2. Regína Valdimarsdóttir
3. Gunnsteinn Björnsson 
4. Elín Árdís Björnsdóttir
5. Haraldur Þór Jóhannesson
6. Ari Jóhann Sigurðsson
7. Guðný Axelsdóttir
8. Jóel Þór Árnason
9. Steinar Gunnarsson
10. Guðlaugur Skúlason
11. Snæbjört Pálsdóttir
12. Jón Grétar Guðmundsson
13. Steinunn Gunnsteinsdóttir
14. Herdís Fjeldsted
15. Jón Daníel Jónsson
16. Ebba Kristjánsdóttir
17. Bjarni Haraldsson
18. Sigríður Svavarsdóttir

Áætlað að 573 þúsund erlendir ferðamenn hafi komið á Norðurland

Á árinu 2017 má áætla að um 573 þúsund erlendir ferðamenn hafi komið á Norðurland, eða 29% af heildarfjölda erlendra ferðamanna sem komu til Íslands á árinu. Næturgestir voru 456 þúsund, sem gistu að meðaltali í rúmlega þrjár nætur. Samtals voru seldar gistinætur á síðasta ári 1.413 þúsund, sem er um 11% af heildarfjölda gistinótta erlendra ferðamanna. Þó nokkur munur er á fjölda þeirra sem kemur að sumri til annars vegar og vetri til hins vegar.

Þetta kemur fram niðurstöðum rannsóknar sem fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf vann fyrir Markaðsstofu Norðurlands nú í apríl. Í samantektinni er farið yfir fjölda erlendra ferðamanna á Norðurlandi á árunum 2010-2017, ferðamáta þeirra og fjölda gistinátta. Þessum upplýsingum er sömuleiðis skipt upp eftir svæðum á Norðurlandi.

Mikilvægt að markaðssetja vetrarferðaþjónustu

„Áhugavert er að sjá að rétt tæplega 50% erlendra sumargesta á Íslandi komu á Norðurland en aðeins um 17% vetrargesta. Þetta er í takt við þær niðurstöður sem við höfum fengið á undanförnum árum og sýnir enn og aftur mikilvægi þess að markaðssetja vetrarferðaþjónustu um allt land og að bæta samgöngur svo erlendir ferðamenn skili sér til Norðurlands allt árið. Mikil þróun hefur átt sér stað síðastliðin ár í vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi. Búið er að byggja upp gott úrval gisti- og veitingastaða, afþreying er fjölbreytt og samstarf svæða mikið,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Hún bendir á að munurinn á sumri og vetri sé enn nokkuð mikill og áfram verði að vinna í að minnka hann.

„Þessi þróun, ásamt gríðarlega sterkum seglum á svæðinu, skapar tækifæri fyrir ferðaþjónustuna til að verða heilsárs atvinnugrein en til þess að hægt sé að nýta tækifærin af fullum krafti er lykilatriði að samgöngur verði bættar, bæði á milli svæða og ekki síður að náttúruperlum okkar. Líta þarf til þess að árstíðarsveiflan á okkar svæði er enn allt of mikil og því full nauðsyn á að klára þau verkefni sem þarf til að breyta þessari mynd en þau koma skýrt fram í öllum greiningum og stefnum sem gerðar eru á Norðurlandi. Á næstu vikum kemur út Áfangastaðaáætlun DMP fyrir Norðurland og má þar finna fjölmörg verkefni sem ferðaþjónustan og sveitarfélög á svæðinu kalla eftir að verði unnin.“ segir Arnheiður.

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Falskar ásakanir í sex ár

Fyrir um sex árum, þann 27. mars 2012, réðist Seðlabankinn í húsleit á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík. Samkvæmt húsleitarskýrslu bankans hófst húsleitin kl. 09:15. Þá þegar voru myndatökumenn RÚV mættir fyrir utan skrifstofur Samherja á Akureyri og í Reykjavík. Klukkan 09:21 birtist frétt á heimasíðu RÚV um húsleitina og ljóst að á þeim tímapunkti var starfsfólk Seðlabankans búið að útvega fréttamönnum RÚV allar upplýsingar og þeim gefist nægur tími til að vinna fréttirnar. Tæpri klukkustund síðar birtist fréttatilkynning á heimasíðu Seðlabankans og sendi Seðlabankinn hana einnig út um allan heim. Með þessu hófst, undir stjórn Seðlabanka Íslands, ein ruddalegasta húsleit sem framkvæmd hefur verið á Íslandi. – Eftirfarandi pistill er birtur hér á síðunni með leyfi Samherja.

Óumdeilt er að rætur húsleitarinnar má rekja til rangra útreikninga Seðlabankans á fiskverði í viðskiptum Samherja við erlent dótturfélag. Seðlabankinn hefur haldið áfram með málið í alls sex ár, þrátt fyrir engar undirtektir sérstaks saksóknara, skattrannsóknarstjóra og síðast héraðsdóms, þar sem afstaða og rökstuðningur hvers embættis um sig hefði átt að duga bankanum til að láta staðar numið. Sýnt var fram á að útreikningarnir voru kolrangir og var það staðfest af dómstólum. Seðlabankinn heldur því fram í dag að meira hafi búið að baki. Það sem bankinn vísar til þar eru gjaldeyrisskil. Staðreyndin er að eigin rannsókn bankans leiddi í ljós að Samherji skilaði gjaldeyri umfram skilaskyldu auk þess sem sérstakur saksóknari sá ástæðu til að geta þess að starfsmenn Samherja hefðu gætt af kostgæfni að skila gjaldeyri til landsins. Þær átyllur bankans reyndust því líka rangar.

Seðlabankinn hefur aldrei gert tilraun til að verja upphaflegu útreikningana sem lágu til grundvallar húsleitarkröfunni. Þess í stað hefur bankinn annars vegar kosið að grafa þá djúpt í hirslum sínum og varist með kjafti og klóm að þurfa að afhenda þá. Næst útbjó bankinn nýja skýrslu um fiskverðsútreikninga og sendi til Hæstaréttar sem var haldið leyndri í meira en heilt ár. Seðlabankinn yfirgaf þá skýrslu þegar gerðar voru athugasemdir og var kæran til sérstaks saksóknara þriðja tilraun Seðlabankans til að búa til brot í karfaviðskiptum Samherja.

Seðlabankastjóri má þó eiga það að í seinni tíð hefur hann viðurkennt að upphaflegir útreikningar hafi verið rangir en hefur að sama skapi fullyrt að allir útreikningar síðar hafi verið gerðir af „topp fagfólki, stærðfræðingum og aðgerðargreinum og svo framvegis“. Fullyrti hann við mig að ekki væri hægt að tala um þetta mál sem einhverja reiknivillu. Í þessu sambandi má rifja upp vitnaskýrslu seðlabankastjóra fyrir dómi árið 2015 þar sem hann lýsti aðkomu og ábyrgð sinni og aðstoðarseðlabankastjóra á ákvörðunum um að kæra fólk og fyrirtæki til lögreglu. Bar hann fyrir dómi að þeir þyrftu að „sannfæra sig um það að nauðsynleg vinna hafi átt sér stað og að málið sé sannfærandi og ef ekki, þá að spyrja spurninga.”

Það er merkilegt þegar maður hefur þessi orð seðlabankastjóra í huga að annað hvort hefur aðstoðarseðlabankastjóri ekki fylgt þessari starfsreglu þegar hann kærði mig persónulega til lögreglu eða seðlabankastjóri hefur sagt ósatt fyrir dómi. Staðreynd málsins er sú að þegar aðstoðarseðlabankastjóri undirbjó og kærði mig til lögreglu haustið 2013 voru öll gögn málsins, sem höfðu verið haldlögð við húsleitina, enn í vörslum sérstaks saksóknara en bankinn hafði afhent þau sérstökum saksóknara þegar hann kærði Samherja í apríl sama ár. Hvernig aðstoðarseðlabankastjóra tókst að sannfæra sjálfan sig um sekt mína, gagnalaus, skil ég ekki.

Staðreyndin er sú að aldrei hefur verið fótur fyrir ásökunum um fiskverðið en í síðari tilraunum Seðlabankans er mögulega rétt hjá seðlabankastjóra að ekki hafi verið um að kenna reiknivillu heldur röngum aðferðum. Vegna þessa ritaði ég bankaráði bréf í nóvember í fyrra og óskaði eftir fundi með bankaráði þar sem bankinn veitti svör við sjö einföldum spurningum.

Ég tel rétt að birta bréfið til bankaráðsins, og þar af leiðandi upplýsa um verk seðlabankastjóra, enda sýna spurningar okkar að þó „topp fagfólkið, stærðfræðingar og aðgerðargreinar“, sem seðlabankastjóri fól að útbúa skýrslu um karfaverð Samherja, hafi reiknað rétt í þetta sinn hafi þau að öllum líkindum beitt vísvitandi röngum aðferðum til að búa til brot sem Samherji, og í kjölfarið ég persónulega, vorum kærðir til lögreglu fyrir. Vil ég í því sambandi benda á eftirfarandi en nánar er fjallað um þessi atriði í bréfi Samherja til bankaráðs sem er birt hér í viðhengi:

 • Seðlabankinn kærði meinta undirverðlagningu Samherja á karfa sem í mörgum tilvikum var allur keyptur á markaði af þriðja aðila.
 • Við mat á meintri undirverðlagningu bar Seðlabankinn saman sölur á ferskum fiski sem áttu sér margar hverjar stað með nokkurra mánaða millibili.
 • Seðlabankinn tók ekki tillit til verðmyndandi þátta á borð við sölukostnað eða mun á svokallaðri heimavigt og vigtun erlendis þrátt fyrir að staðfesta í eigin rannsóknarskýrslu að slíkir þættir skipti máli.

Þó seðlabankastjóra þyki það ekki tiltökumál að hafa stöðu sakbornings þá er slíkt flestum afar þungbært. Umgjörð þessa máls í upphafi, sem og Aserta-málsins sem ég hef áður fjallað um, var öll til þess að valda tjóni og sársauka. Blaðamenn voru skrefi á undan okkur sem borin voru sökum. Eins og ég gat um í upphafi vissi RÚV um húsleitina á undan okkur og gat undirbúið frétt um hana og um klukkustund eftir að húsleit hófst sendi Seðlabankinn sjálfur fréttatilkynningu út um allan heim. Einni og hálfri klukkustund áður en kæra á hendur mér barst sérstökum saksóknara notaði Seðlabankinn RÚV til að upplýsa þjóðina um kæruna. Að því er snertir Aserta-málið þá blés Seðlabankinn til blaðamannafundar áður en búið var að handtaka alla og kynna þeim að þeir væru til rannsóknar. Tilgangurinn var ekki vandaðir stjórnsýsluhættir. Markmiðið var ekki meðalhóf. Andmælaréttur virðist ekki til í orðabók stjórnenda Seðlabankans. Þetta var refsing. Refsing sem Seðlabankinn, án dóms og laga, ákvað að beita.

Það tekur á að standa í baráttu í sex ár. Það tók á að horfa á fimm ókunnuga einstaklinga í fimm klukkustundir framkvæma míkróleit á skrifstofunni minni. Það tekur á að sitja undir tilhæfulausum ásökunum frá jafn valdamikilli stofnun og Seðlabankanum. Það tekur á að þurfa að þurfa að leiðrétta hver ósannindin á fætur öðrum í ásökunum bankans. Það tekur á að þurfa að eyða mörgum árum í að fá upplýsingar. Það tók á að missa frá sér góða samstarfsmenn.

Það er yfir allan vafa hafið að seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri bera ábyrgð á því að saka mig og aðra innan Samherja ranglega um brot og kæra til lögreglu að ósekju. Yfirhylmingin, þöggunin og leyndarhyggjan sem einkennt hefur málið undanfarin ár er hins vegar einnig á ábyrgð bankaráðsformanns. Bankaráð hefur lögum samkvæmt eftirlit með störfum seðlabankastjóra sem og eignum og rekstri Seðlabankans. Undir stjórn núverandi bankaráðsformanns hefur verið reynt að færa völd bankaráðs í hendur seðlabankastjóra og hlutverk bankaráðs afmarkað við það sem e.t.v. má bera saman við hlutverk áheyrnarfulltrúa.

Þann 22. mars sl. birtist í Viðskiptablaðinu pistill Týs þar sem talað við um þetta mál sem svartan blett á ferli seðlabankastjóra. Get ég ekki annað en tekið undir það og annað sem fram kemur í pistlinum. Hins vegar mun ég ekki láta lokaorð Týs verða niðurstöðuna í þessu máli. Þetta mál, framganga seðlabankastjóra, yfirlögfræðings og bankaráðsformanns verður ekki afgreitt með þögn.

Að lokum vil ég geta þess að í tilefni ársfundar Seðlabankans eftir páska mun ég skrifa enn eitt bréf um framferði helstu stjórnenda Seðlabankans en ég reikna með að ársfundurinn verði sá síðasti undir stjórn núverandi stjórnenda bankans. Tel ég fundinn því síðasta tilefni fyrir seðlabankastjóra og bankaráðsformanns að biðja okkur starfsmenn Samherja, Aserta menn og aðra þá sem hann hefur í nafni Seðlabankans ásakað ranglega í gegnum árin, afsökunar. Eftir það mun málið vera í höndum lögmanna.

Þorsteinn Már Baldvinsson.

 

Birt með leyfi Samherja.

Ný reglugerð um sektir vegna brota á umferðarlögum

Lögreglan á Norðurlandi vestra hefur vakið athygli á nýrri reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, sem tekur gildi 1.maí næstkomandi. Í henni felast verulegar hækkanir á sektum og má sem nefna hér nokkur dæmi:
Ekið á 115 km/klst 80.000 kr.
Ekið á 125 km/klst 115.000 kr.
Ekið á 135 km/klst 150.000 kr.

Farsími notaður án handfrjáls búnaðar 40.000 kr.
Ekið án þess að endurnýja ökuskírteini 20.000 kr.
Ökuskírteini ekki meðferðis 10.000 kr.
Öryggisbelti ekki notað 20.000 kr.
Og svo framvegis.

Reglugerðin er hér :
https://www.samgongustofa.is/…/log-og-reg…/B_nr_288_2018.pdf

Niðurstöður íbúakosningar í Fjallabyggð

Niðurstöður íbúakosningar í Fjallabyggð 14. apríl 2018 liggja fyrir. Kosið var um hvort fræðslustefnu Fjallabyggðar sem samþykkt var í bæjarstjórn 18.05.2017 haldi gildi sínu. Kosningaþátttaka var aðeins 52,5% og þeir sem kusu gegn fræðslustefnunni voru 36,83% en jákvæðir voru 62,34%.

Spurt var: Vilt þú að stefnan haldi gildi sínu?

Valkostir:

Já, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 haldi gildi sínu.

Nei, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 verði felld úr gildi og fyrri fræðslustefna frá 17.03. 2009 taki gildi á ný.

Niðurstöður:

Já sögðu : 523, – 62,34%

Nei sögðu  309, – 36,83%

Auðir og ógildir seðlar voru 7  –   0,83%

Kosningarþátttaka var 52,5%

KF vann stórsigur á Nökkva

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Nökkvi mættust í 1. umferð Mjólkurbikarsins í dag. KF tók forystuna og skoraði strax á 9. mínútu með marki frá Kristófer Andra. Á 20. mínútu skoraði Kristófer aftur, og staðan orðin 0-2. Skömmu fyrir leikhlé var Þórði Halldórssyni leikmanni Nökkva gefið rautt spjald og Slobodan Milisic þjálfari KF fékk einnig rautt skömmu síðar. Staðan var því 0-2 í hálfleik og fjörugar lokamínútur fyrri hálfleiks fyrir dómara leiksins. Í síðari hálfleik kláraði KF leikinn, Nökkvi skoraði sjálfsmark á 65. mínútu og nokkrum mínútum síðar skoraði Aksentije Milisic, og staðan orðin 0-4. Halldór Logi sem hafði komið inná sem varamaður í upphafi síðari hálfleiks skoraði svo fimmta mark KF á 75. mínútu og Tómas Veigar bætti við sjötta markinu nokkrum mínútum fyrir leikslok. Lokatölur urðu 0-6 og KF er komið í 2. umferð Mjólkurbikarsins.

Leikskýrslu má lesa á vef KSÍ.

Stærðfræðikeppni FNV, MTR og 9. bekkjar 2018

Föstudaginn 13. apríl fór fram stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og 9. bekkjar, en keppnin hefur nú verið haldin árlega í 21 ár. Stærðfræðikeppnin er samstarfsverkefni FNV, MTR, grunnskóla, stofnana og fyrirtækja á Norðurlandi vestra auk þess sem fyrirtæki utan kjördæmisins koma að verkefninu. Keppnin fór fram í Bóknámshúsi FNV á Sauðárkróki.  Undankeppni stærðfræðikeppninnar fór fram í mars og tóku nemendur frá Norðurlandi vestra, Fjallabyggð og Dalvíkurskóla þátt í henni. Að þessu sinni komust 14 nemendur í úrslitakeppnina. Af þeim var einn frá Árskóla, tveir frá Varmahlíðarskóla, einn frá Grunnskólanum austan Vatna, einn frá Húnavallaskóla, tveir frá Höfðaskóla, tveir frá Blönduskóla, fjórir frá Grunnskóla Húnaþings vestra og einn frá Dalvíkurskóla.

Úrslit voru eftirfarandi:

 • 1. sæti: Freyja Lubina Friðriksdóttir, Grunnskóla Húnaþings vestra
 • 2. sæti: Ólafur Halldórsson, Höfðaskóla
 • 3. sæti: Saulius Saliamonas Kaubrys, Húnavallaskóla.

Verðlaunin voru vegleg að vanda eins og sjá má á eftirfarandi upptalningu.

1. Verðlaun 
Casio FX 9750G II reiknivél frá Heimilistækjum
Canon G9X MarkII myndavél frá Origo
Kr. 15.000 frá styrktaraðilum.
Síðasta setning Fermats
Matar- og ostakarfa frá Kaupfélagi Skagfirðinga
Verðlaunagripur frá KLM verðlaunagripum

2. Verðlaun
Casio FX 9750G II reiknivél frá Heimilistækjum ehf
Kr. 12.000 frá styrktaraðilum.
Síðasta setning Fermats
Matar- og ostakarfa frá Kaupfélagi Skagfirðinga
Verðlaunagripur frá KLM verðlaunagripum

3. Verðlaun
Casio FX 9750G II reiknivél frá Heimilistækjum ehf
Kr. 10.000 frá styrktaraðilum.
Síðasta setning Fermats
Matar- og ostakarfa frá Kaupfélagi Skagfirðinga
Verðlaunagripur frá KLM verðlaunagripum

4-14. sæti: 
Casio fx-350ES PLUS reiknivél frá styrktaraðilum
Síðasta setning Fermats og kr. 7.000 frá styrktaraðilum

Auk ofangreindra styrktaraðila styrktu eftirtaldir keppnina með fjárframlögum:
Arionbanki
Blönduósbær
Dalvíkurbyggð
Fisk Seafood
Fjallabyggð
Húnaþing vestra
Kaupfélag Skagfirðinga
Landsbankinn Skr.
Rammi á Siglufirði
Sjóvá-Almennar
Steinull hf
Sveitarfélagið Skagafjörður
Sveitarfélagið Skagaströnd
Tengill ehf
Verkfræðistofan Stoð
VÍS.

Frá vinstri: Saulinus Salimonas Kaubrys, Húnavallaskóla, Ólafur Halldórsson, Höfðaskóla, Freyja Lubina Friðriksdóttir, Grunnskóla Húnaþings vestra.

Íbúakosningar í Fjallabyggð í dag

Íbúakosningar um Fræðslustefnu Fjallabyggðar eru í dag, laugardaginn 14. apríl. Alls eru 1596 á kjörskrá, á Siglufirði eru 955 á kjörskrá og í Ólafsfirði 641.  Áætlaður kostnaður vegna Fjallabyggðar vegna kosninganna eru um 2.000.000 króna.  Íbúakosningin verður staðarkosning í tveimur kjördeildum, Ráðhúsi Fjallabyggðar 2. hæð og Menntaskólanum á Tröllaskaga.  Hægt er að kjósa á milli kl. 10:00-20:00. Utanatkvæðagreiðslu lauk í gær.  Atkvæði verða talin að loknum kjörfundi. Þegar kjörstjórn hefur lokið talningu verður niðurstaða íbúakosningar birt á heimasíðu Fjallabyggðar.

Spurt verður:
Vilt þú að stefnan haldi gildi sínu?

Valkostir:

 • Já, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 haldi gildi sínu.
 • Nei, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 verði felld úr gildi og fyrri fræðslustefna frá 17.03. 2009 taki gildi á ný.

Verði ákveðið að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar verður horfið aftur til fyrri fræðslustefnu og fyrra kennslufyrirkomulags. Með því eru forsendur fyrir samþættu skóla- og frístundastarfi á yngsta skólastigi brostnar og Frístund mun leggjast af. Að sama skapi verður samstarfi grunnskólans við Tónlistarskólann á Tröllaskaga, Menntaskólann á Tröllaskaga og íþróttafélög í Fjallabyggð í þeirri mynd sem verið hefur á núverandi skólaári sjálfhætt.

Vetrarleikar í Ólafsfirði um helgina

Árlegir Vetrarleikar Ungmenna- og Íþróttasambands Fjallabyggðar verða haldnir um helgina, 14. og 15. apríl í Ólafsfirði.  Sem fyrr munu íþrótta- og ungmennafélögin í Fjallabyggð bjóða upp á fjölbreytta hreyfingu og viðburði þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Vetrarleikar voru haldnir á Siglufirði um síðustu helgi, en nú er komið að Ólafsfirði.

Laugardagur 14. apríl:

Kl. 11.00 – 12.00     Þrautabrautir Umf Glóa, fyrir börn fædd 2007 – 2014
Kl. 12.00 – 13.00     Sýningarmót KFÓ í réttstöðulyftu Í ræktinni
Kl. 13.00 – 14.00     Þjálfarar KFÓ veita leiðsögn í kraftlyftingum
Kl. 10.00 – 14.00     Frítt í sund í Ólafsfirði í boði Fjallabyggðar.

Sunnudagur 15. apríl:

Kl. 10.00 – 11.30     Gnýfari tekur á móti gestum, teymt undir hjá þeim sem þurfa
Kaffi verður á könnunni í Tuggunni
Kl. 14.00 – 16.00     KF sér um fótbolta fyrir alla fjölskylduna. Eigum saman góða stund í íþróttahúsinu með boltann á tánum
Kl. 16.00 – 18.00     Blak fyrir alla í umsjón Blakfélags Fjallabyggðar.

Segir nei við auknum rútuakstri með skólabörn

Ég segi NEI við auknum rútuakstri með skólabörn – Kjósandi góður, ef þú kýst eftir þinni sannfæringu þá kýstu rétt.

Mig langar að deila reynslu minni af því að vera með börn í grunnskóla bæði fyrir og eftir daga skólaaksturs.  Sonur minn stundaði nám á Sigló í sínu nærumhverfi og þurfti aldrei að fara í rútu á milli staða. Hann naut í botn nálægðarinnar við skólann og tómstunda sem voru margvíslegar en nóg var í boði. Eftir grunnskóla stundaði hann nám við Menntaskólann á Akureyri og best ég veit átti hann ekki í félagslegum erfiðleikum þar nema síður sé.

Hitt barnið mitt fer samkennslu í þriðja bekk sem gekk mjög vel og aldrei heyrði ég á það minnst að samkennslan væri einhver þrándur í götu. Enda er nám í grunnskólanum hér einstaklingsmiðað fyrir alla nemendur og er því auðvelt að samkenna árgöngum. Í sama árgangi eru alls ekki allir að vinna í sama námsefni á sama tíma. Margir skólar nýta sér samkennslu sem tækifæri þó þess þurfi ekki  sérstaklega vegna fámennra árganga. Síðan koma rútuferðirnar hjá yngra barninu og þá byrjar martröðin, barnið var bílveikt nánast hvern einasta dag.  Bílveiki hjá mínu barni er ekki einsdæmi.  Að þurfa að senda barnið sitt í rútu vitandi af bullandi kvíða hjá því fyrir rútuferðinni, vitandi að það tekur barnið nokkra klukkutíma að jafna sig eftir hverja rútuferð, sjá það svo koma heim grátt og guggið af vanlíðan er eitthvað sem mig langar ekki að neitt barn gangi í gegnum.

Ég segi því NEI við auknum rútuakstri með skólabörn – Barnið mitt ferðaðist milli bæjarkjarna bílveikt í þrjú ár. Er það boðlegt?

Kosturinn við að búa  úti á landi er að maður hefur það sem maður þarf innan seilingar. Það eru forréttindi að geta gengið í skólann og til vinnu. Þannig þarf ekki að nota dýrmætan tíma í að ferðast á milli staða í bíl eða strætó. Það er mín skoðun að börnin eigi að vera í sínu nærumhverfi sem lengst, tengjast því og öðlast öryggi áður en það er farið að sendast með þau á milli staða. Því tel ég það skynsamlegt að yngstu bekkjunum sé kennt í sitthvorum bæjarkjarnanum.

Ég vil taka það skýrt fram að ég á ekki persónulegra hagsmuna að gæta þar sem mitt barn er að ljúka grunnskólagöngu sinni hér og er stefnan sett á Akureyri. Hinsvegar get ég auðveldlega sett mig í spor þeirra sem þurfa að bjóða sínum börnum upp á rútuakstur í fimm skólaár. Og þó sumir hafi lýst yfir þeirri skoðun sinni að þetta hafi ekkert með Siglufjörð eða Ólafsfjörð að gera þá er staðreyndin sú að það eru yngstu börnin frá Ólafsfirði sem lenda verst út úr þessum auknu rútuferðum. Börnin Siglufjarðarmegin geta stundað skóla hér á Sigló til 11 ára aldurs.

Hvernig sem kosningarnar á morgun fara þá vona ég að bæjaryfirvöld láti skynsemina ráða um að sameinast um málamiðlun til að leysa þetta mál þannig að sátt náist í samfélaginu og við getum öll farið að hlakka til sumarsins,  komandi sveitarstjórnarkosninga auk skólabyrjunar næsta haust.

Bestu kveðjur,

Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir

 

Kvenfélagið Æskan fær lóðarreit í Ólafsfirði fyrir minningarstein

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt að úthluta lóðarreit á horni Aðalgötu og Strandgötu til Kvenfélagsins Æskunnar í Ólafsfirði. Lóðin stendur gegn Pálshúsi og Kaffi Klöru í Ólafsfirði.  Fyrirhugað er að setja upp minningarstein með áritaðri koparplötu í tilefni 100 ára afmælis kvenfélagsins á síðasta ári. Einnig er hugmynd að fegra umhverfið um minningarsteininn enn frekar með fallegum blómakerum og jafnvel bekk.