Tíu sumarstörf námsmanna auglýst í Fjallabyggð

Fjölbreytt og áhugaverð sumarstörf í Fjallabyggð eru í boði fyrir námsmenn sem eru 18 ára og eldri og á milli anna í námi. Námsmenn í háskólanámi eru sérstaklega hvattir til að sækja um. Störfin eru hluti af atvinnuátaki Fjallabyggðar í samstarfi við Vinnumálastofnun og eru 10 störf í boði í tvo mánuði hvert.

Störfin eru af ýmsum toga og má nefna:

 • Umhverfisstörf sem felast í fegrun umhverfis og ásýndar sveitarfélagsins
 • Störf sem snúa að menningarstarfi m.a. vinnu við ljósmyndun og skráningu á Listaverkasafni Fjallabyggðar
 • Störf sem snúa að markaðsvinnu í sveitarfélaginu
 • Störf við flokkun og skráningu skjala
 • Störf sem snúa að félagslegri þátttöku eldri borgara

Eftirfarandi hæfniskröfur eru gerðar:

 • Lipurð í mannlegum samskiptum, háttvísi og kurteisi
 • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
 • Jákvæðni, starfsgleði, frumkvæði og sveigjanleiki
 • Samviskusemi og stundvísi

Sótt er um störfin í gegnum Íbúagátt og er umsóknarfrestur til og með 4. júní 2020.

Upplýsingar um menntun og fyrri störf sem og staðfestingu á námi þurfa að fylgja umsókn. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við hlutaðeigandi stéttarfélag.

Nánari upplýsingar um störfin veitir Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála gudrun@fjallabyggd.is, sími 4649104.

32 brautskráðir frá Menntaskólanum á Tröllaskaga

Tuttugasta brautskráning frá Menntaskólanum á Tröllaskaga fór fram við mjög óvenjulegar aðstæður um helgina. Þrjátíu og tveir nemendur brautskráðust en samtals hafa 343 útskrifast frá skólanum frá upphafi. Tólf brautskráðust af félags- og hugvísindabraut, sjö af íþrótta- og útivistarbraut, fimm af kjörnámsbraut, þrír af myndlistarsviði listabrautar, þrír af náttúruvísindabraut, einn af stúdentsbraut að loknu starfsnámi og einn af starfsbraut.  Af þeim 32 sem brautskráðust voru 22 fjarnemar sem koma víða að. Í upphafi vorannar voru nemendur við skólann 388. Þar af voru 312 í fjarnámi. Meira en helmingur þeirra býr á höfuðborgarsvæðinu. Á vorönninni voru nemendur flestir á félags- og hugvísindabraut 172, næst flestir voru á náttúruvísindabraut 63, á listabraut voru 44 og 35 á íþróttabraut. Þetta kemur fram á vef mtr.is.

Talið að yfir 1000 fái sumarstörf á Akureyri

Um 100 störf fyrir námsmenn voru auglýst í atvinnuátaki Akureyrarbæjar og Vinnumálastofnunar. Þetta eru fjölbreytt störf, meðal annars á söfnum, útivistarsvæðum, íþróttafélögum og skrifstofum bæjarins. Meðal verkefna eru smíði, stígagerð, merking gönguleiða, safnvarsla, vefsíðuvinna og almenn skrifstofustörf. Umsóknarfrestur rann út 24. maí fyrir þessi störf.

Hins vegar er almennt atvinnuátak Akureyrarbæjar fyrir 18-25 ára og þar er markmiðið að tryggja öllum vinnu sem sækja um og uppfylla skilyrði. Gert er ráð fyrir að í boði verði vinna í fimm vikur, sjö tíma á dag, en komið gæti til þess að tímafjöldi verði endurskoðaður ef fjöldi umsókna verður umtalsverður. Umsóknarfrestur er til og með 31. maí nk.

Að frátöldum átaksverkefnum hjá Akureyrarbæ þá hafa 344 verið ráðin í almenn sumarstörf á hinum ýmsu sviðum Akureyrarbæjar. Flestar sumarafleysingar eru hjá Öldrunarheimilum Akureyrar en einnig eru býsna mörg sumarstörf í búsetu- og heimaþjónustu. Þá er þó nokkur fjöldi sem kemur til með að vinna við umhirðu í bæjarlandinu, í leikskólum, sundlaugum og margt fleira.

Akureyrarbær sótti einnig um styrk hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna vegna 13 sumarstarfa. Þar er um að ræða spennandi verkefni fyrir háskólanema í grunn- og meistaranámi sem verða auglýst nánar fljótlega.

Vinnuskóli Akureyrar verður starfræktur í sumar fyrir börn og ungmenni á aldrinum 14-17 ára. Nú þegar hafa yfir 500 börn og ungmenni sótt um í Vinnuskólann.

Þegar allt er talið má ætla að yfir eitt þúsund fái vinnu hjá Akureyrarbæ í sumar.

Vinnuskóli Fjallabyggðar hefst 8. júní

Vinnuskóli Fjallabyggðar er fyrir ungmenni sem nýlokið hafa 8., 9. eða 10.bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Skólinn hefst mánudaginn 8. júní kl. 8.30 hjá öllum. Nemendur búsettir á Siglufirði mæta í Áhaldahús FJallabyggðar. Nemendur búsettir á Ólafsfirði mæta í aðstöðu Áhaldahúss (norðan við Skiltagerð).

Áætlaður lokadagur Vinnuskólans er 31. júlí. Þó gefst ungmennum sem lokið hafa 10. bekk kostur á að vinna til 7. ágúst.

Vinnutími:

Ungmenni sem nýlokið hafa 8. bekk: Mætt er fyrir hádegi fimm daga í viku, frá kl.8:30 til kl.12. Einnig er hægt að haga vinnu þannig til ef einstaklingur vill frekar vinna frá 13:00 – 16:30 þá er það í boði líka.Daglegur vinnutími reiknast 3,5 klst. eða 17,5 tímar á viku.

Ungmenni sem nýlokið hafa 9. eða 10. bekk: Unnið frá kl.8:30 til 12 og frá kl. 13:00 til 16:30. Daglegur vinnutími reiknast 7 klst. Unnið er 3,5 klst. fyrir hádegi á föstudögum. Samtals möguleiki á 35 klst. vinnu á viku.

Vinnuskólinn áskilur sér rétt til að takmarka frekar vinnutíma ef skráning fer fram úr áætlunum.

Dagskrá

Almenn störf og áherslur í Vinnuskóla eru garðyrkja, gróðursetning, hirðing á lóðum og opnum svæðum bæjarins. Einnig eru í boði nokkur aðstoðarstörf hjá íþróttafélögum við leikjanámskeið fyrir þau ungmenni sem eru að ljúka 9. eða 10. bekk. Hægt er að merkja við þessi aðstoðarstörf inn á skráningareyðublaðinu. Ofangreindir aðilar fá síðan listann og velja til sín af honum.

Athugið að vinnutími unglinga í aðstoðarstörfum hjá félögum er í einhverjum tilvikum aðlagaður að tímasetningu sumarnámskeiða sem sum hver geta verið fram í ágúst.

Smíðaskóli fyrir börn sem nýlokið hafa 1. – 7. bekk hefur verið rekin tvö undanfarinn ár og gengið vel á Siglufirði.  Hann verður í boði í báðum byggðarkjörnum.

Laun

Allar tölur eru án orlofs:

 • Unglingar sem nýlokið hafa 8. bekk 35% af lfl. 117 kr. 675,98 pr.klst. 3,5 klst. á dag mán-fös.
 • Unglingar sem nýlokið hafa 9. bekk 40% af lfl. 117 kr. 772,55 pr.klst. 7 klst. á dag mán-fim 3,5 klst á fös.
 • Unglingar sem nýlokið hafa 10. bekk 60% af lfl. 117 kr. 1.158,73 pr.klst. 6,0 klst. á dag mán-fim 3,5 klst á fös.

Fimm sóttu um stöðu Lögreglustjóra á Norðurlandi eystra

Fimm umsóknir bárust um stöðu lögreglustjóra á Norðurlandi eystra sem auglýst var laus til umsóknar, en umsóknarfrestur rann út 25. maí síðastliðinn. Hæfnisnefnd mun í framhaldinu meta umsækjendur.

Eftirtaldir sóttu um stöðuna. Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir, aðstoðarsaksóknari hjá embætti Héraðssaksóknara, Halldóra Kristín Hauksdótti, lögmaður hjá Akureyrarbæ, Hreiðar Eiríksson, lögfræðingur hjá Fiskistofu, Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum og Sigurður Hólmar Kristjánsson, saksóknarfulltrúi og staðgengill lögreglustjóra á Norðurlandi vestra.

Átta opinber störf færast á Sauðárkrók

Átta opinber störf færast á Sauðárkrok á næstunni með breytingum á sviði brunavarna, en þær heyra undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) eftir sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar um síðustu áramót. Sú eining sem sinnir skipulagningu brunaeftirlits verður þar með hluti af starfsstöð HMS á Sauðárkróki. Fyrir starfa þar um tuttugu manns við úthlutun húsnæðisbóta, í þjónustuveri og bakvinnslu fyrir húsnæðissvið HMS. Fjölgun þeirra sem sinna brunamálum er ein af þeim aðgerðum sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, leggur áherslu á til að að efla umgjörð brunamála og brunavarna á Íslandi. Um er að ræða bæði stjórnunarstörf og störf sérfræðinga og verða nokkur þeirra auglýst laus til umsóknar á næstunni.

 

Með þessu er ráðherrann að bregðast við ábendingum í nýrri skýrslu um málaflokkinn sem gerð verður opinber á næstunni. Í skýrslunni, sem unnin var af starfshópi skipuðum af stjórn HMS, kemur m.a. fram að nauðsynlegt sé að efla og stækka slökkviliðin á landsbyggðinni. Einnig þurfi að uppfæra regluverk brunamála og gefa út leiðbeiningar um eftirfylgd reglugerða. Þá þurfi heilt yfir að efla stjórnsýslu málaflokksins. Skýrslan mun verða birt í heild sinni á næstu dögum.

 

Aðdragandi skýrslugerðar um stöðu brunamála hér á landi

Við framlagningu frumvarps um sameiningu Mannvirkjastofnunar og íbúðalánasjóðs í HMS lýstu sumir umsagnaraðilar yfir áhyggjum af því hvort vægi brunamála yrði nægilega mikið innan nýrrar stofnunar. Til að bregðast við þessum sjónarmiðum var, fljótlega í kjölfar sameiningarinnar, stofnaður starfshópur um stöðu brunamála með aðkomu ytri ráðgjafa. Starfshópnum var falið að greina núverandi stöðu bruna brunamála, kanna skipulega viðhorf helstu sérfræðinga og hagsmunaaðila málaflokksins og gera tillögur að úrbótum.

Í skýrslu starfshópsins kemur m.a. fram að staða brunamála á Íslandi sé nokkuð góð í samanburði við nágrannalöndin. Tjón af völdum eldsvoða sé minna hér á landi, hvort sem litið sé til mannslífa eða eigna. Þó telja skýrsluhöfundar það áhyggjuefni að síðustu ár hafi tjón vegna bruna verið að aukast og brýnt sé að finna leiðir til að stöðva þá þróun. Nauðsynlegt sé að stórefla brunaeftirlit og gerð brunavarnaráætlana. Vilja skýrsluhöfundar koma í veg fyrir að tjón vegna eldsvoða aukist enn frekar hér á landi vegna stærri, flóknari og dýrari bygginga sem reistar hafa verið á síðustu árum.

Ríkisvaldið hefur ríkum skyldum að gegna í brunamálum

Slökkvilið á hverjum stað eru á forræði sveitarfélaga en ríkisvaldið fer, sem áður segir, með stjórnsýslu brunamála á vettvangi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Ríkið hefur því bæði skyldum að gegna sem eftirlitsaðili auk þess að sinna víðtæku samræmingar- og stefnumörkunarhlutverki. Félags- og barnamálaráðherra hyggst á næstunni beita sér fyrir sérstöku átaki í bruna- og eiturefnavörnum og hefur hug á að veita auknu fjármagni í málaflokkinn sem mun stuðla að menntun slökkviliðsmanna og efla starf slökkviliða á landsbyggðinni.

 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Brunamálin eru gríðarlega mikilvægt hagsmuna- og öryggismál, eins og við erum því miður reglulega minnt á. Líkamstjón, svo ekki sé talað um manntjón, er hræðilegt gjald sem við greiðum fyrir skort á fræðslu, brunaeftirliti og brunavörnum almennt. Við getum ekki komið í veg fyrir allt brunatjón en við getum fækkað tilfellunum og stuðlað að því að þau verði ekki of dýru verði keypt fyrir samfélagið allt. Við viljum og eigum að stórefla brunavarnir. Einn liður í því er að fjölga þeim sem sinna eftirliti með að lögum og reglum sé framfylgt á öllum stigum, allt frá byggingu mannvirkja til þjálfunar slökkviliða, rannsókna á orsökum og fræðslu til almennings. Ríkisstjórnin hefur skýran vilja til að styðja og styrkja þær fáu stofnanir sem eru á landsbyggðinni. Þessar umbætur sem við höfum sett á oddinn í brunamálum eru mjög mikilvægar og munu skila okkur sterkari innviðum og viðbúnaði um land allt og um leið fjölga störfum.“

 

Davíð Snorrason, forstöðumaður brunavarna hjá HMS: „Það hefur verið þörf á að bæta verulega í brunamálin í dálítinn tíma. Við verjum ekki nema hluta þeirra gjalda sem innheimt eru með byggingaröryggisgjaldinu til þeirra verkefna sem áskilið er í lögunum. Ráðherra hefur sagst vilja lyfta grettistaki í málaflokknum og þannig styrkja innviði og viðbúnað um land allt. Það er í takti við það sem fram kom í umsögnum og umræðum í kringum sameiningu þessarar stofnana í HMS. Við vitum að það þarf að sinna betur lögbundnu eftirliti með slökkviliðum og brunavörnum. Hluti starfsemi HMS er nú þegar á Sauðárkróki og það er mat sameinaðrar stofnunar að það henti vel að vera með brunamálin þar. Brunaeftirliti á vettvangi er í dag útvistað til byggingarfulltrúa og annarra aðila á hverjum stað. Alls eru það um 500 manns sem koma að því. Umsjón með eftirlitinu getur verið hvar sem er á landinu, sem og þróun og umsjón með menntun slökkviliðsmanna. Ég tek fram að þó að sú eining verði framvegis á Sauðárkróki þá mun kennslan í Brunamálaskólanum áfram fara fram á SV-horninu og víða um land, í samvinnu við stærri slökkviliðin.“

Ársreikningur Fjallabyggðar samþykktur í bæjarstjórn

Jákvæð rekstrarniðurstaða A og B hluta bæjarsjóðs Fjallabyggðar fyrir árið 2019 var jákvæð um 391,7 millj. kr. og A hluta um 266,7 millj. kr. Veltufé frá rekstri nam 671 millj. kr. eða 21.5% af tekjum og batnaði lítillega á milli ára. Vaxtaberandi skuldir voru um áramót 348 millj. kr. en voru 582 millj. kr 2018. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.820 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi en eigið fé A hluta um 3.414 millj. kr.

Fram kemur í áritun bæjarstjóra og bæjarstjórnar Fjallabyggðar, að Covid-19 heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir mun hafa veruleg áhrif á mörgum sviðum um allan heim þar með talið efnahagsleg. Veruleg óvissa ríkir um endanleg áhrif faraldursins s.s. vegna óvissu um hve lengi hann muni vara og hver áhrifin verða eftir að honum líkur. Vænta má að áhrif á rekstur Fjallabyggðar verði umtalsverð á yfirstandandi ári m.a. vegna lægri skatttekna og annarra tekna, frestun gjalddaga og aukinna útgjalda. Sú sterka staða Fjallabyggðar sem birtist í framlögðum ársreikningi mun klárlega hjálpa á núverandi og komandi óvissutímum.

Hægt er að lesa allan ársreikninginn á síðu Fjallabyggðar.

Herbergjanýting hótela á Norðurlandi aðeins 2,5% í apríl

Heildarfjöldi greiddra gistinátta á landinu í apríl síðastliðnum dróst saman um 96% samanborið við apríl 2019. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 97% og um 93% á gistiheimilum. Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 20.800 í apríl en þær voru um 519.000 í sama mánuði árið áður. Um 68% gistinátta voru skráðar á Íslendinga, eða um 14.200, en um 32% á erlenda gesti eða um 6.600 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 13.500, þar af 9.200 á hótelum. Gistinætur á öðrum tegundum gististaða voru um 7.300.

Á Norðurlandi voru aðeins 689 herbergi í boði í apríl og er það 40,3% fækkun frá apríl 2019. Herbergjanýting á Norðurlandi var aðeins 2,5% í apríl miðað við 36% í apríl 2019. Þetta má lesa úr tölum Hagstofu Íslands.

Fámennið er aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn

Ferðamenn sjá það sem mikinn kost að á Norðurlandi er hægt að upplifa fámenni, víðáttu og ósnorta náttúru, en slíkt verður að teljast kostur í því ástandi sem ferðaþjónusta í öllum heiminum er í um þessar mundir. Norðurljós, hvalaskoðun og gönguferðir eru þeir möguleikar í afþreyingu sem flestir ferðamenn nefndu í sérstakri viðtalsrannsókn, og helstu seglarnir eru Akureyri, Mývatn, Dettifoss og fossar almennt.

Ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi stýra sinni eigin markaðssetningu sjálf, þó meirihluti þeirra kaupi sér sérfræðiaðstoð þegar á þarf að halda. Bókunarsíður og ferðaheildsalar gegna veigamiklu hlutverki, þá sérstaklega þær fyrrnefndu sem ný fyrirtæki nýta sér mikið.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum úr rannsókn á markaðssetningu ferðaþjónustufyrirtækja og sveitarfélaga á Norðurlandi, sem unnin var af Rannsóknarmiðstöð ferðamála í samstarfi við Háskólann á Hólum á síðasta ári fyrir Markaðsstofu Norðurlands.

Niðurstöðurnar má skoða nánar hér.

Búið að klæða Pálshús og sýningaropnun í dag

Búið er að klæða Pálshús í Ólafsfirði að utanverðu en unnið hefur verið að því hörðum höndum síðustu vikur og mánuði. Sumaropnun er í dag, laugardaginn 30. maí, hægt verður að sjá fuglasafnið og sögu Ólafsfjarðarvatns. Þá opnar Árni Rúnar Sverrisson myndlistasýninguna “Ferðasaga” í sýningarsalnum. Sýningin stendur til 26. júlí nk.

Safnið opnar kl. 14:00 í dag og eru allir hvattir til að mæta.

Efri hæðin – Ólafsfjarðarstofa verður formlega opnuð 1. ágúst 2020.


Mynd frá Björn Þór Ólafsson.

Íslenskir ferðamenn komnir á tjaldsvæðið á Sauðárkróki

Þessa Hvítasunnuhelgi flykkjast ferðamenn á Norðurland, en veðurspáin hefur verið afar góð fyrir þessa löngu ferðahelgi. Á tjaldsvæðinu á Sauðárkróki má finna húsabíla, hjólhýsi og tjald, og ljóst er að íslenskir ferðamenn ætla sér að nýta helgarnar vel í sumar. Hitinn á flugvellinum á Sauðárkróki kl. 9:00 í morgun var kominn yfir 11° og stefnir í góðan dag í Skagafirði.

Mynd frá Flæðarnar á Króknum.

Íslenskir ferðamenn mættir til Fjallabyggðar

Íslenskir ferðamenn eru mættir í langa helgi til Fjallabyggðar. Á tjaldsvæðinu á Siglufirði var ferðafólk mest á húsbílum eða með hjólhýsi í eftirdragi. Veðurspáin fyrir Norðurland og Norðausturland er góð þessa Hvítasunnuhelgina. Hitinn á Siglufirði var að nálgast 14° núna kl. 9:00 í morgun, og fór næturhitinn aðeins niður í 7° gráður. Nóg er um að vera þessa helgina í Fjallabyggð, söfn og sýningar eru opnar, og fjölbreyttir veitingastaðir fyrir alla fjölskylduna.

Mynd frá Tjaldsvæði Fjallabyggðar.

Mynd frá Tjaldsvæði Fjallabyggðar.
Mynd: Tjaldsvæði Fjallabyggðar.

Umfangsmiklar aðgerðir til eflingar Skagafirði

Á undanförnum vikum hefur Sveitarfélagið Skagafjörður unnið að tillögum til viðspyrnu fyrir samfélagið vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 veiran hefur haft í för með sér. Tillögurnar hafa verið ræddar og mótaðar í góðri samvinnu allra flokka í byggðarráði sveitarfélagsins síðan í mars síðastliðnum og hafa sumar þeirra þegar komið til framkvæmda.

Um er að ræða umfangsmiklar aðgerðir sem snerta fjölmörg svið samfélagsins. Má þar nefna stuðningsaðgerðir við heimili, fyrirtæki og félagasamtök, aðgerðir til örvunar fasteignamarkaðs, fjölgun starfa – tímabundinna sem varanlegra, auknar fjárfestingar ásamt fjölda annarra uppbyggingaráforma á vegum sveitarfélagsins, ríkisins og einkaaðila á árunum 2020-2021. Þá hafa á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra verið veittar 50 m.kr. til sérstakra átaksverkefna vegna áhrifa Covid-19.

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur þegar samþykkt fjárveitingar til fjárfestinga og viðhalds á árinu 2020 að upphæð ríflega 500 m.kr. Að auki er sveitarfélagið reiðubúið að auka við þær framkvæmdir um allt að ríflega 180 m.kr. sem innspýtingu inn í hagkerfið á svæðinu. Hluti þessara fjárfestinga er vegna hlutdeildar sveitarfélagins í samvinnuverkefnum með ríkinu en áætlaðar framkvæmdir ríkisins í Skagafirði á árinu 2020 nema um 2,5 milljörðum króna. Stærstu verkefnin þar eru framkvæmdir á vegum Landsnets og Rarik í tengslum við Sauðárkrókslínu 2 og framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar í höfnum og sjóvörnum á Sauðárkróki og Hofsósi. Samtals nema fjárfestingar sveitarfélagsins og ríkisins á svæðinu á árinu 2020 því um 3,2 milljörðum króna.

Til þess að efla atvinnu á svæðinu, auka fjölbreytni hennar enn frekar og fjölga atvinnutækifærum, skrifuðu iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrr í vikunni undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu koltrefjaframleiðslu í Skagafirði. Samræmist viljayfirlýsingin stefnu stjórnvalda um eflingu nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi og samkeppnishæfni Íslands á sviði nýfjárfestingar, sérstaklega á dreifbýlum svæðum líkt og á Norðurlandi vestra.

Meðal mikilvægra framkvæmda sem framundan eru má einnig nefna uppbyggingu íbúðar- og leiguhúsnæðis en fyrirhuguð er uppbygging allt að 30 íbúða á Sauðárkróki og í Fljótum á næstu mánuðum, auk þess sem unnið er að undirbúningi 40-80 íbúða til viðbótar á komandi misserum.

Á vegum Sveitarfélagsins Skagafjarðar verða sköpuð um 140 störf nú í sumar en einnig munu verða auglýst um 20 ný sumarstörf í tengslum við ævintýrabúðir Reykjadals í Háholti í Skagafirði. Þá hefur félags- og barnamálaráðherra tilkynnt 8 ný varanleg störf hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á Sauðárkróki.

Með þessum aðgerðum til viðspyrnu vonast sveitarfélagið til þess að draga úr þeim áhrifum sem afleiðingar Covid-19 hafa haft á skagfirskt samfélag og snúa vörn í sókn með velferð íbúa að leiðarljósi og enn frekari styrkingu samkeppnisfærni þess þegar kemur að búsetu, atvinnu og vellíðan íbúanna.

Talið að yfir 1000 fái sumarstörf á Akureyri í sumar

Um 100 störf fyrir námsmenn voru auglýst í atvinnuátaki Akureyrarbæjar og Vinnumálastofnunar. Þetta eru fjölbreytt störf, meðal annars á söfnum, útivistarsvæðum, íþróttafélögum og skrifstofum bæjarins. Meðal verkefna eru smíði, stígagerð, merking gönguleiða, safnvarsla, vefsíðuvinna og almenn skrifstofustörf. Umsóknarfrestur rann út 24. maí fyrir þessi störf.

Hins vegar er almennt atvinnuátak Akureyrarbæjar fyrir 18-25 ára og þar er markmiðið að tryggja öllum vinnu sem sækja um og uppfylla skilyrði. Gert er ráð fyrir að í boði verði vinna í fimm vikur, sjö tíma á dag, en komið gæti til þess að tímafjöldi verði endurskoðaður ef fjöldi umsókna verður umtalsverður. Umsóknarfrestur er til og með 31. maí nk.

Að frátöldum átaksverkefnum hjá Akureyrarbæ þá hafa 344 verið ráðin í almenn sumarstörf á hinum ýmsu sviðum Akureyrarbæjar. Flestar sumarafleysingar eru hjá Öldrunarheimilum Akureyrar en einnig eru býsna mörg sumarstörf í búsetu- og heimaþjónustu. Þá er þó nokkur fjöldi sem kemur til með að vinna við umhirðu í bæjarlandinu, í leikskólum, sundlaugum og margt fleira.

Akureyrarbær sótti einnig um styrk hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna vegna 13 sumarstarfa. Þar er um að ræða spennandi verkefni fyrir háskólanema í grunn- og meistaranámi sem verða auglýst nánar fljótlega.

Vinnuskóli Akureyrar verður starfræktur í sumar fyrir börn og ungmenni á aldrinum 14-17 ára. Nú þegar hafa yfir 500 börn og ungmenni sótt um í Vinnuskólann.

Þegar allt er talið má ætla að yfir eitt þúsund fái vinnu hjá Akureyrarbæ í sumar.

Umhverfisátak á fjórum svæðum í Fjallabyggð

Fyrirhuguð er tiltekt á fjórum svæðum í Fjallabyggð með það að markmiði að fegra og bæta umhverfið.  Þeir sem gera tilkall til einhverra af þeim hlutum sem á svæðunum eru skulu fjarlægja þá fyrir 31. maí nk. eða hafa samband við tæknideild Fjallabyggðar.

Svæðin eru þessi:

 • Vesturtangi á Siglufirði
 • Svæði vestan við Óskarsbryggju á Siglufirði
 • Lóð númer 4 við Námuveg í Ólafsfirði
 • Gámasvæði við smábátahöfn í Ólafsfirði

 

10 sumarstörf námsmanna auglýst í Fjallabyggð

Fjölbreytt og áhugaverð sumarstörf í Fjallabyggð eru í boði fyrir námsmenn sem eru 18 ára og eldri og á milli anna í námi. Námsmenn í háskólanámi eru sérstaklega hvattir til að sækja um. Störfin eru hluti af atvinnuátaki Fjallabyggðar í samstarfi við Vinnumálastofnun og eru 10 störf í boði í tvo mánuði hvert.

Störfin eru af ýmsum toga og má nefna:

 • Umhverfisstörf sem felast í fegrun umhverfis og ásýndar sveitarfélagsins
 • Störf sem snúa að menningarstarfi m.a. vinnu við ljósmyndun og skráningu á Listaverkasafni Fjallabyggðar
 • Störf sem snúa að markaðsvinnu í sveitarfélaginu
 • Störf við flokkun og skráningu skjala
 • Störf sem snúa að félagslegri þátttöku eldri borgara

Eftirfarandi hæfniskröfur eru gerðar:

 • Lipurð í mannlegum samskiptum, háttvísi og kurteisi
 • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
 • Jákvæðni, starfsgleði, frumkvæði og sveigjanleiki
 • Samviskusemi og stundvísi

Sótt er um störfin í gegnum Íbúagátt og er umsóknarfrestur til og með 4. júní 2020.

Upplýsingar um menntun og fyrri störf sem og staðfestingu á námi þurfa að fylgja umsókn. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við hlutaðeigandi stéttarfélag.

Nánari upplýsingar um störfin veitir Guðrún Sif Guðbrandsdóttir deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála gudrun@fjallabyggd.is, sími 4649104.

Aðalfundarboð Menningarfélagsins Bergs

Stjórn Menningarfélagsins Bergs ses. boðar til aðalfundar félagsins, fimmtudaginn 28. maí 2020, kl. 14:00 í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík.

Vinsamlegast staðfestið mætingu í síma 823-8616 eða á netfanginu berg@dalvikurbyggd.is fyrir 21. maí næstkomandi.

Dagskrá:

 1. Skýrsla Menningarfélagsins Bergs ses.
 2. Ársreikningur Menningarfélagsins Bergs ses.
 3. Kynning á starfsáætlun fyrir komandi starfsár.
 4. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna.
 5. Kosning stjórnarmanna skv. skipulagsskrá þessari og varamanna þeirra.
 6. Kosning löggilds endurskoðanda félagsins.
 7. Önnur mál.

Átaksverkefni í Dalvíkurbyggð skapar 12 sumarstörf fyrir ungmenni

Dalvíkurbyggð hefur auglýst 12 spennandi sumarstörf fyrir 18 ára og eldri ungmenni í Dalvíkurbyggð. Einnig fylgir þessum störfum eitt starf verkefnisstjóra eldri en 25 ára. Þessi störf eru hluti af viðbragðsáætlun Dalvíkurbyggðar til að mæta atvinnuástandi í sveitarfélaginu í kjölfar Covid-19 en nýleg könnun meðal fyrirtækja í Dalvíkurbyggð sýnir að 71,4% fyrirtækjanna munu ráða færri einstaklinga til sumarstarfa en í fyrra.

Um er að ræða fjölbreytt störf í tveimur hópum og er starfstíminn tveir mánuðir, júní og júlí. Einnig er eitt starf á umhverfissviði Dalvíkurbyggðar sem felst í skráningu í gagnagrunn o.fl. og hentar nemum t.d. í byggingarfræðum eða arkitektúr.

Annar hópurinn er með áherslu á menningu og listir ásamt því að koma að leikjanámskeiðum barna á aldrinum 6-12 ára.

Hinn hópurinn er með áherslu á umhverfi og sjálfbærni og mun koma að margvíslegri útivinnu í Friðlandinu, Fólkvanginum, skógreitum og opnum svæðum í byggðarlaginu.

Átta ofangreindra starfa eru styrkt af Vinnumálastofnun í átakinu sumarstörf námsmanna en Dalvíkurbyggð áætlar að verja um 10 miljónum króna í verkefnið. Umsóknarfrestur um þessi störf er til og með 24. maí.

Með þessu átaki vonast bæjaryfirvöld til að geta mætt þeim ungmennum í Dalvíkurbyggð sem ekki hafa fengið sumarvinnu nú þegar. Einnig er verið að skoða hvort bjóða þurfi upp á sérúrræði fyrir aldurshópinn 16-18 ára og þá í tengslum við Vinnuskólann. Aðsóknin í vinnuskólanum er 40% meiri en undanfarin ár og hefur ekki verið svona mikil ásókn í vinnu þar síðan um 2009. Flokksstjórar munu hefja störf í byrjun júní og svo mæta unglingarnir til vinnu 8. júní. Það verður því líf og fjör í Dalvíkurbyggð í sumar.

Sundlaugar Fjallabyggðar opnar á ný

Sundlaugar Fjallabyggðar hafa verið opnaðar á ný. Opnun lauganna er þó háð þeim takmörkunum að aðeins mega 50 manns vera á laugarsvæði hverrar laugar hverju sinni. Gestir eru benir að virða tveggja metra relguna í afgreiðslu og í búningsklefum og velja skápa og snaga eftir því. Engar hárþurrkur verða í boði á meðan þetta ástand varir.

Eftirfarandi leiðbeiningar hafa verið gefnar út fyrir sundlaugargesti og eru þeir vinsamlegast beðnir að hafa þær í huga.

Athugið að 2ja metra reglan er valkvæð en gestir eru beðnir um að taka tillit til þeirra sem vilja halda fjarlægð. Á einni braut er hægt að synda án þess að vera í nánd við aðra.

STÓLAR – BORÐ – LEIKFÖNG – KAFFI:
Ekki verður boðið upp á kaffi að svo stöddu og stólar og borð fjarlægð sökum smithættu. Sama á við um leikföng. Handakúta er hægt að fá hjá laugarverði og ber að skila þeim aftur til laugarvarðar eftir notkun til sótthreinsunar.

HEITIR POTTAR:
Mikilvægt er að virða 2 metra regluna í heitum potti. Einnig er góð regla að vera ekki of lengi til þess að sem flestir geti notið þess að fara í pottinn.

GUFUKLEFI OG AÐRAR TAKMARKANIR:
Til að byrja með er hámark í gufuklefann tvær manneskjur.
Muna að virða tímamörk 10 – 15 mín svo að sem flestir geti notað gufuna.
Munið að taka tillit til annarra og æskilegt er að vera ekki lengur en 1 ½ til 2 tíma í einu á sundstað.

Ef eitthvað er óljóst þá endilega hafið samband við forstöðumann.

Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum þá er stefnt að því að líkamsrækt opni mánudaginn 25. maí nk.

Mörg sveitarfélög illa stödd vegna hruns ferðaþjónustu

Byggðastofnun hefur gert samantekt á áhrifum niðursveiflu í ferðaþjónustu á atvinnuástand á landsbyggðinni en í henni er mikilvægi ferðaþjónustunnar greint eftir svæðum og sveitarfélögum. Niðurstöður leiða í ljós að mörg sveitarfélög verða fyrir miklum búsifjum vegna ástandsins en að mati Byggðastofnunar verða níu sveitarfélög fyrir þyngstu höggi; eitt á Norðurlandi eystra, fimm á Suðurlandi og þrjú á Suðurnesjum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fól Byggðastofnun þann 16. apríl sl. að vinna samantektina, með sérstaka áherslu á svæði þar sem ferðaþjónusta hefur haft mikla þýðingu varðandi atvinnutekjur og fjármál sveitarfélaga.

„Greiningin staðfestir að hrun ferðaþjónustunnar hefur gríðarleg áhrif á sveitarfélög landsins. Hún gefur einnig góðar vísbendingar um hvaða sveitarfélög og svæði í byggðalegu tilliti kunni að standa verst að vígi. Það er afar mikilvægt að hafa skýra mynd af stöðunni til þess að stjórnvöld og sveitarfélög geti brugðist vel við og hafið uppbyggingu að nýju,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Í samantektinni er gerð greining á því hvar höggið af ferðaþjónustunni verður harðast, sérstaklega með tilliti til atvinnuleysis og lækkunar atvinnutekna. Í útreikningunum voru settar upp þrjár sviðsmyndir. Bjartsýn sviðsmynd sem gerir ráð fyrir 30% minna atvinnuleysi, miðmynd sem gerir ráð fyrir að atvinnuleysi verði það sama næstu tólf mánuði og það er áætlað í maí og loks svartsýn mynd sem gerir ráð fyrir að atvinnuleysi aukist og verði 30% meira næstu tólf mánuði. Einnig var áætlaður samdráttur á atvinnutekjum eftir helstu greinum, sem tengjast ferðaþjónustu, miðað við atvinnutekjur á árinu 2019. Þar er m.a. stuðst við erlenda kortaveltu og áætlun um samdrátt á henni.

Út frá þessu var reiknuð möguleg lækkun á útsvarsstofni einstakra sveitarfélaga. Samkvæmt þeim útreikningum dregur Byggðastofnun fram níu sveitarfélög sem geta orðið fyrir hvað þyngstu höggi vegna hruns ferðaþjónustunnar. Sveitarfélögin eru: Bláskógabyggð, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður á Suðurlandi, Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar á Reykjanesskaga og Skútustaðahreppur á Norðurlandi eystra.

Fleiri sveitarfélög verða fyrir verulegum búsifjum vegna ástandsins en yfirlit um stöðu allra sveitarfélaga er í viðaukum I og II í samantekt Byggðastofnunar.

Ráðuneytið óskaði eftir því við Byggðastofnun að sambærileg greining verði unnin fyrir höfuðborgarsvæðið og er sú vinna hafin. Þá er hafin vinna nýskipaðs starfshóps við að safna saman samtímaupplýsingum um fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga á árinu 2020. Upplýsingarnar og gagnagrunnur gefur tækifæri til að áætla um horfur ársins að teknu tilliti til ýmissa þátta, m.a. þróun atvinnuleysis.

 

Síldarminjasafnið óskar eftir fjárstuðningi vegna tekjutaps

Anita Elefsen safnstjóri Síldarminjasafns Íslands hefur óskað eftir stuðningi Fjallabyggðar í formi beins fjárframlags, sumarstarfsfólks, verkefnastyrks eða samstarfs um sumardagskrá. Áætlað er að tekjutap Síldarminjasafnsins muni nema 70% af áætluðum tekjum ársins 2020.  Miklar afbókanir skemmtiferðaskipa til Siglufjarðar hafa verið í vor og er áætlun um fækkun gesta sem koma á eigin vegum. Safnið stendur nú frammi fyrir rekstrarörðuleikum vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19.

Við Síldarminjasafnið

78 seldar eignir á Norðurlandi í apríl

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir á Norðurlandi í apríl 2020var 78. Þar af voru 44 samningar um eignir í fjölbýli, 25 samningar um eignir í sérbýli og 9 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 2.526 milljónir króna og meðalupphæð á samning 32,4 milljónir króna. Af þessum 78 voru 52 samningar um eignir á Akureyri. Þar af voru 39 samningar um eignir í fjölbýli, 9 samningar um eignir í sérbýli og 4 samningar um annars konar eignir.

Heildarveltan var 1.832 milljónir króna og meðalupphæð á samning 35,2 milljónir króna.

Heimild: skra.is.

Stafræn vorsýning Menntaskólans á Tröllaskaga

Vorsýning nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga er með óhefðbundnu sniði vegna aðstæðna í samfélaginu. Vorsýningin þetta árið er í stafrænu formi og geta allir skoðað hana á netinu. Sýningarstjóri er Bergþór Morthens, myndlistarkennari. Aðstoðarmaður hans við uppsetninguna var Gísli Kristinsson, kerfisstjóri.

Sýningin endurspeglar vel einkunnarorð skólans: Frumkvæði – Sköpun – Áræði. Hún er á vefnum Artsteps sem er stafrænt sýningarrrými. Þar má sjá verk úr myndlistaráföngum og ljósmyndaáföngum, ljóð sem nemendur hafa samið og fleiri verkefni úr íslensku, líka verk um jákvæða sálfræði og kvennasögu, svo eitthvað sé nefnt.

Það eru yfir tvö hundruð myndverk á stafrænu sýningunni og endurspegla þau vel kraftmikið og skapandi starf á önninni.

Hér er slóð á sýninguna: https://www.mtr.is/vor2020

MTR og græn skref í ríkisrekstri

MTR hefur stigið þriðja skrefið í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri, fyrstur framhaldsskóla landsins. Þorbjörg Sandra Bakke, starfsmaður Umhverfisstofnunar, afhenti viðurkenningu á þessu í skólanum um miðjan maí. Tengiliður verkefnisins er Unnur Hafstað, kennari á náttúruvísindabraut.

Í grænu skrefunum er mikið lagt upp úr því að starfsmenn gangi eða hjóli til vinnu og öll aðstaða styðji þá virkni. Vegna aðstæðna í MTR þar sem um helmingur starfsmanna býr handan jarðganga, langan veg frá skólanum er krefjandi að uppfylla nægilega mörg skilyrði til að mæta kröfum verkefnisins að þessu leyti. Það tókst þó og gott betur því skólinn fékk líka stig fyrir ýmsa aðstöðu sem styður við skíðagöngu, íþrótt sem löng og mikil hefð er fyrir í Fjallabyggð.

Grænt bókhald hefur verið tekið upp og sér Jónína Kristjánsdóttir um það. Græna bókhaldið tekur til samgangna, úrgangs og notkunar á orku, pappír og tilteknum efnum. Tölulegar upplýsingar um þessi atriði eru forsenda þess að hægt sé að setja mælanleg markmið um að draga úr óæskilegri notkun. Úr græna bókhaldinu fást líka upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda sem eru forsenda aðgerða til að minnka losun og síðan er hægt að kolefnisjafna það sem eftir stendur. Við framkvæmd þessara atriði reynir mikið á Gísla Kristinsson og Björgu Traustadóttur sem sjá um innkaup, viðhald og ræstingu.

Það er stefna skólans að gera starfsemina umhverfisvænni, bæta starfsumhverfi og auka vellíðan nemenda og starfsmanna.  Markmið verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri eru að efla vistvænan rekstur á kerfisbundinn hátt. Byggt er á grænum skrefum Reykjavíkurborgar, verkefni sem hófst árið 2014.  Nokkrar stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytis tóku þátt í að laga verkefnið að ríkisrekstri. Tilgangurinn er að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta ímynd og starfsumhverfi  stofnana og draga úr kostnaði. Það er Umhverfisstofnun sem sér um verkefnið en umhverfis- og auðlindaráðuneytið fjármagnar það. Sjá nánar hér: https://graenskref.is/um-verkefnid/

Heimild: mtr.is

Hámarkshraði í íbúðagötum í Fjallabyggð – aðsend grein

Miðað við bókanir Skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar er stefnt að því að hækka hámarkshraða í húsagötum í 40 km/klst. Skv. lauslegri könnun minni er algengast hjá sveitarfélögum út um allt land, að hámarkshraði í húsagötum sé 30 km/klst. Það á t.d. við um nær allar húsagötur í Reykjavík og í langflestum ef ekki öllum sveitarfélögum annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og svo mætti áfram telja.

Stefna Fjallabyggðar er því þvert á það sem tíðkast í flestum sveitarfélögum á landinu þar sem langflestir íbúar í þéttbýli búa við 30 km/klst. hámarkshraða í húsagötum.

Í leiðbeiningum sem Verkfræðistofan Mannvit vann fyrir Umferðarstofu og Vegagerðina um umferðaöryggisáætlanir sveitarfélaga árið 2010 er eftirfarandi “rannsóknir benda til þess að 90% gangandi vegfarenda lifi af árekstur ef hraði ökutækis sem ekur á þá er 30 km/klst… Ef ökutæki er ekið á gangandi vegfaranda á 40 km/klst hraða eru 60‐70% líkur á að óvarði vegfarandinn lifi áreksturinn af.” Hætta á banaslysi er sem sagt margfalt meiri á 40 km/klst en 30 km/klst.

Í leiðbeiningunum segir einnig að “mörg bæjarfélög á landinu hafi unnið markvisst að uppbyggingu 30 km hverfa undanfarin ár og hefur t.d. slysum í Reykjavík þar sem meiðsl verða á fólki fækkað að meðaltali um 27% og alvarlegum slysum um 62% í slíkum hverfum” .

Á fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2013 má og lesa eftirfarandi færslu; „í flestum húsagötum er hámarkshraði 30 km/klst og er mikilvægt fyrir ökumenn að gæta sérstaklega að því að virða hann, enda er sá hraði ákveðinn í samræmi við að þar séu gangandi vegfarendur á ferð, sérstaklega börn“.

Með ofangreint í huga óska ég eftir því að bæjarráð svari eftirfarandi, helst skriflega í fundargerð:

 •  Að birt verði rök fyrir því að hámarkshraði í húsagötum eigi að vera hærri í Fjallabyggð en víðast annars staðar á landinu.
 •  Fór fram eitthvað sérstakt áhættumat fyrir Fjallabyggð í tengslum við þessa tillögu sem sýndi að aðstæður í húsagötum hér leyfi meiri umferðarhraða en almennt tíðkast í húsagötum hér á landi?
 •  Ef áhættumatið fór fram óska ég eftir því að það verði birt. Ef það var ekki unnið óska ég eftir því að bæjarstjórnendur fresti afgreiðslu þessa máls þar til áhættumat unnið af hlutlausum fagaðila liggur fyrir.

Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu öryggismál í umferðinni skipta miklu máli. Það hlýtur að teljast eðlileg beiðni að ef bæjarstjórn telur þeim málum betur fyrir komið hér með meiri umferðarhraða í íbúðahverfum en almennt tíðkast, séu fagleg rök færð fyrir því.

Með ósk um skjót og skýr svör

Björn Valdimarsson Aðalgötu 8, Siglufirði.

Pálshús verði upplýsingamiðstöð í Ólafsfirði

Fjallasalir ses. sem hefur staðið fyrir uppbyggingu Pálshús í Ólafsfirði ásamt Hollvinum Pálshúss, hefur óskað eftir að upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn í Ólafsfirði verði flutt úr Bókasafni Fjallabyggðar í Pálshús. Áætlað er að hafa safnið opið allt árið um kring, einnig um helgar þannig að þjónusta upplýsingamiðstöðvar yrði aukin auk þess sem staðsetning Pálshúss er talin heppilegri en sú sem fyrir er.

Bæjarráð Fjallabyggð hefur tekið málið til skoðunar og hyggst skoða hugsanlega kosti og galla þess að flytja upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn úr bókasafninu í Pálshús.

Mikil uppbygging hefur verið innan- og utandyra í Pálshúsi undanfarin ár og er áætlað að taka í notkun efrihæð hússins í lok sumars og opna þar Ólafsfjarðarstofu.

Mynd: Héðinsfjörður

Hækka þarf sjóvarnir á Sauðárkróki

Samkvæmt skýrslu hafnadeildar Vegagerðarinnar þarf að gera töluverðar breytingar á sjóvörnum við höfnina á Sauðárkróki til að minnka líkur á því að sjór flæði yfir Skarðseyrina og við Strandveg líkt og gerðist í þrígang í óveðrum vetrarins.

Á nýliðnum vetri hafa sjávarflóð á norðanverðu landinu verið óvenju tíð og há. Í þrígang hefur flætt yfir Skarðseyrina á Sauðárkróki á jafn mörgum mánuðum og flætt inn í fyrirtæki. Sömuleiðis flæddi yfir sjóvörn við Strandveg auk þess sem sjóvarnargarður á norðanverðri eyrinni skemmdist að hluta í desemberveðrinu. Vegna þessa var ákveðið að Vegagerðin myndi greina atburðina sem áttu sér stað dagana 10. til 12. desember 2019, 11. til 13. janúar 2020 og 10. febrúar 2020, og meta endurkomutíma þeirra, það er hversu líklegt er að atburðirnir  gerist aftur. Þetta þótti nauðsynlegt til að geta í framhaldinu metið hver hæð á varnargörðum þurfi að vera til að standast svipaða áraun í framtíðinni þannig að ágjöf yfir varnargarðana verði innan marka.

Skýrslan ber heitið  Sauðárkrókur – Sjávarflóð, Mat á sjóvörnum og hættu á sjávarflóðum. Hún er unnin af Bryndísi Tryggvadóttur, Helga G. Gunnarssyni, Sigurði Sigurðarsyni, Ingunni Ernu Jónsdóttur og Fannari Gíslasyni.

Þar segir meðal annars að sjór hafi flætt yfir um 2,5 hektara svæði í þessum atburðum. Að meðaltali hafi gengið um 800 rúmmetrar af sjó á land í veðrunum og vatnsdýpi orðið mest um 0,75 metrar á eyrinni. Ástæður sjávarflóðanna má rekja til samspils vonsku veðurs, hárrar úthafsöldu, vinds, lágs loftþrýstings og hárra sjávarfalla.

Til að meta endurkomutíma sjávarflóðanna var myndað stórt gagnasafn af aftakaatburðum sem byggist á fjörutíu ára sögulegri tímaröð spágagna evrópsku veðurstofunnar (ECMWF) um öldu- og verðurfar af hafsvæðinu utan Skagafjarðar.  Gögnin voru notuð bæði fyrir greiningu sjávarhæðar á tímabilinu og sem inntak í hermilíkan sem færir öldugögn af hafi, inn Skagafjörðinn og upp að sjóvörnum við Sauðárkrók. Líkanið gefur möguleika á að meta endurkomutíma umræddra atburða með þeim hætti  að yfirfæra þá yfir í reiknaða ágjöf.  Að lokum var aðferðarfræðinni beitt til að leggja mat á það hve mikið þarf að hækka sjóvarnir þannig að ágjöf yfir þær verði innan ákveðinna viðmiðunarmarka.

Ljóst er að sjóvarnir norðan á Skarseyrinni og við Strandveg eru of lágar og að í aftökum gengur of mikill sjór yfir þær. Norðan á eyrinni þar sem sjór safnast fyrir á landi og afrennsli á ekki greiðan aðgang út í sjó, þurfa kröfur um ágjöf að vera strangari. Þar er miðað við að flóð verði stærðargráðunni minni en í dag eða um einn tíundi hluti. Við Strandveg eru kröfur um ágjöf hins vegar miðaðar við að ágjöfin verði ekki meiri en um fjórðungur þess sem hún er í dag.

Niðurstaða skýrslunnar er að til að meðalágjöf í atburðum svipuðum þeim sem orðið hafa í vetur verði einn tíundi hluti þess sem í raun varð þá þurfi að hækka sjóvörnina norðan á Skarðseyrinni um tæpan meter í  +4,9 metra. Þannig breytist tíðni atburða sem nú koma að jafnaði á árs fresti, yfir í það að koma á 10 til 30 ára fresti.

Þá þarf að hækka sjóvarnir við Strandveg  um 40 til 60 cm þannig að hæð þeirra verður á bilinu 4,2 til 4,3 metrar, lægst vestast næst höfninni en hærri austar til að uppfylla kröfur um ágjöf.

Heimild: Vegagerðin.is

Lágmarks millilandaflug tryggt í sumar með nýjum samningi við Icelandair

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gert nýjan samning við Icelandair sem tryggir lágmarks flug til Evrópu og Bandaríkjanna til og með 27. júní. Flogin verða tvö flug á viku á þrjá áfangastaði út samningstímann. Hægt er að framlengja samninginn fram í september ef þörf krefur. Áfram verður flogið til Boston, London og Stokkhólms en flug til New York og Kaupmannahafnar verður skoðað á tímabilinu. Markmiðið er sem fyrr að tryggja flugsamgöngur til og frá landinu vegna þess ástands sem skapast hefur vegna Covid-19 faraldursins.

Nýi samningurinn, sem undirritaður var í dag, gildir frá sun. 17. maí til lau. 27. júní nk. Ráðuneytið getur framlengt samningnum tvívegis, fyrst til 8. ágúst og aftur til 19. september nk. Um er að ræða framhald á samningum sem gerðir hafa verið við Icelandair um lágmarks millilandaflug á tímabilinu 27. mars til og með 16. maí. Það voru Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sem undirrituðu samninginn með rafrænum hætti.

Ríkið mun greiða að hámarki 300 milljónir kr. vegna upphafstímabils samningsins frá 17. maí til 27. júní. Greiðslur fyrir flug á öllu tímabilinu geta að hámarki orðið 500 milljónir kr. Tekjur Icelandair af flugunum munu ennfremur lækka greiðslur. Í aðdraganda samninga auglýstu Ríkiskaup eftir tilboðum á evrópska útboðsvefnum TED (Tenders Electronic Daily). Icelandair var eina flugfélagið sem gerði tilboð.

Flogin verða tvö flug á viku á þrjá áfangastaði út samningstímann. Drög að flugáætlun fyrir tvær næstu vikur liggja fyrir. Þessar tvær vikur mun Icelandair fljúga samtals 12 ferðir (24 flugleggi) til Boston, London og Stokkhólms. Flugáætlun næstu tvær vikur er eftirfarandi , með þeim fyrirvara að dagsetningar geta breyst og flug fallið niður:

 • Boston (Logan International – BOS) 21., 23., 28. og 30. maí.
 • London (Heathrow – LHR) 17., 20., 24. og 27. maí.
 • Stokkhólmur (Arlanda – ARN) 20., 23., 27. og 30. maí.

Verði unnt að fljúga til New York (JFK) eða Kaupmannahafnar á samningstímanum getur ríkið ákveðið í samráði við Icelandair að flogið verði til New York í stað Boston og til Kaupmannahafnar í stað Stokkhólms.

Texti: stjornarrad.is

Hekla Aurora, norðurljósavél Icelandair í útsýnisflugi yfir ...

Bæjar- og menningarvefur