BF og Vestri mættust í 5 hrinu leik á Siglufirði

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar og Vestri mættust í Íþróttahúsinu á Siglufirði í dag í Benecta deildinni í blaki.  Úr varð langur og jafn leikur sem endaði í fimm hrinum í maraþon viðureign.

BF byrjaði fyrstu hrinuna með ágætum og komst í 5-1 og 9-4 og voru spilið að ganga vel upp. Í stöðunni 12-6 þá tók þjálfari Vestra leikhlé enda gekk liðinu ekki vel gegn heimaliðinu. BF komst í 21-13 og var útlit fyrir að liðið myndi vinna fyrstu hrinuna örugglega, en Vestra-vélin hrökk í gang og skoraði fjögur stig í röð og breytti stöðunni í 21-17.  BF tók leikhlé og komst í 24-18 og var hársbreidd frá að klára leikinn, en Vestra konur gerðu hið ómögulega og skoruðu 8 stig í röð og unnu óvænt fyrstu hrinuna, 24-26. Þjálfari BF tók leikhléi í stöðunni 24-21 ,en allt kom fyrir ekki.

Önnur hrina var líka jöfn og spennandi og byrjaði Vestri núna með ágætum og komst í 1-4 en BF komst fljótt inn í leikinn og tók forystu og leiddu mestallan tímann og komust í 6-4 og 12-9 og tók þá Vestri sitt fyrsta leikhlé í hrinunni. Jafnræði var með liðunum í framhaldinu og var staðan jöfn í 14-14 og 16-16 en þá tók BF öll völdin á vellinum.  BF stelpur skoruðu nú 7 stig í röð og lögðu grunninn af sigri í hrinunni í stöðunni 23-16. Vestri minnkaði muninn í 24-19, en núna tókst BF stelpum að klára síðasta stigið og unnu 25-19 og var staðan orðin 1-1.

BF stelpur komu einnig öflugar til leiks í þriðju hrinu og byrjuðu með krafti og komust í 7-1 og tók þjálfari Vestra strax leikhlé. Vestri minnkaði muninn í 10-5 og 11-10 og með góðum kafla komust þær yfir 14-15. Mikil orka fór í þennan kafla hjá Vestra og voru BF stelpurnar mun öflugri til loka hrinu og komust í 24-17 og unnu örugglega 25-20, og voru komnar í 2-1.

Fjórða hrinan var einnig jöfn og spennandi og leiddi BF fyrri partinn en þær komust í 9-7 og 12-7 en Vestri tók þá tvö leikhlé með stuttu millibili. Í stöðunni 17-14 skoraði Vestri fimm stig í röð og komust yfir í stöðunni 17-19. Jafnt var í 19-19 en Vestri var sterkari á lokakaflanum og unnu 20-25 og var staðan orðin 2-2 í þessum æsispennandi leik.

Leikurinn fór í oddahrinu sem var gríðarlega jöfn og spennandi og fór í margfalda upphækkun.  Vestri hafði undirtökin í upphafi og komst í 4-11 en BF minnkaði muninn í 10-12 og neituðu að gefast upp. Aftur var Vestri hársbreidd frá sigri en þær voru komnar í 10-14 og þurftu aðeins eitt stig til viðbótar. BF stelpur skoruðu þá fimm stig í röð og komust yfir 15-14 og þurftu þær nú aðeins eitt stig til að sigra leikinn. Mjög jafnt var á öllum næstu tölum og í stöðunni 21-21 náði Vestri tveimur dýrmætum stigum í röð og unnu hrinuna 21-23 og leikinn 2-3.

Gríðarlega svekkjandi tap hjá BF í þessum jafna og spennandi leik.

Óskað eftir tilboðum viðbyggingu leikskólans á Hofsósi

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur óskað eftir tilboðum í verkið Leikskóli á Hofsósi –  Viðbygging GAV – Útboð 2019.  Um er að ræða viðbyggingu við grunnskólann á Hofsósi, sem mun hýsa starfsemi leikskólans á staðnum, stærð um 206 m2.

Í verkinu felst uppsteypa og fullnaðarfrágangur byggingarinnar.
Um er að ræða steypt hús á einni hæð með flötu þaki, einangrað að utan og klætt með lituðu áli, gluggar og hurðir eru úr áli.

Lóðarfrágangur er ekki innifalinn í verkinu.

Útboðsgögn verða afhent á rafrænu formi frá og með föstudeginum 8. nóvember. Óska skal eftir útboðsgögnum í tölvupósti á netfangið atli@stodehf.is.

Opnunartími tilboða er 5. desember.

Ráðinn byggingafulltrúi hjá Sveitarfélaginu Skagafirði

Einar Andri Gíslason hefur verið ráðinn í starf byggingarfulltrúa hjá sveitarfélaginu Skagafirði til eins árs.

Einar Andri er menntaður byggingarfræðingur frá VIA University College í Horsens í Danmörku, ásamt því að vera með sveins- og meistarabréf í húsasmíði. Hann hefur starfað hjá sveitarfélaginu frá árinu 2010 sem starfsmaður skipulags- og byggingafulltrúa og hefur því mikla innsýn og þekkingu á mannvirkjalögum, byggingareglugerð og öðrum þeim reglum sem falla undir starfssvið byggingarfulltrúa.

Einar Andri mun taka til starfa sem byggingarfulltrúi þann 1. desember af Jóni Erni Berndsen sem gegnt hefur starfi skipulags- og byggingarfulltrúa undanfarin ár. Jón Örn mun frá og með þeim tíma gegna starfi skipulagsfulltrúa þar til ráðið hefur verið í það starf.

Einar Andri Gíslason
Mynd:skagafjordur.is

Heba – Hár og Hönnun opnar á Siglufirði

Nýtt fyrirtæki, Heba – Hár og Hönnun opnar á Siglufirði í desember.  Fyrirtækið hét áður Hárgreiðslustofa Sirrýjar en unnið hefur verið að þessum breytingum undanfarnar vikur. Heba – hár og hönnun opnar formlega mánudaginn 2. desember að Aðalgötu 9 á Siglufirði. Þar verða til sölu hinar ýmsu hárvörur sem og aðrar vörur.

Nýr starfsmaður, Fannar Leósson, tekur á móti viðskiptavinum en hann hefur 22 ára reynslu í faginu og hefur sett upp ótal hársýningar og haldið ótal námskeið. Hann hefur störf mánudaginn 25. nóvember næstkomandi og tekur að sér bæði konur og karla.
Formleg opnun verður þó 2. desember og verða þá ýmis opnunartilboð í gangi.

Tímabókanir eru í síma 837-1233 á virkum dögum á milli kl. 10:00-16:00.

 

Vilja fella niður vistunargjald leikskólabarna milli jóla og nýárs

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar vill athuga möguleika á því að koma til móts við barnafjölskyldur í Fjallabyggð á þá vegu að fella niður vistunargjald Leikskóla Fjallabyggðar fyrir föstudaginn 27. desember og mánudaginn 30. desember ef foreldrar kjósa að hafa börn sín í fríi þá daga.

Bæjarráð Fjallabyggðar mun fjalla nánar um málið á næsta fundi.

Yfirlýsing Samherja – Þorsteinn Már stígur tímabundið til hliðar

Forstjóri og stjórn Samherja hafa komist að samkomulagi um að forstjóri félagsins, Þorsteinn Már Baldvinsson, stígi tímabundið til hliðar þar til helstu niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.

Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandair Group, hefur tekið tímabundið við stöðu forstjóra Samherja. Á komandi dögum mun Björgólfur leggja áherslu á að hitta starfsfólk og helstu hagsmunaaðila.

Yfirstandandi rannsókn, sem er í höndum alþjóðlegu lögmannsstofunnar Wikborg Rein, mun halda áfram og mun Wikborg Rein heyra beint undir stjórn félagsins.

Hjá Samherja starfa um 850 manns á Íslandi og fjöldi manns erlendis. Við tökum þetta mikilvæga skref til að tryggja sem best hlutleysi rannsóknarinnar. Við viljum stunda heiðarleg viðskipti og leggjum okkur fram um að starfa í samræmi við gildandi lög og reglur”, segir Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja.

Til þessa hafa engin yfirvöld haft samband við Samherja en við munum að sjálfsögðu starfa með þeim stjórnvöldum sem kunna að sýna starfsemi Samherja á Íslandi, í Namibíu eða annars staðar áhuga.

„Samherji gegnir mikilvægu hlutverki í sjávarútvegi á alþjóðavísu og berum við ábyrgð gagnvart okkar fólki og viðskiptavinum. Ég er dapur yfir þessum kringumstæðum en ég mun gera mitt besta að gæta hagsmuna Samherja og starfsfólksins”, segir Björgólfur Jóhannsson.

Ekki er að vænta frekari umfjöllunar af hálfu Samherja fyrr en staðreyndir úr ofangreindri rannsókn taka á sig skýrari mynd.

Yfirlýsing frá Samherja vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins

Vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins um starfsemi Samherja í Namibíu vill Samherji koma eftirfarandi á framfæri:

„Það voru okkur mikil vonbrigði að komast að því að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Samherjafélaganna í Namibíu, virðist hafa tekið þátt í gagnrýniverðum viðskiptaháttum og hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunna að vera ólögmæt,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, eftir þátt Ríkisútvarpsins þar sem margvíslegar ásakanir komu fram á hendur fyrirtækinu.

Jóhannesi Stefánssyni var sagt upp störfum á árinu 2016 eftir að hann misfór með fé og hegðaði sér með óforsvaranlegum hætti. Nú hefur hann viðurkennt að hafa tekið þátt í ólöglegri starfsemi á meðan hann stýrði dótturfélögum Samherja í Namibíu.

Þar til nýlega höfðum við enga vitneskju um umfang og eðli þeirra viðskiptahátta sem Jóhannes stundaði og óvíst er hvort þeir hafi verið raunverulega með þeim hætti sem hann lýsir. Eins og við höfum þegar greint frá höfum við ráðið alþjóðlegu lögmannsstofuna Wikborg Rein í Noregi til að rannsaka starfsemina í Namibíu. Í þeirri rannsókn verður ekkert undanskilið og munum við upplýsa um niðurstöður hennar þegar þær liggja fyrir.

„Okkur er illa brugðið. Ekki einungis við það að Jóhannes staðhæfi að hann hafi tekið þátt í starfsemi af því tagi sem hann lýsir en ekki síður að hann skuli einnig beina ásökunum sínum að fyrrum samstarfsfólki sínu hjá Samherja. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við könnumst við,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson.

Samherji hefur 35 ára farsæla viðskiptasögu víða um heim. Við höfum ávallt lagt okkur fram við um að starfa í samræmi við lög og reglur á hverjum stað. Samherji mun, hér eftir sem hingað til, starfa með hlutaðeigandi stjórnvöldum sem kunna að rannsaka umrædd viðskipti í namibískum sjávarútvegi. Ef slík rannsókn mun eiga sér stað hefur Samherji ekkert að fela.

thor7820_klippt_litil___640

Yfirlýsing frá Samherja

Við höfum orðið þess áskynja að fyrrverandi stjórnandi Samherja í Namibíu, Jóhannes Stefánsson, hafi farið til fjölmiðla og lagt fram alvarlegar ásakanir á hendur núverandi og fyrrverandi stjórnendum Samherja. Við tökum þessu mjög alvarlega og höfum ráðið alþjóðlegu lögmannsstofuna Wikborg Rein í Noregi til að framkvæma ítarlega rannsókn á starfseminni í Afríku. Þar til niðurstöður þeirrar rannsóknar liggja fyrir munum við ekki tjá okkur um einstakar ásakanir.

Við höfum sérstaklega óskað eftir að fá að setjast niður með Ríkisútvarpinu og fara yfir upplýsingar sem við teljum skipta máli í tengslum við fyrirhugaða umfjöllun. Þeirri beiðni hefur jafnharðan verið hafnað og hefur Ríkisútvarpið aðeins talið sér fært að ræða við okkur fyrir framan myndavélar. Teljum við þær upplýsingar sem við búum yfir vera með þeim hætti að slíkt væri tillitslaust vegna hagsmuna þeirra einstaklinga sem málið varðar.

„Öll starfsemi Samherja og tengdra félaga var undir ítarlegri rannsókn árum saman án þess að nokkuð athugavert hafi fundist. Var allt okkar bókhald, tölvupóstar og öll önnur gögn skoðuð ítarlega, þar með talið þeirra félaga sem sinntu útgerð við strendur Afríku frá árinu 2007. Við munum ekki nú, frekar en þá, sitja undir röngum og villandi ásökunum frá fyrrverandi starfsmanni sem enn á ný eru matreiddar af sömu aðilum og fjölmiðlum og í Seðlabankamálinu,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Það sem við teljum rétt að koma á framfæri á þessum tímapunkti er að þegar við urðum þess áskynja í ársbyrjun 2016 að ekki væri allt með felldu í rekstrinum í Namibíu sendum við fyrrverandi rannsóknarlögreglumann hjá sérstökum saksóknara til Namibíu. Eftir nokkurra mánaða vinnu hans var niðurstaðan að segja umræddum starfsmanni upp störfum án tafar vegna óásættanlegrar framgöngu hans og hegðunar. Mikill tími hefur farið í að ná tökum á rekstrinum en starfsmaðurinn fyrrverandi hefur samhliða, beint og ásamt samstarfsmönnum sínum, krafist hárra fjárhæða frá Samherja.

Samherji hefur lagt sig fram um að vinna í samræmi við lög og reglur sem gilda í þeim löndum sem félagið starfar í. Höfum við í því samhengi unnið náið með stjórnvöldum í Namibíu, bæði með skattyfirvöldum og Seðlabanka Namibíu. Má þar nefna að frá síðari hluta árs 2016 hefur öllum virðisaukaskattskyldum fyrirtækjum í Namibíu verið skylt að fara í gegnum  ítarlega skoðun hjá skattyfirvöldum á tveggja mánaða fresti þar sem allir reikningar eru yfirfarnir. Á það við um okkar félög eins og öll önnur fyrirtæki í Namibíu.

Frá því að við hófum starfsemi í Namibíu hefur legið fyrir að um tímabundinn rekstur sé að ræða. Gerðir voru samningar við ýmsa kvótahafa, allt frá samningum til örfárra mánaða til fimm ára en umræddir samningar eru nú allir útrunnir. Þá hafa namibísk stjórnvöld unnið að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu á undanförnum árum með það fyrir augum að draga úr notkun frystitogara og auka vægi landvinnslu ásamt því að leggja aukna áherslu á að eignarhald og stjórnun sé í höndum innlendra aðila. Í því skyni hefur eitt skip þegar verið selt og viðræður staðið yfir frá byrjun þessa árs um sölu á öðrum rekstri Samherja í Namibíu til þarlendra aðila.

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Samherji_yfirlitsmynd
Mynd: samherji.is

 

Kvennalið BF sigraði Þrótt örugglega

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Þrótti Reykjavík í Benecta deildinni í blaki. Reykjavíkur Þróttur spilar einnig í Mizuno deildinni en hafa b-lið í 1. deildinni. Þróttur hafði fengið lengra frí en þær léku síðast 6. nóvember við AftureldinguX og töpuðu þar 3-0. BF mætti hins vegar Álftanesi-2 í gær og sigruðu 1-3 og var því mun þéttara á milli leikja hjá þeim en Þrótti þessa helgina. Liðin er álíka sterk og var búist við jöfnum leik í Laugardalshöll.

Fyrsta hrina var jöfn og skiptust liðin að leiða með nokkra stiga forskoti þar til undir lok hrinunnar. Þróttur komst í 9-4 með góðu spili en BF jafnaði 9-9.  Aftur var jafnt 13-13 og tók þjálfari BF leikhlé en hann var óhress með gang mála á þessum tímapunkti. Þróttarar áttu gott spil og komust í 21-15 og aftur tók BF leikhlé. Kom núna frábær kafli hjá BF sem voru þéttar fyrir og áttu góðar móttökur og kláruðu sóknirnar vel en þær skoruðu 8 stig á móti 1 á þessum kafla og breyttu stöðunni í 22-23 og var gríðarleg spenna síðustu mínúturnar á hrinunni og langar sóknir. Jafnt var í 24-24 en BF var sterkara í blálokin og skoruðu síðustu stigin og unnu 24-26 eftir mikla baráttu og voru komnar í 0-1.

Önnur hrina var líka jöfn en var BF ívið sterkara liðið í heildina og áttu gott spil og heilt yfir fínar móttökur og sóknir. Þróttur komst í 4-2 og 8-4 en BF minnkaði muninn í 9-8. BF komst betur inn í leikinn og komust í  13-15 og 16-17 og tók þá þjálfari BF leikhlé.  Þróttur komst í 20-19 með góðum leik en BF stelpurnar gáfust ekki upp og skoruðu fjögur stig í röð og komust í 20-24. Þróttur náði ekki að minnka muninn og BF vann hrinuna örugglega 21-25.

Þróttur byrjaði af krafti í þriðju hrinu og komust í 5-0 áður en BF náði að jafna 6-6 og komast yfir 6-11 með því að skora tíu stig í röð með frábærum kafla. Það var eins og Þróttarastelpurnar brotnuðu við þetta og BF náði öruggri forystu og leiddu 9-20 eftir að hafa skorað önnur 9 stig í röð. Þróttur klóraði aðeins í bakkann og minnkuðu muninn í 13-22 en BF tók síðustu stigin og unnu örugglega 13-25 og leikinn 0-3.

Annar frábær útisigur hjá BF stelpunum þessa helgina og ekki að sjá að þær væru þreyttar eftir leikinn í gær.

 

 

Kvennalið BF vann frábæran sigur á Álftanesi

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti út á Álftanes í dag og spilaði gegn Álftanesi 2 í Benecta deildinni.  Liðin mættust á Siglufirði í september og vann þá Álftanes 1-3. Liðið hefur byrjaði mótið vel og unnið 4 af fyrstu 6 leikjunum á meðan BF hefur átt mun erfiðari byrjun og var aðeins búið að vinna einn leik af fyrstu 5.

BF stelpurnar voru sannfærðar að hefna fyrir tapið á Siglufirði í fyrri leik liðanna. Það var þó Álftanes sem byrjaði fyrstu hrinuna mun betur og komust í 5-1, 9-4 og 12-6.  Álftanes tók leikhlé í stöðunni 17-11 og BF aftur í stöðunni 21-13. BF komst aldrei almennilega í takt við leikinn í þessari hrinu og Álfanes unnu hrinuna sannfærandi 25-14.

Álftanes komst í 2-0 og var það í eina skiptið sem liðið hafði forystu í þessari hrinu.  BF stelpur komu mjög sannfærandi til baka í þessari hrinu og svöruðu fyrir slaka fyrstu hrinu. BF minnkaði muninn í 2-4 og jók forystuna í 5-9 og 8-14. BF lék vel í þessari hrinu og átti Álfanes í erfiðleikum með sóknirnar hjá BF. Í stöðunni 16-22 tóku heimakonur leikhlé, en BF kláraði hrinuna af öryggi og unnu 17-25 og jöfnuðu leikinn í 1-1.

BF byrjaði frábærlega í þriðju hrinu og komust í 7-0 og tóku heimakomur leikhlé til að reyna stöðva þetta spil hjá BF.  BF komst í 1-9, 3-10 og 6-12. Álftanes skoraði fjögur stig í röð og minnkuðu muninn í 10-12 og tók þjálfari BF leikhlé í stöðunni 10-13. Jafnt var í stöðunni 16-16 en kom þá frábær kafli hjá BF sem skoraði 8 stig í röð og lögðu grunninn af sigri í hrinunni. BF vann að lokum 17-25 og voru komnar í 1-2.

Í fjörðu hrinu var jafnara með liðunum í upphafi hrinunnar og tók BF smá tíma að ná upp forskoti. BF komst í 3-6, 6-10 og 8-13 og tóku þá heimakonur leikhlé.  BF komst í 12-19 og 16-21 en þá tók þjálfari BF leikhlé. Álftanes náði að minnka muninn í 20-23 en nær komust þær ekki og BF vann frábæran sigur 20-25 og 1-3 í hrinum í þessum leik.

Liðið leikur í Laugardalshöllinni á morgun kl. 14:00 við Þróttarastelpurnar og má búast við jöfnum leik.

Ragnhildur Jóhanns sýnir í Kompunni – Alþýðuhúsinu

Laugardaginn 9. nóvember kl. 15.00 opnar Ragnhildur Jóhanns sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem ber yfirskriftina Hvílist mjúklega. Sýningin er opin daglega frá kl. 14.00 – 17.00 til 24. nóvember.

Málverkaserían “Hvílist mjúklega” sem byggð er á samnefndum pistlum sem birtust í tímaritinu Frúin sumarið 1962. Téðir pistlar eru úrdrættir úr bók frúarinnar Ingrid Prahm sem var kunnur leikfimis- og afslöppunarsérfræðingur á þeim tíma, eins og það er orðað í tímaritinu. Hún skrifaði bók um æfingarkerfið sem byggir á viðbrögðum dýra sem hún segir kunna þá list að slaka fullkomlega á vöðvum sínum þegar þau hvílast. Við æfingarnar er notaður húllahringur og reynt er að apa eftir dýrunum í hinum ýmsu stellingum til þess að ná hinni fullkomnu slökun.

Ingrid Prahm tekst svo snilldar vel að búa til mjög ljóðrænt og fallegt æfingakerfi. Hún er að kenna konum að æfa sig, líta betur út en á sama tíma að vera afslappaðar.

Ragnhildur Jóhanns (f.1977) býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda einka- og samsýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Ragnhildur leggur áherslu á tungumálið og lestur í listsköpun sinni þar sem hún leitast við að skapa sjónræn ljóð í formi skúlptúra, málverka, teikninga eða prents svo dæmi séu tekin.

Harðbakur afhentur

Harðbakur EA 3 hinn nýji togari Útgerðarfélags Akureyringa hefur verið afhentur eigendum sínum  í Noregi. Í kjölfarið á uppgjöri við Vard-Aukra skipasmíðastöðina var Íslenski fáninn dreginn að húni og gert er ráð fyrir að skipið sigli af stað til heimahafnar í dag. Áætlað er að siglingin heim taki um þrjá og hálfan sólarhring.

Skipstjóri á Harðbak er Hjörtur Valsson og yfirvélstjóri er Friðrik Karlsson.

Slippurinn á Akureyri tekur við skipinu þegar heim er komið og settur verður vinnslubúnaður um borð.  Stefnt er að Harðbakur hefji veiðar í byrjun nýs árs.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samherja.

Hardbakur_EA_3

Staða sóknarprests í Glerárprestakalli laus til umsóknar

Biskup Íslands óskar eftir sóknarpresti til þjónustu í Glerárprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi frá og með 1. febrúar 2020. Í Glerárprestakalli er ein sókn, Lögmannshlíðarsókn, með rúmlega sjö þúsund íbúa og eina kirkju, Glerárkirkju. Lögmannshlíðarsókn er á samstarfssvæði með Akureyrar-, Grundar-, Hóla-, Kaupangs-, Munkaþverár-, Möðruvalla- og Saurbæjarssóknum.

Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna matsnefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 5. og 6. gr. framangreindra starfsreglna“ um val og veitingu prestsembætta“. Matsnefnd velur að jafnaði fjóra hæfustu umsækjendurna en þó aldrei fleiri en fimm og skilar skýrslu þar að lútandi til biskups.

Kjörnefnd Glerárprestakalls kýs prest úr hópi framangreindra umsækjenda, að loknu valferli kjörnefndar, sbr. fyrrgreindar starfsreglur „um val og veitingu prestsembætta“. Báðum þessum nefndum er veittur tímabundinn rafrænn aðgangur að umsóknum og fylgigögnum með þeim.

Umsóknarfrestur er til miðnættis mánudaginn 9. desember 2019.

Menntaskólinn á Tröllaskaga og Pálshús í samstarf

Viljayfirlýsing um samstarf Pálshúss í Ólafsfirði og Menntaskólans á Tröllaskaga var undirrituð í MTR í dag. Samstarfið mun meðal annars felast í heimsóknum nemenda skólans og nýtingu á safnkosti og sýningarsölum safnsins til skapandi starfa og verkefna nemenda. Einnig getur falist í samstarfinu miðlun á þekkingu starfsfólks Pálshúss til nemenda MTR með erindum um safnkostinn, uppbyggingu safnsins, frumkvöðlastarf, þátttöku í ferðaþjónustu á Tröllaskaga og fleiru. Þá er mögulegt að sýna verk nemenda í húsinu.

Í Pálshúsi er safn, menningar- og fræðslusetur. Í húsinu er Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar og grunnsýningin „Flugþrá“ þar sem skoða má alla íslensku fuglaflóruna. Önnur grunnsýning er um Ólafsfjarðarvatn. Húsið er kennt við Pál Bergsson sem var forkólfur í útgerð í Ólafsfirði. Elsti hluti hússins var reistur í lok nítjándu aldar.

Það var Þorsteinn Ásgeirsson sem situr í stjórn Pálshúss og Þórarinn Hannesson, menningarfulltrúi MTR sem voru viðstaddir undirskriftina í dag.

Aukin þjónusta með opnun endurhæfingarrýma á Sauðárkróki

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) um að koma á fót aðstöðu með allt að fjórum rýmum til almennrar endurhæfingar við starfsstöð stofnunarinnar á Sauðárkróki. Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN segir þetta framfaraskref sem styrki starfsemina á Sauðárkróki og geri kleift að bjóða fleirum en ella endurhæfingu í nærumhverfi sínu.

Gert er ráð fyrir að endurhæfingin verði einkum sniðin að þörfum eldra fólks sem þarf á endurhæfingu að halda t.d. í kjölfar gerviliðaaðgerða, vegna slitgigtar eða af viðlíka ástæðum þar sem sjúkraþjálfun og almenn hjúkrun getur stuðlað að bata eða bættri líðan og auknum lífsgæðum.

Við heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki er góð endurhæfingaraðstaða með vel búnum æfingasal og endurhæfingarsundlaug og stofnunin er ágætlega mönnuð sjúkraþjálfurum. Með því að nýta þessa aðstöðu skapast tækifæri til að veita endurhæfingu einstaklingum sem að óbreyttu hafa litla möguleika á að fá endurhæfingu eins og hér um ræðir.

Heilbrigðisráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga við Heilbrigðisstofnun Norðurlands um rekstur endurhæfingarrýma eins og hér segir. Stefnt er að því að hefja rekstur rýmanna næsta haust og er fjármagn til rekstrarins tryggt frá þeim tíma.

Heimild: stjornarrad.is

BF heimsótti Fylki í Fylkishöllinni

Blakfélag Fjallabyggðar lék sinn annan leik um helgina gegn sprækum Fylkismönnum í Fylkishöllinni. Fylkismenn fengu mun lengri hvíld á milli leikja en þeir léku við Hamar í Hveragerði, 28. október og unnu þar 2-3. BF keppti hins vegar við Þrótt Vogum í gær í löngum fimm hrinu leik, og mættu þeir því frekar þreyttir til leiks. Því miður þá voru einnig meiðsli og fjarvera hjá sterkum leikmönnum BF í þessari leikumferð. Mjög fáliðað var í stúkunni í þessum leik en færri en 10 manns voru mættir og flestir stuðningsmenn Fylkis.

BF byrjaði ágætlega í fyrstu hrinu og voru nokkuð sprækir fyrstu 10 mínúturnar og voru í forystu. BF komst í 2-6, 4-8 og 7-10 en þá fóru Fylkismenn að komast í gang og þreytan að detta verulega inn hjá BF. Fylkir jafnaði 11-11 og komust í 16-13 og tók þá þjálfari BF leikhlé. Seinni hluti hrinunnar var verulega erfiður og allt gekk upp hjá Fylki en lítið hjá BF.  Fylkir komst í 23-17 og unnu hrinuna örugglega 25-17.

Í annari hrinu byrjaði Fylkir betur og komst í 3-0, 7-2 og 9-3. BF komst aðeins betur inn í leikinn með góðum sóknum og var Ólafur Björnsson þar mest ógnandi og skilaði góðum stigum og blokkaði einnig í hávörn. BF minnkaði muninn í 12-7 og skoraði svo fjögur stig í röð og var staðan orðin 12-11. Skömmu síðar Fylkir tók þá góða syrpu og skoruðu fjögur stig á móti engu og var staðan orðin 18-13. BF gerðu sig líklega til að koma til baka og minnkuðu muninn í 19-17 en Fylkis menn voru óþreyttari og skoruðu sex stig á móti einu og kláruðu hrinuna 25-18.

Í þriðju hrinu var að duga eða drepast fyrir BF og var jafnræði með liðunum fyrstu 10 mínúturnar. BF komst í 2-4 en Fylkir breytti stöðunni í 10-6. BF skoraði þá tvö stig en BF gerði næstu sex og var staðan orðin 16-8 og tók þjálfari BF leikhlé í þessari syrpu hjá Fylki.  BF reyndu hvað þeir gátu að komast aftur inn í leikinn og minnkuðu muninn í 19-14 en hlutirnir voru að falla með Fylki í þessari hrinu einnig og unnu þeir hrinuna 25-16 og höfðu talsverða yfirburði í hrinunni og unni leikinn 3-0.

Þessi lið eru álíka á getu en BF vantar sárlega meiri breidd og eins og eru óreyndir leikmenn að stíga upp og fá mikla ábyrgð. Þegar leiknir eru tveir leikir með sólahrings millibili þá er nauðsynlegt að hafa tvo til þrjá spræka menn á bekknum til að leysa þegar þreytan er mikil. Sá lúxus var ekki í þessari ferð en vonandi í næstu heimaleikjum. Gonzalo þjálfari er þó klár á leikskýrslunni en kom ekki við sögu í þessum leik.

Móttakan hefur oft verið betri hjá BF en það var talsverð merki um þreytu og fékk uppspilari liðsins oft erfiða bolta til spila úr og var því uppspilið í samræmi við það á köflum. Inná milli komu svo stórgóðar sóknir hjá BF þar sem allt gekk upp, en þess á milli óþarfa mistök, röng uppstilling á liðinu eða mistök í sókn eða vörn.

BF hefur nú spiliað 6 leiki, unnið 2 og tapað 4. Liðið leikur næst 23. nóvember gegn Þrótti í Vogum á Siglufirði og verður það síðasti leikur karlaliðsins á þessu ári.

 

 

 

Vilja breyta um nafn á Skíðasvæðinu Tindastóli

Skíðadeild Tindastóls hefur óskað eftir því að fá leyfi til að nefna skíðasvæðið í Tindastóli, AVIS skíðasvæðið í Tindastóli. Skíðadeild Tindastóls er rekstraraðili skíðasvæðisins samkvæmt samningi við Sveitarfélagið Skagafjörð.
Byggðarráð Skagafjarðar tók málið upp á síðasta fundi og ákvað að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar og óskaði eftir afriti af samningnum á milli skíðadeildarinnar og AVIS.

Vinstri grænir og óháðir lögðu fram tillögu um að sveitarfélagið ætti að móta sér stefnu með hvaða hætti samningar einkaaðila eru gerðir við íþróttafélög um nafngiftir á íþróttamannvirkjum í eigu sveitarfélagsins.

Samþykkt var á fundinum að sveitarstjóri kæmi með tillögu að stefnu fyrir sveitarfélagið.

Ellefu skagfirsk fyrirtæki á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2019

Árlega vinnur Creditinfo greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu fyrir árangur. Greining Creditinfo á Framúrskarandi fyrirtækjum er nú unnin í tíunda sinn og eru Framúrskarandi fyrirtæki 2019 um 2% íslenskra fyrirtækja. Framúrskarandi fyrirtæki byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag fjárfesta og hluthafa. Það er því eftirsóknarvert að komast á lista Framúrskarandi fyrirtækja og njóta þannig aukins trausts.

Meðal þessara fyrirtækja eru 11 skagfirsk fyrirtæki, en það eru:

 • Friðrik Jónsson ehf.
 • Kaupfélag Skagfirðinga svf.
 • Norðurtak ehf.
 • Ó.K. Gámaþjónusta-sorphirða ehf.
 • Raðhús ehf.
 • Spíra ehf.
 • Steinull hf.
 • Steypustöð Skagafjarðar ehf.
 • Tengill ehf.
 • Vinnuvélar Símonar ehf.
 • Vörumiðlun ehf.

 

Til þess að teljast framúrskarandi þurfa fyrirtæki að uppfylla skilyrðin sem eru listuð hér að neðan.

 • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1, 2 eða 3
 • Ársniðurstaða var jákvæð rekstrarárin 2016–2018
 • Eiginfjárhlutfall var a.m.k. 20% rekstrarárin 2016–2018
 • Framkvæmdastjóri er skráður í fyrirtækjaskrá RSK
 • Fyrirtækið er virkt skv. skilgreiningu Creditinfo
 • Ársreikningi var skilað til RSK fyrir rekstrarárin 2016–2018
 • Ársreikningi fyrir rekstrarárið 2018 var skilað á réttum tíma skv. lögum
 • Rekstrarhagnaður (EBIT) var jákvæður rekstrarárin 2016–2018
 • Rekstrartekjur voru a.m.k. 50 milljónir króna rekstrarárin 2017 og 2018
 • Eignir voru a.m.k. 100 milljónir krónar rekstrarárin 2017 og 2018 og a.m.k. 90 milljónir króna rekstrarárið 2016

Heimild: www.creditinfo.is

Skagfirskar leiguíbúðir auglýsa eftir umsóknum

Skagfirskar leiguíbúðir hses. hafa auglýst eftir umsóknum um úthlutun íbúða í almenna íbúðaleigukerfinu.  Um er að ræða tvær tveggja herbergja og sex þriggja herbergja íbúðir að Laugatúni 21, 23, 25 og 27 á Sauðárkróki.

Markmið Skagfirskra leiguíbúða með byggingu almennra íbúða er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. 10. gr. laga um almennar leiguíbúðir við upphaf leigu, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

Um byggingu og útleigu íbúðanna gilda lög um almennar íbúðir nr. 52/2016.

Almennum íbúðum er úthlutað til þriggja ára í senn samkvæmt forgangsröðun Skagfirskra leiguíbúða hses. Stjórn Skagfirskra leiguíbúða úthlutar íbúðunum eftir að farið hefur verið yfir allar umsóknir. Stefnt er að því að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar í ársbyrjun 2020.

Umsóknir skulu berast til ráðhússins á Sauðárkróki. Með umsókninni skal fylgja afrit af síðasta skattframtali og afrit af þremur síðustu launaseðlum umsækjenda.

Umsóknarfrestur er til og með 20. nóvember 2019.

Umsóknir og frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu www.skagafjordur.is undir linknum “Umsóknir & eyðublöð”. Tekið er við fyrirspurnum á netfangið leiguibudir@skagafjordur.is.

BF sigraði Þrótt í Vogum í fimm hrinu leik

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti Þrótt í Vogum í Vogabæjarhöllinni í dag í Benecta deildinni í blaki. Leikurinn var gríðarlega spennandi og flestar hrinur mjög jafnar.  Gonzalo þjálfari BF spilaði sínar fyrstu mínútur þegar hann skiptir sér inná í tveimur hrinum, en hann var eini varamaður liðsins í þessum leik.  Lið Þróttar í Vogum var skipað ellefu erlendum leikmönnum í þessum leik og virðast þeir hafa úr nægum mannskapa af velja. Jason Ívarsson fyrrum formaður BLÍ dæmdi leikinn og voru 30 áhorfendur í stúkunni.

Í fyrstu hrinu var allt í járnum þar til undir lok hrinunnar.  Jafnt var í 5-5, 8-8 og 12-12. Heimamenn tóku leikhlé í stöðunni 12-15 en þá hafið BF gert fjögur stig í röð.  Kom nú góður kafli hjá Þrótti sem minnkuðu muninn í 14-16 og jöfnuðu 16-16. Aftur var jafnt í 18-18 en urðu þá kaflaskil og BF var mun sterkara liðið í lokin og unnu hrinuna örugglega 18-25 með því að skora síðustu 7 stigin.

Í annari hrinu leiddu heimamenn mest allan tímann en náðu þó aldrei góðu forskoti á BF. Staðan var 6-3, 9-4 og 11-6. Átti þá BF góðan kafla og jöfnuðu 14-14 og tóku heimamenn leikhlé. Aftur var jafnt í 17-17 en skoruðu þá Þróttarar 4 stig á móti einu og komust í 21-18 og tók nú BF leikhlé. Mikil spenna var í lok hrinunnar og kom þjálfari BF inná fyrir Guðjón Fannar í stöðunni 23-23 til að freista þess að sigra hrinuna. Heimamenn voru þó sterkari í lokin og sigruðu 25-23 og jöfnuðu 1-1.

Í þriðju hrinu skiptust liðin á að ná forystu og var leikurinn jafn alla hrinuna til enda. BF komst í 5-7 en Þróttur svaraði strax og komust í 9-7 með góðu spili. Áfram var jafnt næstu mínútur en í stöðunni 15-15 náði Þróttur undirtökunum og skoruðu fjögur stig á móti einu og komust í 19-16. BF tók þá leikhlé til að freista þess að brjóta upp leikinn. Þróttur var hins vegar sterkari í lok hrinunnar og komust í 23-19 og tók þá BF aftur leikhlé og inná kom Gonzalo fyrir Guðjón Fannar. BF náði góðum leik og jöfnuðu 23-23 með fjórum stigum í röð, en það voru heimamenn sem unnu hrinuna 25-23 og voru komnir í 2-1.

BF voru mun sterkari í fjórðu hrinu og leiddu alla hrinuna og náðu á tímabili góðu og sannfærandi forskoti. Jafnt var í 4-4 en þá skoraði BF 8 stig í röð og tóku Þróttarar tvö leikhlé á þessum kafla og var staðan orðin 4-12. BF var áfram sterkari og komust í 10-17 og tóku þeir leikhlé á þessum tímapunkti. Þróttarar komust aftur inn í leikinn og söxuðu jafnt og þétt á forskot BF. Staðan var orðin 17-19 og 20-22.  Gríðarlega mikil spenna var í lok þessarar hrinu og tóku BF strákarnir leikhlé í stöðunni 22-24 og náðu svo að innsigla sigurinn 22-25 og jöfnuðu leikinn 2-2.

Í fimmtu hrinunni, oddahrinunni, byrjuðu Þróttarar vel og komust í 5-1 og 7-3. BF voru seinir í gang en jöfunuðu þó 8-8 og tóku nú gestirnir leikhlé. Við tók frábær kafli hjá BF og skoruðu þeir sex stig í röð og var staðan skyndilega orðin 8-14. Þróttur náði einu stigi en BF kláraði hrinunna 9-15 og unnu þar með leikinn 2-3.

Spennandi og langur leikur sem var hjá þessum liðum og frábært fyrir BF að sækja þennan sigur.

 

 

 

 

 

Hrekkjavökuball á Hofsósi

Hið árlega hrekkjavökuball félagsmiðstöðvarinnar Friðar var haldið í gærkvöld í Höfðaborg á Hofsósi. Um 120 unglingar í 8.-10. bekk úr öllum Skagafirði og Fjallabyggð mættu sem ýmiskonar furðuverur í Höfðaborg. Unglingastigið á Hofsósi var búið að leggja mikinn metnað í einstaklega drungalegar skreytingar.
Dj. Ne$iNe$ þeytti skífum að sinni alkunnu snilld. Verðlaun voru veitt fyrir frumlegasta búninginn og var það Rebekka Helena Róbertsdóttir sem hlaut þau verðlaun og fyrir besta búninginn vann Jón Gabríel Marteinsson.
Ballið heppnaðist mjög vel og voru krakkarnir til mikilla fyrirmyndar.

Myndir með frétt koma frá Húsi Frítímans í Skagafirði.

Myndir frá Húsi Frítímans.
Myndir frá Húsi Frítímans.

Mynd frá Hús Frítímans.

Mynd frá Hús Frítímans.

Mynd frá Hús Frítímans.

Steinunn María nýr safnstjóri Flugsafns Íslands á Akureyri

Í dag tók Steinunn María Sveinsdóttir sagnfræðingur til starfa sem safnstjóri Flugsafns Íslands. Steinunn tekur við af Gesti Einari Jónassyni sem hefur gegnt starfi safnstjóra síðastliðin 10 ár.

Steinunn er með BA gráðu í sagnfræði og safnafræði frá Aarhus Universitet auk þess sem hún hefur lagt stund á meistaranám í safnafræði við Háskóla Íslands. Undanfarin fimm ár hefur hún starfað sem fagstjóri Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði.

Mynd: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon
Flugsafn Íslands
Mynd: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon

 

Vélarvana bátur dreginn til Siglufjarðar

Klukkan rúmlega 8:00 í morgun fékk Björgunarsveitin á Dalvík og Björgunarsveitin Tindur úr Ólafsfirði útkall vegna vélarvana báts, 2,3 sjómílur norður af Hrólfskeri. Leki var kominn að bátnum. Línubáturinn Sólrún EA-151 rakst á rekald í utanverðum Eyjafirði, en honum til bjargar kom annar bátur sem var á svæðinu og tók Sólrúnu í tog. Vörður, björgunarbátur Björgunarsveitarinnar Dalvík var sendur með dælur. Allt fór vel að lokum og gekk togið til Siglufjarðar vel.

Ektafiskur og Hvalaskoðunin á Hauganesi fyrirtæki ársins á Norðurlandi

Venju samkvæmt veitti Markaðsstofa Norðurlands þrjár viðurkenningar á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi, sem var haldin í Hörgarársveit og Dalvíkurbyggð að þessu sinni. Óhætt er að segja að hátíðin hafi í alla staði tekist vel og eru öllum þeim samstarfsaðilum færðar þakkir sem tóku vel á móti hátíðargestum, sem er sömuleiðis þakkað fyrir frábæra skemmtun í gær. Morgunljóst er að þetta er dagur sem fáir samstarfsaðilar okkar láta framhjá sér fara.

Fyrirtæki ársins

Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi. Í ár eru það tvö fyrirtæki sem fá þessa viðurkenningu sameiginlega, það eru Ektafiskur og Hvalaskoðunin á Hauganesi.

Haugnesingar hafa verið öflugir í ferðaþjónustu síðustu ár og á þessu ári hefur verið gefið enn frekar í, með tilkomu heitu pottanna í flæðarmálinu og nýrrar aðstöðu við tjaldsvæðið. Í fyrra fagnaði Hvalaskoðunin 25 ára starfsafmæli, en þetta elsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins gerir út tvo eikarbáta og býður farþegum sínum að kolefnisjafna ferðirnar sínar. Ektafiskur á sér svo enn lengri sögu, en saltfiskverkun þessa fjölskyldufyrirtækis má rekja aftur í fimm ættliði. Ferðamenn geta smakkað á saltfisknum á Baccalá Bar, sem var opnaður fyrir fáeinum árum og hefur notið vinsælda síðan.

Saman hafa þessi tvö fyrirtæki náð að þróa þjónustu sína þannig að Hauganes er orðinn eftirsóknarverður áfangastaður sem vekur athygli og umtal. Þau byggja á traustum grunni, því samfélagi og umhverfi sem er til staðar á Hauganesi en sinna á sama tíma vel þörfum sinna viðskiptavina. Samvinna fyrirtækjanna er til fyrirmyndar og sýnir vel hvaða árangri er hægt að ná með samstarfi og áherslu á að kynna einn heildarpakka þó að um tvö mismunandi fyrirtæki sé að ræða.

Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi

Viðurkenninguna fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandfær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Í ár er það Skagfirðingurinn Evelyn Ýr Kuhne sem hlýtur þessa viðurkenningu.

Á Lýtingsstöðum hefur Evelyn, ásamt fjölskyldu sinni, byggt fyrirtækið sitt upp í 20 ár og stöðugt unnið að því að bæta þjónustuna við ferðamenn. Hestaferðir og hestasýningar eru hennar aðalsmerki en einnig er boðið upp á gistingu og skoðunarferðir með leiðsögn um torfhesthúsið sem byggt var upp fyrir örfáum árum. Aðstaðan á Lýtingsstöðum hefur verið byggð upp til þess að taka á móti hópum og er meðal annars boðið uppá hljóðleiðsögn. Í torfhesthúsinu sem byggt var skv gömlum hefðum hefur verið komið fyrir búnaði sem sýnir hvernig líf hestamannsins var fyrr á árum og hefur Horses and heritage pakki hennar þar sem boðið er upp á fræðslu um þetta vakið mikla athygli. Evelyn hefur verið öflug í að taka á móti fjölmiðlum og skapað þannig góða athygli á svæðinu. Hún er einnig drífandi fyrir fólk í ferðaþjónustu í sínu nærumhverfi, hefur stutt við samstarf á milli þess og tryggt þátttöku annarra í hinum ýmsum verkefnum. Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði hefur notið góðs af kröftum hennar um árabil og mun væntanlega áfram, enda er Evelyn stöðugt að kynna sér nýjungar og sækja fræðslu sem kemur bæði henni og kollegum til góða.

Heimild og texti: Markaðsstofa Norðurlands.

Bæjar- og menningarvefur