Veður með versta móti í Skagafirði í vetur

Veðrið hefur verið með versta móti það sem af er vetri í Skagafirði. Hefur veðrið og tilheyrandi ófærð haft mikil áhrif á daglega starfsemi í héraðinu. Einkum hefur tíðin verið rysjótt frá norðanóveðrinu sem gekk yfir landið 10.-11. desember 2019. Þetta kemur fram á vef Skagafjarðar.

Má þannig nefna að þjóðvegur 1 um Vatnsskarð hefur verið lokaður í 16 skipti síðan 10. desember sl., þjóðvegur 1 um Öxnadalsheiði í 19 skipti frá sama tíma, Þverárfjall um 26 skipti og Siglufjarðarvegur um 24 skipti. Þess má geta að þjóðvegur 1 um Vatnsskarð og Öxnadalsheiði er í þjónustuflokki 2 hjá Vegagerðinni á meðan Þverárfjallsvegur og Siglufjarðarvegur eru í þjónustuflokki 3, sem skýrir þennan mun á fjölda lokunardaga.

Einnig hefur verið mikil ófærð á vegum innan héraðs og í þrígang hefur sjór flætt yfir hafnarsvæðið og Strandveg á Sauðárkróki.

Þá hefur skólahald oft fallið niður í grunnskólum héraðsins. Sem dæmi um það hafa 4 heilir kennsludagar fallið niður í Árskóla á Sauðárkróki vegna ófærðar eða rafmagnsleysis, í Varmahlíðarskóla hafa 7 dagar fallið niður og í Grunnskólanum austan Vatna hafa 8 dagar fallið niður. Þessu til viðbótar hafa nokkur tilfelli verið þar sem hluti kennsludaga hefur fallið niður.

Þá hafa verið tíðar lokanir í leikskólum, tónlistarskóla og íþróttamannvirkjum af sömu völdum.

Mynd: Skagafjörður.is

55 án atvinnu í Fjallabyggð

Atvinnuleysi mælist nú 5% í Fjallabyggð og hefur ekki mælst svona hátt síðan í janúar 2019. Alls voru 55 án atvinnu í janúar 2020 í Fjallabyggð, 26 karlar og 29 konur og fjölgaði um 10 á milli mánuða. Er þetta mestur fjöldi atvinnulausra í Fjallabyggð síðan í apríl 2017 en þá voru 56 án atvinnu.

Lokað til Fjallabyggðar í dag

Báðir vegirnir til Fjallabyggðar, Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli hafa verið lokaðir í dag. Siglufjarðarvegur er lokaður vegna ófærðar og snjóflóðahættu og opnar ekki í dag. Ólafsfjarðarmúli hefur verið lokaður vegna snjóflóðahættu í dag. Hættustig er enn í gildi og vegurinn verður ekki opnaður í dag.

Að auki fór rafmagn af í Fjallabyggð í dag í nokkra klukkutíma og lokuðu sum fyrirtæki í dag vegna þessa.

Einn skólastjóri fyrir Dalvíkurskóla og Árskógarskóla til framtíðar

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt að einn skólastjóri verði yfir Dalvíkurskóla og Árskógarskóla ótímabundið.
Friðrik Arnarson var ráðinn skólastjóri Dalvíkurskóla á síðasta ári og hefur gengt stöðu skólastjóra Árskógarskóla í vetur, en enginn sótti um stöðuna þegar hún var auglýst sl. haust. Friðrik mun því gegna báðum stöðum til framtíðar.
Með því að hafa einn stjórnanda yfir báðum skólunum eru miklir möguleikar til samstarfs sem nýtist bæði nemendum og starfsfólki. Með þessu fyrirkomulagi fæst stöðugleiki í skólastarfið til framtíðar hjá báðum skólum.

Valur Reykjalín yfirgefur KF í annað sinn

Valur Reykjalín Þrastarson hefur yfirgefið Knattspyrnufélag Fjallabyggðar fyrir Hauka í Hafnarfirði. Valur er uppalinn hjá KF og hefur spilað frá unga aldri með félaginu. Hann hafði einnig félagskipti við Val í Reykjavík árið 2018 en kom til baka í fyrra og spilaði með KF eftir erfið meiðsli.  Valur hefur leikið 58 leiki í meistaraflokki og skorað 6 mörk og einnig leikið 22 leiki í deildarbikar og Norðurlandsmótinu og skorað 11 mörk. Valur hjálpaði KF að komast uppúr 3. deildinni í fyrra og lék 22 leiki og skoraði 3.

Haukar hafa verið duglegir að bæta við nýjum leikmönnum í upphafi árs og er Valur einn þeirra. Félagið leikur í 2. deildinni í sumar og ætlar sér örugglega að komast beint upp í 1. deildina.

KF og Haukar mætast á Ólafsfjarðarvelli, 6. júní, og gæti hann leikið þar gegn sínu uppeldisfélagi.

Valur flutti á höfuðborgarsvæðið sl. haust og stefnir á nám. Óskum honum velfarnaðar hjá nýju félagi.

Mynd frá Valur Reykjalín Þrastarson.

Björgunarsveitir stóðu vaktina í Fjallabyggð

Mörg verkefni voru í gangi fyrir Björgunarsveitirnar í Fjallabyggð í gærkvöldi en óveður skall á og fuku þakplötur af tveimur húsum á Siglufirði, ruslatunnur og fleira lauslegt fauk um bæinn. Björgunarsveitin Strákar fylgdu sjúkrabílnum í tvö útköll sem bárust nánast á sama tíma.

Annar björgunarsveitarbíll Stráka fylgdi sjúkrabíl í forgangsakstri til Akureyrar og svo var öðrum bíl fylgt að bílveltu í Fljótum. Björgunarsveitin Tindur í Ólafsfirði komu til aðstoðar meðan bílar Stráka sinntu fylgd sjúkrabílanna.

Myndir með fréttinni koma frá Björgunarsveitinni Strákum.

Mynd frá Björgunarsveitin Strákar.
Myndir frá Strákum.

Mynd frá Björgunarsveitin Strákar.

Mynd frá Björgunarsveitin Strákar.

 

Tvö gull til Siglufjarðar í badminton

Tennis- og badmintonfélag Siglufjarðar(TBS) sendi nokkra iðkendur á Landsbankamót ÍA á Akranesi sem fór fram dagana 15.-16. febrúar. Hrafnhildur Edda Ingvarsdóttir frá TBS gerði sér lítið fyrir og vann til gullverðlauna bæði í einliða – og tvíliðaleik í flokki U13A Tátur. Í tvíliðaleiknum lék hún með iðkanda frá ÍA. Aðrir keppendur TBS náðu ekki í verðlaunasæti á þessu móti.

Voru all 136 keppendur skráðir til leiks í flokkum U11 – U19. Mótið er hluti af stjörnumótaröð unglinga og gefur stig á styrkleikalista þess.

Mynd: https://www.badminton.is/

Endurnýja skólalóðina hjá Leikhólum í Ólafsfirði

Til stendur að endurnýja skólalóð leikskólans í Ólafsfirði í sumar. Forhönnun lóðarinnar liggur fyrir og verða teikningar hengdar upp á deildum Leikhóla og lagðar fram til kynningar á fundi foreldraráðs Leikskóla Fjallabyggðar.

Þegar þessum áfanga lýkur hafa allar skólalóðir við Leik- og Grunnskóla Fjallabyggðar verið endurnýjaðar.

Leikskólinn Leikhólar var stofnaður 1982.

Leikskólinn Leikhólar í Ólafsfirði

 

Blakfélag Fjallabyggðar mætti HK-b

Blakfélag Fjallabyggðar og HK-b mættust á Siglufirði um helgina í 1. deild karla í blaki. BF hafði aðeins unnið einn leik af síðustu 5 leikjum í deildinni og kom sigurleikurinn í byrjun nóvember. HK-b hafði unnið 3 af síðustu 5 leikjum sínum í deildinni og er í toppbaráttunni, en BF er að berjast fyrir veru sinni í deildinni eftir erfiðan vetur.

HK mætti með þunnskipað lið og voru aðeins sex í hópnum og var einnig spilandi þjálfari. HK var með tvo erlenda leikmenn í þessum hópi. Ungu strákarnir í BF eru að fá dýrmætar míntútur í hverjum leik núna og ákveðin kynslóðaskipti að fara af stað enda lykilmenn liðsins farnir að eldast talsvert (nefnum engin nöfn).

HK náði fljótlega yfirhöndinni í fyrstu hrinu og leiddu leikinn. Staðan var 5-5 og tók þá HK-vélin af stað og komust í 6-11, 7-13 og 10-17 en þá tók BF leikhlé. BF minnkaði muninn í 14-18 en HK komst í 18-22 og unnu hrinuna 17-25.

Önnur hrina var betri hjá BF og var jöfn framan af, staðan var 3-3 og 6-7 þegar HK náði góðu forskoti 6-10. BF minnkaði muninn í 11-12 og komust yfir 15-14 eftir mikla baráttu. Liðin skiptust á að skora en BF náði loks að brjóta ísinn og komst í 22-19 og tóku þá gestirnir leikhlé. HK minnkaði muninn í 23-21 og tók nú BF leikhlé enda mikið í húfi á lokamínútum hrinunnar. Jafnt var í 24-24 og fór leikurinn í upphækkun, BF var sterkara í lokin og unnu 26-24 eftir spennandi lokamínútur og jöfnuðu leikinn 1-1.

HK var sterkara liðið í þriðju hrinunni og komst í 1-6 og tóku BF strákarnir leikhlé. BF minnkaði muninn í 6-8 og 10-11. BF jafnaði svo í 13-13 en HK tók öll völd eftir það og komust í 14-18 og 16-23 með góðu spili. BF tók hér leikhlé, en munurinn var of mikill og HK vann 17-25 og voru komnir í 1-2.

HK byrjaði fjórðu hrinuna vel og komust í 0-4 en BF bitu frá sér og minnkuðu muninn í 4-5 og 6-7. HK komst í 9-10 og tók í framhaldinu aftur völdin á leiknum og komust í 9-12 og 13-19 eftir talsverða baráttu við heimamenn. BF tók hér leikhlé og gerði skiptingar á liðinu en komust ekki aftur inn í leikinn og HK vann hrinuna örugglega 14-25 og leikinn 1-3.

BF á nú tvo leiki eftir á Íslandsmótinu og fara þeir fram í marsmánuði og eru báðir leikirnir útileikir.

Flugvél Transavia lenti á Akureyri í morgun

Flugvél hollenska flugfélagsins Transavia lenti á Akureyrarflugvelli í morgun, með fyrstu farþegana sem koma til Norðurlands í vetur á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel. Þetta er í fyrsta sinn sem Voigt Travel býður upp á beint flug frá Hollandi til Norðurlands að vetrarlagi, en ferðaskrifstofan bauð upp á sumarferðir árið 2019 sem vöktu mikla lukku. Þá, eins og á komandi sumri, var flogið frá Rotterdam til Akureyrar en í vetrarferðunum nú er flogið frá Amsterdam. Alls verða farnar 8 ferðir til Norðurlands, tvisvar í viku fram til 9. mars.

Nýverið var ILS aðflugsbúnaður tekinn í notkun á Akureyrarflugvelli og er Transavia fyrsta flugfélagið sem nýtir þennan búnað til aðflugs í reglubundnu millilandaflugi. Ljóst er að slíkur búnaður skiptir miklu máli fyrir flugfélagið, eins og öll önnur flugfélög og auðveldar aðflugið til muna frá því sem áður var.

Ferðaskrifstofa Akureyrar hefur einnig boðið upp á ferðir til Amsterdam í samstarfi við Voigt Travel og má með sanni segja að Norðlendingar hafi gripið tækifærið til að skreppa til hollensku höfuðborgarinnar, jafnvel svo mikið að uppselt er í nokkrar flugferðir eða fá sæti laus.

Eins og áður segir mun Voigt Travel áfram skipuleggja sumarferðir til Norðurlands frá Rotterdam, einu sinni í viku frá byrjun júní til loka ágúst, og að auki geta Íslendingar áfram keypt sér ferðir til Hollands í sumar eins og verið hefur.

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Akureyrarflugvöllur. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

 

Nemendur safna fé með mokstri

Nemendur í Menntaskólanum á Tröllaskaga sem eru í áfanganum Matur og Menning í Evrópu, safna nú fé fyrir ferð sinni til Portúgals, sem verður í apríl. Nemendur bjóða nú uppá snjómokstur og snjóblásara gegn greiðslu. Skóflumokstur er frá  4000 kr. og við bætist 2000 kr. ef verkið tekur meira en klukkustund. Fyrir snjóblásara kostar 6000 kr og einnig 2000 kr. ef verkið tekur meira en klukkustund. Nemendur eru klárir að koma núna um helgina. Hægt er að hafa samband við Idu í síma 695-7718 eða ida@mtr.is.

Endilega hafið samband og styrkið þessa nemendur til náms.

Mynd frá Ida Semey.

Ólafsfjörður í dag

Fjöldi þjóðvega á Norðurlandi voru lokaðir í dag. Siglufjarðarvegur er enn lokaður frá því í gærkvöldi, Öxnadalsheiði er lokuð, Þverárfjall og Vatnsskarð einnig lokað.

Í Ólafsfirði var einnig mjög hvasst í dag og fóru mestu hviðurnar 31 m/s í morgun kl. 10:00-11:00.

Á Siglufirði fór mesta hviða í 40 m/s kl. 16:00-17:00 í dag. Mestur vindur var þar milli kl. 13:00-17:00 í dag.

Ljósmyndir með fréttinni tók Guðmundur Ingi Bjarnason, og eru þær birtar með góðfúsu leyfi hans.

Myndir: Guðmundur Ingi Bjarnason

Lokað í Menntaskólanum á Tröllaskaga

Vegna veðurspár verður Menntaskólinn á Tröllaskaga lokaður föstudaginn 14. febrúar. Ekki er hefðbundin kennsla á föstudögum í skólanum og því hefur þetta ekki áhrif á störf nemenda og kennara heldur einungis áhrif á annað starfsfólk skóla en það sem sinnir nám og kennslu. Síma verður ekki svarað og húsnæðið lokað. Ef áríðandi er að ná til skólans hafið samband við skólameistara Láru Stefánsdóttur sími 896-3357.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

Fréttatilkynning frá Fjallabyggð – allt skólahald fellur niður

Vegna spár um ofsaveður á öllu landinu næsta sólarhring og óvissustigs almannavarna sem lýst hefur verið yfir á öllu landinu var tekin sú ákvörðun á fundi viðbragðsaðila í Fjallabyggð að allt skólahald í Fjallabyggð falli niður á morgun föstudaginn 14. febrúar 2020. Það gildir um leikskólastarf, grunnskólastarf og starf Tónlistarskólans á Tröllaskaga í Fjallabyggð. Þessar stofnanir verða því lokaðar.
Þá fellur allur akstur skólarútu niður á morgun föstudag og ekkert starf verður í Félagsmiðstöðinni Neon á föstudagskvöld.
Íþróttahús og sundlaugar Fjallabyggðar verða einnig lokaðar í báðum byggðarkjörnum á morgun 14. febrúar.
Þá fellur allt skipulagt starf fyrir eldri borgara á vegum sveitarfélagsins niður í báðum byggðarkjörnum svo og starf í Iðjunni dagvist.
Íbúar eru hvattir til að vera ekki á ferli að nauðsynjalausu ef spár ganga eftir og ganga vel frá lausum munum til að koma í veg fyrir foktjón eins og kostur er.

Styrktartónleikar í Siglufjarðarkirkju

Þriðjudaginn 11. febrúar kl. 20:00 verða tónleikar í Siglufjarðarkirkju til styrktar Björgunarsveitarinnar Stráka, til kaupa á sértækum skyndihjálpartöskum til að hafa í bílum sveitarinnar.

Glæsilegur hópur flytjenda mun koma fram á tónleikunum og flytja fjölbreytta dagskrá. Miðaverð er aðeins 2000 krónur.

Meðal flytjenda verða:
Karlakórinn í Fjallabyggð
Rafn Erlendsson
Guito og Steini
Landabandið
Hófí
Eva Karlotta, Ragna Dís og Fannar
Ræningjarnir
Dúó Brasil
og margir fleiri.

 

Blakfélag Fjallabyggðar bikarmeistari

Bikarmót Blaksambands Íslands fyrir yngri flokka var haldið HK í Digranesi og Fagralundi um helgina. Blakfélag Fjallabyggðar sendi lið í 4. flokki í mótið í blönduðu liði. Í liðinu voru einnig tveir drengir úr Dalvíkurbyggð.

Blakfélag Fjallabyggðar gerði sér lítið fyrir og varð bikarmeistari 2020 og vann alla sína 5 leiki. Frábær árangur hjá liðinu og sannarlega mikill efniviður á ferðinni.

Liðið spilaði við Vestra í 1. umferðinni og vann 2-0 í nokkuð jöfnum leik, (25-23, 25-21).  Í annari umferð spilaði BF við HK og vann örugglega, 2-0, (25-15, 25-9). Í þriðju umferð spilaði BF við Vestra og vann 2-0 (25-18, 25-21). Í fjórðu umferð vann BF Þrótt Nes 2-0 í jöfnum og spennandi leik, lokatölur 25-22, 25-23. Í 5. umferðinni vann BF öruggan sigur á Aftureldingu 2-0, (25-7, 25-15).

Mynd frá Frétta- og fræðslusíða UÍF.
Mynd: Grétar og Bella

Sóknarpresturinn í Ólafsfirði hættir í vor

Greint hefur verið frá því opinberlega á vef Þjóðkirkjunnar að sr. Sigríður Munda Jónsdóttir, sóknarprestur í Ólafsfjarðarprestakalli hafi verið ráðin sóknarprestur í Þorlákshafnarprestakalli. Samkvæmt upplýsingum frá formanni sóknarnefndar Ólafsfjarðarsóknar mun sr. Sigríður láta af störfum í vor eftir fermingar sóknarbarna. Sr. Sigríður Munda var vígð árið 2004 til Ólafsfjarðarprestakalls í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

Sr. Sigríður var meðal 6 umsækjanda um stöðu sóknarprests í Þorlákshafnarprestakalli og var hún valin af kjörnefnda prestakallsins í starfið.

Sr. Sigríður Munda lauk stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum á Akranesi vorið 1986. Þá lauk hún BA-próf í uppeldisfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og cand. theol. próf frá sama skóla árið 2003. Diplómaprófi í jákvæðri sálfræði lauk hún frá Endurmenntun Háskóla Íslands vorið 2017 og mun ljúka diplómaprófi í sálgæslufræðum í vor frá sömu stofnun.

Ekki hefur verið auglýst í starf sóknarprests í Ólafsfjarðarprestakalli, en líklegt er að það verði á allra næstu vikum.

Mynd frá Sigríður Munda Jónsdóttir.

 

 

Úrslit og myndir úr Fjarðargöngunni

Úrslit liggja fyrir í Fjarðargöngunni sem hófst í morgun kl. 11:00. Alls voru 240 keppendur skráðir í keppnina og var uppselt í gönguna fyrir keppnisdaginn. Keppendur voru heppnir með veður og vinda en hiti var um frostmark og hægur vindur þegar keppnin hófst.

Akureyringurinn Arnar Ólafsson frá SKA kom fyrstur í mark í 30 km göngunni á 1.32 klst. Gísli Einar Árnason frá SKA var í 2. sæti rúmlega mínútu á eftir fyrsta manni. Birkir Stefánsson var þriðji í mark, rúmlega 6 mínútum á eftir fyrsta manni. Veronika Guseva var fyrsta kvenna í mark í 30 km göngu, á tímanum 1.58 klst. Alls tóku 104 þátt í 30 km göngunni í ár og luku 102 keppni.

Í 15. km göngunni var Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson (SÓ-Elítan) í 1. sæti á tímanum 0,56 klst. Árni Stefánsson frá SKA var í 2. sæti og var aðeins 0,24 sek. á eftir fyrsta manni.  Markmaður KF, Halldór Ingvar Guðmundsson var í 3. sæti á tæpum 0,58 klst. Lísebet Hauksdóttir var fyrst kvenna í 15 km göngunni á 01:01:41 klst. Alls tóku 76 keppendur þátt í 15 km göngunni, tveir mættu ekki til leiks.

Í 3. km göngunni var Árni Helgason frá SÓ í 1. sæti á 0,15 klst. Ragnhildur Vala Johnsdóttir var fyrst kvenna í 3. km göngunni á 0,16 klst. Þess má geta að 34 tóku þátt í 3. km göngunni.

Öll önnur úrslit má finna á Tímataka.net.

Myndir með frétt tók Jón Valgeir Baldursson, og eru honum færðar bestu þakkir.

Styrkja starfsemi Virkisins á Akureyri

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar,  hafa undirritað samkomulag um styrk til Akureyrjarbæjar til starfsemi Virkisins. Styrkurinn hljóðar upp á þrjár milljónir króna.

Virkið er þverfaglegur samstarfsvettvangur fjórtán aðila á Akureyrar- og Eyjafjarðarsvæðinu og er meginmarkmiðið að grípa ungmenni sem falla milli kerfa og veita þeim heildstæðari þjónustu. Starfsemi Virkisins miðar að því að aðstoða ungmenni, á aldrinum 16-29 ára, sem þurfa á samfelldri þjónustu að halda vegna atvinnuleitar, skólagöngu, endurhæfingar eða annarrar meðferðar. Virkið býður upp á einstaklingsmiðaða ráðgjöf með það að markmiði að bæta líðan og efla virkni ungmenna í samfélaginu.

Með því að styðja við starfsemi Virkisins er stutt við snemmtæka íhlutun og forvarnarstarf á Norðurlandi og við undirritunina sagði Ásmundur Einar að það væri „mikilvægt að styðja við starfsemi af þessum toga, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins“ og að það væri „ánægjulegt að sjá gróskuna í úrræðum af þessum toga á Akureyri“.

Ásthildur sagði við undirritunina að það væri gríðarlega mikilvægt og ánægjulegt að finna fyrir einlægum áhuga ráðherrans á því góða starfi sem unnið er í Ungmennahúsinu á Akureyri. „Virkið er verkefni sem er algjörlega til fyrirmyndar og mikilvægt að finna því fastan farveg til lengri tíma litið. Hver einasti einstaklingur skiptir máli og það vita þeir sem starfa í Virkinu”.

Heimild: www.stjornarradid.is

 

Hátíðarhöld vegna 100 ára afmælis Skíðafélags Siglufjarðar

Í dag verður haldið upp á 100 ára afmæli elsta skíðafélags á landinu. Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg fagnar deginum með hátíðarmóti á Skíðasvæðinu í Skarðsdal.

Gönguskíðanámskeið verður á Hóli kl. 10:00-12:00. Skíðagleði, leikjabraut og afmælismót í svigi verður í Skarðsdal kl. 10:00-14:00. Afmæliskaffi verður kl. 16:00 í Bláa húsinu og þar verður einnig sýning á skíðum völdum gripum úr vörslu Síldarminjasafnsins.

100 ára afmæli Skíðafélags Siglufjarðar Skíðaborg

Dagskrá Fjarðargöngunnar í Ólafsfirði

Fjarðargangan fer fram í dag í Ólafsfirði og hafa undirbúningsaðilar komið fyrir snjó í miðbænum fyrir keppnina. Afhending keppnisgagna hefst kl. 8:00-10:00 í Íþróttahúsinu í Ólafsfirði. Keppnin sjálf hefst kl. 11:00 og eru íbúar á áhugamenn hvattir til að fylgjast með keppninni.
Dagskrá:
  • Kl. 08-10 Afhending keppnisgagna. Íþróttahúsinu á Ólafsfirði
  • Kl. 08-11 Fjallakofinn og Ísfell/KRS (íþróttahús Ólafsfirði)
  • Kl. 08-16 Smurningsaðstaða í sal, gengið inn að sunnan. Íþróttahús
  • Kl. 10:00 Brautarfundur í sal Íþróttahúsins
  • Kl. 11:00 Start, allar vegalengdir
  • Kl. 15:00 Kaffisamsæti og verðlaunaafhending í Tjarnarborg
Fjarðargöngupartý kl. 22:00, Höllin Veitingahús.
  • Frítt inn og drykkur í boði Hallarinnar við innganginn!
Mynd frá Fjarðargangan.
Myndir: fjarðargangan

Mynd frá Fjarðargangan.

Bæjar- og menningarvefur