Category Archives: Sauðárkrókur

Skíðadeild Tindastóls fær nýjan snjótroðara

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur keypt snjótroðara af gerðinni Leitner Leitwolf, árgerð 2011 fyrir Skíðadeild Tindastóls.

Um er að ræða troðara sem var upptekinn á verkstæði hjá Prinorth í ágúst 2020. Snjótroðari þessi telst eign Sveitarfélagsins Skagafjarðar og er viðbót við aðrar eignir sveitarfélagsins á skíðasvæðinu í Tindastóli.

Eldur kom upp í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki

Slökkviliðið í Skagafirði var boðað út rétt fyrir kl. 23.00 í gærkvöldi vegna elds í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki.
Um var að ræða eld í útblástursröri, sem liggur frá verksmiðjunni. Eldurinn náði að læsa sig í lauslegt dót sem var fyrir neðan rörið.
Útbreiðsluhætta var lítil og greiðlega gekk að slökkva eldinn. Eignartjón er minniháttar.

Takmörkun á skólastarfi hjá FNV

Samkvæmt 5. grein reglugerðar 958/2020 er skólastarf heimilt í öllum byggingum framhaldsskóla að því tilskildu að nemendur og starfsfólk geti haft minnst 1metra fjarlægð sín á milli og hámarksfjöldi nemenda í hverri kennslustofu fari ekki yfir 30. Blöndum nemenda á milli hópa er ekki heimil.

Þetta þýðir fyrir FNV að allt almennt bóklegt nám færist í Teams. Kennsla í skóla verður áfram á eftirfarandi námsbrautum/námsgreinum: Verklegt- og fagbóklegt nám á iðnbrautum og hestabraut, starfsbraut, kvikmyndagerð, nám fyrir grunnskólanema og helgarnám í húsasmíði, rafvirkjun og sjúkraliðanámi.

Nemendur í dreifnámi mæta í dreifnámsstofur á Blönduósi, Hvammstanga og Hólmavík. Kennarar og nemendur sem mæta í skólann skulu nota grímur.

Íþróttir: Nemendur í bóknámi, sem stunda nám eingöngu í gegnum Teams, sækja verklega íþróttatíma samkvæmt stundaskrá. Nemendur í staðnámi sækja ekki verklega íþróttatíma. Kennarar nemenda í Þreksportstímum og Jóga munu hafa samband við sína nemendur um útfærslu.

Heimavistin verður opin en gestir ekki leyfðir.

Hádegismatur verður fyrir nemendur í mötuneyti klukkan 12:30 – 13:00.

Hægt er að panta viðtalstíma hjá námsráðgjafa og félagsráðgjafa í síma 455-8000 eða á eftirtöldum netföngum: margret@fnv.is og adalbjorg@fnv.is.

Bókasafnið verður lokað, en hægt er að fá aðstoð með því að senda póst á netfangið gretar@fnv.is.

Reglugerð 958/2020 er hér: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=d7c191c0-7f9b-466c-8354-ab06a6b959b6

Yfirlitsmynd af húsnæði skólans

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2020

Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir eftir tilnefningum fyrir Samfélagsverðlaun Skagafjarðar. Samfélagsverðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel. Tilnefningar þurfa að berast fyrir föstudaginn 25. september nk.
Hægt er að senda inn tilnefningu eftir þremur leiðum:
 • Senda inn rafrænt hér
 • Senda inn tilnefningu á heba(hja)skagafjordur.is
 • Skila inn skriflegri tilnefningu í afgreiðslu ráðhússins

Sæluvika 2020 haldin í lok september

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Sveitarfélagins Skagafjarðar hefur samþykkt að halda Sæluviku Skagfirðinga í lok september. Hátíðin verður haldin dagana 27. september til 3. október 2020.

Vegna aðstæðna í samfélaginu af völdum Covid-19 var ekki unnt að halda Sæluviku Skagfirðinga í lok apríl eins og hefð er fyrir.

Mikið um framkvæmdir í Skagafirði

Mikið er um framkvæmdir í Skagafirði þessa dagana og mikill uppgangur. Unnið er hörðum höndum að Sauðárkrókslínu 2 milli Varmahlíðar og Sauðárkróks og tengiviki rísa á Sauðárkróki og í Varmahlíð, en með Sauðárkrókslínu 2 eykst orkuöryggi þar sem flutningsgeta raforku til Sauðárkróks mun tvöfaldast.

Framkvæmdir eru hafnar að viðbyggingu við Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi, sem mun hýsa starfsemi leikskólans og kemur til með að stórbæta leikskólaaðstöðu á Hofsósi. Hafin er vinna við nýtt sorpmóttökusvæði í Varmahlíð og þá hefur útlit Sundlaugar Sauðárkróks breyst töluvert, en fyrsta áfanga endurbóta við sundlaugina er lokið.

Rafmagnsleysi í Skagafirði aðfararnótt 19. júní

Vegna vinnu í aðveitustöð í Varmahlíð verða rafmagnstruflanir og rafmagnsleysi í Skagafirði aðfararnótt föstudagsins 19. júní.
Rafmagnslaust verður í sveitum frá miðnætti til kl. 04:00 um nóttina.

Rafmagnstruflanir verða í Fljótum, Sléttuhlíð, Hofsós, Unadal og Deildardal kl. 23 að kvöldi fimmtudagsins og aftur að vinnu lokinni um kl. 04:00 aðfararnótt föstudags.

Keyrt verður varaafl á Sauðárkrók, Reykjaströnd og á austanverðum Skaga en búast má við truflunum og mögulegu rafmagnsleysi.  Íbúar eru kvattir til að stilla rafmagnsnotkun í hóf þessa nótt.

RARIK Norðurlandi.

Sveitarfélagið Skagafjörður hlýtur styrk úr Ísland ljóstengt

Föstudaginn 12. júní síðastliðinn hlaut Sveitarfélagið Skagafjörður styrkúthlutun að fjárhæð 23,5 milljónum króna til ljósleiðaravæðingar í dreifbýli. Kemur styrkurinn úr landsátakinu Ísland ljóstengt á grundvelli fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar. Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar veitti styrknum viðtöku.

Alls voru 443 milljónum kr. úthlutað til ljósleiðaravæðingu í dreifbýli. Námu styrkir til sveitarfélaga 317,5 milljónum kr. og fékk Neyðarlínan úthlun að fjárhæð 125,5 milljónum kr. til að leggja ljósleiðara og til uppbyggingar fjarskiptainnviða utan markaðssvæða. Þessi auka fjárveiting er liður í sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki stjórnvalda til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar COVID-19.

Sjómannadagurinn í Skagafirði

Um helgina fagna sjómenn og aðrir landsmenn sjómannadeginum með hefðbundnum hætti.  Hátíðahöld verða á Sauðárkróki á laugardeginum og á Hofsósi á sunnudeginum.

Laugardagurinn 1. júní hefst með skemmtisiglingu með Drangey SK 2 kl. 11:00 og boðið upp á fiskisúpu og pylsur að henni lokinni. Hátíðahöldin hefjast á hafnarsvæðinu kl. 12:00 og verður dorgveiðikeppni, carnival leikir, hoppukastalar og andlitsmálning ásamt kassaklifri og Hvolpasveitinni í boði. Skagfirðingasveit og Slysavarnadeildin Drangey verða með kaffisölu í neðri salnum á Kaffi Krók milli kl 12:00 og 16:00 sama dag.

Á laugardagskvöldinu er ball í íþróttahúsinu á Sauðárkróki þar sem hljómsveitin Stjórnin mun halda uppi fjörinu.

Sunnudaginn 2. júní hefst hátíðardagskráin á Hofsósi með helgistund við minnisvarðann um látna sjómenn kl 12:30. Að henni lokinni hefst dagskráin á hafnarsvæðinu þar sem verður m.a. dorgveiðikeppni, þrautabraut og sigling. Björgunarsveitin Grettir og Slysavarnardeildin Harpa verða með kaffisölu í Höfðaborg sem hefst kl 15:00.

Heimild: skagafjordur.is

Lesið úr nýjum bókum á Bókasafninu á Sauðárkróki

Í kvöld, miðvikudagskvöldið 14. nóvember  verður lesið úr nýjum bókum á bókasafninu  á Sauðárkróki og hefst samkoman kl. 20:00.

Rithöfundarnir: Arnar Már Arngrímsson, Davíð Logi Sigurðsson, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Þórdís Gísladóttir lesa úr nýútkomnum bókum sínum.

Jólate og konfekt

Allir velkomnir

 

Fræðslufundur með Jóni Jónssyni á Sauðárkróki

Jón Jónsson, tónlistarmaður og hagfræðingur fræðir ungt fólk á aldrinum 12 til 16 ára um fjármál á skemmtilegan hátt. Fundurinn verður þann 25. apríl í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra, Sauðárkróki  og hefst kl. 19:30.

Á fundinum fer Jón yfir hvernig peningar virka, mikilvægi þess að setja sér markmið og hvernig hægt er að láta peninginn endast aðeins lengur. Efnið er byggt á bókinni Ferð til fjár eftir Breka Karlsson, forstöðumann Stofnunar um fjármálalæsi.

Boðið verður upp á rútuferðir frá Kaupfélaginu á Hofsósi og Kaupfélaginu í Varmahlíð kl. 18:30.

Allir velkomnir.

Byggðarráð Skagafjarðar hafnar hækkunum

Samkvæmt samþykkt um kjör fulltrúa í stjórnum, ráðum og nefndum Sveitarfélagsins Skagafjarðar þá eru viðmið um grunnlaun, þóknanir og starfstengdan kostnað sett sem hlutfall af þingfararkaupi á hverjum tíma. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur vísað því til sveitarstjórnar að hafna hækkun á launakjörum fulltrúa í stjórnum, ráðum og nefndum sveitarfélagsins, sem leiðir af 44% hækkun þingfararkaups sem kjararáð úrskurðaði um þann Continue reading Byggðarráð Skagafjarðar hafnar hækkunum

Áhersluatriði Samfylkingar á Norðurlandi vestra

Samfylking á Norðurlandi vestra ætlar að:

 

 • efla starfsemi heilbrigðisstofnana á Norðurlandi vestra
 • leggja áherslu á matvælaöryggi, lýðheilsustefnu og landbúnað í sátt við byggð og náttúru
 • berjast fyrir bættum samgöngum um Norðurland vestra
 • ná sátt um afgjald vegna auðlindanýtingar, starfsumhverfi útgerðar og kjör sjómanna
 • styrkja löggæslu og forvarnir á öllum stærri þéttbýlisstöðum
 • standa vörð um menntastofnanir á Norðurlandi vestra og efla Háskólann á Hólum
 • tryggja öldruðum og öryrkjum 300 þúsund króna lágmarksframfærslu
 • styðja við uppbyggingu á nýjungum í atvinnulífi í sátt við umhverfið
 • tryggja foreldrum 600 þúsund króna hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi

ss

Swing Kompaníið með tónleika í Sauðárkrókskirkju

Mánudaginn 14. desember mun hljómsveitin Swing Kompaníið halda tónleika í Sauðárkrókskirkju. Með hljómsveitinni munu koma fram kirkjukór Sauðárkrókskirkju og Barnakór Sauðárkrókskirkju undir stjórn Rögnvalds Valbergssonar. Tónleikarnir bera yfirskriftina ,,Jólafönn” og er óhætt að fullyrða að þar sé eitthvað á boðstólnum fyrir alla. Einstaklega skemmtilegar og hressandi útsetningar á jólalögum í bland við hátíðleika skapa einstakan atburð sem enginn má láta fram hjá sér fara.
Swing Kompaníið skipa þau Greta Salóme fiðluleikari og söngkona, Unnur Birna Björnsdóttir fiðluleikari og söngkona, Lilja Björk Runólfsdótir söngkona, Gunnar Hilmarsson gítarleikari, Leifur Gunnarsson bassaleikari og Óskar Þormarsson trommuleikari.
Tónleikarnir hefjast kl 20:30 og er miðasala á tix.is undir nafninu Jólafönn. Einnig er hægt að kaupa miða við innganginn.
800x600px-mynd

Innritun í fjarnám Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Innritun í fjarnám FNV er frá 25. nóvember 2014 til 4. janúar 2015. Upplýsingar um námsframboð og námsgjöld eru á heimasíðu skólans undir umsóknir fyrir fjarnema.

Allt fjarnám er án aldurstakmarkana (25 ára og eldri einnig velkomnir) Nánari upplýsingar veitir Sigríður Svavarsdsóttir umsjónarmaður fjarnáms. sirry@fnv.is

Undankeppni Samfés í Miðgarði

Söngkeppni Friðar verður haldin í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði þann 12. desember næstkomandi og eru nemendur 8. – 10. bekkjar, sem hafa áhuga á að taka þátt, hvattir til að hafa samband við Hús frítímans. Keppnin er undankeppni söngkeppni Samfés sem fer fram árlega í byrjun mars en þangað komast 30 atriði að undangengnum forkeppnum í hverjum landshluta. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir sigurvegara og aðra.

Heimild: skagafjordur.is

Ljótu Hálfvitarnir spila í Miðgarði

Ljótu hálfvitarnir ljúka starfsárinu með tónleikum í Miðgarði í Skagafirði föstudaginn 19. september næstkomandi. Fyrir vikið stefnir hljómsveitin á að hækka í botn og skrúfa vel frá öllum fíflalátakrönum.

Staðarvalið er vel við hæfi. Það er alltaf tilhlökkun í hálfvitarrútunni þegar keyrt er í Miðgarð. Þar er gott að spila og oft myndast ólýsanleg stemming, eða allavega stemming sem óráðlegt er að lýsa í smáatriðum í opinberum fjölmiðli. Fólk verður bara að vera þarna sjálft.

Forsjálir Skagfirðingar geta nálgast miða fram að tónleikunum hjá N1 á Sauðárkróki og í KS í Varmahlíð. Og svo bara við innganginn. Herlegheitin hefjast klukkan níu.

4689577622_e742be189f_z

Mikil gróska í starfi Frjálsíþróttadeildar Tindastóls

Aðalfundur Frjálsíþróttadeildar Tindastóls var haldinn 21. febrúar. Í skýrslu formanns kom fram að mikil gróska er í starfinu og íþróttafólkið í sókn.  Reikningar deildarinnar sýna að fjárhagslega stendur deildin vel, er skuldlaus, og var rekin með nokkrum hagnaði á síðasta ári.

 

 • Þeir stjórnarmenn, sem gáfu kost á sér, voru endurkjörnir í stjórn:
 • Sigurjón Viðar Leifsson er formaður,
 • Guðrún Ottósdóttir gjaldkeri,
 • Eiður Baldursson ritari og
 • Hafdís Ólafsdóttir meðstjórnandi.
 • Skipað verður í eitt sæti síðar, en Þórunn Ingvadóttir gaf ekki kost á endurkjöri.

 

Heimild: www.tindastoll.is

Fjöldi lúsatilfella í Árskóla á Sauðárkróki

Tilkynning frá Skólaheilsugæslunni Árskóla:

Við viljum brýna fyrir fólki að vera vel á verði næstu vikurnar og skoða og kemba hár barna sinna reglulega. Þeir sem nú þegar hafa fengið lús þurfa sérstaklega að fylgjast vel með því oft lifir nitin (egg lúsarinnar) af meðferð lúsameðala og þá getur lúsin kviknað aftur. Til að hindra útbreiðslu er gott ef börn eru með buff eða hárbönd og stúlkur með sítt hár ættu að hafa það bundið í teygju eða fléttu. Ræðið gjarnan um það við börnin að ekki ætti að skiptast á húfum eða hárburstum og góð regla er að skoða vel í hár barna sem hafa gist að heiman eða verið í ferðalögum og keppnisferðum.
Lúsasmit ber að tilkynna til skóla eða heilsugæslu og mikilvægt að láta leikfélaga, ættingja eða aðra sem barnið er mikið í umgengni við, vita.
Hægt er að leita upplýsinga hjá skólahjúkrunarfræðingi (Margrét 8475691).
Gangi ykkur vel.