Mikill snjóþungi í Fjallabyggð

Talsvert magn af snjó féll í nótt í Fjallabyggð og hafa samgöngur gengið erfiðlega í dag fyrir marga.  Íbúi í Ólafsfirði sendi okkur myndir síðan í dag sem sýnir hversu snjóþungt er nú í miðbæ Ólafsfjarðar og víðar. Stórvirkar vinnuvélar voru út um alla Fjallabyggð í morgun við að hreinsa götur. Hefðbundin kennsla féll niður í Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag.  Enginn skólaakstur var á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar í dag en kennsla fór fram á báðum starfsstöðum grunnskólans.  Björgunarsveitir veittu aðstoð við að moka af þökum í dag í Fjallabyggð.

Ljósmyndir: Jón Valgeir Baldursson. Birtar með leyfi.

 

Ófært og lokað til Fjallabyggðar nema sjóleiðina

Allir vegir eru nú lokaðir til Fjallabyggðar. Ólafsfjarðarmúli er lokaður en lýst hefur verið yfir hættustigi þar.  Ófært er í Héðinsfirði og milli Ketiláss og Siglufjarðar.  Þæfingur og stórhríð er á milli Hofsóss og Ketiláss. Þá er Lágheiðin ófær. Þetta kemur fram á vef Vegagerðinnar.

Snjóþekja, hálka eða hálkublettir og víða mjög mikill skafrenningur og stórhríð á nokkrum leiðum á Norðurlandi.

 

BF kom til baka og vann Álftanes

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék gegn Álftanesi 2 í Benectadeildinni í blaki í dag. Fyrir leikinn hafði Álftanes unnið fjóra leiki en BF aðeins einn og var því búist við erfiðum leik fyrir BF konur.

Leikurinn fór í fimm hrinur og tók tæplega 128 mínútur. Eftir að hafa lent undir 2-1 í hrinum þá komu BF konur sterkar til baka og unnu leikinn 2-3 í oddahrinu.

Í fyrstu hrinu byrjuðu BF konur með látum og komust í 0-4 og 1-9 og tóku þá heimakonur leikhlé. BF hélt öruggu forskoti alla hrinuna og voru betra liðið.  BF komst í 4-13, 6-17 og 10-20.  BF konur gáfu ekkert eftir og unnu fyrstu hrinuna örugglega 16-25.

Í annari hrinu var mikið jafnræði með liðunum og tókst hvorugu liðinu að ná góðu forskoti nema í lok hrinunnar. Jafnt var á tölunum 3-3, 5-5 og 10-10. BF komst þá í 11-14 en Álftanes jafnaði 14-14 og áfram var jafnt á öllum tölum, en BF konur tóku leikhlé í stöðunni 19-18. Jafnt var í stöðunni 20-20 en heimakonur voru sterkari á endasprettinum og unnu hrinuna 25-22 og staðan orðin 1-1.

Þriðja hrina var lík hrinu tvö, en liðin voru jöfn fram eftir hrinu en í lokin voru heimakonur aftur sterkari.  Jafnt var á tölum 4-4, 7-7 og 10-10. Eftir að jafnt var 13-13 þá tóku heimakonur að síga framúr og náðu nokkura stiga forskoti og komust í 16-13 þegar BF konur tóku leikhlé.  Áfram skoraði Álftanes og komust þær í 18-13 og tóku BF konur aftur leikhlé. Heimakonur komust í 20-14 en BF sótti að þeim í lokin og minnkuðu muninn í 20-17 og kom smá spenna í lokin.  Álftanes komst í 24-19 en BF minnkaði muninn í 24-22 og aftur tóku heimakonur leikhlé. BF sótti enn að og jöfnuðu 24-24. Heimakonur áttu síðustu tvö stigin og unnu 26-24 og voru komnar í 2-1.

Í fjórðu hrinu skiptust liðin á að ná 2ja til 3ja stiga forskoti.  Álftanes komst í 3-0 en BF jafnaði í 5-5 og komust yfir 5-8 með góðum kafla. Álftanes jafnaði 8-8 og aftur var jafnt 11-11 og 16-16. BF konur tóku nú völdin og komust í 16-20 og tóku nú heimakonur leikhlé. BF komst í 18-23 og aftur tóku heimakonur leikhlé. Heimakonur skoruðu nú fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 22-23 og í millitíðinni tók BF tvö leikhlé. Nú var það BF sem tók tvö síðustu stigin og unnu  22-25 og jöfnuðu leikinn 2-2.

BF konur voru svo sterkari í oddahrinunni og komust í 0-3 en Álftanes jafnaði í 3-3 og skoraði þá BF fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 3-7 og tóku þá heimakonur leikhlé. Bæði lið héldu áfram að skora og í stöðunni 8-10 tóku BF konur leikhlé og aftur í stöðunni 10-12. BF átti síðustu stigin og unnu 10-15 og leikinn 2-3. Frábær endurkoma hjá stelpunum í BF sem unnu sinn annan leik í deildinni.

 

Rán framið í kjörbúð á Akureyri

Rán var framið í kjörbúð á Akureyri á sjöunda tímanum í morgun. Karlmaður á þrítugsaldri ógnaði tveimur starfsmönnum með hnífi og krafðist þess að fá afhenta peninga úr sjóðsvélum. Er hann hafði fengið peningana hljóp hann á brott frá versluninni. Lögreglumenn á Akureyri fengu upplýsingar af ráninu meðan það var yfirstandandi og gátu brugðist skjótt við. Lögreglan á Norðurland eystra greindi frá þessu.

Unnt var að rekja ferðir mannsins í nýföllnum snjó og ganga að honum þar sem hann hafði falið sig. Maðurinn veitti ekki mótspyrnu við handtökuna en er talinn hafa verið undir áhrifum bæði áfengis og fíkniefna. Var hann vistaður í fangageymslu meðan víman rennur af honum og unnt verður að yfirheyra hann. Peningaupphæðin sem hann rændi var óveruleg.

Rannsókn málsins miðar vel og starfsmönnum verslunarinnar var boðin áfallahjálp. Ekki er talið að maðurinn hafi átt sér vitorðsmenn. Ákvörðun um gæsluvarðhald verður tekin í kvöld.

Kvennalið BF tapaði gegn toppliðinu

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Ými í Fagralundi í Kópavogi í gær í Benectadeildinni í blaki. Lið Ýmis var efst í deildinni og höfðu fyrir þennan leik aðeins tapað einum leik. Lið BF er hins vegar á hinum enda töflunnar og hafði aðeins unnið einn leik fyrir leikinn gegn Ými.

Leikurinn fór í fjórar hrinur og var jafnræði með liðunum í fyrstu tveimur hrinunum.  Í fyrstu hrinu skiptust liðin á að leiða með 2ja-3ja stiga forskoti og var hrinan jöfn og spennandi til loka. Í lok hrinunnar var jafnt á tölum 20-20 og 21-21 en BF konur  voru sterkari í lokin og unnu hrinuna 22-25 og voru komnar í 0-1.

Önnur hrina var lík þeirri fyrstu og skiptust liðin á að leiða með 3ja til 4ja stiga forskoti. Ýmir komst í 3-0 og tóku þá BF konur leikhlé til að stilla saman strengi. BF kom til baka og jafnaði í 4-4 og 8-8 og komst svo yfir 9-12 og tóku nú heimakonur leikhlé. BF hélt forskotinu áfram og leit vel út í stöðunni 10-14 og 12-16. Ýmir skoraði svo fjögur stig í röð og jafnaði 16-16 en BF konur náðu aftur yfirhöndinni og leiddu 16-18 og 18-20. Aftur skoraði Ýmir fjögur stig í röð og voru sterkari í lokin á hrinunni og komust í 22-20 og tóku þá BF konur leikhlé. Ýmir vann hrinuna 25-22 eftir mikla baráttu og vantaði herslu muninn að BF ynni þessa hrinu. Staðan orðin 1-1.

Þriðja hrina var aðeins jöfn í upphafi en svo voru Ýmis konur sterkari og náðu góðu forskoti. Staðan var jöfn 6-6 og höfðu þá BF konur þegar tekið leikhlé en Ýmir skoraði svo átt stig í röð og breyttu stöðunni í 14-6 og BF tók annað leikhlé í þessari spyrpu. Ýmir komst í 20-11 og tóku nú heimakonur leikhlé og gerðu þær tvær skiptingar í lok hrinunnar. Ýmir vann hrinuna nokkuð sannfærandi 25-13 og staðan orðin 2-1.

Í fjórðu hrinu hafði Ýmir einnig yfirburði og tók BF strax leikhlé í stöðunni 2-0 og aftur í 8-3. Ýmir hélt áfram að skora og komust í 14-6 og 20-9.  Ýmir vann svo hrinuna örugglega 25-13 og leikinn 3-1.

 

BF vann bitlausa HKarla

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar gerði góða ferð í Kópavogi í dag, en liðið mætt HKörlum í Benectadeildinni í blaki. HKörlum hefur ekki gengið vel í deildinni og aðeins unnið tvö leiki áður en kom að þessum leik. BF er hins vegar í efri hluta deildarinnar og er liðið á miklu skriði og hefur náð að halda stöðuleika í deildinni.

BF liðið hafði töluverða yfirburði í þessum leik þrátt fyrir að hafa enga varamenn á leikskýrslu. Lið tók að auki ekkert leikhlé í leiknum, sem er nokkuð óvenjulegt.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar í fyrstu hrinu en svo tóku BF menn völdin. HK komst í 2-0 en BF jafnaði 2-2 og jafnt var í stöðunni 5-5. HK komst aftur yfir í 6-5 og var það í síðasta skiptið í hrinunni sem þeir voru í forystu. BF skoraði fjögur stig í röð og komst í 6-9. Lítil mótspyrna var í liði HK í fyrstu hrinu eftir þetta og komst BF í 9-14 og 12-20 og nú tók HK tvö leikhlé með stuttu millibili. Fyrsta hrinan endaði 15-25 og voru yfirburðir BF miklir.

Í annari hrinu komst BF í 0-2 en HK svaraði 2-3 og komu þá sex stig í röð frá BF og breyttu þeir stöðunni í 2-9 og tóku þá heimamenn leikhlé. BF átti nú mjög góðan kafla og keyrðu yfir HK og komust í 5-12 og 6-15. HK svaraði með tveimur stigum og í stöðunni 8-15 komu fjögur stig í röð og var staðan nú orðin 8-19. BF komst í 10-22 og kláruðu hrinuna örugglega 12-25.

Í þriðju hrinu voru BF strákarnir einnig betra liðið en HK komst í 2-1 en BF komu sterkir inn í byrjun og komust í 2-5, 3-7 og 5-10. BF hélt öruggu forskoti út hrinuna og var sigurinn aldrei í hættu. Í stöðunni 11-18 tóku heimamenn leikhlé. BF keyrði áfram og komust í 13-21 og skoraði þá HK fjögur stig í röð og kom smá spenna í lokin í stöðunni 17-21. BF vann þó hrinuna 18-25 og leikinn 0-3.

Dalvík/Reynir styrkir sig með tveimur erlendum leikmönnum

Knattspyrnudeild Dalvíkur/Reynis hefur samið við tvo spænska leikmenn og munu þeir því leika með liðinu í 2. deildinni í sumar. Alberto Aragoneses er markmaður fæddur árið 1993 og er með talsverða reynslu og kemur frá spænska liðinu SAD Villaverde San Andrés. Frá þessu er greint á vef dalviksport.is.

Borja López Laguna miðjumaður fæddur árið 1994 og getur spilað fjölbreyttar stöður á miðjunni. Hann er hávaxinn og líkamlega sterkur og kemur frá spænska liðinu S.D Canillas. Hann kemur í gegnum unglinga-akademíur Rayo Vallecano og Real Madrid.

Fyrsti leikur Dalvíkur/Reynis á Íslandsmótinu í vor verður útileikur gegn Þrótti Vogum, 4. maí.

Mynd: dalviksport.is

Von á 161 skemmtiferðaskipi til Akureyrar

Alls hafa 161 skemmtiferðaskip tilkynnt um komu sína til Akureyrar í sumar, en síðasta sumar voru þetta 138 skip og er því talsverð aukning af skipum í ár. Reiknað er með um 160 þúsund farþegum til Akureyrar með skemmtiferðaskipum en á síðasta ári voru farþegar rétt innan við 128 þúsund.  Skipin koma á tímabilinu maí fram í október.

Stærsta skemmtiferðaskip sumarsins kemur síðan til Akureyrar 30. maí en það er Norwegian Getaway með rétt um 4.000 farþega og 1.646 manna áhöfn.

Í Grímsey er von á 41 skemmtiferðaskipi og 6 til Hríseyjar.

Skipum fjölgar líka í Hrísey en síðasta ár voru 29 skemmtiferðaskip, en fækkun er í Hrísey, en þar voru á síðasta ári 12 skip.

 

Frítt í badminton á sunnudögum í Dalvíkurbyggð

Íþróttamiðstöðin á Dalvík tekur þátt í heilsueflandi samfélagi og býður íbúum Dalvíkurbyggðar að mæta í badminton á sunnudögum frá 13:00-14:00. Börn undir 14 ára verða að vera í fylgd með fullorðnum. Ekki er um kennslu að ræða heldur möguleika á að nýta aðstöðu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Dalvíkurbyggð. Um er að ræða frían viðburð.

Klassík í Bergi

Þá er komið að síðustu tónleikunum í tónleikaröðinni Klassík í Bergi, sem haldnir verða laugardaginn 16. febrúar klukkan 16:00 í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík.

Jón Svavar Jósefsson barítón  og Guðrún Dalía Salómonsdóttir píanóleikari flytja ljóð og lög um veturinn en hugsa þó hlýtt til sumarsins.

Guðrún Dalía Salómonsdóttir stundaði píanónám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónlistarháskólann í Stuttgart og hjá Thérèse Dussaut í París.

Jón Svavar Jósefsson er Akureyringur en á rætur að rekja til Dalvíkur. Jón útskrifaðist frá Tónlistarskóla Garðabæjar og hélt þaðan til Vínarborgar og lauk námi við óperudeild Universität für Musik und darstellende Kunst Wien.

Miðasala við innganginn.

Verð 3.500.- Frítt fyrir 18 ára og yngri.

 

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Spennandi starf hjá Dalvíkurbyggð

Dalvíkurbyggð leitar eftir einstaklingi sem er tilbúinn að þróast áfram í starfi og aðlaga sig að breyttu starfsumhverfi á hverjum tíma. Viðkomandi þarf að vera tilbúinn að takast á við fjölbreytt og krefjandi starf. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Umsóknarfrestur er til 26. febrúar.  Nánari upplýsingar má finna á vef Dalvíkurbyggðar.

Starfssvið

  • Ritstjórn heimasíðu og umsjón með vefmiðlum.
  • Tekur þátt í uppbyggingu á rafrænni stjórnsýslu og upplýsingatækni.
  • Markaðssetning á Dalvíkurbyggð og gerð kynningarefnis.
  • Almenn upplýsingagjöf í þjónustuveri.
  • Starfsmaður atvinnumála- og kynningarráðs.
  • Móttaka og skráning reikninga.
  • Þátttaka í stefnumótun.
  • Ýmis tímabundin verkefni.

Vilja að Fjallabyggð kaupi Arion banka húsið í Ólafsfirði

H-listinn í Fjallabyggð hefur lagt fram tillögu um að sveitarfélagið fari í viðræður við Arion banka um hugsanleg kaup á húsnæði bankans í Ólafsfirði. Ef af verður megi flytja bókasafn, fundaraðstöðu og aðstöðu deildarstjóra Fjallabyggðar úr Ólafsvegi 4 þar sem aðgengi er óásættanlegt og aðstaða ekki nægilega stór. Tillaga H- listans gerir ráð fyrir að áfram verði leigð út skrifstofurými á annarri hæð ásamt því að starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Neon eða listaverkasafn Fjallabyggðar verði staðsett á 3. hæð hússins. Þá er gert ráð fyrir að starfsemi héraðsskjalasafns eða að minnsta kosti hluti hennar flytjist í Ólafsfjörð. Húsnæði að Ólafsvegi 4 yrði selt.

Ekki er gert ráð fyrir kaupum á húsnæðinu né flutningi bókasafns eða annara safna Fjallabyggðar á fjárhagsáætlun ársins 2019. Ásett verð eignarinnar sem um ræðir er 76 milljónir króna.

Meirihluti bæjarráðs lagði þó til á sama fundi að stofnaður yrði vinnuhópur um framtíðarhúsnæði fyrir félagsmiðstöðina Neon og að skoðaður yrði kostnaður vegna kaupa á húsnæði Arion banka í Ólafsfirði, hönnunar og lagfæringar á húsnæði Arion banka.  Einnig að gert verði mat á söluverðmæti húseignar að Ólafsvegi 4.

 

202 nemendur í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga

Alls eru 202 nemendur á vorönn í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga.  Skólinn starfar bæði í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Enginn er á biðlista eftir námi á vorönn. Þá starfa 15 kennarar í 11,6 stöðugildum við skólann. Uppskeruhátíð skólans fer fram 14. mars næstkomandi. Skólanefnd Tónlistarskólans á Tröllaskaga hittist í lok síðustu viku og ræddi breytingar á samstarfssamningi sveitarfélagana um rekstur skólans.

Heilt nám fyrir börn í skólanum kostar 75.902 kr. og hálft nám 50.801 kr.

Skólinn var stofnaður 1. ágúst 2016.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Ólafsfirði

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins tók daginn snemma í logninu í Ólafsfirði á frábærum morgunfundi sem hófst kl. 08:15 í morgun í Menningarhúsinu Tjarnarborg.

Hluti þingflokksins tók daginn þó mun fyrr og mætti kl. 06:45 í tíu stiga frosti í sundlaugina í Ólafsfirði þar sem púlsinn var tekinn á bæjarbúum í heita pottinum, en talsverður fjöldi var þennan morgun í sundi.

Þingflokkurinn fékk frábærar móttökur á Ólafsfirði og átt gefandi og uppbyggilegt samtal við íbúa Fjallabyggðar um hin ýmsu málefni. Fundurinn var fjölmennur og setið við öll borð þar sem þingmenn hittu íbúa og ræddu um það sem skiptir máli.

Meðal þess sem rætt var eru fiskeldismál, kvótamál, starfsstöð Alþingis í Fjallabyggð, vegagjöld, ferðamál og atvinnumál almennt, samgöngumál, rafræn stjórnsýsla, opinber störf á landsbyggðinni, menntamál og aukið vægi iðnnáms, nýsköpunarmál, sifjamál og fleira.

Þetta er í fyrsta skipti sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ferðast allur saman í kjördæmi landsins í kjördæmaviku Alþingis. Þingflokkurinn mun í ferð sinni heimsækja alls um 50 staði á landinu, ýmist með opna fundi eða vinnustaðaheimsóknir.

Þingflokkurinn heimsótti einnig Dalvíkinga, Akureyringa, Mývetninga Húsvíkinga í dag.

Æfa viðbrögð við snjóflóð í Hlíðarfjalli

Í kvöld, mánudagskvöldið 11. febrúar, ætla viðbragðsaðilar í Eyjafirði ásamt starfsmönnum í Hlíðarfjalli að æfa viðbrögð við því að snjóflóð hafi fallið inni á skíðasvæðinu og á skíðafólk. Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá þessu.

Æfingar sem þessi hafa verið haldnar nokkrum sinnum áður og eru nauðsynlegar til að efla þekkingu og samstarf allra sem koma að verkefni sem þessu sem og að auka líkur á farsælum árangri fyrir þolendur ef aðstæður sem þessar kæmu upp.

Æfingin hefst um kl. 18:00 og þarf fólk ekkert að óttast þó svo að það verði vart við fjölmennan hóp viðbragðsaðila á leið í Hlíðarfjall á þeim tíma.

Image may contain: one or more people and outdoor

Rótarýdagurinn í Ólafsfirði í samvinnu með MTR

Laugardaginn 23. febrúar næstkomandi mun Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar halda hinn árlega Rótarýdag líkt og aðrir klúbbar í íslenska umdæminu. Í ár verður dagurinn í samvinnu við Menntaskólann á Tröllaskaga, sem verður með fjölskyldudag fyrir alla aldurshópa í skólanum þann dag og kynnir þar starfsemi sína, aðstöðu og töfraheima tækninnar sem þar er í boði.
Rótarýdagurinn er ætlaður til að kynna starf hreyfingarinnar og hefur Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar nýtt daginn til þess og einnig til að opinbera og afhenda ýmsa styrki til framfaraverkefna í samfélaginu.

Samstarf Skíðafélags Dalvíkur og grunnskólans

Skíðafélag Dalvíkurbyggðar og Grunnskóli Dalvíkurbyggðar vinna nú að samstarfsverkefni sem kallast “1. bekkur á skíði”, en þá koma nemendur úr fyrsta bekk í leikfimistímanum á skíði ásamt kennurum sínum. Skíðafélag Dalvíkur lánar búnað fyrir þá sem ekki eiga, og aðstoð við kennslu.

Í vikunni var einnig mikið líf og fjör í Böggvisstaðafjalli en Dalvíkurskóli hélt nýlega útivistardaga fyrir miðstig og elsta stig skólans.

Myndir frá Skíðafélagi Dalvíkur, skidalvik.is

Fjarðargangan er í dag

Fjarðargangan er í dag í Ólafsfirði og hefst hún kl. 11:00. Um 150 keppendur taka þátt og var uppselt í gönguna. Íbúar eru hvattir til að mæta og styðja við keppendur. Klukkan 16:00 verður kaffisamsæti og verðlaunaafhending í menningarhúsinu Tjarnarborg.

Dagskrá í dag:

08:00 Smurningsaðstaða opnar í Íþróttahúsinu
08:00-10:30 Afhending númera í Íþróttahúsinu. Mikilvægt að mæta snemma!
10:00 Fundur með keppendum í smurningsaðstöðu
11:00 Start
16:00 Kaffisamsæti og verðlaunaafhending fyrir keppendur og starfsmenn í Tjarnarborg

Listahátíðin Skammdegi haldin í fimmta sinn

Árlega listahátíðin Skammdegi verður nú haldin af Listhús SES í Fjallabyggð í fimmta sinn og stendur hún í fjóra daga.
Hátíðin hefst fimmtudaginn 14. febrúar, og lýkur á sunnudeginum 17. febrúar með lokaathöfn.
Sýningar verða víða í Ólafsfirði, og verður hægt að skoða dagskrána á heimasíðunni http://skammdegifestival.com/
og viðburðasíðu á Facebook undir titlinum “Skammdegi Festival 2019”.
Á listhátíðinni verður boðið upp á sýningar, gjörninga og viðburði með 16 listamönnum frá 8 löndum, sem hafa dvalið í Ólafsfirði síðustu tvo mánuði, og upplifað myrkasta tímabil vetursins, “Skammdegi”

Listamenn eru:
Andrey Kozakov – Úkranía
Angela Dai – Kína
Annie Edney – Ástralía
Clara de Cápua – Brasilía
Dagrún Matthíasdóttir – Ísland
Danielle Galietti – Bandaríkin
Dannie Liebergot – Bandaríkin
Guðrún Mobus Bernharðs – Ísland
Hollis Schiavo – Suður Kórea
Ingi Þ. Reyndal – Ísland
Lára Stefánsdóttir – Ísland
Matthew Runciman – Kanada
Santiago Ortiz-Piazuelo – Kólumbía
Sheryl Anaya – Bandaríkin
Sigurður Mar Halldórsson – Ísland
Teresa Cheung – Kína

Image may contain: text

BF vann Völsung 3-0 á Siglufirði

Völsungur heimsótti Blakfélag Fjallabyggðar í gær en liðin léku í 1. deild karla í blaki í íþróttahúsinu á Siglufirði. Fyrir leikinn var Völsungur í neðsta sæti og voru enn án sigurs en BF var í efri hluta deildarinnar. Völsungur kom með fámennt lið til Siglufjarðar og var enginn varamaður á bekknum hjá þeim. BF var með góðan hóp í þessum leik, en 10 leikmenn voru klárir.

Fyrsta hrina var ansi löng og stóð í 36 mínútur. Leikurinn var nokkuð jafnt þar til líða fór á hrinuna, en þá tókst BF að ná um öruggu forskoti. Jafnt var á tölunum 3-3, 6-6 og 11-11. Eftir þennan kafla tókst BF að ná upp 3ja-4ja stiga forskoti og hafði yfirhöndina. BF komst í 16-12 og 20-16 og tók þá Völsungur leikhlé til að reyna komast aftur inn í leikinn. Í stöðunni 20-17 skoraði BF fjögur stig í röð og lagði grunninn að sigrinum í hrinunni. BF vann hrinuna 25-18 og var komið í 1-0 í leiknum.

Í annari hrinu þá byrjaði BF betur og komst í 5-1 og 10-4 en þá tók Völsungur leikhlé.  BF komst í 12-6, 15-9 og 19-11. Erfiðlega gekk að sækja síðustu stigin hjá BF en Völsungur kom til baka og skoraði sex stig í röð og minnkuðu muninn í 22-20 og þá tóku heimamenn leikhlé.  BF átti svo síðustu þrjú stigin og vann hrinuna að lokum 25-20 og var staðan orðin 2-0.

Í þriðju hrinu var meira jafnræði mest alla hrinuna og tókst BF ekki að ná upp forskoti fyrr en leið á hrinuna. Jafnt var á tölunum 3-3, 5-5 og 8-8. Í stöðunni 11-11 tókst BF að sigla aðeins framúr og komust í 14-11 og loks 18-15.  Áfram sótti BF stigin og komst í 22-17 með góðum kafla og tóku þá gestirnir leikhlé. Smá spenna kom upp í lokin en Völsungur minnkaði muninn í 24-22 en lengra náðu þeir ekki og heimamenn unnu sanngjarnan sigur 25-22 og 3-0.

BF komst í annað sæti deildarinnar með þessum sigri en liðin fyrir neðan hafa leikið færri leiki.

 

Bæjar- og menningarvefur