Dalvík tapaði fyrir Kára á Dalvíkurvelli

Dalvík/Reynir og Kári mættust í dag á Dalvíkurvelli í 18. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla í knattspyrnu. Kári var með 18 stig og aðeins þremur stigum frá fallsæti fyrir þennan leik, en Dalvík/Reynir var í 5. sæti með 27 stig. Deildin hefur verið jöfn í sumar og hver sigur vegur þungt í þessum síðustu umferðum. D/R vann fyrri leik liðanna í sumar 2-3 í Akraneshöllinni.

Gestirnir mættu sterkir til leiks og fengu víti á 24. mínútu sem Andri Júlíusson skoraði úr og kom þeim í 0-1. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og var því staðan 0-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Þjálfari D/R gerði strax eina skiptingu í hálfleik og kom Alexander Ingi inná fyrir Viktor Daða. Kári skoraði sitt annað mark þegar aðeins 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og kom Kára í 0-2. Á næstu mínútum eftir markið gerði D/R þrjár skiptingar,  Gunnlaugur Bjarnar kom inná fyrir Borja Laguna og Pálmi Heiðmann og Númi Kárason komu inná fyrir Jóhann Örn og Jón Björgvin.

D/R fékk víti á 73. mínútu og skoraði Sveinn Margeir úr vítinu og gaf heimamönnum smá von, leikmenn Kára mótmæltu vítinu og uppskáru þrjú gul spjöld.  Kári fékk svo sitt annað víti á 84. mínútu og gerðu út um leikinn þegar Andri Júlíusson fullkomnaði þrennuna sína í þessum leik. Lokatölur á Dalvíkurvelli 1-3.

Gamansagnaganga á Siglufirði

Á morgun sunnudaginn 25. ágúst kl. 11.00, verður farið í Gamansagnagöngu um miðbæ Siglufjarðar. Þar verða sagðar siglfirskar gamansögur á vettvangi og tekur gangan um klukkustund og leiðir Þórarinn Hannesson gönguna.

Þessi ganga sló rækilega í gegn á Síldarævintýrinu í sumar og verður boðið upp á hana reglulega næstu misserin.

Þátttökugjald er 1.000 kr.

Mæting við Ljóðasetrið kl. 11.00 á sunnudaginn.

Mynd frá Þórarinn Hannesson.

KF vann Hött/Huginn í miklum markaleik – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Hött/Huginn í dag á Fljótsdalshéraði, þar sem leikið var á Vilhjálmsvelli í hjarta Egilsstaða. Alskýjað var á Egilsstöðum og hitinn tæplega 10 stig þegar leikurinn byrjaði og einnig voru um 5 m/s vindur á meðan leiknum stóð. KF vann fyrri leik liðanna í sumar nokkuð örugglega, 3-0. Höttur/Huginn var 5 stigum frá fallsæti fyrir þennan leik og KF var í 2. sæti eftir gott gengi í sumar.

KF byrjaði leikinn ágætlega, en þurfti að gera skiptingu strax á 10. mínútu þegar Jakob Auðun þurfti að fara af velli en inná kom Aksentije Milisic, og átti hann eftir að láta að sér kveða í leiknum. Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Alexander Már fyrir KF og kom þeim í 0-1. Tuttugu mínútum síðar skoraði Aksentije Milisic og kom KF í þægilega stöðu, 2-0. Heimamenn voru þó fljótir að minnka muninn og skoruðu á 40. mínútu og var staðan því 1-2 í hálfleik.

Heimamenn komu miklu grimmari til leiks í síðari hálfleik og gerði þjálfari þeirra tvöfalda skiptingu þegar tæplega 30 mínútur voru eftir að leiknum og kom markahæsti maður þeirra inná, Ivan Bubalo, en hann er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar.

Það var hins vegar KF sem skoraði næsta mark og var þar að verki Alexander Már og kom hann KF í enn betri stöðu, 1-3 og hans annað mark í leiknum. Alexander hefur núna skorað 21 mark í deildinni og er langmarkahæstur í 3. deild karla.

Það var eins og heimamenn vöknuðu við þetta og eins komu varamennirnir sterkir inn, en Huginn/Höttur skoraði tvö mörk með stuttu millibili og jöfnuðu þeir leikinn. Norski leikmaður þeirra Knut Erik Myklebust skoraði á 65. mínútu og varamaðurinn Ivan Bubalo á 70. mínútu og skyndilega var staðan orðin jöfn, 3-3 þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum.

KF gerði á þessum kafla tvær skiptingar með stuttu millibili, en inná kom Sævar Þór fyrir Óliver og Stefán Bjarki fyrir Val Reykjalín. KF kom hins vegar til baka eftir mikla baráttu og skoraði Grétar Áki þetta gríðarlega mikilvæga mark og tryggði KF sigur í leiknum með marki á 73. mínútu, hans þriðja mark í sumar.

Á lokamínútunum gerði KF tvær skiptingar til viðbótar en Þorsteinn Már kom inná fyrir Vitor og Sævar Gylfason fyrir Grétar Áka í uppbótartíma. KF gerði vel á loka mínútunum og hélt út og sótti þrjú stig.

KF er í 2. sæti með 44 stig og er aðeins einu stigi á eftir Kórdrengjum og 9 stigum frá KV. Liðið leikur næst við Kórdrengi á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 31. ágúst, og erum sex stiga leik að ræða. KF getur með sigri komist í topp sætið sem hefur verið eign Kórdrengja.

Réttir Food Festival um helgina á Norðurlandi vestra

Réttir Food Festival hófst um síðustu helgi og heldur áfram þessa helgina á Norðurlandi vestra. Hátíðin er nú haldin í fyrsta skiptið og eru það veitingahúsaeigendur og framleiðendur sem standa að þessari flottu matarhátíð.

Þeir ætla að bjóða gestum sínum upp á skemmtilega upplifun og fræðslu um mat og menningu á svæðinu. Það verða fjölmargar uppákomur um helgina allt frá Laugarbakka í Miðfirði, út í Fljót í Skagafirði.

Í dag verður af nægu að taka, B&S Restaurant verður með Kótilettudag frá kl: 12 – 20, verð: 3.500. Á Brimslod Atelier Guesthouse verður opið hús frá kl: 12 -15, starfsemin kynnt og hægt að kaupa Humarsúpu á 2.000 kr. Hægt verður að taka upp kartöflur á Sveitasetrid Hofstadir frá kl: 13 – 15, verð 190 kr/kg. Á Sveitasetrið Gauksmýri verður grillveisla frá kl: 19 – 21, verð: 4.900. Fjölskylduhátíð verður á Hótel Varmahlíð frá kl:13 – 16, verð: 3.000. Götubiti verður á North West Hotel & Restaurant á meðan opið er, verð: 2.790. Skrúðvangur Gróðurhús á Laugarbakka verður með opið hús frá kl: 10 – 16. Á Stóra-Ásgeirsá Horse rental and Farm stay – accommodation in Iceland verður boðið upp á Kjötsúpu, bar og lifandi tónlist frá kl: 14 – 22, verð: 2.000.

Mynd frá Hótel Varmahlíð.

 

Vegleg gjöf gefin til allra leikskóla í Skagafirði

Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur færði fræðslusviði Sveitarfélagsins Skagafjarðar veglega gjöf til allra leikskóla í Skagafirði á dögunum.  Bryndís hefur starfað á Íslandi í rúmlega 30 ár sem talmeinafræðingur og hefur m.a. gefið út námsefni undir heitinu, Lærum og leikum með hljóðin, sem ætlað er öllum barnafjölskyldum og skólum. Námsefnið byggir á fagþekkingu talmeinafræðinnar, rannsóknum og reynslu hennar af því að vinna með börnum, foreldrum og fagfólki skóla. Efnið hefur hlotið ýmsar viðurkenningar. Frá þessu er greint á vef Skagafjarðar.

Í tilefni af þessum tímamótum í starfi ákvað Bryndís að gefa efnið til allra leikskóla á Íslandi. Með stuðningi nokkurra fyrirtækja auk eigin framlags fá allir leikskólar á landinu heildstætt efni úr Lærum og leikum með hljóðin (L&L) að gjöf til að nýta í starfi sínu með leikskólabörnum. Aukaefni eins og púsl, límmiðar og vinnusvuntur, sem styðja við hljóðanámið með fallegum stafamyndum, fylgir með skólapökkunum. Námsefninu fylgja smáforrit sem er ætlað öllum barnafjölskyldum og fagfólki sem vilja veita börnum forskot á hljóðmyndun og undirbúa þau fyrir lestur.

Hægt er að skoða námsefnið og smáforritin á Laerumogleikum.is.

Mynd og texti: Skagafjordur.is

Fjallabyggð útvegar grunnskólabörnum ritfangapakka

Grunnskóli Fjallabyggðar afhendir nemendum ritfangapakka að gjöf frá Fjallabyggð við skólabyrjun haustið 2019. Ætlast er til þess að nemendur í 1.-5. bekk geymi og noti ritföngin í skólanum og fá þau körfu undir þau.

Nemendur í 6.-10. bekk halda utan um þessi ritföng sjálf. Glatist eða skemmist þessi ritföng þurfa foreldrar að útvega önnur í staðinn. Ritfangapakkinn er svipaður milli árganga og felur í sér skriffæri, stíla-og reikningsbækur, skæri, teygjumöppu, tréliti, reglustikur o.s.frv. eftir þörfum hvers árgangs. Það sem er ekki í pakkanum þurfa foreldrar að útvega.

Eftirfarandi gögn þurfa foreldrar að útvega:

5.-7. bekkur:
Vasareiknir

8.-10. bekkur
Vasareiknir, hringfari.

Dalvík/Reynir vann Völsung á Dalvíkurvelli

Dalvík/Reynir mætti Völsungi á Dalvíkurvelli í gær í 2. deild karla í knattspyrnu. Fyrri leikur liðanna fór 1-1 fyrr í sumar á Húsavík, og voru aðeins þrjú stig sem skyldu liðin að í deildinni fyrir þennan leik, en Völsungur var með 21 stig í 9. sæti og Dalvík/Reynir með 24 stig í 7. sæti. Dalvík gat því með sigri teigt sig nær toppbaráttunni fyrir síðustu umferðir mótsins.

Það voru heimamenn sem byrjuðu leikinn vel komust yfir strax á 12. mínútu með marki frá Sveini M. Haukssyni. Staðan 1-0 fyrir Dalvík og yfir 100 kátir áhorfendur í stúkunni. Rétt þegar dómari leiksins var að fara flauta til leikhlés þá skoraði Sveinn Margeir aftur, og kom D/R í 2-0.

Um miðjan síðari hálfleik gerði þjálfari D/R tvær skiptingar með stuttu millibili þegar Borja Laguna og Pálmi Heiðmann komu inná fyrir Jón Björgvin og Jimenez. Borja Laguna hafði aðeins verið inná í 12 mínútur þegar hann náði að skora og koma D/R í frábæra stöðu, 3-0 þegar um 15. mínútur voru eftir af leiknum. Tvær skiptingar til viðbótar voru gerðar hjá D/R þegar Ottó kom inná fyrir Gunnlaug og Rúnar Helgi fyrir Steinar Loga.

Þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum kom Númi Kárason inná fyrir Jóhann Örn, og allt stefndi í öruggan sigur. Gestirnir frá Húsavík náðu hinsvegar að skora eitt mark í lokin og minnka muninn í 3-1 þegar Kaelon P. Fox skoraði.

Lokatölur leiksins urðu 3-1 og komst D/R í 5. sæti deildarinnar með þessum glæsilega sigri.

Sæplast gaf skólatöskur til nemenda 1.bekkjar á Dalvík

Það var líf og fjör í Sæplast í vikunni þegar börn sem eru að byrja í 1. bekk í Dalvíkurskóla og Árskógsskóla í Dalvíkurbyggð fengu afhendar skólatöskur að gjöf frá fyrirtækinu. Öll börnin voru ánægð með gjöfina og mikil tilhlökkun að hefja skólagönguna. Frábært framtak hjá Sæplast á Dalvík sem börn og foreldrar barna kunna svo sannarlega að meta.

Mynd frá Sæplast.

Fjögur golfmót á Siglufirði næstu daga

Vegna rigninga síðustu vikur þá var nokkrum golfmótum frestað sem áttu að vera á Siglógolf á Siglufirði. Nýjar dagsetningar eru nú komnar fyrir frestuðu mótin og verður þétt dagskráin á vellinum næstu vikuna. Í dag og á morgun verður Rauðkumótaröðin haldin á vellinum og einnig miðvikudaginn 28. ágúst, en þá ráðast úrslitin í mótaröðinni. Kvennamótið ChitoCare Beauty Open fer fram laugardaginn 24. ágúst. Siglfirðingamótið fer fram laugardaginn 31. ágúst á Siglógolf.

Nánar verður greint frá úrslitum mótana hér á vefnum.

UPPFÆRT: ChitoCare open hefur verið frestar og verður líklega haldið í september.

Bæjarstjóri Fjallabyggðar með 2,3 milljónir á mánuði

Gunn­ar Ingi Birg­is­son, bæj­ar­stjóri í Fjalla­byggð er í 6. sæti yfir tekjuhæstu sveitarstjórnarmenn landsins, og er sagður vera með 2,34 millj­ón­ir á mánuði í nýjasta Tekjublaðið Frjálsar verslunnar.  Til samanburðar þá er Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagður vera með 1,92 milljónir króna á mánuði í laun. Þá er Halla Björk Reyn­is­dótt­ir, for­seti bæj­ar­stjórn­ar á Ak­ur­eyri sögð vera með 1,93 millj­ón­ir á mánuði í laun.

Unnið gegn rakaskemmdum í Brekkuskóla á Akureyri

Úttekt vegna hugsanlegra rakaskemmda í Brekkuskóla á Akureyri sem gerð var í vor, sýnir skemmdir á afmörkuðum svæðum. Að mati sérfræðinga Mannvits eiga skemmdirnar ekki að hafa áhrif á kennslu eða annað starf innan skólans, enda hafi verið gripið til fullnægjandi ráðstafana. Úrbætur er þegar hafnar, sem og vinna við fyrirbyggjandi aðgerðir.  Skólasetning verður í Brekkuskóla fimmtudaginn 22. ágúst næstkomandi.

Síðastliðið vor ákvað umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar að ráðast í úttekt á loftgæðum í skólamannvirkjum. Útektin var fyrst og fremst hugsuð sem fyrirbyggjandi aðgerð.

Verkfræðistofan Mannvit, sem hefur víðtæka reynslu af slíkri vinnu, var fengin til að gera úttektina í Brekkuskóla, sérstaklega með tilliti til hugsanlegra raka- og mygluskemmda. Vísbendingar um örveruvöxt sem líklegast er að komi frá rakaskemmdum fundust á afmörkuðum svæðum innan veggja skólans. Sérfræðingar Mannvits töldu að grípa þyrfti til ráðstafana sem er að hluta til lokið, en að þeim uppfylltum eigi skemmdirnar ekki að hafa áhrif á kennslu eða annað starf innan skólans. Unnið er að því að úrbótum verði lokið fyrir skólabyrjun. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Starfsmenn Mannvits fóru um byggingarnar í fylgd umsjónarmanna húsnæðisins og fengu upplýsingar um hvar rakaskemmda hefði orðið vart. Mannvit beindi aðallega sjónum að þeim stöðum en einnig voru aðrir hlutar skólans skoðaðir og tekin sýni víða í húsnæðinu. Samtals voru 35 sýni tekin og af þeim voru 26 send til greiningar. Í 10 af 22 ryksýnum fundust vísbendingar um rakaskemmdir. Einnig voru 4 sýni úr byggingarefni, sem hugsanlega var talið skemmt, send til greiningar og ummerki um örveruvöxt fannst í þeim. Úrbætur á þeim stöðum þar sem sýnin voru tekin eru þegar hafnar og hluta þeirra lokið. Höfuðáhersla er lögð á að klára allar viðgerðir sem og að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir áður en skólastarf hefst. Þegar viðgerðum á skemmdum verður lokið, verður strax ráðist í víðtækar hreingerningar á húsnæðinu og að því loknu verður sýnataka fljótlega endurtekin.

Niðurstaða starfsmanna Mannvits er að örveruvöxturinn muni ekki hafa áhrif á skólastarf, enda verði strax farið í lagfæringar og gripið til viðeigandi ráðstafana til að draga úr mögulegum áhrifum skemmdanna.

Úttektir á loftgæðum í skólamannvirkjum er langtímaverkefni Akureyrarbæjar sem haldið verður áfram á næstu mánuðum og misserum. Nú þegar hefur verið gerð úttekt í Oddeyrarskóla og er niðurstaðna að vænta innan tíðar.

Heimild: Akureyri.is

Mynd: brekkuskoli.is

 

Frístund og Lengd viðvera í Fjallabyggð

Skráning í Frístund og Lengda viðveru stendur yfir hjá grunnskólabörnum í Fjallabyggð.  Í vetur, líkt og síðustu tvö skólaár, verður nemendum í 1.-4. bekk í Grunnskóla Fjallabyggðar gefinn kostur á frístundarstarfi strax að loknum skólatíma kl. 13.35 – 14.35. Starfið er fjölbreytt og í samstarfi við íþróttafélög og tónlistarskólann. Nemendur eru skráðir í frístundarstarfið hálfan vetur í einu. Í undanteknum tilvikum, ef gild ástæða er til, er hægt að endurskoða skráningu 25.-27. hvers mánaðar og tæki breytingin þá gildi um næstu mánaðarmót á eftir.
Foreldrar nemenda í 1.-4. bekk hafa fengið sendan póst gegnum Mentor með leiðbeiningum um skráningu.

Fjögur íþróttafélög eru í samstarfi um starf Frístundar að þessu sinni. Það eru Ungmannafélagið Glói, Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, Blakfélag Fjallabyggðar og Tennis- og badmintonfélag Siglufjarðar.

Þeir foreldrar sem ætla að nýta lengda viðveru fyrir börn sín eru beðin um að skrá þau með sama hætti og í Frístund.

Síðasti skráningardagur er þriðjudaginn 20. ágúst.

Nánari upplýsingar má finna á vef Fjallabyggðar.

Mynd: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon

Skólasetning Grunnskóla Fjallabyggðar

Skólasetning Grunnskóla Fjallabyggðar verður föstudaginn 23. ágúst.  Kennarar munu taka á móti nemendum í bekkjarstofum. Þeir fara yfir stundatöflu og aðrar almennar upplýsingar sem nemendur þurfa í upphafi skólaárs, afhenda gögn sem þurfa að fara heim og fleira sem þarf til þess að hefja skólastarf. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Grunnskóla Fjallabyggðar.

 Skólasetning:

2. – 5. bekkur mætir í skólahúsið við Norðurgötu kl. 11.00

    6. – 10. bekkur mætir í skólahúsið við Tjarnarstíg kl. 13.00

 1.bekkur mun verða boðaður í einstaklingsviðtöl á föstudeginum 23. ágúst. Viðtalsboðun verður send heim á foreldra.

 

Rútuferðir í tengslum við skólasetningu:

Rúta frá Tjarnarstíg í tengslum við skólasetningu yngra stigs:

kl. 10: 45 og til baka eftir skólasetningu

Rúta frá Siglufirði í tengslum við skólasetningu eldra stigs:

Kl. 12:45  frá skólahúsinu við Norðurgötu

Til baka eftir skólasetningu.

Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon

Fræðsludagur skólanna í Skagafirði

Árlegur fræðsludagur skólanna í Skagafirði var haldinn í Miðgarði fimmtudaginn 15. ágúst síðastliðinn. Dagur þessi markar upphaf nýs skólaárs og er helgaður faglegu starfi þeirra. Dagurinn er einnig vettvangur skólafólks til að kynna og fjalla um ýmis starfsþróunar- og nýbreytniverkefni sem starfsfólk skólanna vinnur að og er jafnframt vettvangur allra starfsmanna til hittast og eiga góða stund saman.

Þetta er í 10. sinn sem allir starfsmenn í leik- grunn- og tónlistarskólum Skagafjarðar koma saman en nú bættust líka í hópinn starfsmenn Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Einnig var undirritaður samstarfssamningur á milli Embætti Landlæknis og Sveitarfélagsins Skagafjarðar um að Skagafjörður gerðist með formlegum hætti aðili að verkefninu Heilsueflandi Samfélag. Í því felst að sveitarfélagið skuldbindur sig til að vinna með markvissum hætti að markmiðum og leiðarljósum verkefnisins á öllum stigum stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélagsins.

Úrslit í Benecta Open á Siglógolf

Golfmótið Benecta Open var haldið í dag á Sigógolf á Siglufirði í blautu og köldu veðri.  Alls mættu 17 lið til leiks og keppt var í Texas Scramble. Keppendur skemmtu sér vel þrátt fyrir að veður hafi ekki verið upp á sitt besta og var það rætt á milli keppenda að völlurinn væri í góðu standi eftir þær miklu rigningar sem hafa staðið linnulaust yfir síðustu daga. Kaffi og tertur voru svo í boði eftir verðlaunaafhendingu.

Úrslit:

1. sæti. Lið Við tvö. Jóhanna Þorleifsdóttir og Hallgrímur Sveinn Vilhelmsson.
2. sæti. Lið Maó. Eiður Stefánsson og Hjörtur Sigurðsson.
3. sæti. Lið Team H&B. Þórveig Hulda Alfreðsdóttir og Björn Steinar Stefánsson.

Nándarverðlaun:

6. hola. Jóhann Már Sigurbjörnsson. 216 cm.
7. hola. Jóhanna Þorleifsdóttir. 52,5 cm.
9. hola. Haukur Óskarsson. 178 cm.

Lengsta upphafshögg á 8. holu:

Konur: Ása Guðrún Sverrisdóttir.
Karlar: Jóhann Már Sigurbjörnsson.

Heimild og myndir: Siglógolf.

Myndir: Siglógolf

Mynd frá Siglo Golf.

Mynd frá Siglo Golf.

Brimbrettamenn í erfiðleikum í Ólafsfirði

Um klukkan fimmleytið í dag voru þrír einstaklingar í vandræðum í sjónum við Ólafsfjörð, um 200 metrum frá landi. Einstaklingarnir þrír voru allir á brimbrettum og rétt sást í kollinn á þeim í sjónum. Mikill öldugangur var á vettvangi og mikið útsog svo að þremenningarnir áttu erfitt með að komast að landi. Þeir náðu þó að sameinast og koma sér á eitt brimbretti.

Allt tiltækt björgunarlið var kallað út en erfiðlega gekk að komast að fólkinu i sjónum. Þremenningarnir náðu að lokum að komast úr útsoginu og koma sér í land. Þeim varð ekki meint af. Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi fyrst frá þessu.

Tindastóll vann KFG

Tindastóll og KFG léku á Sauðárkróksvelli í gær í 16. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Tindastóll berst fyrir lífi sínu í deildinni og þurfti nauðsynlega á öllum stigunum að halda, en liðið er í neðsta sæti deildarinnar og hafði aðeins unnið einn leik í sumar í deildinni. KFG voru í næstneðsta sæti fyrir leikinn og gátu með sigri komist úr fallsæti.

Stólarnir byrjuðu leikinn af krafti og settu tóninn á fyrstu mínútum leiksins. Arnar Ólafsson skoraði strax á 5. mínútu og kom heimamönnum í 1-0, hans fjórða mark í deildinni í sumar. Aðeins tæpum 10 mínútum síðar skoraði Tindastóll aftur með marki frá Kyen Nicholas, hans þriðja mark í fjórum leikjum og kom Stólunum í 2-0. Staðan var svo 2-0 í hálfleik þegar dómarinn flautaði til leikhlés og heimamenn í góðri stöðu.

Tindastóll gerði tvær skiptingar um miðjan síðari hálfleik, en þegar um 8 mínútur voru eftir af leiktímanum þá skoruðu heimamenn sitt þriðja mark þegar Kyen Nicholas skoraði sitt annað mark í leiknum. Þjálfari Tindastóls gerði svo tvær skiptingar til viðbótar á síðustu mínútum leiksins og lét ferska menn inná. Tindastóll vann leikinn nokkuð örugglega 3-0 og unnu sinn annan sigur í sumar.

Stólarnir eru nú sex stigu frá KFG og 8 stigum frá öruggu sæti í deildinni þegar 6 leikir eru eftir. Liðið leikur næst við Leikni í Fjarðabyggðarhöllinni, miðvikudaginn 21. ágúst kl. 17:30.

KF vann mikilvægan sigur á KV – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Knattspyrnufélag Vesturbæjar mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag í 17. umferð í 3. deild karla. Sex stig skyldu liðin að, en KF var í 2. sæti fyrir leikinn og KV í 3. sætinu. KV þurfti nauðsynlega sigur í þessum leik til að minnka muninn í 3 stig og eiga betri möguleika á að komast upp í 2. deild að ári. KF gat með sigri nálgast Kórdrengi sem höfðu fjögra stiga forskot fyrir leikinn. KV vann fyrri leik liðanna í sumar 2-1 og liðin mættust einnig í fyrra og unnu þá bæði liðin sína heimaleiki. Búist var við hörkuleik enda svokallaður sex stiga leikur.

Þjálfari KF gerði tvær breytingar frá síðasta leik, en Alexander Már var kominn aftur í liðið eftir smávægileg meiðsli og Vitor var kominn inn í liðið eftir að hafa byrjað á  varamannabekknum í síðasta leik.

KF byrjaði leikinn af krafti og skoruðu strax á 3. mínútu, og það var að sjálfsögðu Alexander Már sem markið skoraði en hann hefur reynst happafengur fyrir KF á þessu tímabili.  KF þurfti að gera skiptingu strax á 14. mínútu þegar Ljubomir Delic meiddist, og inná kom Hákon Leó Hilmarsson. Á 34. mínútu skoraði KF aftur og var núna Andri Snær sem var þar að verki og kom KF í 2-0. KF leiddi því 2-0 þegar dómarinn flautaði til hálfleiks.

KV reyndu hvað þeir gátu að komast betur inn í leikinn og gerði þjálfari þeirra þrefalda skiptingu á 60. mínútu til að hressa upp á sóknarleik liðsins. En það var KF sem skoraði næsta mark og aftur var það Andri Snær sem átti frábæran leik í dag eins og margir aðrir leikmenn KF. Staðan 3-0 og aðeins 20. mínútur eftir. Strax eftir markið gerði þjálfari KF skiptingu þegar Valur Reykjalín fór útaf fyrir Sævar Þór og skömmu síðar kom Tómas Veigar inná fyrir Aksentije Milisic.

Gestirnir í KV náðu aðeins að klóra í bakkann og minnkuðu muninn í 3-1 á 78. mínútu og settu smá spennu í leikinn. KF gerði tvær skiptingar til viðbótar þegar Óliver og Jakob Auðun komu inná fyrir Stefán Bjarka og Alexander Má. Fleiri urðu mörkin ekki og KF vann gríðarlega mikilvægan sigur á KV og er núna komið með 9 stiga forskot og aðeins stigi á eftir Kórdrengjum.

Þremur golfmótum frestað vegna rigninga

Fresta hefur þurft þremur golfmótum síðustu daga sem fara fram áttu á Siglógolf á Siglufirði. Kvennamótið ChitoCare Beauty átti að fara fram 11. ágúst, Rauðkumótaröð númer 9 átti að fara fram 14. ágúst og Siglfirðingagolfmótið átt að fara fram í dag, en öllum mótunum var sem sagt frestað vegna mikilla rigna. Völlurinn var þó sleginn í vikunni en er sagður talsvert blautur.  Á morgun fer fram Benecta open golfmótið á Siglógolf, og er skráning mjög góð.

Myndir með fréttinni eru teknar fyrr í sumar.

Benecta open á Siglógolf

Golfmótið Benecta open fer fram á Siglógolf, sunnudaginn 18. ágúst. Leiknar verða 18. holur í Texas scramble. Ræst verður út frá öllum teigum kl. 10:00. Nú þegar hafa 32 kylfingar skráð sig til leiks á mótið en skráningu lýkur í dag. Verðlaun verða veitt fyrir 1.-3. sætið, fyrir lengsta höggið á 8. braut auk nándarverðlauna par 3 brautum. Allir sem taka þátt í mótinu fá teiggjöf upp í golfskálanum.

Myndir með fréttinni eru teknar fyrr í sumar.

 

Dalvík/Reynir tapaði fyrir Selfossi

Dalvík/Reynir og Selfoss mættust á Jáverk-vellinum á Selfossi í gærkvöldi í 16. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Selfoss hafði tapað síðustu þremur leikjum fyrir þennan leik á meðan Dalvík hafði unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum. Bæði liðin gátu blandað sér ennfrekar í toppbaráttuna með sigri í þessum leik, þar sem mjög þéttur pakki er í toppbaráttunni í deildinni. Selfoss var í 6. sæti með 23 stig og D/R var með 24 stig í 5. sætinu. Selfoss er með vel mannað lið og í því eru tveir af markahæstu mönnum 2. deildar. Fyrri leikur liðanna fór 1-1 í vor í deildinni.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og komust yfir strax á 17. mínútu með marki frá Kenan Turudija. Skömmu fyrir leikhlé var Kenan Turudija aftur á ferðinni og kom heimamönnum í 2-0 og þannig var staðan í hálfleik. Þjálfari D/R gerði strax eina skiptingu í hálfleik til að reyna breyta gangi leiksins en inná kom Númi Kárason og útaf fór Pálmi Heiðmann. Þegar rúmar 20. mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þá gerði D/R tvöfalda skiptingu þegar Alexander Ingi og Ottó Björn komu inná fyrir Viktor Daða og Gunnlaug Bjarnar. Skömmu síðar kom svo Reynir Helgi inná fyrir Steinar Loga. Þrátt fyrir þessar skiptingar þá náði D/R ekki að nýta færin og fengu á sig þriðja markið á 74. mínútu þegar Adam Örn Sveinbjörnsson gulltryggði sigur heimamanna og kom þeim í 3-0 þegar skammt var eftir.

D/R gerðu sína fimmtu skiptingu á 79. mínútu þegar Brynjar Skjóldal kom inná fyrir Jón Björgvin. Selfoss skoraði svo lokamarkið á 84. mínútu þegar Guðmundur Tyrfingsson skoraði, en það er 16 ára strákur sem hefur leikið 13 leiki í sumar og skoraði 2 mörk fyrir Selfoss. Lokatölur 4-0 og sanngjarn sigur heimamanna í þessum leik.

Dalvík/Reynir er í 6. sætinu eftir þetta tap en liðin fyrir neðan eiga leik til góða og geta komist yfir D/R í deildinni. D/R leikur næst við Völsung á Dalvíkurvelli, miðvikudaginn 21. ágúst kl. 18:00.

Selfoss vann örugglega. Mynd frá Selfoss.net.

Vatn lak inn í safnhús Síldarminjasafnsins

Óvenju mikið hefur rignt á Siglufirði undanfarna daga, svo mikið að flætt hefur inn í hús og fráveitukerfi ekki haft undan vatnsflaumnum. Á lóð Síldarminjasafnsins á Siglufirði safnaðist ekki bara rigningarvatnið sem féll til jarðar, heldur streymdi þangað vatn undan byggðinni við fjórar götur í hlíðinni ofan við safnið. Jarðvatn bæði spratt undan bakkanum ofan safnhúsanna á um það bil 180 metra kafla og rann einnig stríðum straumi í lækjarbunum frá Hafnargötunni. Þetta leiddi til þess að mikið vatn safnaðist upp milli Gránu og Bátahússins og flæddi inn í Njarðarskemmu, en húsið er áfast Gránu og þar er sýning um raforkuframleiðslu í þágu síldariðnaðarins, sem opnaði árið 2015. Dýpi vatnsins í húsinu var 80 cm. þegar mest var á mánudag. Starfsfólk safnsins lagði sig fram við að bjarga því sem bjargað varð og fjarlægja gripi sem ýmist lágu á kafi í vatni eða flutu um húsið. Að sama skapi flæddi vatn inn í Ásgeirsskemmu og Frystihúsið syðst á safnlóðinni, en þar tókst starfsfólki safnsins að forða frekara tjóni með því að grafa skurði og veita vatnsflaumnum þannig að mestu út í lónið við Róaldsbrakka.

Haustið 2015 sköpuðust svipaðar aðstæður á Siglufirði eftir mikið vatnsveður í ágústmánuði. Þá safnaðist mikið vatn fyrir á safnlóðinni en vatnsdýptin í Njarðarskemmu varð þó ekki jafn mikil og nú. Í kjölfarið óskaði Síldarminjasafnið eftir því að sveitarfélagið kæmi fyrir fráveitulögn á svæðinu til að mæta slíkum flóðum í framtíðinni og sporna við frekara tjóni. Vel var tekið í erindið og því vísað til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016.

Skemmst er frá því að segja að enn hefur ekkert gerst, og ástandið því enn verra nú en fyrir fjórum árum. Enn er töluvert af vatni á safnlóðinni og hægt og bítandi lækkar vatnið í Njarðarskemmu. Starfsmenn safnsins eiga fyrir höndum mikla vinnu við að þurrka húsið, koma sýningunni aftur í samt horf, þurrka gripi og meta ástand þeirra. Á sama tíma binda forsvarsmenn safnsins vonir sínar við að sveitarfélagið standi við fyrri samþykkt og ráði bót á frárennslismálum á svæðinu, áður en að næsta vatnsveðri kemur.

Frá þessu er greint á vef Síldarminjasafnsins.

Heimild og myndir: Sild.is.

 

Hringferð gegn ofbeldi á börnum

Stöðvum feluleikinn – átak UNICEF gegn ofbeldi á Íslandi í fullum gangi Einar Hansberg crossfit kappi heimsækir 36 sveitarfélög landsins Rær, skíðar eða hjólar fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi

Í dag, föstudaginn 16. ágúst, hefja UNICEF á Íslandi og crossfit kappinn Einar Hansberg Árnason hringferð gegn ofbeldi á börnum. Átak UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum sem hófst í vor undir yfirskriftinni Stöðvum feluleikinn er enn í fullum gangi. Þá boðaði UNICEF byltingu fyrir börn, sem mun nú berast um allt land dagana 16. – 24. ágúst þegar Einar fer hringinn í kringum landið til að styðja baráttu UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum með heldur óvenjulegum hætti. Einar, fjölskylda hans og vinir, munu stoppa í 36 sveitarfélögum á einni viku þar sem Einar ætlar að róa, skíða eða hjóla 13 þúsund metra á hverjum stað, einn fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi. Í heildina mun Einar því fara um 500 kílómetra.

„Einar hafði samband við okkur og vildi leggja leggja sitt af mörkum til að styðja baráttu okkar gegn ofbeldi. Við hjá UNICEF á Íslandi höfum vakið athygli á því að ofbeldi er ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. Þetta er ofbeldi sem hefur verið falið í samfélaginu í alltof langan tíma. Við gripum því að sjálfsögðu tækifærið til að vekja athygli á þessu alvarlega samfélagsmeini og um leið heimsækja fjölda sveitarfélaga landsins og ítreka ákall okkar. Sveitarfélögin leika mjög mikilvægt hlutverk í lífi barna, enda stýra þau stærstum hluta þeirra verkefna sem hafa bein áhrif á daglegt líf þeirra,“ segir Ingibjörg Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá UNICEF á Íslandi.

Markmið átaksins er að vekja athygli á því hversu alvarlegt ofbeldi gegn börnum á Íslandi er (13.000 börn á Íslandi verða fyrir ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn), þrýsta á stjórnvöld að standa vaktina og búa til breiðfylkingu fólks sem heitir því að bregðast við ofbeldi gegn börnum. Nú þegar hafa yfir 11 þúsund manns skrifað undir ákall UNICEF.

„Það er svo auðvelt að horfa í hina áttina og vonast til að einhver annar taki slaginn. En það þarf ákveðið hugrekki til að rísa upp og taka slaginn sjálfur,“ segir Einar aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að hefja þessa áskorun. Hann hyggst síðan enda hringferðina með því að hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu þann 24. ágúst til stuðnings UNICEF.

UNICEF skorar á sveitarfélög

Hópurinn heldur af stað frá Reykjavík þann 16. ágúst og hringferðinni lýkur í Reykjavíkurmaraþoninu þann 24. ágúst. Viðkomustaðirnir eru fjölmargir, meðal annars Hofsós, Sauðárkrókur, Siglufjörður, Akureyri, Dalvík, Húsavík, Raufarhöfn og Vestmannaeyjar. Einar og UNICEF vonast til að sem flestir mæti á staðina, kynni sér málefnið og setji nafn sitt á bakvið þessa mikilvægu baráttu. Dagskráin er hér að neðan en hún verður einnig uppfærð hér.

Samhliða hringferðinni mun UNICEF á Íslandi ítreka áskorun sína á sveitarfélög landsins að taka þátt og bregðast við ofbeldi á börnum. UNICEF hefur nú þegar sent ákall á öll sveitarfélög landsins og mun nýta slagkraftinn sem myndast með hringferðinni til að þrýsta á að öll sveitarfélög landsins setji sér skýra viðbragðsáætlun gegn ofbeldi.

Hægt er að skrifa undir ákall UNICEF hér: https://feluleikur.unicef.is/

Hægt er að heita á Einar í Reykjavíkurmaraþoninu hér. Framlögin renna í baráttu UNICEF gegn ofbeldi á börnum á Íslandi.

Dagskrá hringferðar gegn ofbeldi:

Föstudagur 16. ágúst

10:00 Akranes

14:00 Stykkishólmur

17:00 Búðardalur

22:00 Patreksfjörður – Gisting

 

Laugardagur 17. ágúst

10:00 Ísafjörður

12:30 Súðavík

16:30 Hólmavík

19:30 Hvammstangi – Gisting

 

Sunnudagur 18. ágúst

09:00 Blönduós

12:00 Sauðárkrókur

14:00 Hofsós

16:30 Siglufjörður

18:00 Dalvík

 

Mánudagur 19. ágúst

12:00 Akureyri

15:00 Húsavík

18:00 Þórshöfn

20:00 Vopnafjörður – Gisting

 

 

Þriðjudagur 20. ágúst

11:00 Egilsstaðir

14:30 Seyðisfjörður

16:30 Fáskrúðsfjörður

19:00 Djúpivogur

21:00 Höfn – Gisting

 

Miðvikudagur 21. ágúst

10:00 Vík

14:30 Vestmannaeyjar

18:30 Hella

21:00 Flúðir

 

Fimmtudagur 22. ágúst

10:00 Laugarvatn

12:00 Hveragerði

14:00 Stokkseyri

16:30 Þorlákshöfn

 

Föstudagur 23. ágúst

09:00 Grindavík

11:00 Garður

13:00 Reykjanesbær

15:00 Vogar

17:00 – 20:00

Hafnafjörður – Garðabær

Álftanes – Kópavogur

Reykjavík – Mosó

 

Laugardagur 24. ágúst

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka

 

 

Viðtöl og nánari upplýsingar veitir:

Ingibjörg Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá UNICEF á Íslandi, s. 6184420 / ingibjorg@unicef.is

 

 

Um UNICEF:

UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna) hefur í tæpa sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Við berjumst fyrir réttindum barna á heimsvísu og sinnum bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. UNICEF treystir eingöngu á frjáls framlög og hefur að leiðarljósi þá bjargföstu trú að öll heimsins börn eigi rétt á heilsugæslu, menntun, jafnrétti og vernd. Við erum á vettvangi í yfir 190 löndum og leggjum áherslu á að ná til allra barna – hvar sem þau eru.

Fylgist með okkur á www.unicef.is og www.facebook.com/unicefisland

Mynd frá UNICEF á Íslandi.

 

25.000 gestir taldir vera á Fiskideginum mikla

Um síðustu helgi var Fiskidagurinn mikli haldinn í Dalvíkurbyggð.  Lögreglan á Norðurlandi eystra var með mikinn viðbúnað enda stærsti viðburðurinn í umdæminu á ári hverju.  Vegagerðin hefur áætlað að heildarfjöldi einstaklingsheimsókna til Dalvíkur yfir Fiskidagshelgina frá föstudegi til sunnudags hafi verið um 25.000 manns sem er töluvert færra en síðastliðnar Fiskidagshelgar. Þar hefur eflaust spilað inn í stórtónleikar Ed Sheeran í Reykajvík og svo slæm veðurspá fyrir svæðið. Tölur sem Vegagerðin hefur birt áætluðu að 36.000 manns hafi verið á Fiskidögum árið 2018, sem hafi einnig verið fjölmennasta hátíðin fram til þessa.

Lögreglan hefur greint frá því að engin alvarleg mál hafi komið upp en mikill erill var þessa helgi hjá lögreglunni.

Mestur fjöldi fólks kom til að hlusta á tónleikana á laugardagskvöldið á Fiskideginum mikla.  Mikill erill var um kvöldið og fram undir morgun á svæðinu. Ölvun var mikil og þurftu fimm aðilar að gista í fangageymslum sökum ölvunar og óspekta. Þá var öflugt fíkniefnaeftirlit þessa helgi og meðal annars var lögreglan með tvo fíkniefnahunda við vinnu. Forvarnargildi þeirra var mikið en alls komu upp 13 minniháttar fíkniefnamál.

Umferð um helgina gekk vel og var lögreglan með yfirumsjón á umferðarstýringu yfir Fiskidagshelgina.

Mynd frá Lögreglan á Norðurlandi eystra.

Mynd: Fiskidagurinn mikli / Bjarni Eiríksson

37 án atvinnu í Fjallabyggð

Alls voru 37 án atvinnu í júlí 2019 í Fjallabyggð. Þar af voru 19 karlar og 18 konur. Atvinnuleysi mælist nú 3,4% í Fjallabyggð og lækkaði um 0,3 % á milli mánaða og hefur nú lækkaði fimm mánuði í röð.

Í Dalvíkurbyggð er atvinnuleysi aðeins 1,9% og eru 20 án atvinnu. Í Skagafirði er atvinnuleysi aðeins 0,7% og eru þar 15 án atvinnu. Á Akureyri eru 292 án atvinnu og mælist 2,8% atvinnuleysi.

Sauðárkrókur

Tónleikar í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Fimmtudaginn 15. ágúst kl. 20:00 verða Ife Tolentino og Óskar Guðjónsson með tónleika í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.  Húsið opnar kl. 19.45 og er tekið við frjálsum framlögum við innganginn.

Ife Tolentino og Óskar Guðjónsson ferðast nú um landið og fagna 20 ára vináttu og samspilsafmæli með tónleikum.
Á tónleikaferðalaginu heiðra þeir einnig minningu João Gilberto, einn upphafsmanna Bossa Nova tónlistar. Gilberto fann upp nýja aðferð við að syngja og spila á kassagítar á fimmta og sjötta áratugnum, sem síðar varð frægt og nýtur virðingar um allan heim.
Tónleikar og Óskars innihalda einnig brasilíska tónlist með jazz, rokk, barrokk og rómantískt klassísku ívafi.

Mynd: Aðsend
Texti og mynd: Fjallabyggð.is

Eftir Fiskidaginn mikla – Fréttatilkynning

Fiskidagurinn mikli var nú haldinn í 19. sinn í Dalvíkurbyggð. Þúsundir gesta nutu gestrisni gestgjafanna. Það var magnað og stjórnendum til mikillar gleði að sjá trausta gesti mæta sem aldrei fyrr þrátt fyrir að í heila viku hafi verið spáð afar vondu veðri sem að sannarlega kom ekki á meðan að Fiskidagurinn mikli stóð yfir. Matseðill Fiskidagsins mikla hefur aldrei verið eins fjölbreyttur enda um 25 réttir á seðlinum og má þar nefna, Sushi, plokkfisk, steiktar gellur, bleikju í tandoori, graflax, fiskborgara, fiskipylsur, fish and chip, harðfisk, rækjusalat og fiskisúpu.
Hinsegin dagar í Reykjavík voru heiðursgestir Fiskidagsins mikla og þeim tengt var tónlistardagskrá, regnbogagata vígð, ræðumaður á setningunni var fulltrúi þeirra og víða var flaggað og skreytt. Stjórnendur Fiskidagsins mikla, gestir og heimamenn höfðu á orði að það hefði verið dásamlegt að hafa þessa heiðursgesti og að geta stutt mannréttindi og margbreytileika. Á endanum er eitt sem stendur uppúr eftir svona stóra helgi en það er kærleiksrík samvera með fjölskyldu og vinum.

Vináttukeðjan – Fjöldaknús.

Föstudaginn 9. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Vináttukeðjan er notaleg stund þar sem staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Það var Sigurður Þorri Gunnarsson útvarpsmaður á K100 sem sá um vináttukeðjuræðuna sem fulltrúi hinsegin daga í Reykjavík. Hljómsveitirnar Angurværð og Ljótu hálfvitarnir glöddu gesti og Friðrik Ómar Hjörleifsson og Gyða Jóhannesdóttir ásamt karlaröddum úr Dalvíkurbyggð fluttu hið árlega lag Mamma.  Heimamenn færðu gestum fléttuð vináttuarmbönd, vináttufána, knúskort og í lokin var innilegt fjöldaknús til að leggja línurnar fyrir helgina.

Fiskisúpukvöldið mikla haldið í 15. sinn.
Á föstudagskvöldinu buðu um 120 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína  uppskrift. Þetta var einstaklega gott og ljúft kvöld, gestir röltu um bæinn og nutu þess að smakka fjölbreyttar súpur og áttu innihaldsríka samveru með fjölskyldu og vinum.

 

Rusl til sýnis – Fjörur hreinsaðar. 

Arctic Adventures ásamt sjálfboðaliðum tók þátt í dagskránni í ár með hreinsun á fjörum við utanverðan Eyjafjörð. Arctic Adventures er nýtt fyrirtæki í hópi aðalstyrktaraðila Fiskidagsins mikla. Verkefnið að hreinsa fjörurnar er stærra en skipuleggjendur gerðu sér grein fyrir og munum við halda áfram með skipulagningu og hafa þetta áfram á dagskránni. Mikið magn af rusli fannst og var það til sýnis í tveimur gámafletum. Gestum fannst þetta áhugavert og voru margir undrandi yfir því hve mikið magn þetta var.

Samhjálp fær matarsendingu
Fiskidagurinn mikli færir Samhjálp í Reykjavík mat sem m.a var eftir eftir Fiskidaginn, þetta hefur verið gert í nokkur ár það gleður stjórnendur Fiskidagsins að ekkert fari til spillis og að geta glatt  og gefið af okkur á fleiri stöðum

 

Tónleikar á heimsmælikvarða – Kraftmikil flugeldasýning.
Hátíðinni lauk með Fiskidagstónleikum og flugeldasýningu í boði Samherja. Það er óhætt að segja að enn eina ferðina hafi gestir sem mættu fyrir neðan hafnarbakkann á Dalvík orðið vitni að einum glæsilegustu tónleikum sem haldnir eru hér á landi og fagmennskan var í fyrirrúmi. Í fararbroddi voru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi. Meðal annara sem komu fram voru: Páll Óskar, Auður, Herra Hnetusmjör, Þorgeir Ástvaldsson, Eyjólfur Kristjánsson, Svala Björgvins, Bjartmar Guðlaugsson, Valdimar, Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson. Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar á Dalvík setti lokapunktinn á einstaka fjölskylduhátíð með kraftmikilli og magnaðri flugeldasýningu þar sem að gasbyssur léku nýtt hlutverk. Þessi sýning var að margra mati ein sú besta frá upphafi.

 

Fiskidagurinn mikli 2019 heiðrar Gunnar Arason fyrrverandi skipstjóra.

Gunnar var heiðraður fyrir framlag sitt til sjávarútvegs og farsælan skipstjóraferil með skip frá Dalvík. Hann varð skipstjóri hjá útgerð Aðalsteins Loftssonar á Dalvík árið 1963, þá aðeins 22 ára gamall, fyrst með Baldvin Þorvaldsson EA 24 og síðan Loft Baldvinsson EA 124.

Árið 1968 tók hann við nýju og glæsilegu skipi, Lofti Baldvinssyni EA 24. Síldin hafði þá breytt göngu sinni frá hefðbundnum miðum íslenskra fiskiskipa. Hinu nýja skipi var þá um haustið haldið til veiða í Norðursjónum og náði á stuttum tíma frábærum árangri við síldveiðar þar og frágang aflans, sem tryggði þeim hæstu verð. Það varð með öðru til þess að Loftur Baldvinsson EA 24 var um árabil með mestu verðmæti allra íslenskra fiskiskipa.  Gullaldarár skipsins voru þegar best gekk í Norðursjónum á árunum 1970 til 1975.

Skipverjar á Lofti Baldvinssyni voru flestir frá Dalvík og það munaði um það að tekjuhæstu sjómenn landsins bjuggu hér. Það er stundum talað um það að heil gata hafi meira og minna verið byggð einbýlishúsum skipverja á Lofti á þessum árum.

Aukin verðmæti vegna gæða aflans urðu aðall áhafnar Lofts Baldvinssonar og þar fór skipstjórinn fremstur meðal jafningja.

Ljósmyndari: Bjarni Eiríksson

Fjallabyggð – Fréttatilkynning vegna mikillar úrkomu í Fjallabyggð

Af gefnu tilefni vilja undirritaðir benda á eftirfarandi atriði vegna mikillar úrkomu í Fjallabyggð undanfarna sólarhringa.

  1. Magn úrkomu á utanverðum Tröllaskaga var gífurleg undanfarna sólarhringa. Úrkomumagnið var litlu minna en í hamfaraúrkomu sem varð 28. ágúst 2015 en náði yfir lengri tíma.

 

  1. Undanfarin ár hefur Fjallabyggð verið markvisst að endurbæta holræsakerfið í báðum byggðarkjörnum með tilliti til mengunar- og umhverfismála ásamt því að gera kerfið betra varðandi aukið álag vegna flóða og úrkomu.

 

  1. Ef framangreint hefði ekki verið framkvæmt hefðu afleiðingarnar orðið mun verri, en raunin var. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mörg hús flæddi inn í, en tilkynnt var til tæknideildar um leka inn í kjallara í þremur húsum á Siglufirði og tvö í Ólafsfirði.

 

  1. Endurgerð holræsakerfisins er langt komin og lýkur á næsta ári. Þær endurbætur sem gerðar hafa verið koma í veg fyrir innstreymi sjávar inn í holræsakerfin en þegar mikið álag er á kerfunum þá safnast upp vatn í lögnunum þar sem há sjávarstaða heldur á móti rennslinu. Þá má benda á að lægsti punktur á Siglufirði er í kóta +1,1 en flóðhæð er frá +1,0 – +1,3.

 

  1. Til að draga úr hættu á innrennsli í kjallara húsa var dælt úr brunnum og lögnum í báðum bæjarkjörnum með tveimur slökkviliðsbílum og tveimur sérútbúnum dælubílum ásamt lausum dælum.

____________________________

Gunnar I. Birgisson

Bæjarstjóri

____________________________

Ármann Viðar Sigurðsson

Deildarstjóri tæknideildar

Gífurleg rigning í Fjallabyggð síðustu daga

Gríðarlega mikil rigning hefur verið í Fjallabyggð síðustu tvo daga, bæði í Ólafsfirði og á Siglufirði. Tjaldsvæðið í Ólafsfirði og svæðið þar í kring hefur illa ráðið við alla þessa úrkomu síðustu daga og hafa myndast stórir pollar þar og hefur Slökkvilið Fjallabyggðar haft næg verkefni undanfarna daga.  Sólahrings úrkoma á Siglufirði hefur verið 130 mm en 98,6 mm á Ólafsfirði. Mun minni rigning hefur verið t.d. á Akureyri en þar hefur aðeins rignt 25 mm síðastliðinn sólahring.

Ljósmyndir með fréttinni koma frá Guðmundi Inga Bjarnasyni, umsjónarmanni tjaldsvæðanna í Fjallabyggð og eru birtar með hans leyfi.

Bæjar- og menningarvefur