Category Archives: Norðurland

Sveitarfélagið styrkir Tindastól og byggir stúku

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur samþykkt að styrkja knattspyrnudeild Ungmennafélagsins Tindastóls um 1.700.000 kr. vegna framúrskarandi árangurs meistaraflokks kvenna þar sem liðið varð deildarmeistari í 1. deild og mun leika í efstu deild á næsta keppnistímabili.

Jafnframt hefur verið samþykkt að farið verði í uppbyggingu á stúku og viðeigandi aðstöðu við gervigrasvöll félagsins sem uppfyllir skilyrði mannvirkjanefndar KSÍ um leiki í efstu deild.

Heitt vatn tekið af Hvammstanga, Laugarbakka, Miðfirði og Víðidal mánudaginn 13. júlí

Loka þarf fyrir heita vatnið á Hvammstanga, Laugarbakka, Miðfirði og Víðidal mánudaginn 13. júlí. Lokað verður um kl. 15 og mun vera lokað í nokkrar klukkustundir. Það getur tekið fram eftir kvöldi að koma vatni á alls staðar.

Verið er skipta um dælu í borholu og gera breytingar í dælustöð á Laugarbakka.

Þjónusturof hitaveitu – ábending til húsráðenda

 1. Hafa þarf í huga að loft getur komist á kerfið þegar vatni er hleypt á að nýju með viðeigandi óhljóðum.
 2. Húsráðendum er bent á að við viðgerðir kunna óhreinindi að fara af stað í lögnum þegar vatni er hleypt á. Því er nauðsynlegt að skola kerfið vel út með því að láta vatn renna um stund. Best er að útskolun fari fram sem næst inntaksstað sé þess kostur.
 3. Sé húsráðandi í vafa um hvernig bregðast á við skal undantekningalaust haft samband við pípulagningameistara.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þessu kann að fylgja.

1568 á kjörskrá í Fjallabyggð

Alls 1568 eru á kjörskrá í Fjallabyggð. Á Siglufirði eru 951 á kjörskrá og í Ólafsfirði 617.

Kjörskrár vegna forsetakosninga þann 27. júní 2020 verða lagðar fram 16. júní n.k. almenningi til sýnis og verða aðgengilegar á auglýstum opnunartíma bæjarskrifstofunnar í Ráðhúsi Fjallabyggðar að Gránugötu 24, Siglufirði og bókasafninu að Ólafsvegi 2, Ólafsfirði.

Tjaldbúar á Siglufirði

Þónokkrir ferðamenn gista nú á tjaldsvæðum Fjallabyggðar á Siglufirði. Húsbílar eru í meirihluta, en einnig tjaldvagnar, fellihýsi og hjólhýsi.  Þessi mynd er tekin skömmu fyrir hádegið í morgun. Hitastigið í dag á Siglufirði var um 11° en í nótt var kaldast um 5° stiga hiti.

Ársmiðasala Knattspyrnufélags Fjallabyggðar

Ársmiðar á heimaleiki KF eru nú komnir í sölu. Innifalið er kaffi og bakkelsi í hálfleik í Vallarhúsinu.
KF eru komnir upp í 2. deild og baráttan verður mikil í sumar.

Félagið og leikmenn vonast til að sem flestir komi og hvetji liðið áfram. Stuðningur úr stúkunni skiptir miklu máli.

Verð ársmiða er 15.000 kr. og fyrir togarasjómenn 8.000 kr.

Aðalfundur KF

Aðalfundur Knattspyrnufélags Fjallabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 16. júní í Vallarhúsinu Ólafsfirði kl.20:00.

Dagskrá fundar:

Venjuleg aðalfundarstörf.

Það er vöntun á fólki bæði í stjórn og ráð hjá félaginu þannig að eðileg endurnýjun geti átt sér stað.

Hvetjum alla þá sem láta sig félagið varða til að mæta.

Stjórn KF

Aðalfundur KF

Aðalfundur Knattspyrnufélags Fjallabyggðar verður haldinn þriðjudaginn 16. júní í Vallarhúsinu Ólafsfirði kl.20:00.

Dagskrá fundar:

Venjuleg aðalfundarstörf.

Það er vöntun á fólki bæði í stjórn og ráð hjá félaginu þannig að eðileg endurnýjun geti átt sér stað.

Hvetjum alla þá sem láta sig félagið varða til að mæta.

Stjórn KF

Sumaropnun í Hlíðarfjalli á Akureyri

Stólalyftan og Fjarkinn í Hlíðarfjalli verður opin frá 2. júlí til 30. ágúst í sumar. Í Hlíðarfjalli er góð aðstaða til útivistar bæði fyrir hjóla- og göngufólk. Hægt er að taka hjólið með sér í lyftuna og gangandi geta tekið lyftuna bæði upp og niður og þá fyrir sama verð.

Fjórar hjólabrautir eru í fjallinu, Suðurgil, Andrés, Hjalteyrin, Ævintýraleið og svo eru þrjár aðrar, tvær frá gönguhúsi og ein frá lyftuskúr við Fjarkann sem allar liggja yfir í Glerárdal. Fyrir þá sem eru gangandi er tilvalið að stoppa við Strýtuskála og njóta útsýnis yfir Akureyrabæ og Eyjafjörð. Frá Strýtuskála er svo merkt gönguleið upp á brún Hlíðarfjalls. Þegar þangað er komið er til dæmis hægt að ganga að Harðarvörðu, Blátind, Bungu, Strýtu, Kistu eða á Vindheimajökul og á góðviðrisdögum má oft sjá yfir í Mývatnssveit, Herðubreið eða vestur í Skagafjörð svo eitthvað sé nefnt.

Opnunartímar                                      Verðskrá  fullorðnir börn/ellilífeyrisþegar
Fimmtudagar  frá kl. 17 – 21 Ein ferð     1.100                600
Föstudagar       frá kl. 16 – 20 1. dagur     4.300             1.600
Laugardagar    frá kl. 10 – 18 Helgarpassi   10.600             3.900
Sunnudagar     frá kl. 10 – 16 Sumarkort   26.400           13.300

Helgihald í Sauðárkrókskirkju í júní

Helgihald verður í Sauðárkrókskirkju í júní. Messa verður á þjóðhátíðardaginn og einnig fermingarmessa 28. júní.

Dagskrá:

17. júní. Messa á þjóðhátíðardegi kl. 11:00
Fermd verða: Auður Ásta Þorsteinsdóttir, Jörundur Örvar Árnason og Fannar Páll Ásbjörnsson

28. júní. Messa kl. 11:00
Fermd verða: Daníel Esekíel Agnarsson og Klara Sólveig Björgvinsdóttir

Kirkjan er opin eftir samkomulagi. Sími kirkjuvarðar: 892 5536

Mynd frá Sauðárkrókskirkja.

118% aukning í framhaldsnám leikskólakennara

Umsóknum um kennaranám hefur fjölgað verulega á milli ára í háskólunum fjórum; Háskólanum á Akureyri, Listaháskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands fjölgar umsóknum um framhaldsnám leikskólakennara um 118% í ár, grunnskólakennaranám um 85%, framhaldsskólakennaranám um 47% og 67% í íþróttakennaranámið.

Umsóknum um nám við listkennsludeild Listaháskóla Íslands fjölgar um 12% milli ára en þar varð algjör sprenging í umsóknum í fyrra, alls 122%, með tilkomu nýrrar deildar við skólann. Athygli vekur hversu margir karlar sækja um kennaranám listaháskólans í ár en fjöldi þeirra nífaldast frá því í fyrra.

„Þetta eru virkilega gleðileg tíðindi – það að fjölga starfandi kennurum og stuðla að nýliðun í kennarastétt er langhlaup en fjölgun umsókna er frábært fyrsta skref. Það er spennandi nám og starfsvettvangur í boði, sem býður upp á bæði sveigjanleika og starfsöryggi. Samfélagið hefur áttað sig á mikilvægi kennarastarfsins, ekki síst í ljósi atburða síðustu mánaða,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að efla menntun í landinu er að stuðla að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og því bjóðast kennaranemum nú launað starfsnám og hvatningarstyrkir að upphæð 800.000 kr. Þá geta starfandi kennarar einnig fengið styrk til þess að efla sig í starfi og bæta við sig námi í starfstengdri leiðsögn. Vísbendingar komu strax fram um jákvæð áhrif þessara aðgerða sl. vor þegar umsóknum um kennaranám fjölgaði og heldur sú þróun áfram nú. Í haust verður í fyrsta sinn boðið upp á nýja gráðu til kennsluréttinda hér á landi, MT-gráðu (e. Master of Teaching) en það er 120 eininga nám á meistarastigi sem lýkur með námskeiðum í stað lokaverkefnis.

Umsóknum fjölgaði einnig um meistaranám Háskólans í Reykjavík sem menntar íþróttakennara. Umsóknafrestur kennaradeildar Háskólans á Akureyri er til 15. júní en þegar hafa borist óvenjumargar umsóknir þangað í bæði grunn- og framhaldsnám miðað við sama tíma í fyrra, ekki síst í leikskólakennarafræði. Umsóknafrestur vegna grunnnáms á Menntavísindasviði Háskóla Íslands er til 15. júní nk.

Heimild: stjornarrad.is

Opinn fundur um fiskeldi á Norðurlandi í Hofi

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið boðar til opins fundar í dag, í Hofi á Akureyri, um fiskeldi á Norðurlandi.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stýrir fundinum, en þar flytja framsögu fulltrúi veiðiréttarhafa og fulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fundurinn fer fram í Nausti í Hofi í dag, fimmtudaginn 11. júní og hefst klukkan 20:00.

Hafa áhyggjur af tilfærslu kennara milli skólastiga

Ekki er unnt að manna allar deildir hjá Leikskóla Fjallabyggðar með fagmenntuðum deildarstjórum á komandi skólaári vegna þess að við leikskólann starfa of fáir leikskólakennarar. Eftir að ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla tóku gildi um síðustu áramót gildir leyfisbréf kennara til kennslu á öllum skólastigum.

Áhyggjur af tilfærslu kennara milli skólastiga í kjölfarið eru á rökum reistar og finnur leikskólastigið fyrir því.

 

Sveinn Margeirsson nýr sveitarstjóri Skútustaðahrepps

Alls barst 21 umsókn um starf sveitarstjóra Skútustaðahrepps. Tvær umsóknir voru dregnar til baka. Úrvinnslu umsókna í ofangreint starf er nú lokið og hefur sveitarstjórn staðfest ráðningu Sveins Margeirssonar í starfið.  Hann tekur við af Þorsteini Gunnarssyni sem hefur verið ráðinn borgarritari.

Sveinn Margeirsson er með doktorspróf í iðnaðarverkfræði og hefur lokið General Management Program frá Harvard Business School. Sveinn hefur starfað sem sjálfstæður ráðgjafi á sviði nýsköpunar og stefnumótunar fyrir sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök síðan 2019.  Þar á undan gegndi hann starfi forstjóra, sviðsstjóra og deildarstjóra hjá Matís í 11 ár. Sveinn hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af nýsköpun, stefnumótun, stjórnun og rekstri. Hann hefur jafnframt mikla reynslu af stjórnsýslu sem forstjóri hjá opinberu hlutafélagi og ráðgjafi við sveitarfélög og stofnanir. Auk þessa hefur Sveinn komið að umhverfis- og skipulagsmálum t.d. við gerð aðalskipulags og hefur viðamikla reynslu af miðlun efnis í ræðu og riti á fjölda miðla. Sveinn hefur störf sem sveitarstjóri Skútustaðahrepps þann 1. ágúst n.k.

Capacent var sveitarstjórn innan handar í ráðningaferlinu. Umsækjendur voru:

 • Ásbjörn Ólafur Ásbjörnsson
 • Berglind Ragnarsdóttir
 • Bjarni Jónsson
 • Björgvin Harri Bjarnason
 • Einar Örn Thorlacius
 • Glúmur Baldvinsson
 • Grétar Ásgeirsson
 • Gunnar Örn Arnarson
 • Gunnlaugur A. Júlíusson
 • Jón Hrói Finnsson
 • Jónína Benediktsdóttir
 • Ólafur Kjartansson
 • Páll Línberg Sigurðsson
 • Rögnvaldur Guðmundsson
 • Sigurður Jónsson
 • Siguróli Magni Sigurðsson
 • Skúli H. M. Thoroddsen
 • Sólborg Lilja Steinþórsdóttir
 • Sveinn Margeirsson

Tvö tilboð bárust í útboði fyrir hádegismat fyrir Ársali og Árskóla

Sveitarfélagið Skagafjörður var með útboð á Evrópska efnahagssvæðinu vegna hádegisverðar fyrir leikskólann Ársali og Árskóla á Sauðárkróki. Aðeins bárust tvö tilboð í verkið, frá Stá ehf. og frá Grettistak veitingar. Stá ehf. bauð 508 kr. í hverja máltíð og Grettistak veitingar bauð 570 kr.

Fræðslunefnd Skagafjarðar hefur samþykkt að taka tilboði Stá ehf, sem  er lægstbjóðandi.

 

Síldarminjasafnið fær tvo sumarstarfsmenn frá Fjallabyggð

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að bjóða Síldarminjasafninu á Siglufirði stuðning í formi tveggja sumarstarfsmanna í tvo mánuði . Áætlaður styrkur kr. 828.000. Safnstjóri Síldarminjasafnsins hafði áður óskað eftir stuðningi í formi sumarstarfsfólks, verkefnastyrks eða samstarfs um sumardagskrá. Greint hefur verið frá rekstrarerfiðleikum Síldarminjasafnsins vegna afbókana skemmtiferðaskipa og fækkunar gesta.

Starfsmennirnir tveir koma í gegnum átaksstörf námsmanna í samvinnu við Vinnumálastofnun.

Sápuboltamótið haldið í Ólafsfirði í júlí

Aðstandendur Sápuboltamótsins í Ólafsfirði hafa ákveðið að halda mótið í ár þann 18. júlí. Mótið verður minna í sniðum en undanfarin ár og verður mótsgjaldið lækkað. Kvöldskemmtun eftir mótið er enn óstaðfest.

Skráningargjald er 3.500 kr. á hvern liðsmann (Einn liðsmaður greiðir fyrir allt liðið).

-Inni í því gjaldi er þátttökupassi á Sápuboltamótið.

Til þess að skrá lið þarf að senda facebook skilaboð þar sem fram kemur;
-Nafn liðs
-Fjöldi liðsmanna
-Fyrirliði liðsins

Þá fáiði skilaboð til baka um það hvernig skráningargjaldið er greitt.
Skráning er ekki staðfest fyrr en greiðsla hefur borist.

LEIKREGLUR
-Fjórir inni á vellinum í hvoru liði. Engin takmörk eru á skiptimönnum (fjölda aðila í hverju liði).
-Hver leikur er 1×10 mín.
-Frjálsar skiptingar.
-Dómari ákveður refsingar fyrir brot.
-Spilað á tánum

Á sápuboltamótinu hefur verið rík hefð fyrir því að liðin mæti til leiks í skrautlegum búningum og hvetjum við lið til að halda þeirri hefð áfram.

Eftir mót verða verðlaun veitt fyrir flottasta búninginn ásamt öðrum skemmtilegum viðurkenningum.

ALDURSTAKMARK
Mótið er einungis ætlað einstaklingum sem náð hafa 18 ára aldri.

Nýr og spennandi matseðill hjá Torginu á Siglufirði

Torgið Restaurant á Siglufirði hefur kynnt nýjan og spennandi matseðil. Heimagerðar fiskibollur eru meðal rétta sem eru nýjir á seðlinum hjá Torginu. Að vanda er hægt að fá frábærar pizzur og hamborgara auk barnamateðils. Opið er í hádeginu á virkum dögum og er þá boðið upp á hádegishlaðborð, á kvöldin frá kl. 17-21 og þá er pantað af mateðli. Um helgar opnar á hádegi og er opið fram á kvöld. Nýjan matseðil má finna á vef Torgsins.

Síldarminjasafnið óskar eftir bakjörlum vegna tekjutaps

Undanfarin ár hafa gestir Síldarminjasafnsins á Siglufirði verið hátt í þrjátíu þúsund árlega – og hvert árið á fætur öðru hafa gestamet verið slegin og hlutfall erlendra gesta hækkað. Sívaxandi fjöldi gesta og ánægja þeirra hefur verið starfsfólki safnsins sem byr í seglin og orðið til þess að stöðugildum hefur fjölgað og verkefnum sinnt af krafti. Sökum heimsfaraldurs kórónaveirunnar er ljóst að veruleg breyting verður á þetta árið.

Safnið er sjálfseignarstofnun og nýtur fjárframlaga frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélaginu Fjallabyggð. Tekjur af aðgangseyri og annarri þjónustu við safngesti eru veigamikill þáttur í rekstri safnsins og nema að jafnaði um 60% af nauðsynlegu rekstrarfé á ári hverju. Nú þegar hafa um 170 hópar afbókað komu sína, eða um 90% þeirra sem von var á í vor og sumar, og ljóst að tekjutapið mun telja í það minnsta þrjátíu milljónir króna. Af þeim sökum er rekstur safnsins í verulegu uppnámi og allra leiða leitað til að tryggja að afleiðingar þessa ástands muni ekki kosta safnið þann dýrmæta þrótt og framtakssemi sem þar hefur lengi ríkt og það er þekkt fyrir.

Samhliða gestamóttöku og miðlun sögunnar sinnir starfsfólk safnsins jafnframt faglegu safnastarfi, rannsóknum og skráningu af metnaði, árið um kring. Verkefnin eru fjölbreytt og sem dæmi má nefna að undanfarin misseri hefur mikil vinna verið lögð í safnkennslu og aukið samstarf við skóla, greiningar á ljósmyndum í samvinnu við eldri borgara úr hinum mikla ljósmyndakosti sem varðveittur er á safninu, heimildaöflun um líf fólks í síldarvinnu – með viðtölum víða um land, endurskoðun á sýningum safnsins og bókaútgáfu. Þekking og reynsla starfsmanna er verðmæt og framlag safnsins til íslensks safnastarfs hefur þótt eftirtektarvert og til fyrirmyndar.

Í þessari erfiðu stöðu kallar Síldarminjasafnið nú til samfélagsins og býður einstaklingum og fyrirtækjum að styðja við starfsemi þess til framtíðar með árlegu framlagi. Uppbygging Síldarminjasafnsins hefur að mörgu leyti verið einstök og má þakka fórnfýsi, velvilja og framtíðarsýn sjálfboðaliða fyrir þann góða grunn sem lagður var og leiddi til áframhaldandi vaxtar safnsins. Nú er þess farið á leit við almenning á nýjan leik að stutt verði við starfsemi safnsins, en þó með öðrum hætti, til að tryggja áframhaldandi blómlega starfsemi. Hægt er að velja um að leggja safninu til 5.000 kr., 30.000 kr. eða 350.000 kr. árlega auk þess sem boðið er upp á frjálst framlag. Áhugasamir fylli út meðfylgjandi eyðublað með því að smella á gráa hnappinn hér að neðan.

Í þakklætisskyni fyrir veittan stuðning viljum við gefa á móti – og munu því allir þeir sem gerast bakhjarlar safnsins njóta ókeypis aðgangs að safninu allan ársins hring, en fyrir hærri framlög býðst jafnframt að nýta sér þjónustu safnsins.

Hægt er að gerast bakjarl hér.

 

 • 5,000 kr. árlega
  ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu allan ársins hring.
 • 30,000 kr. árlega
  ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu allan ársins hring.
  einkaleiðsögn um sýningar safnsins, með síldarsmakki og brennivínsstaupi, fyrir allt að tíu gesti.
 • 350,000 kr. árlega
  ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu allan ársins hring.
  einkaleiðsögn um sýningar safnsins, með síldarsmakki og brennivínsstaupi, fyrir allt að fimmtíu gesti.
  afnot af Bátahúsi Síldarminjasafnsins til einkaviðburðar einu sinni á ári.
 • Frjáls framlög – upphæð að eigin vali

Samtakamáttur almennings, bæði einstaklinga og fyrirtækja, skipar stóran sess í sögu safnsins – en fyrir tilstilli sjálfboðaliða og einstakrar framtíðarsýnar varð safnið til í þeirri mynd sem við þekkjum það í dag. Við leyfum okkur því að biðla til almennings á ný, svo sækja megi fram af þrótti.

Við Síldarminjasafnið

Ný útisýning opnar á Síldarminjasafninu

Á morgun, sunnudaginn 7. júní, heldur Síldarminjasafnið á Siglufirði sjómannadaginn hátíðlegan.

Slysavarnardeildin Vörn mun að venju leggja blómsveig að minnisvarðanum um týnda sjómenn og hefst athöfnin klukkan 14:00. Tveir sjómenn verða heiðraðir og Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins flytur ávarp.

Klukkan 15:00 verður opnuð ný útisýning á bryggjunum við Síldarminjasafnið. Sýningin er samsýning Síldarminjasafnsins og Byggðasafnsins í Gamvik. Starfsfólk safnanna vann rannsókn á sögu staðanna, sem eiga margt sameiginlegt í þátíð og nútíð.

Börnum verður jafnframt boðið að taka þátt í ratleik um safnsvæðið. Þeir sem ljúka við ratleikinn geta skilað kortinu sínu í afgreiðslu safnsins og í lok dags verður einn heppinn þátttakandi dreginn út og fær að gjöf bókina Saga úr síldarfirði sem safnið gaf út árið 2011.

Samkvæmt samningi við Fjallabyggð er ókeypis aðgangur að Síldarminjasafninu fyrir alla lögskráða íbúa Fjallabyggðar. Heimamenn, sem og gestkomandi eru hvattir til að gera sér glaðan dag í tilefni sjómannadagsins og heimsækja safnið.

KF sló Dalvík úr Mjólkurbikarnum

Dalvík/Reynir tók á móti Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar í dag á Dalvíkurvelli í 1. umferð Mjólkurbikarsins. Búist var við jöfnum leik enda hafa þessir nágrannaleikir liðanna verið fjörugir síðustu árin og aldrei neitt gefið eftir.

Áki Sölvason kom Dalvík/Reyni yfir strax á 16. mínútu og staðan orðin 1-0. KF jafnaði leikinn mínútu síðar með marki frá Sævari Gylfasyni og var staðan aftur orðin jöfn 1-1. Jafnt var í hálfleik 1-1 og átti eftir að vera dramatík í síðari hálfleik.

Á 80. mínútu fékk Rúnar Þórhallsson sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt og lék Dalvík/Reynir því einum færri eftir það. Í uppbótartíma skoraði Kristófer Andri Ólafsson fyrir KF og tryggði þeim dramatískan sigur í blálokin. Kristófer hafði komið inná sem varamaður á 63. mínútur. Lokatölur 1-2 og KF mætir Magna í næstu umferð.

Frábær úrslit fyrir strákana í KF. Halldór Mar Einarsson lék sinn fyrsta leik fyrir KF og fór beint í byrjunarliðið, en var skipt út af á 63. mínútu. Jón Óskar Sigurðsson lék einnig sinn fyrsta deildarleik fyrir KF í dag, en hann er lánsmaður frá Þór. Bjarki Baldursson lék einnig sinn fyrsta leik fyrir KF í dag en hann kom inná sem varamaður á 63. mínútu, hann er einnig lánsmaður frá Þór.

Fyrirtæki geta keypt auglýsingar til að styrkja umfjöllun um leiki KF í sumar. Leitað er að styrktaraðilum til að halda úti umfjöllun í sumar um leiki KF og leiki BF í haust og vetur í blakinu.

Vitor Vieira Thomas farinn frá KF í annað sinn

Miðjumaðurinn ungi Vitor Vieira Thomas hefur sagt skilið við KF, og það í annað sinn. Hann hefur núna fengið samning við Víking í Ólafsvík. Vitor er 21 árs og var einn af lykilmönnum KF í fyrra og spilaði 23 leiki í deild og bikar. Árið 2018 var hann á mála hjá Val í Reykjavík. Vitor á 41 leik með KF og skoraði 5 mörk. Óskum honum velfarnaðar hjá nýju félagi.

Víkingur Ólafsvík leikur í Lengjudeildinni, og er það gott skref fyrir þennan unga knattspyrnumann.

Halldór Mar Einarsson til KF

KF hefur fengið til sín Halldór Mar Einarsson, sem spilaði með Ægi í vetur í Lengjubikarnum en var á síðasta tímabili með Völsungi. Hann er kominn með leikheimild með KF. Halldór er 22 ára og hefur leikið 32 leiki fyrir meistaraflokk Völsungs í deild og bikar. Halldór spilaði upp yngri flokkana með Þór á Akureyri. Halldór leikur á miðjunni og á vonandi eftir að koma sterkur inn í sumar.

KF og Dalvík/Reynir mætast í bikarnum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mætast á Dalvíkurvelli kl. 14:00 í dag, í Mjólkurbikarnum. Sigurvegarinn úr viðureigninni mætir liði Magna, laugardaginn 13. júní kl. 14:00. 2. deildin fer svo af stað 17. júní en KF á leik gegn ÍR 20. júní á útivelli og Dalvík/Reynir eiga leik gegn Þrótti Vogum á Dalvíkurvelli.