Auglýst eftir umsóknum um bæjarlistamann Fjallabyggðar 2018

Fjallabyggð hefur auglýst eftir umsóknum eða rökstuddum ábendingum um Bæjarlistamann Fjallabyggðar 2018.  Nafnbótin bæjarlistamaður getur hlotnast einstökum listamanni eða hópi.  Styrkur til bæjarlistamanns 2018 nemur kr. 300.000 til einstaklings og kr. 400.000 til hóps. Aðeins listamenn sem hafa verið búsettir í Fjallabyggð í að minnsta kosti um tveggja ára skeið koma til greina.

Umsóknir eða ábendingar skulu berast til bæjarfélagsins fyrir 6. desember 2017, með bréfi eða í tölvupósti á netfang markaðs- og menningarfulltrúa; lindalea@fjallabyggd.is. Reglur um tilnefningu bæjarlistamanns má finna á heimasíðu Fjallabyggðar.

Fyrsti opnunardagur í Skarðsdal

Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði opnar í dag í fyrsta skiptið í vetur. Opið verður frá kl. 12:00-15:00. Aðeins verður Neðstalyftan opin í þetta sinn. Á svæðin eru um 30-40 cm silkimjúkur snjór og brekkan torðin. Aðgangur er ókeypis í dag á svæðið, hiti er um -3 gráður og léttskýjað. Þá er gott fjallaskíðafæri í dalnum.

 

Pólskir sérfræðingar halda kynningu í Síldarminjasafninu

Dagana 20. – 23. nóvember heimsækja starfsmenn Sjóminjasafninsins í Gdansk í Póllandi Síldarminjasafnið og Siglufjörð.  Um er að ræða fjóra forvörslusérfræðinga sem heimsækja Síldarminjasafnið í þeim tilgangi kynnast starfseminni og stuðla að samstarfi um bátavernd og varðveislu sjóminja.

Klukkan 10:00 á mánudagsmorgun þann 20. nóvember, verða pólsku gestirnir með stutta kynningu á starfsemi síns safns sem stendur mjög framarlega í varðveislu sjóminja og skipsflaka og hefur yfir 200 starfsmenn. Kynningin fer fram í fundarsal Bátahússins og eru allir áhugasamir velkomnir.

Heimsóknin er framhald af samstarfsverkefni sem hófst í janúar á þessu ári þegar starfsmenn Síldarminjasafnsins fóru í heimsókn til Gdansk og fengu að kynnast umfangsmikilli starfsemi safnsins þar í borginni og í nærliggjandi bæjum, en safnið hefur alls sex starfsstöðvar í Póllandi og starfar á landsvísu.

Heimild: sild.is

 

Varað við snjóflóðahættu með SMS við Ólafsfjarðarmúla

Vegagerðin hefur komið á fót viðvörunarkerfi með SMS-skeytum um snjóflóðahættu til vegfarenda sem leið eiga um Ólafsfjarðarmúla. Hægt er að skrá símann sinn hjá Vegagerðinni og fær viðkomandi þá sent sms-skeyti við öll fjögur viðvörunarstigin. Þegar varað er við, hættustigi lýst, vegi lokað og þegar opnað er eftir lokun. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Prófanir fóru fram síðastliðið vor og gáfust vel og nú hefur verið ákveðið að gefa þeim vegfarendum sem þess óska að gerast áskrifendur að þessum viðvörunum.  Sérstaklega er því beint til þeirra sem fara oft um veginn vegna atvinnu sinnar, skólasóknar eða af öðrum ástæðum að nýta sér þessar viðvaranir.

Um er að ræða eftirfarandi stig:

A:  Varað er við snjóflóðahættu á næstu klukkustundum.
B:  Lýst yfir óvissustigi,  sem þýðir að snjóflóðahætta er viðvarandi og vegfarendur hvattir til að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.
C:  Lýst yfir hættustigi, veginum lokað.
D:  Hættustigi aflýst og vegurinn opinn.

Þeim vegfarendum sem áhuga hafa á að fá viðvaranir er bent á að senda tölvupóst þar sem kemur fram nafn og gsm númer í netfangið  umferd@vegagerdin.is  eða hringja í upplýsingasíma Vegagerðarinnar 1777.

Myndir: Ragnar Magnússon, fyrir Héðinsfjörður.is

Lágheiðin ófær

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni þá er Lágheiðin milli Fljóta og Ólafsfjarðar ófær. Nánar má sjá á korti Vegagerðinnar.

Lágheiðin verður án vetrarþjónustu í vetur samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Það þýðir að vegurinn verður ekki skafinn eða haldið við í vetur og færð og ástand vegarins er ekki skoðað.

Fjallabyggð eykur enn öryggi barna í skólabílnum

Fjallabyggð hefur samþykkt beiðni  Jónínu Magnúsdóttur, skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar að ráðinn verði rútuliði í 50% starf sem sinni gæslu í skólabílnum á tímabilinu 12:40-16:15. Það eru Hópferðabílar Akureyrar sem sjá um skóla- og frístundaakstur í Fjallabyggð.  Nemendur í Fjallabyggð í 1.-5. bekk stunda nám á Siglufirði og eru um 100 nemendur þar, en í Ólafsfirði er kenndur 6.-10 bekkur og eru einnig um 100 nemendur þar.  Daglegur ferðatími til og frá skóla er áætlaður 50 mínútur.

Fjallabyggð fór einnig fram á í haust að sæti í skólabílnum yrðu með þriggjafestu mjaðmar- og axlarbeltum og að yngstu nemendur myndu sitja á bílsessu.

Mikil umræða varð í vor þegar Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á tillögu starfshóps um samþættingu á skóla- og frístundastarfi þann 18. maí. 2017.

 

Fyrstu íbúar Gaggans fluttir inn

Aðeins eru þrjár íbúðir eftir til sölu í gamla Gagnfræðaskólanum á Siglufirði við Hlíðarveg. Meðal nýrra íbúa eru starfsfólk Depla í Fljótum en þau hafa fengið afhentar tvær fullbúnar íbúðir í húsinu og verður búið í þeim allan ársins hring. Þá hafa báðar penthouse-íbúðirnar verið seldar til einkaaðila sem hyggst sameina þær í eina íbúð.  Einnig hafa einkaaðilar af höfuðborgarsvæðinu keypt íbúðir og þá eru nokkrar í langtímaleigu, meðal annars sem orlofsíbúðir fyrir Hjúkrunarfélag Íslands. Húsið er fjölbýlishús með lyftu og alls eru 13 íbúðir auk penthouse-íbúðar.

Eftirfarandi íbúðir í Gagganum eru til sölu:

 0001 – 65 m² verð kr. 15,5 millj.

0002 – 95 m² verð kr. 24,5 millj.

0103 – 69 m² verð kr. 23,0 millj.

Allar þessar íbúðir eru fullbúnar með parketi á gólfum. Ný eldhúsinnrétting og fataskápar frá HTH. Tæki öll ný í eldhúsi frá AEG;

Ísskápur – Ofn – Helluborð – uppþvottvél.  Nánari upplýsingar á www.gagginn.is

 

 

 

 

 

Skíðasvæðið í Skarðsdal opnar mögulega um næstu helgi

Skíðaparadísin í Skarðsdal á Siglufirði gæti opnað um næstu helgi ef aðstæður og veður leyfir, en góður grunnur af snjó er nú þegar á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmanni svæðisins er stefnt að því að opna svæðið laugardaginn 18. nóvember kl. 11:00, og yrði þá ein lyfta opnuð. Frítt yrði á svæðið þennan daginn og yrði opið til kl. 15:00.  Hægt verður að mæta með sleða, bretti, þotur og auðvitað skíði.  Nánari upplýsingar um þessa opnun verður á vef skíðasvæðins, skardsdalur.is.

Framkvæmdir á sjálfu skíðasvæðinu frestast fram á næsta ár, en byrjað var á vegaframkvæmdum nú í haust og búið er að tryggja fjármagn til að klára þá framkvæmd á næsta ári. Nýr skíðaskáli verður byggður á næsta ári ef áætlun stenst og einnig þarf að færa tvær skíðalyftur. Þá er í gangi söfnun á töfrateppi eða færibandi sem verður vonandi sett upp á næsta ári.

Skíðasvæðið hefur fengið nýjan snjótroðara sem er mjög öflugt tæki að gerðinni Pisten Bully 600 og er með spili.

Þá er að fara í gang forsala á vetrarkortum frá 20. nóvember og stendur til 03. desember og verða til sölu í Aðalbakarí.

Kort fullorðins          18.000.- í stað 25.000.-
Kort barna                7.000.- í stað 10.000.-
Kort framhalds/háskólanema  11.000.- í stað 15.000.-
Öllum kortum fylgir Norðurlandskortið

 

 

50 börn á grunnskólaaldri æfa blak í Fjallabyggð

Barna- og unglingastarfið hjá Blakfélagi Fjallabyggðar er í miklum blóma og eru yfir 50 krakkar á grunnskólaaldri að æfa undir handleiðslu Raul og Önnu Maríu og er greinilegt að þau eru að ná vel til krakkanna.  

Nú um helgina fór fram Íslandsmótið í blaki hjá 5. flokki og var mótið haldið í Fagralundi í Kópavogi.  Þrjú lið frá Blakfélagi Fjallabyggðar tóku þátt á mótinu og stóðu sig frábærlega. Lið í þessum aldursflokk spila fjögurra manna blak eftir mismunandi reglum eða stigum allt eftir því hversu langt þau eru komin. Tvö lið félagsins spiluðu á 3. stigi en þá er bolti númer tvo alltaf gripinn. Bæði liðin náðu frábærum árangri þar sem annað liðið sigraði og hitt lenti í 4. sæti. Þriðja lið félagsins spilaði á 4. stigi en það er hefðbundið blak og gerði liðið sér lítið fyrir og endaði í 2.sæti.
Í heildina spiluðu lið félagsins 39 hrinur á mótinu og sigraði 27 af þeim.
Stór hluti foreldra og systkina fylgdi liðinu og skapaðist góð stemning hjá hópnum.

Lágheiðin án vetrarþjónustu

Lágheiðin milli Fljóta og Ólafsfjarðar verður án vetrarþjónustu í vetur samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Það þýðir að vegurinn verður ekki skafinn eða haldið við þar til í vor og færð og ástand vegarins er ekki skoðað. Vegurinn var ófær seint í nóvember í fyrra og var opnaður í lok maí 2017. Vegurinn er einn af fáum á Norðurlandi sem ekki hafa vetrarþjónustu.

Hannar og smíðar handgerð skíði í Dalvíkurbyggð

Dag­ur Óskars­son er vöru­hönnuður í Dalvíkurbyggð og hef­ur hannað skíði sem hann smíðar sjálfur. Efniviðurinn er birki úr Vaglaskógi í Fnjóskárdal. Dalvíkurbyggð hefur ákveðið að semja við hann um húsnæði undir þessa framleiðslu, en það er Gæsluvallarhúsið við Svarfaðardalsbraut í Dalvíkurbyggð.  Hann var hæstbjóðandi í leiguna á húsnæðinu og er gert ráð fyrir að semja við hann til 12 mánaða um leigu á húsnæðinu.

Dagur er líklega eini skíðasmiðurinn sem starfar á Íslandi. Í viðtali við mbl.is segist hann hafa verið lengi með þessa hugmynd þar sem hann stundi mikið skíði og sé vöruhönnuður að mennt.  Skíðin eru sér­stak­lega ætluð þeim sem ganga fjöll og skíða niður ótroðnar slóðir.

 

50 ár frá því umferð í gegnum Stráka hófst

Í dag eru nákvæmlega 50 ár frá því að Strákagöng við Siglufjörð voru vígð við hátíðlega athöfn. Þennan dag fyrir 50 árum lokuðu Siglfirðingar  verslunum, fóru í sparifötin og drógu fána að húni og tóku á móti fyrstu bifreiðum sem fóru í gegnum Strákagöng. Voru þar á ferð Ingólfur Jónsson, landbúnaðar- og samgöngumálaráðherra, vegamálastjóri, þingmenn og forstöðumenn Efra-Falls sem sáu um gerð ganganna. Bæjarstjórn Siglufjarðar og fjöldi Siglfirðinga tóku á móti þessum fyrstu gestum. Lúðrasveit Siglufjarðar lék nokkur lög og samgöngumálaráðherra hélt ræðu.

Kostnaður við Strákaveg og göngin voru á þessum tíma um 70 milljónir króna, þarf af voru göngin 41 milljón og vegkaflinn vestan við göngin kostaði 29 milljónir.

Árið 1954 var rætt um á Alþingi að leggja veg fyrir Stráka, meðfram sjónum, eða gera göng úr botni Siglufjarðar til Fljóta, og hefðu þau þá orðið um 5 kílómetrar að lengd og mjög dýr, eins og þá var sagt.
Síðar kom fram sú hugmynd að leggja veg úr Fljótum út með ströndinni að Strákum og gera mun styttri og ódýrari göng þar í gegn til Siglufjarðar.
Varð sú leið ofan á og hófst vegagerðin sumarið 1956, þegar fyrsta fjárveiting til verksins kom, og var hún 100.000 kr. Hún gekk þó fremur hægt, bæði vegna fjárskorts og vegna erfiðra aðstæðna en vegurinn liggur víða utan í bröttum fjallshlíðum.

Gerð Strákaganga hófst 1959 og voru þá grafnir um 30 metrar en kraftur var ekki settur í framkvæmdir fyrr en sumarið 1965. Síðasta haftið var sprengt 17. sept 1966 eftir 13 mánaða stanslausa vaktavinnu við gangagröftinn, og göngin voru svo opnuð 10. nóvember 1967. Voru þarna að verki 25 menn sem unnu á þrískiptum vöktum.  Upphaflega áttu þau að vera tvíbreið en frá því var horfið og eru þau einbreið með útskotum.

Mynd: Steingrímur Kristinsson.

Lögreglan heimsótti Grímsey

Í vikunni fóru þrír starfsmenn Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra til Grímseyjar ásamt starfsmanni frá Veðurstofu Íslands. Tilefni ferðarinnar var að halda íbúafund með íbúum Grímseyjar og fara yfir löggæslumál, almannavarnamálefni, jarðskjálftavá og fleira. Mjög góð mæting var á fundinn og var hann bæði fræðandi og gagnlegur fyrir alla.

Myndir: Lögreglan á Norðurlandi eystra.

Fjallabyggð búið að tryggja talmeinaþjónustu fyrir börn

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að ganga til samninga við talmeinafræðingana Eyrúnu Svövu Ingvadóttur og Sonju Magnúsdóttur um talmeinaþjónustu fyrir leik- og grunnskólanemendur í Fjallabyggð. Samningurinn gildir frá 1. september 2017 til og með 31. ágúst 2019.  Þjónustan fer fram inn í skólunum og er foreldrum að kostnaðarlausu.

Héðinsfjörður.is hafði samband við Ríkey Sigurbjörnsdóttur, deildarstjóra hjá Fjallabyggð og spurði nánar út í hvaða þjónusta yrði í boði í hjá talmeinafræðingum í Fjallabyggð.

“Talmeinaþjónusta hefur verið í boði í leikskóla og grunnskóla Fjallabyggðar í mörg ár. Talmeinafræðingar frá Akureyri koma nokkrum sinnum yfir veturinn og vinna með nemendur sem eiga í erfiðleikum með málþroska eða framburð á einhvern hátt, gera málþroskagreiningar, framburðargreiningar og beita talþjálfun. Í framhaldinu fær fagfólk skólanna og jafnvel foreldrar ráðgjöf um hvernig skuli vinna áfram með barnið.” – Sagði Ríkey í samtali við Héðinsfjörð.is.

Þær aðferðir sem talkennarar og talmeinafræðingar beita eru mismunandi og byggjast á nákvæmri greiningu. Markmið meðferðar getur verið að:

 • auka málskilning
 • auka máltjáningu
 • stuðla að bættum boðskiptum
 • styrkja talfæri
 • leiðrétta framburð
 • lagfæra tunguþrýsting
 • auka málfærni
 • draga úr raddvandamálum
 • draga úr stami
 • auka málvitund
 • draga úr þvoglumæli
 • draga úr lestrarörðugleikum
 • styrkja ritmál
 • styrkja hljóðkerfisvitund
 • vinna með óhefðbundnar tjáskiptaleiðir

 

Áhugaverðar netslóðir:

Félag Talmeinafræðinga á Íslandi.

Talmeinafræði Háskóla Íslands

Talmeinafræðingar doktor.is

Úr mínum höndum opnuð í Bergi

Myndlistamaðurinn Jónína Björg Helgadóttir hefur opnað sýninguna Úr mínum höndum í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík.  Sýningin er opin frá 3. nóvember til 28. nóvember en formleg opnun verður laugardaginn 11. nóvember frá kl. 13-16. Þangað eru allir velkomnir og léttar veitingar verða í boði.

Jónína Björg útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri 2015, og er þetta hennar fjórða einkasýning síðan. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga, unnið sem verkefnastjóri og er partur af listahóp sem bæði sýnir saman og rekur lista- og menningarrýmið Kaktus á Akureyri.

Verk hennar eru að megninu til málverk og grafíkverk, sem oft eiga uppruna sinn í draumum og draumkenndri hugsun. Þau eiga það til að vera feminísk og sjálfsævisöguleg.

Menningarhúsið Berg er við Goðabraut, Dalvík og er opið mánudaga til föstudaga kl. 10-17 og laugardaga 13-17.

Gísli á Uppsölum sýnt í Bergi

Leikverkið um Gísla á Uppsölum hefur farið sigurför um landið enda er hér á ferð áhrifamikið verk um einstakan mann. Verkið verður nú sýnt í Menningarhúsi Bergi, miðvikudaginn 8. nóvember 2017.  Höfundar eru þeir Þröstur Leó Gunnarsson og Elfar Logi Hannesson, sá fyrrnefndi leikstýrir en hinn síðarnefndi er í hlutverki einbúans. Tónlist er eftir Svavar Knút.

Gísli á Uppsölum er einstakt leikverk um einstakan mann. Einn stærsti viðburður íslenskrar sjónvarpssögu er Stiklu þáttur Ómars Ragnarssonar um einbúann Gísla Oktavíus Gíslason. Enn er Gísli landanum kær og hugleikinn. Hér er á ferðinni áhrifamikil sýning sem hefur hrifið áhorfendur líkt og saga söguhetjunnar.

 

 

Voru á leið í Hrísey

Fólkið sem lést er bifreið þeirra lenti í sjónum við höfnina á Árskógssandi síðastliðinn föstudag var fjölskylda frá Póllandi en hafði verið búsett í Hrísey í nokkur ár.  Um var að ræða sambúðarfólk, 36 ára og 32 ára og 5 ára dóttur þeirra.  Þau láta eftir sig tveggja ára dóttur sem var í Hrísey hjá ættingjum þegar slysið varð.

Samverustund var í Hríseyjarkirkju kl. 18:00 í kvöld vegna slyssins.   Ferðamálafélags Hríseyjar hefur stofnað styrkarreikning til að aðstoða fjölskyldu hins látna.

Reikningur: 0177-05-260130.  Kennitala: 680709-0760.

 

Tíuþúsund færri gistinætur á Norðurlandi á milli mánaða

Á Norðurlandi fækkaði gistinóttum á hótelum í september 2017 um 3% miðað við september árið 2016. Alls voru 34.643 gistinætur hótelum á Norðurlandi í september 2017 en voru alls 44.337 í ágúst 2017. Á öllu landinu  í september 2017 voru Bandaríkjamenn með langflestar gistinætur, svo Þjóðverjar, Bretar og loks Íslendingar. Á tímabilinu október 2016 til september 2017 voru gistinætur á Norðurlandi alls 280.931 og er það fjölgun um 5% á milli ára á sama tímabili.

Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Upplýsingar eru fengnar hjá Hagstofu Íslands.

29 án atvinnu í Fjallabyggð í september

Alls voru 29 án atvinnu í Fjallabyggð í september 2017, þar af eru 16 konur og 13 karlar  og fækkaði um 10 manns milli mánaða. Er þetta minnsta atvinnuleysi í Fjallabyggð síðan í nóvember 2016, en þá voru 26 án atvinnu í Fjallabyggð.

Í Dalvíkurbyggð voru 19 án atvinnu í september og fækkaði um 6 á milli mánaða . Á Akureyri  voru 222 án atvinnu í september og fjölgaði 8 á milli mánaða.

Í Sveitarfélaginu Skagafirði voru 4 án atvinnu í september og stóð í stað á milli mánaða.

Stofnaði nýtt fyrirtæki á Siglufirði á sviði ljósmyndunar

Kristín Sigurjónsdóttir er uppalin á Siglufirði og stofnaði nýlega fyrirtæki á sviði ljósmyndunar, en þar er meðal annars boðið uppá ljósmyndastúdíó og fjölbreyttar myndatökur. Við tókum Kristínu viðtali og fengum nánari upplýsingar um þetta nýja fyrirtæki. Kristín er í sambúð með Gunnari Smára Helgasyni, en hann rekur meðal annars Útvarp Trölla í Fjallabyggð.

Segðu okkur nánar frá þér og hvað þú hefur fengist við síðustu árin?

Kristín Sigurjónsdóttir heiti ég og er fædd og uppalin á Siglufirði. Eftir áralanga búsetu sunnan heiða kom ég aftur norður árið 2011 og settist að í heimahögunum. Ég hef alltaf haft áhuga á ljósmyndun og hóf ég nám í listljósmyndun á listabraut Menntaskólans á Tröllaskaga árið 2012. Ég lauk því námi með útgáfu ljósmyndabókarinnar Ljósbrot.

Hvernig myndir tekur þú aðallega?

Ég hef verið að taka að mér ljósmyndaverkefni af ýmsum toga, fréttamyndir, auglýsingamyndir, fermingamyndir, brúðkaupsmyndir, barnamyndir og paramyndatökur ásamt því að selja allskonar landslagsmyndir.

Hefur þú haldið sýningar á verkum þínum?

Ég hef haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum, bæði hérlendis og erlendis og sýnt þar m.a. stórar ljósmyndir prentaðar á striga.  Einnig er uppi sýning eftir mig í Reykjavík.

Hvað er framundan hjá nýja fyrirtækinu?

Nýlega settum við maðurinn minn upp ljósmyndastúdíó á heimili okkar á Siglufirði og bjóðum upp á fjölbreyttar myndatökur. Í tilefni af opnun stúdíósins verðum við með tilboð á jóla- fjölskyldumyndum sem gildir til 15. desember 2017.  Einnig opnuðum við heimasíðu www.ksart.is þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar um starfsemi KS Art Photography.

 

Lionsklúbbar í Skagafirði söfnuðu fyrir skynörvunarherbergi í Iðju

Lionsklúbbarnir fjórir sem starfandi eru í Skagafirði hafa undanfarna mánuði staðið fyrir fjáröflun fyrir skynörvunarherbergi í Iðju dagþjónustu í Skagafirði. Klúbbarnir héldu kótilettukvöld í íþróttahúsinu á Sauðárkróki laugardaginn 29. apríl síðastliðinn þar sem fjöldi manns mætti til að borða góðan mat, njóta skemmtidagskrár og styrkja gott málefni. Auk þess var opnaður styrkarreikningur fyrir söfnunina þar sem öllum gafst kostur á því að leggja málefninu lið.  Í gær, föstudaginn 3. nóvember, fór fram formleg afhending skynörvunarherbergisins. Magnús Svavarsson, fráfarandi formaður Lionsklúbbs Sauðárkróks afhenti Ástu Pálmadóttur, sveitarstjóra gjafabréf fyrir skynörvunarherberginu og áritaðan skjöld sem settur var upp í húsnæði Iðju.  Mánudaginn 4. desember frá kl. 10-15 verður Iðja með opið hús í tilefni af Alþjóðadegi fatlaðs fólks. Þá mun öllum gefast kostur á að heimsækja Iðju og skoða nýja skynörvunarherbergið.

Skynörvunarherbergi er rými sem á að örva skynfæri einstaklings, sjón, heyrn, lykt, bragð og snertingu í umhverfi sem er öruggt, friðsælt og afslappandi. Slík rými eru eins og nafnið gefur til kynna sérstaklega fyrir þá sem eiga við ýmiskonar skyntruflanir að stríða eða eru með skerta líkamsstarfsemi eða líkamsvitund.  Skynörvunarherbergi hafa reynst vel einstaklingum með alvarlega fötlun s.s. þroskahömlun, einhverfu, hreyfihömlun, daufblindu, sjónskerðingu og fólki með elliglöp og alzheimer. Herbergin henta börnum jafnt sem fullorðnum.

Hagnýtt gildi aðferðarinnar er ótvírætt og má þar nefna:

 • Veitir fjölþætta skynjunarupplifun
 • Skapar rólegt og afslappandi umhverfi
 • Veitir möguleika á tengslum, hlýju og nærveru
 • Skynáreiti sem örvar og styrkir taugakerfið
 • Getur minnkað sjálfsörvandi hegðun
 • Einbeiting getur aukist
 • Dregur úr spennu
 • Vekur áhuga

Heimild: skagafjordur.is

 

Kynningarfundur í Fjallabyggð um Norrænu Strandmenningarhátíðina

Kynningarfundur verður haldinn í Ráðhúsi Fjallabyggðar þann 6. nóvember kl. 17:00 með íbúum, þjónustuaðilum, verslunareigendum, fulltrúum atvinnulífs, félagasamtaka og annarra samtaka í Fjallabyggð vegna Norrænu strandmenningarhátíðarinnar.

Strandmenningarhátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2011 og hafa Norðurlöndin skipt með sér hlutverki gestgjafa. Fyrsta hátíðin var haldin á Húsavík undir heitinu Sail Húsavík.

Þátttakendur koma víðsvegar að frá Norðurlöndum og einhverjir munu koma siglandi yfir hafið en viðburðir á hátíðinni munu vera í formi fyrirlestra, sýninga, handverks, tónleika, leiklistar- og dansatriða.

Hátíðin er samstarfsverkefni Nordisk kustkultur, sem eru regnhlífasamtök norrænna strandmenningarfélaga, Vitafélagsins, Síldarminjasafns Íslands, Þjóðlagahátíðarinnar og Fjallabyggðar en Siglufjörður heldur upp á 100 ára kaupstaðarafmæli á næsta ári auk þess sem árleg Þjóðlagahátíð fer fram sömu daga.

Allir velkomnir!

Þrjú látin eftir að bíll fór í sjóinn á Árskógssandi

Lögreglan á Norðurlandi eystra tilkynnti í gærkvöldi að aðilarnir þrír, maður, kona og barn, sem voru flutt á Sjúkrahús Akureyrar í gærkvöld eftir að hafa lent í bifreið sinni í sjóinn við höfnina á Árskógssandi hafa verið úrskurðuð látin.  Ekki er hægt að greina frá nöfnum hinna látnu að svo stöddu. Rannsókn málsins er í höndum Lögreglunnar á Norðurlandi eystra og ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að sinni.

Bíll fór í sjóinn af bryggjunni við Árskógssandi

Bifreið með þremur innanborðs fór fram af bryggjunni á Árskógssandi í dag um kl. 17:30, en þá barst tilkynning til Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.  Viðbragðsaðilar voru kallaðar út og hafa þeir aðstoðað lögreglu á vettvangi. Viðbragðsaðilar hafa náð öllum aðilum úr bifreiðinni og er verið að flytja þá á Sjúkrahús Akureyrar.
Þá var einnig óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar og viðbragðsaðila fyrir sunnan en búið var að ná aðilum úr bifreiðinni áður en til þess kom.
Ekki er grunur um að neitt saknæmt hafi átt sér stað. Nánari tildrög slyssins liggja ekki fyrir en rannsókn málsins heldur áfram og veitir Lögreglan ekki frekari upplýsingar að sinni.

 

Viðburður í Alþýðuhúsinu

Sunnudaginn 5. nóvember kl. 15.00 – 16.00 mun Hlynur Hallsson myndlistarmaður og safnstjóri frá Akureyri vera með erindi á Sunnudagskaffi með skapandi fólki í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Þar mun hann segja frá skapandi starfi í Listasafninu á Akureyri og skrefunum frá því að vera myndlistarmaður, sjálfstæður sýningarstóri og til þess að vera safnstjóri Listasafns. Frá samþættingu kennslu, sýningarstjórnunar og myndlistar á vettvangi grasrótar og stofnunar.

Að erindi loknu verða kaffiveitingar og allir velkomnir.

Neysluvatn í Ólafsfirði í lagi

Staðfest hefur verið að sýni sem Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra tók af neysluvatni í Ólafsfirði, þann 1. nóvember síðastliðinn sé í lagi.  Sýni voru tekin annars vegar vatnstanki Brimnesdals og hins vegar Hornbrekku, voru fullnægjandi sbr. reglugerð um neysluvatn nr. 536/2001. Óverulegt frávik var í sýni sem tekið var úr neysluvatni Múlalindar. Það er því ljóst að þær endurbætur sem unnið hefur verið við á síðastliðnum vikum hafa skilað tilætluðum árangri og ekki er lengur þörf á að sjóða neysluvatnið.

Vinna stendur yfir við að koma fyrir útfjólublárri geislun á neysluvatnið, sem tryggir fullkomið öryggi og gæði.

Bæjar- og menningarvefur