Þjóðlagahátíðin á Siglufirði hlaut háan styrk úr Tónlistarsjóði

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögu tónlistarráðs um úthlutun úr Tónlistarsjóði fyrir fyrra tímabil ársins 2018. Að þessu sinni voru veittir styrkir til 58 verkefna að heildarupphæð 47.240.000 kr.  Alls bárust 123 umsóknir í sjóðinn en hann hefur það hlutverk að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra. Með styrkþega á Norðurlandi er Þjóðlagahátíðin á Siglufirði en hún hlaut 800.000 kr. styrk. Þá fékk Þjóðlist 200.000 kr. styrk fyrir Þjóðlistahátíðina Vöku á Akureyri. Sumartónleikar og Kórastefna við Mývatn hlaut 700.000 kr. styrk,  Tónlistarfélag Akureyrar hlaut 400.000 kr. styrk fyrir 75 ára afmælisviku Tónlistarfélags Akureyrar.

Styrkirnir eru veittir til almennrar tónlistarstarfsemi og til kynningar og markaðsetningar á tónlist og tónlistarfólki. Aðstandendur tónlistarverkefna geta sótt um styrk en sjóðurinn skiptist í tvær deildir, tónlistardeild og markaðs- og kynningardeild. Tónlistardeild veitir styrki til almennrar tónlistarstarfsemi, en markaðs- og kynningardeild veitir styrki til kynningar og markaðssetningar á tónlist og tónlistarfólki hér á landi og erlendis.
Umsóknarfrestir eru tvisvar á ári og er næst hægt að sækja um fyrir 15. maí næstkomandi.

,,Tónlistarsjóður gegnir mikilvægu hlutverki í að styðja við framgang íslenskrar tónlistar hér heima og erlendis. Sú mikla gróska sem á sér stað í tónlistarlífinu er ánægjuleg og er sá fjöldi umsókna til sjóðsins skýrt merki um þann mikla kraft og fjölbreytileika sem býr í tónlistarfólki víðs vegar um landið. Ríkisstjórnin mun halda áfram að styðja við íslenska tónlist á kjörtímabilinu‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Snjóflóð féllu víða á Tröllaskaga um helgina

Til fjalla á Tröllaskaga er talsvert af nýjum snjó sem kom í síðustu viku.  Snjóflóð féllu nokkuð víða um síðastliðna helgi, m.a. á Siglufjarðarveg, í Karlsárfjalli, Karlsárdal og Leyningssúlum. Snjóflóð féll einnig undan vélsleða á Kaldbak á sunnudag.  Snjógryfjur frá því um helgina benda þó til að nýi snjórinn sé að styrkjast en spáð er vaxandi A- og síðar NA-átt með snjókomu til fjalla næstu daga og er fólk hvatt til að fara með gát þegar ferðast er um brattar snævi þaktar hlíðar. Mikill nýr snjór er í fjöllum og ef flekaflóð fara af stað af mannavöldum má búast við meðalstórum flóðum. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Lokað um Víkurskarð og Öxnadalsheiði

Vegirnir um Öxnadalsheiði og Víkurskarð eru lokaðir og einnig er lokað yfir Mývatns – og Möðrudalsöræfi.  Hálka og snjóþekja er á flestum vegum á Norðurlandi, snjókoma eða él og skafrenningur og versnandi veður.  Þetta kemur fram á vef Vegagerðinnar í dag.

Vaxandi norðaustanátt, hvassviðri eða stormur í nótt og á morgun með snjókomu, hvassast N- og V-til, en úrkomumest N- og A-lands.

Áskorun vegna uppbyggingar á Akureyrarflugvelli til millilandaflugs

Markaðsstofa Norðurlands skorar á stjórnvöld að tryggja strax fjármagn til þess að kaupa og setja upp ILS aðflugsbúnað fyrir aðflug úr norðri á Akureyrarflugvelli. Jafnframt að gerð verði áætlun, og hún fjármögnuð, um uppbyggingu á Akureyrarflugvelli til framtíðar svo hann geti þjónað hlutverki sínu sem varaflugvöllur og millilandaflugvöllur Norðurlands. Það felur m.a. í sér stækkun flugstöðvarinnar, stækkun flughlaðsins og að tryggja að flugvöllurinn sé sem best tækjum búinn.

Vöntun á umræddum búnaði stendur núverandi millilandaflugi fyrir þrifum. Ferðaskrifstofan Super Break, sem stendur fyrir 14 flugferðum til Akureyrar frá Bretlandi í vetur og hefur þegar hafið sölu á fleiri ferðum sem hefjast í desember 2018, hefur nú í tvígang þurft frá að hvera vegna þess að þessi búnaður var ekki til staðar. Áform annarra flugrekenda sem hafa sýnt áfangastaðnum áhuga eru alfarið háð því að þessi búnaður verði settur upp. Þetta mál þolir því enga bið.

Yfirlýst stefna stjórnvalda er að auka dreifingu ferðamanna betur um allt land. Lykilatriði til þess að svo megi verða, er að nýta flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum fyrir beint millilandaflug. Þannig mun flæði ferðamanna verða mun jafnara, bæði um landið og yfir árið. Fleiri áfangastaðir á Íslandi auka vöruframboð í ferðaþjónustu á landinu og nýta betur þá innviði sem eru til staðar. Einnig gefa fleiri áfangastaðir dreifðari byggðum landsins aukna möguleika á að taka þátt í uppbyggingu ferðaþjónstu á landinu.

Markaðsstofa Norðurlands hefur í samstarfi við sveitarfélög og ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi unnið að því markvisst frá árinu 2011 að kynna Norðurland sem áfangastað fyrir millilandaflug. Samhliða markaðssetningunni hefur verið lögð áhersla á að flugvöllurinn sé tilbúinn fyrir millilandaflug og að rekstur hans sé tryggður. Ekki hefur gengið eftir að svo sé þrátt fyrir yfirlýstan vilja stjórnvalda þar um, en nú er svo komið að verkefni um millilandaflug eru í hættu vegna skorts á nauðsynlegum aðbúnaði á Akureyrarflugvelli.

 

Fyrir hönd Markaðsstofu Norðurlands

Arnheiður Jóhannsdóttir

Framkvæmdastjóri

Texti: Fréttatilkynning.

Hermannsgangan 2018

Hermannsgangan fer fram laugardaginn 3. febrúar næstkomandi kl. 12:00 við Gönguhúsið í Hlíðarfjalli. Hægt verður að skrá sig á keppnisdag í gönguhúsi.  Verðlaunaafhending og veitingar verða strax að göngu lokinni í Hlíðarfjalli.

Gengnar verða eftirfarandi vegalengdir með hefðbundinni aðferð:

  • Hermannsgangan 24 km., þátttökugjald 3.000 kr.
  • Hermannsgangan 8 km., þátttökugjald 2.000 kr.
  • Hermannsgangan 4,0 km., þátttökugjald 1.000 kr.

Skammdegi – listahátíð í Fjallabyggð

Þann 26. janúar næstkomandi mun Listhúsið í Ólafsfirði standa fyrir hinni árlegu Skammdegishátíð en hátíðin hefur verið haldin í Ólafsfirði síðastliðin ár.  Listamenn hátíðarinnar verða með viðburði á tímabilinu 26. janúar til og með 4. febrúar 2018.  Tuttugu listamenn bæði íslenskir og erlendir taka þátt í hátíðinni í ár.  Um er að ræða:  tónlistarmenn, myndlistarmenn, rithöfunda, ljósmyndara og marga aðra. Allir listamennirnir dvelja í Listhúsinu í Ólafsfirði í tvo mánuði.  Hátíðin verður formlega opnuð föstudaginn 26. janúar.

50 ár frá stofnun Golfklúbbs Ólafsfjarðar

Liðin eru 50 ár frá því að Golfklúbbur Ólafsfjarðar var stofnaður, en í dag heitir klúbburinn Golfklúbbur Fjallabyggðar, en nafninu var breytt á aðalfundi í desember árið 2015. Klúbburinn var stofnaður þann 14. janúar árið 1968 en undirbúningur að stofnun félagins var um haustið 1967. Stofnfélagar voru 16, en í fyrstu stjórn félagsins voru:  Þorsteinn Jónsson, formaður, Stefán B. Einarsson, ritari, Hilmar Jóannesson, gjaldkeri.

Aðrir stofnfélagar voru:
Sigurður Guðjónsson, Jón Ásgeirsson, Haraldur Þórðarson, Kristinn Jóhannsson, Ármann Þórðarson, Brynjólfur Sveinsson, Hreggviður Hermannsson, Einar Þórarinsson, Gunnlaugur Magnússon, Ásgeir Ásgeirsson, Stefán B. Ólafsson, Björn Þór Ólafsson og Vigfús S. Gunnlaugsson.

Á upphafsári félagsins var enginn völlur, engin áhöld og lítil kunnátta í golfíþróttinni.  Fljótlega var jörðin Bakki tekin á leigu og Brynjólfur Sveinsson verslunarmaður og póstmeistari, sem var einn af stofnendum klúbbsins, bauðst til þess að útvega kylfur, poka og kerrur og fengu flestir sín fyrstu áhöld hjá honum. Einnig flutti hann til landsins holubotna, flögg og holuskera. Fyrsti völlur félagsins var 6 holur og var á túni Bakka.

Golfklúbbur Akureyrar lét snemma í ljós áhuga á starfseminni og vildu aðstoða á allann hátt, en sá klúbbur var stofnaður árið 1935.  Golfklúbbur Siglufjarðar var stofnaður 1970 og var töluvert samstarf klúbbana á milli með árlegum bæjarkeppnum.

Sumarið 1970 réðust menn í stækkun á golfvelli félagsins og bættu  við 3 brautum.  Á Bakka var klúbburinn í fimm ár, en þá var leigusamningurinn útirunninn. Þetta var árið 1973. Um þessar mundir var jörðin Skeggjabrekka á lausu.  Leyfi fékkst frá bæjaryfirvöldum að flytja starfsemi golfklúbbsins þangað en bærinn átti jörðina á þessum tíma. Hófst þá mikil uppbygging og var teiknaður 9 holu völlur og vallarhús byggt upp.

Texti: Byggt á pistli eftir Hilmar Jóhannesson, fyrsta gjaldkera félagsins.

Hefja gjaldtöku við skíðagöngubrautir í Ólafsfirði

Skíðafélag Ólafsfjarðar hefur ákveðið að hefja gjaldtöku í skíðagöngubrautir og verður í boði að kaupa árskort eða greiða daggjald.  Eldri borgarar greiða ekki árskort né daggjald.  Iðkendur félagsins sem greiða æfingagjöld greiða ekki árskort né daggjald.

Hægt er að kaupa árskort í skíðaskálanum í Tindaöxl á opnunartíma. Komið verður upp kassa og gestabók upp í skíðaskála sem hægt er að ganga frá greiðslu ef komið er í brautina utan opnunartíma í skíðaskálans. Frá og með mánudeginum 22. janúar verður skíðaskálinn opinn fyrir brautargesti frá kl. 12-21 og hægt að komast þar inn og nota salerni.

Gjaldskrá í skíðagöngubrautir:

Bárubraut og trimmbrautir.
Árskort fullorðinn, 5.000 kr

Árskort 16 ára og yngri 3.500 kr.
Daggjald er 500 kr.

Alþjóðlegi skíðadagurinn í Ólafsfirði

Sunnudaginn 21. janúar er alþjóðlegur skíðadagur og þá verður dagskrá á Skíðasvæðinu í Ólafsfirði. Nægur snjór er nú á svæðinu. Viðburðurinn hefst kl. 13:00 og stendur til kl. 15:00. Á svæðinu verða settar upp skemmtilegar brautir fyrir alla aldurshópa. Það verður frítt á svæðið og í boði verður: Leikjabraut (alpagreinar), leikjabraut (skíðaganga), samhliðasvig, þotu og sleðasvæði, Bárubraut troðin (4,5km), Trimmhringur við Ólafsfjarðarvatn troðinn (5km), Kakó, svali og grillaðar pylsur fyrir alla.

Siglufjarðarvegi hefur verið lokað vegna snjóflóðahættu

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu er lýst yfir í dag föstudag kl 15.30 í Ólafsfjarðarmúla.  Siglufjarðarvegi hefur verið lokað vegna snjóflóðahættu.

Skilgreining á B: Óvissustig. Hætta talin á snjóflóðum en samt ekki talin ástæða til að loka. Stig 3 snjóflóðaspár. Það gæti hafa fallið lítið snjóflóð eða það er veður sem snjóflóð falla oft í, vindátt, snjókoma. Einnig byggt á mælum og öðrum athugunum á staðnum. 

Einn efnilegasti leikmaður KF farinn í Val

Einn af efnilegri mönnum sem komið hafa upp í meistaraflokki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar hefur gert félagsskipti í Val. Valur Reykjalín Þrastarson hefur spilað með meistaraflokki KF og yngri flokkum síðustu árin, en hann er uppalinn á Ólafsfirði. Samningur hans við KF rann út í lok árs 2017 og stóð alltaf til að hann færi til höfuðborgarinnar til að spila knattspyrnu. Hann fer því án greiðslu til Valsmanna. Valur lék 36 leiki með meistaraflokki KF og skoraði 4 mörk.

Valur Reykjalín segir í samtali við vefinn að hann hafi verið á reynslu hjá Val í desember 2016 og æft með meistaraflokki og 2. flokki félagsins.  Hann segir að það hafi verið vitað mál að hann myndi ekki leika áfram með KF á þessu tímabili heldur skipta yfir í lið Vals. Hann hefur þegar leikið tvo leiki með meistaraflokki Vals, og komið inná sem varamaður og einnig leikið með 2. flokki Vals á Reykjavíkurmótinu. Valur er fluttur í höfuðborgina og stundar fjarnám í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Framtíðin er björt hjá þessum unga og efnilega leikmanni.

 

Alþjóðlegi snjódagurinn í Tindastóli

Skíðasvæðið Tindastóli við Sauðárkrók heldur uppá  alþjóðlega snjódaginn, sunnudaginn 21. janúar, og verður dagskrá í boði fyrir börn og unglinga.

Dagskrá:

Kl. 11:00 : Skíðasvæðið opnar. Öll börn yngri en 18 ára fá frítt í fjallið.
Kl. 11:30 : Fígúrusmíði. Fyrir þá  sem vilja gera hús, snjókarl eða eitthvað skemmtilegt.
Kl. 12:00 : Snjóleikjabraut. Svigbraut fyrir alla sem vilja prófa.
Kl. 12:30 : Gönguskíðatrimm. Létt og skemmtileg göngubraut verður í fjallinu.
Kl. 13:00 : Snjóþoturall. Komdu með snjóþotuna eða stigasleðann.

Kynningarfundur á Dalvík vegna deiliskipulags íþróttasvæðis

Almennur kynningarfundur verður haldinn um tillögu að deiliskipulagi íþróttasvæðis Dalvíkur og breytingu á Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020, miðvikudaginn 24. janúar næstkomandi.  Á fundinum verða skipulagstillögur kynntar fyrir íbúum og fyrirspurnum svarað. Eftir fundinn verða tillögurnar auglýstar í samræmi við ákvæði skipulagslaga.  Fundurinn verður haldinn í fundarsalnum Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkurbyggðar á Dalvík, miðvikudaginn 24. janúar klukkan 17:00.

KA vann KF á Kjarnafæðismótinu

Annar flokkur KA, eða KA-2 keppti við Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í vikunni í B-deild Kjarnafæðismótsins, en leikurinn fór fram í Boganum á Akureyri.  Í liði KA-2 eru strákar fæddir á árinu 1999-2001 og eru í 2. flokki. Í liði KF eru fastamenn síðustu ára í bland við unga og óreynda stráka sem eru á reynslu hjá félaginu. Í þessum leik voru nokkrir leikmenn frá KA á reynslu hjá KF, auk leikmanns frá Magna og Dalvíkur/Reynis.

Bæði lið höfðu leikið einn leik fyrir þennan, og var KA-2 með þrjú stig en KF eitt stig.  KA strákarnir byrjuðu af krafti og voru komnir í 3-0 eftir 30. mínútur og var það staðan í hálfleik. Á þriðju mínútu síðari hálfleiks komst KA í 4-0, en KF svaraði eftir tvær mínútur með marki, og minnkaði muninn í 4-1.  Mark KF gerði Grétar Áki, en lokatölur leiksins urðu 4-1 fyrir heimamenn.

Fyrsta mark KA kom eftir fasta aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig, en markmaður KF réð ekki við það og sló boltann út í teig og náðu KA menn frákastinu og skoruðu. Annað mark KA manna var glæsilegt, en það kom eftir langa sókn og barst boltinn út í teig til hliðar við markið og var skotið sérlega glæsilegt og óverjandi fyrir markmann KF. Þriðja mark KA kom eftir fyrirgjöf frá kantinum og barst boltinn til sóknarmanns KA sem skoraði auðveldlega.

Von á 163 skemmtiferðaskipakomum á Akureyri í ár

Nú þegar hafa 57 skemmtiferðaskip bókað 163 komur til Akureyrar í ár. Áætlað er að 131.839 þúsund farþegar komi með þessum skipum auk 55.464 áhafnarmeðlima. Von er á fyrsta skipinu þann 5. maí næstkomandi og alls 16 skipakomum í maí mánuði. Á síðasta ári voru alls 155 skipakomur frá 61 skipi, en í maí 2017 komu 9 skemmtiferðaskip, og er því töluverð fjölgun í þeim mánuði á milli ára.

 

Auglýsa eftir stuðningsfjölskyldum í Fjalla- og Dalvíkurbyggð

Félagsþjónustur Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar hafa auglýst eftir stuðningsfjölskyldum til þess að taka á móti barni á heimili sitt í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu og/eða styrkja stuðningsnet barns, eftir því sem við á. Um er að ræða úrræði veitt á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks og barnaverndarlaga.  Nánari upplýsingar gefa:  Helga Helgadóttir, félagsþjónustu Fjallabyggðar í síma 464-9100 og Þórhalla Karlsdóttir, félagsþjónustu Dalvíkurbyggðar í síma 460-4900.

Nýr svæðisstjóri Arion banka á Norður- og Austurlandi

Ingi Steinar Ellertsson hefur verið ráðinn svæðisstjóri Arion banka á Norður- og Austurlandi. Hann mun jafnframt gegna stöðu útibússtjóra á Akureyri. Ingi tekur við starfinu af Guðmundi Ólafssyni sem á sama tíma tekur við nýju starfi forstöðumanns þjónustustýringar fyrirtækja á viðskiptabankasviði.

Ingi Steinar hefur starfað sem forstöðumaður fyrirtækjaviðskipta hjá Arion banka á Norður- og Austurlandi frá árinu 2016. Frá árinu 2011 leiddi hann uppbyggingu sjóða- og lífeyrissviðs hjá T Plús hf. á Akureyri. Áður starfaði Ingi á eignastýringarsviði Íslenskra verðbréfa hf., við verkefnastjórnun hjá Akureyrarbæ og á fyrirtækjasviði Tryggingamiðstöðvarinnar.

Ingi Steinar er 39 ára viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands með meistaragráðu í fjármálum og stefnumótun frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann hefur jafnframt lokið prófum í verðbréfaviðskiptum og vátryggingafræðum.

Arion banki starfrækir sex útibú á Norður- og Austurlandi. Þau eru á Akureyri, Blönduósi, Egilsstöðum, Sauðárkróki, Siglufirði og Ólafsfirði en auk þess starfrækir bankinn fjarvinnslu á Siglufirði og á Akureyri, m.a. tengda lífeyrisþjónustu bankans. Alls starfa ríflega 60 einstaklingar hjá Arion banka á svæðinu.

Jónína Aradóttir með tónleika á Sigló Hótel

Söngkonan og lagahöfundurinn Jónína Aradóttir er á hringferð um landið og heldur meðal annars tónleika á Arinstofunni á Sigló Hótel, föstudaginn 2. febrúar kl. 21:00. Hún var að gefa út sína aðra plötu og getur ekki beðið með að koma og spila lögin fyrir fólkið í Fjallabyggð. Jónína á mikið af góðum minningum frá Siglufirði sem barn þegar hún heimsótti ömmu Ninnu og afa Sæma.  Hún vonast til að sjá sem flesta á tónleikunum.

Laugardaginn 3. febrúar verður hún með tónleika á Akureyri á staðnum R5 kl. 21:00.

 

Heilbrigðisráðherra heimsækir Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, heimsækir á morgun Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilsugæsluna og Heilbrigðisstofnun Norðurlands og ræðir við stjórnendur og annað starfsfólk og kynnir sér starfsemi stofnananna.

Svandís segir það bæði áhugavert og gagnlegt fyrir sig sem heilbrigðisráðherra að kynnast staðháttum, fá tækifæri til að skoða aðstæður á stofnununum, sjá húsakynnin og að hitta fólkið sem starfar á stofnununum og stýrir þeim augliti til auglitis: „Þessar stofnanir eru hornsteinar heilbrigðisþjónustunnar í heilbrigðisumdæmunum. Verkefnin eru eftir því fjölbreytt, starfsemin umfangsmikil og áskoranirnar eftir því margar“ segir Svandís.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

 

Keppa fyrir Dalvíkurbyggð í NorðurOrgi

Félagsmiðstöðin Týr í Dalvíkurbyggð hélt nýverið söngkeppni þar sem verið er að velja þann aðila sem tekur þátt í NorðurOrgi (söngkeppni félagsmiðstöðva á Norðurlandi).  Alls kepptu þrjú atriði og voru sigurvegarar að þessu sinni drengir í 8. bekk, þeir Þormar Ernir Guðmundsson, söngur,  Þorsteinn Jakob Klemenzson, píanó og Elvar Freyr Jónsson, bassi.

Á hverju ári halda Samtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi (Samfés) söngkeppni í Laugardalshöllinni. Hver landshluti fær að senda nokkra keppendur í þessa keppni, sem undanfarin ár hefur verið sjónvarpað beint á RÚV.  Undanfarinn er sá að félagsmiðstöðvarnar á Norðurlandi halda undankeppni sem er kölluð NorðurOrg. Fimm atriði eru síðan valin þaðan til að taka þátt fyrir hönd félagsmiðstöðva á Norðurlandi í aðalkeppni Samfés í Laugardalshöllinni í Reykjavík.

Söngkeppnin NorðurOrg fer fram föstudaginn 26. janúar næstkomandi á Sauðárkróki.

Ljósaganga í Hvanneyrarskál

Fagnað verður nýju ári á Siglufirði með ljósagöngu í Hvanneyrarskál fimmtudaginn 18. janúar næstkomandi. Lagt verður af stað frá Rafstöðinni kl. 18:00. Gengið verður Skálarrípil og af honum veginn upp í skálina.  Göngutími er um 1-2 klst.   Allir hafi meðferðis höfuðljós eða vasaljós. Einnig er mælt með að hafa hálkubroddana/göngugorma meðferðis ef hálka verður á leiðinni.  Alltaf gott að hafa meðferðis vatn þegar farið er á fjall og orku að bíta í.  Farastjóri er Gestur Hansson.

KF og Dalvík gerðu jafntefli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mættust í gær í B-deild Kjarnafæðismótsins, en leikið var í Boganum á Akureyri. Dalvík/Reynir var að leika sinn annan leik á mótinu en liðið sigraði KA3 í fyrsta leik. KF var að spila sinn fyrsta leik í mótinu. Það er alltaf fjör og læti þegar þessi lið mætast, enda nágrannalið, en þau leika bæði í 3. deildinni í sumar.

KF gerði fyrsta mark leiksins í upphafi síðari hálfleiks. Markið kom eftir stungusendingu inn fyrir vörn Dalvíkur og skoraði sóknarmaður KF úr þröngu færi. Það var nokkuð hart tekist á í þessum leik, en eftir mikla pressu á lokamínútum leiksins þá fær Dalvík gott færi og skorar, en markamaður KF hefði átt að gera betur og missir boltann inn. Dalvík hafði legið töluvert á KF síðustu mínútur og reyndi KF að halda út en markið kom eftir innkast og fyrirgjöf þar sem KF náði ekki að hreinsa nægjanlega vel frá og lék Fannar Daði á einn varnarmann KF og fékk of mikinn tíma inn í teignum og kláraði færið með góðu skoti. Lokatölur 1-1.

Öxnadalsheiði lokuð

Hríðarveður er á Norðurlandi, allt austur í Þingeyjarsýslur og víðast snjóþekja eða hálka. Það er mjög hvasst og hviðótt milli Sauðárkróks og Varmahlíðar en ekki síður á Siglufjarðarvegi og í Ólafsfjarðarmúla. Öxnadalsheiði er lokuð.

Á Norðurlandi er víða stormur, ofankoma og skafrenningur. Hviður fara sums staðar í 45 m/s Norðanlands s.s. í Eyjafirði.  Lagast lítið eitt yfir miðjan daginn en versnar síðan aftur þegar lægðarmiðjan kemur til baka.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar nú í morgun.

Tindastóll bikarmeistari 2018

Tindastóll vann sinn fyrsta titil í meistaraflokki karla í körfuknattleik er liðið vann KR í dag í úrslitum Maltbikarsins 2018. Stólarnir náðu strax góðri forystu sem þeir gáfu aldrei eftir þrátt fyrir tilraunir KR til að minnka muninn. KR voru bikarmeistarar síðustu tveggja ára en Tindastóll hefur beðið lengi eftir sínum fyrsta stóra titli. Lokastaðan í leiknum var 69-96. Pétur Rúnar var valinn maður leiksins en hann skoraði 22 stig, gaf 8 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Sigtryggur Arnar skoraði 20 stig og gaf 4 stoðsendingar. Antonio Hester skoraði 14 stig.

Akureyrarbær skipar starfshóp um viðbragðsáætlun vegna ofbeldis

Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur verið falið að skipa starfshóp sem útbýr viðbragðsáætlun vegna ofbeldis, áreitis eða kynferðislegrar áreitni sem kjörnir fulltrúar kunna að verða fyrir í störfum sínum fyrir bæinn. Skal þessi áætlun vera unnin í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórnmálaflokka á Akureyri. Eins skal þessi starfshópur yfirfara siðareglur og nýliðafræðslu kjörinna fulltrúa.  Starfshópurinn á að skila tillögum fyrir lok apríl 2018.

Í starfshópnum eru: Eva Hrund Einarsdóttir, Silja Dögg Baldursdóttur og Eiríkur Björn Björgvinsson.

Blakfélag Fjallabyggðar keppti við Aftureldingu

Blakfélag Fjallabyggðar og Afturelding-B kepptu í Varmá í Mosfellsbæ í gær í 1. deild karla í blaki. Afturelding byrjaði leikinn betur og komust fljótlega í 5-1 og 12-7 en BF minnkaði muninn í 13-12 og svo aftur 19-18, en það voru heimamenn sem leiddu alla hrinuna og unnu að lokum 25-21 í fyrstu hrinu. BF byrjaði betur í hrinu tvö og héldu betur í Aftureldingu og leiddu á tímabili en BF komst í 4-6 og 7-10 en þá skoruðu heimamenn 7 stig á móti einu frá BF og sigu framúr í 14-11.  BF menn börðust áfram og komust í 14-15 en þá gerðu heimamenn fjögur stig í röð og komust í 18-15. Afturelding var svo sterkari á lokakaflanum og kláraði hrinuna 25-19. Í hrinu þrjú þá leiddu heimamenn allan tímann, jafnt var á tölum 5-5 en Afturelding var sterkari og komst í 18-11 og unnu hrinuna 25-18. Lokatölur 3-0.  Dómari leiksins var Jason Ívarsson, formaður BLÍ.  Í liði BF voru:  Óskar, Karol, Þórarinn, Marcin, Ólafur, Raul og Eduard.

BF er með 11 stig eftir 7 leiki, 4 leikir unnir og 3 tapaðir, 15 hrinur unnar og 13 tapaðar. BF hefur skorað flest stig í deildinni eða 614. Afturelding B er á toppi deildarinnar með 18 stig eftir 7 leiki, Hamar í 2. sæti og BF í 3. sæti.

Fyrstu farþegarnir í beinu flugi frá Bretlandi lentir á Akureyri

Í hádeginu í dag lenti Boeing 737 vél flugfélagsins Enter Air á Akureyrarflugvelli, með fyrstu bresku ferðamennina innanborðs sem koma með beinu flugi frá Bretlandi á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break.  Þetta markar tímamót í ferðaþjónustu á Norðurlandi því Super Break áformar að fljúga til Akureyrar áfram næstu misserin og að miklu leyti á þeim tíma ársins sem hingað til hefur verið rólegri í ferðaþjónustu. Flugvélin flug fyrst frá London til Cardiff í morgun, og þaðan til Akureyrar. Vélin flaug svo til baka til Edinborgar og þaðan til London. Flugtíminn til Akureyrar var 2:32 klst.

Bresku ferðamennirnir voru ánægðir þegar þeir lentu, en mikil ásókn hefur verið í þessar ferðir Super Break og hafa yfir 95 prósent flugsæta þegar verið seld. Slíkt telst mjög góður árangur! Isavia bauð þeim upp á pönnukökur og íslenskt vatn, sem vakti mikla lukku.

Aron Einar mætti á flugvöllinn í Cardiff

Á flugvöllinn í Cardiff mætti landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, Aron Einar Gunnarsson, en hann spilar sem kunnugt er með knattspyrnuliði borgarinnar. Aron Einar tók þátt í fögnuði Super Break þar ytra, spjallaði við farþega og sagði þeim frá Bjórböðunum á Árskógssandi, en hann er einn af eigendum fyrirtækisins. Þá tók velskur kór nokkur falleg íslensk lög fyrir ferðalangana, eitt af þeim var Heyr himnasmiður, og hlaut lof fyrir.

„Sprettur af mikilli framsýni“

Markaðsstofa Norðurlands og Isavia buðu til fögnuðar á Akureyrarflugvelli í tilefni af þessu, en á meðal ræðumanna var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra. Í ræðu sinni sagði hún að þessar flugferðir yrðu mikil lyftistöng fyrir fyrirtæki á svæðinu og að samfélagið í heild nyti góðs af þeim. „Uppskeran sem við verðum hér vitni að er alls ekki sjálfgefin. Hún sprettur af mikilli framsýni aðila hérna fyrir norðan, sem hafa haft skýra sýn og óbilandi trú á möguleikum á beinu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll á hvaða árstíma sem er,“ sagði Þórdís Kolbrún.

„Bara byrjunin“

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, var að vonum mjög ánægð með daginn. „Við erum búin að vinna að þessu verkefni frá stofnun Flugklasans Air 66N árið 2011 og höfum verið að kynna Norðurland markvisst fyrir breskum ferðaskrifstofum og flugfélögum. Þetta flug er bara byrjunin og við eigum eftir að sjá aukningu í beinu flugi til Akureyrar á næstunni. Þessi árangur hefur náðst vegna þess að ferðaþjónustufyrirtæki og sveitarfélög á öllu Norðurlandi hafa staðið saman í þessu verkefni og haft óbilandi trú á því að Norðurland sé eftirsóknarverður og spennandi áfangastaður.“

Mynd: Markaðsstofa Norðurlands. Texti: Fréttatilkynning.
Mynd: Markaðsstofa Norðurlands.
Mynd: Markaðsstofa Norðurlands.
Mynd: Markaðsstofa Norðurlands.
Mynd: Markaðsstofa Norðurlands.

Bæjar- og menningarvefur