Category Archives: Norðurland

Fimm Jólasýningar Einars Mikael á Norðurlandi næstu daga

Töframaðurinn Einar Mikael mun vera með fimm jólasýningar á Norðurlandi næstu daga. 15. desember  verður hann í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit, 16. desember í Rósenborg á Akureyri, 18. desember í Króskbíó á Sauðárkróki, 19. desember í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði og 20. desember í Ungó á Dalvík.

Jólasýning Einars Mikaels er ný sýning sem er troðfull af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum. Einar leyfir áhorfendum að taka virkan þátt í sýningunni og velur hann oftar en ekki unga áhorfendur úr sal til að aðstoða hann í töfrabrögðunum.

Beint eftir sýningarnar er gestum boðið uppá myndatöku með Einari og hægt er að kaupa ýmsan töfravarning eftir sýningarnar galdrabækur og töfradót.

Jólaleikur – Aðventumynd – Jólasaga – Jólakveðjur – jólahúsið

Eins og undanfarin ár mun vefurinn vera með aðventuleiki hér á síðunni. Allir íbúar og fyrirtæki geta sent inn jóla- og áramótakveðjur ásamt mynd eða auglýsingu í fréttakerfi vefsins án kostnaðar.

Besta jóla- og aðventumyndin verður valin og birt 29. desember, og eru íbúar hvattir til að senda inn jólalegar aðventumyndir.

Besta jóla- og aðventusagan verður einnig birt og tilkynnt um það hér á vefnum 29. desember. Tökum við innsendum sögum fram að þeim tíma.

Þá verður jólalegasta húsið kosið, íbúar hvattir til að senda inn myndir ásamt götunúmeri.

 

 

Sigur hjá KF í fyrsta leik

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék við KA-3 í gær í B-deild Kjarnafæðismótsins sem fram fór í Boganum á Akureyri. Í liði KA voru mest strákar fæddir árið 2000-2002 og eru flestir í 2. flokki félagsins. Í liði KF eru mest heimamenn sem eru fastaliðsmenn hjá félaginu síðustu árin í bland við unga og efnilega og eins leikmenn á reynslu. KF hafði nokkra leikmenn á reynslu í þessum leik og einn þeirra var Birkir Freyr Andrason, 19 ára sem kemur frá KA en kom í fyrra frá Þrótti Nes til KA. Hann var í byrjunarliðinu í þessum leik. Annar á reynslu í þessum leik Atli Fannar Írisarson leikmaður Dalvíkur/Reynis, hann byrjaði leikinn á bekknum. Hann hefur leikið síðustu ár með Dalvík og hefur spilað 29 leiki fyrir félagið.

Þessi leikur var auðvitað skyldusigur fyrir KF sem stillti upp sterku liði. Aksentije Milisic gerði fyrsta mark leiksins á 18. mínútu og kom KF í 1-0. Töluverður hasar var í fyrri hálfleik, en KF fékk þrjú gul spjöld og KA eitt á upphafsmínútum leiksins.  Staðan var 1-0 fyrir KF í hálfleik.

KA gerði þrefalda skiptingu í hálfleik til að leyfa fleiri strákum að spila. KF gerði eina skiptingu um miðjan fyrri hálfleik og aðra í leikhlé. Halldór Logi skoraði skömmu eftir leikhlé og kom KF í 2-0 á 51. mínútu. Aðeins tólf mínútum síðar skoraði Friðrik Örn fyrir KF og staðan orðin 3-0. Aðeins mínútu síðar skoraði Atli Fannar fjórða mark KF, og staðan orðin 4-0 á 64. mínútu leiksins. Góð innkoma hjá honum Atla Fannari sem er á reynslu hjá félaginu.

Liðin gerðu svo fleiri skiptingar en mörkin urðu ekki fleiri og öruggur sigur KF á KA, 4-0 lokatölur.

Jólaviðtal – Kristín Anna Guðmundsdóttir

Kristín Anna Guðmundsdóttir var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Hún er fædd og uppalin á Siglufirði og fermdist í Siglufjarðarkirkju árið 1985. Kristín er menntuð þroskaþjálfi frá Háskóla Íslands og starfar við Menntaskólann á Tröllaskaga sem þroskaþjálfi og við kennslu útivistargreina.  Hún hefur einnig starfað sem þroskaþjálfi við Grunnskóla Fjallabyggðar. Kristín sinnti áður ýmsum störfum og rak meðal annars myndbandaleiguna Vídeoval á Siglufirði í næstum áratug með manni sínum, Þórarni Hannessyni.  Þá sat hún í stjórn Skíðafélags Siglufjarðar Skíðaborgar í nokkur ár þar af tvö ár sem formaður.  Kristín hefur stundað skíðaiðkun frá barnsaldri og líður hvergi betur en í Skarðinu á Siglufirði.

Í vetur, líkt og síðustu ár, tekur hún að sér byrjendakennslu á svigskíðum í Skarðinu, bæði fyrir fullorðna og börn.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

 

Jólaviðtal – Kristín Anna Guðmundsdóttir

 

Hvað finnst þér best við jólin?

Mér hefur alltaf fundist aðventan notaleg. Sem betur fer er ég að þroskast hvað varðar þrif og annað brjálæði sem áður “þurfti” að gera fyrir jólin. Skítastuðullinn hefur hækkað með árunum sem betur fer, eða sjónin versnað!

Hvað kemur þér í jólaskap?

Snjórinn, jólaljósin, góð jólalög og samveran með fjölskyldunni.

Hvað borðar þú á jólunum?

Það er eitt og annað s.s. humarsúpu, hamborgahrygg, kalkúnabringu, mömmu fromanse og heimagerðan ís, einnig er möndlugrauturinn ómissandi.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Last Christmas með George Michael, einnig er jóladiskurinn “Engin jól án þín” sem Stefán Hilmarsson gaf út fyrir nokkrum árum í miklu uppáhaldi.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Hingað til höfum við fjölskyldan ekki farið til kirkju á jólunum, en það mun breytast í ár þar sem ég er komin í kirkjukórinn. Þó á eftir að koma í ljós hversu margir úr fjölskyldunni koma með mér til kirkju. Í kirkjugarðinn fer ég alltaf um jólahátíðina.

Hvernig jólatré ertu með? Við endurnýjuðum jólatréð fyrir um tveimur árum síðan. Áður höfðum við verið með tré sem var komið til ára sinna og var gervitré sem foreldrar mínir eignuðust árið 1966. Tréð var því orðið 50 ára og plastið orðið frekar stökkt.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Christmas Vacation og fleiri.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Ég reyni að versla í heimabyggð og einnig annarsstaðar ef ég dett niður á eitthvað sniðugt.

Ferðu á jólatónleika ?

Stundum geri ég það, þó ekki í ár.

Ferðu á brennu um áramótin?

Alltaf hér áður fyrr var farið á brennu þegar krakkarnir voru litlir, núna er voða notalegt að horfa á brennuna úr eldhússglugganum hjá foreldrum mínum.

Myndir úr einkasafni Kristínar.

 

Góðverkadagur Dalvíkurskóla vakti lukku

Góðverkadagur Dalvíkurskóla var í dag og hefur hann fest sig í sessi sem ein af aðventuhefðum skólans. Nemendur fóru um bæinn og breiddu út kærleika og gleði með ýmsum hætti. Yngsti hópurinn í 1. og 2. bekk fór um og söng jólalög fyrir vegfarendur, 3. og 4. bekkur dreifði miðum með fallegum orðum og settu inn um bréfalúgur hjá fólki og gáfu jólaknús. 5. bekkur fór á leikskólann og aðstoðaði þar við ýmis verk og nemendur 6. bekkjar dreifðust á nokkra sveitabæi og hjálpuðu til við verkin.

Nemendur unglingastigs völdu sér verkefni og þar var ýmislegt í boði. Haft var samband við fyrirtæki með góðum fyrirvara og þeim boðin hjálp. Kjörbúðin, Húsasmiðjan, Íþróttamiðstöðin, áhaldahús bæjarins, veitingastaðir, bókasafnið, hesthúsið í Hringsholti, Árskógarskóli, Olís o.fl. fengu aðstoð í dag. Einnig var haft samband við nokkra eldri borgara og öryrkja og fóru nemendur í heimsókn þangað og unnu þar ýmis verk, t.d. moka snjó eða dreifa sandi, baka smákökur, skreyta, þrífa eða bara spila og spjalla við íbúana.
Nemendur af unglingastigi fóru einnig á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Dalbæ og aðstoðuðu þar við jólaskreytingar, laufabrauðsútskurð og ýmislegt annað sem skipulagt var af starfsfólki.

Vaðlaheiðargöng opna 12. janúar

Formleg opnun Vaðlaheiðarganga verður 12. janúar 2019. Umferð um göngin verður gjaldskyld og verða veggjöld innheimt rafrænt en ekki í gjaldskýli. Mögulega verður unnt að opna göngin fyrir umferð undir lok desember en það ræðst þó af því hvernig miðar við lokafrágang ganganna. Ákveðið hefur verið að ef göngin verða opnuð fyrir umferð fyrir jól verður gjaldfrítt í þau til 2. janúar 2019.

Vaðlaheiðargöng eru milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Heildarlengd þeirra með vegskálum er um 7,5 km. Til samanburðar eru Vestfjarðagöng – veggöng undir Breiðadals og Botnsheiði – samtals 9,1 km,  lengri leggur Héðinsfjarðarganga 7,1 km og Hvalfjarðargöng 5,8 km. Vegir að göngunum austan og vestan Vaðlaheiðar eru samtals 4,1 km.

Með Vaðlaheiðargöngum styttist þjóðvegur 1 frá Akureyri til Húsavíkur um 16 km. Fyrsta sprenging í göngunum var í júlí 2013 og því hafa framkvæmdir við þau tekið um fimm og hálft ár.

Stakt gjald fyrir fólksbíl verður 1500 kr. og fyrir ökutæki fyrir 3,5 tonn kostar 6000 kr. 10 ferðir fyrir fólksbíl kosta svo 12.500 kr, eða 1250 kr. ferðin. 40 ferðir kosta 36.000 kr. eða 900 kr. ferðin. 100 ferðir kosta svo 70.000 kr. fyrir fólksbíla eða 700 kr. ferðin. Ókeypis er að keyra í gegn fyrir bifhjól og bannað er að hjóla á reiðhjólum í gegn.

 Forsagan
Árið 2002 kynnti Vegagerðin skýrslu um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði og ári síðar stóð Eyþing fyrir stofnun Greiðrar leiðar ehf.  – félags um framkvæmd og rekstur Vaðlaheiðarganga. Að því stóðu öll 20 sveitarfélög innan Eyþings og tíu fyrirtæki.

Árið 2010 samþykkti Alþingi lög um stofnun hlutafélags um vegaframkvæmdir, m.a. um gerð Vaðlaheiðarganga. Ári síðar var Vaðlaheiðargöng hf. stofnað um gangagerðina. Tveir hluthafar voru í félaginu, í upphafi var Vegagerðin með 51% hlut og Greið leið ehf. með 49% hlut. Verkið var boðið út árið 2011 en samið við lægstbjóðanda, Íslenska aðalverktaka/Marti, í febrúar 2013.

Þann 12. júlí 2013 var svokölluð viðhafnarsprenging í gangamunna Vaðlaheiðarganga Eyjafjarðarmegin, sem markaði formlegt upphaf framkvæmdanna. Upphaflega var gert ráð fyrir verklokum við Vaðlaheiðargöng í desember 2016 en fordæmalausar aðstæður í göngunum, m.a. mikið rennsli á bæði heitu og köldu vatni, tafði framkvæmdir verulega.

Síðasta sprenging var 28. apríl 2017 og síðan hefur verið unnið að frágangi ganganna, vegagerð frá gangamunnunum í Fnjóskadal og Eyjafirði, malbikun, uppsetningu tæknibúnaðar o.fl.

ÍAV hf/Marti Constractors Lts. – Ósafl var aðalverktaki við gerð ganganna. Vegagerðin stýrði hönnun þeirra og veglínu. Verkfræðistofurnar Mannvit, Verkís, Efla og Verkfræðistofa Norðurlands veittu ráðgjöf við hönnunina. Framkvæmdaeftirlit var í höndum GeoTek og Eflu. Hönnun og tæknileg útfærsla á gjaldtökukerfi var í höndum verkfræðistofunnar Raftákns og um forritun sá Stefna hugbúnaðarhús.

Fordæmalausar aðstæður
Gangamenn í Vaðlaheiðargöngum tókust á við fordæmalausar aðstæður við jarðgangagerðina sem skýrir lengri framkvæmdatíma og meiri kostnað en gert var ráð fyrir. Glímt var við mikið innstreymi af heitu og köldu vatni í göngin, mikið hrun úr bergstálinu og samfellda bergþéttingu. Þetta gerðist þrátt fyrir viðamiklar jarðfræðirannsóknir, sambærilegar við önnur jarðgöng á Íslandi. Jarðhitinn í göngunum gerði það að verkum að vinnuaðstæður í Vaðlaheiðargöngum voru mun erfiðari en áður hefur þekkst við jarðgangagerð á Íslandi og tímafrekt reyndist að hemja vatnsflauminn.

Bæði heitt og kalt vatn streymir út úr göngunum í lögnum við hlið akbrauta. Norðurorka mun í framtíðinni nýta kalda vatnið fyrir notendur á Svalbarðsströnd og Akureyri.

Innheimta veggjalds
Vegfarendur greiða veggjald fyrir að aka um Vaðlaheiðargöng. Það er ekki innheimt í gjaldskýli heldur greitt í gegnum www.veggjald.is  eða www.tunnel.is. Notendur ganganna búa til sitt svæði á www.veggjald.is, skrá þar númer ökutækis, tengja það við greiðslukortið sitt og geta þá keypt ferð eða ferðir. Skráning ökutækis er án endurgjalds. Hægt verður að skrá allt að þrjú ökutæki á hvert greiðslukort. Aðeins þarf að skrá ökutækið einu sinni í upphafi, frekari skráninga er ekki þörf. Sá sem skráir ökutækið á veggjald.is ber ábyrgð á því að allar upplýsingar séu réttar. Við eigendaskipti ökutækja og/eða aðrar breytingar ber viðkomandi að breyta skráningu á veggjald.is

Myndavélar eru í göngunum sem taka myndir af númerum ökutækja sem ekið er um göngin. Veggjaldið skuldfærist sjálfkrafa á það greiðslukort sem skráð er við bílnúmerið.

Á veggjald.is eru upplýsingar um gjaldskrá og þar er hægt að hlaða niður appi fyrir snjallsíma.

Gjaldtakan er þrenns konar:

Innskráning á veggjald.is
Stofnaður aðgangur á veggjald.is og settar inn greiðslukortaupplýsingar og þau bílnúmer sem óskað er eftir að greiða fyrir. Við hverja ferð í gegnum göngin skuldfærist veggjaldið á viðkomandi greiðslukort. Hægt er að kaupa fyrirfram greiddar 10, 40 eða 100 ferðir á afsláttarkjörum. Því fleiri ferðir sem keyptar eru, þeim mun lægri upphæð greiðist fyrir hverja ferð.

Stakar ferðir
Hægt er að kaupa stakar ferðir á veggjald.is eða tunnel.is eða með símaappi allt að þrem tímum áður eða þrem tímum eftir að ekið er í gegnum göngin.

Óskráð númer
Ef ferð er ekki greidd innan þriggja klukkustunda frá því að ekið er í gegnum göngin verður veggjaldið innheimt af skráðum umráðamanni ökutækis að viðbættu 1.000 kr. álagi.

Gjaldskrána er að finna á www.veggjald.is

Fyrsta vélin af 29 lenti á Akureyri í gær

Í gær lentu fyrstu ferðamenn vetrarins á Akureyrarflugvelli, sem koma til Norðurlands á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break. Flugferðirnar verða alls 29 í vetur og í hverri ferð verða sæti fyrir 200 manns. Þessi innspýting er því afar kærkomin fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi, eins og sást síðasta vetur.

Eins og áður hefur komið fram sér Titan Airways núna um flugið og lendingin á Akureyrarvelli í gær var þeirra fyrsta. Til verksins var notuð ein af stærri vélum félagsins, Airbus A321, og gekk lendingin vel.

„Við erum hæstánægð með að vera komin aftur til Norðurlands fyrir fyrsta flug vetrarins. Í gær var flogið frá Exeter, einum af þeim 18 flugvöllum sem flogið verður frá í þessum 29 ferðum. Þeirra á meðal eru líka flugvellirnir í Inverness, Isle of Man, Jersey, Derry, Newquay og London Southend en frá þessum völlum förum við í fyrsta sinn. Við höfum unnið náið með Markaðsstofu Norðurlands, samstarfsfyrirtækjum okkar á Norðurlandi, Isavia og Titan Airways til að tryggja að við séum sem best undirbúin fyrir komu 4500 ferðamanna á okkar vegum frá desember og fram í mars. Ég er viss um að þeir hlakki líka til að koma hingað og njóta hlýlegra móttaka heimafólks, eins og við höfum fengið að kynnast síðustu 18 mánuði,“ segir Chris Hagan, hjá Super Break.

„Við erum líka ánægð með að geta boðið Norðlendingum flugsæti til Bretlands, sem skapar í fyrsta sinni tækifæri á beinum tengingum við hin ýmsu héruð Bretlands sem ekki hafa áður verið í boði. Verðin eru frá aðeins 99 pundum,“ segir Hagan.

Fréttatilkynning – Markaðsstofa Norðurlands.

Jólaviðtal – Inga Eiríksdóttir

Við fengum Ingu Eiríksdóttur til okkar í desember í jólaviðtal.  Inga er Akureyringur en flutti til Ólafsfjarðar með syni sína tvo fyrir um 17 árum.  Inga er gift Rúnari Kristinssyni, háseta á Sólberg ÓF-1.

Inga er í dag kennari og fjármálstjóri í Menntaskólanum á Tröllaskaga í Ólafsfirði, og hefur starfað þar frá stofnun skólans og líkar það mjög vel.  Þar kennir hún einna helst stærðfræði en þó kemur fyrir að hún kenni fög eins og fjármálalæsi, bókfærslu, forritun eða landafræði.  Hún starfaði lengi við Grunnskóla Ólafsfjarðar þar sem hún kenndi m.a. stærðfræði og dönsku.  Eins starfaði hún um tíma sem markaðs- og kynningarfulltrúi Fjallabyggðar.

Inga byrjaði á því að læra kerfisfræði í Danmörku, síðan Viðskiptafræði við HA, þá Uppeldis og kennslufræði við HA og loks Menningar- og menntastjórnun við Háskólann á Bifröst. Hún er þó ekki alveg hætt því undarfarnar annir hefur hún verið að taka fög í HA í Meistaranámi á Menntavísindasviði í Upplýsingatækni í námi og kennslu.

Inga skipaði 6. sæti H-lista félagshyggjufólks í Fjallabyggð í sveitarstjórnarkosningum árið 2006.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

 

Jólaviðtal – Inga Eiríksdóttir

Hvað finnst þér best við jólin?
Samvera fjölskyldu og vina. Og af því leiðir auðvitað mikið af góðum mat og drykk.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Það er svo mismunandi. Um það bil annan hvern desember er ég ein fram að því að maðurinn minn kemur í land. Þá getur verið erfitt að komast í almennilegt jólaskap fyrr en hann kemur heim. Það er svo miklu skemmtilegra að jólastússast með einhverjum.  Jólaseríur geta t.d. oft pirrað mig mikið. En þegar allir eru komnir heim, karlinn og strákarnir þá er jólaskapið alveg komið.

Hvað borðar þú á jólunum?

Við borðum hamborgarhrygg með brúnuðum kartöflum, rjómasoðnu rósakáli, Waldorfsalati og sósu. Ég elda alltaf mjög mikið, 5 – 6 hryggi. Ég er með marga karlmenn í mat og svo vil ég eiga afgang því ég elda ekki meiri hátíðarmat fyrr en fyrir gamlárskvöld. Ég reyni að elda sem minnst milli jóla og nýárs. Við borðum afganga af þessum hryggjum og svo graflax, rækjurétt, pate, osta og ýmislegt smálegt sem ég er búin að fylla ísskápinn með.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Last Christmas með Wham! Ég veit ekki af hverju, einhver nostalgía.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Þrátt fyrir að vera frekar trúuð þá fer ég mjög sjaldan í kirkju og ekkert frekar á jólunum en aðra daga. Mér finnst samt mjög gott og róandi að fara í messu. Jafnast alveg á við góða slökun í jóga. Við förum hins vegar í kirkjugarðinn með nokkuð mörg kerti.

Hvernig jólatré ertu með?

Ég er með dautt jólatré. Þangað til ég kynntist manninum mínum þá var ég alltaf með lifandi jólatré. Hann átti hins vegar gervitré og eftir töluvert múður frá mér þá varð úr að það er notað. Stundum þarf maður að hafa vit á að gefa smá eftir. En ég kem ekki nálægt því að setja það upp.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Heima hjá okkur er það einskonar hefð að hver og einn velur sér mynd sem hann vill að sé horft á yfir hátíðarnar. Það bregst varla að ein þeirra er Die hard. Og yfirleitt eru þetta gamlar myndir sem allir eru löngu búnir að sjá en hafa gaman af að horfa á aftur. Þrátt fyrir að vera mikill „Syfy fan“ þá reyni ég yfirleitt að hafa mína mynd “stelpumynd”. Þeir hafa gott af því að horfa á The Proposal, Clueless eða Love Actually og ég er fyrir löngu búin að koma þeim öllum á „Syfy“ bragðið nema kannski Rúnari svo það er yfirleitt alltaf einhver góð Syfy mynd í bunkanum.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Ég versla jólagjafir alls staðar. Ég er ekki kölluð Inga Ebay fyrir ekki neitt. En í ár þá verslaði ég töluvert hjá samstarfsfólkinu mínu. Ég vinn með mikið af frjóu fólki sem er mjög skapandi.

Ferðu á jólatónleika ?

Nei. Ég hef einu sinni á ævinni farið á jólatónleika. Það var hér á upphafsárum skólans og hópur nemenda skipulagði jólatónleika til styrktar Barnaspítala Hringsins sem hluta af verkefni í Frumkvöðlafræði. Það var mjög gaman enda voru þar heimamenn á ferð. Ég get ekki sagt ég hafi áhuga á þessum nú hefðbundnu jólatónleikum sem byrjað er að auglýsa nær strax eftir verslunarmannahelgi.

Ferðu á brennu um áramótin?

Við erum yfirleitt á Akureyri hjá bróður mínum um ármótin. Þar söfnumst við saman öll fjölskyldan hans eða okkar og öll fjölskylda mágkonu minnar í eins konar Pálínuboð. Við verðum þó aldrei fleiri en þessi 16 sem er samanlagður fjöldi beggja fjölskyldna. Það kemur fyrir að við förum á brennu en nú þegar allir strákarnir eru orðnir svona stórir þá hefur það nærri lagst af. Það sama er þó varla hægt að segja um sprengingar, þær virðast aukast eftir því sem þeir verða eldri. 

Jólatónleikar Tónlistarskólans á Tröllaskaga

Næstu daga munu nemendur úr Tónlistarskólanum á Tröllaskaga halda tónleika á Siglufirði, í Ólafsfirði og á Dalvík. Alls verða þetta 10 tónleikar á fjórum dögum.

Dagskrá:

Siglufjarðarkirkja

þriðjudaginn 11. des. Kl. 16:30.

 

Dalvíkurkirkja

þriðjudaginn 11. des kl. 16:30 og 17:30.

 

Tjarnarborg Ólafsfirði

miðvikudaginn 12. des kl. 16:30.

 

Hornbrekka Ólafsfirði

miðvikudaginn 12. des kl. 14:30.

 

Sjúkrahúsið á Siglufirði

miðvikudaginn 12. des kl. 14:30.

 

Menningarhúsið Berg

miðvikudaginn 12. des kl. 17:30.

 

Víkurröst Dalvíkurbyggð

fimmtudaginn 13. des kl. 16:30 og 17:30.

 

Dalbær Dalvíkurbyggð

fimmtudaginn 13. des kl. 13:45.

Jólaviðtal – Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir

Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Hún er forseti Bæjarstjórnar Fjallabyggðar og Oddviti Betri Fjallabyggðar sem er nýtt þverpólitískt og óháð framboð sem bauð fram í sveitarstjórnarkosningum árið 2018.  Ingibjörg Guðlaug er núna í meistaranámi í jákvæðri sálfræði. Hún starfaði sem mannauðsstjóri hjá Genís á Siglufirði frá 2015-2018.

Ingibjörg skipaði 14. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningum árið 2017.  Ingibjörg er uppalin í Vestmannaeyjum og á ættir að rekja til Sandgerðis, Eskifjarðar og Breiðdals. Hún hefur búið í Fjallabyggð ásamt manni sínum síðan 2015.  Hún bjó áður í Berlín í Þýskalandi í sex ár ásamt fjölskyldunni. Ingibjörg vann hjá tónlistarhugbúnaðarfyrirtæki í Berlín á meðan maðurinn hennar sótti framhaldsnám.

Ingibjörg Guðlaug er með B.A. í stjórnmálafræði og M.Sc. í mannauðsstjórnun.  Hún hefur víðtæka starfsreynslu og hefur í gegnum tíðina starfað m.a. sem verkefnastjóri í vefnotendaþjónustu, sem sérfræðingur í nefnd hjá ríkisstjórninni, viðburðastjórnun og sem mannauðsstjóri.  Ingibjörg stundaði nám í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum og var einn leikstjóra á uppfærslu Leikfélags Vestmannaeyja og leiklistarhóps framhaldsskólans á Rocky Horror árið 2000.

Áhugamál Ingibjargar Guðlaugar eru bókalestur, söngur og útivist, þá sérstaklega skíði.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

Jólaviðtal

 

Hvað finnst þér best við jólin?

Jólahefðirnar sem við höfum skapað saman fjölskyldan, samverustundirnar með fjölskyldu og vinum og maturinn.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Að skreyta heimilið og upplifa eftirvæntinguna hjá börnunum mínum.

Hvað borðar þú á jólunum?

Við breytum alltaf ár frá ári og reynum aldrei að vera með það sama ár eftir ár. Höfum í gegnum tíðina verið með fjölbreyttan mat; þorsk,
salt fisk, skötusel, humar, nautakjöt, hjartarkjöt, villisvín, kengúru, gæs, hreindýr og lamb.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Þú komst með jólin til mín með Björgvini Halldórs og Rut Reginalds.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Nei, hvorugt.

Hvernig jólatré ertu með?

Lifandi tré úr Skarðsdalsskógi.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Já, Elf og Home Alone eru klassískar!

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Já, í bland.

Ferðu á jólatónleika?

Ég syng sjálf í Sölkunum kvennakór á Dalvík og við vorum með tvenna tónleika 9. desember sl. í Ólafsfjarðarkirkju og í Dalvíkurkirku.  Svo ætla ég að fara á tvenna aðra tónleika.

Ferðu á brennu um áramótin?

Já, að sjálfsögðu!

 

 

Fimm hrinu leikur hjá HK og BF kvenna

HK-B og Blakfélag Fjallabyggðar mættust á laugardaginn í 1. deild kvenna í blaki. Leikið var í Fagralundi í Kópavogi, heimavelli HK. Leikurinn var sveiflukenndur og fór í fimm hrinur.

Fyrsta hrina leiksins var sú jafnasta sem var öllum leiknum, en HK stelpur leiddu þó lengst af án þess að ná að hrista BF stelpur langt frá sér. Jafnt var á tölum 4-4 ,7-7 og 10-10. HK komst svo í 13-10 og tók þá BF leikhlé. BF jafnaði í 14-14, en kom nú góður kafli HK og komust þær í 20-15. BF minnkuðu þó muninn í 20-20 og voru lokamínúturnar æsispennandi. Aftur var jafnt 24-24 en HK átti síðustu tvö stigin og unnu fyrstu hrinu 26-24.

BF stelpur komu mjög ákveðnar til leiks í annari hrinu og náðu góðu forskoti 2-6 og 8-13 og þá tóku HK stelpur leikhlé. BF héldu áfram að vera sterkari og komust í 9-17 og aftur tóku HK stelpur leikhlé. Kom nú mjög góður kafli BF og breyttu þær stöðunni í 10-24 og unnu hrinuna örugglega 11-25, og staðan orðin 1-1.

BF byrjaði þriðju hrinuna með látum og komust í 0-6 og 1-10. HK tók þó leikhlé í stöðunni 0-2, en það gerði ekki neitt fyrir þær. Í stöðunni 4-10 tóku BF stelpur leikhlé og HK minnkaði muninn í 10-13. BF voru sterkari og komust í 10-17 og tóku nú HK stelpur leikhlé. BF komst í 11-20 og 12-20, og hafði mikla yfirburði og skoruðu svo fimm stig í röð og unnu hrinuna 12-25. Staðan hér orðin vænleg, 1-2.

Í fjórðu hrinu voru HK stelpur talsvert sterkari og voru yfir allan tíman. Þær komust í 5-2 og 14-7 og tók BF tvö leikhlé á þessum kafla sem skiluðu ekki miklu. BF minnkaði þó muninn í 16-12 og tóku þá heimastelpur leikhlé. HK leiddi áfram og voru sterkari á lokakaflanum og komust í 22-16 og unnu 25-16 og staðan orðin 2-2.

HK stelpur voru svo sterkari alla oddahrinuna og leiddu frá upphafi, þær komust í 4-1 og BF tók þá leikhlé til að reyna brjóta leikinn upp. Áfram voru HK stelpur sterkari og komust í 9-4 og aftur tók BF leikhlé. HK komst svo í 13-5 og unnu nokkuð örugglega hrinuna 15-7 og leikinn 3-2.

 

Kvennalið BF lék við Þrótt Reykjavík

Kvennalið BF og Þróttur Reykjavík-B léku í dag í íþróttahúsi Kennaraháskólans sem er heimavöllur Þróttar. Þróttur hefur mjög reyndan þjálfara, Róbert Hlöðversson, fyrrverandi landsliðsmaður og leikmaður Stjörnunnar.

Fyrsta hrinan var jöfn framan af en þegar líða tók á voru heimakonur sterkari og náðu upp góðu forskoti. Þróttur komst í 7-4 og tók þá BF leikhlé, og komu sterkar til leiks og komust yfir í stöðunni 8-9. Þróttir herti aftur tökin og komust í 13-9 og aftur tóku BF stelpur leikhlé. Þróttur var áfram með yfirburði og komust í 18-13 og 22-13. Þróttur kláraði svo hrinuna 25-16.

BF stúlkur komu sterkar til leiks í annari hrinu og leiddu 2-9 þegar Þróttarar taka leikhlé. Þróttur náði ágætis kafla og minnka muninn í 7-12 en þá tekur BF leikhlé. BF náði góðu forskoti og komust í 9-17 og 13-21. BF hafði yfirburði í lokin og kláruðu hrinuna 15-25 og staðan orðin 1-1.

Í þriðju hrinu var jafnræði í upphafi og í lokin, en Þróttur hafði yfirburði á köflum. Jafnt var á tölunum 4-4 og 8-8. Þróttur náði svo að komast yfir í stöðunni 12-9 og 16-10 og tók BF leikhlé. BF náði að minnka muninn í 18-16 og 22-21. Þróttara stelpur voru sterkari á lokakaflanum og unnu hrinuna 25-23 og staðan orðin 2-1.

Í fjórðu hrinu var jafnt á upphafsmínútum en svo tók BF forskot og var sterkara liðið í hrinunni. Jafnt var í stöðunni 6-6 en BF komst í 6-9 og 7-13. Þróttarastelpur tóku leikhlé í stöðunni 10-17 og minnkuðu muninn í 14-19. BF stelpur voru sterkar á lokakaflanum og komust í 14-23 og unnu 16-25 og staðan orðin 2-2.

Þróttur hafði nokkra yfirburði í oddahrinunni og komust í 4-1 og tók þá BF leikhlé. Áfram skoraði Þróttur og komust þær í 7-3 og tók þá BF aftur leikhlé. Þróttur komst í 10-6 og 12-8 og unnu að lokum sigur 15-11 og leikinn 3-2.

BF vann Fylki í Árbænum

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Fylki í dag í Árbænum. Liðin mættust fyrir viku síðan á Siglufirði þar sem BF vann örugglega 3-0. BF voru staðráðnir í að vinna í dag eftir naumt tap gegn HK í gær. Hægt er að lesa umfjöllun um þann leik hér á síðunni.

BF byrjaði fyrstu hrinuna mjög vel og voru komnir með gott forskot 3-8 þegar Fylkir tók leikhlé eftir að BF hafði skorað 4 stig í röð. BF hélt áfram að auka forskotið og komust í 5-12, 7-14 og 10-16. BF hafði yfirburði alla hrinuna og vann nokkuð þægilega 14-25 og þurftu ekki að nota leikhlé í hrinunni og voru komnir í 0-1.

Í annari hrinu Byrjaði KF með látum og komust í 0-5 þegar Fylkir tekur leikhlé, en BF hélt áfram og komust í 0-8. Þegar staðan var 1-12 kom góður kafli hjá Fylki þar sem þeir skoruðu sex stig í röð og breyttu stöðunni í 7-12 og tók nú BF leikhlé. Fylkir neitaði að gefast upp og í stöðunni 8-15 skoruðu þeir fjögur stig í röð og var staðan skyndilega orðin 12-15. Í stöðunni 18-22 tekur Fylkir leikhlé, en það dugði skammt því BF vann hrinuna 19-25 og voru komnir í 0-2 !

Fylkir byrjaði vel í þriðju hrinu og komust í 6-2 þegar BF tekur leikhlé. Fylkir leiddi áfram og komust í 10-5 en BF minnkaði muninn í 13-11. Fylkir hélt áfram að vera sterkari aðilinn í þessari hrinu og leiddu áfram í stöðunni 16-13, 18-16 og 19-18. Fylkir skoraði svo næstu þrjú stig og breyttu stöðunni í 22-18 þegar BF tók leikhlé. Fylkir var sterkari í lokin og unnu naumlega 25-23.

Í fjórðu hrinu var mikið jafnræði í leiknum og skiptust liðin á að ná forystu. Fylkir komst í 8-5 þegar BF tók leikhlé. Jafnt var á tölum í 12-12 og 15-15 og Fylkir komst svo í 19-16 þegar BF tók leikhlé. Áfram skoraði Fylkir og komust þeir í 21-16. Kom nú góður kafli BF sem skoruðu sex stig í röð og breyttu stöðunni í 21-22 og í millitíðinni tók Fylkir leikhlé.  Fylkir jafnaði í 22-22 en BF átti síðustu þrjú stigin og unnu hrinuna 22-25 og leikinn 1-3.

 

BF tapaði í fimm hrinu leik gegn HK

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við HK-B í Fagralundi í gær. Úr varð æsispennandi fimm hrinu leikur. HK-B er skipað að mestu leiti ungum strákum fæddum á árunum 2001-2003 í bland við aðeins eldri leikmenn. Liðið hefur byrjaði mótið vel og aðeins tapað einum leik áður en kom að þessum leik gegn BF.

BF byrjaði fyrstu hrinuna vel og var með nokkra yfirburði framan af og komust í 4-9 og tóku þá heimamenn leikhlé. Áfram voru BF sterkir og komust í 8-14 og tóku þá heimamenn sitt annað leikhlé. Kom nú mjög góður kafli heimamanna og minnkuðu þeir muninn í 13-15 og tóku nú gestirnir tvö leikhlé með stuttu millibili. Núna var HK komnir inn í leikinn og jafnt var á tölum,  16-16, 19-19 og 24-24. HK var sterkara í blálokin og tóku síðustu tvö stigin og unnu fyrstu hrinu 26-24.

Í annari hrinu var BF mun sterkari aðilinn og leiddu frá upphafi og náðu upp góðu forskoti. BF komst í 5-9 og 6-11 þegar heimamenn tóku leikhlé. BF skoraði í framhaldinu 5 stig á móti tveimur og tóku gestirnir sitt annað leikhlé í stöðunni 8-16. BF hélt áfram að auka forystuna og komust í 11-18, og skoruðu svo fimm stig í röð og breyttu stöðunni í 11-23. HK skoraði nú 4 stig í röð en BF lokaði hrinunni 15-25 og staðan orðin 1-1.

Í þriðju hrinu þá byrjuðu heimamenn með látum og komust í 4-0 og tók BF strax leikhlé. HK hélt áfram að leiða en BF náði loks að minnka muninn og jafna í stöðunni 10-10. BF náði hér góðum kafla og komust í 10-14 og 15-19. HK beit frá sér og minnkuðu muninn í 20-21. BF átti lokakaflann og skoruðu síðustu fjögur stigin og unnu 20-25, og staðan orðin 1-2.

Í fjórðu hrinu var jafnræði með liðunum sem skiptust á að taka forystu en án þess að stinga af. Staðan var 5-5, 8-8 og 11-11. Í stöðunni 15-15 skoruðu HK strákarnir fimm stig í röð og í milli tíðinni tók BF leikhlé. Staðan var hér orðin 20-15. BF náði að minnka muninn í 21-18 og jafna í 22-22. Skömmu áður tók HK leikhlé. Áfram var jafnt 23-23 og 24-24 enda var mikið undir. HK tók síðustu tvö stigin og unnu 26-24 og jöfnuðu 2-2.

Í fimmtu og síðustu hrinunni var HK mun betri aðilinn og BF sáu aldrei til sólar. BF tók strax leikhlé í stöðunni 4-1 og aftur í stöðunni 9-4. HK strákarnir áttu síðustu 8 stigin og unnu þessa hrinu örugglega 15-4 og leikinn 3-2.

BF menn voru ansi nálægt því að vinna þennan leik 1-3 en urðu að lokum að sætta sig við ósigur 3-2.

 

Jólaviðtal – Erla Gunnlaugsdóttir

Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Erla er fædd og uppalin á Siglufirði og hefur starfað fyrir Grunnskóla Siglufjarðar og Grunnskóla Fjallabyggðar í 25 ár, lengst af sem kennari og síðar verkefnastjóri í sérkennslu. Erla var ráðin skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar úr hópi þriggja umsækjenda sl. sumar. Erla lauk B.Ed-prófi í grunnskólakennarafræði árið 2002 og er með framhaldsmenntun í sérkennslufræðum.

Erla skipaði 16. sæti á lista Sjálfsstæðismanna í sveitarstjórnarkosningum í Fjallabyggð árið 2006 og 5. sætið í bæjarstjórnarkosningum á Siglufirði árið 2002.  Erla hefur m.a. verið stjórnarmaður í Kvæðamannafélaginu Rímu og varamaður í stjórn Stemmu – Landssamtökum kvæðamanna. Hún var einnig eigandinn af fyrirtæki í hópferðaakstri milli Sauðárkróks og Siglufjarðar sem komið var á eftir að Íslandsflug hætti að fljúga til Siglufjarðar. Þá voru þau hjónin eigendur af veitingahúsinu Torginu í 8 ár.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

Jólaviðtalið

 Hvað finnst þér best við jólin? 

Allt er gott við jólin. Aðventan er minn uppáhalds tími. Allur jólaundirbúningur. Jólaljós, skreytingar, bakstur og sérlegt áhugamál mitt, jólaþorp sem ég leika mér við að setja upp og að fá barnabörnin í heimsókn sem spá mikið í þetta jólaþorp hennar ömmu sinnar. Að njóta tímans og undirbúningsins með fjölskyldunni.   

 Hvað kemur þér í jólaskap?

Falleg jólatónlist, jólasnjór, Biscotti og góður kaffibolli í skálanum mínum.  

 Hvað borðar þú á jólunum?

Kalkún, villigæsir, ris al a mande sem ég geri alltaf og bara allskyns góðgæti.

 Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Ég á mér uppáhalds jóladisk sem ég dreg gjarnan fram í desember,  Kenny G jóladiskur svo eru bara til svo mörg falleg jólalög.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn? 

Já, við fjölskyldan förum yfirleitt í kirkju á aðfangadag og við förum í kirkjugarðana með kerti.

Hvernig jólatré ertu með?

Hef verið með lifandi tré til margra ára.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Get ekki valið neina sérstaka úr.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Ég versla jólagjafirnar að mestu í heimabyggð þessi jólin en eitthvað versla ég nú á Akureyri eða Reykjavík, það sem ég fæ ekki hér heima.

 Ferðu á jólatónleika ?

Já stundum, en hef ekki farið á tónleika þessa aðventuna.  

Ferðu á brennu um áramótin?

Geri það afar sjaldan – er ekki mikið fyrir brennur og flugelda.

Mynd úr einkasafni Erlu.

Jólatónleikar Sölku í Ólafsfjarðarkirkju

Salka kvennakór heldur tónleika í Ólafsfjarðarkirkju í dag, 9. desember klukkan 20:30 og miðaverðið verður 2000 kr. fyrir fullorðna og 1000 kr. fyrir börn á grunnskólaaldri. Stjórnandi kórsins er Mathias Spoerry.

Kórinn heldur einnig tónleika í Dalvíkurkirkju klukkan 14:30. Að tónleikunum loknum á Dalvík verður boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð fyrir gesti í safnaðarheimilinu.

Miðaverð á Dalvík 3000 kr. fyrir fullorðna og 1000 kr. fyrir börn á grunnskólaaldri.

Jólaviðtal – Elsa Guðrún Jónsdóttir

Elsa Guðrún Jónsdóttir mætti í jólaviðtal til okkar í desember.  Elsa Guðrún starfar sem útibússtjóri Arion banka í Fjallabyggð og er búsett í Ólafsfirði.  Elsa Guðrún er 32 ára viðskiptalögfræðingur frá Háskólanum á Bifröst, en hún er einnig með ML gráðu frá sama skóla ( 120 ECTS eininga nám í viðskiptalögfræði með 30 eininga meistararitgerð). Auk þess er hún vottaður fjármálaráðgjafi. Hún starfaði áður sem fjármálaráðgjafi hjá Arion banka í Fjallabyggð frá árinu 2015. Þar á undan starfaði hún meðal annars hjá Creditinfo.

Elsa Guðrún er einnig margfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu og fyrr á árinu tók hún fyrst kvenna, þátt fyrir Íslands hönd í skíðagöngu á Ólympíuleikunum.

Gönguskíði hefur verið stór hluti af lífi hennar, en Elsa byrjaði 5 ára og þá var ekki aftur snúið. Hún tók þátt á öllum göngumótum sem í boði voru.  Andrésar- og unglingameistari öll árin og í fullorðinsflokki einnig margfaldur Íslands- og bikarmeistari í skíðagöngu.  Þegar Elsa var 17 ára lék hún í meistaraflokki Leifurs/Dalvík í 1. deild kvenna B. Hún lék 10 leiki og skoraði 4 mörk.

Elsa var í landsliðinu um tvítugt og bjó þá í Noregi og reyndi við Ólympíuleikana árið 2006 en náði ekki því markmiði. Hún hélt áfram á Íslandi eftir það og var áfram ósigrandi, eignaðist börn og fór svo í háskóla og tók þá 4 ára pásu frá skíðunum. Hún ákvað svo árið 2015 að byrja æfa og leika sér á skíðum og var í framhaldinu boðið pláss í B-landsliði í skíðagöngu og tók þátt á HM í Finnlandi árið 2017, og var þar með fyrsta konan til að ná þeim árangri. Elsa sigraði þar undankeppnina og fékk þar með þátttökurétt í öllum greinum á HM. Þá komst hún upp í A landsliðið og náði sínum stærsta árangri, þegar hún komst á Ólympíuleikana í Suður-Kóreu árið 2018 og var einnig fyrsta konan til að ná því.

Jólaviðtal – Elsa Guðrún Jónsdóttir

Hvað finnst þér best við jólin?

Að njóta samverunnar með fjölskyldu og vinum

Hvað kemur þér í jólaskap?

Að baka laufabrauð með stórfjölskyldunni og hlusta á góða jólatónlist.

Hvað borðar þú á jólunum?

Það er alveg föst hefð að hafa hamborgarahrygg, brúnaðar kartöflur, gular baunir, og ekki má gleyma waldorf salatinu.

 Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

 Dansaðu vindur- Eivör

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

 Fer stundum í kirkju,en ég reyni að halda í þá hefð að fara kirkjugarðinn á aðfangadag.

Hvernig jólatré ertu með? 

Grænt gervitré

 Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap? 

Love actually og Home alone með börnunum.

 Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

 Ég nýti mér tæknina og versla mest megnis á netinu og svo á Akureyri.

 Ferðu á jólatónleika ? 

Já ég fer þetta árið á “Heima um jólin” í Hofi, er mjög spennt.

 Ferðu á brennu um áramótin?

 Yfirleitt hef ég farið, en stundum hef ég horft á hana heimanfrá mér.

 

Mynd: Úr einkasafni Elsu, aðsend.

Vilja reisa sólstofu og gróðurhús við Kaffi Klöru

Eigendur Kaffi Klöru í Ólafsfirði hyggjast reisa sólstofu meðfram vesturhlið Strandgötu 2 og gróðurhús á lóðinni í tengslum við verkefnið Matur er manns gaman.

Send hefur verið fyrirspurn til skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar sem hefur tekið jákvætt í erindið.

Eigendur Kaffi Klöru hlutu styrk í vor frá Velferðarráðuneytinu til að gera viðskiptaáætlun vegna verkefnisins Matur er manns gaman.

KEA afhenti styrki úr Menningar- og viðurkenningarsjóði

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA afhenti styrki úr Menningar- og viðurkenningarsjóði KEA, laugardaginn 1. desember sl. og fór styrkúthlutunin fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Þetta var í 85. skipti sem KEA veitir styrki úr sjóðnum. Auglýst var eftir styrkjum í október síðastliðnum og bárust tæplega 140 umsóknir.  Úthlutað var rúmlega 15,6 milljónum króna til 64 aðila.
Styrkúthlutun tók til þriggja flokka samkvæmt reglugerð sjóðsins: Menningar- og samfélagsverkefni, Rannsókna- og menntastyrkir og Íþrótta- og æskulýðsstyrkir.

Í Fjallabyggð hlaut Leikfélag Fjallabyggðar styrk til að ráða til sín leikstjóra fyrir leikárið 2019. Skíðafélag Ólafsfjarðar og Hestamannafélagið Gnýfari fengu einnig styrk.

Í flokknum Menningar- og samfélagsverkefni hlutu 19 aðilar styrki, rúmlega 2,9 milljónir króna.

Blásarasveit Akureyrar- Til að fara á stórhátíð evrópska skólahljómsveita í Gautaborg.
Hrútavinafélag Raufarhafnar- Vegna hrútadaga.
Alexander Smári Kristjánsson Edelstein- Vegna náms í píanóleik og tónleikaferða.
Vilhjálmur B. Bragason- Til að halda vinnubúðir fyrir upprennandi tónskáld og textahöfunda.
Sumartónleikar í Akureyrarkirkju- Fjórir tónleikar í Akureyrarkirkju sumarið 2019.
AkureyrarAkademían- Til að halda fyrirlestra á öldrunarheimilum.
Kvennakór Akureyrar- Til að taka þátt í kóramóti á Ítalíu sumarið 2019.
Rauði krossinn við Eyjafjörð- Til reksturs Ungfrú Ragnheiðar, sem er verkefni er aðstoðar einstaklinga í vímuefnavanda.
Þórduna nemendafélag VMA, Leikfélag VMA Til að setja upp söngleikinn Bugsy Malone í Hofi.
Þroskahjálp á Norðurlandi Eystra- Til útgáfu bókar um sögu málefna þroskaheftra og fatlaðra á Norðurlandi.
Leikfélag Hörgdæla- Til kaupa á ljósabúnaði.
Markus Meckl- Til að halda ritlistarsamkeppni fyrir börn af erlendum uppruna á Akureyri.
Hollvinafélag Húna II- Til endurbóta á bátnum.
Iðunn Andradóttir- Vegna náms í Ballettakademien í Stokkhólmi.
Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri- Vegna verkefninsins Orðaleiks, sem styður íslenskunám barna af erlendum uppruna.
Karlakór Eyjafjarðar- Til að halda tónlistarviðburð til minningar um Eydalsbræður.
Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri- Til að halda Vísindaskóla unga fólksins.
Þóra Kristín Gunnarsdóttir- Vegna náms í klassískum píanóleik í Sviss.
Leikfélag Fjallabyggðar- Til að ráða til sín leikstjóra fyrir leikárið 2019.

Í flokknum Íþrótta- og æskulýðsmál hlutu 20 aðilar styrki, samtals að fjárhæð 7,5 milljónir króna.

KA aðalstjórn
Þór aðalstjórn
Skíðafélag Akureyrar
Völsungur
Hestamannafélagið Léttir
Ungmennafélag Svarfdæla Dalvík
Akureyri handboltafélag
Skíðafélag Dalvíkur
Íþróttafélagið Magni
Þór KA kvennaknattspyrna
Sundfélagið Óðinn
Skautafélag Akureyrar
Hestamannafélagið Funi
Ungmennafélagið Smárinn, Hörgársveit
Hestamannafélagið Gnýfari, Ólafsfirði
Karatefélag Akureyrar
Skíðafélag Ólafsfjarðar
Héraðssamband Þingeyinga
Íþóttafélagið Akur
KFUM & KFUK á Akureyri

Í flokknum Ungir afreksmenn, hlutu 19 aðilar styrk hver að upphæð kr 150.000.-

Alexander Heiðarsson, júdó
Kara Gautadóttir, kraftlyftingar
Silvía Rán Björgvinsdóttir, íshokkí
Berenka Bernat, júdó
Glódís Edda Þuríðardóttir, knattspyrna
Aron Birkir Stefánsson, knattspyrna
Hulda Björg Hannesdóttir, knattspyrna
Andrea Ýr Ásmundsdóttir, golf
Ísabella Sól Tryggvadóttir, siglingar
Baldur Vilhelmsson, snjóbretti
Sigþór Gunnar Jónsson, handbolti
Unnur Árnadóttir, blak
Hafþór Vignisson, handbolti
Ólöf Marín Hlynsdóttir, handbolti
Guðni Berg Einarsson, skíði
Lárus Ingi Antonsson, golf
Arndís Atladóttir, sund
Fannar Logi Jóhannesson, frjálsíþróttir
Védís Elva Þorsteinsdóttir, boccia

 

Sex verkefni hlutu styrk í flokknum Styrkir til Rannsókna- og menntamála, samtals 1,9 milljónir króna.

Rannsóknamiðstöð ferðamála – Til að gera ferðahegðunar- og útgjaldakönnun meðal farþega skemmtiferðaskipa.
Verkmenntaskólinn á Akureyri, starfsbraut- Til áframhaldandi þróunar starfsbrautarinnar.
Námsbraut í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri – Til að halda ráðstefnuna Löggæsla og samfélagið.
Fræðafélag um forystufé – Til að gera athugun á næmni forystufjár gegn riðu.
Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir – Til að kortleggja og setja í samhengi áhrif tilkomu samfélagsmiðla á stjórnmál.
Skafti Ingimarsson – Til að rannsaka ævi og störf Einars Olgeirssonar.

Jólaviðtal – Linda Lea Bogadóttir

Linda Lea Bogadóttir var í jólaviðtali hjá okkur í desember. Linda Lea býr á Siglufirði og starfar sem markaðs- og menningarfulltrúi hjá Fjallabyggð. Linda hóf störf fyrir sveitarfélagið um mitt ár 2016 og var valin úr hópi 17 umsækjenda um starfið.  Linda Lea er viðskiptafræðingur að mennt af stjórnunarbraut frá Háskólanum á Akureyri hefur lokið MA námi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún starfaði meðal annars sem sérfræðingur hjá Landsneti í níu ár á sviði viðskiptatengsla, markaðsmála og kerfisstjórnar. Linda var í nokkur ár framkvæmdastjóri dægurlagakeppnis Kvenfélags Sauðárkróks, en þar bjó hún í nokkur ár.

Linda æfði blak með HK og var Íslandsmeistari í 4. flokki kvenna árið 1981. Hún fermdist í Kópavogskirkju árið 1982.  Linda er uppalin í Kópavogi en á ættir að rekja til Siglufjarðar. Hún hefur einnig búið í Hafnarfirði, Skagafirði, á Akureyri og í Danmörku.

Nokkrir punktar um Lindu

Linda hélt úti bloggsíðu í nokkur ár, lindalea.blog.is, og rötuðu pistlar hennar stundum á vef mbl.is. og víðar. Linda er annar þýðenda bókarinnar Brunch á 100 vegu frá árinu 2000.

Fleiri jólaviðtöl má lesa hér.

Jólaviðtalið – Linda Lea Bogadóttir

Hvað finnst þér best við jólin?

Samveran með börnunum og fjölskyldunni, friðurinn og kærleikurinn sem umvefur alla.

Hvað kemur þér í jólaskap?

Desember allur og undirbúningurinn heima og svo snjórinn og jólaljósin. Kemst í svaka jólafíling þegar ég byrja að skreyta heima hjá mér.

Hvað borðar þú á jólunum?

Alltaf hamborgahrygg á aðfangadag með öllu tilheyrandi. Yfirleitt kalkún á jóladag og afganga og hangikjöt á annan í jólum.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Á svo mörg uppáhalds. En ætli It´s beginning to look a lot like Chrismas með Michael Bublé og Dansaðu vindur með Eivöru séu ekki þau sem koma mér helst í jólaskap.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Já, finnst jólin ekki koma nema ég fari í messu kl. 18:00 á aðfangadag. Já ég vitja þeirra sem hvíla í kirkjugarðinum yfir jólin. Reyni helst að fara á aðfangadag en ef aðstæður leyfa það ekki þá fer ég milli jóla og nýárs. Eftir að ég flutti til Siglufjarðar hef ég ekki farið þó svo að ég eigi langafa og langömmu þar.

Hvernig jólatré ertu með?

Síðustu jól vorum við með lifandi tré en ég er annars alltaf með gervi tré. Það var mjög erfið ákvörðun að skipta en ég prófaði það fyrir 8 árum og sé ekki eftir því í dag.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Ó já – The Holliday með Kate Winset og Cameron Diaz og allar jólateikimyndirnar með yngstu dótturinni.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

 Þetta árið að mestu í Reykjavík og á Akureyri.

 Ferðu á jólatónleika ?

Já, alltaf á aðventu. Ég sæki tónleika eins og ég get hér heima og á miða á Heima um Jólin á Akureyri núna.

Ferðu á brennu um áramótin?

Já hef reynt að fara en það er samt ekki fastur liður hjá mér.

Mynd úr einkasafni Lindu.

 

Fjölmenni á útgáfuhófi Síldarminjasafnsins

Fyrr í vikunni kom fyrsta sending af nýrri bók Síldarminjasafnsins til Siglufjarðar.  Var talsvert verk að koma bókunum inn á safnið, enda vógu þær 3.5 tonn á vörubrettinu. Forpantanir voru einnig sendar með pósti og ættu að berast næstu daga. Í kvöld var svo samkoma í Gránu þar sem útgáfuhóf var haldið. Lesnir voru valdir kaflar úr bókinni og einnig var hún seld á staðnum. Bókin verður einnig til sölu í Eymundsson bókabúðunum.

.

 

Rótarýklúbburinn kveikti á krossum og jólatrénu

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur kveikt á jólatrénu sem klúbburinn setti upp í kirkjugarðinum í Ólafsfirði. Samhliða var svo kveikt á leiðiskrossunum sem klúbburinn hefur einnig umsjón með.
Þetta er hátíðlega stund sem fjöldi bæjarbúa taka þátt í.  Ave Kara settur forseti klúbbsins og stjórnandi kirkjukórs Ólafsfjarðar setti athöfnina og því næst söng kirkjukórinn. Sóknarprestuirnn, séra Sigríður Munda flutti stutta hugvekju og í framhaldinu var lesið úr ritningunni.

Það voru félagar í jólatrésnefnd Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar sem söguðu niður jólatré í Ólafsfirði og settu á það ljósaséríu, áður en því var komið fyrir.

Myndir: Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar

 

Anna Kristjana er Ungskáld Akureyrar 2018

Fyrr í dag var tilkynnt um úrslit í ritlistarsamkeppninni Ungskáld 2018 við hátíðlega athöfn á Amtsbókasafninu á Akureyri. Ungu fólki á aldrinum 16-25 ára á Eyþingssvæðinu gafst kostur á að senda inn texta í keppnina og hlutu þrjú bestu verkin peningarverðlaun.  Alls bárust 82 verk í keppnina sem er tvöfalt meira en í fyrra. Engar hömlur voru settar á hvers kyns textum væri skilað inn, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurftu þó að vera á íslensku.

Niðurstaða dómnefndar, sem í sátu Hrönn Björgvinsdóttir bókavörður á Amtsbókasafninu, Kristín Árnadóttir fyrrverandi íslenskukennari við VMA og Þórarinn Torfason bókmenntafræðingur og kennari við Oddeyrarskóla, var eftirfarandi: Þriðja besta verkið var valið “Dagur á veginum” eftir Söndru Marín Kristínardóttur, í öðru sæti var “Tækifærin” eftir Önnu Kristjönu Helgadóttir og svo skemmtilega vildi til að ljóðið “Án titils” var valið í fyrsta sæti en það var einnig eftir Önnu Kristjönu.

Við upphaf athafnarinnar í dag fluttu systurnar Sólrún Svava og Sunneva Kjartansdætur lagið Schottis från Haverö eftir Duo Systrami og síðan las Tinna Sif söguna “Dagur á veginum” eftir systur sína Söndru Marín og Anna Kristjana las sín verk. Loks var boðið upp á kakó og smákökur.

Ungskáld er verkefni á Akureyri sem miðar að því að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára.  Verkefnið er hið eina sinnar tegundar á landinu.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Akureyrarstofu, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtsbókasafninu.

Verkefnið er styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

 

Á myndinni eru frá vinstri: Kristín Árnadóttir, Hrönn Björgvinsdóttir, Tinna Sif Kristínardóttir, Anna Kristjana Helgadóttir og Þórarinn Torfason.

Aðsend fréttatilkynning.