Category Archives: Norðurland

Fyrsti íslenski viðarhitaði brauðofninn

Nýtt áhugavert verkefni er nú unnið að í Dalvíkurbyggð, nánar tiltekið á Böggvisstöðum í Svarfaðardal.  Þar er nú er verið að smíða fyrsta íslenska viðarhitaða brauðofninn.  Þetta verður gullfallegur handsmíðaður steinofn, hitaður upp með íslensku timbri og bakar súrdeigsbrauð úr lífrænu korni frá Frakklandi á Böggvisstöðum í Svarfaðardal. Að verkefninu standa Mathias Spoerry og Ella Vala Ármannsdóttir.

Mathias er söngvari að mennt og með meistaragráðu í miðaldatónlist. Hann kemur frá Frakklandi og hefur búið á Íslandi í fimm ár. Ella Vala er tónlistarkennari og hefur starfað við tónlist. Þau hafa sett á stað söfnun á Karolinafund til að fjármagna byggingu ofnsins að hluta til, en þau þurfa að safna tveim milljónum króna en ofninn kostar um 3 milljónir.

Framkvæmdir og breytingar á húsinu á Böggvistöðum verða gerðar eftir að byggingu ofnsins líkur með lánveitingu.

Búið er að stofna Facebooksíðu fyrir þá sem vilja fylgjast með framkvæmdum, sem heitir Fyrsti íslenski viðarhitaði brauðofninn.

Lögreglan á Norðurlandi eystra í átaksverkefni í næstu viku

Lögreglumenn um allt Norðurland Eystra munu sinna sérstöku átaksverkefni í næstu viku frá mánudegi til föstudags (22.-26. okt.) og munu láta sjá sig við alla leikskóla á svæðinu, bæði í þéttbýli og sveitum. Markmiðið er að kanna notkun öryggisbúnaðar barna um borð í bílum með hvatningu að leiðarljósi. Börnin verða að hafa algjöran forgang hjá okkur fullorðnu ökumönnunum sem og berum á þeim fulla ábyrgð. Höfum allan búnað bílsins í toppstandi og börnin í fullkomnu öryggi !

Október-Kaldamót Rima á Dalvík

Árlegt blakmót Rima verður haldið um helgina í Dalvíkurbyggð og heitir Október-Kaldamót Rima. Að þessu sinni verður spilað á laugardegi og sunnudegi.  Blakfélag Fjallabyggðar er með nokkur lið í karla- og kvennaflokki á mótinu.

2. deild karla, 2. deild kvenna og 3. deild kvenna spila í dag.  Á sunnudaginn spilar 1. deild karla, 1. deild kvenna og 4. deild kvenna.

Það er frítt fyrir keppendur í sund og í heitu pottana.

Deildarskipting verður eftirfarandi:

1. deild kk:  BF A – KA – Rimar – Snörtur
2. deild kk: Rimar Á – KA Ö – Splæsir – Umf.Efling – BF B

1. deild kvk: Rimar A – Krákurnar – BF 1 – Skautar A – BF 2
2. deild kvk: Rimar B – Skutlur-Eik – Skautar B – KA-stelpur – Mývetningur – KA-Freyjur B
3. deild kvk: Rimar C- Mývetningur A – Fjaðrir 1 – Dalalæður – Bjarkir
4. deild kvk: Rimar D – BF 3 – Bryðjur – Stellur – BF 4 – Dalvík

Hver deild spilar alla sína leiki á einum degi svo leikjaniðurröðun gæti orðið nokkuð þétt.

Laugardagur:
2. deild kk
2. deild kvk
3. deild kvk

Sunnudagur:
1. deild kk
1. deild kvk
4. deild kvk

Appelsínugul viðvörun á Norðurlandi eystra

Vekjum athygli á slæmri veðurspá frá Veðurstofu Íslands : APPELSÍNUGUL VIÐVÖRUN

Strandir og Norðurland vestra 20. okt. kl. 11:00 – 21 okt. kl. 07:00. Stormur eða rok, 18-28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll yfir 40 m/s. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.


Norðurland eystra 20. okt. kl. 11:00 – 21 okt. kl. 07:00. Stormur eða rok, 18-28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll yfir 40 m/s. Hvassast í Eyjafirði. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Kröpp lægð, sem spáð á morgun fyrir vestan land, veldur staðbundnum stormi Vestanlands og vestantil á Norðurlandi.  Snarpar hviður fylgja í SV-átt á morgun, allt að 40 m/s s.s.  í Skagafirði utan Varmahlíðar, í Fljótum og í Eyjafirði milli Akureyrar og Ólafsfjarðar. Frá um kl. 11 og fram á kvöld.

Samningar undirritaðir um Benecta-deildina í blaki

Í gær var undirritaður samningur milli Blaksambands Íslands og Genís á Siglufirði um heiti á 1. deild karla og kvenna í blaki fyrir komandi tímabil. Deildin mun bera nafnið Benecta-deildin á þessu tímabili en það voru þau Andri Hnikarr Jónsson, stjórnarmaður BLÍ og Gunnhildur Róbertsdóttir markaðsstjóri Genís sem gengu frá samningum fyrir báða aðila í gær. Upplýsingar um þetta voru birtar á vef Blaksambandsins í dag.

Genís hf. er framleiðandi Benecta fæðubótarefnisins sem er eitt af framsæknustu nýjungunum í náttúrulegum fæðubótarefnum á Íslandi í dag. Nánari upplýsingar um Benecta má finna á www.benecta.is

Allar nánari upplýsingar um Benecta-deildina má finna á heimasíðu BLÍ.

Blakfélag Fjallabyggðar leikur í 1. deild karla í blaki og er fyrstu leikur þeirra þann 1. nóvember næstkomandi á Húsavík við heimamenn í Völsungi. Fyrsti heimaleikur BF verður svo 11. nóvember.

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi 2018

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi fór fram í gær í Húnaþingi vestra og óhætt er að segja að hún hafi verið frábær. Húnvetningar tóku vel á móti kollegum sínum í ferðaþjónustu og farið var í heimsóknir til ýmissa fyrirtækja á svæðinu og nýr útsýnispallur við Kolugljúfur var sömuleiðis skoðaður. Um kvöldið var svo haldin vegleg veisla í veislusalnum á Hótel Laugarbakka, þar sem dansinn dunaði fram eftir nóttu.

Venju samkvæmt voru þrjár viðurkenningar veittar, Sproti ársins, Fyrirtæki ársins og viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustunnar.

Fyrirtæki ársins
Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi. Það fyrirtæki sem fær viðurkenninguna í ár er Hotel Natur.

Í kringum árið 2004 fóru þau Stefán Tryggvason og Inga Margrét Árnadóttir að hugsa um að hætta að vera kúabændur og vildu snúa sér að ferðamennsku. Árið 2005 höfðu þau gert breytingar á fjósinu og hlöðu, og opnuðu þar 10 herbergja hótel. Árin á eftir fylgdu fleiri breytingar og herbergin eru nú 36 talsins.

Hotel Natur er sannkallað fjölskyldufyrirtæki, þar sem foreldrarnir hafa séð um að stýra skútunni en börnin koma að daglegum rekstri og þá sérstaklega yfir sumartímann. Mikil áhersla hefur verið lögð á umhverfismál og endurnýtingu. Engar nýjar byggingar hafa verið byggðar heldur þeim gömlu breytt og nýjasta dæmið um það er útsýnispallurinn í súrheysturninum. Sumir myndu reyndar segja að Stefán hefði ákveðið blæti fyrir turnum, enda var hann ekki lengi að tryggja sér glerturnana sem áður hýstu keiluhöllina á Akureyri þegar hún var rifin niður. Fyrirtækið er til fyrirmyndar á mörgum sviðum og við hin getum svo sannarlegt lært mikið af fjölskyldunni á Þórisstöðum.

Sproti ársins
Viðurkenningin Sproti ársins er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Það fyrirtæki sem fær verðlaunin í ár er Hótel Laugarbakki.

Það er ekkert lítið verkefni sem þau Hildur Ýr og Örn réðust í þegar þau ákváðu að breyta þessum gamla héraðsskóla hér í heilsárs hótel. Eins og þið hafið nú þegar séð hefur þeim tekist vel upp og herbergin hér eru stórglæsileg. Hótelið er það stærsta á Norðurlandi vestra og með opnun þess opnuðust nýir möguleikar bæði fyrir ferðafólk og þá sem starfa í ferðaþjónustu hér í nágrenninu. Mjög mikilvægt er að hafa svona valmöguleika í gistingu hér á þessu svæði og ekki skemmir fyrir hve auðvelt er að halda hér alls kyns viðburði, ráðstefnur og fleira. Veitingastaðurinn Bakki setur svo punktinn yfir I-ið.

Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi
Viðurkenninguna fyrir Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Í er það Skagfirðingurinn Svanhildur Pálsdóttir sem hlýtur þessa viðurkenningu.

Svanhildur hefur starfað í ferðaþjónustu í meira en áratug, en hún ásamt öðrum keypti Hótel Varmahlíð árið 2006 og gerðist hótelstjóri eftir að hafa starfað áður sem kennari. Í viðtali við Morgunblaðið sagðist hún stefna ótrauð að því að hafa hótelið áfram opið yfir vetrartímann eins og áður hafði verið gert og taldi að Varmahlíð og Skagafjörður ætti mikið inni í ferðaþjónustu. Þar myndi það skipta sköpum að fyrirtæki á svæðinu myndu vinna saman að því fá ferðamenn til að stoppa á svæðinu. Það voru orð að sönnu þá og þau eiga sannarlega við enn í dag, ekki bara á þessu svæði heldur alls staðar.

Í gegnum árin hefur Svanhildur sinnt þessu samstarfi vel og var lengi í stjórn Markaðsstofu Norðurlands og þar af formaður í nokkur ár. Auk þess var hún ein af stofnendum Félags ferðaþjónustunnar í Skagafirði og gegndi einnig formennsku þar til langs tíma. Auk þess hefur hún setið í stjórnum Ferðamálasamtaka Íslands og Ferðamálasamtaka Norðurlands vestra.

Hótel Varmahlíð var selt til nýrra eigenda í fyrra og nú er veruleiki Svanhildar ekki bundinn við raunheima, því hún hóf nýlega störf hjá 1238 Battle of Iceland á Sauðárkróki. Sýndarveruleiki er þar nýttur til þess að leyfa gestum að upplifa Örlygsstaðabardaga og það er því ljóst að ferðaþjónusta í Skagafirði og á Norðurlandi öllu mun áfram njóta góðs af reynslu og kröftum Svanhildar.

Texti og myndir: Aðsend fréttatilkynning.

Jordan Damachoua farinn frá KF

Varnarmaðurinn Jordan Damachoua sem spilaði með KF í sumar er farinn aftur til Frakklands. Hann spilaði 16 leiki fyrir KF og skoraði 1 mark í sumar.  Hann var  valinn leikmaður ársins á lokahófi KF í haust.

Jordan er 27 ára og fæddur í Frakklandi. Hann kom frá liðinu Châteauneuf-sur-Loire sem spilar í Frönsku 3. deildinni í riðli C. Heimavöllur liðsins tekur 4000 manns og var því töluverð breyting að flytja til Fjallabyggðar sl. vor fyrir leikmanninn. Árið 2017 spilaði hann fyrir liðið Blois sem er í sömu deild og Châteauneuf-sur-Loire.

 

Ný rennibraut í sundlauginni í Varmahlíð opnuð

Ný rennibraut í sundlauginni í Varmahlíð opnaði í dag.  Formleg vígsla rennibrautarinnar fer fram mánudaginn 22. október kl. 16:30. Þar munu þau Sigfús I. Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Hrefna Jóhannesdóttir, oddviti Akrahrepps, klippa á borða og segja nokkur orð. Unnur María Gunnarsdóttir, nemandi við Varmahlíðarskóla, vígir brautina og fer fyrstu bununa. Kaffi, kókómjólk og kleinur í boði að vígslu lokinni.

Athugið að sundlaugin verður opin n.k. laugardag frá klukkan 10:00-15:00.

Vegna framkvæmda við sundlaugina á Sauðárkróki er fyrirhugað að lengja opnunartíma sundlaugarinnar í Varmahlíð fram að áramótum. Opnunartími verður nánar auglýstur síðar.

Samstarf Alzheimersamtakanna og Öldrunarheimila Akureyra

Árni Sverrisson formaður Alzheimersamtakanna og Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, hafa undirritað viljayfirlýsingu til að staðfesta og efla enn frekar samstarf Alzheimersamtakanna og Öldrunarheimila Akureyrar.

Undanfarin ár hafa Öldrunarheimili Akureyrar og Alzheimersamtökin unnið saman að ýmsum verkefnum á sviði almennrar fræðslu, ráðgjafar og stuðnings við einstaklinga með heilabilun og fjölskyldur þeirra, en viljayfirlýsingin staðfestir enn meira samstarf á þessu sviði.

Viljayfirlýsingin tekur til að mynda til áframhaldandi samstarfs um uppbyggingu náms og námskeiða fyrir almenning og fagfólk, samstarfs um að bjóða til samverustunda, Alzheimerkaffis og fræðslu- og hópastarfs líkt og hefur verið haldið í húsakynnum Öldrunarheimila Akureyrar. Einnig er stefnt að samstarfi um að byggja upp á Akureyri ráðgjafarþjónustu sem sérhæfir sig í heilabilun en ráðgjafastofunni er ætlað að þjóna íbúum og starfsfólki á Norðurlandi.

Kafað í fullveldið á Akureyri

Laugardaginn 20. október frá kl. 13:00-16:00 efnir Akureyrarbær í samvinnu við ýmsa aðila til öðruvísi málþings í Sundlaug Akureyrar í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Viðburðurinn heitir „Á kafi í fullveldi“ og þar kennir ýmissa grasa.

Á fullveldishátíðinni verður boðið upp á fjölmarga ólíka viðburði. Allir hafa þeir það að markmiði að bregða litríku og ólíku ljósi á hugtakið fullveldi. Viðburðunum er ætlað að höfða til breiðs aldurshóps. Fræðimenn flytja stutt framsöguerindi og stýra síðan umræðum. Rýmin eru mörg og margskonar og nýtt verða bæði laugar, pottar og þurrar vistarverur. Sundfatnaður verður því ekki algjört skilyrði fyrir þátttöku.

Tíu fræðimenn og kennarar frá Háskólanum á Akureyri stýra stuttum umræðufundum í heitu pottunum og spyrja spurninga á borð við: Er íslenskan fullvalda mál? Hvernig var stéttaskipting í upphafi fullvaldatímans? Hvað með fullveldi íþrótta eða fullveldi sveitarfélaga og fjölmiðla?

Skáldið Gerður Kristný Guðjónsdóttir les úr verkum sínum og það gerir sömuleiðis kynfræðingurinn Sigga Dögg. Listakonan Jonna fjallar um plastfjallið sem allt ætlar að gleypa og verður með gjörning í þeim anda á svæðinu.

Í kvennaklefanum verður fjallað á krefjandi hátt um fullveldi píkunnar og karlarnir láta heldur ekki sitt eftir liggja þegar þeir ræða ábyrgð pungsins í karlaklefanum.

Boðið verður upp á söngstund fyrir yngri kynslóðina í busllauginni og Amtsbókasafnið stýrir forvitnilegum og fjörugum sögustundum á sama stað.

Á milli atriða verður boðið upp á tónlistaratriði þar sem stíga á stokk systurnar Una og Eik, Ivan Mendes og Vandræðaskáldin flytja bálk sinn „Sullveldi“.

Á kafi í fullveldi er hluti af dagskrá 100 ára fullveldisafmæli Íslands, styrkt af Fullveldissjóði og unnið í samstarfi við Akureyrarbæ, Sundlaug Akureyrar, Háskólann á Akureyri, Akureyrarstofu, Amtsbókasafnið á Akureyri og Aflið.

Enginn aðgangseyrir verður að sundlauginni þennan dag frá kl. 12.30-15.30 og boðið verður upp á kaffi og með því fyrir svanga hátíðargesti. Kynnir hátíðarinnar verður María Pálsdóttir.

Dagskrá:

Yfirlýsing frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar og Sjómannafélaginu Jötni

Í fréttum undanfarna daga hafa komið fram mjög alvarlegar ásakanir á hendur stjórnendum Sjómannafélags Íslands um óheiðarlega framkomu og falsanir á fundargerðarbók sjómannafélagsins. Ásakanir þessar hafa komið fram í tengslum við fyrirhugað mótframboð til stjórnar félagsins í tengslum við aðalfund þess sem fram fer á milli jóla og nýárs. Þessar ásakanir telja stjórnendur Sjómannafélags Eyjafjarðar og Sjómannafélagsins Jötuns svo alvarlegar að við því verði að bregðast.

Þar sem ofangreind félög hafa verið í sameiningarviðræðum við Sjómannafélag Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og Sjómannafélag Hafnarfjarðar er það mat stjórnenda þessara félaga að ekki verði lengra farið og draga sig því út úr þessum sameiningarviðræðum félaganna.

Fyrir hönd félaganna:

Konráð Alfreðsson formaður
Sjómannafélags Eyjafjarðar

Þorsteinn Guðmundsson formaður
Sjómannafélagsins Jötuns

Ekki gert ráð fyrir fjármögnun uppbyggingar á Akureyrarflugvelli í samgönguáætlun

Bæjarstjórn Akureyrar hefur lýst yfir miklum vonbrigðum með að í fimm ára samgönguáætlun sé ekki gert ráð fyrir fjármögnun uppbyggingar Akureyrarflugvallar. Það samræmist hvorki byggðastefnu stjórnvalda né umræðu um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið. Þá hvetur bæjarstjórn Akureyrar Ríkisstjórnina til að ljúka við löngu tímabæra eigendastefnu Isavia, ekki síðar en um áramótin 2018/2019.

Vilja setja upp útitafl á Húsavík

Garðvík ehf á Húsavík vill gefa sveitarfélaginu Norðurþingi útitafl. Guðmundur Vilhjálmsson framkvæmdastjóri Garðvík kynnti hugmyndir sínar fyrir skipulags- og framkvæmdaráði Norðurþings um útitafl á Húsavík.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings hefur ákveðið að taflinu verði fundinn staður á torginu þar sem Vegamót stóð. Mikilvægt er að standa vel að hönnun torgsins.

Þrír lánsmenn farnir frá KF

Lánssamningum þriggja leikmanna Knattspyrnufélags Fjallabyggðar er lokið. Í vor fékk KF þrjá unga og efnilega leikmenn frá KA og Magna á lánssamningi sem gilti út leiktíðina. Þessir leikmenn fengu gott tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki í alvöru mótsleikjum með KF í sumar, og voru mikilvægur partur af liðinu. Þetta eru þeir Andri Snær Sævarsson frá KA, Björn Andri Ingólfsson frá Magna og Tómas Veigar Eiríksson frá KA.

Andri Snær spilaði 19 leiki fyrir liðið sumar. Björn Andri spilaði 20 leiki og skoraði 6 mörk og var markahæsti leikmaður liðsins. Tómas Veigar lék 20 leiki og skoraði 1 mark. Strákarnir eru allir 20 ára, og eru allt efnilegir knattspyrnumenn sem eiga framtíðina fyrir sér.

Nokkrir aðrir leikmenn KF eru með lausa samninga, sem og þjálfari liðsins, og því gætu orðið einhver ný andlit í hópnum á næsta ári.

Íbúafundur í Dalvíkurbyggð um laxeldi

Haldinn verður íbúafundur í Árskógi í Dalvíkurbyggð, mánudagskvöldið 22.október næstkomandi kl. 20:00.  Til umræðu verða umsóknir og hugmyndir sem fyrir liggja um eldi og vinnslu á laxi í landi Dalvíkurbyggðar.

Kynnt verða áform fyrirtækja um uppbyggingu og starfsemi í Dalvíkurbyggð á sviði laxeldis. Þá verður leitað eftir huga íbúanna til laxeldis í sjókvíum í Eyjafirði.

Á fundinn mæta sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar og kjörnir fulltrúar ásamt þeim sviðsstjórum sveitarfélagsins.

Íbúar eru hvattir til að fjölmenna á fundinn.

Ný slökkvibifreið á leið til Húsavíkur

Norðurþing og PCC Bakkisilicon gerðu með sér samkomulag um kaup á slökkvibifreið fyrir slökkvilið Norðurþings, sem hefur verið í samsetningu í Póllandi. Bifreiðin á lokametrum í samsetnignu og er áætlað að bílinn verði kominn til Húsavíkur í lok október eða í byrjun nóvember.  Fulltrúar frá slökkviliðinu í Norðurþingi munu fara til Póllands og taka bifreiðina út og fylgja henni til landsins.

Fimm frá Kraftlyftingafélagi Ólafsfjarðar á Bikarmóti Kraft á Akranesi

Bikarmót Kraft í klassískum kraftlyftingum fór fram um síðustu helgi á Akranesi. Keppt var án hjálparbúnaðar, eins og hnévafninga og stálbrókar.  Fimm keppendur frá Kraftlyftingafélagi Ólafsfjarðar tóku þátt og stóðu sig allir frábærlega. KFÓ greinir frá þessu á facebooksíðu sinni.

Hilmar Símonarsson keppti í -66kg flokki. Í hnébeygju tók hann glæsilega 180kg sem er aðeins 5 kg frá Íslandsmeti. Í bekkpressu tók hann 100kg og í réttstöðulyftu 200kg, samtals 480kg. Bæði bekkpressan og réttsttöðulyftan voru undir væntingum en þrátt fyrir það þá vann Hilmar flokkinn með yfirburðum og endaði sem fjórði stigahæsti maður mótsins. Magnaður keppnismaður sem er rétt að byrja en samt kominn í fremstu röð á íslandi.

Álfheiður Líf Friðþjófsdóttir keppti í -72 kg flokki. Álfheiður er barnung og ein af vonarstjörnum KFÓ.  Þennan dag gekk nánast allt upp. Hnébeygja 97,5kg, bekkpressa 45kg og réttstöðulyfta 102,5kg, samtals 245kg. Flottar bætingar í öllum greinum! Álfheiður var í öðru sæti í sínum flokki.

Hólmfríður Sturludóttir keppti í -84 kg flokki.  Hólmfríður er nýbyrjuð að æfa og var að keppa á sínum fyrsta móti. Hólmfríður kom öllum á óvart og þó mest sjálfri sér. Hnébeygja 60kg, bekkpressa 42,5kg og réttstöðulyfta 92,5kg samtals 195kg. Það er alltaf áfangi að komast í gegnum sitt fyrsta mót, Hólmfríði tókst það með glæsibrag og verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni. Hólmfríður lenti í þriðja sæti í flokknum.

Seinni dagurinn:
Anna Lára Ólafsdóttir keppti í -72kg flokki og var á sínu fyrsta móti. Það byrjaði ekki vel, í vigtun um morguninn reyndist Anna Lára vera yfir mörkum fyrir flokkinn sinn og reglur eru þannig að ef vigtin er ekki rétt miðað við skráðan þyngdarflokk þá fær viðkomandi ekki að keppa. Nú var farið á hlaupabretti, hamast fram á síðustu mínútu og þegar 30 min voru í að mótið myndi hefjast náði Anna að fara undir réttan þyngdarflokk. Beint í smá drykk og upphitun og til að gera langa sögu stutta þá sló Anna í gegn með seríuna 50-55 57,5 allar lyftur í gegn sem skiluðu Önnu þriðja sæti í flokknum. Magnað afrek eftir það sem á undan hafði gengið!

Sunna Eir Haraldsdóttir keppti í +84kg flokki. Sunna hafði keppti fyrir 9 árum síðan og átti best 77.5kg á móti. Á þessu móti tók hún seríuna 80-85-90 og átti inni. Gull í flokknum og þyngd sem margir karlmenn eru stoltir af að ná í bekkpressu.

Myndir og texti frá KFÓ.

Þjálfari Dalvíkur hættir með liðið

Sveinn Þór Steingrímsson mun hætta sem þjálfari meistaraflokks Dalvíkur/Reynis samkvæmt upplýsingum frá formanni Knattspyrnudeildar Dalvíkur.  Sveinn tók við liðinu 13. júlí 2017 en hafði áður verið aðstoðarþjálfari liðsins. Hann þjálfaði liðið í alls 28 leikjum í deild- og bikar og kom liðinu upp í 2. deild í sumar.  Sveinn er fæddur árið 1984 og lék meðal annars með Grindavík, Njarðvík, GG, Hamar og Þrótti Vogum.

Knattspyrnudeild KA skrifaði í dag undir tveggja ára samning við Svein um að hann taki við sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu.

Sameining Laugalands- og Akureyrarprestakalla

Biskupafundur hefur ákveðið að leggja fyrir kirkjuþing í nóvember næstkomandi tillögu um sameiningu Laugalands- og Akureyrarprestakalla þann 1. febrúar 2019. Sameinað prestakall fær heitið Eyjafjarðarprestakall og því verður þjónað af sóknarpresti og tveimur prestum. Safnaðarfundum er gefinn kostur á að veita umsagnir um tillöguna.
Því er boðað til sameiginlegs safnaðarfundar allra sókna í Laugalandsprestakalli í Félagsborg, miðvikudaginn 24. október kl. 20:00.
Prófastur, séra Jón Ármann Gíslason, mætir á fundinn, kynnir málið og svarar fyrirspurnum.

Afhjúpuðu styttuna af Gústa Guðsmanni á Siglufirði

Fjölmenni var saman komin á Ráðhústorginu á Siglufirði í gær við hátíðlega athöfn þegar styttan af Gústa Guðsmanni var opinberuð. Kostnaður við gerð styttunnar er sagður vera rúmlega 10.7 milljónir króna, en styttan var steypt í brons og er eftir Ragnhildi Stefánsdóttur, listamann og myndhöggvara. Fjallabyggð steypti undirlagið og pallinn fyrir styttuna ásamt að koma fyrir bekkjum, og er kostnaður við þetta sagður vera 2,5-3 milljónir. Undirbúningur og gerð styttunnar hófst árið 2017. Það er stjórn Sigurvins – áhugamannafélags um minningu Gústa guðsmanns á Siglufirði sem stóð fyrir gerð styttunnar og söfnun.

Alþjóðleg ráðstefna haldin í Ólafsfirði

Hnattræn menntun í dreifbýli er yfirskrift alþjóðlegrar ráðstefnu sem Menntaskólinn á Tröllaskaga heldur í Ólafsfirði í næstu viku. Nýjar aðferðir, hreyfanleiki og aðlögun verða í forgrunni margvíslegrar umfjöllunar um upplýsingatækni í skólastarfi. Þetta er þrettánda ecoMEDIAeurope ráðstefnan. Starfsmenn MTR hafa sótt margar þeirra fyrri og verið áberandi þar. Þess vegna lögðu ecoMEDIAeurope samtökin til að skólinn héldi ráðstefnuna í ár til að starfsmenn annarra skóla gætu fræðst um kennsluaðferðir og skipulag náms í MTR. Leiðtogar, sérfræðingar, kennarar og aðrir starfsmenn frá nokkrum löndum auk Íslands sækja ráðstefnuna sem stendur í fimm daga. Um áttatíu hafa skráð sig til leiks – um helmingur frá öðrum löndum. Meðal annars koma gestir frá Þýskalandi, Sviss, Grikklandi, Lettlandi, Danmörku og Bandaríkjunum. Frá þessu er greint á vef mtr.is.

Gestirnir koma sunnudaginn 14. október með rútu frá Keflavík og hittast á Kaffi Klöru og í Pálshúsi um kvöldið. Ráðstefnan hefst á mánudag með heimsókn um skólana í Fjallabyggð og Háskólann á Akureyri. Um kvöldið verður svo móttaka í Síldarminjasafninu og heldur Gunnar Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar ræðu fyrir viðstadda. Eftir þann viðburð verður boðið upp á Norðurljósaferð.  Á þriðjudagskvöld verður kvöldvaka á Kveldúlfur Bar á Siglufirði. Á fimmtudagskvöld verður svo veislumatur á Kaffi Rauðku. Á föstdeginum verður svo rútuferð aftur til Keflavíkur.

Nánar um ráðstefnuna hér: https://www.mtr.is/ecomedia

Almenn ánægja með Vestnorden ferðakaupstefnuna á Akureyri

Vestnorden ferðakaupstefnan var haldin á Akureyri í síðustu viku en hún hefur mjög mikla þýðingu fyrir ferðamennsku á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Á kaupstefnunni voru rúmlega 600 aðilar skráðir til leiks frá alls 30 löndum, þar af um 370 að sýna og bjóða fram vöru eða þjónustu og hátt í 200 að kynna sér og kaupa það sem í boði er. Um 70 kaupendur voru að koma í fyrsta sinn og blaðamenn og opinberir gestir voru einnig um 70 talsins.

Afar mikil ánægja var meðal kaupenda og seljenda og ekki síst með þá nýbreytni að gestum var boðið upp á ferðir og upplifun á Norðurlandi á meðan á kaupstefnunni stóð. Engan bilbug var á aðilum að finna og almenn bjartsýni gagnvart horfum á næsta ári, jafnvel þó óvissa sé meiri en oft áður.

Vestnorden ferðakaupstefnan er haldin annað hvert ár á Íslandi og hin árin til skiptis í Færeyjum og Grænlandi. Kaupstefnan var síðast haldin á Akureyri árið 2010 og þar á undan 2002.

Myndir og texti: akureyri.is

 

Leikfélag Sauðárkróks sýnir Ævintýrabókina

Leikfélag Sauðárkróks sýnir nú verkið Ævintýrabókina, og hefur sýningin farið vel af stað og almenn ánægja með verkið. Alls eru 28 hlutverk í sýningunni sem leikin eru af 25 leikurum.  Foreldrafélag Árskóla og Ársala á Sauðárkróki ásamt foreldrafélagi Varmahlíðaskóla niðurgreiða miðaverð fyrir sína félagsmenn.

Ævintýrabókin er eftir Pétur Eggerz, leikstjóri er Ingrid Jónsdóttir og fara sýningar fram í Bifröst. Miðapantanir eru teknar í síma 849-9434.

Í grófum dráttum er sýningin um Úlfinn í ævintýrinu um Rauðhettu og Úlfinn. Úlfurinn er orðinn leiður á því að lenda í því aftur og aftur að vera skorinn á magan og fylltur af steinum að hann flýr bara yfir í önnur ævintýri sem eru í Ævintýrabókinni. Veiðimaðurinn og Dóra sem er að lesa bókina fara á eftir honum og lenda í ýmsu hjá t.d. Mjallhvíti og dvergunum sjö, Öskubusku, Stígvélaða kettinum og Skógarhöggsmanninum.

Næstu sýningar:

4. sýning – föstudaginn 12. október klukkan 18:00
5. sýning – laugardaginn 13. október klukkan 14:00
6. sýning – sunnudaginn 14. október klukkan 14:00
7. sýning – þriðjudaginn 16. október klukkan 18:00

Lokasýning verður miðvikudaginn 17. október klukkan 18:00.

 

 

Ný virkjun í Glerá vígð

Þann 5. október var ný virkjun Fallorku í Glerá á Akureyri formlega tekin í notkun. Fallorka er að fullu í eigu Norðurorku sem rekur dreifikerfi fyrir raforku á Akureyri og rekur auk þess hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu á Akureyri og í nokkrum nágrannasveitarfélögum. Norðurorka er aftur í eigu Hörgársveitar, Akureyrarkaupstaðar, Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps, Grýtubakkahrepps og Þingeyjarsveitar.

Tilgangur hinnar nýju virkjunar í Glerá er að framleiða raforku inn á dreifikerfi Norðurorku hf. Árleg framleiðsla virkjunarinnar er áætluð 22 GWst sem samsvarar orkunotkun um 5 til 6 þúsund heimila á Akureyri eða álíka margra rafbíla.

Ný virkjun Fallorku í Glerá nýtir um 240 metra fallhæð á 6 km kafla í ánni ofan Akureyrar. Virkjað rennsli er 1,8 m3/sek og uppsett afl 3,3 MW. Inntaksstífla verður um 6 metra há og inntakslón lítið eða um 1 hektari að flatarmáli. Vatnsmiðlun verður því óveruleg og má kalla þetta hreina rennslisvirkjun. Stöðvarhúsið er í Réttarhvammi efst í bænum og virkjunin tengist inn á 11 kV dreifikerfi Norðurorku alveg í næsta nágrenni. Tengingin fer inn á þrjá mismunandi strengi Norðurorku til að auka sveigjanleika og afkastagetu dreifikerfisins. Orkutöp vegna flutnings verða sáralítil og mun virkjunin draga úr þörf Norðurorku fyrir að fá raforku af flutningskerfi Landsnets.

Samhliða lagningu þrýstipípu hefur verið gerður rúmlega 6 km langur göngu- og hjólastígur frá stöðvarhúsi og upp að stíflu á Glerárdal.  Stígurinn fylgir leið pípunnar að miklu leyti en víkur þó frá henni á nokkrum stöðum. Til dæmis fer stígurinn nær gilbrún árinnar á köflum til að fólk geti sem best notið útsýnis. Stígurinn er að mestu tilbúinn og er fólki óhætt að fara um hann, en mikilvægt er að sýna varúð, því að merkingar eru ekki allar komnar upp. Búið er að setja upp girðingu á nokkrum stöðum þar sem bratt er niður að ánni.

Stígurinn krækir vestur fyrir skotsvæðið, vegna þess að þar er skotið með haglabyssum til austurs þ.e. í átt að ánni. Viðvörunarmerki sýna hvar er óhætt að ganga. Göngubrú verður reist yfir stífluna seinna í haust eða vetur og opnast þá ný hringleið um Glerárdal. Hafa verður þó í huga að stígur / troðningur upp frá stíflu austanmegin og inn á Lamba-slóðann verður ekki gerður fyrr en vorið/sumarið 2019.

Heimild: akureyri.is

Ljósmynd: Akureyri.is

Brautskráning frá Háskólanum á Hólum

Föstudaginn 5. október síðastliðinn hlutu 10 manns diplómugráðu frá Háskólanum á Hólum frá þremur mismunandi námsleiðum. Frá Ferðamáladeild brautskráðust fjórir með diplómu í viðburðastjórnun og tveir með diplómu í ferðamálafræði. Fjórir bættust í hóp diplómuhafa í fiskeldisfræði, frá Fiskeldis- og fiskalíffræðideild.

Athöfnin fór fram á Hólum, og hófst með ávarpi rektors, Erlu Bjarkar Örnólfsdóttur. Að því loknu tóku deildarstjórarnir, Laufey Haraldsdóttir og Bjarni Kristjánsson við, og brautskráðu sína nemendur. Við þetta tækifæri var Sigríði Bjarnadóttur veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur í diplómunámi í ferðamálafræði.

Öllum viðstöddum var síðan boðið til veglegs kaffisamsætis, í umsjón Ferðaþjónustunnar á Hólum.

Leggja niður 50% stöðu forstöðumanns Byggðasafnsins Hvols

Byggðarráð Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt tillögu sveitarstjóra að leggja niður 50% stöðu forstöðumanns Byggðasafnsins Hvols í Dalvíkurbyggð. Lagt var til að starfið yrði sameinað 100% starfi forstöðumanns bóka- og héraðsskjalasafns Dalvíkurbyggðar þannig að úr verði einn forstöðumaður safna. Fyrrum forstöðumaður Hvols sagði starfi sínu lausu í vor og tók uppsögnin gildi 1. júní síðastliðinn.

Byggðasafnið Hvoll var formlega opnað 12. desember 1987. Safnið er þrískipt: byggðasafn, náttúrugripasafn og mannasafn. Munir safnsins eru flestir af heimilum á Dalvík, Svarfaðardal og Árskógsströnd.

Íslandsmótið í blaki í Fjallabyggð um helgina

Um næstkomandi helgi í Fjallabyggð, dagana 13.-14. október fer fram fyrsta helgarmótið af þremur á Íslandsmóti neðri deilda í blaki. Í Fjallabyggð verður mikið um dýrðir en alls verða spilaðir 67 leikir í báðum íþróttahúsum sveitarfélagsins.  Í Ólafsfirði munu lið í 2. og 3. deild karla spila en Blakfélag Fjallabyggðar á lið í 3. deild karla.  Í 3.deild kvenna mun hins vegar leika á Siglufirði og á Blakfélag Fjallabyggðar lið í þeirri deild.
Á laugardeginum hefjast leikir kl. 09:00 og er áætlað að síðustu leikjum ljúki um kl. 17:00 á Ólafsfirði og kl. 18:00 á Siglufirði. Á sunnudeginum hefjast leikir kl. 08:30 og áætlað að síðustu leikjum ljúki um kl. 13:00.

Fjöldi liða um helgina er alls 24 og skiptist í 12 lið í 3. deild kvenna, 8 lið í 2. deild karla og 6 lið í 3. deild karla.  Fjöldi leikmanna á mótinu er í kringum 200.

Liðin í deildunum eru eftirfarandi:
3.deild kvenna: Afturelding D – Álftanes D – BF B – Bresi – Bresi B – Dímon/Hekla – Fylkir B – Haukar – HK C – HK F – Sindri – Völsungur B
2.deild karla: Afturelding/Pólska – Álftanes B – Fylkir B – Fylkir V – HKarlarnir – Keflavík – Þróttur N B – UMFL
3.deild karla: Álftanes C – BF B – Efling/Laugaskóli – Haukar A – Haukar B – Sindri

Leikir BF liðanna er eftirfarandi:

3.deild kvenna á Siglufirði:
Lau kl 10:10 við Hauka
Lau kl 12:30 við Völsung B
Lau kl 14:50 við Álftanes D
Lau kl 16:00 við Dímon Heklu
Sun kl 08:30 við Afturelding D
Sun kl 10:50 við Fylkir B
3.deild karla á Ólafsfirði:
Lau kl 10:10 við Hauka B
Lau kl 12:30 við Hauka A
Lau kl 14:50 við Efling-Laugaskóli
Sun kl 08:30 við Sindra
Sun kl 10:50 við Álftanes C

Auglýst eftir tilnefningum um bæjarlistamann Fjallabyggðar 2019

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar auglýsir eftir umsóknum og eða rökstuddum ábendingum eða tilnefningum um bæjarlistamann Fjallabyggðar 2019.

Nafnbótin bæjarlistamaður getur hlotnast einstaka listamanni eða hópi. Styrkur til bæjarlistamanns 2019 nemur kr. 300.000 til einstaklings og kr. 400.000 til hóps.

Umsóknir eða ábendingar skulu berast til bæjarfélagsins fyrir 24. október nk. með bréfi eða í tölvupósti til markaðs- og menningarfulltrúa, Lindu Leu Bogadóttur á netfangið; lindalea@fjallabyggd.is.

Reglur um tilnefningu bæjarlistamanns má finna á heimasíðu Fjallabyggðar.

Fjallabyggð 9. október 2018

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar

Sushi námskeið í Höllinni Ólafsfirði

Veitingahúsið Höllin í Ólafsfirði ætlar að halda Sushi námskeið í samstarfi við Magnús Jón þann 27. október næstkomandi kl. 18:00. Aðeins örfá sæti í boði á þetta námskeið sem tekur um 3 klst. Námskeiðið kostar aðeins 8490 kr. á mann og er allt innifalið sem þarf í sushi gerðina.

Hefur þig alltaf langað að læra réttu handtökin við hina japönsku list að búa til Sushi?

Hafið samband við Höllina / Hildi Gyðu og skráið ykkur á skemmtilegt og gómsætt námskeið.