Skíðavertíðinni senn að ljúka

Núna fer skíðavertíðinni víða að ljúka en tilkynnt hefur verið að síðasti opnunardagurinn í Skarðsdal á Siglufirði verði laugardaginn 4. maí, en þá fer fram Skarðsrennsli. Aðrir opnunardagar næstu daga verða: miðvikudagurinn 24. apríl kl. 13-18, sumardaginn fyrsta 25. apríl kl. 10-16, föstudaginn 26. apríl kl. 13-18, laugardaginn 27. apríl kl. 10-16 og sunnudaginn 28. apríl kl. 10-16.

Aðstæður eru þannig að það er mikið vorfæri, mjúkur snjór, gott færi fyrir bretti og breið skíði.

Vel heppnað Fljótamót í Skíðagöngu

Ferðafélag Fljóta stóð fyrir árlegu skíðagöngumóti í Fljótum á föstudaginn langa síðastliðinn.  Fjölbreyttar gönguleiðir voru í boði með hefðbundinni aðferð í öllum flokkum barna, unglinga, og fullorðinna. Eftir mótið voru veitingar í Ketilási. Uppselt var á mótið í ár. Verðlaunapeningar voru í boði, auk happadrættist og páskaeggja fyrir börnin.

Búið var að taka upp töluverðan snjó í rásmarkinu og var því rásmarkið fært upp á Holtsdal skömmu fyrir mót og fóru því keppendur með rútu eða gengu um 1. km að rásmarki.

Fyrstur í mark í 20 km göngu var Sævar Birgisson á tímanum 1:20:29. Fyrsta konan í mark í 20. km göngu var Elsa Guðrún Jónsdóttir á tímanum 1:26:40.

Þátttökulista og önnur úrslit má finna á timataka.net.

Myndir með frétt: Fljotin.is / Hermann Hermannsson.

Umhverfisdagar Skagafjarðar haldnir 15. – 19. maí

Umhverfisdagar Sveitarfélagsins Skagafjarðar verða haldnir dagana 15. – 19. maí næstkomandi, en í ár eru 30 ár frá því að umhverfisdagar voru fyrst haldnir í firðinum. Íbúar eru hvattir til að hlúa að umhverfinu og er takmarkið að fá snyrtilegra og fegurra umhverfi. Mikilvægt er að íbúar, fyrirtæki og félagasamtök taki höndum saman, tíni rusl og snyrti til í og við lóðir sínar og á nærliggjandi opnum svæðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sveitarfélaginu Skagafirði.
Óskað er eftir tillögum að viðburðum og verkefnum til að framkvæma á þessu 30 ára afmæli og er hægt er senda inn tillögur á tölvupósti á skagafjordur(hjá)skagafjordur.is.

Áhugaverður fyrirlestur í Síldarminjasafninu

Í tilefni Eyfirska safnadagsins þann 25. apríl, á sumardaginn fyrsta, fer fram áhugaverður fyrirlestur í Gránu, bræðsluhúsi Síldarminjasafnsins á Siglufirði kl. 14:00.

Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur ætlar í erindi sínu að rjúfa skarð í þann þagnarmúr sem hlaðinn er um sögu verkakvenna. Þætti þeirra í verðmætasköpun í sjávarútvegi er sjaldan gefinn verðugur gaumur, stundum mætti jafnvel ætla að saltfiskur og söltuð síld í tunnum væru dregin úr sjónum.

Síldarsöltun er iðulega kennd við ævintýri. Rómantík, söngur, dans og harmonikutónar leika þar aðalhlutverkin. Hvernig kemur sú mynd heim og saman við raunveruleika hversdagsins í vinnslu á silfri hafsins?

Sögur úr síldinni eru margar, en sárafáar frásagnir kvenna hafa því miður ratað á prent.

Áheyrendum verður boðið að fylgja síldarstúlkum með togara frá Reykjavík norður til Hjalteyrar. Hugað verður að undirbúningi þeirra fyrir vertíðina, ferðalagið og útlegðina. Litið verður inn um gættina á verbúðum verkakvenna og brugðið upp mynd af aðbúnað þeirra og sambúð. Kostur síldarstúlkna og vinnufatnaður verður gaumgæfður og drepið á þvotta, þrifnað og heilsufar. Áhugasömum hlustendum verður að sjálfsögu boðið að slást í för með verkakonum á söltunarplanið.

Þórarinn Hjartarson „syngjandi sagnfræðingur“ mun fylgja Margréti og bresta í söng undir lestri konu sinnar.

Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.

Image may contain: text

Minningarmót í skíðagöngu í Ólafsfirði í dag

Í dag, páskadag verður haldið minningarmót á vegum Skíðafélags Ólafsfjarðar um tvíburana frá Burstabrekku, Nývarð og Frímann. Mótið er eitt af flottari og skemmtilegri mótum sem eru haldin hjá skíðafélaginu.
Mótið hefst kl: 13:00 og verður haldið á Kleifunum.

Allir fá viðurkenningu að keppni lokinni, en gengið er með hefðbundinni aðferð. Stuttar vegalengdir.

Páskaeggjamót í Skarðsdal

Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði er opið frá kl. 10-16 í dag, páskadag. Færið er troðinn blautur snjór og eru gestir beðnir um að fara varlega á neðsta svæðinu samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmennum svæðsins.  Góðar aðstæður eru á efrihluta skíðasvæðsins.

Páskaeggjamót fer fram í dag kl. 13:00 og er fyrir 10 ára og yngri.

 

Dalvík vann Þór í Mjólkurbikarnum

Dalvík/Reynir og Þór mættust í Boganum á Akureyri í dag í 2. umferð Mjólkurbikarsins. Þórsarar eru í Inkassó-deildinni og Dalvík/Reynir eru nýliðar í 2. deildinni.

Það voru Þórsarar sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 17. mínútu og var þar að verki Jónas Sigurbergsson. Aðeins fimm mínútum síðar jafnaði Dalvík/Reynir metin þegar Pálmi Birgisson skoraði, staðan orðin 1-1. Í lok fyrri hálfleiks skoraði Þór aftur og komust yfir 2-1, en markið skoraði Orri Sigurjónsson.

Dalvík/Reynir mættu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og uppskáru tvö mörk. Númi Kárason jafnaði leikinn á 57. mínútu, staðan orðin 2-2.  Aðeins fimm mínútum síðar skoraði Dalvík/Reynir aftur og var þar að verki Borja Lopez Laguna, staðan orðin 2-3.

Þórsarar skiptu fljótlega eftir markið tveimur mönnum inná til að hressa við sóknarleikinn, en allt kom fyrir ekki. Dalvíkingar gáfu ekki færi á sér og héldu út, og unnu heldur betur óvænta sigur á Þórsurum í dag. Lokatölur 2-3 í þessum hörkuleik.

Það reyndist Þórsurum dýrmætt að misnota víti í síðari hálfleik auk þess sem þeir áttu tvívegis skot í stöng í síðari hálfleik.

Mynd frá thorsport.is

 

Frumleg dróna ljósmyndasýning opnaði á Torginu á Siglufirði

Ljósmyndasýningin “Að Ofan” opnaði formlega í dag á veitingahúsinu Torginu á Siglufirði.  Á sýningunni má sjá drónamyndir frá Siglufirði á óhefðbundinn hátt sem Ingvar Erlingsson tók. Um að ræða fyrstu einkasýningu Ingvars. Talið er að um 100 manns hafi mætt á opnunina í dag.

Verkin munu standa í að minnsta kosti eitt ár á Torginu samkvæmt upplýsingum frá Ingvari.  Myndirnar eru sýnilegar á borðum og veggjum og eru þær plastaðar vandlega á borðin.

Fleiri myndir eftir Ingvar má finna á fésbókinni og Instagram.

Ljósmyndir með frétt: Ingvar Erlingsson.

KF úr leik í Mjólkurbikarnum – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

KF mætti Magna á KA-vellinum á Akureyri í dag í 2. umferð Mjólkurbikarsins. Magni leikur í Inkassó-deildinni og KF er í 3. deildinni, og er því töluverður styrkleikamunur á liðunum. Liðin mættust einnig í 2. umferð bikarsins fyrir ári síðan og var þá niðurstaðan 5-0 sigur Magna. Árið 2016 léku liðin saman í 3. deildinni og fór fyrri leikurinn 0-0 og síðari leikurinn á heimavelli Magna 5-1.

Í þessum leik var Magni einnig einu númeri og stórir fyrir hið unga lið KF. Magni skoraði fyrsta mark leiksins á 25. mínútu, en markið gerði Jakob Hafsteinsson. Á 40. mínútu skoraði Marinó Birgisson annað mark Magna og kom þeim í 2-0. Marinó lék nokkra leiki sem lánsmaður hjá KF vorið 2018. Staðan var 2-0 í hálfleik.

Strax eftir hálfleikinn gerði KF skiptingu þegar Vitor Vieira kom inná fyrir Aksentije Milisic. Magni gerði tvöfalda skiptingu á 57. mínútu og á 63. mínútu skipti KF um markmann ,þegar Sindri kom inná fyrir Halldór Ingvar. Halldór var tæpur fyrir leikinn og tóku sig upp meiðsli og varð því að gera skiptingu.

Á 75. mínútu komst Magni í 3-0 með marki frá Frosta Brynjólfssyni. Á 76. mínútu kom Halldór Logi inná fyrir Kristófer Mána. Aðeins mínútu síðar skorar Magni aftur þegar Gauti Gautason skorar, og kemur þeim í 4-0.

Fleiri urðu mörkin ekki og kemst Magni áfram í 3. umferð Mjólkurbikarsins en KF getur einbeitt sér að deildarkeppninni næstu vikurnar. Magni refsaði KF fyrir mistök í þessum leik og KF nýtti ekki þau fáu tækifæri sem komu.

KF leikur næst gegn Álftanesi í 3. deildinni, laugardaginn 4. maí á Bessastaðavelli kl. 16:00.

 

Aðalbakarí Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallana um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í sumar .

Arion banki er styrktaraðili umfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar í deild og unglingastarfi.

Kajak tímabilið hafið í Fjallabyggð

Ferðaþjónustufyrirtækið Top Mountaineering er staðsett á Siglufirði og bjóða þeir meðal annars upp á kajakferðir, gönguferðir og bátaferðir. Kajak tímabilið er nú hafið og fóru 15 manns á kajak hjá Gesti Hansa í gær. Ein klukkustund á kajak kostar aðeins 5500 kr og tvær klst. aðeins 8500.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um fyrirtækið á heimasíðu þess.

Image may contain: one or more people, outdoor, water and nature
Mynd: Top mountaineering

Passíusálmar lesnir á Ljóðasetrinu

Að vanda eru fjölbreyttir viðburðir á Ljóðasetri Íslands á Siglufirði um páskana.  Í dag, föstudaginn langa kl. 12.30 – 14.30 munu ýmsir aðilar flytja úr val úr Passíusálmunum.

Í gær voru um 80 manns mættir á ljósmyndasýningu Ljósmyndaklúbbs Fjallabyggðar sem er opin nú um páskana á Ljóðasetrinu, og er um sölusýningu að ræða til styrkar setursins.

Laugardaginn 20. apríl kl. 16.00 verður útgáfuhóf í tilefni af útgáfu 6. heftis af 50 Gamansögum frá Siglufirði á Ljóðasetrinu.

Ljóðasetrið heldur einnig úti heimasíðu þar sem kynna sér má sögu setursins og helstu fréttir.

Ljósmyndaklúbbur Fjallabyggðar sýnir í Ljóðasetrinu

Ljósmyndaklúbbur Fjallabyggðar verður með glæsilega ljósmyndasýningu á Ljóðasetrinu á Siglufirði um páskana.

Um er að ræða sölusýningu og rennur allur ágóði af sölu myndanna til Ljóðasetursins. Alls taka 15 ljósmyndarar úr Fjallabyggð þátt í sýningunni.  Ljóðasetrið opnar kl. 14.00 í dag, skírdag.

Hvetjum við fólk til að fjölmenna, njóta sýningarinnar og næla sér í glæsilegar ljósmyndir á góðu verði.

Opið á skíðasvæðinu á Siglufirði

Skíðasvæðið í Skarðsdal er opið í dag, skírdag frá kl. 10-16. Færið er vorfæri en brekkur eru breiðar og nægur snjór í efri hluta svæðisins, en það þarf að fara varlega á neðsta svæðinu. Það eru veitingar í skíðaskála og einnig á efra svæðinu. Flott utanbrautarfæri í Tröllafjöllunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umsjónarmönnum skíðasvæðisins. Nánari upplýsingar um dagskrá um páskana má finna á vef svæðsins.

Image may contain: sky, mountain, nature and outdoor
Ljósmyndir: Fríða Jónasdóttir.

 

Opnunartími Íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar um páskana

Tvær íþróttamiðstöðvar eru í Fjallabyggð, og sundlaugar í báðum byggðarkjörnum. Opið verður alla páskana í íþróttamiðstöðvum og sundlaugum í Fjallabyggð.

 

Íþróttamiðstöðin á Siglufirði
Hvanneyrarbraut 52
Sími: 464-9170

Fjölnota íþróttasalur, tækjasalur.
Sundhöllin á Siglufirði er innilaug  10 x 25 metrar.  Á útisvæði er stór pottur með nuddi og sauna.

 

Íþróttamiðstöðin í Ólafsfirði
Tjarnarstíg 1
Sími: 464 9250

Við Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar Ólafsfirði er sundlaug 8 x25 metrar, 2 heitir pottar 38° og 40° heitir og er annar m/nuddi.
Fosslaug og barnalaug eru vinsælar og síðast en ekki síst rennibrautirnar tvær. Önnur er snákur sem er 3,5 metrar en sú stærri er 52,5 metrar og er svarthol.

4,8% atvinnuleysi í Fjallabyggð

Atvinnuleysi mælist nú 4,8% í Fjallabyggð í lok mars mánaðar og eykst um 0,5% á milli mánaða. Alls eru 52 án atvinnu í Fjallabyggð en voru 47 í febrúar 2019.  Alls eru þetta 30 karlar og 22 konur sem eru án atvinnu í Fjallabyggð.  Þetta kemur fram í gögnum frá Vinnumálastofnun.

Atvinnuleysi mælist nú 2,3% í Dalvíkurbyggð í lok mars 2019. Alls voru 24 án atvinnu í Dalvíkurbyggð í lok mars 2019. Alls eru þetta 16 karlar og 8 konur sem eru án atvinnu. Atvinnuleysi eykst um 0,1% á milli mánaða og hefur ekki mælst hærra síðan í apríl 2018.

Dagskrá Ólafsfjarðarkirkju um páskana

Fjölbreytt dagskrá verður í Ólafsfjarðarkirkju um páskana. Tónlistarmessa verður á skírdag, lestur Passíusálmanna á föstudaginn langa og hátíðarguðsþjónusta á Páskadag.

Dagskrá:

18. apríl skírdagur
Kyrrðar- og endurnýjunarganga – Lagt verður af stað frá Ólafsfjarðarkirkju kl. 10:00 og gengið út að Leiti á Kleifum. Góðgæti á boðstólnum í safnaðarheimilinu

Tónlistarmessa kl. 20:00 Um tónlistina sjá Lísebet Hauksdóttir¸ Jón Þorsteinsson og Kirkjukór Ólafsfjarðar undir stjórn Ave Köru Sillaots. Óhefðbundin altarisganga – Ókeypis aðgangur
Nærandi stund fyrir líkama og sál

19. apríl föstudagurinn langi
Lestur Passíusálmanna hefst kl. 11:00 og stendur til ca. kl. 15.
Hópur Ólafsfirðinga les. Kaffi í safnaðarheimilinu

Kvöldvaka við krossinn kl. 20:00
Lesið úr Píslarsögunni og flutt orð Krists á krossinum. Gengið út úr kirkjunni í myrkri og þögn

21. apríl Páskadagur
Hátíðarguðsþjónusta kl. 9:00 Hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar sungið. Kaffi og páskaegg í safnaðarheimilinu. Gleðjumst saman yfir sigri lífsins yfir dauðanum

Hátíðarguðsþjónusta á Hornbrekku kl. 14:00

Paramót Sigló Hótels í blaki

Hið árlega Paramót Sigló Hótels í blaki fer fram föstudaginn langa (19.apríl) í íþróttahúsinu á Siglufirði. Mótið er haldið til styrktar Strandblaksvellinum á Siglufirði og er öllum opið en grunnreglurnar eru eftirfarandi:

 • Pör þurfa að skrá sig til leiks (karl og kona eða kona og kona)
 • Dregið verður í lið fyrir hverja hrinu (þrjú pör mynda lið)
 • Hver hrina er spiluð upp í 15 og nóg er að vinna með einu stigi
 • Stefnt er að því að spila 8 hrinur en fjöldi hrina fer eftir fjölda para


Vegleg verðlaun frá styrktaraðila fyrir efsta sætið og glæsilegir happdrættisvinningar dregnir út í mótslok.
Mótið hefst kl. 15:15 en hægt er að mæta í upphitun kl. 15:00, og því lýkur kl. 17:30 (gríðarlega mikilvægt að þátttakendur séu mættir tímanlega). Kostnaður er 5000.- pr. par og greiðist á mótsstað en áður en mótið hefst. Pör eru vinsamlegast beðin um að senda skráningu á mótsstjóra (oskarthor77@gmail.com eða 848-6726) sem fyrst þar sem einungis 36 pör geta tekið þátt á mótinu.
Nú er um að gera að taka frá nokkrar klukkustundir föstudaginn langa og mæta með góða skapið í íþróttahúsið, njóta góðrar samverustundar og um leið styrkja gott málefni.

Texti: Fréttatilkynning frá Blakfélagi Fjallabyggðar.

Þjálfari Tindastóls í körfubolta hættir

Körfuknattleiksdeild Tindastóls og Israel Martin hafa komist að samkomulagi um að hann hætti þjálfun meistaraflokks karla. Ákvörðunin er tekin í mestu vinsemd og fara báðir aðilar sáttir frá borði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Tindastóli.

Israel Martin hefur þjálfað lið Tindastóls síðustu tvö keppnistímabil í Dominosdeild karla með ágætum árangri þar sem bikarmeistaratitill 2018 stendur uppúr.

Stjórn KKD Tindastóls vill þakka Israel Martin fyrir gott og óeigingjarnt starf fyrir deildina og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.

 

Fréttatilkynning vegna ársreiknings Fjallabyggðar 2018

Ársreikningur Fjallabyggðar var lagður fram til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi 12. apríl sl. Rekstur bæjarsjóðs gekk vel og var betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

 • A – hluti bæjarsjóðs var rekinn með 193 mkr. afgangi sem eru góðar niðurstöður fyrir sveitarfélagið.
 • Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs Fjallabyggðar (A+B hluti) var jákvæð um 279 mkr. fyrir árið 2018, en var jákvæð um 160 mkr. árið 2017, og er talsvert betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.
 • Rekstrartekjur A og B hluta námu 2.893 mkr. á árinu 2018, en voru 2.653 mkr. árið 2017.
 • Rekstrargjöld ársins 2018 námu 2.432 mkr. en voru 2.343 mkr. árið 2017.
 • Eignir eru samtals 5.467 mkr. en voru 4.971 mkr. árið 2017.
 • Vaxtaberandi skuldir eru 582 mkr. en voru 433 mkr. árið 2017. Ástæða þessara aukningar var lán sem þurfti að taka í janúar 2018 vegna aukinnar lífeyrisskuldbindingar, sem lögð var á sveitarfélögin seint á árinu 2017. Lánið sem tekið var, var upp á 284 mkr. en 100 mkr. voru greiddar inn á það í júlí 2018 og 100 mkr. greiddar í janúar 2019. Reiknað er með að greiða lánið upp í janúar 2020.
 • Veltufé frá rekstri nam 582 mkr. eða 20.1% miðað við 471 mkr. árið 2017 (17.8%)
 • Skuldaviðmið er 31,8%, en var 59.0% árið 2017. Viðmið samkvæmt sveitastjórnalögum er að hámarki 150%.
 • Eigið fé bæjarsjóðs Fjallabyggðar er 3.327 mkr. eða 60.9%, en var 2.929 mkr. eða 58.9% árið 2017.
 • Ef veltufé frá rekstri væri eingöngu notað til greiðslu langtímaskulda tæki það 1 ár, miðað við 0,92 ár, árið 2017.
 • Fjárfestingar á árinu 2018 voru 324 mkr. en áætlun gerði ráð fyrir 320 mkr.
 • Handbært fé í árslok var 250 mkr.
 • Veltufjárhlutfall var 1,37.

Ársreikningurinn sýnir að fjárhagsstaða bæjarsjóðs er traust og rekstur sveitarfélagsins er í mjög góðu lagi, þar sem aðhald og ráðdeild er höfð að leiðarljósi.

Texti: Fréttatilkynning frá Fjallabyggð.

Opnunartími Hallarinnar um páskana

Veitingahúsið Höllin í Ólafsfirði er opin yfir páskana og þar verður meðal annars pubquiz og lifandi tónlist.

Opnunartími yfir páskana:

Skírdagur 17:00 – 21:00
Föstudagurinn langi 17:00 – 21:00
Barinn 22:00 – 02:00
Pubquiz hefst 22:30 verðlaun fyrir tvö efstu liðin 👌Frítt inn!
Laugardagurinn 17:00 – 21:00
Barinn 22:00 – 03:00 Hákon og Heimir hefja lætin 23:00 og spila allra heitustu slagarana 😎 Frítt inn 😱
Páskadagur 17:00 – 21:00
Annar í páskum LOKAÐ !

Dalvík/Reynir vann Samherja í Mjólkurbikarnum

Lið Dalvíkur/Reynis mætti liði Samherja í dag í Mjólkurbikarnum, en leikið var á Akureyri.  Fyrirfram var búist við þægilegum leik fyrir Dalvík/Reyni.

Samherjar skoruðu sjálfsmark á 17. mínútu og komst Dalvík/Reynir því í 1-0. Skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks skoraði Borja Laguna fyrir Dalvík/Reyni og kom þeim í 2-0 og þannig var staðan í hálfleik.

Dalvík skoraði svo tvö mörk með skömmu millibili á 69. mínútu skoraði Gunnlaugur og 73. mínútu og komust í 4-0, en Atli Fannari skoraði úr víti.

Undir lok leiksins bætti svo Dalvík við tveimur mörkum og innsigluðu stórsigurinn, Borja Laguna skoraði á 89. mínútu og Pálmi Birgisson á 92. mínútu. Lokatölur 6-0 og Dalvík/Reynir mætir liði Þórs í næstu umferð.

Dalvíkingar fá nýtt gervigras

Dalvíkurbyggð hefur undirritað framkvæmdasamning við UMFS Dalvík vegna framkvæmdar á nýjum gervigrasvelli á Dalvík. Dalviksport.is greindi fyrst frá þessu.

Í samningnum kemur m.a. fram að UMFS Dalvík muni sjá um framkvæmdina og ákvörðunartökur í efnisvali og slíku.  Búið er að velja gras á völlinn en gervigrasið og innfylling verður keypt af Metatron ehf.
Gervigrasið er fyrsta flokks með snjóbræðslu- og vökvunarkerfi.
Framkvæmdir eru nú þegar hafnar og gengur jarðvinnan gengur vel.  Það er Steypustöðin á Dalvík sem vinnur þann verkþátt.

Heimild: dalviksport.is

Mynd: dalviksport.is

Líf og fjör á Torginu um páskana

Það verður stemning á veitingahúsinu Torginu á Siglufirði um Páskana. Veitingastaðurinn býður upp á fjölbreyttan matseðil, m.a. ferskan fisk, steikur, salöt, hamborgara og pizzur. Hægt er að skoða matseðlana á netinu á heimasíðu staðarins. Einnig er sérstakur barnamatseðill í boði fyrir yngri kynslóðina.
Föstudaginn langa mæta strákarnir í dúettnum Einn plús 1 og halda uppi stemningu fram á nótt.
Laugardagskvöldið 20. april mætir Eva Karlotta og spilar eins og henni einni er lagið.
Á Páskadag er einnig opið til kl. 01:00.
Báðir viðburðir hefjast um kl. 23:00 og er frítt inn.

Tindastóll vann Æskuna í Mjólkurbikarnum

Tindastóll mætti liði Æskunnar á Sauðárkróksvelli í gær í Mjólkurbikarnum. Heimamenn voru með betra liðið og skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleik. Arnar Ólafsson skoraði strax á 16. mínútu og Hafsteinn Magnússon skoraði tvívegis með stuttu millibili, á 30. mínútu og aftur á 36. mínútu. Staðan var því 3-0 í hálfleik.

Um miðjan síðari hálfleik skoraði Hafsteinn aftur tvö mörk með tveggja mínútna millibili á 65. mín og 67. mín. og staðan orðin 5-0 fyrir heimamenn.

Fleiri urðu mörkin ekki og eru Stólarnir komnir í næstu umferð og mæta Völsungi á Húsavík 24. apríl.

 

Sýning um Ólafsfjarðarvatn opnar í Pálshúsi í maí

Opnuð verður sýning um Ólafsfjarðarvatn í Pálshúsi í Ólafsfirði laugardaginn 18. maí næstkomandi. Mikil vinna hefur verið unnin i húsinu sl. ár og húsið verið gert upp. Í sumar stendur einnig til að skipta út klæðningu á húsinu, en þar verður járnið tekið af og timburklæðning sett á húsið. Á efri hæð hússins hefur einnig verið mikil vinna en þar stendur til að opna Ólafsfjarðarstofu á árinu 2020, á 75 ára afmæli Ólafsfjarðarkaupstaðar. Á efri hæð hússins verður hægt að kynna sér sögu Ólafsfjarðar í máli og myndum.

Mynd frá efri hæð Pálshúss.

 

Bæjar- og menningarvefur