Fjögurra gangnamótið í gegnum Fjallabyggð

Hjólreiðahelgi Greifans fer fram um helgina og verða nokkur hjólreiðamót í gangi. Á föstudag verður keppt í Fjögurra gangnamótinu sem hefst norðan við Strákagöng á Siglufirði. Fyrsta ræsing verður kl. 17:00 og verður ræst út í nokkrum flokkum eftir það. Vegalengdin er um 85 km, en hjólað er frá Siglufirði til Akureyrar, í gegnum Strákagöng, Héðinsfjarðargöng sem eru tvö og Múlagöng. Umferðarstýring verður í Ólafsfjarðargöngunum fyrir fyrstu hópa allra flokka í bikarmóti til að auka öryggi keppenda.
Ekki er hægt að loka göngunum fyrir alla keppendur 4 gangna mótsins en umferð verður stýrt til að hafa sem minnst áhrif á framvindu keppni. Upplýsingar keppenda má finna á vef Hjólreiðafélags Akureyrar.

Helstu staðreyndir:
• Vegalengd 85km.
• Hækkun um 780m.
• 4 göng með misgóðri lýsingu.
• Bleyta og drulla getur verið á yfirborði vega í göngum mælt er með notkun skerma “Ass
saver”
• Möl getur leynst á brúnum vega inn í göngum.
• Það geta verið harðar brúnir og skemmdir í yfirborði vega í göngum.
• Milli vegar og veggja í göngunum er malargrús notuð sem getur verið laus og beitt, forðist því
að lenda út fyrir veg.
• Kalt getur verið í göngunum og mismunur á lofthita inni og úti verulegur og móða myndast á
gleraugum.

 

Hópar sem verða ræstir út:

 • 17:00 Ræs UCI Elite karlar
 • 17:02 Ræs UCI Elite konur
 • 17:04 Ræs UCI Junior drengir
 • 17:06 Ræs UCI Junior stúlkur
 • 17:10 Ræs almenninghluti karla og kvenna

Önnur dagskrá um helgina:

 

 • 28. júlí – Föstudagur – 4-ra gangna mótið 
 • 29. júlí – Laugardagur – Sumarfagnaður Enduro Iceland og HFA
 • 30. júlí – Sunnudagur – Barna Criterium (5-7 og 8-14 ára)
 • 30. júlí – Sunnudagur – Barna Townhill (8-14 ára, við Samkomuhúsið á Akureyri)    
 • 30. júlí – Sunnudagur – Sparkhjólamót (við Samkomuhúsið á Akureyri)

Handverkssýning úr birki í Hrafnagilsskóla

Sunnudaginn 30. júlí kl. 12:00 opnar sænska farandsýningin UR BJÖRK, eða úr birki, í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. Að sýningunni standa 22 handverksmenn- og konur sem skiptu á milli sín heilu birkitré og fengu það hlutverk að nýta allt efnið með frjálsum huga og höndum. Það tók hópinn 6 mánuði að vinna alla þessa 400 muni og það skal tekið fram að allt var nýtt af þessu tiltekna tré sem var 30 cm í þvermál og 25 m hátt. Sænski heimilisiðnaðarráðunauturinn Knut Östgård er einn af aðstandendum sýningarinnar en Knut er sérstakur gestur á Handverkshátíðinni í ár.
Sýningin er fengin hingað í tengslum við Handverkshátíðina og verður opin frá 30. júlí til 13. ágúst kl. 12-18. Miðaverð er 500 kr. fyrir fullorðna eða armband sem gildir á Handverkshátíðina, 1.000 kr.  UR BJÖRK er virkilega falleg og stórbrotin sýning sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Ljómarall í Skagafirði

Laugardaginn 29. júlí 2017 fer fram Ljómarall í Skagafirði.  Keppnin er sú þriðja í röðinni í Íslandsmeistaramótinu í rallakstri í ár og fer fram í samræmi við reglur Akstursíþróttasambands Íslands, veitt eru viðeigandi leyfi og tryggingar svo sem þar greinir.

Keppnin fer fram með hefðbundnu sniði og verða eftirfarandi vegir lokaðir laugardaginn 29. júlí 2017, svo sem hér segir:

 • Kl. 08:10 – 13:00. Vegur nr. 35 um Mælifellsdal / Mælifellsdalsvegur F756 um 4,5 km frá Efribyggðarvegi nr. 751 að Bugavatni. Við þetta lokast einnig aðkoma af vegslóða um Gilhagadal inn á fyrrnefndan veg.
 • Kl. 13:00 – 15:00. Vegur nr. 752 / F752 Skagafjarðarleið frá afleggjara á móts við Litlu-Hlíð / Hof og Hofsvelli að Þorljótsstöðum. Þessi vegur er í raun norðasti hluti af Sprengisandsleið, Skagafjarðarmegin.
 • Kl. 15:45 – 17:00. Vegur um Nafir innanbæjar á Sauðárkróki, ofan (vestan) elsta bæjarhlutans.Leiðin verður afmörkuð með merkingum.

Vegfarendum er skylt að virða lokanir og fyrirmæli starfsmanna keppninnar.

Þeir sem vilja horfa á eða fá nánari upplýsingar um keppnina er bent á facebook síðu Bílaklúbbs Skagafjarðar.

Þangað má einnig komast með því að slá inn vefslóðina: www.bks.is

Keppnisstjóri er Arnar Freyr Árnason og síminn hjá honum er 775 0410.

Fjölskylduhátíðin Trilludagar í Fjallabyggð

Fjölskylduhátíðin Trilludagar verða haldnir í annað sinn á Siglufirði dagana 29.-30. júlí næstkomandi.

Trilludagar eru frábær fjölskylduhátíð, þar sem gestum á öllum aldri, verður meðal annars boðið uppá sjóstöng og skemmtisiglingar út á fjörðinn fagra. Boðið er uppá grill á hafnarbakkanum, síldarsöltun, sjávarréttarhlaðborð, Söngvaborg, Leikhópurinn Lotta, hestasport og fleira.

Dagskrá:

*stjörnumerking þýðir að krafist er aðgangseyris.

Föstudagur 28. júlí

Kl. 16:00 Ljóðasetur Íslands –  Lifandi viðburður

Kl. 19:00 Tapas og trillustemning á Kaffi Klöru í Ólafsfirði

Kl. 22:00 – 01:00 Kaffi Rauðka – Emmsjé Gauti Tónleikar

Laugardagur 29. júlí

Kl. 10:00 – 10:15 Setning Trilludaga – Sverrir Sveinsson fyrrum formaður Smábátafélagsins Skalla setur hátíðina

Kl. 10:15 – 16:00 Frítt á sjóstöng og í útsýnissiglingar út á fjörðinn fagra – Nesti um borð í boði Kjörbúðarinnar og Aðalbakarí á Siglufirði

Kl. 10:00 – 17:00 Landnámshænur – Sýning í Bláa húsinu við Rauðku – Ingi Vignir Gunnlaugsson sýnir hænur úr einkaræktun

Kl. 11:00 – 16:00 Grill, fjör og harmonikkutónlist á hafnarsvæðinu allan daginn

*Kl. 12:00 -13:00 Síldar- og sjávarréttarhlaðborð á Hannes Boy

Kl. 13:30 – 14:00 Söngvaborg skemmtir yngri kynslóðinni á Rauðkusviði

Kl. 14:30 – 15:00 Síldargengið tekur rúnt um miðbæinn

Kl. 15:00 – 16:00 Síldarsöltun við Síldarminjasafnið. Söltuð síld við Róaldsbrakka. Harmonikkuleikur og bryggjuball að sýningu lokinni

Kl. 16.00 – 18:00  Fjölskyldugrill á hafnarsvæðinu í boði Kjörbúðarinnar á Siglufirði – Harmonikkubandið og Stúlli sjá um að skemmta

Kl. 18:00 – 18:30 Leikhópurinn Lotta á Rauðkusviði

Kl. 20:00 –  21:00 Trillutónleikar á Rauðkusviði í höndum Stúlla, Danna og Tóta

Kl. 23:00 – 01:00  Kaffi Rauðka – Trilludansleikur

Sunnudagur 30. júlí

Kl. 11:00 – 12:00  Messa í Skarðdalsskógi, (skógræktinni) undir berum himni. Séra Sigurður Ægisson messar.

Kl. 11:00 – 16:00  Landnámshænur – Sýning í Bláa húsinu við Rauðku – Ingi Vignir Gunnlaugsson sýnir hænur úr einkaræktun

*Kl. 11:00 – 12:00 Leikhópurinn Lotta. Leiksýning á Blöndalslóð

Kl. 14:00 – 15:30 Hestasport fyrir krakka við Mjölhúsið.  Fjölskyldan á Sauðanesi kemur með hestana sína í bæinn og leyfir krökkum að fara á bak

Kl. 14:00 – 16:00 Trillutónleikar á Rauðkusviði í höndum Stúlla, Danna og Tóta

*Viðburðir sem krefjast aðgöngueyris

 

Úrslit í Opna Kristbjargarmótinu

Opna Kristbjargarmótið í golfi fór fram sunnudaginn 23. júlí síðastliðinn á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði. Alls voru 29 keppendur skráðir til leiks og fór mótið fram í mikilli veðurblíðu.

Úrslit urðu eftirfarandi:

Karlaflokkur
1.sæti Jóhann J. Jóhannsson GFB 37 punktar
2.sæti Einar Ingi Óskarsson GFB 35 punktar
3.sæti Konráð Þór Sigurðsson GFB 33 punktar

Kvennaflokkur
1.sæti Jóna Kristín Kristjánsdóttir GFB 38 punktar
2.sæti Indíana Auður Ólafsdóttir GHD 36 punktar
3.sæti Dagný Finnsdóttir GFB 36 punktar

Dalvíkurbyggð býður upp á frí ritföng í grunnskóla

Byggðaráð Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt að sveitarfélagið bjóði upp á frí ritföng í Dalvíkurskóla og Árskógarskóla fyrir  skólaárið 2017-2018. Engin umræða hafði farið fram um þessi mál hjá Dalvíkurbyggð, en skólastjóri Dalvíkurskóla sendi erindi til Byggðarráðs Dalvíkurbyggðar og óskaði eftir að málið yrði tekið til skoðunar.  Áætlaður kostnaður er rúmlega ein milljón króna sé miðað við 4500 kr. á hvern nemenda, en þeir eru um 240 alls í Dalvíkurbyggð. Frí ritföng verða til reynslu í eitt skólaár þar til annað verður ákveðið hjá Dalvíkurbyggð.

Malarvöllurinn verður íbúðabyggð á nýju skipulagi

Á nýju deiliskipulagi á Siglufirði verður gamla malarvellinum breytt í íbúabyggð. Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur ákveðið að unnið verði deiliskipulag á malarvellinum Siglufirði. Svæðið verður skipulagt sem íbúðarsvæði með fjölbreyttum stærðum íbúða með sérinngangi í litlum fjölbýlishúsum. Samhliða deiliskipulagsvinnunni verður gerð breyting á Aðalskipulagi Fjallabyggðar 2008-2028.

Svæðið var upphaflega beitarland fyrir búfénað en árið 1944 var það afhent Knattspyrnufélagi Siglufjarðar og hefur lengst af verið notað til æfinga og keppnisleikja. Eftir að Knattspyrnufélagið flutti aðstöðu sína hefur svæðið verið lítið notað. Tvö hús standa á skipulagssvæðinu, við Eyrargötu 28 og 30.

Á svæðið var sáð grasfræjum fyrir nokkrum árum til að binda lausa mölina og rykið sem fauk úr í vindasömu veðri. Svæðið er því að mestu leyti grasi gróið á sumrin en notað sem snjógeymsla á veturna.

Uppgangur hefur verið í sveitarfélaginu undanfarin ár og hefur eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði aukist með tilkomu Héðinfjarðarganga og uppbyggingu í atvinnugreinum bæjarins. Á Siglufirði eru einbýlishús algengasta byggingarformið og vöntun er á fjölbreyttari húsagerð í bænum með góðu aðgengi.

Áherslur á svæðinu:

 • Stefnt er að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á svæðinu.
 • Stærðir íbúða skulu vera litlar og meðalstórar.
 • Góð tenging við núverandi byggð.
 • Gera skal ráð fyrir opnu svæði fyrir almenning á skipulagssvæðinu.

 

Fréttatilkynning Fjallabyggðar eftir undirritun við Arnarlax

Bæjarfélagið Fjallabyggð og Arnarlax hf. hafa undirritað  viljayfirlýsingu um samstarf og samvinnu um sjókvíaeldi í Eyjafirði/Ólafsfirði.

Arnarlax hf. og Fjallabyggð lýsa yfir vilja til að hefja samstarf um undirbúning og könnun á forsendum þess að setja upp starfstöð fyrirtækisins í Ólafsfirði, þ.e. bæði hafnaraðstöðu og eins aðstöðu í landi undir starfsemi Arnarlax hf. í Eyjafirði.

 • Hafnaraðstaða fyrir vinnubáta félagsins
 • Aðstaða fyrir biðkvíar og brunnbát
 • Húsnæði fyrir fóður og ýmsan eldisbúnað
 • Sláturhús og vinnsla

Arnarlax hf. hefur kynnt framkvæmdir í utanverðum Eyjafirði fyrir 10.000 tonna framleiðslu á laxi á ári.  Í lok ársins 2014 kynnti Fjarðalax áform um framkvæmdir innarlega í firðinum. Með kaupum Arnarlax hf. á Fjarðalaxi 2016 lýsir Arnarlax hf. yfir vilja til að endurskoða fyrri áform fyrirtækjanna í þeim tilgangi að skapa sátt til framtíðar um uppbyggingu á sjálfbæru laxeldi í Eyjafirði. Sátt með það að markmiði að stuðla að jafnvægi  milli umhverfislegra, efnahagslegra og samfélagslegra aðstæðna á svæðinu. Með það að leiðarljósi skoðar nú Arnarlax hf. umhverfisaðstæður við Ólafsfjörð í Eyjafirði í samstarfi við Fjallabyggð. Sérstaklega verða skoðaðar hugmyndir um að færa eldisstaði norðar í Eyjafirði þar sem útlit er fyrir mjög jákvæðar umhverfislegar aðstæður til framtíðar uppbyggingar og þróunar laxeldis á svæðinu.

Ef nauðsynleg leyfi fást til að hefja laxeldi í utanverðum Eyjafirði mun það hafa jákvæð samfélasleg áhrif og bæta lífsgæði íbúa svæðisins með beinum og óbeinum hætti. Verði að fyrirhuguðum áformum er ljóst að það mun skapa tugi starfa í Ólafsfirði og nágrenni. Hjá Arnarlaxi hf. starfa um 130 manns í seiðaeldisstöðvum, sjóeldi, vinnslu, sölu, markaðsmálum og yfirstjórn, auk tugi annarra starfa sem tengjast þjónustu við Arnarlax hf. með beinum eða óbeinum hætti. Störf í fiskeldi henta bæði konum og körlum með fjölbreytta menntun.

Undir viljayfirlýsinguna skrifuðu þeir Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar og Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax hf.

Hestamótið Fákaflug haldið á Hólum

Hestamótið Fákaflug verður haldið á Hólum í Hjaltadal helgina 28.-30. júlí. Hestamannafélagið Skagfirðingur heldur mótið í samstarfi við Hestamannafélögin Létti, Hring, Funa, Snarfara, Þyt og Neista.

Riðin verður sérstök forkeppni í A-flokki, B-flokki, barnaflokki, unglingaflokki og ungmennaflokki. Auk þess verður keppt í pollaflokki.

Fornleifarannsóknir í Skagafirði – opið hús

Starfsmenn og nemar Skagfirsku kirkju- og byggðasögurannsóknarinnar bjóða öllum sem áhuga hafa að koma og kynna sér fornleifarannsóknirnar sem við höfum staðið að síðastliðin þrjú ár í Hegranesi. Opið hús verður laugardaginn 29. júlí frá kl. 12:00-16:30 í verknámshúsi Fjölbrautarskólans Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

• Hver erum við
• Hvað erum við að gera
• Hvaða aðferðir og tæki eru notuð
• Hvað höfum við fundið
• Spurningar og svör
• Léttar kaffiveitingar
• Og margt fleira!

Kl. 14:00 verður leiðsögn á Hegranesþingstað í landi Garðs í Hegranesi. Minjar á svæðinu verða skoðaðar og nýjustu rannsóknarniðurstöður kynntar

Norðurlandsmótaröðin í golfi í Ólafsfirði

Sérstök mótaröð í golfi er starfrækt á Norðurlandi fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-21 ára og er kjörin vettvangur til að stíga sín fyrstu skref í keppnisgolfi.  Golfklúbbarnir á Norðurlandi koma að mótinu, en það eru Golfklúbbur Akureyrar, Golfklúbburinn Hamar, Golfklúbbur Húsavíkur, Golfklúbbur Fjallabyggðar, Golfklúbbur Sauðárkróks og Golfklúbbur Siglufjarðar. Haldin hafa verið tvö mót í sumar, en alls eru fjögur mót haldin. Fyrsta mótið var á Sauðárkróki og næsta var haldið á Dalvík. Núna er komið að mótinu sem haldið verður í Ólafsfirði á vegum Golfklúbbs Fjallabyggðar, en það verður þriðjudaginn 25. júlí á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði. Síðasta mótið verður svo haldið á Akureyri í lok ágúst.

Tíðindamaður Héðinsfjarðar heimsótti Golfklúbb Fjallabyggðar í vikunni og tók nokkrar myndir af vellinum, en stórkostlegt útsýni er á þessu fallega svæði í Ólafsfirði. Börn og unglingar voru við æfingu á svæði.

Aldursflokkar verða eftirfarandi bæði hjá stelpum og strákum

 • Byrjendaflokkur   9 holur með höggleiksafbrigði, án forgjafar                  Sér teigar              2000 kr
 • 12 ára og yngri     9 holur með höggleiksafbrigði, án forgjafar                  Rauðir teigar        2000 kr
 • 14 ára og yngri     18 holur höggleikur án forgjafar                                     Rauðir teigar        2500 kr
 • 15-17 ára              18 holur höggleikur án forgjafar                                     Gulir / Rauðir       2500 kr
 • 18-21 ára              18 holur höggleikur án forgjafar                Hvítir/Gulir – Bláir/Rauðir        2500 kr

 

Norðurlandsmótaröðin í golfi í Ólafsfirði

Sérstök mótaröð í golfi er starfrækt á Norðurlandi fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-21 ára og er kjörin vettvangur til að stíga sín fyrstu skref í keppnisgolfi.  Golfklúbbarnir á Norðurlandi koma að mótinu, en það eru Golfklúbbur Akureyrar, Golfklúbburinn Hamar, Golfklúbbur Húsavíkur, Golfklúbbur Fjallabyggðar, Golfklúbbur Sauðárkróks og Golfklúbbur Siglufjarðar. Haldin hafa verið tvö mót í sumar, en alls eru fjögur mót haldin. Fyrsta mótið var á Sauðárkróki og næsta var haldið á Dalvík. Núna er komið að mótinu sem haldið verður í Ólafsfirði á vegum Golfklúbbs Fjallabyggðar, en það verður þriðjudaginn 25. júlí á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði. Síðasta mótið verður svo haldið á Akureyri í lok ágúst.

Tíðindamaður Héðinsfjarðar heimsótti Golfklúbb Fjallabyggðar í vikunni og tók nokkrar myndir af vellinum, en stórkostlegt útsýni er á þessu fallega svæði í Ólafsfirði. Börn og unglingar voru við æfingu á svæði.

Aldursflokkar verða eftirfarandi bæði hjá stelpum og strákum

 • Byrjendaflokkur   9 holur með höggleiksafbrigði, án forgjafar                  Sér teigar              2000 kr
 • 12 ára og yngri     9 holur með höggleiksafbrigði, án forgjafar                  Rauðir teigar        2000 kr
 • 14 ára og yngri     18 holur höggleikur án forgjafar                                     Rauðir teigar        2500 kr
 • 15-17 ára              18 holur höggleikur án forgjafar                                     Gulir / Rauðir       2500 kr
 • 18-21 ára              18 holur höggleikur án forgjafar                Hvítir/Gulir – Bláir/Rauðir        2500 kr

 

Viðbygging Menntaskólans á Tröllaskaga langt komin

Búið er að reisa myndarlega viðbyggingu við Menntaskólann á Tröllaskaga sem 231 m2 á stærð og verður notuð sem matar-,félags-, og fundaraðstaða fyrir nemendur menntaskólans.  Allt frá því skólinn hóf störf haustið 2010 hefur Fjallabyggð einbeitt sér að því að koma skólahúsnæðinu í viðunandi horf. Skóflustunga var tekin af mennta- og menningarmálaráðherra í september 2016 fyrir þessari viðbyggingu en áætlað er að verkið verði klárað ágústmánuði 2017.

Kjarnaskógur á Akureyri

Upphaf skóg- og trjáræktar í Kjarnaskógi á Akureyri má rekja til ársins 1946, þegar Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk þar land undir gróðrarstöð sína. Kjarnaskógur er í dag frábært útivistarsvæði sem er stöðugt í endurbótum. Nýlega var sett þar nýtt leiktæki sem er nokkurskonar klifurgrind sem höfðar til barna eldri en 6 ára. Nýr strandblakvöllur eru í uppbyggingu, en fyrir eru tveir vellir sem eru hlið við hlið, og eru þeir mjög vel nýttir. Á svæðinu þar fyrir neðan er nýtt svæði þar sem trérunnar mynda skemmtilegt völundarhús sem hentar fyrir öll börn. Á svæðinu þar fyrir neðan eru svo borðtennisborð og salernisaðstaða. Önnur leiksvæði er einng að finna og eru yfirleitt skammt frá bílastæðum við veginn.  Einnig eru trimmtæki, upplýst trimmbraut með skíðaspori yfir veturinn. Eldri borgarar nýta sér svæðið einnig til heilsubótargöngu.

Unnið er að merkingum leiða og svæða í skóginum, en ekki eru öll svæði merkt.  Við skóginn starfa um 5 manns allt árið, en misjafnt er  hversu margir sumarstarfsmenn fást í vinnu.  Skógræktarfélag Eyfirðinga selur ýmsar tráafurðir eins og arinvið, girðingastaura, kurl, bolvið, borðvið, jólatré og margt fleira. Þeir taka einnig að sér grisun, gróðursetningu og plastleggja skjólbelti fyrir plöntun.

Akstur úr Fjallabyggð er aðeins rúmur klukkutími á þetta frábæra fjölskyldusvæði, og er þetta tilvalin dagsferð.

 

Fjölmenni á Siglufirði

Það er þétt tjaldað á Siglufirði um helgina, en talið er að þrjú ættarmót hafi verið haldin á Siglufirði, þar af eitt með um 100 manns. Tjaldsvæðið á Siglufirði var því vel nýtt og mikið líf í miðbænum. Fjölmenni var einnig í Skógræktinni í Skarðsdal en þar voru gestir ættarmóts í ratleik. Á Rauðkutorgi var einnig mikið líf, en Rauðka bauð upp á nýjan leikjakastala á grasblettinum við minigolfið. Stóra taflið er farið í bili, en samkvæmt upplýsingum frá Rauðku stendur til að finna nýtt tafl fyrir svæðið sem var vinsælt og mikið notað.

Einnig heyrðist af ættarmóti í Ólafsfirði, og þar er einnig nokkur fjöldi á tjaldsvæðinu.

 

KF með stórsigur á heimavelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Vængir Júpíters áttust við á Ólafsfjarðarvelli í dag, en leiknum var rétt að ljúka. Frábærar aðstæður voru í Ólafsfirði og hitinn tæpar 16 gráður. Fyrir leikinn hafði KF fengið lánsmann frá Þór, en það er Jakob Snær Árnason og var hann kominn með leikheimild og var settur beint í byrjunarliðið. Jakob er tvítugur og lék með KF upp yngri flokkana en skipti yfir í Þór þegar hann var í 3. flokki.

Það vakti athygli að Ljubomir Delic, markahæsti maður KF byrjaði á bekknum. KF byrjaði leikinn betur og skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik, og var það lánsmaðurinn Jakob Snær í sínum fyrsta leik fyrir meistaraflokk KF. Heimamenn leiddu 2-0 í hálfleik, en mörkin komu á 27. og 32. mínútu.

KF héldu áfram að vera sterkara liðið og skoraði varamaðurinn Jón Árni Sigurðsson þriðja mark liðsins á 61. mínútu, og hans fyrsta mark í 24 leikjum fyrir KF, en hann kom inná á 27. mínútu leiksins fyrir Milan Marinkovic. Aðeins 8 mínútum síðar skoraði Vitor Vieira Thomas og kom KF í 4-0, en þetta var þriðja mark hans fyrir KF í sumar.  Á 75. mínútu skoraði svo Jakob Snær Árnason sitt þriðja mark í leiknum og innsiglaði 5-0 sigur KF.

KF er nú í 2. sæti í 3. deildinni með með 21 stig, en Kári er með 24 stig í 1. sæti.

Nýr golfvöllur á Siglufirði opnar 2018

Nýr golfvöllur á Siglufirði hefur verið í byggingu síðan árið 2012 og fyrst stóð til að opna hann árið 2015 og svo aftur 2016 eftir tafir vegna óhagstæðra veðurskilyrða, en nýjasta áætlunin er að opna hann árið 2018. Golfklúbbur Siglufjarðar hafði unnið að hugmynd af nýjum velli frá 2009 og mun flytja starfsemi sína á nýjan völl þegar hann opnar og mun eldri völlurinn hætta starfsemi. Fjallabyggð og Rauðka hófu viðræður um uppbyggingu svæðisins í Hólsdal og úr varð að stofna sjálfseignarfélagið Leyningsáss ses.  Aðalstarfsemi félagsins yrði uppbygging á Skíðasvæðinu í Skarðsdal og uppbygging nýs golfvallar. Nýi golfvöllurinn er hannaður af Edwin Roald.

Farið var í þessa framkvæmd til að auka fjölbreytni í þjónustu við íbúa og alla þá fjölmörgu ferðamenn sem til Fjallabyggðar koma.  Hugmyndin af hönnun vallarins var einnig að byggja upp útivistarsvæði sem þjónustað getur fleiri en golfáhugamenn svæðisins. Reið- og gönguleiðir eru skipulagðar á svæðinu ásamt tengingu við Skógræktina í Skarðsdal.

Pálshús í Ólafsfirði

Pálshús opnaði í byrjun júní í Ólafsfirði, en það er í senn safn og menningar- og fræðslusetur. Húsið er við Strandgötu 4 og hefur nýlega verið uppgerð neðri hæð hússins.  Nátturugripasafn Ólafsfjarðar er með sýningu í húsinu og einnig myndlistarmaðurinn Kristinn G. Jóhannsson. Tíðindamaður Héðinsfjarðar leit inn í vikunni og fékk að taka nokkrar myndir, en almenn myndataka er ekki leyfð í húsinu.

Gamalt búðarborð í anddyri hússins hefur fengið að handa sér, en það á sér langa sögu í húsinu. Aðgangi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða er til fyrirmyndar, stólalyfta er inní húsinu til að komast á neðri pall hússins.

Við innganginn eru handsmíðuð líkan af skipum og ísbjörn ásamt fuglasýningu og myndarlistarsýningu. Í baksal hússins á neðra palli er svo Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar með glæsilega sýningu. Ýmsir tónlistarviðburðir hafa einnig verið haldnir í húsinu. Hóflegt aðgöngugjald er að þessum sýningum. Börnin hafa sérstaklega gaman af fuglasýningunni og hefur hún mikið fræðslugildi.  Heimamönnu hefur tekist ótrúlega vel til að koma húsinu í sýningarhæft ástand og hafa margir komið að þessari framkvæmd.

Toppslagur á Ólafsfjarðarvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Vængir Júpíters mætast á Ólafsfjarðarvelli kl. 14:00, laugardaginn 22. júlí í toppbaráttuslag í 3. deild karla. KF er nú í 3. sæti tveimur stigum á eftir Vængjum Júpíters og getur því náð 2. sæti með sigri.  KF hefur unnið síðustu tvo leiki og skorað í þeim 8 mörk, en þetta verður án efa erfiður og mikilvægur leikur. Fólk er hvatt til að mæta á völlinn og styðja strákana sem setja stefnuna beint upp í 2. deild.

Vængir Júpíters hafa ekki unnið í síðustu þremur leikjum, tapað einum og gert tvö jafntefli. Lið hefur þó aðeins tapað tveimur leikjum í fyrstu 10 umferðum mótsins. Fyrri leikurinn fór 5-3 fyrir Vængi Júpíters, en strákarnir í KF eru staðráðnir í að vinna þennan leik.

Völlurinn er ný sleginn og lítur vel út fyrir þennan toppleik.

Fáir sólardagar Norðanlands í júní

Á Akureyri mældust 111 sólskinsstundir, 66 færri en að meðaltali 1961 til 1990 og hafa ekki mælst eins fáar í júní síðan 1972, þá voru þær jafn fáar og nú, en enn færri 1968.

Á Akureyri var meðalhitinn 8,9 stig, -0,2 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 og -1.2 undir meðallagi síðustu 10 ára.

Meðalhitinn á Siglufirði var 7.25 gráður  og mestur hiti 17.9 gráður. Meðalhitinn í Héðinsfirði var 7.21 gráður og mestur hiti 16.4 gráður í júní mánuði.

Meðalhitinn í Ólafsfirði í Tindaöxl var aðeins 4.92 gráður í júnímánuði og mestur hiti mældist 13.7 gráður.

Fremur svalt var í veðri í júní um mest allt land. Langflestar stöðvar voru með neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár.

Upplausn í Fjallabyggð vegna skólamála

Íbúar í Fjallabyggð afhentu í dag bæjarstjórn Fjallabyggðar undirskriftarlista þar sem formlega er mótmælt breytingum á fræðslustefnu sveitarfélagsins. Breytt fræðslustefna í Fjallabyggð hefur verið samþykkt af bæjarstjórn í óþökk mikils meirihluta bæjarbúa. Meðal annars felst breytingin í því að til stendur að keyra yngstu börnin frá Ólafsfirði til Siglufjarðar, og þá færi kennsla í 1.-5. bekk fram á Siglufirði, en kennsla í 6.-10. bekk færi fram á Ólafsfirði. Með þessu er miðstig grunnskólans slitið í sundur. íbúum finnst bæjarstjórn ekki hafa tekið tillit til fjölmargra athugasemda sem hafa verið gerðar og skólaakstur í grunnskóla eykst úr þremur árum í fimm ár sem mörgum finnst veruleg skerðing á búsetuskilyrðum.

Tilefni undirskriftarsöfnunarinnar er mikil óánægja á meðal íbúa Fjallabyggðar með ákvörðun bæjarstjórnar um fyrrgreindar breytingar. Undirskriftarsöfnunin er  ákall og áskorun til bæjarstjórnar um að endurskoða þessar breytingar og setja þær á bið uns farið hefur fram lýðræðisleg kosning með almennri atkvæðagreiðslu bæjarbúa.

Þjóðskrá Íslands hefur móttekið og yfirfarið undirskriftir þeirra einstaklinga sem safnað var á grundvelli heimildar 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 til þess að óska almennrar atkvæðagreiðslu í Fjallabyggð skv. 107. gr. sömu laga. Söfnun undirskrifta gekk mjög vel og er greinilegt að íbúar í Fjallabyggð eru ekki hlynntir þessum breytingum. Þjóðskrá Íslands staðfestir að 612 undirskriftir uppfylltu ákvæði reglugerðarinnar, sem eru tæplega 40 prósent íbúa  af kjörskrárstofni.

Aðsend grein frá Sigríði Vigfúsdóttur íbúa í Fjallabyggð.

Torgið á Siglufirði komnir með heimasíðu

Tíðindamaður Héðinsfjarðar.is fór með fjölskylduna út að borða á Siglufirði í gær.  Ákveðið var að fara á veitingastaðinn Torgið við Aðalgötuna á Siglufirði, en þangað hafði fjölskyldan farið fyrir nákvæmlega ári síðan og fengið frábæra pizzu og þjónustu. Veitingastaðurinn Torgið á sér nokkra sögu á Siglufirði, en hann er mjög vel staðsettur, býður upp á fjölbreyttan matseðil, en óhætt er er að mæla með pizzunum hjá þeim. Staðurinn er fjölskylduvænn, og mjög gott er að koma með börn, en boðið er upp á sérstaka barnastóla fyrir yngstu börnin og sérstakan barnamatseðil. Frændurnir Danni og Danni hafa rekið staðinn síðan í mars 2016 og hefur tekist vel til hjá þeim. Nýverið hafa þeir fjárfest í heimasíðu, og keypt lénið www.torgid.net í maí, en núna er nýr matseðill sýnilegur á heimasíðunni.

Á virkum dögum bjóða þeir upp á hlaðborð í hádeginu en á kvöldin er það matseðillinn sem gildir.  Mæli með þessum stað fyrir ferðamenn og aðra sem sækjast í góðan mat og þjónustu.

Kvöldstund í Þjóðlagasetrinu á Siglufirði

Föstudagskvöldið 21. júlí kl. 20:30 í Þjóðlagasetrinu á Siglufirði mun flautuleikarinn og gjörningalistakonan Berglind María Tómasdóttir flytja verk eftir Karólínu Eiríksdóttur og fleiri á hið nýstárlega hljóðfæri lokk. Lokkur sem var sérstaklega smíðaður fyrir Berglindi Maríu er samsuða langspils og rokks og hefur hún vakið mikla eftirtekt fyrir leik sinn á þetta óvenjulega hljóðfæri. Einnig mun Eyjólfur Eyjólfsson leika á langspil og félagar úr Kvæðamannafélaginu Rímu kveða rímur og syngja tvísöngva.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir!

Gallerí Ugla í Ólafsfirði

Gallerí Ugla er verslun í Ólafsfirði sem selur handverk úr Fjallabyggð. Að búðinni standa fimm aðilar sem skiptast á að taka vaktir í búðinni. Verslunin opnaði fyrir rúmum þremur árum og stendur við Aðalgötu 9 í Ólafsfirði.  Allt handverk í versluninni er úr Fjallabyggð, en verslunin er með nokkurskonar umboðssölu og selur fyrir handverksfólk gegn þóknun.

Í búðinni eru gjafavörur, skartgripir, fatnaður, málverk, baðvörur og margt fleira. Þarna má finna mjög flottar handprjónaðar peysur, fyrir fullorðna og börn og útskorin handverk úr viði. Mæli klárlega með því að íbúar og ferðamenn í Fjallabyggð líti þarna við, en verslunin er opin eftir hádegið á virkum dögum.

 

Norðurþing styrkir Vináttu í verki

Norðurþing hefur samþykkt að styrkja landssöfnunina Vinnátta í verki um 150.000 kr. Um 40 milljónir hafa safnast í þessari landssöfnun.
Aðfararnótt sunnudagsins 18. júní skall flóðalda á grænlenska þorpinu Nuugattsiaq, sem er á samnefndri eyju í Uummanaq-firði, 600 kílómetrum fyrir norðan heimskautsbaug. Íbúar voru innan við 100 og lifðu á veiðum. Fjórir fórust og ellefu hús gjöreyðilögðust, m.a. rafveitan, verslunin og grunnskólinn. Hættuástandi var lýst yfir í Uummannaq-firði og tvö þorp til viðbótar rýmd. Þjóðarsorg lagðist yfir Grænland.

Grænlendingar eru næstu nágrannar Íslendinga og djúp vinátta milli þjóðanna. Einn skýrasti vottur þess, er að Grænlendingar efndu til landssöfnunar þegar snjóflóðið mikla féll á Flateyri 1995.

Bæjar- og menningarvefur