Category Archives: Skagafjörður

Hertar reglur taka gildi 31. október

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögur sóttvarnalæknis um hertar sóttvarnaráðstafanir sem taka gildi laugardaginn 31. október. Sömu reglur munu gilda um allt land. Meginbreytingin felst í 10 manna fjöldatakmörkum í stað 20 áður. Allt íþróttastarf verður óheimilt og sviðslistir sömuleiðis. Gert er ráð fyrir að reglur um hertar aðgerðir gildi til og með 17. nóvember. Þær verða endurmetnar eftir aðstæðum með hliðsjón af því hvort hægt verði að aflétta þeim fyrr, eða hvort framlenging sé nauðsynleg.

 

Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur fram að smit í samfélaginu sé enn mikið, þrátt fyrir hertar sóttvarnaaðgerðir sem gripið var til 20. október síðastliðinn. Því sé hætta á að hópsýkingar brjótist út og valdi enn meira álagi á heilbrigðiskerfið sem sé mikið fyrir. Bent er á að Landspítali sé á neyðarstigi vegna mikils álags og að margvíslegri heilbrigðisstarfsemi hafi verið frestað til 15. nóvember. Mikið álag sé á þeim fimm farsóttarhúsum sem nú eru starfrækt og meira um veikindi meðal þeirra sem þar eru í einangrun en áður hefur verið í faraldrinum. Því er það mat sóttvarnalæknis að grípa þurfi til hertra aðgerða til að takmarka útbreiðslu veirunnar og koma þannig í veg fyrir alvarlegar afleiðingar af völdum COVID-19 og annarra sjúkdóma.

Helstu takmarkanir:

 • Allar takmarkanir ná til landsins alls.
 • 10 manna fjöldatakmörk meginregla.
  – Heimild fyrir 30 manns í útförum en 10 að hámarki í erfidrykkjum.
  – 50 manna hámarksfjöldi í lyfja- og matvöruverslunum en reglur um aukinn fjölda með hliðsjón af stærð húsnæðisins.
  – Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug eða störf viðbragðsaðila.
  – Fjöldatakmarkanir gilda ekki um störf ríkisstjórnar, ríkisráðs, Alþingis og dómstóla.
 • 10 manna fjöldatakmörk eiga ekki við þegar fleiri búa á sama heimili.
 • Íþróttir óheimilar.
 • Sundlaugum lokað.
 • Sviðslistir óheimilar.
 • Krám og skemmtistöðum lokað.
 • Veitingastaðir með vínveitingaleyfi mega ekki hafa opið lengur en til 21.00.
 • Grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
 • Börn fædd 2015 og síðar undanþegin 2 metra reglu, fjöldamörkum og grímuskyldu (gilti áður um börn fædd 2005 og síðar).

Undanþáguheimildir:

 • Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkunum vegna félagslega ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast. Þar undir fellur m.a. heilbrigðisstarfsemi og félagsþjónusta.
 • Ráðherra getur veitt undanþágu við banni frá íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði, til dæmis alþjóðlegra keppnisleikja.

Reglugerð um samkomutakmarkanir vegna farsóttar
Minnisblað sóttvarnalæknis

Ný reglugerð um takmarkanir á skólastarfi verður kynnt í næstu viku.

Skíðadeild Tindastóls fær nýjan snjótroðara

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur keypt snjótroðara af gerðinni Leitner Leitwolf, árgerð 2011 fyrir Skíðadeild Tindastóls.

Um er að ræða troðara sem var upptekinn á verkstæði hjá Prinorth í ágúst 2020. Snjótroðari þessi telst eign Sveitarfélagsins Skagafjarðar og er viðbót við aðrar eignir sveitarfélagsins á skíðasvæðinu í Tindastóli.

12 skagfirsk fyrirtæki meðal Framúrskarandi fyrirtækja 2020

Listi Creditinfo um Framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi var birtur nýverið, en í 11 ár hefur Creditinfo unnið greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og veitt framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu fyrir árangurinn. Framúrskarandi fyrirtæki byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag fjárfesta og hluthafa. Það er því eftirsóknarvert að komast á lista Framúrskarandi fyrirtækja og njóta þannig aukins trausts.

Tólf skagfirsk fyrirtæki eru meðal þessara fyrirtækja í ár:

 • FISK-Seafood
 • Friðrik Jónsson ehf.
 • Kaupfélag Skagfirðinga
 • Norðurtak ehf.
 • Ó.K. Gámaþjónusta-sorphirða ehf.
 • Raðhús ehf.
 • Spíra ehf.
 • Steinull hf.
 • Steypustöð Skagafjarðar ehf.
 • Tengill ehf.
 • Vinnuvélar Símonar ehf.
 • Vörumiðlun ehf.

Til þess að teljast framúrskarandi þurfa fyrirtækin að uppfylla ströng skilyrði sem eru listuð hér að neðan.

 • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
 • Ársreikningi skilað lögum samkvæmt eigi síðar en átta mánuðum eftir uppgjörsdag
 • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
 • Framkvæmdarstjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
 • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár
 • Rekstrarhagnaður (EBIT > 0) síðustu þrjú ár
 • Jákvæð ársniðurstaða síðustu þrjú ár
 • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár
 • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár

 

Heimild: www.creditinfo.is

Byggðarráð Skagafjarðar þrýstir á jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar

Á undanförnum árum hefur Sveitarfélagið Skagafjörður þrýst mjög á þingmenn og Vegagerðina um hröðun undirbúnings og framkvæmda við jarðgöng á milli Fljóta og Siglufjarðar. Nú sem aldrei fyrr er lífsnauðsynlegt að göngin komist til framkvæmda því jarðsig, skriðuföll og grjóthrun hefur verið með mesta móti á undanförnum misserum eins og þeir þekkja sem aka daglega um veginn. Tíðar jarðskjálftahrinur úti fyrir Tröllaskaga eru ekki til að bæta ástandið. Það er mál manna að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær Siglufjarðarvegur rofnar á löngum kafla.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á alþingismenn og samgönguráðherra að tryggja að undirbúningi jarðganga á milli Fljóta og Siglufjarðar verði lokið sem fyrst og tryggja fjármögnun til að framkvæmdir við gerð þeirra geti hafist innan tíðar. Byggðarráð hvetur Vegagerðina jafnframt til að hafa heimamenn í Fljótum og á Siglufirði með í ráðum við greiningu á heppilegri legu ganganna.

Þetta kom fram á síðasta fundi Byggðarráðs Skagafjarðar.

Fækkun sorpmóttökustaða í framhéraði Skagafjarðar

Vegna opnunar á sorpmóttökusvæði í Varmahlíð er fyrirhugað að fækka móttökustöðvum fyrir sorp í framhéraði Skagafjarðar. Nýja svæðið verður afgirt með 2m grindargirðingu og verður opið á fyrirfram ákveðnum opnunartímum. Starfsmaður verður á svæðinu á meðan það er opið og aðstoðar við flokkun.

Ein helsta forsenda ákvörðunar sveitarfélagsins Skagafjarðar um byggingu nýrrar sorpmóttökustöðvar í Varmahlíð var að bæta flokkun.

Umhverfis og samgöngunefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar  hefur ákveðið að öllum gámastöðum verði lokað vestan Héraðsvatna þegar að nýja móttakan verður opnuð.

 

Ný ostaframleiðsla á Brúnastöðum í Fljótum

Hjónin á Brúnastöðum í Fljótum, Stefanía Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Helgi Ríkharðsson, hafa fjárfest í búnaði til að framleiða og þróa eigin osta og aðrar afurðir. Núna er aðeins beðið eftir söluleyfi frá MAST en eftir það fara ostarnir á markað.

Eftir mjög langan undirbúning sem hófst vorið 2018 með námskeiði í Farskólanum, Matarsmiðjan beint frá býli, þá hefur fjölskyldan á Brúnastöðum í Fljótum opnað eigin matarsmiðju. Það er ekki einfalt ferli eða ódýrt að fara í slíkar framkvæmdir hér á Íslandi þar sem kröfurnar eru miklar, bæði hvað varðar húsnæðið og öll leyfi.

Fyrstu afurðirnar eru að líta dagsins ljós þessa dagana en það eru geitaostar. Mjólkurfræðingurinn Guðni Hannes Guðmundsson hefur verið þeim hjónum innan handar varðandi hönnun á ostum og ráðgjöf á kaupum tækja.

Það hentar greinilega geitunum á Brúnastöðum vel að spranga um undir fjallgarðinum því gæði mjólkurinnar er mikil, bæði próteinrík og feit og virðist henta afar vel til ostagerðar.
Geiturnar fá hrat frá Bruggverksmiðjunni Segli 67 á Siglufirði.  Hjónin hafa einnig aðeins unnið með mjólk úr kindum og stefna þau að vinna með það meira næsta sumar.

Myndir: stefanía hjördís.

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2020

Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir eftir tilnefningum fyrir Samfélagsverðlaun Skagafjarðar. Samfélagsverðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í Sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel. Tilnefningar þurfa að berast fyrir föstudaginn 25. september nk.
Hægt er að senda inn tilnefningu eftir þremur leiðum:
 • Senda inn rafrænt hér
 • Senda inn tilnefningu á heba(hja)skagafjordur.is
 • Skila inn skriflegri tilnefningu í afgreiðslu ráðhússins

Sæluvika 2020 haldin í lok september

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Sveitarfélagins Skagafjarðar hefur samþykkt að halda Sæluviku Skagfirðinga í lok september. Hátíðin verður haldin dagana 27. september til 3. október 2020.

Vegna aðstæðna í samfélaginu af völdum Covid-19 var ekki unnt að halda Sæluviku Skagfirðinga í lok apríl eins og hefð er fyrir.

Auglýsing um skipan í kjördeildir við forsetakosningar 27. júní 2020

Skipan í kjördeildir í Sveitarfélaginu Skagafirði við forsetakosningar sem fram fara  laugardaginn 27. júní n.k. er sem hér segir:

Kjördeild í Félagsheimilinu Skagaseli,

þar kjósa íbúar fyrrum Skefilstaðahrepps – kjörfundur hefst kl. 12:00

Kjördeild í Bóknámshúsi FNV,

þar kjósa íbúar Sauðárkróks og fyrrum Skarðs- og Rípurhrepps

– kjörfundur hefst kl. 09:00

Kjördeild í Félagsheimilinu Árgarði, 

þar kjósa íbúar fyrrum Lýtingsstaðahrepps – kjörfundur hefst kl. 12:00

Kjördeild í Grunnskólanum að Hólum,

þar kjósa íbúar fyrrum Hóla- og Viðvíkurhrepps – kjörfundur hefst kl. 12:00

Kjördeild í Höfðaborg Hofsósi,

þar kjósa íbúar fyrrum Hofshrepps – kjörfundur hefst kl. 10:00

Kjördeild í Grunnskólanum á Sólgörðum,

þar kjósa íbúar fyrrum Fljótahrepps – kjörfundur hefst kl 12:00

Kjördeild í Varmahlíðarskóla,

þar kjósa íbúar fyrrum Staðar – og Seyluhrepps  – kjörfundur hefst kl. 10:00

Kjördeild í Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki,

kjörfundur hefst kl. 13:00

 

Kjörfundi má slíta 8 klst. eftir að kjörfundur hefst, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram, og hvenær sem er ef allir sem á kjörskrá standa hafa greitt atkvæði.

Kjörfundi má einnig slíta fimm klukkustundum eftir opnun ef öll kjörstjórnin er sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.

Kjörfundi skal slitið eigi síðar en kl. 22:00

Unnt er að kjósa utan kjörfundar hjá sýslumanni Norðurlands vestra á Sauðárkróki frá kl. 09:00 til kl. 15:00 virka daga fram að kjördegi og kl. 16:00-18:00 á kjördag þ. 27. júní  2020.  Lokað verður 17. júní.

Yfirkjörstjórn verður með aðstöðu í Bóknámshúsi FNV.

Afsláttur á vetrarkortum

Skíðadeild Tindastóls hefur sett í sölu vetrarkortin fyrir komandi vertíð og verða þau á 20% afslætti til 20. desember.

Það er um að gera að notfæra sér þetta frábæra tilboð, meðfylgjandi er einnig Norðurlandskortið sem gildir fyrir tvö skipti á skíðasvæðin í Hlíðarfjalli, Dalvík og Siglufirði.

 • Vetrarkort fyrir fullorðin 30.000 kr.
 • Vetrarkort fyrir börn 7 til 17 ára 15.000 kr.
 • Vetrarkort á gönguskíði 15.000 kr.

 

Sjómannadagurinn í Skagafirði

Um helgina fagna sjómenn og aðrir landsmenn sjómannadeginum með hefðbundnum hætti.  Hátíðahöld verða á Sauðárkróki á laugardeginum og á Hofsósi á sunnudeginum.

Laugardagurinn 1. júní hefst með skemmtisiglingu með Drangey SK 2 kl. 11:00 og boðið upp á fiskisúpu og pylsur að henni lokinni. Hátíðahöldin hefjast á hafnarsvæðinu kl. 12:00 og verður dorgveiðikeppni, carnival leikir, hoppukastalar og andlitsmálning ásamt kassaklifri og Hvolpasveitinni í boði. Skagfirðingasveit og Slysavarnadeildin Drangey verða með kaffisölu í neðri salnum á Kaffi Krók milli kl 12:00 og 16:00 sama dag.

Á laugardagskvöldinu er ball í íþróttahúsinu á Sauðárkróki þar sem hljómsveitin Stjórnin mun halda uppi fjörinu.

Sunnudaginn 2. júní hefst hátíðardagskráin á Hofsósi með helgistund við minnisvarðann um látna sjómenn kl 12:30. Að henni lokinni hefst dagskráin á hafnarsvæðinu þar sem verður m.a. dorgveiðikeppni, þrautabraut og sigling. Björgunarsveitin Grettir og Slysavarnardeildin Harpa verða með kaffisölu í Höfðaborg sem hefst kl 15:00.

Heimild: skagafjordur.is

Námskeiðið Mannlegi millistjórnandinn

Námskeiðið „Mannlegi millistjórnandinn“ verður haldið á Sauðárkróki dagana 30. október og 13. nóvember á vegum Starfsmenntar.

Markmið námskeiðisins er að styrkja nýja stjórnendur og millistjórnendur í störfum sínum.
Námskeiðið verður haldið í Farskólanum á Sauðárkróki, Faxatorgi.

Skráning er á Smennt.is fyrir félagsmenn Starfsmenntar, og einnig hjá Farskólanum fyrir utanfélagsmenn.

Nánari upplýsingar um námskeiðið eru á vef Smennt.is.

Tæpum 110 þúsund kindum slátrað hjá KS

Sláturtíð hjá Kjötafurðastöð KS lauk fimmtudaginn 30. október síðastliðinn. Stefnt er að því að vera með síðustu sauðfjár slátrun ársins 28. nóvember næstkomandi. Það sem af er ári hefur verið slátrað 109.950 kindum og var meðalþungi lamba í sláturtíð 16,16 kg sem er hækkun á meðalþunga frá fyrra ári um tæp 300 gr.

Slátrun gekk vel og úrvinnsla gekk einnig vel en talsverð breyting varð milli ára í útfærslu á kjötskurði og pökkun. Má þar nefna framleiðslu á lamba kórónu, læri án mjaðmabeins, stuttum lambahrygg og svokallaðri lamba öxl. Allt eru þetta vörur sem gerir lambakjötið girnilegra og í raun aðgengilegra fyrir neytendur í formi smærri sölueininga.

Útflutningur hefur gengið vel og er verið að lesta síðustu gámana sem ætlaðir eru til útflutnings á þessu ári. Helstu markaðir eru Asía, Spán, Bretland og Rússland og hluti hliðarafurða fer til Hollands og þaðan á aðra markaði. Eftir áramót verða svo sendir út gámar með lambaskrokkum á Noreg og Japan.  Gærusala hefur ekki gengið sem skildi og eru um 60. þús. gærur óseldar.

Þetta kemur fram á heimasíðu Kaupfélags Skagfirðinga.