Úthlutun menningarstyrkja í Fjallabyggð

Fjallabyggð veitir ár hvert menningartengda styrki til félagasamtaka, stofnana og einstaklinga til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur, forgangsröðun og fjárhagsáætlun bæjarstjórnar.

Haustið 2019 voru gerðar breytingar á úthlutun styrkja hjá Fjallabyggð. Breytingarnar fólu í sér gerð nýrra úthlutunarreglna og einnig voru flokkar styrkja endurskoðaðir. Menningartengdum styrkjum er, eftir þessar breytingar,  úthlutað í eftirfarandi flokkum vegna ársins 2020:

  • Styrkir til menningarmála (einstök menningartengd verkefni)
  • Styrkir til hátíðarhalda
  • Styrkir til reksturs safna og setra

Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur samþykkt að veita styrki til þessara þriggja flokka á árinu 2020 að upphæð kr. 8.700.000.- Þar af fara kr. 2.700.000.- til einstakra menningartengdra verkefna, kr. 3.250.000.- til hátíðarhalda og kr. 2.750.000.- til reksturs safna og setra.

Áfram verður veittur styrkur til uppbyggingar Pálshúss í Ólafsfirði og styrkur til bæjarlistamanns Fjallabyggðar og eru þeir óbreyttir frá fyrra ári.

Úthlutaðir styrkir til menningarmála á árinu 2019 námu kr. 6.650.000.- auk uppbyggingarstyrks til Pálshúss og styrks til bæjarlistamanns og hafa því framlög Fjallabyggðar til menningarmála hækkað um kr. 2.050.000.- milli ára.

Úthlutaðir styrkir í flokknum Styrkir til menningarmála, nema samtals kr. 2.700.000.-  Alls bárust 20 umsóknir að upphæð kr. 5.720.000.- þar af var fjórum umsóknum hafnað.

Úthlutaðir styrkir í flokknum Styrkir til reksturs safna og setra nema samtals kr. 2.750.000.-  Alls bárust fjórar umsóknir, samtals að upphæð kr. 4.500.000.-

Úthlutaðir styrkir í flokknum Styrkir til hátíðahalda nema samtals kr. 3.250.000.- en alls bárust átta umsóknir, samtals að upphæð kr. 6.201.815.-

Formleg athöfn um úthlutun styrkja verður haldin í Menningarhúsinu Tjarnarborg fimmtudaginn 6. febrúar kl. 18:00, samhliða útnefningu bæjarlistamanns Fjallabyggðar og eru allir velkomnir.

Texti: Fjallabyggð.is

Saga Fotografica á Siglufirði.

Sjúkraflutningar tryggðir næstu 5 árin í Skagafirði

Síðastliðinn föstudag var undirritaður nýr samningur um sjúkraflutninga á milli Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Brunavarnir Skagafjarðar munu sjá um framkvæmd samningsins líkt og undanfarin ár. Samningurinn, sem gildir til næstu 5 ára, nær til sjúkraflutninga í Skagafirði, utan Fljóta sem njóta þjónustu frá Fjallabyggð.

Áralöng hefð er fyrir samstarfi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Brunavarna Skagafjarðar vegna sjúkraflutninga og eru samningsaðilar því mjög ánægðir með að óbreytt fyrirkomulag vegna sjúkraflutninga í Skagafirði hafi verið tryggt næstu árin.

Sigfús Ingi Sigfússon sveitastjóri, Svavar Atli Birgisson slökkviliðsstjóri, Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN og Örn Ragnarsson framkvæmdastjóri læknina HSN við undirritun samningsins.

 

Mynd og heimild: Skagafjörður.is

KF gerði markalaust jafntefli

KF lék í gær við Hött/Huginn í B-deild í Kjarnafæðismótinu. Leikið var í Boganum á Akureyri en leiknum hafði verið frestað vegna ófærðar og var því um nýjan leiktíma að ræða.

Lið KF er fremur þunnskipað um þessar mundir og hafa nokkrir lykilmenn frá síðasta tímabili horfið á braut. Ungir leikmenn koma því inni í hópinn og eins lánsmenn frá öðrum liðum sem eru einnig á reynslu hjá félaginu.

Fimm lánsmenn voru í byrjunarliðinu í þessum leik, Birgir Hlynsson frá Þór, Elvar Baldvinsson frá Völsung, Hrannar Snær Magnússon frá KH, Páll Ingvason frá Þór og Halldór Jóhannesson frá KA.

Yngsti leikmaður vallarins var hins vegar hinn 15 ára gamli Þorlákur Breki Baxter í liði Hugins Hattar, og spilaði hann allan fyrri hálfleik.

Markalaust var í fyrri hálfleik og gerði KF sína fyrstu skiptingu á 72. mínútu þegar Kristófer Máni kom inná fyrir Birgi Hlynsson. Óliver kom svo inná fyrir Hákon Leó á 87. mínútu. KF nýtti aðeins þessar tvær skiptingar í leiknum en þeir voru með fjóra varamenn klára. Höttur/Huginn var hinsvegar með stóran hóp og nýtti allar sínar 7 skiptingar.

Leiknum leik með markalausu jafntefli og fengu lið sitthvort stigið úr þessum leik. KF hefur því haldið hreinu í fyrstu þremur leikjum mótsins og er með 5 stig eftir þrjá leik.

Liðið á næst leik gegn Kormák/Hvöt, laugardaginn 25. janúar.

Íþróttafólk ársins 2019 á Akureyri

Íþróttakona Akureyrar 2019 er Aldís Kara Bergsdóttir listhlaupakona úr Skautafélagi Akureyrar og Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar er íþróttakarl Akureyrar 2019. Kjörinu var lýst í Menningarhúsinu Hofi í vikunni. Þetta var í 41. skipti sem íþróttamaður Akureyrar er heiðraður.

Á árinu 2019 varð Aldís Kara Íslandsmeistari listhlaupi í Junior flokki auk þess að tvíbæta Íslandsmetið í Junior flokki og náði lágmörkum inn á heimsmeistaramót unglinga. Aldís Kara var kjörin íþróttakona Skautafélags Akureyrar árið 2019 og Skautakona ársins 2019 af Skautasambandi Íslands. Í öðru sæti í kjörinu um íþróttakonu ársins 2019 varð Sóley Margrét Jónsdóttir úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar. Hulda Elma Eysteinsdóttir blakkona úr Knattspyrnufélagi Akureyrar varð í þriðja sæti. Frjálsíþróttakonan Hafdís Sigurðardóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar varð í fjórða sæti og í fimmta sæti varð Hulda B. Waage úr Kraftlyftingarfélagi Akureyrar.

Íþróttakarl Akureyrar 2019, Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingarfélagi Akureyrar, hlaut nú nafnbótina í fjórða skipti síðan 2015. Viktor varð Íslandsmeistari karla í kraftlyftingum 2019 auk þess að verða í 4. sæti í -120 kg. flokki á Evrópumótinu í kraftlyftingum á sl. ári. Viktor er jafnframt stigahæsti kraftlyftingamaður Íslands frá upphafi. Í öðru sæti í kjörinu um íþróttakarl ársins 2019 varð Miguel Mateo Castrillo blakmaður úr KA. Utanvegarhlauparinn Þorbergur Ingi Jónson úr Ungmennafélagi Akureyrar varð í þriðja sæti. Í fjórða sæti varð íshokkímaðurinn Hafþór Andri Sigrúnarson úr Skautafélagi Akureyrar og í 5. sæti varð Alexander Heiðarsson júdómaður úr KA.

Jóhannes Kárason hlaut heiðursviðurkenningu Frístundaráðs. Jóhannes, sem er gullmerkishafi Skíðasambands Íslands, hefur komið að uppbyggingu og útbreiðslu skíðagönguíþróttarinnar á Akureyri og víðar með ýmsum, miklum og óeigingjörnum hætti síðustu 35 ár.

Frístundaráð veitti viðurkenningar vegna 311 Íslandsmeistara til 13 aðildarfélaga Íþróttabandalags Akureyrar á síðasta ári.

Þá veitti Afrekssjóður átta afreksefnum úr röðum aðildarfélaga styrk að alls upphæð 1.600.000 kr.

Alls veitti Afrekssjóður Akureyrarbæjar styrki að upphæð 7.000.000 kr. árið 2019 til íþróttamanna innan aðildarfélaga ÍBA.

Mynd: akureyri.is

45 án atvinnu í Fjallabyggð

Alls voru 45 án atvinnu í Fjallabyggð í desember 2019 og mældist atvinnuleysi 4,2%. Fjölgaði um 5 manns á milli mánaða og jókst atvinnuleysi um 0,5% á milli mánaða. Alls voru 21 karl og 24 konur án  atvinnu í desember í Fjallabyggð.

Í Dalvíkurbyggð voru 24 án atvinnu í desember og mældist atvinnuleysi 2,3%. Í Skagafirði voru 37 án atvinnu og mældist atvinnuleysi 1,7%. Fjölgaði um 8 á milli mánaða í Skagafirði.

Á Akureyri voru 417 án atvinnu í desember og mældist atvinnuleysi 4,0%.

Gjörningakvöld í Herhúsinu á Siglufirði

Um þessar mundir kanna 17 myndlistarnemar frá Listaháskóla Íslands nýjar lendur á Norðurlandi. Þau eru gestir í Alþýðuhúsinu og í Herhúsinu á Siglufirði þar sem þau bjóða í opið hús laugardaginn 18. janúar kl. 20:00-22:00. Gjörningar, tónlist, myndverk, höggmyndir og ýmislegt annað verður á boðstólum.

Þátttakendur eru:
Alexander Hugo Gunnarsson
Andri Þór Arason
Atli Pálsson
Auðunn Kvaran
Birkir Mar Hjaltested
Daníel Ágúst Ágústsson
Einar Lúðvík Ólafsson
Gréta Jónsdóttir
Kristján Thorlacius Finnsson
Margrét Dúadóttir Landmark
María Lind Baldursdóttir
Rakel Andrésdóttir
Renate Feizaka
Silfrún Una Guðlaugsdóttir
Sólbjört Vera Ómarsdóttir
Sölvi Steinn Þórhallsson
Tara Njála Ingvarsdóttir

Hámarkshraði hækkaður í 40 km í Fjallabyggð

Vegna nýrra umferðarlaga hefur Fjallabyggð þurft að breyta hámarkshraðanum í bænum úr 35 km/klst í 40 km/klst.  Hámarksökuhraði skal tilgreindur í heilum tugum samkvæmt nýjum lögum.

Samþykkt hefur verið að hámarkshraði í Fjallabyggð verði hækkaður í 40 km á klst. að undanskildum götum við skóla, leikskóla og íþróttamiðstöðvar, þar verði hann lækkaður í 30 km á klst.

Einnig verður skoðaður sá möguleiki að setja upp þrengingar við skóla, leikskóla og íþróttamiðstöðvar í Fjallabyggð.

Sundlaugin í Ólafsfirði

Blakfélag Fjallabyggðar framlengir samninga við aðalstyrktaraðila

Blakfélag Fjallabyggðar hefur skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning við Genís og Sigló hótel.
Genís (Benecta) og Sigló Hótel hafa verið aðalstyrktaraðilar Blakfélags Fjallabyggðar (BF) frá stofnun félagsins. Síðasti samningur rann út í lok árs 2019. Núverandi samningur er til þriggja ára eða til 31. desember 2022.
Samningurinn er Blakfélagi Fjallabyggðar gríðarlega mikilvægur í þeirri uppbyggingu sem félagið er í en árið 2019 stunduðu hátt í 190 iðkendur blak í lengri eða skemmri tíma hjá félaginu, þar af 80 iðkendur 18 ára og yngri.
Samningurinn tengist ýmsum viðburðum sem BF stendur fyrir, eins og Sigló Hótel – Benecta mótið sem fer fram í febrúarlok ár hvert. Einnig tengist samningurinn m.a. Benectamótinu í strandblaki og paramóti Sigló Hótels. Síðast en ekki síst þá tengist þessi samningur Steinöld 2020 sem fram fer í Vestmannaeyjum 30. apríl-02. maí en Blakdeild ÍBV og BF standa saman að mótshaldinu.
Á myndinni eru þau Óskar Þórðarson f.h. BF og Gunnhildur Róbertsdóttir f.h. Benecta (á myndina vantar Kristbjörgu Eddu f.h. Sigló Hótels en hún var fjarverandi).

Mynd frá Blakfélag Fjallabyggðar.
Mynd: BF/ fréttatilkynning

Skíðasvæðið í Skarðsdal opnaði aftur

Loksins var aftur hægt að opna Skíðsvæðið í Skarðsdal í dag en opið var frá kl. 14-19.  Neðsta lyftan og T-lyftan voru opnaðar og einnig braut fyrir skíðagöngugarpa. Lokað var á svæðinu í gær þar sem verið var að vinna snjóinn í brekkurnar og undirbúa opnun. Á sunnudaginn verður svo World Snow day haldinn á svæðinu, og verður dagskrá nánar auglýst síðar.

Mynd frá Skíðasvæðið Skarðsdal Siglufirði.

Sjálfbær uppbygging ferðaþjónustu á landinu öllu

Ferðaþjónustan á landinu öllu kemur saman árlega á Mannamótum Markaðsstofa landshlutanna. Sýningin hefur það að markmiði að efla tengsl á milli fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og fyrirtækja allra landshluta auk þess að kynna vel nýjungar á svæðunum og auka sölumöguleika. Þennan frábæra dag er auðvelt að sjá hvers vegna erlendir ferðamenn flykkjast til landsins og hvers vegna áhuginn á Íslandi eykst ár frá ári. Kraftur og sköpunargleði einkennir fólkið í ferðaþjónustu sem sér tækifæri hvert sem litið er. Ótrúlegt er að sjá fjölbreytni og sérstöðu þeirrar þjónustu sem í boði er.

Það er gríðarlega mikilvægt ef tryggja á áframhaldandi vöxt ferðaþjónustunnar og góð áhrif hennar á hagvöxt í landinu að hlúa vel að þeim frumkvöðlum sem hafa drifið áfram þróunina undanfarin ár. Þetta fólk og þeirra fyrirtæki hafa staðið af sér miklar breytingar, farið í gegnum mjög hraðan vöxt sem fylgdi mikil þörf fyrir innviðauppbyggingu, álag á þjónustu, þróun, breytingar í starfsmannamálum og áhersla á gæði. Mikil áhersla hefur verið á að gera Ísland að heilsárs ferðaþjónustulandi og hafa ferðaþjónustuaðilar staðið vaktina varðandi það að byggja upp opnunartíma á veturnar þegar lítið hefur verið að gera á mörgum svæðum.

Komum erlendra ferðamanna fækkaði um 329 þúsund frá árinu 2018 eða um 14% en þetta er í fyrsta skipti sem sést hefur fækkun á níu ára tímabili. Hlutfallslega var fækkunin mest í maí og september sem er einmitt sá tími sem lögð hefur verið áhersla á að byggja upp til að lengja ferðamannatímabilið. Enn er það svo að á stórum hluta landsins er mikil árstíðarsveifla. Á sama tíma erum við að heyra umræðu erlendis frá um að Íslands sé orðið fullt og að ekki sé hægt að bæta fleiri gestum við. Staðreyndin er hins vegar sú að nóg er eftir að vannýttum innviðum vítt og breitt um landið og á mörgum svæðum eru spennandi áfangastaðir nánast ósnertir allt árið. Tækifærin eru því óþrjótandi fyrir ferðaþjónustuna og lykilatriði að byggja hana þannig upp að landið allt hafi ávinning af. Með stóraukinni kröfu ferðamanna um sjálfbæra uppbyggingu og þjónustu er þetta mikilvægara en nokkru sinni fyrr enda hefur dreifing ferðamanna um landið og stýring gríðarleg áhrif á vernd náttúrunnar, öryggi ferðamanna, uppbyggingu atvinnulífs, þjónustu í byggðum og ekki síst ánægju heimamanna.

Samhliða mikilli nýsköpun og þróun ferðaþjónustufyrirtækja er framundan mikil vinna stjórnvalda við að byggja upp samgöngur og innviði í landinu þannig að ferðaþjónustan geti vaxið og dafnað á sjálfbæran hátt. Ferðamenn kalla á að komast á aðra staði og á öðrum tíma heldur en við erum vön. Stöðugt eru að koma í ljós og að þróast áfram nýir áfangastaðir vítt og breytt um landið sem á örskömmum tíma geta orðið gríðarlega vinsælir og kalla á aukna þjónustu og innviði. Með góðu samstarfi stjórnvalda og ferðaþjónustunnar getum við séð þessa stærstu atvinnugrein þjóðarinnar vaxa og dafna á næstu árum og byggt upp grunn að öflugu atvinnulífi og byggð um allt land á sjálfbæran hátt.

Texti: aðsent/ Arnheiður Jóhannsdóttir, talsmaður Markaðsstofa landshlutanna og framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands

Ingvi Örn Friðriksson kjörinn Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2019

Kjör íþróttamanns Dalvíkurbyggðar fór fram við hátíðlega athöfn í Bergi í dag. Það var kraftlyftingamaðurinn Ingvi Örn Friðriksson sem varð fyrir valinu í ár en hann hefur stundað klassískar kraftlyftingar undanfarin ár með stórgóðum árangri. Á þessu ári varð hann til að mynda í landsliði KRAFT, varð í 2. sæti á Reykjavíkurleikunum og Íslandsmeistari í réttstöðulyftu. Hann varð bikarmeistari í sínum þyngdarflokki og á stigum, ásamt því að verða efstur á styrkleikalista 2019.

Aðrir tilnefndir voru eftirtaldir aðilar:

Amanda Guðrún Bjarnadóttir – golf
Andrea Björk Birkisdóttir – skíði
Elín Björk Unnarsdóttir – sund
Svavar Örn Hreiðarsson – hestar
Sveinn Margeir Hauksson – knattspyrna

Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2019
Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2019. Mynd: dalvikurbyggd.is

Einnig voru við þetta tækifæri afhentir styrkir til iðkenda í Dalvíkurbyggð og voru þeir afhentir í eftirfarandi röð:

a) Rebekka Lind Aðalsteinsdóttir vegna ástundunar og árangurs í knattspyrnu.
b) Amalía Nanna Júlíusdóttir vegna ástundunar og árangurs í sundi.
c) Ingvi Örn Friðriksson vegna ástundunar og árangurs í kraftlyftingum.
d) Amanda Guðrún Bjarnadóttir vegna ástundunar og árangurs í golfi.
e) Guðfinna Eir Þorleifsdóttir vegna ástundunar og árangurs á skíðum.
f) Snorri Guðröðarson vegna ástundunar og árangurs í frisbí-golfi.
g) Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir vegna ástundunar og árangurs í knattspyrnu.

Þá var knattspyrnudeild Dalvíkur/Reynis einnig veittur styrkur vegna búnaðarkaupa fyrir afreksþjálfun á nýjum gervigrasvelli.

Ingvi Örn Friðriksson - Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2019

Kennt eftir óveðurskipulagi í Fjallabyggð

Kennt hefur verið eftir svokölluðu óveðurskipulagi í Grunnskóla Fjallabyggðar síðustu tvo daga vegna veðurs. Það þýðir að nemendur mæta í skólann í sinni heimabyggð og hefur skólaakstur fallið niður vegna veðurs.

Einnig féll niður kennsla hjá Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag vegna verðurs en skólaakstur frá Dalvík og Siglufirði féll niður. Nemendur voru beðnir um að læra heima í staðinn.

Lokað til Fjallabyggðar og snjóflóðahætta á Tröllaskaga

Fjölmargir vegir eru nú lokaðir og ófærir á Norðurlandi og slæmt ferðaveður er á svæðinu. Lokað er til Siglufjarðar frá Hofsósi. Lokað er milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Lokað er um Vatnsskarð, Þverárfjall og Öxnadalsheiði. Lokað eru um Víkurskarð. Ófært er milli Blönduóss og Skagastrandar.

Mikil snjóflóðahætta er á utanverðum Tröllaskaga.

Auglýst eftir umsóknum í Menningarsjóð Akureyrar

Akureyrarstofa auglýsir eftir umsóknum í Menningarsjóð Akureyrar fyrir árið 2020. Umsóknir geta verið ferns konar því hægt er að sækja um samstarfssamning, verkefnastyrk, starfslaun listamanna og starfsstyrk ungra listamanna.

Samstarfssamningar
Verkefni sem stuðla að fjölbreyttu menningarlífi á Akureyri. Hægt er að sækja um samstarf til eins, tveggja eða þriggja ára í senn. Upphæðir samstarfssamninga geta verið á bilinu 100.000 – 800.000 kr.

Verkefnastyrkir
Verkefni sem auðga menningarlífið í bænum, hafa ákveðna sérstöðu og fela í sér frumsköpun. Styrkir eru að upphæð 50.000 – 300.000 kr. Einnig verður úthlutað tveimur styrkjum að upphæð 600.000 kr. til stærri verkefna í tengslum við Jónsmessuhátíð, Listasumar eða Akureyrarvöku.

Umsóknarfrestur samstarfssamninga og verkefnastyrkja er til og með 2. febrúar 2020.

Starfslaun listamanna
Umsóknir skulu innihalda greinargóðar upplýsingar um hvernig starfslaunatíminn verður notaður, listferil og menntun. Árið 2020 eru veitt starfslaun að upphæð 2.700.000 kr. sem dreifast jafnt yfir 9 mánuði. Öllum með lögheimili á Akureyri er heimilt að sækja um í eigin nafni.

Sumarstyrkur ungra listamanna
Stjórn Akureyrarstofu hefur ákveðið að í ár verði úthlutað 1-2 styrkjum til ungs og efnilegs listafólks á aldrinum 18-25 ára sem er í framhaldsnámi eða á leið í framhaldsnám í sinni grein. Upphæð hvers styrks verður 600.000 kr. og markmiðið er að viðkomandi geti dregið úr sumarvinnu með námi og þess í stað lagt stund á list sína bæði með æfingum og viðburðum. Á móti styrknum mun viðkomandi koma fram á viðburðum á sumarhátíðum bæjarins, allt eftir nánari samkomulagi við Akureyrarstofu hverju sinni.

Umsóknarfrestur starfslauna og sumarstyrkja er til og með 9. febrúar 2020.

Hagnýtar upplýsingar
Við úthlutun er litið til fjölbreytileika í starfsemi, aldurs þátttakenda, jafnréttis og sýnileika. Upplýsingar um reglur Menningarsjóðs, Samþykkt um starfslaun listamanna og Menningarstefnu Akureyrar má sjá á hér heimasíðu Akureyrarbæjar. Sótt er um rafrænt í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar. Athugið að einungis er hægt að opna umsóknina með íslykli eða rafrænum skilríkjum. Nánari upplýsingar veitir Almar Alfreðsson verkefnastjóri menningarmála í netfanginu almara@akureyri.is.

Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar í Bergi

Kjöri á Íþróttamanni Dalvíkurbyggðar verður lýst við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Bergi þriðjudaginn 14. janúar 2020 kl. 16:00.

Dagskrá:

  • 17:00 Gestir boðnir velkomnir með kaffi og kósýheitum
  • 17:10 Tónlistaratriði frá Tónlistarskólanum á Tröllaskaga
  • 17:15 Fulltrúi íþrótta- og æskulýðsráðs veitir viðurkenningar úr Afreks – og styrktarsjóði Dalvíkurbyggðar
  • 17:35 Íþróttafélögin og Dalvíkurbyggð skrifa undir styrktarsamninga til næstu fjögurra ára.
  • 17:50 Heiðursviðurkenning íþrótta- og æskulýðsráðs afhent
  • 18:00 Fulltrúi íþrótta- og æskulýðsráðs lýsir kjöri Íþróttamanns Dalvíkurbyggðar 2018
  • 18:30 Athöfn lokið

KF gerði jafntefli við Þór

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Þór-2 mættust í Kjarnafæðismótinu seint í gærkvöldi. Þór-2 er skipað leikmönnum 2. flokks Þórs, strákar flestir 18-19 ára og yngri. KF liðið er að mestu skipað heimamönnum auk þess sem nokkrir leikmenn eru á reynslu.

Leikurinn var jafn og einkendist af mikilli baráttu og brotum. Leikmenn Þórs fengu 5 gul spjöld í leiknum og leikmenn KF fengu 2 gul spjöld. Staðan var 0-0 í hálfleik, og strax í byrjun síðari hálfleiks fóru Þórsarar að gera breytingar á sínu liði enda 7 varamenn á bekknum tilbúnir að koma inná.

Fyrsta skipting KF kom á 72. mínútu þegar Björgvin Daði kom inná fyrir Inga Frey. Skömmu síðar kom Helgi Már inná fyrir Atla Frey, en þeir eru leikmenn KA sem eru á reynslu hjá KF. Leiknum leik með 0-0 jafntefli og notaði KF aðeins tvo af sínum fjórum varamönnum í þessum leik.

Nýtt hundasvæði á Sauðárkróki

Í desember 2019 var lokið við uppsetningu á hundasvæði við Borgargerði á Sauðárkróki, á móts við leikskólann Ársali. Svæðið er um 1.400m2 og innan þess er afgirt minna svæði fyrir smærri hunda.

Inni á hundasvæðinu hefur verið komið fyrir borði og bekkjum, tvær ruslatunnur verið settar upp og skilti með umgengisreglum fyrir svæðið. Stefnt er að því að koma fyrir einföldum leiktækjum inni á svæðinu með vorinu í samráði við hundaeigendur.

Svæðið mun vonandi koma hundum og eigendum þeirra að góðum notum og eru notendur svæðisins hvattir til að ganga vel um það og fylgja þeim reglum sem um það gilda.

Búið að opna þjóðveginn eftir rútuslys sunnan Blönduóss

Búið að flytja alla þá farþega sem að voru í hópbifreið sem að valt á þjóðvegi 1, Norðurlandsvegi skammt frá bænum Öxl sunnan við Blönduós. Voru þeir flestir fluttir á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi sem og í fjöldahjálparstöð Rauða krossins. Einnig verða slasaðir fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur. Þjóðvegur 1. var lokaður um tíma en hefur verið opnaður aftur samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni.

Flughálka og óveður er á svæðinu.

Nýtt merki Demantshringsins kynnt í Mývatnssveit

Markaðsstofa Norðurlands kynnt nýtt merki Demantshringsins, Diamond Circle, á opnum fundi á Sel Hótel í Mývatnssveit í dag. Merkið var hannað í samstarfi við Cohn&Wolfe á Íslandi, en sú vinna var leidd af Ingvari Erni Ingvarssyni sem fór yfir ferlið á fundinum. „Við byrjuðum á að skoða hvað hringur er í raun og hvernig hann tengist demanti, hvernig hægt væri að finna samnefnarara fyrir þetta tvennt. Okkar niðurstaða var „eilífð“ og táknið fyrir hana, óendanleikann,“ segir meðal annars í vörumerkjahandbók Demantshringsins. Þetta endurspeglast í merkinu, sem sjá má hér að neðan.

Í dag var einnig kynnt sérstakt kort sem var unnið fyrir verkefnið, en þar er lögð áhersla á fimm lykilstaði á leiðinni; Goðafoss, Mývatn, Dettifoss, Ásbyrgi og Húsavík. Um leið var heimasíðan www.diamondcircle.is tekin í notkun.

Markaðsstofa Norðurlands og Húsavíkurstofa gerðu með sér samstarfssamning í maí á síðasta ári um notkun á heitinu Diamond Circle, sem fól í sér að MN myndi gera greiningu á innviðum á leiðinni, búa til vörumerki og efla markaðssetningu. Í ljósi þess að áætlað er að klára vinnu við lagningu á bundnu slitlagi á Dettifossvegi í sumar skapast enn betra tækifæri fyrir markaðssetningu og þróun ferðaþjónustufyrirtækja sem njóta nálægðar við þær náttúruperlur sem finna má á Demantshringnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.

Map of Diamond circle

Þrettándabrenna og flugeldasýning á Siglufirði

Þrettándabrenna og flugeldasýning Kiwanisklúbbsins Skjaldar í samvinnu við Björgunarsveitina Stráka og 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar verður á Siglufirði laugardaginn 11. janúar.

Blysför verður frá Ráðhústorginu kl. 17:00 að brennu.

Allir hvattir til að mæta í grímubúningum.
Eftir brennu frá kl. 19:00-20:30 verður barnaskemmtun Kiwanis (grímuball) á Kaffi Rauðku.

Tilkynning frá aðalstjórn Tindastóls

Aðalstjórn Tindastóls hvetur knattspyrnuáhugafólk til þess að mæta á opinn fund hjá Knattspyrnudeild Tindastóls á morgun, fimmtudaginn 9. janúar kl. 20:00, í Húsi Frítímans að Sæmundargötu 7 á Sauðárkróki.

Þar sem enn hefur ekki tekist að mynda stjórn er fólk hvatt til þess að mæta og ræða framtíð knattspyrnu hjá Tindastól með jákvæðum hug. Það er undir íbúum Skagafjarðar komið hvernig við mótum framtíð knattspyrnu Tindastóls. Búið er að boða til framhaldsaðalfundar knattspyrnudeildarinnar 16. janúar þar sem efni fundarins er kosning nýrrar stjórnar.

Mjög mikilvægt er að fá fólk til starfa í stjórn þar sem mörg mikilvæg verkefni bíða hennar eins og t.d. undirbúningur Landsbankamóts og Króksmóts ásamt fleiri verkefnum. Ljóst er að það þarf að breyta menningunni í kringum knattspyrnudeild Tindastóls þannig að upplifun fólks af stjórnarstörfum fyrir félagið verði jákvæð. Gagnrýni á rétt á sér ef hún er uppbyggileg. Þegar fólk sér eða vill að eitthvað sé gert, þá er alltaf hægt að bjóða fram aðstoð sína og er það farsællast til árangurs. Framtíð knattspyrnudeildarinnar getur verið björt ef við hjálpumst að og allir leggja eitthvað að mörkum.

Skólahaldi aflýst í Varmahlíð, Hólum og Hofsósi

Skólahald í leik- og grunnskólum fellur niður í Varmahlíð, á Hólum og Hofsósi á morgun miðvikudaginn 8. janúar. Jafnframt verða sundlaugar og íþróttahús á sömu stöðum lokuð.

Ráðgert er að halda skólum opnum á Sauðárkróki en ef það breytist verður sett tilkynning um slíkt á heimasíðu Skagafjarðar.is í fyrramálið og jafnframt send í útvarpið. Foreldrar eru því beðnir um að fylgjast vel með tilkynningum.

Bólusetning gegn hlaupabólu án endurgjalds

Öll börn sem fædd eru 1. janúar 2019 eða síðar eiga nú rétt á bólusetningu við hlaupabólu án endurgjalds. Reglugerð þessa efnis tók gildi 1. janúar síðastliðinn. Reglugerðin kveður einnig á um bólusetningu við kíghósta fyrir sérstaka áhættuhópa og mælir sóttvarnalæknir með slíkum bólusetningum fyrir barnshafandi konur.

Bólusetningum barna er ætlað að verja börn gegn alvarlegum smitsjúkdómum. Í reglugerð um bólusetningar á Íslandi er nú kveðið á um að börnum með lögheimili hér á landi skuli boðin bólusetning við tólf tilgreindum sjúkdómum þeim að kostnaðarlausum, að hlaupabólu meðtalinni. Þetta eru barnaveiki, hettusótt, H. influenzsae b, kíghósti, mænusótt, mislingar, rauðir hundar, stífkrampi, meningókokkasjúkdómur C, pneumókokkasjúkdómur, leghálskrabbamein af völdum HPV veirunnar og hlaupabóla.

Samkvæmt reglugerð um bólusetningar hefur öllum sem eru í sérstökum áhættuhópum og sóttvarnalæknir tilgreinir verið gefinn kostur á bólusetningum gegn pneumókokkasýkingum og gegn árstíðabundinni inflúensu. Með breytingunni sem tók gildi um áramót á það nú einnig við um kíghósta og hefur sóttvarnalæknir sem fyrr segir mælt með bólusetningu við kíghósta fyrir barnshafandi konur. Bólusetning við kíghósta skal vera án endurgjalds.

KF skoraði 7 mörk gegn Samherjum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék við Samherja í B-deild karla í Norðurlandsmótinu um helgina.

KF var mun sterkara liðið í upphafi leiks og braut ísinn strax á 10. mínútu þegar Aksentje Milisic kom KF yfir. Annað mark KF gerði Sævar Þór Fylkisson á 13. mínútu og staðan orðin 2-0 KF í vil . Sævar Þór skoraði svo aftur á 39. mínútu og var staðan 3-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði í raun svipað og sá fyrri þar sem KF menn voru mun sterkari aðilinn. Á 64. mínútu skoraði síðan Aksentje Milisic fjórða mark KF og staðan því orðin 4-0. Á 81. mínútu skoraði síðan Gabriel Rafael 5 mark KF. Á 92. mínútu skoraði Sævar Þór Fylkisson sitt þriðja mark í leiknum og staðan orðin 6-0 fyrir KF. Það var síðan á 93. mínútu í uppbótartíma sem Sævar Gylfason innsiglaði 7-0 sigur KF.

KF var með fjóra varamenn og nokkra menn á reynslu í þessum leik.

KF leikur næst við Þór-2 , föstudaginn 10. janúar kl. 21:15.

Fjallabyggð safnar upplýsingum í kjölfar óveðurs

Í kjölfar óveðursins sem gekk yfir dagana 10.-12. desember 2019 hefur sveitarfélagið Fjallabyggð óskað upplýsingum eftir frá íbúum og fyrirtækjum í Fjallabyggð sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum veðurofsans eða vegna rafmagnsleysisins að senda upplýsingar um það á netfangið fjallabyggð@fjallabyggd.is.

Umbeðnar upplýsingar verða nýttar í greinargerð til átakshóp fimm ráðuneyta og til að gera viðbragðsáætlun fyrir óveður.

Nafnasamkeppni á Norðurlandi

Í nóvember 2019 samþykktu EYÞING, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga sameiningu félaganna þriggja undir hatti nýrra samtaka. Þessi samtök atvinnuþróunar og sveitarfélaga á Norðurlandi eystra efna hér með til nafnasamkeppni um heiti félagsins.

Íbúar á svæðinu eru hvattir til að taka þátt í samkeppninni og finna hentugt og sterkt nafn á félagið. Ekki myndi það spilla ef heitið hefði skírskotun til starfssvæðisins og/eða gæfi með einhverjum hætti til kynna samstarf sveitarfélaganna á svæðinu. Tillögum að heiti félagsins skal skilað inn fyrir kl. 16:00 föstudaginn 10. janúar 2020. Nafnasamkeppnina má nálgast hér.

Listasmiðja með útskriftarnemendum LHÍ heimsækja Siglufjörð

Dagana 14. – 27. janúar verður listasmiðja á Siglufirði með útskriftarnemendum Listaháskóla Íslands í samstarfi við Herhúsið, Svörtu Kríuna og Segul 67. Listasmiðjan er byggð upp með svipuðum hætti og Reitir workshop sem fram fór í Alþýðuhúsinu á Siglufirði á árunum 2012 – 2016. Nemendur kynna sér sögu Siglufjarðar og fá fyrirlestra frá ýmsum skapandi einstaklingum í bænum, Tengjast inná heimili fólks, fara í fyrirtæki og með uppákomum um bæinn.

Nú er að skapast sú hefð að Listaháskóli Íslands sendir útskriftarnemendur sína til Siglufjarðar til að víkka sjóndeildarhringinn, skapa tengsl, efla hópandann og gefa af sér út í samfélagið. Þetta eru fyrstu skref listamannana til sjálfstæðs starfs undir leiðsögn Sindra Leifssonar og Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Áður sendi Listaháskólinn nemendur til Seyðisfjarðar, og var það mikil innspýting skapandi hugsunar í það samfélag. Nú verður byggt upp á Siglufirði og  verður tekið vel á móti ungu listamönnum.

Smiðjan er opin almenningi til að fylgjast með og kynnast fólkinu.

Skagfirðingum fjölgaði um 43 á síðasta ári

Í upphafi árs 2020 voru íbúar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 4.036 samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands sem er fjölgun um 43 íbúa frá sama tíma árið 2019.
Á síðustu fimm árum hefur íbúum Sveitarfélagins Skagafjarðar fjölgað um 125 íbúa eða úr 3.911 árið 2015 í 4.036 árið 2019.

Á Norðurlandi vestra var íbúafjöldi 7.324 í upphafi árs 2020 samanborið við 7.227 íbúa árið 2018. Er það fjölgun um 97 einstaklinga.

Samsýning 12 listamanna í Alþýðuhúsinu

Sýningin Too Much opnaði í Kompunni, Alþýðuhúsinu, í dag kl. 14.00 – 17.00.  Sýningin er samsýning með 12 listamönnum og stendur til 13. janúar.

Listamenn sem taka þátt eru: Will Owen, Mads Binderup, Arnar Ómarsson, Samúel Rademaker, Atlas Ara og Sophieson, Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Freyja Reynisdóttir, Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, Þórir Hermann Óskarsson, Joris Rademaker, Arnfinna Björnsdóttir og Brák Jónsdóttir.

Bæjar- og menningarvefur