Fiskidagurinn mikli 2018 – Fréttatilkynning

Föstudaginn 10. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Vináttukeðjan er hlý og notaleg stund þar sem að staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Þar er tónlistarflutningur og vinátturæðuna flutti Geir Jón Þórisson. Heimamenn færðu gestum fléttuð vináttuarmbönd, vináttufána, knúskort og í lokin var innilegt fjöldaknús til að leggja línurnar fyrir helgina og það má með sanni segja það það hafi enst út helgina.

Fiskisúpukvöldið mikla
Á föstudagskvöldinu buðu um 130 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Einstaklega gott og ljúft kvöld í góðu veðri. Mikill fjöldi fólks rölti um bæinn þetta kvöld þar sem að súpa, vinátta og einstök samvera var í aðalhlutverki.

 

Fiskidagurinn mikli – Matseðillinn og maturinn alltaf betri og betri

Laugardaginn 11. ágúst milli kl 11.00  og 17.00 var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur í átjánda sinn á hafnarsvæðinu á Dalvík og einn eitt skiptið  sól og einstakri veðurblíðu. Um130.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti Fiskidagsins mikla.  Matseðillinn var gómsætur og fjölbreyttur að vanda og það mátti heyra á mörgum gestum að hann hafi verið sá allra besti frá upphafi.  Mjög fjölbreytt dagskrá var á sviði og hátíðarsvæðinu allan daginn. Um 150 manns komu fram í frábærri og vel heppnaðri dagskrá á sviðinu og á svæðinu .

 

Hamarhaus á fiskasýningunni og sýningin sló svo sannarlega í gegn

Á Fiskideginum mikla frá upphafi hefur Skarphéðinn Ásbjörnsson með hjálp góðra manna sett upp fiskasýningu. Gestafjöldinn var mikill á sýningunni og áhugi og undrun fólks leyndi sér ekki. Fyrir fiskasýninguna í ár bar vel í veiði þar sem að sýningunni barst hákarlstegundin hamarshaus.

 

Tónleikar á heimsmælikvarða  – Óvæntur leynigestur – Glæsileg flugeldasýning
Hátíðinni lauk síðan með Fiskidagstónleikum og flugeldasýningu í boði Samherja.  gerðinni í. Boðið var uppá einstakan tónlistarviðburð. Í farabroddi voru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt, Eyþór Ingi. Meðal annara sem komu fram voru:  Helgi Björnsson, Jón Jónsson, Helga Möller, Eiríkur Hauksson, Katrín Halldóra, Ragnheiður Gröndal, Egill Ólafsson, Jói P og Króli, Páll Rósinkrans og svo öllum að óvörum kom Bubbi Mortheins og sló botninn í glæsilega tónleika á eftirminnilega hátt.  Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar á Dalvík setti lokapunktinn á einstaka fjölskylduhátíð.  Aldrei hafa fleiri verið samankomnir fyrir neðan kaupfélagsbakkann, mannhafið var mikið og tignarlegt.
Björgunarsveitin á Dalvík á mikið lof skilið fyrir eina bestu flugeldasýningu sem að sett hefur verið upp hér á landi, algjörlega mögnuð sýning sem að verður seint toppuð.

 

Júlíus Kristjánsson heiðraður á Fiskidaginn mikla 2018.

Frá upphafi hefur Fiskidagurinn mikli heiðrað þá sem hafa með einhverjum hætti haft áhrif á atvinnusögu okkar og íslenskan sjávarútveg.

Í ár veitir Fiskidagurinn mikli viðurkenningu fyrir framlag til menntunar sjómanna og heiðrar Júlíus Kristjánsson fyrir hans mikilvæga þátt í uppbyggingu og umsjón með  skipstjórnarfræðslu á Dalvík.

Á áttunda áratug síðustu aldar hóf Júlíus að kenna nemendum við Gagnfræðaskóla Dalvíkur skipstjórnarfræði og meðferð veiðarfæra.

Árið 1981 heimilaði menntamálaráðuneytið að starfrækt yrði skipstjórnarbraut við Dalvíkurskóla og var forsenda þess að Júlíus Kristjánsson hefði umsjón með deildinni. Stýrimannaskólinn á Dalvík naut mikilla vinsælda strax frá upphafi og árið 1987 heimilaði ráðuneytið að kennsla færi einnig af stað á 2. stigi skipstjórnarnáms.

Í þau um 20 ár sem stýrimannaskólinn starfaði á Dalvík hafði Júlíus umsjón með náminu, en á þeim tíma útskrifuðust 190 nemendur af 1. stigi skipstjórnar og 134 með 2. stig frá skólanum. Margir þeirra eru farsælir skipstjórnarmenn í dag.

Texti: Aðsend fréttatilkynning. Ljósmyndir: Bjarni Eiríksson.

Dalvík gerði jafntefli við KV

Dalvík/Reynir tóku á móti Knattspyrnufélagi Vesturbæjar(KV) í Fiskidagsleiknum á Dalvíkurvelli, sem fram fór fimmtudaginn 9. ágúst. Fyrri leik liðana lauk með 3-2 sigri KV og var því búist við hörku leik. Hvorugu liðinu tókst að skora í þessum leik og var niðurstaðan 0-0 jafntefli. Dalvík/Reynir eru því með 5 stiga forskot á KH sem eru í öðru sæti. Fimm umferðir eru nú eftir og 15 stig í pottinum.

Dalvík leikur næst við KFG á Samsungvellinum, laugardaginn 18. ágúst kl. 14:00. KFG er í þriðja sæti deildarinnar með 22. stig og á einnig góða möguleika að komast upp um deild. Þetta verður því mikill baráttuleikur þar sem mikið er undir fyrir bæði lið.

Júlíus Kristjánsson heiðraður á Fiskidaginn mikla 2018

Frá upphafi hefur Fiskidagurinn mikli heiðrað þá sem hafa með einhverjum hætti haft áhrif á atvinnusögu okkar og íslenskan sjávarútveg.

Í ár veitir Fiskidagurinn mikli viðurkenningu fyrir framlag til menntunar sjómanna og heiðrar Júlíus Kristjánsson fyrir hans mikilvæga þátt í uppbyggingu og umsjón með  skipstjórnarfræðslu á Dalvík.

Á áttunda áratug síðustu aldar hóf Júlíus að kenna nemendum við Gagnfræðaskóla Dalvíkur skipstjórnarfræði og meðferð veiðarfæra.

Árið 1981 heimilaði menntamálaráðuneytið að starfrækt yrði skipstjórnarbraut við Dalvíkurskóla og var forsenda þess að Júlíus Kristjánsson hefði umsjón með deildinni. Stýrimannaskólinn á Dalvík naut mikilla vinsælda strax frá upphafi og árið 1987 heimilaði ráðuneytið að kennsla færi einnig af stað á 2. stigi skipstjórnarnáms.

Í þau um 20 ár sem stýrimannaskólinn starfaði á Dalvík hafði Júlíus umsjón með náminu, en á þeim tíma útskrifuðust 190 nemendur af 1. stigi skipstjórnar og 134 með 2. stig frá skólanum. Margir þeirra eru farsælir skipstjórnarmenn í dag.

Aðsend fréttatilkynning.

Ljósmyndari: Bjarni Eiríksson

KF komið í sjötta sæti eftir sigur á Sindra – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Sindra á Hornafirði í dag í lokaleik 13. umferðar í 3. deild karla. Sex stig skyldu liðin að í dag en Sindri var í 9. sæti með 10 stig en KF var í 8. sæti með 16 stig. Búist var við hörkuleik en Sindramenn hafa haft mjög gott tak á KF undanfarin ár og hafði unnið síðustu 5 leiki liðins með nokkrum yfirburðum. KF komu því úthvíldir og með gott leikplan en liðið gisti á Fáskrúðsfirði nóttina áður til að stytta ferðalagið á Hornafjörð. KF hafði ekki unnið neinn útileik í deildinni í sumar í sex leikjum, en aðeins náð einu jafntefli.

Björn Andri, markahæsti maður KF byrjaði á bekknum, en hann er í mikilli baráttu um byrjunarliðssæti við Austin Diaz sem hefur byrjaði vel í sínum fyrstu leikjum fyrir félagið.  Grétar Áki var fyrirliði liðsins í þessum leik, en Halldór Ingvar markmaður hefur gengt því hlutverki undanfarin ár.

Það var bjart í veðri þegar leikurinn hófst og hitinn um 14 gráður, hægur vindur og aðstæður til fótboltaiðkunar til fyrirmyndar. KF byrjaði leikinn betur og náðu að skora mark snemma í fyrri hálfleik eða á 14. mínútu, og var þar að verki Friðrik Örn Ásgeirsson, en markið var sögulegt, en þetta var hans fyrsta mark fyrir félagið í 56 meistaraflokks leikjum í deild og bikar. KF var betra liðið í fyrri hálfleik og hélt boltanum vel og náðu góðu spili upp völlinn. Staðan var 0-1 fyrir KF í hálfleik en Sindri gerði strax eina skiptingu á 46. mínútu. Í síðari hálfleik þá var Sindri meira með boltann án þess að ná að skapa sér hættuleg færi.  KF beitti skyndisóknum þegar þeir gátu í síðari hálfleik. Þegar leið á síðari hálfleik gerðu bæði lið tvær skiptingar til að fá ferska menn inn á en KF skipti Birni Andra inná og síðar Halldóri Loga þegar skammt var eftir. KF hélt út og landaði dýrmætum 0-1 sigri á þessum erfiða útivelli.

KF er nú komið í 6. sæti með 19 stig, en er með lakari markatölu en KV, KF er nú 5 stigum frá 2. sæti deildarinnar, en það þarf margt að gerast svo að liðið komist á þann stað á þessu tímabili. En með góðum úrslitum er raunhæft að liðið geti náð 3.-4. sæti deildarinnar eins og staðan er núna og eins ef önnur úrslit verða liðinu hagstæð. Þetta var fyrsti útileikjasigurinn hjá KF í sumar en liðið hafði aðeins náð í 1 stig í 6 útileikjum fyrir þennan leik.

Næsti leikur KF er á Ólafsfjarðarvelli gegn Vængjum Júpíters, laugardaginn 18. ágúst.

Skólasetning Grunnskóla Fjallabyggðar verður 22. ágúst

Undirbúningur skólastarfs Grunnskóla Fjallabyggðar stendur nú yfir og eru starfsmenn skólans að undirbúa komu nemenda næstu daga.  Skólasetning fer fram miðvikudaginn 22. ágúst nk.,stundaskrár og ritföng verða afhent. Þetta kemur fram á vef Fjallabyggðar.

Nemendur 1. bekkjar mæta í boðuð viðtöl til umsjónarkennara.
Nemendur í 2.-5. bekk mæta í skólahúsið á Siglufirði kl. 11:00. Skólabíll fer frá Ólafsfirði kl. 10:40 og til baka að lokinni skólasetningu.
Nemendur í 6.-10. bekk mæta kl. 13.00 í skólahúsið í Ólafsfirði. Skólabíll fer frá Siglufirði kl. 12:40 og til baka að lokinni skólasetningu.

Frístund
Nemendum í 1.-4. bekk stendur til boða að sækja Frístund að loknum skóladegi kl. 13:35-14:30. Frístund er tómstundastarf skipulagt af Fjallabyggð í samstarfi við tónlistarskóla, grunnskóla og íþróttafélög. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og skráningar verða sendar í næstu viku í tölvupósti.

Lengd viðvera
Nemendur í 1.-3. bekk hafa möguleika á að sækja lengda viðveru kl. 14.30-16.00. Fyrir þá gæslu greiða foreldrar skv. gjaldskrá. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og skráningar verða sendar í næstu viku.

Heimild: Fjallabyggð.

Tónlistarhátíðin Berjadagar 16.-19. ágúst 2018

Tónlistarhátíðin Berjadagar fer fram í Ólafsfirði 16.-19. ágúst næstkomandi og er haldin í tuttugasta sinn. Á hverju kvöldi verða klassískir tónleikar og ýmsir viðburðir í boði á daginn. Dagskráin er fyrir alla aldurshópa og ókeypis aðgangur fyrir 18 ára og yngri. Íslenska sönglagið er afmælisþema Berjadaga 2018 en íslensk sönglög​ hafa glætt ​hátíðina lífi allt frá því leikar fóru fyrst fram á Ólafsfirði.

Afmælishelgin hefst í Ólafsfjarðarkirkju á fimmtudaginn 16. ágúst með tónleikum fiðluleikaranna Páli Palomares og Evu​ Panitch en með þeim leikur Eva Þyrí Hilmarsdóttir​ á píanó. Bjarni Frímann Bjarnason stjórnar hátíðarkvöldi Berjadaga 2018 í Ólafsfjarðarkirkju föstudaginn 17. ágúst þar sem hann kemur fram ásamt Kristjáni Jóhannssyni og fleiri gestum. Á lokakvöldinu í Menningarhúsinu Tjarnarborg, fer norðlenska tvíeykið, Hundur í óskilum,skipað þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Eiríki Stephensen, höndum um íslenska sönglagið.

Aðrir listamenn sem fram koma á hátíðinni eru Eyjólfur Eyjólfsson, Edda Björk Jónsdóttir, Ave Kara Sillaots, Jón Þorsteinsson, Mikael Máni Ásmundsson, Marína Ósk Þórólfsdóttir. Ólöf Sigursveinsdóttir, Sigrún Valgerður Gestsdóttir og Sigursveinn Magnússon.

KF heimsækir Sindra á Hornafirði – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

KF heimsækir lið Sindra á Hornafirði á morgun í lokaleik 13. umferðar í 3. deild karla í knattspyrnu. Lið Sindra er í næstneðsta sæti með 10 stig, sex stigum frá KF sem er í 8. sæti. Sindri hefur aðeins náð í þrjú stig úr síðustu 5 leikjum, en liðið vann þó Augnablik 3-0 í síðustu umferð.

KF hefur náði í 10 stig í síðustu 5 leikjum og hefur verið á góðu skriði. Úrslitin í þessari umferð hafa verið hagstæð liðinu og með sigri getur liðið komist í 5.-6 sæti deildarinnar. KF hefur þó gengið illa á móti Sindra síðustu árin, og í síðustu 5 leikjum liðanna þá hefur Sindri unnið þá alla, með markatöluna 14-2.

Leikurinn fer fram á Sindravelli, sunnudaginn 12. ágúst kl. 14:00. Nánar verður greint frá leiknum þegar úrslit liggja fyrir.

Fiskidagurinn mikli

Setning Fiskidagsins mikla var í gær, og var meðal annars hið fræga súpukvöld auk gleðimessu í Dalvíkurkirkju. Fjölbreytt dagskrá er í dag og er mikill fjöldi nú þegar á tjaldsvæðum Dalvíkurbyggðar. Þétt dagskrá verður á aðalsviðinu í dag. Allar upplýsingar má finna á vef Fiskidagsins mikla.

Dagskrá á aðalsviði:

 • kl.11:00 – Setning, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla Júlíus Júlíusson
 • kl.11:05 – Fiskidagslagið með Matta og Friðriki Ómari + dans
 • kl.11:10 – Séra Oddur Bjarni. Litla Fiskidagsmessan
 • kl.11:20 – Tónlistarskóli Dalvíkurbyggðar: Tónlistarfólk framtíðarinnar
 • kl.11:50 – Verðlaunaafhending. Ratleikur, gangan, skreytingar og fl.
 • kl.12:05 – Fiskidagslagið. Matti, Friðrik Ómar + dans
 • kl.12:10 – Solla Stirða, Halla hrekkjusvín, Siggi sæti og Íþróttaálfurinn.
 • kl.12:45 – Árni Þór –  Dalvískur Vestmannaeyingur
 • kl.12:55 – Ásrún Jana og Birkir Blær
 • kl.13:05 –  Hljómsveitin Gringlo
 • kl.13:20 –  Margrét  Ásgeirsdóttir kvæðakona
 • kl.13:30 – Karlakór Dalvíkur
 • kl.13:50 – Heiðrun: Umsjón Svanfríður Jónasdóttir
 • kl.14:00 –  Ræðumaður dagsins: Guðný Sverrisdóttir fyrrverandi sveitarstjóri á Grenivík
 • kl.14:10 – Teigabandið. Sveitaballastemmning af bestu gerð
 • kl.14:35 – Gyða Jóhannesdóttir
 • kl.14:45 – Snorri Eldjárn Vallenato söngvari
 • kl.15:05 – Fiskidagslagið með Matta og Friðriki Ómari + dans
 • kl.15:10 – Jói P og Króli
 • kl.15:25 – Jón Jónsson
 • kl.15.40 – Aron Óskars og hljómsveit
 • kl.16.00 – Hljómsveitin Volta
 • kl.16.20 – Baldursfjölskyldan. Andi Rúnars Júl svífur yfir vötnum
 • kl.16:45 – Fiskidagslagið með Matta og Friðriki Ómari + dans
 • kl.16.50 – Lokaorð – Framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla

Dagskrárliðir á hátíðarsvæðinu milli kl 11.00 og 17.00
Aðrir en á sviðinu og fyrir utan allar matarstöðvarnar

10:00–14:00 Grímseyjarferjan Sæfari við ferjubryggjuna – Samskip
12:00–17:00 Fornbíladeild bílaklúbbs Akureyrar sýnir eðalvagna.
11:00–17:00 Myndasýning úr starfi Samherja.
11:00–17:00 Ferskfiskasýning ársins. Sýningarstjóri er Skarphéðinn Ásbjörnsson
11:00–17:00 Fiskaveröld: Börn skapa fiska í Salthúsi. Komið og teiknið.
11:00–17:00 Fiskaveröld: Ört stækkandi fiskasýning barna. Komið og sjáið.
11:00–17:00 Danshópurinn Vefarinn sýnir þjóðdansa viðsvegar um hátíðarsvæðið
11:00 -17:00 50 metra hindrunarbraut í boði Samherja
11:00 -17:00 Götudanshópurinn Superkidsclubjr dansar út um víðan völl
11:00–17:00 GG. sjósport býður öllum að prófa einstakan bát. Sit-On-Top.
11:00–17:00 Björgunarsveitin með tjald á bryggjunni. Týnd börn, skyndihjálp.
11:00–17:00 Fjölskyldan getur veitt saman á bryggjunni. Munið björgunarvestin..
11:00–17:00 Samherji: Blöðrur, sælgæti, Fiskidagsmerki, happadrættismiðar o.fl
12:30- 13:30 Latabæjarpersónur dreifa happadrættismiðum
12:00–16:00 Listamenn láta ljós sitt skína víðsvegar um hátíðarsvæðið
14.00 og 15.00 Lotta með söngvadagskrá fyrir börn 2 sýningar. Í boði KEA
15:00–16:00 Gunnar Reimarsson sker hákarlinn af fiskasýningunni.
11:00-17.00 Sjáið nýja Frystihús Samherja – Stór veggmynd á bryggjunni

Gregors Pub opið allan daginn og til 3:00
Kaffihús Bakkabræðra Opið til kl.03:00 – Lokað á meðan á Fiskidagstónleikum stendur
Basalt Café Bistró í Bergi opið
Krua Kanó Goðabraut  Opið – Pöntunarsímar 8471658 – 6625708
Sundlaug Dalvíkur opin frá kl. 8:00–19.00
Kjörbúðin, stórmarkaður. Opið frá kl. 10:00–18:00
Vínbúðin Dalvík. Opið frá kl. 11:00–14:00
Norður veitingastaður Opið 12:00 – 03:00
Olís, grill og veitingar. Nýbakað brauð Opið frá kl. 9:00–23:00

Mynd: Dalvíkurbyggð
Ljósmynd: Bjarni Eiríksson.

Króksmótið hefst í dag

Króksmót FISK Seafood í fótbolta hefur verið haldið í áraraðir á Sauðárkróki en mótið er fyrir stráka í 6. og 7 .flokki.  Mótið fer fram núna um helgina, dagana 11.-12. ágúst.  Allir leikir fara fram á aðalíþróttasvæðinu í hjarta bæjarins.  Gisting er í skólum sem eru við hlið vallarsvæðisins og eins er boðið upp á tjaldsvæði á svokölluðum Nöfum ofan við íþróttasvæðið. Í boði verður systkinamót fyrir 3-5 ára og hoppukastalar verða við Íþróttahúsið. Kvöldvaka verður í kvöld fyrir keppendur. Úrslit leikja má finna hér.

Meðal þeirra liða sem sækja mótið í ár eru KF, Þór, Völsungur, KA, Magni, Hvöt, Neisti, Kormákur, Einherji, Fjarðarbyggð, Vestri, Grindavík, Afturelding, Valur og Grótta.

 

Dagskrá Krókstmóts 2018

 

Laugardagur 11. ágúst

 • 07.00-9.00         Morgunmatur í íþróttahúsinu
 • 9.00              Fyrstu leikir hefjast
 • 9-12              Öll lið mæti í myndatöku við Vallarhús
 • 10-16            Hoppukastalar við íþróttahús
 • 11.30-13.00      Matur fyrir keppendur og liðsstjóra (Fótboltasnúður, skyrdrykkur og ávöxtur). Sótt í íþróttahúsið.
 • 14-16               Systkinamót 3-5 ára, skráning fyrir kl.12.00 í sjoppunni (Kr.2.000).
 • 17.30-19.30      Kvöldverður í íþróttahúsinu
 • 19.30-20.15     Kvöldvaka

 

Sunnudagur 12. ágúst

 • 07.00-09.00      Morgunmatur í íþróttahúsinu
 • 09.00                Fyrstu leikir hefjast
 • 11.00-13.00      Pylsugrill
 • 14.00-15.00      Síðustu leikjum lýkur. Verðlaun afhent eftir síðasta leik hvers liðs.

Lagt til að Erla Gunnlaugs verði nýr skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar

Alls voru þrjár umsóknir um starf skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar sem auglýst var fyrr í sumar.  Allir aðilar voru metnir hæfir og voru öll boðuð í viðtal hjá Fjallabyggð.  Gunnar Birgisson bæjarstjóri og deildarstjóri félagsmáladeilar tóku starfsviðtöl við umsækjendur.  Lögð var fram tillaga um að Erla Gunnlaugsdóttir yrði ráðin í starf skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar. Bæjarráð Fjallabyggðar tekur svo lokaákvörðun um ráðningu Erlu sem skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar.

Eftirtaldir sóttu um starfið:

Erla Gunnlaugsdóttir, verkefnisstjóri sérkennslu, Grunnskóla Fjallabyggðar
Helena H. Aspelund, kennari, Grunnskóla Fjallabyggðar
Róbert Grétar Gunnarsson, starfsmaður Eimskips.

Verðlaunahafar Handverkshátíðar 2018

Á opnunarhátíð Handverkshátíðar á föstudagskvöldið 9. ágúst tilkynnti dómnefnd hátíðarinnar þrjá verðlaunahafa. Verðlaun voru veitt fyrir fallegasta bás ársin, nýliða ársins og handverksmann ársins. Í dómnefnd voru Bryndís Símonardóttir, Einar Gíslason og Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir.

Tilnefndir fyrir fallegasta básinn voru: Dottir, Vagg og Velta, og Aldörk og var það Aldörk sem stóð uppi sem verðlaunahafi.

Tilnefndir sem nýliði ársins voru: Aldörk, Yarm og Íslenskir leirfuglar og voru það Íslenskir leirfuglar sem hlutu verðlaunin.

Að lokum var það handverksmaður ársins, tilnefndir voru: Þórdís Jónsdóttir – handbróderaðir púðar, Ásta Bára og Ragney og Yarm. Það var Yarm sem fékk titilinn handverksmaður ársins 2018.

Verðlaunagripirnir voru glæsileg eldsmíðuð pitsahjól, smíðuð af eldsmiðnum Beate Stormo sem er búsett hér í Eyjafirði.

Myndir: esveit.is

Hólahátíð um helgina

Hólahátíð verður haldin hátíðleg í Hjaltadal dagana 11.-12. ágúst. Mikið verður um að vera um helgina á Hólum. Hin árlega pílagrímaganga eftir Hallgrímsveginum frá Gröf á Höfðaströnd að Hólum verður farin, Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk heldur tónleika og auk þess verða haldin erindi tengd 100 ára afmæli fullveldis Íslands, ásamt fleiru.

Laugardagurinn 11. ágúst

Pílagrímaganga eftir Hallgrímsveginum frá Gröf á Höfðaströnd heim að Hólum.  Lagt af stað frá Grafarkirkju kl. 9:00  og komið heim að Hólum um kl. 16:00.

Kl. 16:00 Endurnýjun skírnarinnar og altarisganga í Hóladómkirkju.

Kl. 17:00 Samkoma í Auðunarstofu:  Hvaða þýðingu hefur fullveldi Íslands fyrir þig?

Kl. 19:00  Kvöldverður Undir Byrðunni.

Sunnudagurinn 12. ágúst

kl. 11:00 Tónleikhúsið: Bréf Halldóru Guðbrandsdóttur-1625- Tvær konur í flutningi ReykjavíkBarokk.

Kl. 14:00 Hátíðarmessa í Hóladómkirkju.  Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir sóknarprestur á Fáskrúðsfirði predikar.  Organisti Jóhann Bjarnason.  Tónlist: ReykjavíkBarokk.

Veislukaffi Undir Byrðunni.

Kl. 16:30

Hátíðasamkoma í Hóladómkirkju.

Ræðumaður Einar Kr. Guðfinnsson  formaður afmælisnefndar Fullveldis islands

Tónlist: ReykjavíkBarokk.

Ekkert Pæjumót á Siglufirði

Pæjumótið á Siglufirði sem átti að fara fram nú um helgina hefur verið aflýst vegna ónægrar þátttöku. Þetta var tilkynnt á vef KF seint í gærkvöld. Liðum hefur farið fækkandi á mótinu síðustu árin og er svo komið núna að ekki er næg þátttaka til að halda mótið í ár.

Mótið er fyrir stúlkur í 6. og 7. flokki en samkeppnin um knattspyrnumót er orðin mikil og þurfa því félögin að ákveða hvaða mót skuli senda lið á og hvaða mótum sé sleppt.

Þegar haldið er svona stórt mót þá skiptir tímasetning og markaðssetning miklu máli til að fá sem flest lið.

Pæjumótið á Siglufirði hefur verið haldið síðan 1991 og er eitt elsta knattspyrnumót fyrir stúlkur á landinu. Mótið hefur skipað stóran sess hjá flestum knattspyrnukonum landsins sem margar hverjar tóku þátt á fjölmörgum Pæjumótum.

Sólmyrkvi á laugardaginn

Laugardagsmorguninn 11. ágúst 2018 milli kl. 08:00 og 09:00 sést deildarmyrkvi á sólu frá Íslandi, þar sem ský skyggja ekki á sólina.  Í deildarmyrkva gengur tunglið fyrir hluta sólar.  Við hámark á þessum myrkva hylur tunglið 17-25% af þvermáli sólar séð frá Íslandi.  Veðurstofa Íslands greinir frá þessu.

Í Reykjavík hefst myrkvinn kl. 08:10, en þá er sól 18° yfir sjónbaug.  Hámarki nær deildarmyrkvinn þar kl. 08:44, en þá er sólin komin 21° yfir sjónbaug.  Þá hylur tunglið 20% af þvermáli sólar og birtuminnkun er 10%.  Deildarmyrkvanum lýkur í Reykjavík kl. 09:19 en þá er sólin komin 25° yfir sjónbaug.  Myrkvinn er mestur nyrst á landinu þar sem tungl nær að hylja 25% af þvermáli sólar og veldur 15% birtuminnkun.  Þessi sólmyrkvi sést hvergi á jörðinni sem almyrkvi.

Sólmyrkvi

Heimild: vedur.is

Handverkshátíðin í Eyjafjarðarsveit

Handverkshátíðin verður nú haldin í 26. sinn, í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðasveit dagana  9.-12. ágúst. Um 100 hönnuðir og handverksfólk selja fatnað, keramik, snyrtivörur, textílvörur og skart sem oftar en ekki er unnið úr rammíslensku hráefni. Á útisvæðinu er hægt að bragða á og kaupa góðgæti frá Beint frá býli auk fjölda annarra aðila. Ýmsar uppákomur eru í boði alla dagana s.s. sýning fyrir börnin, sýning á gömlum traktorum, miðaldabúðir og margt fleira. Njóttu dagsins með okkur í Eyjafjarðarsveit.

Opnunarkvöldið

Í ár verður fyrirkomulagið á kvöldvökunni aðeins með breyttu sniði. Hún verður haldin í dag, fimmtudaginn 9. ágúst, en ekki föstudagskvöldinu eins og undanfarið.  Kvöldvakan verður tileinkuð sýnendum hátíðarinnar í ár, en allir velkomnir ef þeir vilja.

Opnunarkvöldið hefst kl.19:30 og stendur til 23:00. Miðaverðið er 4.200 kr. fyrir fullorðna og 2.300 kr. fyrir börn.

Grillveisla verður í boði og þrælskemmtileg skemmtidagskrá. Veislustjóri kvöldsins verður Óli fráfarandi sveitastjóri, Andri Ívars ætlar að sjá um uppistand og svo taka Bjarkey og Þorsteinn nokkur þjóðlög.

Afhending viðurkenninga fyrir fallegasta básinn, handverksmann ársins og nýliða ársins verða einnig veittar á opnunarkvöldinu.

Viðburðir í dag á Dalvík vegna Fiskidagsins mikla

Nokkrir viðburðir eru á dagskrá í dag, fimmtudaginn 9. ágúst vegna Fiskidagsins mikla á Dalvík. Tónleikar í Bergi, tónleikar á Kaffihúsi Bakkabræðra og Knattspyrnuleikur á Dalvíkurvelli.

Lunch beat / Hádegistaktur í Bergi
Fimmtudaginn  9. ágúst milli kl. 12.00 og 13.00 standa Menningarhúsið Berg, Bókasafn Dalvíkurbyggðar og Fiskidagurinn mikli fyrir hádegistakti (Lunch beat) í salnum í Bergi. DJ HULIO sér til þess að allir geti dansað inn í Fiskidagsstemninguna, ljósashow og allur pakkinn. Allir hvattir til að mæta og frítt inn.

Fimmtudaginn 9. ágúst: „Sögur um lífið“ þekktustu lög Rúnars Júlíussonar á Kaffihúsi Bakkabræðra, Eyþór Ingi og allir hinir, söngur og uppistand í Menningarhúsinu Bergi.

FiskidagsZumbasæla verður síðan með Ingu Möggu og fleiri Zumbaskvísum í Víkurröstinni fimmtudaginn 9. ágúst  milli kl. 16.30 og 18.00. Allir velkomnir FRÍTT inn.

Eyþór Ingi og allir hinir í Bergi
Fimmtudagskvöldið klukkan 20:30 mætir Eyþór Ingi  en hann er án efa einn af okkar fremstu söngvurum í dag. Hann hefur einnig getið sér gott orð fyrir að vera mögnuð eftirherma. Hér er á ferðinni alveg hreint mögnuð blanda af þessu tvennu og gott betur. Eyþór hefur farið sigurför um landið, einn síns liðs, með píanóið, gítarinn og röddina að vopni.

Dalvík/Reynir – KV
Spennandi knattspyrnuleikur fimmtudaginn 9. ágúst kl. 19:00, þá keppa heimamenn í Dalvík/Reyni við KV á Dalvíkurvelli.

Ráðin í starf kennsluráðgjafa í Dalvíkurbyggð

Fjóla Dögg Gunnarsdóttir hefur verið ráðin sem kennsluráðgjafi á skólaskrifstofu fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar og mun taka við starfinu af Dóróþeu Reimarsdóttur. Þetta kemur fram á vef Dalvíkurbyggðar. Fjóla Dögg mun hefja störf í september.

Þann 23. júlí síðastliðinn rann út umsóknarfrestur um auglýsta stöðu kennsluráðgjafa. Umsækjendur voru tveir og voru þeir í stafrófsröð:

Anna Karen Birgisdóttir, iðjuþjálfi

Fjóla Dögg Gunnarsdóttir, deildarstjóri

Viðburðir á Dalvík í dag vegna Fiskidagsins mikla

Í dag, miðvikudaginn 8. ágúst verða nokkrir viðburðir vegna Fiskidagsins mikla á Dalvík. Markaður, tónleikar, fiskidagsföndur og Zumba í sundlauginni á Dalvík.

Markaður við Dalbæ, Dvalarheimili aldraðra

Skemmtilegur “prúttmarkaður” við Dalbæ, miðvikudaginn 8. ágúst frá kl. 13.00 – 16.00. Sala á vöfflukaffi, tónlist og fjör. Fatnaður, skrautmunir, eldhúsáhöld, handverk, árstíðarvörur, bækur, sultur, bakkelsi og dót af ýmsu tagi. Allir velkomnir !

Ungversk sópransöngkona heldur tónleika í Dalvíkurkirkju
Bernadett Hegyi er frá Búdapest í Ungverjalandi heldur tónleika í Dalvíkurkirkju miðvikudaginn 8. ágúst kl. 20.30 Hún er sópran og starfar með þjóðkórnum í Búdapest. Bernadett hefur nýhafið starfsferil sinn sem sólóisti.

Fiskidagsföndur og vináttubandagerð
Miðvikudagurinn 8. ágúst milli kl.14:00 og 16:00
Í tilefni þess að allt skal í lag fyrir Fiskidag þá ætlar bókasafnið  að bjóða áhugasömum að koma á safnið og huga að Fiskidagsskreytingum. Nú er lag að láta hugmyndaflugið ráða ferðinni, sjá í hvaða ferðalag þið eruð tekin og toppa skreytingarnar frá því í fyrra. Það verður hægt að nálgast einfaldan efnivið á safninu en ef hugmyndirnar eru stórar og þarfnast sérstaks efniviðs mælum við með að fólk komi með það sjálft. Við erum hins vegar til í að dást að verkinu þá er mælt með að menn taki slíkt með sér. Fyrir þá sem hafa enga hugmynd hvað þeir eiga að gera mun starfsfólkið aðstoða og verað tilbúin eitthvað einfalt og gott sem allir aldurshópar ættu að geta dúllað sér við. Í fyrra var boðið upp á kennslu í vinabandagerð verður það endurtekið í ár.

Hlökkum til að hitta ykkur öll og eiga með ykkur skapandi Fiskidagsstund.

Fjölskylduganga fram að Kofa – Dísa í Dalakofanum.

Fiskidagurinn mikli mun líkt og undanfarin ár koma upp sérstakri gestabók í kofanum sem stendur í Böggvisstaðadal. Þeir sem skrifa í gestabókina lenda í potti og á aðalsviði Fiskidagsins mikla verða vinningar dregnir út. Kofinn stendur á tóftarbrotum smalakofa sem þar stóð til skamms tíma. Sagnir herma að þar hafi Davíð Stefánsson frá Fagraskógi ort kvæðið um Dísu í dalakofanum. Lagt verður upp frá Dalvíkurkirkju kl. 16:00 miðvikudaginn 8. ágúst undir leiðsögn. Gangan tekur um þrjár klukkustundir, fram og til baka og er öllum fær.

Tónleikar á Höfðanum í Svarfaðardal
Þau Jón Ólafsson og Hildur Vala verða með tónleika í samkomuhúsinu Höfða í Svarfaðardal miðvikudagskvöldið 8. ágúst kl. 21:00 Miðaverð 3.500 kr. Og miðar seldir við innganginn einnig verður hægt að forpanta miða hjá birgir@icefresh.is eða einarhaf@gmail.com.

Frítt Fiskidagszumba
Öllum verður boðið í FiskidagsAquaZumba miðvikudaginn 8. ágúst milli kl. 17.00 og 18.00 í sundlaug Dalvíkurbyggðar, frítt í tímann og í laugina. er Kennari Eva Reykjalín.

Fiskidagurinn mikli 2018

Dagskrá Fiskidagsins á hátíðarsviði, laugardaginn 11. ágúst. Kynnir er Júlíus Júlíusson.

Í hvert sinn sem Fiskidagslagið er sungið munu Zumba dívurnar Inga Magga og Eva Reykjalín kenna öllum Fiskidagssporin.

Dagskrá:

kl.11:00 – Setning, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla.

kl.11:05 – Fiskidagslagið, Matti og Friðrik Ómar  + dans

kl.11:10 – Séra Oddur Bjarni Þorkelsson, Litla Fiskidagsmessan

kl.11:20 – Tónlistarskólinn. Tónlistarfólk framtíðarinnar

kl.11:50 – Ratleiks og gönguverðlaunaafhending og fl.

kl.12:05 – Fiskidagslagið. Matti og Friðrik Ómar + dans

kl.12:10 – Solla Stirða, Halla hrekkjusvín, Siggi sæti og Íþróttaálfurinn.

kl.12:45 –  Árni Þór Dalvískur Vestmannaeyingur

kl.12:55 – Ásrún Jana og Birkir Blær

kl.13:05 – Hljómsveitin Gringlo

kl.13.20 – Kvæðakona kveður nokkrar stemmur

kl.13:30 –  Karlakór Dalvíkur

kl.13:50 – Heiðrun: umsjón Svanfríður Jónasdóttir

kl.14:00 –  Ræðumaður dagsins:

kl.14:10 – Teigabandið – Sveitaballastemning af bestu gerð

kl.14:35 – Gyða Jóhannesdóttir

kl.14:50 – Snorri Eldjárn Vallenato söngvari.

kl.15:05–  Fiskidagslagið, Matti og Friðrik Ómar + dans

kl.15:10 – Jón Jónsson

kl.15:25  – Jói Pé og Króli

kl.15:40 – Aron Óskars og hljómsveit

kl.16:00 –  Hljómsveitin Volta

kl.16:20 – Baldursfjölskyldan. Andi Rúnars Júl svífur yfir vötnum.

kl.16:45 – Fiskidagslagið Matti og Friðrik Ómar + dans

kl.16.50 – Lokaorð – Framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla

kl.17.00 – Fiskideginum mikla 2018 slitið.

Ljósmyndir: Bjarni Eiríksson

 

Landsliðsæfing í Júdó á Sauðárkróki

Kvennalandsliðið í Júdó mun æfa í íþróttahúsinu á Sauðárkróki síðustu helgina í ágúst.  Sterkustu júdókonur landsins munu koma saman á Sauðárkróki helgina 24.-26. ágúst næstkomandi og æfa undir stjórn landsliðsþjálfara kvenna í Júdó, Önnu Soffíu Víkingsdóttur. Þetta kemur fram á vef Tindastóls.

Þó að um landsliðið sé að ræða eru þessar æfingabúðir líka hugsaðar fyrir allar stelpur, 15 ára og eldri, sem hafa áhuga á því að æfa Júdó. Það eru ekki sett nein beltaskilyrði fyrir þátttöku og geta yngri iðkendur með nægilega reynslu fengið undanþágu frá aldurstakmarki.

Þetta er fyrsta skrefið í að gera kvennajúdó sýnilegra á Íslandi og verður öllum boðið að fylgjast með opinni æfingu sem fer fram frá klukkan 15:00-17:00 laugardaginn 25. ágúst.

Það er heiður fyrir Júdódeild Tindastóls að Sauðárkrókur hafi orðið fyrir valinu sem æfingastaður og eru allir hvattir til að leggja leið sína í íþróttahúsið á laugardagseftirmiðdaginn og fylgjast með landsliðinu æfa.

Fjölskyldan saman á Fiskideginum mikla

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli – Matarveislan mikla

Í átjánda sinn er boðið til matarveislunnar miklu á Dalvík, sem flestir Íslendingar þekkja núorðið. Fiskidagurinn mikli er hátíð í sérflokki. Á Fiskideginum mikla sem er fyrsta laugardag eftir verslunarmannahelgi eru allar veitingar og skemmtanir fríar á hátíðarsvæðinu. Á síðustu árum hafa milli 27 og 31 þúsund manns komið á hátíðarsvæðið við Dalvíkurhöfn ár hvert. Dagskrá á sviði hefst klukkan 11:00 að morgni og stendur sleitulaust til klukkan 17:00. Dagskráin er alltaf fjölbreytt, bæði á sviðinu og víðar á hátíðarsvæðinu. Mikill fjöldi fólks tekur árlega virkan þátt í undirbúningi þessarar hátíðar og margir vinna mikla sjálboðavinnu, bæði dagana fyrir og á hátíðardaginn sjálfan.

 

Vináttukeðja – Setning hátíðarinnar – Mamma hljómar

Það má segja að setning Fiskidagsins mikla sé með Vináttukeðjunni og hún verður hlekkjuð saman neðan Dalvíkurkirkju kl. 18:00 föstudaginn 10. ágúst með ljúfri og skemmtilegri dagskrá. Meðal þeirra sem fram koma á Vináttukeðjunni eru: Friðrik Ómar Hjörleifsson, Gyða Jóhannesdóttir, Vandræðaskáldin, Selma Björnsdóttir, karlaraddir og leikskólabörn úr Dalvíkurbyggð. Vinátturæðuna 2018 flytur Geir Jón Þórisson, börnin fá fána, knúskort og vináttuböndum verður dreift. Í lokin verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleikslínur fyrir helgina. Að venju verður flutt lagið “Mamma” sem endar í háum tónum og bombum. Lagið er eftir Friðrik Ómar Hjörleifsson og textinn eftir stjórnarformann Fiskidagsins Mikla Þorstein Má Aðalsteinsson.

 

Fiskisúpukvöldið góða

Fiskisúpukvöldið sem svo sannarlega hefur slegið í gegn, er nú haldið í 14. sinn. Að venju er það fjöldinn allur af fjölskyldum sem tekur þátt. Súpukvöldið hefst að vanda kl. 20:15 og þar bjóða íbúar gestum og gangandi heim í fiskisúpu og að njóta einlægrar gestrisni. Þungi þessa verkefnis liggur á herðum íbúanna og þátttakenda en góðir aðilar leggja þessu verkefni mikið og gott lið. Það eru: Mjólkursamsalan með rjóma, Kristjánsbakarí með brauði, Samherji með fiski og Fiskidagurinn mikli.

 

Dagskrá á sviði frá klukkan 11:00 til 17:00 – Mætum snemma á laugardagsmorgninum

Á sjálfan Fiskidaginn mikla, laugardaginn 11. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 verður að vanda margt í boði. Stundvíslega kl.11:00 opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst .

Við mælum með því að gestir séu mættir strax kl 11.00, þá er gott aðgengi að öllum stöðvum og enginn missir af neinu. Bent er á að verðlaunaafhendingar fyrir fjölskylduratleik og fleira verða mun fyrr í dagskránni en áður, þeir sem eru dregnir út í verðlaunaleikjum verða að vera á staðnum. Við bendum sérstaklega á árlega heiðrun dagsins sem er í umsjón Svanfríðar Ingu Jónasdóttur fyrrverandi sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar og ræðumann dagsins sem kemur að þessu sinni yfir fjörðinn frá vinum okkar fyrir handan, Grenivík. Ræðumaður Fiskidagsins mikla 2018 er Guðný Sverrisdóttir fyrrverandi sveitarstjóri á Grenivík.

 

Stærsta pítsa landsins, Sushi, flatbrauð með reyktum laxi og Egils Appelsín

Matseðill Fiskidagsins í ár er ljúffengur og áhugaverður að vanda en Friðrik V. yfirkokkur dagsins er búinn að leggja línurnar að góðum matseðli ásamt sínu fólki. Þar má að sjáfsögðu finna gamla og góða rétti, t.d. síld og rúgbrauð, filsurnar sem eru fiskipylsur í brauði með úrvali af dásamlegum Felix sósum, harðfisk og íslenskt smjör og fersku rækjurnar. Einnig verða fiskborgararnir á sínum stað þar sem verulega öflug grillsveit grillar. Líkt og á síðasta ári sameinast árgangur 1966, sem hefur staðið vaktina í mörg ár, árgangi 1965 sem þýðir einfaldlega enn meiri gleði. Nýir samstarfsaðilar eru: Egils Appelsín en nú verða allir drykkir á hátíðinni í boði þeirra og Sushi Corner á Akureyri og fáum við að smakka þeirra frábæra sushi með ferskum fiski framleiðenda á svæðinu og víðar. Fiskurinn á grillunum er með nýju sniði: fersk bleikja í rauðrófum og hunangi og ferskur þorskur í kryddjurtum og sítrus. Á bás yfirkokksins Friðrik V. og hans fólks verður í boði líkt og á síðasta ári Hríseyjarhvannargrafin bleikja og nýjung í ár verður nýbakað flatbrauð með reyktum laxi frá Arnarlaxi. Akureyri FISH og Reykjavík FISH  koma með Fish and chips og það verður sérbás með Indversku rækjusalati í boði Dögunar. NINGS fjölskyldan mætir með risasúpupottinn þar sem boðið verður uppá austurlenska rækju og bleikjusúpu. Aðstoðarkokkur Fiskidagsins mikla Addi Yellow stýrir sasimistöðinni þar sem að laxinn frá Arnarlaxi, bleikja og hrefna verða í boði. Annað hvert ár fáum við stærstu pítsu landsins og jafnvel þó víðar væri leitað, 120 tommu pítsa, úr hverri pítsu koma 640 sneiðar og þetta er einmitt þannig ár. Saltfisk pítsan er samvinnuverkefni Sæplasts, Greifans og Ektafisks. Kaffibrennslan býður uppá svartan Rúbín sem er besta kaffið. Íspinnarnir frá Samhentum – Umbúðamiðlun vinum Fiskidagsins mikla númer 1 klikka aldrei. Síðast en ekki síst býður Samherji uppá sælgæti og merki dagsins.

Allar nánari upplýsingar um matseðilinn veitir Frirðik V. í síma 863-6746

 

Dagskrá um allt svæðið – Fiskasýningin endurbætt meira og götudans hópur

Skemmti og afþreyingar dagskráin er mjög fjölbreytt að vanda. Vegleg og fjölbreytt dagskrá verður á hátíðarsviðinu allan daginn. GG sjósport leyfir öllum að prófa  Sit-On-Top kajakana, fjöldi fallegra og fægðra fornbíla frá Bílaklúbbi Akureyrar verða til sýnis, danshópurinn vefarinn sýnir þjóðdansa vítt og breytt um svæðið. Teikniveröld fyrir börnin verður á sínum stað, börnin fá glaðning þegar þau skila mynd. Frá Reykjavik kemur hinn magnaði Superkidsclub, danshópur ungs fólk. Grímseyjarferjan verður við ferjubryggjuna. Myndasýning um starfsemi Samherja til sjós og lands og persónur úr Latabæ dreifa happdrættismiðum. Leikhópurinn Lotta verður með tvær sýningar yfir daginn á hátíðarsvæðinu þar sem þau verða með söngva úr leikritunum sem þau hafa sýnt s.l. 10 ár. Fiskasýningin magnaða var sett upp innandyra í fyrra og endurbætt og nú höldum við þeim endurbótum áfram með lýsingu, texta, myndböndum og fleiru, þetta verður afar áhugaverð sýning og allir ættu að gefa sér tíma til að skoða og njóta. Um miðjan daginn verður sýndur hákarlaskurður. Þá dansa, syngja og spila listamenn, mála, teikna og sýna listir sínar víða um svæðið. Að venju er Björgunarsveitin á Dalvík með tjald á bryggjunni en þangað er hægt að leita varðandi skyndihjálp, týnd börn og fleira.

 

Allar nánari upplýsingar um Fiskasýninguna veitir Skarphéðinn Ásbjörnsson í síma 8926662

 

 

Bílastæða mál

Skipuleggjendur Fiskidagsins mikla leggja áherslu á að gestir virði leiðbeiningar björgunarsveitarfólks og lögreglumanna um bílastæði. Á Dalvík eru allar vegalengdir stuttar svo það á ekki að vera mikið mál fyrir gesti að ganga. Einnig er óskað eftir því að heimamenn og gestir þeirra geymi bílana heima um þessa helgi.

Kvöldtónleikar og flugeldasýning í boði Samherja.

Enn á ný er lagt af stað með stórtónleika að kvöldi Fiskidagsins mikla. Tónleikarnir eru   samvinnuverkefni Samherja, RIGG viðburðafyrirtækis Friðriks Ómars, Fiskidagsins Mikla, Exton og fl. Á sjöunda tug tæknimanna, söngvara og hljóðfæraleikara taka þátt í þessari stórsýningu sem er að öllum líkindum ein sú stærsta og viðamesta sem hefur verið sett upp á Íslandi. Meðal þeirra sem koma fram eru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi Gunnlaugsson. Auk þeirra verða Ragnheiður Gröndal, Helga Möller, Helgi Björnsson, Katrín Halldóra, Egill Ólafsson, Jói P og Króli, Jón Jónsson, Páll Rósinkrans og Eiríkur Hauksson. Að venju er það stórhljómsveit Rigg viðburða eða með öðrum orðum landslið Íslands sem spilar undir. Dagskráin endar með risaflugeldasýningu sem Björgunarsveitin á Dalvík sér um.

 

Nánari upplýsingar um tónleikana veitir Friðrik Ómar  í síma 868-9353
Nánari upplýsingar um flugeldasýninguna veitir Haukur í síma 853-8565

 

Flokkun á rusli
Undanfarið hafa stjórnendur Fiskidagsins mikla unnið að því að skipuleggja flokkun á rusli sem fellur til á fjölskylduhátíðinni. Í ár verður skrefið tekið lengra með samvinnu fjögurra aðila, Samáls samtaka álframleiðenda, Sæplasts, Gámaþjónustu Norðurlands og Fiskidagsins mikla. Stefnt er að því að flokka álpappír, plast og almennt sorp ásamt því að dósir og plastflöskur eru flokkaðar af Björgunarsveitinni á Dalvík og rennur ágóðinn af þeirri söfnun óskiptur til sveitarinnar. Næstu árin stefnir hugur þessara aðila til enn meiri flokkunar og að fá fleiri aðila að borðinu.

Í hvað götu átt þú heima í – kíktu á www.fiskidagurinnmikli.is 

Líkt og undanfarin ár breytum við götunöfnunum á Dalvík í Fiskidagsvikunni úr þessum venjulegu og í fiskanöfn, í ár heita allar götur eftir hvalategundum. Nafnaskilti á að vera komið í götuna þína og listann er einnig að finna á heimasíðu Fiskidagsins mikla. Það væri gaman ef að sem flestir settu status á Facebook og segðu einfaldlega “ Ég á heima í …og síðan nýja nafnið á götunni”

Þátttaka íbúa og gesta á öllum aldri er áhugaverð.
Á átjánda ári Fiskidagsins Mikla þegar horft er til baka er margt að hugsa um. Eitt af því sem er frábært er þátttaka íbúa og gesta á öllum aldri. Það er magnað að ár eftir ár taki á fjórða hundrað sjálfboðaliðar þátt í að búa til það ævintýri sem fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn Mikli sannarlega er, þessir allra yngstu taka þátt í pökkun og skreytingum og þeir allra elstu pakka, skreyta og taka að sér dómnefndarstörf í skreytingasamkeppnum svo að fá eitt sé nefnt.

Frá forvarnarnefnd Fiskidagsins mikla 2018 – Stöndum saman
Vinna nefndarinnar snýr að því að gera góða hluti enn betur og byrgja brunnin áður en barnið dettur ofan í hann. Í ár gaf forvarnarnefndin út póstkort sem hefur verið sent heim til foreldra barna/unglinga á ákveðnum aldri. Þar er m.a. að finna skilaboð eins og „Mömmu og pabbar við berum ábyrgð á börnum okkar til 18 ára aldurs  „ og“ Útivistartíminn er ekki viðmið- heldur bundinn lögum og gildir líka á sumrin“. Póstkortið liggur einnig frammi á þjónustustöðum. Virðum skilaboðin og landslög. Börnum, 18 ára og yngri er óheimilt að tjalda á tjaldsvæðunum nema í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum. Við þurfum öll að standa saman í að fylgja reglum eftir. Börn mega ekki vera á ferli eftir tilsettan útivistartíma nema í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum.

SKILABOÐ – Ekkkert pláss fyrir dóp og drykkjulæti

Það er von aðstandenda Fiskidagsins mikla að allir skemmti sér vel, njóti matarins og þeirra atriða sem í boði eru. Sérstaklega vonumst við til þess að allir eigi góðar og ljúfar stundir með fjölskyldu og vinum. Fiskidagurinn mikli er fjölskylduhátíð þar sem hvorki er pláss fyrir dóp né drykkjulæti. Aðstandendur hátíðarinnar leggja mikla áherslu á að íbúar og gestir hafi ekki áfengi um hönd á auglýstum dagskrárliðum Fiskidagsins mikla og á það sérstaklega við um Vináttukeðjuna og á hátíðarsvæðinu á laugardeginum milli kl. 11:00 og 17:00 á hátíðarsvæðinu. Frá upphafi höfum við haft frábæra gesti sem hafa gengið einstaklega vel um og fyrir það viljum við þakka sérstaklega.

Góða skemmtun á  fjölskylduhátíðinni Fiskideginum mikla í Dalvíkurbyggð.

Allar nánari upplýsingar veitir Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins Mikla 8979748

Ljósmyndir: Bjarni Eiríksson

 

Hægir á aukningu umferðarinnar á Hringveginum

Umferðin á Hringveginum í nýliðnum júlímánuði jókst um 2,6 prósent sem er minni aukning en verið hefur undanfarin ár. Nú má reikna með að umferðin á Hringveginum í ár aukist um 3 prósent sem er minni aukning en verið hefur. Vegagerðin greinir frá þessu.

Umferð í nýliðnum mánuði jókst um 2,6% yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, borið saman við sama mánuð á síðasta ári.  Þetta er minnsta aukning í júlí mánuði frá árinu 2012, en telst engu að síður nokkur aukning en mætti telja hæfilega.

Mest jókst umferð um lykilteljara á Suðurlandi eða um 9,3% en 2,4% samdráttur mældist um lykilteljara á Norðurlandi.

Gert er ráð fyrir hóflegri aukningu í umferð á Hringvegi eða um 3%.  Búist er við því að umferðin aukist mest á Suðurland eða um 6% en standi í stað á Norðurlandi þ.e.a.s. að engin aukning verði þar.

Fjölmenni á Sparitónleikum Einnar með öllu

Ein með öllu og Íslensku sumarleikarnir luku sinni dagskrá með glæsilegum Sparitónleikum og flugeldasýningu frá björgunarsveitinni Súlum á Akureyri. Talið er að Sparitónleikarnir í ár hafi verið þeir fjölmennustu frá upphafi.

Skógardagurinn var haldinn á Einni með öllu og Kjarnaskógur var fullur af fólki í allan gærdag. Aldrei hafa fleiri lagt leið sína í Kjarnaskóg, metið var sett í gær.

Helgin hefur gengið eins og í sögu og fjölskyldur voru aðal gestir Akureyringa um verslunarmannahelgina.

Myndir eftir Hilmar Friðjónsson.

Reiðnámskeið í Ólafsfirði

Hestamannafélagið Gnýfari mun standa fyrir reiðnámskeiði fyrir börn, unglinga og fullorðna í Ólafsfirði.  Námskeiðið hefst þann 6. ágúst. Leiðbeinandi verður Herdís Erlendsdóttir á Sauðanesi. Einnig verður boðið upp á sameiginlegt námskeið barns og foreldra.

Upplýsingar:

 

 • Námskeiðsgjald fyrir 5 – 18 ára er kr. 15.000.-  fyrir 10 klst.
 • Systkinaafsláttur.
 • Námskeiðsgjald fyrir 19 ára og eldri er kr. 20.000.- fyrir 5 klst.
 • Boðið verður upp á sér kvennahóp og kvennareið í lokin.

 

Við skráningu tekur Herdís í s 6986518, netfang saudanes@visir.is, Þorvaldur Hreinsson s. 8669077, netfang hringverskot@gmail.com.

 

Gnýfari er aðili að samningi Fjallabyggðar um frístundarstyrk. Þeir sem ekki hafa nýtt heimsendar ávísarnir eru hvattir til að nýta sér þær.

 

Æskulýðsnefnd.

 

Hafi einhver áhuga á að komast á hestbak í eitt og eitt skipti þá hikið ekki við að hafa samband við Herdís í s. 6986518.

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Gleði á Einni með öllu

Laugardagurinn á Einni með öllu og Íslensku sumarleikunum fór vel fram. Dagurinn einkenndist af glöðu fólki sem tók þátt í fjölbreyttri dagskrá. Mömmur og möffins voru á sínum stað og var viðburðurinn yndislegur að vanda þar sem safnað er fyrir fæðingardeildinni.

Hátíðardagskrá var á Ráðhústorgi þar sem Greifinn bauð börnum í bæinn. Sigyn Blöndal, Steps Dacnce Center og fleiri kættu börn og fjölskyldur. Kung Fu og 1862 Bistro buðu svo til stórtónleika um kvöldið þar sem Birnir, Flóni, Omotrack, Gringlo ásamt öðrum góðum listamönnum skemmti fólki.

Í dag sunnudag er hæfileika keppni ungafólksins sem er ávalt skemmtilegur viðburður þar sem yngsta kynslóðin stígur á stóra sviðið.

Skógardagurinn verður í Kjarnaskóg í dag. Gestir geta tálgað, reynt fyrir sér í bogfimi, poppað yfir eld og margt fleira.

Sparitónleikar Einnar með öllu í boði Pepsi Max eru í kvöld. Sparitónleikarnir eru ávalt stærsti viðburður hátíðarinnar og jafnframt endapunktur. Á tónleikunum koma fram Hera Björk, Emsjé Gauti, Páll Óskar, Dóri KÁ AKÁ, Úlfur úlfur og fleiri. Flugeldasýning og smábátadiskó á pollinum lokar svo tónleikunum.

Allar upplýsingar um dagskrá helgarinnar má finna á www.einmedollu.is.

 

Frítt Fiskidagszumba og AquaZumba

Öllum verður boðið í FiskidagsAquaZumba miðvikudaginn 8. ágúst milli kl. 17.00 og 18.00 í sundlaug Dalvíkurbyggðar, frítt í tímann og í laugina. Kennari er Eva Reykjalín. FiskidagsZumbasæla verður síðan með Ingu Möggu og fleiri Zumbaskvísum í Víkurröstinni fimmtudaginn 9. ágúst  milli kl. 16.30 og 18.00. Allir velkomnir frítt aðgangur.

Úrslit í fyrsta opna golfmótinu á Sigló golf

Fyrsta opna golfmótið á Siglógolf á Siglufirði var haldið í gærdag. Veður var með ágætum, skýjað, logn og um 10 stiga hiti. Alls tóku 38 keppendur þátt í mótinu.  Keppt var í karla- og kvennaflokki og voru úrslit eftirfarandi:

Karlaflokkur:
1. sæti Jóhann Már Sigurbjörnsson GKS með 37 punkta
2. sæti Hafsteinn E. Hafsteinsson GO með 34 punkta
3. sæti Tómas Kárason GL með 31 punkt.

Kvennaflokkur:
1. sæti Unnur Elva Hallsdóttir GA með 34 punkta
2. sæti Hulda Magnúsardóttir GKS með 33 punkta
3. sæti Dagný Finnsdóttir GFB með 29 punkta

 

Einnig voru veitt nándarverðulaun á par 3 brautum, 6., 7. og 9. holu og þau hlutu Jóhann Már Sigurbjörnsson, Sigríður Guðmundsdóttir og Dagný Finnsdóttir.

Mynd: Golfklúbbur Siglufjarðar

 

Valgerður Gunnarsdóttir skipuð skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík

Valgerður Gunnarsdóttir hefur verið skipuð skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík. Að fenginni umsögn skólanefndar Framhaldsskólans á Húsavík hefur Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ákveðið að skipa Valgerði í embættið en skipað er til fimm ára frá og með 1. ágúst 2018. Tvær umsóknir bárust um embættið.

Valgerður lauk B.A. prófi í íslensku frá Háskóla Íslands, námi í kennslu- og uppeldisfræði frá Háskólanum á Akureyri og diplómanámi í stjórnun og forystu í skólaumhverfi frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Valgerður hefur víðtæka reynslu af skólastarfi sem kennari, námsráðgjafi, deildarstjóri í Framhaldsskólanum á Húsavík og skólameistari Framhalds¬skólans á Laugum.

Valgerður hefur einnig víðtæka reynslu af sveitarstjórnarmálum sem bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar. Hún hefur enn fremur gegnt ýmsum trúnaðar¬störfum, þar á meðal formennsku í Skólameistarafélagi Íslands, setið í stjórn Útgerðarfélagsins Höfða og í stjórn Menningarsjóðs þingeyskra kvenna. Valgerður sat á Alþingi 2013-2017 og var formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis 2016-2017. Hún hefur verið varaþingmaður frá í maí 2018.

Heimid: stjornarrad.is

Heimir Ingi skrifar undir samning hjá KF

Heimir Ingi Grétarsson leikmaður KF hefur ákveðið að taka skóna af hillunni eftir að hafa tekið sér pásu árið 2016 vegna meiðsla. Hann hefur skrifaði undir samning hjá KF og hefur ákveðið að taka slaginn með KF út tímabilið. Heimir Ingi er fæddur árið 1996 og er hann sóknarsinnaður leikmaður sem getur spilað út á kanti, inná miðju og sem framherji. Heimir hefur alltaf spilað undir merkjum KF,  upp alla yngri flokka og spilaði hann sína fyrstu meistaraflokks leiki með KF árið 2013. Heimir mun koma til með að styrkja hópinn mikið, þar sem að hann er líkamlega sterkur og mjög yfirvegaður leikmaður. KF greindi fyrst frá þessu á vef sínum.

Heimir hefur leikið 14 leiki fyrir KF í meistaraflokki í deild og bikar en á ennþá eftir að skora mark í opinberum leik KSÍ. Hann lék síðast 8 leiki þegar KF var í 2. deildinni árið 2016, en hefur svo komið inná sem varamaður í einum leik í sumar.

Mynd: KFbolti.is

 

Bæjar- og menningarvefur