Category Archives: Norðurland

Fjör á sundnámskeiði leikskólabarna í Ólafsfirði

Börn á leikskólaaldri í Ólafsfirði luku nýlega 10 tíma sundnámskeiði í Sundlauginni í Ólafsfirði.  Kennari var Jónína Björnsdóttir og tóku 11 börn frá tveimur elstu leikskólaárgöngum í Ólafsfirði þátt á námskeiðinu.

Að sögn Jónínu voru miklar framfarir hjá börnunum og ótrúlega gaman og gefandi að vinna með þeim.

Eftir síðasta tímann fengu allir ís frá kennaranum og sundpoka sem Arion banki í Fjallabyggð gaf börnunum.

Útboð á skólaakstri á Sauðárkróki

Sveitarfélagið Skagafjörður óskar eftir tilboðum í Skólaakstur á Sauðárkróki 2019-2022. Um er að ræða eina akstursleið sem ekin er skv. tímatöflu sem nánar er skilgreind í útboðsgögnum.
Helstu magntölur í útboði Skólaakstur á Sauðárkróki 2019-2022 eru:
Lengd leiðar: 7,3 km pr. ferð.
Farþegafjöldi: Allt að 80 farþegar.
Fjöldi ferða á dag: Sjá nánar í útboðsgögnum.
Fjöldi akstursdaga: Um 114 akstursdagar á hverju tímabili með frávikum.
Tímabil aksturs hvert skólaár: Frá 3. viku í október til og með 2. viku í apríl.

Útboðsgögn eru til afhendingar án endurgjalds í afgreiðslu Sveitarfélagsins Skagafjarðar við Skagfirðingabraut 21 á Sauðárkróki, frá og með fimmtudeginum 13. júní nk.
Þangað ber að skila tilboðum í lokuðu umslagi í síðasta lagi fyrir kl. 13:30 fimmtudaginn 27. júní 2019.
Tilboð verða þá opnuð í ráðhúsi, Skagfirðingabraut 21, Sauðárkróki, að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.
Verklok eru áætluð vorið 2022.
Áskilinn er réttur til þess að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum.

Undirbúa átak um störf án staðsetningar

Ríkisstjórnin hefur að tillögu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra samþykkt að skipa verkefnahóp til að undirbúa átak á vegum Stjórnarráðsins að skilgreina störf í ráðuneytum og stofnunum þess og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Er þetta í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar og stefnumarkandi byggðaáætlun.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir mikilvægt að fjölga fjölbreyttum störfum á vegum hins opinbera um land allt. „Með nútímasamskiptatækni er hægt að vinna fjölmörg störf hvar sem er án vandkvæða. Markmiðið er að skapa betri tækifæri til atvinnu um allt land og jafna búsetuskilyrði,“ segir ráðherra.

Verkefnahópnum er ætlað að skila tillögu til ríkisstjórnar um sameiginlega aðgerðaáætlun um framkvæmd verkefnisins fyrir lok þessa árs. Í hópnum munu sitja fulltrúar allra ráðuneyta en framkvæmdastjórn verkefnisins er á ábyrgð fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarstjórnarráðuneytis.

10% starfa án staðsetningar árið 2024
Fjallað er nánar um verkefnið „Störf án staðsetningar“ í stefnumarkandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024, sem samþykkt var af Alþingi í júní 2018. Þar voru sett fram þau viðmið er 5% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum verði án sérstakrar staðsetningar fyrir árslok 2019 og í árslok 2024 verði 10% auglýstra starfa án staðsetningar.

Byggðastofnun hefur gert árlega könnun á staðsetningu starfa á vegum ríkisins frá árinu 2014 sem sýnir að hlutfall stöðugilda á vegum ríkisins í samanburði við íbúafjölda er hæst á höfuðborgarsvæðinu (7,8%) en lægst á Vesturlandi (5,1%) og Suðurlandi (5%).

Dalvík vann Kára á Akranesi

Dalvík/Reynir heimsótti Kára á Akranesi í gær í 7. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla í knattspyrnu.  Bæði lið voru í neðri hluta deildarinnar fyrir leikinn og voru því þrjú stig dýrmæt fyrir bæði liðin.

Upphaflega átti leikurinn að fara fram á heimavelli Dalvíkur/Reynis en þar sem völlurinn er ekki tilbúinn féllust Káramenn á að spila leikinn á Akranesi.

Á 14. mínútu átti Kári góða sókn og mistókst Kelvin hjá D/R að skalla almennilega frá og rataði boltinn beint á sóknarmann Kára sem komst auðveldlega framhjá Kelvin og átti svo góða sendingu inn í teig og úr varð mark. Staðan 1-0 fyrir Kára í upphafi leiks.

Aðeins tveimur mínútum síðar fékk Dalvík aukaspyrnu skammt frá hliðarlínu á miðjum vallarhelmingi Kára. D/R fjölmenntu í teiginn og náðu skalla að marki sem fór svo í varnarmann Kára sem skoraði mjög klaufalegt sjálfsmark er hann reyndi tvívegis að gefa boltann til markmanns. Staðan orðin 1-1 eftir sextán mínútur.

Á 22. mínútu áttu heimamenn góða sókn sem endaði með því að Snorri braut á sóknarmanni Kára innan vítateigs og var dæmd vítaspyrna. Lítil snerting en vítaspyrna staðreynd. Andri Júlíusson fyrirliði Kára skoraði örugglega úr spyrnunni en markmaður D/R fór í rétt horn en var ekki nálægt því að verja fasta spyrnuna.

Á 32. mínútu fengu D/R menn aukaspyrnu á góðum stað vinstra megin á vallarhelmingi Kára, og var nú stillt upp í teig heimamanna. Jimenez tók spyrnuna sem var góð og rataði beint til fyrirliðans Snorra sem skoraði með góðu skoti og jafnaði leikinn 2-2 og þannig var staðan í leikhlé.

Á 52. mínútu átti Dalvík/Reynir mjög góða sókn og kom frábær sending inn fyrir vörn Kára frá Jimenez, en Númi Kárason átti gott hlaup í teiginn og skoraði gott mark og kom D/R yfir 2-3.

Fleiri urðu mörkin ekki og var góð barátta í síðari hálfleik hjá D/R sem héldu út og lönduðu dýrmætum sigri. Dalvík/Reynir lyftu sér upp í 6. sæti deildarinnar með þessu sigri og eru nú komnir með 10 stig eftir sjö leiki.

Næsti leikur D/R verður gegn Vestra , laugardaginn 20. júní, og verður leikið á Olísvellinum.

36 kylfingar á golfmóti á Siglógolf

Golfklúbbur Siglufjarðar (GKS) stóð fyrir mótinu vanur/óvanur í gær á Siglógolf á Siglufirði. Veður var sérlega gott og mjög góð mæting kylfinga á mótið.  Alls voru 36 sem tóku þátt í mótinu eða 18 lið. Mótið var innanfélagsmót og leikið var texas scramble með forgjöf.  Leiknar voru 9 holur í þessu móti.

Í Texas Scramble leika tveir leikmenn saman í liði.  Leikurinn fer þannig fram að báðir leikmenn slá af teig og velja síðan betra teighöggið.  Því næst slá báðir af þeim stað og velja svo aftur betra höggið.  Þannig gengur leikurinn þar til einn bolti er kominn í holuna.

Úrslit:

1. sæti. 28 högg – Bræður = Jóhann Már og Jón Heimir Sigurbjörnssynir
2. sæti. 31 högg – Vanur/Vanur = Sævar Örn og Gabríel Reynisson
3. sæti. 33 högg – Siggi Óli Biddýar = Ólafur og Sigurður Óli

Nándarverðlaun:

6. braut : Sigurgeir Haukur
7. braut : Sigurður Óli
9. braut : Mikael Daði

Öll úrslit:

Úrslit úr vanur/óvanur 2019
Sæti: Högg m/forgjöf Nafn á liði Leikmenn
1 29 Bræður Jóhann Már og Jón Heimir
2 31 Vanur/vanur Sævar Örn og Gabríel
3 33 Siggi Óli Biddýar Óli Björs og Sigurður Óli
4 34 Valló Kári Freyr og Egill Rögnvalds
5 34 Káralingar Ólafur Kára og Jakob Kára
6 34 Florida-Skaginn Guðjón og Sigurgeir
7 35 3 Súkkulaði Ingvar, Óðinn og Oddný
8 36 Súlur Ólína og Berglind
9 36 Kahlúa Jósefína og Sigurlaug
10 36 1976 Benedikt og Agnar Þór
11 37 SteiniogOlli Þorsteinn og Ólafur Natan
12 37 Bjórfrændur Hallgrímur og Brynjar
13 38 K.M Karl og Magni
14 39 Hamborgarinn Magnús og Mikael
15 40 L7 Sindri og Brynjar Harðar
16 40 Súlur 1 Aldís og Ingvar
17 43 Dúa Stefán og Aðalbjörg
18 46 Fossvegsgellur Jóhanna og Kristín

Úrslit koma frá fésbókarsíðu GKS.

Image may contain: 5 people, people smiling, mountain, outdoor and nature
Myndir: Kristján L. Möller. Birtar með leyfi.
Image may contain: mountain, sky, golf, nature and outdoor
Myndir: Kristján L. Möller. Birtar með leyfi.
Image may contain: mountain, grass, sky, outdoor and nature
Myndir: Kristján L. Möller. Birtar með leyfi.

Gleðilega hátíð !

Fjölbreytt hátíðardagskrá verður í Fjallabyggð í dag á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Á Siglufirði 
verður hátíðarathöfn við minnisvarða sr. Bjarna Þorsteinssonar við Siglufjarðarkirkju. Að henni lokinni eru gestir hvattir til að ganga að Þjóðlagasetri Sr. Bjarna þar sem boðið verður upp á kaffi og konfekt. Hið árlega Kaffihlaðborð Blakfélags Fjallabyggðar verður haldið í Einingu-Iðju á Siglufirði frá kl. 15:00-17:00 og í ár mun UMF Glói endurvekja 17. júní hlaupið á Malarvellinum á Siglufirði fyrir krakka á fædd 2006-2013 og hefst hlaupið kl. 10:30. Sýning Kristínar Gunnlaugsdóttur verður opin í Kompunni í Alþýðuhúsinu en sýningin var opnuð þann 8. júní sl. og verður hún opin frá kl. 14:00-17:00 fram til 22. júní nk. Hin árlega ljósmyndasýning á Ljósmyndasögusafninu Saga-Fotografica á Siglufirði verður formlega opnuð en þar verða til sýnis myndir eftir Ragnar Axelsson og Leif Þorsteinsson. Opið verður á safninu þennan dag frá kl. 13.00-17:00 en safnið verður opið alla daga í sumar frá kl. 13:00-16:00. Aðgangur að safninu er ókeypis.  Ljóðasetur Íslands verður opið milli 14:00-15:00 og þar mun Þórarinn Hannesson flytja eigin lög við ljóð eftir Siglfirðinga. Þjóðlagasetur Sr. Bjarna er opið og boðið verður upp á kaffi og Lýðveldisköku í tilefni dagsins.

Í Ólafsfirði við Menningarhúsið Tjarnarborg verður glæsileg hátíðardagskrá þar sem í boði verða m.a. leiktæki, hoppukastalar, geimsnerill, stærsta vatnsrennibraut landsins opin og margt fleira fyrir alla fjölskylduna.

Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að mæta og fagna þessari hátíðarstund saman.

Í ár heldur Lýðveldið Ísland upp á 75 ára afmæli. Af því tilefni verður gestum í Fjallabyggð boðið upp á Lýðveldisköku við Þjóðlagasetur sr. Bjarna um kl. 12:15 og við Tjarnarborg kl. 15:00.

Texti og mynd: Aðsent, Fjallabyggð.

Dagskrá Þjóðhátíðardagsins á Akureyri

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní skipar háan sess í hugum Akureyringa sem og allra landsmanna. Mikið er um dýrðir í bænum og hefst hátíðardagskrá klukkan 13:00 í Lystigarðinum.  Þaðan er farið í skrúðgöngu niður í miðbæ þar sem boðið er upp á fjölskylduskemmtun um daginn og svo aftur um kvöldið og fram að miðnætti. Dagskrá lýkur með marseringu nýstúdenta Menntaskólans á Akureyri á torginu um miðnætti. Skátafélagið Klakkur hefur séð um skipulag hátíðarhaldanna á Ráðhústorgi síðan 2008.

Dagskrá Þjóðhátíðardagurinn 2019: 

 

Kl. 13-13.50: Hátíðardagskrá í Lystigarðinum

Lúðrasveit Akureyrar. Stjórnandi: Sóley Björk Einarsdóttir.

Fánahylling og hugvekja. Séra Jóhanna Gísladóttir.

Kvennakór Akureyrar. Stjórnandi: Petra Björk Pálsdóttir.

Ljóðalestur: Anna Kristjana Helgadóttir ungskáld.

Hátíðarávarp: Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri.

Ólafur Traustason syngur og leikur af fingrum fram.

Kl. 14: Skrúðganga frá Lystigarðinum að Ráðhústorgi

Lögregla, Lúðrasveit Akureyrar og Skátafélagið Klakkur leiða gönguna.

Kl. 14-16: Fjölskyldu- og hátíðardagskrá á Ráðhústorgi

Leikhópurinn Lotta kynnir hátíðardagskrána.

Lýðveldiskaka í tilefni 75 ára afmælis lýðveldisins.

Ávarp fjallkonunnar.

Nýstúdent flytur ávarp

Steps Dancecenter

Tónlistaratriði: DayDream, Embla Sól og Anton Líni.

Skátatívolí frá kl. 14-17.

Kl. 21 til miðnættis: Kvölddagskrá á Ráðhústorgi

Tónlistaratriði: Særún Elma, Embla Björk, Dana Ýr, Tumi og Birkir Blær.

Vandræðaskáldin gera grín

Hvanndalsbræður halda uppi stuðinu frá kl. 23 til miðnættis.

Kl. 23.30: Marsering nýstúdenta frá Menntaskólanum á Akureyri

Texti og myndir: Aðsent efni.

Endurvekja 17. júní hlaup á Siglufirði

Umf Glói á Siglufirði ætlar að endurvekja 17. júní hlaup fyrir krakka fædd 2006-2013. Hlaupið hefst á gamla malarvellinum kl. 10:30 á þjóðhátíðardaginn. Félagið stóð fyrir slíkum hlaupum í nokkur ár en síðsta hlaup var haldið árið 2010.  Tveir árgangar hlaupa saman í þessu hlaupi og er vonast til að sem flestir taki þátt að endurvekja þetta skemmtilega hlaup.

 

Fyrsta stig sumarsins hjá Tindastóli

Tindastóll hefur farið hægt af stað í stigasöfnun á Íslandsmótinu í 2. deild karla í knattspyrnu og voru án stiga eftir sex leiki. Liðið lék í gær á heimavelli við Þrótt frá Vogum, en þeir eru með mjög vel skipað lið og reynda leikmenn úr efri deildum Íslandsmótsins.

Stólarnir byrjuðu af krafti og komust yfir strax á 13. mínútu með marki frá Sverri Friðrikssyni, hans fyrsta mark í sumar í 9 leikjum í deild og bikar. Gestirnir jöfnuðu leikinn á 38. mínútu með marki frá Andrew James Pew. Aðeins sex mínútum síðar komust Stólarnir aftur yfir þegar þeir fengu vítaspyrnu, og úr henni skoraði Konráð Freyr Sigurðsson, hans annað mark í deildinni í sumar. Staðan var því 2-1 í hálfleik fyrir heimamenn.

Strax í hálfleik gerðu Þróttarar skiptingu þegar Pape Mamadou Faye kom inná, en hann hefur gert fjögur mörk í sumar fyrir liðið. Bæði lið gerðu svo skiptingar um miðjan síðari hálfleik, og allt stefndi í góðan sigur Tindastóls. Á 86. mínútu jöfnuðu hins vegar Þróttarar leikinn með marki frá Ingvari Ingvarssyni. Aðeins mínútu síðar fékk Pape Mamadou Faye beint rautt spjald og léku gestirnir einu færri það sem eftir var leiks. Tindastóll náði ekki að nýta sér liðsmuninn og voru lokatölur í leiknum 2-2. Fyrsta stig Tindastóls komið í hús eftir sjö umferðir.

Tindastóll leikur næst við Selfoss á útivelli, fimmtudaginn 20. júní.

Úrslit í öðru móti miðvikudagsmótaraðarinnar hjá GFB

Annað mót í Miðvikudagsmótaröðinni hjá GFB fór fram 12. júní sl. en alls eru þetta 12 mót og gilda bestu fimm mótin til sigurs.  Keppt er í opnum flokki með forgjöf 26.4 og lægri og áskorendaflokki.  Sautján kylfingar voru mættir til leiks þennan miðvikudaginn á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði. Alls tóku 17 þátt í þessu móti.

Í fyrsta sæti í þessu móti var Jóhann Júlíus Jóhannsson með 22 punkta hann var með skráð 28 í forgjöf en lék á 11. Í öðru sæti var Fylkir Þór Guðmundsson með 21 punkt, hann var með skráð 4 í forgjöf. Í þriðja sæti var Rósa Jónsdóttir með 20 punkta, hún er með skráð 16 í forgjöf en lék á 6.

Enginn fékk örn í þessu móti en fjórir fengu fugl á 7. holu og níu pöruðu 5. holu. Flestir skrambar komu á 3. holu eða 11.

Hátíðardagskrá í Fjallabyggð á 17. júní

17. júní hátíðarhöld verða haldin í Ólafsfirði og á Siglufirði og verða fjölbreyttir viðburðir fyrir alla. PDF útgáfu af dagskránni má sjá á vef Fjallabyggðar.

Á Siglufirði verður hátíðarathöfn við minnisvarða sr. Bjarna Þorsteinssonar við Siglufjarðarkirkju. Að henni lokinni ætlum við að ganga að Þjóðlagasetri Sr. Bjarna þar sem boðið verður upp á kaffi og konfekt. Hið árlega Kaffihlaðborð Blakfélags Fjallabyggðar verður í Einingu-Iðju á Siglufirði og í ár mun UMF Glói endurvekja 17. júní hlaupið á Siglufirði fyrir krakka á fædd 2006-2013.
Að vanda verður sýning í Kompunni í Alþýðuhúsinu en það er hún Kristín Gunnlaugsdóttir sem sýnir verkin sín og svo verður opið bæði í Ljóðasetri Íslands, Ljósmyndasögusafninu Saga-Fotografica og á Þjóðlagasetrinu.

Við Menningarhúsið Tjarnarborg í Ólafsfirði verður glæsileg hátíðardagskrá þar sem í boði verða m.a. leiktæki, hoppukastalar, geimsnerill, stærsta vatnsrennibraut landsins verður opin (Skíðastökkpallurinn) og margt fleira fyrir alla fjölskylduna.

Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að mæta og fagna þessari hátíðarstund saman en í ár heldur Lýðveldið Ísland upp á 75 ára afmæli. Af því tilefni verður gestum boðið upp á 4. metra Lýðveldisköku við Menningarhúsið Tjarnarborg og við Aðalbakarí á Siglufirði í boði Landssambands bakarameistara og forsætisráðuneytisins.

Úrslit í fyrstu Rauðkumótaröðinni

Rauðkumótaröðin í golfi hófst á miðvikudaginn sl. á Siglógolf á Siglufirði. Alls eru mótin 10 og gilda 5 bestu mótin til stiga í mótaröðina. Alls voru 15 skráðir til leiks og mættu 14 á rástíma, þrjár konur og ellefu karlar. Í fyrsta sæti var Finnur Mar Ragnarsson með 24 punkta og var hann með 9 í forgjöf fyrir mótið en lék á 0. Í öðru sæti var Sindri Ólafsson með 19 punkta, hann var með skráða 12 í forgjöf en lék á 6.  Í þriðja sæti var Ólína Þórey Guðjónsdóttir með 19 punkta, hún var með skráð 14 í forgjöf en lék á 6.

Í dag fer svo fram mótið Vanur/óvanur á Siglógolf á vegum GKS og hefst kl. 13:00. Þetta mót er svokallað Texas scrable.  Í Textas Scramble leika tveir leikmenn saman í liði.  Leikurinn fer þannig fram að báðir leikmenn slá af teig og velja síðan betra teighöggið.  Því næst slá báðir af þeim stað og velja svo aftur betra höggið.  Þannig gengur leikurinn þar til einn bolti er kominn í holuna.

Kylfingar, klúbbur og forgjöf f. mótið.

Benedikt Þorsteinsson GKS 9.8
Finnur Mar Ragnarsson GKS 17.4
Grétar Bragi Hallgrímsson GA 12.3
Jóhann Már Sigurbjörnsson GKS 4.0
Jóhanna Þorleifsdóttir GKS 30.9 (28.0)
Jósefína Benediktsdóttir GKS 22.1
Kristófer Þór Jóhannsson GKS 35.5 (24.0)
Magnús Magnússon GKS 26.7 (24.0)
Ólafur Haukur Kárason GKS 17.4
Ólína Þórey Guðjónsdóttir GKS 21.0
Sindri Ólafsson GKS 20.7
Stefán G Aðalsteinsson GKS 24.1 (24.0)
Sævar Örn Kárason GKS 11.3
Þorsteinn Jóhannsson GKS 11.8

KF vann Hött/Huginn á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Hetti/Huginn frá Austurlandi í dag á Ólafsfjarðarvelli í 3. deild karla í knattspyrnu.  KF þurfti á sigri að halda til að halda í við hin toppliðin, en Kórdrengir og KV eru liðin  sem KF er að eltast við núna. Höttur/Huginn er á hinum enda deildarinnar, og var liðið búið að gera þrjú jafntefli og vinna einn leik og var með 6 stig fyrir þennan leik. Þjálfari KF gerði tvær breytingar á liðinu frá síðasta leik sem tapaðist gegn KV, en Halldór Logi og Valur Reykjalín voru komnir í byrjunarliðið, en Ljubomir og Vitor misstu sitt sæti í þessum leik og byrjuðu á varamannabekknum.

KF hafði töluverða yfirburði í fyrri hálfleik og fengu þeir fín færi.  Undir lok fyrri hálfleiks opnaðist svo vörn gestanna og KF skoraði tvö mörk með stuttu millibili. Varnarmaðurinn öflugi Jordan Damachoua skoraði sitt annað mark í sumar þegar hann kom KF í 1-0 á 41. mínútu. Markið kom eftir hornspyrnu Hákons og skallaði Jordan boltanum inn í mark gestanna.  Aðeins þrem mínútum síðar var mikil barátta í vítateig gestanna og barst boltinn út á Halldór Loga sem kláraði færið með góðu skoti, og kom KF í 2-0.

Gestirnir byrjuðu svo af krafti í síðari hálfleik, en án þess þó að ná að nýta tækifærin. Höttur/Huginn gerði svo tvær tvöfaldar skiptingar í kringum miðjan síðari hálfleik, til að reyna komast betur inn í leikinn.

KF gerði eina skiptingu í hálfleik, en Vitor kom inná fyrir Andra Snæ. Á 78. mínútu gerði þjálfari KF tvöfalda skiptingu til að fá meiri vinnslu í sóknarleikinn, en Sævar Þór og Ljubomir komu inná, og átti það eftir að skila sér strax. Þegar tæpar 10 mínútur voru eftir af síðari hálfleik skoraði KF aftur og barst þá sending frá Ljubomir til Grétars Áka sem átti fast skot sem endaði í varnarmanni gestanna og fór þaðan inn. Alexander Már var þó alveg í færinu og telja sumir að hann eigi markið, en dómarinn skráði markið sem sjálfsmark.  Nokkrum mínútum fyrir leikslok misstu Höttur/Huginn leikmann af velli og léku þeir einum færri í nokkrar mínútur. KF náði svo einni lokaskiptingu áður en leikurinn kláraðist en Þorsteinn Már kom inná fyrir Grétar Áka á 86. mínútu. Lokatölur 3-0 fyrir KF og er liðið áfram í 3. sæti deildarinnar eftir sjö umferðir. Liðið er nú aðeins einu stigi frá Kórdrengjum og tveimur stigum frá toppliði KV.

Heilt yfir góður leikur hjá KF og þrjú góð mörk fyrir áhorfendur í dag.

KF leikur næst við Kórdrengi á Framvellinum í Reykjavík, laugardaginn 23. júní kl. 15:00.

Lýðveldiskaka á 17. júní í Fjallabyggð

Í ár heldur Lýðveldið Ísland upp á 75 ára afmæli. Af því tilefni verður íbúum og gestum í Fjallabyggð boðið upp á Lýðveldisköku á 17. júní við Þjóðlagasetrið á Siglufirði kl. 12:15 og við Tjarnarborg í Ólafsfirði kl. 15:00.

Lýðveldiskakan er í boði Landssambands bakarameistara og forsætisráðuneytisins og bökuð af Aðalbakaríinu á Siglufirði.

Landssamband bakarameistara hefur hannað Lýðveldiskökuna í samstarfi við forsætisráðuneytið í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins. Boðið verður upp á kökuna í miðbæ Reykjavíkur og verður hún 75 metrar á lengd. Þá verður einnig boðið upp á a kökuna í þeim bæjarfélögum þar sem félagsmenn í Landssambandi bakarameistara reka bakarí og verður sú kaka 75 metrar á lengd sem skiptist niður á viðkomandi bæjarfélög. Fjallabyggð fær 4 metra af kökunni.

Lýðveldiskakan er er þriggja botna mjúk súkkulaðikaka með karamellu- rjómaostakremi og Odense marsipani.

Heimild og mynd: fjallabyggd.is

Pistill frá forseta ÍSÍ vegna kvennahlaupsins

Árið 1990 var fyrsta Kvennahlaup ÍSÍ haldið á átta stöðum á landinu, í tengslum við Íþróttahátíð ÍSÍ. Lovísa Einarsdóttir, sem sæti átti í framkvæmdastjórn ÍSÍ á þeim tíma, var í lykilhlutverki við stofnun hlaupsins og síðar framkvæmd þess til margra ára. Lovísa var mikil kjarnakona og það var hennar hugsjón að fá fleiri konur til að iðka íþróttir og almenna hreyfingu, sér til heilsubótar. Hún hreif með sér aðra drífandi einstaklinga og ævintýrið hófst. Síðar var sett á laggirnar Kvennahlaupsnefnd ÍSÍ sem hefur leitt undirbúning og skipulag hlaupsins af hálfu ÍSÍ með miklum sóma.

Á þessum tíma sá enginn fyrir að hlaupið yrði að þeim stórviðburði sem það síðar varð en Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ hefur í áratugi verið einn af stærstu almenningsíþróttaviðburðum á Íslandi. Sérstaða hlaupsins er fjöldi hlaupastaða, dreifing þeirra á landsvísu og sú staðreynd að þátttakendur eru nánast eingöngu konur.

Helsta markmiðið með hlaupinu var að hvetja konur til að stunda hreyfingu og ná samstöðu meðal kvenna um aukna hreyfingu og hollari lífshætti. Hlaupið var oftast dagsett sem næst 19. júní til að tengja það réttindabaráttu kvenna og lengi vel var hvert og eitt hlaup tengt ákveðnu baráttumáli eða þema sem féll vel að markmiðum hlaupsins.

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ er löngu orðið að ómissandi viðburði hjá konum á öllum aldri um land allt. Allir geta fundið sér vegalengd við hæfi og engin tímataka er í hlaupinu. Lögð er áhersla á að hver hlaupi á sínum forsendum og komi í mark á sínum hraða. Í hlaupinu koma kynslóðir saman, hreyfa sig og eiga ánægjulega samverustund. Oft eru konur úr sömu fjölskyldu búnar að útbúa dagskrá fyrir allan daginn, bæði fyrir og eftir hlaup og gera daginn þannig að sérstökum fjölskylduviðburði með tilheyrandi gleði, hvatningu og samstöðu. Oft fylgja karlmennirnir líka með, annað hvort sem þátttakendur í hlaupinu eða sem áhorfendur og stuðningsmenn. Félagslegi þátturinn hefur alltaf verið í öndvegi og flestum ber saman um að það sé bæði sérstök og skemmtileg stemmning á viðburðinum. Konur koma í hlaupið saman til að vera með fjölskyldu og vinum og vera þær sjálfar, fyrst og fremst.

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ hefur ekki bara verið vinsælt hér heima fyrir heldur einnig í öðrum löndum þar sem samfélag Íslendinga er sterkt og samheldið. Hlaupið hefur farið fram í nálægum löndum jafnt sem fjarlægum og má nefna Mósambík og Namibíu sem dæmi um hlaupastaði.

Hlaupið hefði hins vegar ekki orðið að þeim stórviðburði sem það er án öflugra tengiliða sem taka að sér framkvæmd hlaupsins um allt land og hafa hvetjandi áhrif á þátttöku í hlaupinu. Einnig vil ég minnast á alla þá sjálfboðaliða sem koma með einum eða öðrum hætti að hlaupinu. Á stærstu hlaupastöðunum styðja sveitarfélögin einnig dyggilega við framkvæmd hlaupsins. Má þar nefna Garðabæ, þar sem fjölmennasta hlaup hvers árs er haldið, en bærinn og Umf. Stjarnan hafa lagt sig fram við að gera umgjörð hlaupsins sem glæsilegasta og stutt með margvíslegum hætti við skipulag og framkvæmd þess.

Sjóvá hefur verið bakhjarl hlaupsins frá upphafi og fóstrað og stutt verkefnið af áhuga og myndarskap. Einnig má minnast á Ölgerðina, Beiersdorf á Íslandi (Nivea) og Morgunblaðið sem hafa verið ómetanlegir samstarfsaðilar til margra ára.

Við hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands erum afar stolt af Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ og teljum að það hafi átt þátt í að auka almenna hreyfingu kvenna á Íslandi, tengja konur betur við íþróttahreyfinguna og vekja upp samstöðu og kraft hjá konum um allt land.
Ég vil hvetja sem flesta til að taka þátt í 30 ára afmælishlaupi Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ 15. júní nk. Það verður mikið um dýrðir um land allt og bryddað upp á ýmsum nýjungum í tilefni tímamótanna.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ óskar öllum þátttakendum góðs gengis og góðrar skemmtunar í hlaupinu.

Lárus L. Blöndal
forseti ÍSÍ

 

Kvennahlaup ÍSÍ í 30 ár

Sjóvá Kvenna­hlaup ÍSÍ fer fram í dag á Siglufirði. Umf Glói mun halda Kvennahlaup ÍSÍ sextánda árið í röð og verður þetta 30. Kvennahlaupið og verður því meira um dýrðir en nokkur sinni fyrr. Líkt og undanfarin ár verður komið saman á Rauðkutorgi og hlaupið af stað kl. 11:00.

Konur í Fjallabyggð á öllum aldri eru hvattar til að fjölmenna í hlaupið þann 15. júní og fagna um leið 30 ára afmæli Kvennahlaupsins.

Pistill frá menntamálaráðherra vegna kvennahlaupsins.

Markmið Kvennahlaupsins er að hvetja konur á öllum aldri til aukinnar heilsueflingar og til frekari þátt­töku í starfi íþrótta­hreyf­ing­ar­innar á Íslandi. Það hefur sannarlega mælst vel fyrir og því til stuðnings segir það sitt að Kvennahlaupið hefur lengi verið stærsti einstaki íþróttaviðburðurinn á Íslandi. Þátttaka í hlaupinu hefur aukist jafnt og þétt og ár hvert hlaupa þúsundir kvenna um allt land og njóta þess að hreyfa sig saman. Dætur, mæður, frænkur, systur og vinkonur taka þátt og þar eru börn, ungmenni og karlar einnig velkomin.

Kvennahlaupið sameinar tvo mikilvæga þætti í lífi okkar allra – samveru og hreyfingu. Þar er hvatt til samstöðu kvenna og að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum for­sendum og eigi ánægju­lega sam­veru­stund með fjöl­skyldu og vinum. Ljóst er að konur eru meira áberandi á vettvangi íþróttanna nú en fyrir 30 árum, hróður ís­lenskra íþrótta­kvenna eykst og þær hafa náð frá­bærum ár­angri á heimsvísu, og margar konur eru nú í for­svari fyrir íþrótta­hreyf­ing­una hér­lendis. Áframhaldandi hvatning og vitundarvakning um heilsueflingu er okkur öllum  mikilvæg. Við ættum að nýta öll slík tækifæri, ekki síst þegar þau stuðla að slíkum sameiningarkrafti og henta þátttakendum á öllum aldri.

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að Kvennahlaupunum þessa þrjá áratugi og tekið þátt í skipulagningu þeirra víða um land og erlendis. Fjöldamargir sjálfboðaliðar hafa lagt verkefninu lið og tekið þátt í að skapa skemmtilegu stemmningu fyrir þátttakendur. Án þeirra hefði hlaupið ekki blómstrað eins og raun ber vitni. Ég óska þátttakendum og aðstandendum hjartanlega til hamingju með þessi merku tímamót og hlakka til að taka þátt í Kvennahlaupum framtíðarinnar.

Lilja Alfreðsdóttir
mennta- og menningarmálaráðherra

Stækka mynd

Kaffi Klara verður miðstöð listamanna í haust

Nýr áfangi á starfsemi Kaffi Klöru í Ólafsfirði er hafinn þar sem fyrirtækið er gengið í Res Artis, og verður miðstöð listamanna í haust og vetur, frá lok september til um miðjan mars árið 2020.  Kaffi Klara mun fara í samstarf við aðrar listamannastöðvar og menningarstofnanir í Fjallabyggð. 

Ólafsfjörður og Siglufjörður hafa þegar skapað sér sérstöðu í hjarta margra listamanna og hafa margir slíkir komið í Fjallabyggð oftar en einu sinni.  Kaffi Klara Art Residence vill tryggja að það verði þannig áfram og er tilhlökku í starfsfólki Kaffi Klöru að taka á móti listafolki næsta haust og þróa skapandi starfi í Fjallabyggð áfram.

Res Artis eru samtök um 600 menningarsetra, listamiðstöðva og einstaklinga í yfir 70 löndum sem bjóða upp á listamannadvöl og gestavinnustofur. Gestavinnustofur eru hluti af starfsumhverfi myndlistarmannsins og gera honum kleift að vinna í öðru umhverfi og kynnast öðrum myndlistarmönnum.

Gisting fyrir listamann og aðstaða kostar frá 135.000 kr. fyrir 30 daga dvöl á Kaffi Klöru í haust og vetur.

 

Sundgarpar framtíðarinnar í Fjallabyggð

Undanfarnar tvær vikur hefur yngsta kynslóðin í Fjallabyggð verið á sundnámskeiði í Sundhöll Siglufjarðar. Krakkar á aldrinum 4.-6. ára (fædd 2013-2015) tóku þátt á námskeiðinu sem lauk í dag með glæsilegri sýningu þar sem foreldrar og fjölskyldumeðlimir fjölmenntu og fylgdust með krökkunum synda, kafa og stinga sér í lauginni.  Í lokin fengu svo krakkarnir glæsilegan sundpoka frá Arion banka í Fjallabyggð, ásamt óvæntum glaðningi frá sundkennurunum.
Kennarar á námskeiðinu voru þau Anna María, Óskar og María og vilja þau koma fram þakklæti til Arion Banka fyrir stuðninginn ásamt starfsfólki Sundhallarinnar og Fjallabyggð.
Texti og mynd: Aðent efni.

Aflatölur í Fjallabyggð fyrstu sex mánuði ársins

Aukning eru um tæplega 2300 tonn á fyrstu sex mánuðum ársins í löndunum á Siglufirði miðað við sama tímabil árið 2018. Þetta kemur fram í aflatölum Hafnarstjórnar Fjallabyggðar.

Fjöldi landana og afli í höfnum Fjallabyggðar tímabilið 1. janúar – 1. júní 2019 ásamt samanburði við sama tíma árið 2018.
2019 Siglufjörður 7297 tonn í 510 löndunum.
2019 Ólafsfjörður 226 tonn í 243 löndunum.
2018 Siglufjörður 4906 tonn í 517 löndunum.
2018 Ólafsfjörður 244 tonn í 256 löndunum.

Höfnin í Ólafsfirði

Talið að um 100.000 erlendir ferðamenn hafi komið til Siglufjarðar árið 2018

Ný skýrsla um ferðamenn í Fjallabyggð sem komu á árunum 2014-2018 sýnir að um 100.000 ferðamenn erlendir hafi komið til Siglufjarðar árið 2018 og 78.000 til Ólafsfjarðar sama ár.  Skýrslan er unnin af fyrirtækinu Rannsókn og ráðgjöf ferðaþjónustunnar. Alla skýrsluna má lesa á PDF útgáfu á vef Fjallabyggðar.

Niðurstöður eru unnar úr könnuninni Dear Visitors sem fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar hefur framkvæmt meðal brottfararfarþega í Leifsstöð allt frá sumrinu 1996 og síðan nær stöðugt alla mánuði ársins frá janúar 2004. Þá hefur könnunin einnig oft verið framkvæmd á sumrin meðal ferðamanna með Norrænu á Seyðisfirði. Þar hefur frá 2003 allaf verið spurt um komur til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Í samantekt er lögð áhersla á að skoða komur erlendra ferðamanna í Fjallabyggð í heild og í byggðarkjarnana hvorn fyrir sig með samanburð við komur ferðamanna í Eyjafjörð. Að jafnaði tóku 3-4.000 manns þátt í könnuninni hverju ári.

Samkvæmt Dear Visitors könnun RRF má áætla að 100.000 þúsund erlendir ferðamenn hafi haft viðkomu á Siglufirði árið 2018, 82.000 þúsund árið 2016, 32.000 þúsund árið 2013, 16.000 þúsund árið 2010 og 10.500 þúsund árið 2004. Samkvæmt því fjölgaði þeim 9,5 falt frá 2004 til 2018, 6,3 falt frá 2010 til 2018, 3,4 falt frá 2013 til 2018 og um 22% frá 2016 til 2018.

Þetta þýðir að 4,6% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2018 höfðu einhverja viðdvöl á Siglufirði (7,5% sumargesta og 3% gesta utan sumars), 3,9% ferðamanna til Íslands árið 2013 en 2,8% árið 2004. Samkvæmt því hefur Siglufjörður aukið hlutdeild sína í ferðamönnum til Íslands um 71% frá árinu 2004 og um 18% frá árinu 2013.
Sumarmánuðina þrjá er áætlað að erlendum ferðamönnum á Siglufirði hafi fjölgað úr 9 þúsund árið 2004 í 58 þúsund árið 2018, eða 6,4 falt. Hins vegar fjölgaði erlendum vetrarferðamönnum þangað 28 falt á sama tímabili, úr 1,5 þúsund í 42 þúsund.

Þessar niðurstöður þýða jafnframt að 17% þeirra erlendu ferðamanna sem lögðu leið sína í Eyjafjörð árið 2018 komu á Siglufjörð. Það hlutfall var hins vegar hins aðeins um 10,5% árið 2010. Þannig hefur Siglufirði tekist að ná í mun stærra hlutfall erlendra ferðamanna á svæðinu til sín en áður var. Þar skipta Héðinsfjarðargöng og síðan mikil uppbygging í ferðaþjónustu mestu máli, með Sigló Hótel í fararbroddi.
Árið 2004 komu um 86% erlendra gesta á Siglufirði þangað að sumarlagi (júní, júlí og ágúst) en 14% hina níu mánuði ársins. Árið 2018 var hlutfall sumargesta hins vegar komið niður í 58% en vetrargesta upp í 42%.
Samkvæmt Dear Visitors könnun RRF má áætla að 78 þúsund erlendir ferðamenn hafi haft viðkomu á Ólafsfirði árið 2018, 66 þúsund árið 2016, 29 þúsund árið 2013, 14 þúsund árið 2010 og 12 þúsund árið 2004 (sbr. mynd 4.2). Samkvæmt því fjölgaði þeim 6,3 falt frá 2004 til 2018, 5,3 falt frá 2010 til 2018, 2,7 falt frá 2013 til 2018 og um 18% frá 2016 til 2018.
Þetta þýðir að 3,6% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2018 höfðu einhverja viðdvöl á Ólafsfirði (5,6% sumargesta og 2,5% gesta utan sumars), 3,6% ferðamanna til Íslands árið 2013 (sama hlutfall) en 3,2% árið 2004. Samkvæmt því hefur Ólafsfjörður haldið hlutdeild sinni í ferðamönnum til Íslands frá árinu 2004.

Sumarmánuðina þrjá er áætlað að erlendum ferðamönnum á Ólafsfirði hafi fjölgað úr tæplega 11 þúsund árið 2004 í 43 þúsund árið 2018, eða fjórfalt. Hins vegar fjölgaði erlendum vetrarferðamönnum þangað 20 falt á sama tímabili, úr 1.700 þús í 35 þúsund.
Þessar niðurstöður þýða jafnframt að 13% þeirra erlendu ferðamanna sem lögðu leið sína í Eyjafjörð árið 2018 komu á Ólafsfjörð. Það hlutfall var hins vegar hins aðeins um 9% árið 2010.
Árið 2004 komu um 86% erlendra gesta á Ólafsfirði þangað að sumarlagi (júní, júlí og ágúst) en 14% hina níu mánuði ársins. Árið 2018 var hlutfall sumargesta hins vegar komið niður í 56% en vetrargesta upp í 44%.

Eldsneytisnotkun Isavia kolefnisjöfnuð í samvinnu við Kolvið og Votlendissjóð

Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia, Reynir Kristinsson, stjórnarformaður kolefnissjóðsins Kolviðs, og Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðs, undirrituðu í dag samninga um kolefnisjöfnun allrar eldsneytisnotkunar Isavia. Samningarinn gildir næstu þrjú árin.

Eldsneytisnotkun vegur þyngst í kolefnisspori Isavia. Stærsta hluta þessarar notkunar má rekja til þjónustu og viðhalds á flugbrautum og athafnasvæðum flugvalla og er sú þjónusta  að miklu leyti háð veðri. Á síðasta ári var heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna bruna eldsneytis í starfsemi Isavia 2.694 t CO2.  Um er að ræða beina losun í starfsemi Isavia og er sá þáttur þar sem félagið hefur mest tækifæri til úrbóta.

„Isavia hefur á síðustu árum lagt áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni,“ segir Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia. „Árið 2015 var sett markmið um að lækka losun gróðurhúsalofttegunda um 29% á hvern farþega fyrir árið 2030. Í dag hefur Isavia þegar minnkað losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri sínum um tæp 40 prósent á farþega. Markmiðið verður því endurskoðað.“

„Við  hjá Kolviði hlökkum mikið til samstarfsins við Isavia um kolefnisjöfnun á starfsemi þeirra,“ segir Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðs. „Þetta sýnir einnig samfélagslega ábyrgð og gott framlag til að draga úr og kolefnisjafna losun sem tengist flugstarfsemi.“

„Isavia gengur fram fyrir skjöldu af fyrirtækjum í eigu ríkisins með þessum samningum,“ segir Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðs. „Við hjá Votlendissjóði erum þakklát fyrir stuðninginn. Sjóðurinn verður búinn að kolefnisjafna allt magnið sem keypt er strax á þessu ári. Ávinningurinn er mikill. Til viðbótar við stöðvun á losun gróðurhúsalofttegunda. Þá eru votlendisvistkerfin endurheimt og þannig stuðlað að líffræðilegum fjölbreytileika dýra, fiska og fugla í íslenskri náttúru.“

Við undirritun samninganna var einnig greint frá því að Isavia hefði lokið við annað skref í innleiðingu á kolefnisvottun ACA (Airport Carbon Accreditation) fyrir Keflavíkurflugvöll. Vottunarkerfi er í fjórum skrefum. Það var hannað af ACI, Alþjóðasamtökum flugvalla, sem Isavia er meðlimur að. Kerfið er sérstaklega sniðið að rekstri og starfsemi flugvalla.

Skrefin fjögur eru:

  • Kortlagning kolefnisspors
  • Markmiðasetning og minnkun kolefnislosunar
  • Minnkun kolefnislosunar í samstarfi við aðra rekstraraðila á flugvellinum
  • Kolefnisjöfnun flugvallarins

Skref tvö felur því í sér að félagið hefur kortlagt losun gróðurhúsalofttegunda í starfseminni og vaktar og stýrir þeim þáttum þar sem losunin er mest. Til að ná öðru skrefi hefur einnig verið sýnt fram á að dregið hafi verið úr losun gróðurhúsalofttegunda á hvern farþega yfir þriggja ára tímabil.

Isavia hefur sett sér aðgerðaráætlun í umhverfis- og loftslagsmálum. Meðal aðgerða í áætluninni er að meirihluti ökutækja sem keypt eru skuli vera vistvænn í þeim flokkum sem slíkt býðst. Dregið hefur verið úr notkun jarðefnaeldsneytis með kaupum á rafbílum og starfsmenn með meirapróf fara á vistakstursnámskeið.

„Isavia er meðvitað um þá ábyrgð sem hvílir á fyrirtækinu varðandi loftslagsmál,“ segir Sveinbjörn Indriðason starfandi forstjóri. „Við vinnum með virkum og skipulögðum hætti að aðgerðum til að þess að minnka kolefnisspor félagsins.“

Nánar er hægt að kynna sér markmið og aðgerðir Isavia í umhverfismálum í árs- og samfélagsskýrslu félagsins: http://www.isavia.is/arsskyrsla2018

Heimild og myndir: Fréttatilkynning.

Fjölbreyttar ferðir með Top Mountaineering á Siglufirði í júní

Gestur Hansa og félagar hjá Top Mountaineering á Siglufirði bjóða upp á fjölbreyttar ferðir í júní fyrir íbúa og ferðamenn í Fjallabyggð. Föstudaginn 14. júní verður siglt á Siglunes. Fimmtudaginn 20. júní verður fjölskylduganga í Tjarnardali og er frítt í þessa gönguferð. Föstudaginn 21. júní verður gengið á Skrámu. Sunnudaginn 23. júní verður Jónsmessuganga og mánudaginn 24. júní verður tilboð á kayak hjá Topmountaineering.

Dagskrá Topmountaineering í júní:

Siglt á Siglunes, skriðurnar heim.

Föstudaginn 14 júní. kl 19.00.

Leiðsögn um nesið skriðurnar gengnar heim.
Áætlaður tími í ferðinni 4-5 kls.
verð í ferðina er 10. þús. á mann.
Takmarkaður fjöldi.

Upplýsingar 898-4939.

Ævintýri á gönguför.

Fimmtudaginn 20 júní kl 18.00.
Tjarnadalir fjölskylduganga,auðveld og skemmtileg
Gangan tekur um 2- 3 tíma .
Frítt í gönguna.

Sumarsólstöður.

Gengið á Skrámu.

Föstudaginn 21 júní kl 20.00
Gengið upp í Hvanneyraskál – Gróuskarðshnjúk -Hvanneyrahyrnu –
þaðan eggjarnar út á Skrámu.
Stórbrotið útsýni í allar áttir.
Gangan tekur um 4-5 tima.
Verð 3.000

Jónsmessuganga.

Sunnudaginn 23 júní kl 11.00
Gengið uppúr Skarðdalsviki,suður fjallseggjarnar (Hákambana)
niður í Blekkingsskál og út Hólsdal
Skemmtileg gönguleið með mögnuðu útsýni.
Endum síðan í fallegu Skógræktinni okkar,
þar sem boðið verður uppá kjötsúpu.
Verð 4.500

Kayakævintýri.

Mánudaginn 24 júní kl 18.00
Tilboð á Kayakferðum, 7.000 kr.

Upplýsingar og skráning í síma 8984939 / 8577316.

Kayakferðir á Siglufirði

Golfkennsla GKS á Siglufirði

Golfklúbbur Siglufjarðar stendur fyrir golfnámskeiði núna í júní fyrir börn og unglinga og einnig konukvöld fyrir byrjendur.  Núna er rétti tíminn til að senda börnin á golfnámskeið svo allir geti tekið þátt í þessu frábæra fjölskyldusporti.

Golfkennari er Jóhann Már Sigurbjörnsson og hefur hann lokið PGA leiðbeinendanámskeiði á Íslandi.

 

Golfkennsla

Golfkennsla fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í golfinu

Kylfur, kúlur og fleira á staðnum.

Kennsla fer fram suðrá hóli á neðra svæðinu.

 

Unglingar og krakkar

4000 krónur fyrir 6 skipti.

18 júní – 19 júní og 20 júní
24 júní – 25 júní og 27 júní

1 til 5 bekkur = Kl.15:15 til 16:30
6 til 10 bekkur = Kl. 16:30 til 17:45

Konukvöld fyrir byrjendur

6 skipta námskeið, frá kl.18:30 til 19:45 og þessar dagsetningar.

18 júní – 20 júní og 21 júní
24 júní – 25 júní og 27 júní

15.000 krónur.
Þarf að ráðast á þátttöku hvort það þurfi að skipta upp námskeiðinu.

 

Stakur klukkutími fyrir einstakling : 5000 kr.

Hjóna/paratími klukkutími : 6000 kr.

 

Tímapantanir í síma 848-6997 eða e-mail joigolf22@hotmail.com

Ef þið eruð að panta á unglinga eða krakkanámskeið að skrifa nafn og kennitölu barns.

Rauðkumótaröðin að hefjast á Siglógolf

Rauðkumótaröðin hefst miðvikudaginn 12. júní á á Siglógolf vegum Golfklúbbs Siglufjarðar. Mótið hefst kl. 19:00 og er innanfélagsmót. Hægt er að skrá sig í mótið á golf.is.

Rauðkumótaröðin eru 10 mót sem eru leikin á miðvikudögum í júní, júlí og ágúst. Fimm bestu mótin gefa til stiga í mótaröðina. Gefin eru 12 stig fyrir 1. sæti, 10 fyrir annað, 8 fyrir þriðja og svo 7-1 stig þar fyrir neðan. Gjald er 1000 kr fyrir hvert mót.

Fyrsta tap KF í deildinni – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar(KF) og Knattspyrnufélag Vesturbæjar(KV) mættust í dag á KR-vellinum í Reykjavík. Bæði liðin höfðu byrjað mótið vel og var því ljóst að um hörku leik yrði að ræða og baráttan um toppsætið.

KF sigraði Sindra í síðustu umferð í Sjómannadagsleiknum sem fór fram 1. júní og KV sigraði Augnablik í sömu umferð.  Þjálfari KF gerði tvær breytingar frá síðasta leik en Stefán Bjarki og Valur Reykjalín voru ekki í byrjunarliðinu í þetta skiptið, en Óliver og Hákon Leó voru komnir inn.

Veður var frábært í dag á KR vellinum, en ekkert mark var þó skorað í fyrri hálfleik. Heimamenn þurftu þó að gera tvær skiptingar í fyrri hálfleik vegna meiðsla. Staðan var 0-0 í hálfleik. Á 60. mínútu fengu heimamenn aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig KF. Garðar Ingi Leifsson fyrirliði KV tók spyrnuna og skoraði örugglega stöngin inn og lyfti boltanum glæsilega yfir varnarvegginn.  Halldór markvörður KF var ekki nálægt því að ná þessum bolta.

KF skipti svo Halldóri Loga inn á fyrir Ljubomir á 71. mínútu til að fá ferskar lappir í sóknina. Á 77. mínútu kom svo Valur Reykalín inná fyrir Vitor og svo kom tvöföld skipting á 81. mínútu þegar Jakob og Grétar Áki fóru útaf fyrir Þorstein Má og Patrek. Allt var nú lagt í að jafna leikinn með þessum fórum skiptingum. Fimmta skipting KF kom svo á 83. mínútu þegar Sævar kominn á fyrir Andra Snæ. Þegar skammt var eftir fékk KF vítaspyrnu og úr henni skoraði Alexander Már og jafnaði leikinn á 85. mínútu. Heimamenn gáfust ekki upp og skoruðu sigurmark leiksins aðeins tveimur mínútum síðar og komust í 2-1 þegar Einar Már Þórisson skoraði beint úr aukaspyrnu og innsiglaði mikilvægan sigur KV í þessum leik.

KF er í 3. sæti deildarinnar eftir sex umferðir og KV skellti sér í toppsætið með þessum sigri. KF leikur næst gegn Hetti/Huginn á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 15. júní.

 

 

Þjóðhátíðardagskrá í Fjallabyggð

Fjölbreytt hátíðardagskrá verður í Fjallabyggð á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Á Siglufirði verður hátíðarathöfn við minnisvarða sr. Bjarna Þorsteinssonar við Siglufjarðarkirkju. Að henni lokinni ætlum við að ganga að Þjóðlagasetri Sr. Bjarna þar sem boðið verður upp á kaffi og konfekt. Hið árlega Kaffihlaðborð Blakfélags Fjallabyggðar verður í Einingu-Iðju á Siglufirði og í ár mun UMF Glói endurvekja 17. júní hlaupið á Siglufirði fyrir krakka á fædd 2006-2013.
Að vanda verður sýning í Kompunni í Alþýðuhúsinu en það er hún Kristín Gunnlaugsdóttir sem sýnir verkin sín og svo verður opið bæði í Ljóðasetri Íslands, Ljósmyndasögusafninu Saga-Fotografica og á Þjóðlagasetrinu.

Í Ólafsfirði verður glæsileg hátíðardagskrá við Menningarhúsið Tjarnarborg þar sem í boði verða m.a. leiktæki, hoppukastalar, geimsnerill, stærsta vatnsrennibraut landsins opin (Skíðastökkpallurinn) og margt fleira fyrir alla fjölskylduna.

Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að mæta og fagna þessari hátíðarstund saman en í ár heldur Lýðveldið Ísland upp á 75 ára afmæli. Af því tilefni verður gestum boðið upp á 4. metra Lýðveldisköku við Tjarnarborg í Ólafsfirði og við Aðalbakarí Siglufirði í boði Landssambands bakarameistara og forsætisráðuneytisins.

Heimild: fjallabyggd.is
17. júní í Ólafsfirði
17. júní í Ólafsfirði
17. júní í Ólafsfirði

Pólskukennska í Grunnskólum Dalvíkurbyggðar?

Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands á Íslandi þar sem óskað er eftir því að kennd verði pólska í grunnskólum Dalvíkurbyggðar sem annað mál, eða sem valgrein fyrir tvítyngda nemendur. Einnig hefur sendiherrann óskað eftir að tengsl landanna og samfélaganna í efnahagsmálum og menningarmálum verði efld.
Byggðarráð Dalvíkurbyggðar fjallaði um málið á fundi, en vísað til fræðsluráðs Dalvíkurbyggðar til frekari umfjöllunar.

Úrslit í miðvikudagsmótaröðinni hjá Golfklúbbi Fjallabyggðar

Miðvikudagsmótaröðin er hafin hjá Golfklúbbi Fjallabyggðar, en alls eru þetta 12 mót og gilda bestu fimm mótin til sigurs. Mótið hefst kl. 19:00 á miðvikudögum í sumar og er innanfélagsmót. Keppt er í opnum flokki með forgjöf 26.4 og lægri og áskorendaflokki.  Alls tóku 18 þátt í fyrsta mótinu sem var haldið sl. miðvikudag á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði. Margir kylfinganna léku mjög vel og langt undir sinni skráðu forgjöf í þessu fyrsta móti.

Í opnum flokki með forgjöf 26,4 og lægri var Sigríður Guðmundsdóttir í 1. sæti með 20 punkta, Sara Sigurbjörnsdóttir í 2. sæti með 19 punkta og Hafsteinn Þór Sæmundsson í 3. sæti með 18 punkta.  Í opnum flokki með 26,5 og hærri forgjöf var Jóna Kristín Kristjánsdóttir í 1. sæti með 20 punkta, Sigríður Munda Jónsdóttir í 2. sæti með 19 punkta og Jóhann Júlíus Jóhannsson í 3. sæti með 16 punkta.

17 stig eru gefin fyrir 1. sæti, 14 stig fyrir 2. sæti og 12 stig fyrir 3. sætið, og svo koll af kolli.

Stutt er í næsta mót, en það verður miðvikudaginn 12. júní á Skeggjabrekkuvelli.

Hækka launataxta vinnuskólans í Dalvíkurbyggð

Byggðaráð Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt að hækka laun í vinnuskóla Dalvíkurbyggðar fyrir sumarið 2019 til samanburðar við nágrannasveitarfélögin. Færri nemendur sóttu um í vinnuskólanum en reiknað hafði verið með og var því svigrúm til hækkanna.

Eftirfarandi er lagt til fyrir árið 2019 hvað varðar launataxta per klst:
8. bekkur 650 kr.
9. bekkur 750 kr.
10. bekkur 1.050 kr.