Category Archives: Norðurland

Skagafjörður veitti umhverfisviðurkenningar

Sveitafélagið Skagafjörður afhenti umhverfisviðurkenningar í fimmtánda sinn í síðustu viku við hátíðlega athöfn í Húsi frítímans, en það er Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar sem hefur umsjón með útnefningu þessara viðurkenninga fyrir Sveitarfélagið.  Viðurkenningarflokkarnir eru sjö talsins, en ekki er alltaf veitt verðlaun í öllum flokkum á sama ári. Í ár voru veittar sjö viðurkenningar í sex flokkum, en þá hafa verið veittar 94 viðurkenningar á 15 árum.

Flokkarnir eru:

  • Sveitabýli með búskap
  • Sveitabýli án búskapar
  • Lóð í þéttbýli
  • Lóð við fyrirtæki
  • Lóð við opinbera stofnun
  • Snyrtilegasta gatan
  • Einstakt framtak

Viðurkenningar hlutu:

Býli með búskap sem hlaut viðurkenninguna í ár er Hátún 1. Þar eru eigendur Gunnlaugur Hrafn Jónsson og Helga Sjöfn Helgadóttir.

Býli án búskapar sem hlaut viðurkenninguna í ár er Syðra-Skörðugil. Þar eru eigendur Ásdís Sigurjónsdóttir og Einar E. Gíslason, sem lést fyrir skömmu.

Í ár voru veitt tvenn verðlaun í flokknum lóð í þéttbýli:

Drekahlíð 8, Sauðárkróki. Drekahlíð 8 er í eigu Ástu Ragnarsdóttur og Magnúsar Sverrissonar.

Brekkutún 4, Sauðárkróki. Brekkutún 4 er í eigu Margrétar Grétarsdóttur og Páls Sighvatssonar.

Lóð við opinbera stofnun sem hlaut verðlaun í ár er Hóladómkirkja. Það voru Laufey Guðmundsdóttir, formaður sóknarnefndar og organistinn Jóhann Bjarnason sem tóku við viðurkenningunni fyrir Hóladómkirkju.

Lóð við fyrirtæki sem hlaut verðlaun er Bændagistingin á Hofsstöðum. Eigendur þar sem og gestgjafar eru Elínborg Bessadóttir og Vésteinn Vésteinsson.

Að lokum var veitt viðurkenning fyrir einstakt framtak. Það voru hjónin Herdís Sæmundardóttir og Guðmundur Ragnarsson sem hlutu verðlaun í flokknum einstakt framtak. Þau stóðu að því að reisa minnisvarða um Hrafna-Flóka í mynni Flókadals í Fljótum sem vígt var árið 2012.

 

Heimild og mynd: skagafjordur.is

Rússneskar kvikmyndir í Gránu á Siglufirði

Rússneska kvikmyndavikan á Íslandi fer nú fram í sjöunda sinn. Að henni standa Kvikmyndaframleiðslumiðstöðin NORFEST og sendiráð Rússlands á Íslandi með stuðningi Menningarmálaráðuneytis Rússlands og iCan ehf. Í ár er viðburðurinn tileinkaður 75 ára afmæli stjórnmálasambands Rússlands og Íslands.

Föstudagskvöldið 20. september nk. verða sýndar tvær kvikmyndir í Gránu, bræðsluhúsi Síldarminjasafnsins. Sýningin hefst kl. 20:00.

Fyrst verður sýnd ein fyrsta sovéska heimildamyndin um Ísland. Myndin heitir Íslandsferðin og er frá árinu 1955. Í tilefni hátíðarinnar var myndin textuð og fylgir henni því íslenskur texti.

Í framhaldinu verður sýnd kvikmyndin Hamingjan er… eða Happiness is… en myndin er afrakstur verkefnis á vegum Walt Disney. Efnt var til samkeppni meðal rússneskra kvikmyndagerðarmanna og hæfustu leikstjórarnir og handritshöfundarnir verðlaunaðir með tækifæri til að framleiða sína fystu kvikmynd. Myndin kom út á þessu ári, 2019, og fjallar um hamingjuna. Myndin er á rússnesku en með enskum texta. Hér má sjá sýnishorn: youtube.com/watch?v=WTXPXMJEUYI

Ókeypis aðgangur og allir velkomnir!

Texti og mynd: Aðsent / Síldarminjasafnið

Uppskeruhátíð meistaraflokks Knattspyrnufélags Fjallabyggðar

Uppskeruhátíð meistaraflokks Knattspyrnufélags Fjallabyggðar verður haldið á Kaffi Rauðku laugardagskvöldið 21. september.
Boðið verður uppá forrétt, aðalrétt og eftirrétt. Almenningur getur keypt sig inn á lokahófið og fagnað áfanganum með liðinu.
Verð er aðeins 5500 kr. á mann.
Miðapantanir í síma 660-4760. Panta þarf fyrir kl.20:00 fimmtudagskvöldið 19. september.

Fjallabyggð eignast 12 vatnslitamyndir Reynis Vilhjálms

Fjallabyggð hefur samþykkt að kaupa 12 vatnslitamyndir af snjóflóðavarnargörðum á Siglufirði frá landslagsarkitektinum og listamanninum Reyni Vilhjálms. Reynir dvaldi í Herhúsinu á Siglufirði í sumar og hélt sýningu á verkum sínum þar.  Fjallabyggð hefur samþykkt að kaupa 12 af þessum frábæru myndum Reynis til eignar á 450.000 krónur. Reynir hannaði landslagið í kringum snjóflóðavarnargarðana sem eru á Siglufirði.

Myndirnar sýna hönnun og lögun snjóflóðavarnargarðanna og samspil þeirra við náttúru og byggðina í Siglufirði og er falleg heimild um þessi miklu mannvirki.

Ritstjóri vefsins heimsótti Reyni í sumar í Herhúsið á sýningaropnuna hjá honum og eru myndirnar með fréttinni teknar í því tilefni.

Myndir: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon. Afritun og birting óheimil án leyfis.
Myndir: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon. Afritun og birting óheimil án leyfis.
Myndir: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon. Afritun og birting óheimil án leyfis.
Myndir: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon. Afritun og birting óheimil án leyfis.
Myndir: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon. Afritun og birting óheimil án leyfis.

 

Akureyringur númer 19 þúsund

Benedikt Árni Birkisson fæddist 20. júlí á Akureyri og er samkvæmt íbúaskráningu íbúi númer 19.000. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Foreldrar drengsins eru Kristjana Árný Árnadóttir og Birkir Rafn Júlíusson. Kristjana er fædd á Akureyri og hefur búið hér alla tíð en Birkir er frá Raufarhöfn. Þau segjast una hag sínum ákaflega vel á Akureyri og vilja hvergi annars staðar búa. Benedikt Árni er að sögn foreldranna ákaflega vær og stækkar hratt og örugglega. Hann var 17,5 merkur og 55 sm þegar hann fæddist.

Akureyrarbær færði fjölskyldunni góðar gjafir; Árskort í Listasafnið á Akureyri og kort í Sundlaug Akureyrar, Sögu Akureyrar í fimm bindum, fallegan blómvönd og silfurskjöld.

Mynd: Akureyri.is

Skráning hafin í Fjarðargönguna í Ólafsfirði

Opnað hefur verið fyrir skráningu í Fjarðargönguna sem fram fer í Ólafsfirði, 8. febrúar 2020.  Í fyrra var uppselt í gönguna og nú eru aðeins 240 sæti í boði. Hægt er að skrá sig á netskraning.is.

30 km fyrir 17 ára og eldri
Skráningargjald 8.000 kr. til og með 2. febrúar, eftir það hækkar skráningargjald í 10.000 kr.
Skráningu líkur 6. febrúar kl. 21:00. Dregið í happadrætti úr skráðum þátttakendum 1.des, 2.jan og 2.feb. Allir sem taka þátt í 30 km fá veglegan verðlaunapening og halda númeri sínu til minningar. 15 km fyrir 12 ára og eldri
skráningargjald 5.000 kr. til og með 2. febrúar, eftir það hækkar skráningargjald í 7.000 kr.
Skráningu líkur 6. febrúar kl. 21:00. Dregið í happdrætti úr skráðum þátttakendum 1.des, 2.jan og 2.feb. Allir sem taka þátt í 15 km fá verðlaunapening og halda númeri sínu til minningar. 5 km ekkert aldurstakmark
skráningargjald 3.000 kr, Skráningu líkur 6. febrúar kl. 21:00.  Allir þátttakendur fá verðlaunapening og halda númeri sínu til minningar.

Drög að dagskrá 7.-8.. febrúar 2020
Föstudaginn 7. febrúar:
Afhending gagna og brautarlýsing
Laugardaginn 8. febrúar:
11:00: Fjarðargangan – allir flokkar ræstir
15:00: Veisla í Tjarnarborg, verðlaun, útdráttarverðlaun, kaffihlaðborð.

Blakfélag Fjallabyggðar hefur leik á Íslandsmótinu

Fyrstu leikir Blakfélags Fjallabyggðar í karla- og kvennaflokki í 1. deild fara fram laugardaginn 21. september í Íþróttahúsinu á Siglufirði. Kvennaliðið leikur fyrst við Álftanes 2 kl. 14:00 og karlaliðið leikur við Hamar kl. 16:00. Vefurinn mun í vetur greina frá úrslitum leikja Blakfélags Fjallabyggðar og eru blakáhugamenn hvattir til að fylgjast með. Fyrirtæki sem vilja styðja við umfjöllunina með auglýsingum geta haft samband við ritstjóra vefsins.

Íbúar og stuðningsmenn í Fjallabyggð eru hvattir um að fjölmenna á leikina og styðja liðin. Sjoppa verður á staðnum. Áhorfendur ganga inn að sunnanverðu.

Leikir laugardaginn 21. september:

14:00 BF – Álftanes 2 (kvenna)
16:00 BF – Hamar (karla)

Dalvík/Reynir gerði jafntefli við ÍR

Dalvík/Reynir og ÍR mættust á Dalvíkurvelli í gær í 2. deild karla í knattspyrnu. Leikurinn var í 21. umferðinni á Íslandsmótinu og hefði Dalvík/Reynir geta komist í 5. sæti deildarinnar með sigri. Liðin mættust fyrr í sumar og endaði sá leikur 3-3 á Hertz-vellinum í Breiðholti. D/R hefur þegar tryggt sætið sitt í deildinni og ljóst er að KFG og Tindastóll munu falla úr deildinni og Kórdrengir og KF munu koma upp. Sumarið hefur verið ágætt fyrir D/R, en helst hefur vantað öflugan markaskorarar en tveir markahæstu menn liðsins eru aðeins með 5 mörk, en það eru Jóhann Örn og Borja Laguna. Liðið hefur aðeins skorað 29 mörk í 21 leik í sumar.

Leikurinn átti að hefjast kl. 14:00 en var frestað til 14:45. Í byrjunarliði D/R voru: Alberto,Kristján Freyr, Jón Björgvin, Borja Laguna, Sveinn Margeir,  Kelvin, Viktor Daði, Jimenez, Rúnar Helgi, Steinar Logi og Númi Kárason.

Ekkert mark var skoraði í fyrir hálfleik og var staðan því 0-0 eftir 45 mínútur. ÍR gerði tvöfalda skiptingu strax í hálfleik og kom þriðja skiptingin þeirra á 55. mínútu. D/R gerði skiptingu á 59. mínútu þegar Jóhann Örn kom inná fyrir Núma og nokkrum mínútum síðar kom Pálmi inná fyrir Viktor Daða. Gunnlaugur Bjarnar kom inná fyrir Borja Laguna á 77. mínútu og nokkrum mínútum fyrir leikslok kom Atli Fannar inná fyrir Jimenez. Hvorugu liðinu tókst að skora í þessum leik og voru því úrslitin 0-0 og eitt stig í hús hjá hvoru liði.

Dalvík/Reynir eru í 6. sæti eftir 21 leik og eru með 29 stig.  Liðið getur endað í 5. sætinu ef það sigrar í lokaumferðinni Víði, en einnig þarf Þróttur Vogum að tapa stigum.

Alexander Már markakóngurinn á Íslandi

Alexander Már Þorláksson framherji hjá KF er markahæsti leikmaður Íslandsmótanna á Íslandi. Hann hefur núna skorað 27 mörk í 20 leikjum og er ein umferð eftir af Íslandsmótinu í 3. deild. Alexander hefur skorað 27 mörk af 56 mörkum KF í deildinni í sumar. Alexander hefur skorað fleiri mörk en Einherji (26 mörk) og Skallagrímur (23 mörk) í deildinni í sumar.

Alexander Már hefur spilað fyrir ÍA, Fram, Hött, Kára og KF. Hann lék með KF sumarið 2015 þegar KF var í 2. deild og skoraði hann þá 18 mörk í 21 leik. Hann hefur því skorað 45 mörk í 42 leikjum fyrir KF og alls 89 mörk í 122 leikjum fyrir þessi lið í meistaraflokki.

Í 2. deild karla hefur Hrvoje Tokic skorað 20 mörk fyrir Selfoss í 19 leikjum. Í 4. deild hefur Diego Moreno Minguez skorað 23 mörk í 12 leikjum fyrir Hvöt og 2 mörk í 4 leikjum í úrslitakeppni 4 .deildar, samtals 25 mörk. Einnig í 4. deild, hefur Eiríkur Þór Bjarkason skorað 22 mörk fyrir Hvíta Riddarann í 13 leikjum og 4 mörk í 4 leikjum í úrslitakeppni 4. deildar, samtals 26 mörk.

Mynd frá Guðný Ãgústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ãgústsdóttir.

Fyrsti fundur Fræðafélags Siglufjarðar

Fimmtudaginn 19. september verður haldinn fyrsti fundur Fræðafélags Siglufjarðar. Fundurinn hefst kl. 17:00 á Sigló hótel á Siglufirði.

Þar mun ríða á vaðið Þórarinn Ævarsson,  betur þekktur sem fyrrum framkvæmdastjóri IKEA. Þórarinn hefur látið til sín taka á hinum ýmsu sviðum og oftar en ekki farið ótroðnar slóðir. Yfirskrift erindis hans er “Gildi gagnrýnnar hugsunar”. Það verður spennandi að heyra hvað felst í því hugðarefni hjá Þórarni.

Allir eru velkomnir á fundinn.

Öruggur sigur KF og leiðin greið í 2. deild – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Reynir Sandgerði mættust í dag á Ólafsfjarðarvelli í næst síðustu umferðinni í 3. deild karla. KF þurfti sigur eða treysta á að KV myndi tapa stigum til að gulltryggja sitt sæti í 2. deildinni að ári. Strákarnir í KF hafa frá upphafi móts ætlað sér að komast upp um deild og hafa svo sannarlega staðið sig frábærlega sem liðsheild í sumar og Alexander Már hefur reynst gríðarlega mikill fengur fyrir liðið.

Liðin mættust í byrjun júlí og vann KF þá stórsigur 1-5 á útivelli, en reiknað var með erfiðari leik núna þar sem Reynir hefur náð í góð úrslit undanfarið og hafði aðeins tapað einum leik á útivelli í allt sumar. Hjá KF voru nokkur forföll þar sem tveir leikmenn voru í leikbanni, en Halldór markmaður og Jordan voru ekki með í þessum leik. Sindri Leó Svavarsson stóð í markinu og á bekknum var hinn gamalreyndi Þorvaldur Þorsteinsson sem var til taks sem varamarkmaður. Sonur hans var einnig á bekknum, Þorsteinn Már Þorvaldsson.

KF byrjaði því með þá Sindra Leó, Andra Snæ, Aksentije, Alexander Má, Grétar Áka,  Jakob Auðun, Vitor, Stefán Bjarka, Val Reykjalín, Ljubomir og Birki Frey, en á bekknum voru Þorvaldur Þorsteinss, Hákon Leó,  Óliver, Sævar, Tómas Veigar, Sævar Þór og Þorsteinn Már.

KF byrjaði með látum og Alexander Már var allt í öllu og skoraði fyrsta markið á 1. mínútu leiksins.  Frábær byrjun hjá KF. Alexander var aftur á ferðinni og skoraði sitt annað mark á 22. mínútu og kom KF í 2-0. Aðeins þremur mínútum síðar kom Alexander með þriðja markið og sitt 27. mark í deildinni í sumar. KF kom svo með fjórða markið eftir aðeins hálftíma leik, og var það Ljubomir Delic markið gerði, hans 6 mark í deild og bikar í sumar.

Reynir hafði engin svör í fyrri hálfleik og KF fór á kostum og var staðan 4-0 í hálfleik. Rólegra var yfir leiknum í síðari hálfleik enda KF með yfirburða forystu. Reynir gerði strax eina skiptingu í hálfleik og aðra þegar 10. mínútur  voru liðnar af síðari hálfleik. Þriðja skipting Reynis kom á 66. mínútu, en KF var mun sterkara liðið í leiknum.

KF gat leyft sér að gera fimm skiptingar á síðustu 15 mínútum leiksins og leyft fleiri strákum að njóta leiksins. Inná í síðari hálfleik komu:  Óliver, Sævar, Sævar Þór, Tómas Veigar og Þorsteinn Már.

Reynir lagaði stöðuna þegar nokkra mínútur voru eftir af síðari hálfleik og endaði leikurinn því 4-1. Með þessum sigri tryggði KF sér sæti í 2. deild að ári og fara upp ásamt Kórdrengjum. KFG og Tindastóll falla úr 2. deildinni í ár og leika í 3. deildinni.

KF á núna einn leik eftir gegn Einherja á Vopnafirði og verður leikinn laugardaginn 21. september kl. 14:00 á Vopnafjarðarvellinum.

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banka í Fjallabyggð eru færðar sérstakar þakkir fyrir stuðninginn í ár með umfjöllunum um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.

Mynd frá Guðný Ãgústsdóttir.

 

 

Þóttist vera starfsmaður Norðurorku og fór inn í hús á Akureyri

Fyrir viku síðan kom óþekktur aðili að húsi á Akureyri og kynnti sig sem starfsmann Norðurorku og sagðist vera að lesa af mælum. Honum var hleypt inn af barni á heimilinu. Hann fór inn og síðan út aftur. Þegar farið var að skoða málið kom í ljós að þarna var ekki starfsmaður Norðurorku á ferð.

Starfsmenn Norðurorku er allir í yfirhöfnum sem eru merktar Norðurorku. Þá eru þeir allir með starfsmannapassa með nöfnum og mynd af viðkomandi starfsmanni. Starfsmönnum Norðurorku er uppálagt að lesa ekki af ef enginn fullorðinn er á heimilinu.  Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá þessu.

Mun færri landanir hjá Hafnasjóði Dalvíkurbyggðar

Það sem af er þessu ári hefur dregið verulega úr komum skipa sem landa hjá Hafnasjóði Dalvíkurbyggðar og er breytingin á milli ára í tonnum talið um 40%. Þetta hefur haft mikil áhrif á tekjur Hafnasjóðs.
Sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs Dalvíkurbyggðar hefur því óskað eftir viðauka við fjárhagsáætlun 2019 að upphæð kr. 27.5 milljónir króna vegna lækkunar tekna Hafnasjóðs Dalvíkur.
Byggðaráð Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt viðaukann í fjárhagsáætlun 2019.

Loftslagsyfirlýsing Festu og Akureyrarbæjar

Mánudaginn 16. september næstkomandi undirritar Akureyrarbær Loftslagsyfirlýsingu Festu og Akureyrarbæjar og býður fyrirtækjum og stofnunum í bænum að gera slíkt hið sama. Undirritunin fer fram í Lystigarðinum við Café Laut kl. 15:00.

Fyrirtæki sem hafa nú þegar staðfest þátttöku sína eru Hafnarsamlag Norðurlands, ProMat, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Mjólkursamsalan, Vaðlaheiðargöng, Ekill/Ekja, Toyota á Akureyri, Vistorka, Orkusetrið, HGH verk, Icevape, Norðlenska, Menningarfélag Akureyrar, Zenon, Háskólinn á Akureyri, N4, Enor, Markaðsstofa Norðurlands og Sjúkrahúsið Á Akureyri.

Sýningaropnun í Gránu og Herhúsinu á laugardaginn

Laugardaginn 14. september kl. 14:00 verður opnuð samsýning fimm myndlistarmanna og ljósmyndara í Síldarminjasafninu (Gránu) og Herhúsinu á Siglufirði. Sýnendur eru þau Haraldur Ingi Haraldsson sem sýnir Cod Head (akrýlverk á plastfilmu), Garún sýnir Skuggasveina (kindahorn og ull), J. Pasila ljósmyndaverk, Björn Valdimarsson ljósmyndir úr myndaröðinni Hvarf og Bergþór Morthens er með Flekann, olíu- og akrílmálverk.

Sýningarstjóri er kanadíski háskólaprófessorinn Sara Matthews sem dvalið hefur í Listhúsinu í Ólafsfirði nokkrum sinnum síðustu árin. Sýningin ber heitið „Að sjá það sem hulið er“ og verður hún opin daglega í Gránu 14.-29. september kl. 13-17 og í Herhúsinu um helgar kl. 14-16. Frekari opnun þar verður auglýst sérstaklega og einnig er hægt að hafa sambandi við Björn eða Bergþór varðandi skoðun á sýningunni á öðrum tímum.

Mynd og texti: Aðsent.

Ljóðahátíðin Haustglæður hefst laugardaginn 14. september

Ljóðahátíðin Haustglæður hefst laugardaginn 14. september í Fjallabyggð. Um er að ræða þrettándu hátíðina sem haldin hefur verið.  Aðalgestir hátíðarinnar verða ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson og leikarinn Elfar Logi Hannesson.

Fyrsti viðburðurinn verður haldinn laugardaginn 14. sept. kl. 16.00 en þá mun Magnús Stefánsson, forsprakki Félags ljóðaunnenda á Austurlandi, mæta í Ljóðasetrið á Siglufirði og segja frá blómlegri ljóðabókaútgáfu félagsins sem og annarri starfsemi þess. Auk þess verða flutt lög við ljóð eftir austfirsk skáld.

Dagana 18. – 20. september mun Þórarinn Hannesson heimsækja nemendur í 1. og 2. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar og lesa úr Æskumyndum sínum.  Fleiri viðburðir verða fram í nóvember sem verða kynntir síðar.

Mynd: Héðinsfjörður.is – Magnús Rúnar Magnússon

 

KSÍ sektaði KF um 10.000 vegna rauðra spjalda

KSÍ hefur sektað Knattspyrnufélag Fjallabyggðar um 10.000 kr. vegna 10 refsistiga sem liðið fékk vegna tveggja brottvísana í síðasta leik. Þá hefur Halldór Ingvar Guðmundsson markmaður KF og Jordan Damachoua varnar- og miðjumaður KF verið dæmdir í eins leiks bann en þeir fengu báðir rautt spjald á móti Vængjum Júpiters í síðustu umferð.

Báðir leikmennirnir eru lykilmenn hjá KF og eru alltaf í byrjunarliðinu ef þeir eru heilir.

KF leikur við Reyni Sandgerði á Ólafsfjarðarvelli næstkomandi laugardag kl. 14:00. Með sigri getur KF tryggt sér sæti í 2. deild að ári en jafntefli gæti líka dugað ef KV tapar stigum í sínum leik.

Sindri Leó Svavarsson er varamarkmaður KF og mun hann standa vaktina í leiknum gegn Reyni, en hann var að glíma við smávægileg meiðsli í síðasta leik og var því ekki á leikskýrslu. Hann hefur komið við sögu í þremur leikjum í deild og bikar í vor og sumar. Hann kom meðal annars inná og lék síðustu mínútur þegar KF heimsótti Reyni í Sandgerði í júlí, en KF vann stórsigur 1-5.

Minnisblað bæjarstjóra Fjallabyggðar vegna úrkomu og flóða

Þann 12.-14. ágúst s.l. varð gífurleg úrkoma bæði á Siglufirði og Ólafsfirði, sem reyndist verða um 200 mm á hvorum stað. Engin ábending eða aðvörun barst frá veðurstofunni eða almannavörnum. Á sama tíma var stækkandi straumur og sjávarstaða því tiltölulega há.

Ólafsfjörður:
Mikill vatnselgur var á öllum opnum svæðum og tjörnin við Tjarnarborg var yfir full, aðallega vegna þess að einhver óviðkomandi aðili hafði lokað útfallsröri tjarnarinnar til hálfs. Ef það hefði ekki gerst þá hefði grunnvatnsstaða kringum grunnskóla og íþróttamannvirki verið lægri.

Flóðavatn komst inn í kjallara sundlaugarinnar og olli tjóni upp á 0.5 -1.0 mkr. Einnig varð verktaki sem vann við skólalóð grunnskólans fyrir tjóni, en það er ekki vitað hvað það varð mikið.

Á þessu ári á að ljúka framkvæmdum við útrásir í Ólafsfirði. Þá er lokið við að koma fráveituvatni langt út fyrir stórstreymis fjöruborð og gildandi heilbrigðiskröfur því uppfylltar. Á syðri útrásarbrunnunum verður lagt aukayfirfall til að auka afköst holræsakerfisins.

Siglufjörður:
Rigningarmagn var heldur meira en í hamfaraúrhellinu 28/8 2015. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á holræsakerfinu síðan þá og þær komu í veg fyrir meira tjón en raun varð á. Tilkynnt tjón vegna hækkandi grunnvatnsstöðu voru u.þ.b. 10 -12, sem var aðallega vegna flóða í kjallara gegnum sökkla og plötu. Þegar háflóð var á Siglufirði komst vatn og skólp ekki út í sjó vegna hárrar vatnsstöðu í holræsakerfinu.
Fengnir voru dælubílar frá Slökkviliði Fjallabyggðar og Hreinsitækni til að dæla úr brunnum við Aðalgötu og Eyrarflöt til að lækka vatnsstöðu í brunnunum og minnka þar með þrýsting á holræsakerfinu.
Það er ljóst að ekki er hægt að hanna kerfi sem ræður vandræðalaust við verstu skilyrði þ.e. úrhellisrigningu og háa sjávarstöðu.

Tillögur um úrbætur:

1. Áframhaldandi vinna við að fanga linda-/ofanvatn og tengja það í sérstakar ofanvatnslagnir.
2. Fjárfest verði í færanlegum dælum með mikla afkastagetu sem notaðar verði við útrásar brunna til að létta á kerfinu í miklu úrhelli og hárri sjávarstöðu.
3. Gert verði samkomulag við veðurstofu Íslands um að viðvörun berist til yfirstjórnar Fjallabyggðar, ef miklar rigningar eru fyrirsjáanlegar á utanverðum Tröllaskaga.
4. Brýnt verði fyrir húseigendum, sem eru með niðurgrafna kjallara á eyrinni á Siglufirði að setja einstreymisloka á hús og drenkerfi með dælu verði lagt í kringum húsin.

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að vísa tillögum að úrbótum og áframhaldandi vinnu við frárennsli í Fjallabyggð til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020.

Rigning og vatnavextir – Hvanneyraráin
Skriðufar sunnan við Stórabola og

Skipamódel afhent í Pálshúsi

Fimmtudaginn 12. september n.k. mun Njörður S. Jóhannsson módelsmiður á Siglufirði afhenda Pálshúsi í Ólafsfirði þilskipið Gest og áttæringjann Blika að gjöf. Athöfnin hefst kl. 17:00 og er öllum opin og fólk hvatt til að mæta og sjá þessar listasmíðar.

Skipin munu verða til sýnins Í Pálshúsi á opnunartíma safnsins frá kl. 11-17 og stendur til og með 15. september n.k.

Akrahreppur og Skagafjörður undirrita samninga

Í síðustu viku undirrituðu fulltrúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps nýja samninga um annars vegar framkvæmd fjölmargra verkefna sem Sveitarfélagið Skagafjörður tekur að sé að annast fyrir Akrahrepp og hins vegar um þjónustu embættis skipulags- og byggingarfulltrúa.

Taka samningarnir til verkefna eins og rekstur grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla, íþróttamiðstöðvar og íþróttamannvirkja, barnaverndar, frístundastarfs barna, dagþjónustu fyrir aldraða, þjónustu héraðsbókasafns, héraðsskjalasafns, Safnahúss, Byggðasafns, upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn, þjónustu atvinnu- og ferðamálafulltrúa, almannavarna, brunavarna- og eldvarnaeftirlits, fasteigna í sameign sveitarfélaganna tveggja, auk þjónustu skipulags- og byggingarfulltrúa.

Með gildistöku samninganna leggst samstarfsnefnd með Akrahreppi af en í staðinn funda byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar og hreppsnefnd Akrahrepps um framkvæmd samninganna að lágmarki einu sinni á ári, auk þess sem framkvæmdastjórar beggja sveitarfélaga funda oftar eftir þörfum.

Á myndinni má sjá fulltrúa úr samstarfsnefnd sveitarfélaganna og sveitarstjóra þeirra að lokinni undirritun samninganna.

Mynd: skagafjörður.is

Hagkvæmari lýsing komin í íþróttasalina í Fjallabyggð

Um síðastliðið vor voru sett upp skiptitjöld í bæði íþróttahúsin í Fjallabyggð.  Í hvoru húsi fyrir sig eru tvö skiptitjöld sem skipta húsinu í þrjú bil. Með þeim skapast tækifæri til að nýta húsin betur og vera með þjálfun eða kennslu í hverju bili fyrir sig þegar það hentar og eins þegar stór blakmót fara fram. Skiptitjöldin voru keypt frá Altis ehf. sem jafnframt sáu um uppsetningu á tjöldunum.

Samhliða þeirri framkvæmd var skipt um lýsingu í íþróttahúsunum í Fjallabyggð og sett upp stillanleg LED lýsing þar sem möguleiki er á að vera með mismunandi birtustig í bilum salarins. LED lýsing er hagkvæmari í rekstri þar sem orkunotkun er mun minni. Það var Ingvi Óskarsson sem setti upp lýsinguna.

Kostnaður við uppsetningu skiptitjalda og endurnýjun raflýsingar í bæði hús var um 20 milljónir króna.

Frá þessu er greint á vef Fjallabyggðar.

Myndir með frétt eru í eigu Fjallabyggðar.

 

Sumarferðum Voigt Travel lokið – vetrarferðir framundan á Akureyri

Flugvél Transavia sótti í dag hóp ferðamanna til Akureyrar sem hafa dvalið á Norðurlandi undanfarna daga, þann síðasta sem ferðast hingað með ferðaskrifstofunni Voigt Travel í sumar. Alls hefur ferðaskrifstofan staðið fyrir 16 ferðum til Akureyrar í sumar, í beinu flugi frá Rotterdam og almennt hafa ferðalangarnir verið mjög ánægðir með alla þá þjónustu sem þeir hafa nýtt sér og ferðalagið sjálft.

Fljúga til og frá Amsterdam í vetur

Voigt Travel mun einnig bjóða upp á ferðir til og frá Norðurlandi í vetur en þá verður flogið frá Amsterdam. Alls verða átta brottfarir frá 14. febrúar og flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum. Ferðaskrifstofan mun bjóða upp á ýmsar pakkaferðir eins og áður, sem vonandi mun nýtast norðlenskri ferðaþjónustu vel.

Í sumar var aðeins flogið á mánudögum og í vetur gefst Norðlendingum því tækifæri til þess að skreppa í helgarferð til Amsterdam, en sala á slíkum ferðum er þegar hafin hjá Ferðaskrifstofu Akureyrar.  Transavia mun fljúga á Boeing 737-700 vélum sem geta flutt 149 farþega.

Styttist í ILS búnað

Á þessu ári hefur Isavia unnið að uppsetningu ILS búnaðar við Akureyrarflugvöll og er áætlað að búnaðurinn verði tilbúinn til notkunar í nóvember. Það er afar mikilvægt fyrir millilandaflug í vetur, og í náinni framtíð, að búnaðurinn komist í notkun sem fyrst.

Unnið að nýju verkefni í stað Super Break

Eins og komið hefur fram í sumar fór móðurfélag bresku ferðaskrifstofunnar Super Break í gjaldþrot, og því miður er ekki útlit fyrir að starfsemi hennar verði endurreist. Því er það afar líklegt að ekkert verði af fyrirhuguðum flugferðum ferðaskrifstofunnar til Akureyrar í vetur, en þær hafa notið vinsælda á meðal breskra ferðamanna síðustu tvö ár. Markaðsstofan, ásamt öðrum hagaðilum, vinnur að því að koma samskonar verkefni af stað fyrir veturinn 2020-2021.

Texti og myndir: Aðsent.

Rauð spjöld og dramatík hjá KF – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

KF heimsótti Vængi Júpiters á Fjölnisvelli í dag í Grafarvoginum. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið í toppbaráttunni og vildi hvorugt liðið tapa stigum í þessum leik. Það var boðið upp á mikla dramatík, rauð spjöld og umdeilda dóma.

Þjálfari KF gerði tvær breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik en Vitor og Tómas Veigar voru komnir inn fyrir Jakob og Aksentije Milisic.

KF byrjaði fyrri hálfleikinn vel og voru komnir með forystu á 17. mínútu þegar Alexander Már skoraði og kom þeim í 0-1. Heimamenn voru þéttir fyrir og uppskáru mark á 42. mínútu Tumi Guðjónsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Vængina í 36 leikjum. Staðan í hálfleik var því 1-1. Í síðari hálfleik gerði þjálfari KF skiptingu á 60. mínútu þegar Ljubomir kom inná fyrir Hákon Leó, til að leggja áherslu á meiri sóknarþunga. Aðeins sex mínútum síðar skoraði Alexander Már sitt annað mark í leiknum og kom KF aftur yfir, 1-2.

Eftir markið fór að færast meiri hiti í leikinn og áttu umdeildar ákvarðanir hjá dómaratríóinu eftir að líta dagsins ljós. Á 67. mínútu tæklar varnarmaður Vængjana leikmann KF illa og fékk beint rautt spjald. Jordan hjá KF átti eftir það í útistöðum við leikmann Vængjanna og lenti þeim saman og fékk hann einnig beint rautt eftir einhver óþarfa átök. Alexander Már fékk einnig gult spjald í þessari dramatík.

Vængirnir gerðu á þessum tíma fjórar skiptingar og voru þeir því komnir með marga ferska menn inn á völlinn síðasta hálftímann. Þjálfari KF gerði sína aðra skiptingu á 80. mínútu þegar Valur Reykjalín kom útaf og Þorsteinn Már kom inná og fór beint á kantinn.

Á 87. mínútu gerist annað umdeilt atvik þegar leikmaður Vængjanna fer harkalega utan í Halldór markmann KF sem var með boltann í höndunum og endar hann fyrir utan vítateig með boltann og fær beint rautt spjald. KF var ekki með varamann á leikskýrslu þar sem hann átti við smávægileg meiðsli að stríða. Þjálfari KF setti því Sævar Gylfason inná fyrir Vitor og fór Andri Snær í markið síðustu mínútur leiksins.

Tveimur mínútum eftir að Halldór fór útaf skoruðu Vængirnir jöfnunarmarkið, sem var mjög umdeilt. Andri Snær sem var kominn í markið hjá KF missir boltann og dómarinn metur það þannig að boltinn hafi farið inn fyrir línuna ,en leikmenn KF voru allt annað en sáttir með þessa dómgæslu.

Það voru langar lokamínútur eftir jöfnunarmarkið og bætti dómarinn við um 8 mínútum eftir alla þessa dramatík og innáskiptingar.

Leiknum lauk með 2-2 jafntefli og færðist KF skrefinu nær að tryggja sér 2. sætið í deildinni, en enn eru eftir tvær umferðir.

Alexander Már er núna kominn með 24 mörk í 19 deildarleikjum með KF. Frábær frammistaða hjá honum og öllu liðinu í sumar.

KF er núna með fjögurra stiga forskot á KV sem er í 3. sæti þegar tveimur umferðum er ólokið. KF leikur næst við Reyni Sandgerði á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 14. september kl. 14:00. Með sigri getur liðið tryggt sér sæti í 2. deildinni að ári.

Mynd frá Guðný ÃÂgústsdóttir.

 

Fiskidagurinn mikli 20 ára á næsta ári

Stjórnendur Fiskidagsins Mikla hafa óskað eftir auknu fjárframlagi frá Dalvíkurbyggð árið 2020 vegna 20 ára afmælis Fiskidagsins mikla.  Vegna þessara tímamóta verður aukinn kostnaður af hátíðinni. Fiskidagsnefndin mun halda vinnuhelgi í septembermánuði þar sem afmælishátíðin árið 2020 verður mótuð.
Þá hafa stjórnendur Fiskidagsins mikla bent á að auka þurfi fjármagn til tjaldsvæðanna í Dalvíkurbyggð og koma með nýtt skipulag.
Myndir frá Fiskideginum mikla.

Úrslit í Bændaglímu GFB

Árleg Bændaglíma Golfklúbbs Fjallabyggðar fór fram á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði í gær. Tuttugu og átta þátttakendur mættu til leiks og var leikin 12 holu holukeppni. Bændur í þetta sinn voru þau Dagný Finnsdóttir og Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson.

Lið Dagnýjar sigraði með 8,5 vinning á móti liði Þorvaldar sem var með 5,5 vinninga.

Mynd frá Golfklúbbur Fjallabyggðar.

Mynd frá Golfklúbbur Fjallabyggðar.

Mynd frá Golfklúbbur Fjallabyggðar.

Ljóðahátíðin Haustglæður í Fjallabyggð

Ljóðahátíðin Haustglæður fer fram í 13. sinn í Fjallabyggð á komandi vikum.  Sérstakir gestir í ár verða Anton Helgi Jónsson, ljóðskáld, og Elfar Logi Hannesson, leikari. Elfar Logi hefur komið fram á nokkrum ljóðahátíðum áður í Fjallabyggð en Anton Helgi er að koma í fyrsta sinn á hátíðina.

Meðal dagskrárliða má nefna að ljóðaleikurinn Með fjöll á herðum sér, sem inniheldur ljóð Stefáns Harðar Grímssonar, verður frumsýndur, Anton Helgi mun flytja ljóð sína á Ljóðasetrinu, skáld mun heimsækja skóla sveitarfélagsins og dvalarheimili, tónleikar með lögum við ljóð ýmissa skálda verða haldnir, kynntar verða ljóðabækur ýmissa skálda, haldin verður ljóðasamkeppni milli nemenda í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar og ýmsilegt fleira.

Nánari dagskrá verður birt innan tíðar.

Það eru sem fyrr Ungmennafélagið Glói og Ljóðasetur Íslands sem standa saman að hátíðinni og Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra, Fjallabyggð og Kjörbúin styrkja hana.

 

KF heimsækir Vængi Júpiters

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsækir Vængi Júpiters á morgun og fer leikurinn fram á gervigrasinu við Egilshöll í Grafarvogi. Leikurinn hefst kl. 16.00,  sunnudaginn 8. september.

Vængirnir eru í 4. sæti deildarinnar og geta nálgast KV með sigri í þessum leik og blandað sér enn frekar í baráttuna á toppnum. KV lék í gær við KH og vann stórsigur, 6-0 og hefur heldur betur sett pressu á KF í þessari umferð. Munar nú aðeins þremur stigum á KF og KV en KF getur með sigri aukið forskotið aftur í 6 stig. KF á aðeins eftir að leika þrjá leiki og þarf á fleiri stigum að halda til að tryggja sér sæti í 2. deildinni að ári. Vænirnir hafa unnið þrjá síðustu leiki í deildinni, en töpuðu tveimur leikjum þar á undan. KF tapaði síðasta leik en átti langa sigurhrinu þar á undan.

Vængirnir hafa skorað minnst af toppliðunum fjórum í 3. deildinni, en þeir hafa aðeins skorað 35 mörk í 19 leikjum, á meðan Kórdrengir, KF og KV hafa skorað um og yfir 50 mörk.  Vængirnir hafa ekki verið sterkir á heimavelli í sumar og aðeins unnið 3 leiki af 9, gert eitt jafntefli og tapað 5. Þeir hafa hins vegar bestan árangur liðanna í 3. deild á úti velli og hafa unnið 9 leiki af 10 og tapað aðeins einum leik.

KF er með ágætis árangur á útivelli í sumar og hafa unnið 7 leiki af 9, gert eitt jafntefli og tapað aðeins einum leik.

Fyrri leikur liðanna á Ólafsfjarðarvelli fór fram í lok júní og unnu þá Vængirnir 2-3. Á síðasta ári þá kepptu liðin einnig í deildinni og unnu liðið bæði sína heimaleiki 2-0. Árið 2017 mættust liðin einnig í deildinni og var þá mikil markaveisla þegar  KF vann 5-0 á Ólafsfjarðarvelli og Vængirnir unnu 5-3 á sínum heimavelli.

Búast má við jöfnum og erfiðum leik og er mikið í húfi fyrir bæði lið. Stuðningsmenn KF á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að mæta á völlinn og hvetja liðið áfram.

Þegar öll tölfræði er skoðuð þá má reikna með 1-2 sigri KF í þessum leik, fyrir þá sem vilja spá fyrir úrslitum.