Lokað fyrir heimsóknir í Skálarhlíð

Stjórnendur Skálarhlíðar hafa tekið ákvörðun að loka húsnæði Skálarhlíðar fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá og með 6. apríl 2020 þar til annað verður formlega tilkynnt. Er þetta gert í samráði og með fullu samþykki allra íbúa Skálarhlíðar. Með þessari ráðstöfun er verið að fylgja eindregnum tilmælum þessara aðila sem eru í framvarðasveit Almannavarna Íslands.

Heilsa og velferð íbúanna þarf alltaf að vera í forgangi!

Þar sem íbúar Skálarhlíðar eru flestir aldraðir og / eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni.

Leita þarf allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar Skálarhlíðar veikist af Kórónaveirunni. Okkur þykir mjög leitt að þurfa að taka svo stóra ákvörðun en þetta er gert með velferð íbúanna í húfi og biðjum við fólk að sýna þessari ákvörðun virðingu og skilning. Það er ljóst að það getur reynst íbúa mjög erfitt að fá ekki heimsóknir frá ættingjum sínum og á sama hátt getur það reynst ættingjum íbúans mjög erfitt að heimsækja hann ekki.  Það er samt nauðsynlegt að grípa til þessara ráðstafana til að koma í veg fyrir að íbúi veikist af veirunni og eins geta smit borist frá ættingjum eins íbúa til annars íbúa.

Jafnframt verður umferð allra annara en nauðsynlegs starfsfólks á vakt, takmörkuð inn í Skálarhlíð.

Við bendum ykkur á að hafa samband við: Helgu Hermannsdóttur, sími 898-1147

Einnig er mikilvægt að þið kynnið ykkur upplýsingar og leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins www.landlaeknir.is Þar eru greinargóðar upplýsingar og leiðbeiningar tengdar stöðu málar, en þær geta breyst frá degi til dags.

 

29 hópuppsagnir í marsmánuði á öllu landinu

Alls bárust 29 tilkynningar um hópuppsagnir til Vinnumálastofnunar í mars þar sem 1.207 starfsmönnum var sagt upp störfum, 547 í ferðaþjónustu, 175 í flutningum, 174 í félögum þar af 164 tengdum ferðaþjónustu, 151 í verslun, 72 í þjónustu tengdri ferðaþjónustu, 55 í mannvirkjagerð og 33 í iðnaði langflestum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Flestar uppsagnirnar koma til framkvæmda á tímabilinu maí til júlí.

Ljósmynd: Magnús Rúnar Magnússon

Viðbygging reist við flugstöðina á Akureyri

Nauðsynlegt er að byggja við flugstöðina á Akureyrarflugvelli til að geta veitt viðunandi þjónustu samtímis fyrir millilanda- og innanlandsflug. Þetta eru niðurstöður skýrslu aðgerðahóps sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði til að meta þörf fyrir aðstöðu og þjónustu í flugstöð á Akureyrarflugvelli.

Hópurinn telur núverandi flugstöð vera of litla og aðstöðu ófullnægjandi til að sinna hlutverki sínu til framtíðar. Lagt er til að ráðist verði í hönnun 1.000 m2 viðbyggingar svo hægt verði að afgreiða allt að 220 sæta millilandavél á innan við klukkutíma samhliða 70 sæta innanlandsvél.

Í skýrslunni er gert ráð viðbyggingu við núverandi flugstöð og að hönnun hennar verði sveigjanleg til að hægt verði að stækka bygginguna eða breyta nýtingu einstakra svæða. Kostnaður er áætlaður um 900 m.kr. og lagt er til að þegar í stað verði ráðist í hönnun, færslu olíutanka og jarðvinnu þannig að byggingarframkvæmdir geti hafist strax að hönnun lokinni. Áætlað er að við framkvæmdir við viðbygginguna verði til um 50 ársverk.

„Það er ánægjulegt að geta stigið mikilvægt og myndarlegt skref að frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli sem gátt inn til landsins. Hafist verður handa við hönnun og síðar stækkun á flugstöðinni á Akureyri innan skamms. Tími fjárfestinga er núna og fyrir Norður- og Austurland skiptir öllu máli að vera vel í stakk búinn til að taka á móti ferðamönnum þegar Covid-tímabilið er afstaðið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Sigurður Ingi segir að á síðustu árum hafi verið unnið að því að efla Akureyrarflugvöll og að lenging flugbrautarinnar hafi verið fyrsta skrefið. Árið 2018 hafi síðan verið tryggt fjármagn fyrir aðflugsbúnað, ILS, sem þegar hafi sannað gildi sitt.

90 störf vegna framkvæmda á Akureyrarflugvelli

„Samhliða stækkun á flugstöðinni verður flughlaðið á Akureyrarflugvelli stækkað til að koma á móts við aukin umsvif og öryggi vallarins. Áætlað er að við báðar þessar framkvæmdirnar verði til um 90 ársverk, í hönnunar- og verktakavinnu,“ segir ráðherra.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra undirrituðu viljayfirlýsingu 18. desember sl. um frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli sem gátt inn til landsins í þágu svæðisins og íslenskrar ferðaþjónustu. Í framhaldi af yfirlýsingunni skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra aðgerðahóp sem leggja skildi mat á þörf fyrir aðstöðu og þjónustu í flugstöð á Akureyrarflugvelli. Í hópnum sátu fulltrúar ráðuneytanna tveggja, Akureyrarbæjar, Eyþings, ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og Isavia.

Texti:stjornarrad.is

Takmarkanir á skólahaldi framlengt til 4. maí

Tilkynnt hefur verið að takmarkanir á samkomum og skólahaldi sem falla áttu úr gildi 13. apríl næstkomandi verði framlengdar til mánudagsins 4. maí. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

Engar breytingar verða á gildandi takmörkunum á samkomum og skólahaldi aðrar en framlengdur gildistími þeirra. Ráðgert er að aflétta gildandi takmörkunum í áföngum og verður útfærsla þess kynnt síðar.

Undanþágur sem veittar hafa verið frá takmörkunum á samkomum og skólahaldi munu halda gildi sínu sem nemur framlengingu aðgerða, það er til 4. maí nk.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Ófært til og frá Fjallabyggð

Víða er stórhríð á Norðurlandi og vegir ófærir eða lokaðir og verða það í dag samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. Appelsínugul viðvörun er á öllu Norðurlandi og víðar.

Ófært er til Fjallabyggðar og á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Lokað er um Þverárfjall, Vatnsskarð, Öxnadalsheiði, Siglufjarðarveg, Ólafsfjarðarveg, Víkurskarð og víðar.

 

Ófært um Héðinsfjörð

Ekkert ferðaveður er á Tröllaskaga og er skyggni lítið sem ekkert.  Ófært er í Héðinsfirði, milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Siglufjarðarvegur hefur verið lokaður síðan í morgun og verður ekki opnaður í dag. Ófært er til Grenivíkur og um Víkurskarð. Þeir sem þurfa nauðsynlega að vera á ferðinni ættu að skoða vel færð á vegum og veðurspá.

Aðgerðaráætlun Akureyrarbæjar

Aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar – viðbrögð vegna áhrifa COVID-19 – fyrstu aðgerðir.

1. Velferð íbúa – órofin þjónusta
Lögð verður áhersla á velferð bæjarbúa, afkomu þeirra og að halda úti órofinni grunnþjónustu bæjarins. Með aðgerðum sveitarfélagsins hefur verið
lögð áhersla á að fylgja tilmælum yfirvalda, Landlæknis og Almannavarna. Fjölskyldu- og fræðslusviði verður falið að safna saman gögnum um þróun
aðstæðna hjá einstaklingum og fjölskyldum á næstu mánuðum til að leggja grunn að frekari tillögugerð. Komið verður á samtali og samstarfi milli
hagsmunaaðila með því að virkja Almannaheillanefnd þar sem sérstaklega verði hugað að börnum og ungmennum, barnafjölskyldum, fötluðu fólki,
eldra fólki, atvinnulausum, fólki í viðkvæmri stöðu og fólki af erlendum uppruna.

2. Leiðrétting á þjónustugjöldum vegna skerðingar á þjónustu

Vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á þjónustu leik- og grunnskóla hefur þegar verið brugðist við með breytingu á gjaldtöku þannig að ekki er greitt fyrir þjónustu sem ekki er innt af hendi. Engir reikningar verða sendir út vegna skólavistunar og skólamáltíða í grunnskólum fyrir apríl og haldið verður utan um leiðréttingar vegna skertrar þjónustu frá 16.-31. mars 2020.
Ekki verður endurgreitt vegna skertar þjónustu heldur horft til þess að inneign gangi upp í þjónustu síðar á skólaárinu.
Leikskólagjöld taka breytingum í samræmi við veitta þjónustu, þ.e. ef barn er annan hvern dag í leikskólanum er innheimt 50% gjald. Þurfi að loka
leikskóla fyrir öllum öðrum en forgangshópi er ekki innheimt gjald fyrir þá sem verða fyrir lokun. Þá er ekki innheimt gjald fyrir börn sem foreldrar hafa
heima á tímabilinu sem takmörkun á skólahaldi nær til. Niðurfellingin fæst aðeins ef fjarveran er samfelld og/eða reglubundin. Nauðsynlegt er að
tilkynna fjarveruna til skólastjórnenda viðkomandi leikskóla. Leiðrétting á skertri þjónustu vegna marsmánaðar fer fram samhliða útgáfu á reikningi
vegna aprílmánaðar. Greiðsluseðlar vegna aprílmánaðar í Tónlistarskólanum verða ekki sendir út fyrr en ljóst er hvernig kennslu verður háttað þar næstu vikurnar.

Árskort, t.d. í sundlaugar og listasafn framlengjast sem nemur skerðingu á opnunartíma. Ákvarðanir sem snúa að árskortum í Hlíðarfjalli verða teknar
síðar á árinu.
Við innheimtu gjalda verður markmiðið að veita sveigjanleika varðandi gjaldfrest í einstaka tilvikum með það að leiðarljósi við núverandi aðstæður
að innheimtan sé sanngjörn.

3. Frestun á greiðslum fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði.

Eigendur atvinnuhúsnæðis sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls geta sótt um frestun á allt að þremur greiðslum fasteignaskatts sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020, með sömu skilyrðum og málsmeðferðarreglum og kveðið er á um í ákvæði til bráðabirgða VII í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda,
nr. 45/1987.
Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur réttilega til er 15. janúar 2021. Verði gjaldandi, sem frestað hefur greiðslum til 15. janúar 2021, fyrir
miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrri rekstrarár getur hann óskað eftir lengri fresti og dreifingu þessara greiðslna fram til 15. dags
mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021.

4. Greiðslur fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði

Einstaklingar sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli munu geta sótt um fjölgun á gjalddögum eftirstöðva fasteignagjalda sem eru á gjalddaga í
apríl til september í apríl til desember. Íbúar geta sótt um í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar frá og með 8. apríl.

5. Framkvæmdir og viðhald
Lögð verður áhersla á að framkvæmdir ársins gangi eftir en fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir 4,4 milljörðum króna í fjárfestingar á árinu, sem skiptist þannig
að framkvæmdir í A-hluta verði 2,1 milljarður króna og í B-hluta 2,3 milljarðar.
Viðhaldi verður flýtt og strax verður gert ráð fyrir 10% aukningu á almennu viðhaldi. Fylgst verður með þróun mála á komandi mánuðum og settir
verða fjármunir til frekari framkvæmda eða viðhalds ef ástand á vinnumarkaði kallar á það.
Unnið er að nánari útlistun framkvæmda sem verður kynnt síðar.

6. Viðspyrna vegna atvinnuleysis
Gert er ráð fyrir fjölgun í sumarvinnu fyrir ungmenni á komandi sumri bæði í vinnuskóla og með sérstöku atvinnuátaki skólafólks. Stofnanir bæjarins
taka saman tillögur að verkefnum sem nýst geta í þessu samhengi. Rafrænni þróun verður flýtt og lögð áhersla á að bæta enn frekar rafræna
þjónustu við bæjarbúa. Lögð verður áhersla á samstarf Akureyrarstofu við Markaðsstofu Norðurlands og SSNE um markaðssetningu bæjarins og Norðurlands alls á
ferðamarkaði og stuðlað þannig að öflugri endurreisn ferðaþjónustu. Greina á áhrif faraldursins á menningar-, íþrótta- og tómstundastarf í bænum.

7. Greiðslur gatnagerðargjalda
Mótaðar verða reglur um gjaldfrest á gatnagerðargjöldum til allt að 12 mánaða vegna úthlutunar á lóðum.

8. Frestun leigu
Fjársýslusviði er falið að móta reglur um frestun eða afslátt af leigu þriðja aðila í atvinnurekstri í húsnæði bæjarins á grundvelli umsókna, vegna
tímabundins tekjufalls í ljósi sérstakra aðstæðna.

9. Undirbúningi fjárfestingaverkefna í samvinnu við ríki flýtt.

Breytingum á deiliskipulagi verður flýtt og öðrum undirbúningi í samvinnu við ríkið vegna fjárfestingaverkefna sem vilji er til að flýta, s.s. uppbyggingu Akureyrarflugvallar, hjúkrunarheimilis, tveggja nýrra heilsugæslustöðva og legudeilda SAk.

10. Aukin áhersla á að hraða skipulagsvinnu á uppbyggingarsvæðum

Lögð verður áhersla á að hraða undirbúningsvinnu vegna uppbyggingar miðbæjarins og Oddeyrarinnar með það að markmiði að úthluta lóðum hið
fyrsta.

11. Annað
Kannaðir verði möguleikar á skammtímalánum og langtímafjármögnun hjá Lánasjóði sveitarfélaga og Íslandsbanka.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og sviðsstjóra fjársýslusviðs að vinna að frekari úrvinnslu og framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar.
Bæjarráð Akureyrarbæjar mun í framhaldinu skoða ýmsar frekari leiðir til þess að bregðast við ástandinu vegna COVID-19, fylgjast með
þróun í samfélaginu, aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem og annarra sveitarfélaga. Áhersla er lögð á að fylgja leiðbeiningum frá Landlækni,
Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Almannavörnum ríkisins.

Siglufjarðarvegur ófær

Siglufjarðarvegur er ófær og er óvissustig vegna snjóflóðahættu. Þæfingsfærð er í Héðinsfirði og hálka er frá Múlagöngum að Dalvík. Snjóþekja og hálka er frá Dalvík að Akureyri og er unnið að mokstri samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Þeir sem eru á ferðinni milli landshluta ættu að skoða vel kortin hjá Vegagerðinni og veðurspá.

Frá Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra

Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra hefur verið starfandi frá því 9. mars síðastliðinn. Í aðgerðastjórn sitja fulltrúar lögreglustjóra, heilbrigðisstofnunar Norðurlands, almannavarnanefnda, Rauðakrossins og björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Vettvangsstjórnir eru starfandi á Hvammstanga, Blönduósi og á Sauðárkróki sem sjá um verkefni í umboði aðgerðastjórnar á sínu svæði.

Í vettvangsstjórn á Hvammstanga situr sóttumdæmislæknir Vesturlands á Hvammstanga en Vestur Húnavatnssýsla fellur undir sóttvarnaumdæmi Vesturlands á meðan austur Húnavatnssýsla og Skagafjörður falla undir sóttvarnaumdæmi Norðurlands. Verkefnið hefur almennt gengið vel og er aðgerðastjórn í góðum samskiptum við sóttvarnalækni og samhæfingarstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

Alls eru 29 einstaklingar á Norðurlandi vestra í einangrun með COVID 19, flestir í Húnaþingi vestra alls 26 og þrír einstaklingar í Skagafirði. Tveir einstaklingar hafa náð bata en 468 einstaklingar hafa verið í sóttkví á svæðinu frá upphafi en í dag er tala þeirra sem eru í sóttkví 91.

Aðgerðastjórn hefur undanfarna daga verið í sambandi við fyrirtæki og stofnanir á svæðinu í þeim tilgangi að brýna fyrir aðilum um gerð áætlana um órofinn rekstur starfseininga. Í því felst að fyrirtæki og stofnanir geri áætlun um hvernig bregðast eigi við ef upp kemur smit þannig að hægt verði að halda úti lágmarks starfsemi og þjónustu við íbúa svæðisins. Þetta verkefni er vel á veg komið og hefur aðgerðastjórn safnað áætlununum saman. Aðgerðastjórn vill beina tilmælum til þeirra fyrirtækja og stofnana sem ekki hafa komið sér upp slíkri áætlun að gera það hið fyrsta og senda á aðgerðarstjórn í netfangið astnvland@gmail.com.

Mynd frá Lögreglan á Norðurlandi vestra.

Yfirlýsing frá Almannavarnanefnd í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra

Almannavarnanefnd í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra mælist eindregið til þess að fólk ferðist ekki um páskana og virði í hvívetna samkomubann og fjarlægðarmörk hér eftir sem hingað til. Ljóst er að heilbrigðiskerfi landsmanna má ekki við meira álagi og koma þarf í veg fyrir aukna hættu á smitum og  slysum með öllum tiltækum ráðum á þessum krefjandi tímum.

Almannavarnanefnd biðlar til almennings að sýna samfélagslega ábyrgð. Þeir sem hyggja á holla og góða útivist verða að sýna aðgætni, virða öll tilmæli um fjarlægðarmörk og hafa í heiðri samkomubannið sem gildir til 4. maí.

Eigendur orlofshúsa, og/eða félög sem hafa með orlofsbyggðir að gera, eru hvattir til að leigja ekki út orlofshús um páskana.

Ennfremur er fólk hvatt til að takmarka gestakomur eins og hægt er.

Virðum tilmæli Sóttvarnalæknis og Landlæknis um að ferðast innanhúss um páskana. Heilbrigðisstarfsfólk þarf á öllum kröftum sínum að halda við að hlúa að fólki sem smitast hefur af Covid-19. Óþarfa ferðalög bjóða heim hættu á slysum og frekari smitum sem við megum ekki við nú um stundir.

Munum að við erum öll almannavarnir. Ábyrgðin hvílir hjá okkur.

 

Almannavarnarnefnd í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra

Bæjarstjórar, sveitarstjórar og oddvitar eftirfarandi sveitarfélaga

Akureyrarbær

Dalvíkurbyggð

Eyjafjarðarsveit

Fjallabyggð

Grýtubakkahreppur

Hörgársveit

Langanesbyggð

Norðurþing

Skútustaðahreppur

Svalbarðshreppur

Svalbarðsstrandarhreppur

Tjörneshreppur

Þingeyjarsveit

Pistill frá bæjarstjóra Fjallabyggðar

Kæru íbúar Fjallabyggðar.

Nú við lok þriðju viku samkomubanns er manni margt í huga, fyrst og fremst er það þó þakklæti og auðmýkt gagnvart öllu því fólki um allt land sem stendur nú í framlínu bardagans við Covit-19. Öllu því fólki þakka ég mjög svo óeigingjarnt starf í okkar allra þágu.

Að því sögðu þá hefur undanfarna daga verið að færast ákveðin ró og æðruleysi yfir samfélagið hér í Fjallabyggð, fólk virðist í raun vera að aðlagast nýjum og erfiðum aðstæðum.

Stjórnsýslan hjá okkur virkar og sinnir sínu þjónustuhlutverki, þökk sé góðu starfsfólki, gagnatengingum og tækninýjungum sem okkar fólk sameinast um að læra á og nýta. Aðrar einingar sveitarfélagsins hafa sömuleiðis haldið áfram að þjóna sínu þó aðstæður séu snúnar. Á höfninni vigta menn fisk þegar gefur og taka á móti skipum þá þau koma að landi. Áhaldahúsið stendur vaktina hvað varðar snjómokstur og annað það sem þar þarf við að glíma. Starfsfólk íþróttamannvirkja vinnur að viðhaldi og umhirðu eigna, eitthvað sem mun nýtast okkur þegar farsóttinni léttir.

Hjúkrunarheimilið, félagsþjónustan, sjúkrahúsið og aðrir þættir sem að velferð okkar snúa virkar allt og tekist hefur að manna hóp bakvarða sem aðstoða eftir því sem þörf krefur. Miklar takmarkanir eru á heimsóknum og umgengni um stofnanir, það er eðlilegt í svona ástandi og ekkert við því að gera. Við hlýðum jú Víði án þess að mögla hið minnsta.

Starfsemi grunnskólans hefur að mestu leyti gengið vel þessar vikur sem liðnar eru í samkomubanni. Á tímum þrenginga og kreppu verða gjarnan til ný tækifæri og skólastarf hefur tekið miklum og spennandi breytingum. Tækni og fjarkennsla spila nú stórt hlutverk í kennsluháttum og hafa kennarar og nemendur tekist á við gjörbreyttar aðstæður með opnum huga og stór framfaraskref víða verið stigin. Eldri nemendur sinna námi af alúð frá heimilum sínum og yngri nemendur una sáttir við sitt í skólanum. Nokkuð hefur borið á fækkun nemenda í skólahúsunum og er það visst áhyggjuefni þar sem eðlilegt skólastarf er líklegast ekki í sjónmáli alveg á næstu vikum. Þegar foreldrar meta nauðsynlegt að halda börnum alveg heima er afar mikilvægt að samstarf um nám barnanna sé opið og því fylgt eftir.

Sama má segja með leikskólann, þar hefur starfið gengið mjög vel við krefjandi aðstæður. Starfsfólk hefur lagt sig fram um faglegt og fjölbreytt starf við mjög knappar aðstæður þar sem hópar eru einangraðir og því takmörkuð not af sameiginlegum rýmum. Börnin una hag sínum vel en eru hissa á nýjum reglum og breyttum aðstæðum. Eðlilega gætir þreytu í hópnum en mikilvægt er að halda út og sýna samstöðu. Áfram er biðlað til foreldra þeirra barna sem geta létt undir með leikskólanum og haft börn sín heima a.m.k. einhverja daga að gera það í samráði við leikskólastjóra. Skerða hefur þurft opnunartíma og lýkur nú starfi með börnunum kl. 15:30 á daginn því nauðsynlegt var að gefa sótthreinsun og þrifum á leikefni og snertiflötum rýmri tíma. Rétt er að biðla til foreldra að fara eftir fyrirmælum leikskólans þegar kemur að umgangi um innganga og fataklefa barnanna.

Í tónlistarskólanum er kennsla að miklu leyti komin í fjarvinnslu. Kennarar nota ýmsar tæknilausnir til kennslu og samskipti við nemendur sína og finna leiðir sem best henta hverjum og einum nemenda eftir því hvernig tónlistarnám viðkomandi stundar. Tónfræðikennsla fer þannig fram að nemendum er sett fyrir heima og skila til síns kennara í gegnum fjarmiðla með myndum af verkefninu. Kennarar og nemendur tónlistarskólans eiga hrós og þakkir skildar fyrir útsjónarsemi og þolinmæði á þessum dæmalausum tímum.

Í vikubyrjun samþykkti bæjarráð aðgerðir sem veita okkur svigrúm til að takast á við óvissuna sem nú ríkir. Um er að ræða gjaldfrest á greiðslu fasteignagjalda lögaðila og ákvörðun um að ekki verði innheimt fyrir þjónustu sem ekki er mögulegt að veita eða fólk ákveður að nýta ekki til að létta undir með stofnunum sveitarfélagsins. Einnig var á fundinum settur á stofn stýrihópur sem hefur það hlutverk að upphugsa og útfæra frekari viðbrögð og leggja um það tillögur fyrir bæjarstjórn eða bæjarráð. Ljóst er að í þeirri vinnu er allt undir, rekstur sem og framkvæmdir. Allt með það að markmiði að standa vörð um hag íbúa og fyrirtækja eftir því sem okkur best er mögulegt.

Þegar þetta er skrifað þá eru fjórir aðilar hér í Fjallabyggð í sóttkví og einn smitaður. Líklegt verður að telja að fleiri eigi eftir að smitast á komandi dögum. Einnig hefur sóttvarnalæknir lagt til við heilbrigðisráðherra að samkomubann verði framlengt út mánuðinn sem segir sína sögu. Það er í mínum huga mjög mikilvægt að við, hvert og eitt, förum að fyrirmælum og nýtum skynsemina. Það á að sjálfsögðu við um alla landsmenn, við þurfum öll að sýna samfélagslega ábyrgð. Í því felst meðal annars að „ferðast heima“ um komandi páska.

Telja má líklegt að ástandið eigi eftir að versna á komandi dögum en jafnvíst er að það á eftir að batna og við að komast í gegn um þær tímabundnu hremmingar sem við nú upplifum. Á komandi vikum er mikilvægt að við gætum þess að vera góð hvert við annað, sínum skilning, samhygð og gætum að okkar minnstu bræðrum og systrum.

Um leið og ég óska ykkur öllum góðrar helgar þá vil ég nefna að nú þegar lífið er okkur um sumt andstreymt þá getur verið ágætt að minnast þess að mótvindur er betri til flugtaks en meðvindur.

Elías Pétursson
Bæjarstjóri

 

Texti: fjallabyggd.is

Ferðamönnum fækkaði í upplýsingamiðstöðvar Fjallabyggðar árið 2019

Alls komu 2577 ferðamenn á upplýsingamiðstöðina á Siglufirði árið 2019 og er það töluverð fækkun frá 2018 en þá komu 3860 ferðamenn í Upplýsingamiðstöðina. Í Ólafsfirði komu 160 ferðamenn í upplýsingamiðstöðina þar sem er einnig fækkun frá árinu 2018 en þá voru þeir 302. Þetta kom fram á fundi markaðs- og menningarnefndar Fjallabyggðar.

 

Leiðbeiningar vegna sorphirðu

Í næstu viku er fyrirhugað að losa almennt sorp frá heimilum í Fjallabyggð. Í dag vinnur Íslenska Gámafélagið eftir tilmælum frá Umhverfisstofnun og Landlæknisembættinu hvað varðar meðhöndlun og förgun úrgangs.

Samkvæmt þessum leiðbeiningum þá skal m.a. forðast alla snertingu við sorp, ekki má yfirfylla tunnur, íbúar skulu sjálfir skila yfirfullu sorpi á gámasvæði o.s.frv. Ekki verður hægt að fjarlægja sorp frá heimilum með yfirfullar tunnur.

  • Almennt sorp þarf að vera í vel lokuðum pokum og ekki má yfirfylla tunnur.
  • Smitaðir einstaklingar þurfa sérstaklega að gæta þess að snýtibréf fari í vel lokuðum pokum í Gráu tunnuna fyrir almennt sorp.
  • Umfram sorpi sem ekki kemst í tunnur, þurfa íbúar að skila á gámasvæði.
  • Flokkun á endurvinnsluhráefni helst óbreytt enn sem komið er.

Þessi tilmæli eru til þess að koma í veg fyrir að starfsfólk okkar þurfi að snerta sorpið og til að draga úr smithættu.

Sjá nánar á vefsíðu UST:

https://ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2020/03/06/Neydarstig-vegna-COVID-19/

Skíðasvæðið í Skarðsdal búið að loka í vetur

Samkvæmt tilskipun sóttvarnarlæknis um samkomubann sem varir út apríl, þá hefur skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði verið lokað þennan veturinn. Göngubraut verður lögð eins og hægt er í Hólsdal. Þeir sem eiga vetrarkort í Skarðsdalnum hafa aðgang að göngubraut.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá umsjónarmönnum svæðisins.

Virkilega svekkjandi niðurstaða eftir erfiðan vetur fyrir norðan, færri opnunardagar voru framan af vetri vegna veðurs og svo hefur samkomubannið sett stóran strik í reikninginn.

Skíðasvæðið í Skarðdal búið að loka í vetur

Samkvæmt tilskipun sóttvarnarlæknis um samkomubann sem varir út apríl, þá hefur skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði verið lokað þennan veturinn. Göngubraut verður lögð eins og hægt er í Hólsdal. Þeir sem eiga vetrarkort í Skarðsdalnum hafa aðgang að göngubraut.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá umsjónarmönnum svæðisins.

Virkilega svekkjandi niðurstaða eftir erfiðan vetur fyrir norðan, færri opnunardagar voru framan af vetri vegna veðurs og svo hefur samkomubannið sett stóran strik í reikninginn.

Gröfum stríðsöxina á tímum Covid-19 og vinnum saman

Yfirlýsing frá minnihlutanum í Fjallabyggð, aðsend tilkynning.

Á 646. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar voru tekin fyrir erindi er vörðuðu aðgerðir til viðspyrnu vegna Covid-19 lagði meirihluti D-Lista Sjálfstæðisflokks og I-Lista Betri Fjallabyggðar fram svohljóðandi bókun gagnvart
H-Listanum Fyrir Heildina í Fjallabyggð sem er í minnihluta.

Meirihluti bæjarráðs harmar að ekki sé fyrir hendi vilji hjá minnihluta að standa saman að þeim aðgerðum sem nú er gripið til vegna COVID-19. Formaður bæjarráðs hafði samband við H-listann á laugardag og bauð forsvarsmönnum listans fulla aðkomu að þeirri tillögugerð sem er hér á dagskrá, ásamt og aðkomu að framhaldi þeirrar vinnu sem fram fer á komandi vikum og mánuðum. Þessu boði meirihluta hafnaði H-listinn í gær eftir að hafa fundað um málið.“

Þessi bókun er vægast sagt mjög hörð og langt frá því að segja alla söguna á bakvið aðdragandann að málinu og má velta fyrir sér sannleiksgildi og heiðarleika þessarar bókunar meirihlutans og finnst mér sem oddvita H-Listans að mér bera skylda til að fara í gegnum atburðarrásina eins og hún var í aðdraganda fundarins.

Undanfarnar þrjár vikur hafa þau sem standa að baki H-Listans verið að velta sín á milli áhyggjum vegna yfirvofandi atvinnuleysis í Fjallabyggð í kjölfar Covid-19 faraldursins í ljósi þess að atvinnuleysistölur í Fjallabyggð hafa aukist mjög hratt undanfarið. Fimmtudaginn 26. mars sendi oddviti H-Listans inn til bæjarráðs, tillögu listans vegna framkvæmda á árinu vegna Covid-19.

H-listinn leggur til að farið verði í að endurskoða framkvæmdaáætlun Fjallabyggðar með það í huga að forgangsraða framkvæmdafé í mörg smærri verkefni í stað stærri verkefna s.s. gervigrasvallar en það verkefni krefst mikilla fjárútláta en er ekki endilega mannaflafrekt. Það er líklegt að atvinnuleysi mun aukast í sveitarfélaginu og erfitt getur reynst fyrir skólafólk að fá vinnu í sveitarfélaginu í sumar. Því er nauðsynlegt að Fjallabyggð bregðist nú þegar við og reyni að gera allt til að auka framkvæmdir þannig að hægt verði að sporna við auknu atvinnuleysi s.s. í viðhaldi eigna sveitarfélagsins, fara í framkvæmdir sem snúa að umhverfismálum og fleira. Að nógu er að taka.
H-listinn er tilbúinn til að vinna að tillögum með meirihlutanum í þessu stóra verkefni og nýta allar leiðir til að kalla eftir tillögum um verkefni, t.d. frá nefndum og frá bæjarbúum. Þessi vinna þarf að hefjast strax.“

Eitthvað lagðist þessi tillaga illa í forsvarsfólk meirihlutans, því að á laugardeginum hringdi formaður bæjarráðs í undirritaðan oddvita H-Listans. Í því símtali voru málin rædd og H-Listanum boðin full þátttaka og að stofnaður yrði stýrihópur um vinnu Fjallabyggðar í aðgerðum til viðspyrnu vegna Covid-19, sem myndu m.a. innihalda breytingar á fasteigna- og notendagjöldum í Fjallabyggð gegn því að H-Listinn dragi tillögu sína tilbaka og taki hana af dagskrá bæjarráðs. Oddviti H-Lista svaraði því til að hann væri að fara á fjarfund með listanum á sunnudeginum og urðu aðilar sáttir á að málið yrði lagt fyrir þann fund sem oddviti H-Listans gerði og ákváðu að heyrast aftur eftir tiltekin fund. Eftir umræður á þeim  fundi varð það niðurstaðan að tillaga listans yrði ekki dregin tilbaka. Fullur áhugi var hjá fundarmönnum fyrir því að vinna með meirihluta Fjallabyggðar að þessum krefjandi og mikilvægu málum, enda allir fundarmenn sammála um að tillaga H-Listans bæri það með sér.

Á mánudagsmorgninum heyrðust síðan oddviti H-Listans og formaður bæjarráðs í símtali þar sem formanninum er tjáð að tillagan verði ekki dregin tilbaka, enda bæri hún með sér vilja til samstarfs um aðgerðir í þágu íbúa Fjallabyggðar. Fram kom hjá fomanni bæjarráðs að hann hefði aðra sýn á málinu og teldi tillöguna ekki lýsa samstarfsvilja listans, heldur þvert á móti og tilkynnti í símtalinu að H-Listinn fengi því ekki aðkomu að vinnunni í málinu né aðild að stýrihópnum. Oddviti H-Listans harmar þessa tilraun formanns bæjarráðs til að þvinga H-Listann til að draga tillöguna sína tilbaka, sem hljóta að teljast afar ólýðræðisleg vinnubrögð.

Á bæjarráðsfundinum átti oddviti H-Listans alls ekki von á því sem á honum skall, hann hafði reiknað með því að meirihluti D-Lista og I-Lista myndu bóka þannig að meirihluti myndi standa á bakvið aðgerðir Fjallabyggðar og láta þar við sitja. Hefði það verið gert þá hefði oddviti H-Listans greitt atkvæði með aðgerðaráætlun meirihlutans. Bókun meirihlutans gegn H-Lista gerði oddvita það ókleift að greiða atkvæði með aðgerðunum einfaldlega vegna þess að þá hefði hann í leiðinni greitt atkvæði með óvæginni bókun meirihlutans gegn
H-Listanum. Mikilvægt er að það komi fram að  H-Listinn styður af heilum hug framkomnar tillögur meirihluta Fjallabyggðar varðandi „Aðgerðir til viðspyrnu vegna Covid-19“ og á þetta við um fyrstu þrjú erindin á fundinum enda greiddi H-Listinn ekki atkvæði gegn þeim tillögum. Oddviti H-Lista tók þá ákvörðun á fundinum að fara ekki í átök við fulltrúa meirihlutans í formi bókanna í fundargerð undir þessu viðkvæma máli.

H-Listinn harmar innilega að meirihluti D-Lista og I-Lista skuli rangtúlka vilja og aðgerðir H-Listans í svona viðkvæmu og alvarlegu máli sem Covid-19 er og hefur skapað alvarlegt ástand í landinu og varðar líf, heilsu og öryggi íbúa
Ennfremur harmar H-Listinn að meirihluti Fjallabyggðar skuli reyna að stofna til pólitískra átaka undir þessu máli.

Jón Valgeir Baldursson
Oddviti H-Lista Fjallabyggðar.

Dagskrá Alþýðuhússins frestast fram í maí

Í ljósi stöðunnar í þjóðfélaginu er búið að fresta sýningum, gjörningum og tónleikum sem vera áttu um Páskana í Alþýðuhúsinu á Siglufirði til 29. – 31. maí. Vonum að þá verði hægt að koma saman.

Listamennirnir sem koma fram eru Páll Haukur BjörnssonÁsdís Sif Gunnarsdottir, Davíð Þór Jónsson, Listhópurinn Kaktus, Kira kira Kristín Björk Kristjánsdóttir, Arnbjörg Kristín Konnráðsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir, Framfari og Þórir Hermann Óskarsson.

Leggja til endurbætur á jarðgöngum á Tröllaskaga

Stjórn Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE, hefur lagt fram erindi til ráðherra ríkisstjórnarinnar varðandi leiðir til viðspyrnu í þeim aðstæðum sem nú eru uppi vegna COVID-19. Þar leggur stjórn SSNE til að stórauknu fjármagni verði veitt inn í Sóknaráætlun Norðurlands eystra til að mæta þeim áskorunum sem við blasa og tilgreina stór og mikilvæg verkefni sem þegar hafa verið útfærð og auðvelt er að hrinda í framkvæmd. Meðal verkefna sem nefnd eru í erindinu eru endurbætur á jarðgöngum á Tröllaskaga, sem er orðið afar mikilvægt mál, þar sem tvö göng til Fjallabyggðar eru einbreið og anna illa umferð þegar miklir álagstoppar eru í kringum stórar hátíðir og slíkt. Uppbygging Akureyrarflugvallar er einnig stórt og nauðsynlegt verkefni fyrir alla ferðaþjónustu á Norðurlandi.

– Uppbygging Akureyrarflugvallar
– Hjúkrunarheimili á Húsavík
– Ný heilsugæsla á Akureyri
– Legudeild við sjúkarhúsið á Akureyri
– Átak í uppbyggingu innviða;
– Uppbygging dreifikerfis raforku
– 3ja fasa rafmagn
– Endurbætur á jarðgöngum á Tröllaskaga
– Vegur um Brekknaheiði;
– tengivegir og héraðsvegir
– Efri brú yfir Jökulsá á Fjöllum
– Ljósleiðaratengingar á svæðinu
– Draga verulega úr fjöldatakmörkunum að Háskólanum á Akureyri

Fyrirtæki í Dalvíkurbyggð geta sótt um gjaldfrest fasteignagjalda og hitaveitu

Fyrirtæki í Dalvíkurbyggð sem eru í skilum og hafa orðið fyrir umtalsverðu tekjutapi vegna COVID-19, geti sótt um gjaldfrest fasteignagjalda og hitaveitugjalda út júní 2020. Fyrirkomulag greiðslu frestaðra gjalda sé unnið í samvinnu sviðsstjóra og innheimtufulltrúa við hvert og eitt fyrirtæki.

Yfirlit um allar aðgerðir verði til kynningar og umsagnar í byggðaráði. Lögð er áhersla á Samband íslenskra sveitarfélaga og ríki komi upp þjónustugátt til að fyrirtæki geti sótt um frestun gjalda sinna á einum stað.

Starf þjónustu- og upplýsingafulltrúa Dalvíkurbyggðar verður tímabundið skilgreint með aukna áherslu á stuðning við atvinnulíf sem og markaðssetningu á sveitarfélaginu upp úr öldudalnum.

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar samþykkti þetta á fundi í dag.

Dalvíkurbyggð frestar kaupum á slökkvibíl og fjárfestir í atvinnuskapandi verkefnum

Í  framkvæmda- og fjárfestingaáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2020 eru alls rúmlega 350 miljónir króna. Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt eftirfarandi breytingar á framkvæmda- og fjárfestingaáætlun 2020:

Fjárfesting í nýjum slökkvibíl sem átti að kaupa árin 2020 og 2021 verði frestað og verði einungis á árinu 2021. Þetta er gert vegna óhagstæðs gengis og vegna þess að þetta fjármagn fer beint út úr byggðarlaginu. Með þessari aðgerð verður hægt að nýta þær 27 miljónir sem ætlaðar voru til kaupa slökkvibíls árið 2020 til atvinnuskapandi verkefna á árinu 2020. Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar telur öryggi brunavarna sveitarfélagsins ekki ógnað þó þessi fjárfesting frestist enda með öflugan búnað og slökkvilið til að mæta verkefnum nú sem fyrr.

Af þessum 27 miljónum verði 15 miljónir nýttar til að flýta framkvæmdum við lóð Dalvíkurskóla og ljúka þeim á árinu 2020.

Eftirstöðvarnar, alls 12 miljónir, fari í atvinnuskapandi verkefni og átaksverkefni svo sem:

  • Átak/hreinsun/grisjun í skógreitum og tiltekt eftir óveðrið í desember
  • viðgerð á girðingum eftir óveðrið í desember
  • fegrun opinna svæða í öllum þéttbýliskjörnum (t.d. þvottaplön o.fl.)
  • göngustíga og aðgengi að útivistarsvæðum
  • viðhaldsverkefni eignasjóðs
  • markaðssetningu á sveitarfélaginu upp úr öldudalnum.

Tillaga H-listans í Fjallabyggð um endurskoðun á framkvæmdaáætlun felld

H-listinn í Fjallabyggð lagði fram tillögu á síðasta bæjarráðsfundi um að forgangsraða framkvæmdafé í mörg smærri verkefni og fresta stærri verkefnum. Tillögunni var hafnað af meirihluta bæjarráðs Fjallabyggðar, en lesa má tillögu Jóns Valgeirs hér fyrir neðan.

H-listinn leggur til að farið verði í að endurskoða framkvæmdaáætlun Fjallabyggðar með það í huga að forgangsraða framkvæmdafé í mörg smærri verkefni í stað stærri verkefna s.s. gervigrasvallar en það verkefni krefst mikilla fjárútláta en er ekki endilega mannaflafrekt. Það er líklegt að atvinnuleysi mun aukast í sveitarfélaginu og erfitt getur reynst fyrir skólafólk að fá vinnu í sveitarfélaginu í sumar. Því er nauðsynlegt að Fjallabyggð bregðist nú þegar við og reyni að gera allt til að auka framkvæmdir þannig að hægt verði að sporna við auknu atvinnuleysi s.s. í viðhaldi eigna sveitarfélagsins, fara í framkvæmdir sem snúa að umhverfismálum og fleira. Að nógu er að taka.
H-listinn er tilbúinn til að vinna að tillögum með meirihlutanum í þessu stóra verkefni og nýta allar leiðir til að kalla eftir tillögum um verkefni, t.d. frá nefndum og frá bæjarbúum. Þessi vinna þarf að hefjast strax.

Meirihluti bæjarráðs hafnaði tillögu H-listans og vísaði í bókun við lið 3 í fundargerðinni.
Tillaga H-listans var því felld með tveimur atkvæðum Helgu Helgadóttur og Nönnu Árnadóttur gegn einu atkvæði Jóns Valgeirs Baldurssonar.

Tillaga meirihlutans, sem bókuð var í 3. lið var þessi:

Meirihluti bæjarráðs felur bæjarstjóra, forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs að móta tillögur að frekari aðgerðaáætlun sveitarfélagsins. Við mótun tillagna skal horft til fjárhags sveitarfélagsins, fjárhagsáætlunar, framkvæmdaáætlunar og hugmynda og ábendinga Sambands Íslenskra sveitarfélaga frá 20. mars sl. Tillögur að aðgerðum verði lagðar fyrir í bæjarráði eða bæjarstjórn eftir því sem fram vindur. – Var þessi tillaga samþykkt en minnihlutinn sat hjá.

Fjallabyggð kemur til móts við íbúa vegna kórónuveiru

Fjallabyggð hefur boðað breytingar á innheimtu gjalda vegna kórónuveirunnar. Samþykkt hefur verið að fresta gjalddögum fasteignagjalda fyrir þá sem sækja um það, og einnig lækkunar á gjöldum hjá þeim sem hafa leikskólabörn heima. Ekki verður innheimt fyrir þjónustu sem fellur niður.

 

Fasteignagjöld:

Á fundi bæjarráðs í morgun, 31. mars, var samþykkt heimild til frestunar eindaga fasteignagjalda lögaðila sem verða á gjalddaga 1. apríl, 1. maí, og 1. júní 2020 um allt að 6 mánuði vegna mögulegra áhrifa þeirrar farsóttar sem nú gengur yfir, enda verði óskað eftir því með tölvupósti á netfangið fjallabyggd@fjallabyggd.is.

Óskir um frestun eindaga skulu rökstuddar af umsækjanda og ákvörðun tekin á grundvelli þess rökstuðnings. Hafni starfsmenn umsókn er gjaldanda heimilt að skjóta ákvörðuninni til bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkti einnig breytingar á innheimtu gjalda vegna leikskóla, skólamáltíða, lengdrar viðveru í grunnskóla, vegna sund- og líkamsræktarkorta og þjónustugjalda félagsþjónustu:

Leikskólagjöld:

Ef foreldrar taka börn sín heim í samráði við leikskólastjóra vegna COVID-19 til að létta undir með skólanum er vistunargjald fyrir hvern heilan dag fellt niður svo og matargjald. Sama gildir ef leikskólinn lokar deild vegna manneklu eða af öðrum ástæðum. Semji foreldrar um skólavistun hluta úr degi til lengri tíma eru gjöld skert í hlutfalli við það. Hálftímagjald fellur niður þann tíma sem leikskólinn þarf að takmarka starfsemi við kl. 8:00 -16:00

Ef börn eru tekin heim á miðjum degi eða skólastarf stytt þann daginn fæst ekki endurgreiðsla.

Útgáfa reikninga:

Búið er að gefa út reikninga fyrir apríl sem verða bakfærðir og leiðréttir á næstu dögum vegna þjónustu sem ekki var nýtt í mars. Leiðrétting vegna apríl kemur fram í reikningagerð í maí.

Skólamáltíðir:

Skólaritari hefur sent upplýsingar fyrir apríl mánuð á gjaldkera, á aprílreikningi verða dagar sem nemendur eru heima vegna Covid-19 í mars felldir niður, þar af er öll unglingadeildin þar sem nemendur eru í fjarnámi. Foreldrar eru hvattir til að endurskoða skráningu fyrir apríl mánuð með t.d. skólasóknar barna sinna.

Útgáfa reikninga:

Við útgáfu maíreikninga verður frádráttur vegna daga í apríl sem nemendur eru heima vegna Covid-19. Skólaritari heldur utan um skráninguna.

Lengd viðvera:

Gjald fyrir Lengda viðveru fyrir þá daga í mars sem hún var lokuð kemur til frádráttar maíreikningi.
Útgáfa reikninga: Reikningar verði ekki sendir út fyrir apríl. Verði lengd viðvera starfrækt einhverja daga í apríl mun gjald vegna þeirra verða innheimt með maímánuði.

Sund og líkamsrækt:

Tímabilskort í sund og líkamsrækt framlengd um þann tíma sem lokun varir.

Þjónustugjöld félagsþjónustu:

Ekki verður innheimt fyrir þjónustu sem fellur niður, s.s. fæðisgjald í Iðju og dagdvöl aldraðra. Ekki verður innheimt fyrir þjónustu sem fellur niður á heimilum fólks með félagslega heimaþjónustu.

Reikningar hafa hingað til verið gefnir út eftir á þannig að ekki ætti að koma til sérstakra leiðréttinga.

Áframhaldandi aðgerðir til viðspyrnu vegna Covid-19 var samþykkt að:

Á fundi sínum samþykkti bæjarráð Fjallabyggðar einnig að fela bæjarstjóra, forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs að móta tillögur að frekari aðgerðaáætlun sveitarfélagsins. Við mótun tillagna skal horft til fjárhags sveitarfélagsins, fjárhagsáætlunar, framkvæmdaáætlunar og hugmynda og ábendinga Sambands Íslenskra sveitarfélaga frá 20. mars sl. Tillögur að aðgerðum verði lagðar fyrir í bæjarráð eða bæjarstjórn eftir því sem fram vindur.

57 án atvinnu í Fjallabyggð

Alls voru 57 án atvinnu í lok febrúar 2020 í Fjallabyggð. Þar af voru 29 karlar og 28 konur. Atvinnuleysi mælist nú 5,2% í Fjallabyggð og hefur ekki mælst svona hátt síðan í mars 2017, þegar atvinnuleysi var 6,6%.

Þá voru 27 manns atvinnulausir í Dalvíkurbyggð í lok febrúar 2020, þar af voru 17 karlar og 10 konur án atvinnu. Atvinnuleysi mælist nú 2,5% í Dalvíkurbyggð.

Bæjar- og menningarvefur