Category Archives: Skagafjörður

Afsláttur á vetrarkortum

Skíðadeild Tindastóls hefur sett í sölu vetrarkortin fyrir komandi vertíð og verða þau á 20% afslætti til 20. desember.

Það er um að gera að notfæra sér þetta frábæra tilboð, meðfylgjandi er einnig Norðurlandskortið sem gildir fyrir tvö skipti á skíðasvæðin í Hlíðarfjalli, Dalvík og Siglufirði.

  • Vetrarkort fyrir fullorðin 30.000 kr.
  • Vetrarkort fyrir börn 7 til 17 ára 15.000 kr.
  • Vetrarkort á gönguskíði 15.000 kr.

 

Sjómannadagurinn í Skagafirði

Um helgina fagna sjómenn og aðrir landsmenn sjómannadeginum með hefðbundnum hætti.  Hátíðahöld verða á Sauðárkróki á laugardeginum og á Hofsósi á sunnudeginum.

Laugardagurinn 1. júní hefst með skemmtisiglingu með Drangey SK 2 kl. 11:00 og boðið upp á fiskisúpu og pylsur að henni lokinni. Hátíðahöldin hefjast á hafnarsvæðinu kl. 12:00 og verður dorgveiðikeppni, carnival leikir, hoppukastalar og andlitsmálning ásamt kassaklifri og Hvolpasveitinni í boði. Skagfirðingasveit og Slysavarnadeildin Drangey verða með kaffisölu í neðri salnum á Kaffi Krók milli kl 12:00 og 16:00 sama dag.

Á laugardagskvöldinu er ball í íþróttahúsinu á Sauðárkróki þar sem hljómsveitin Stjórnin mun halda uppi fjörinu.

Sunnudaginn 2. júní hefst hátíðardagskráin á Hofsósi með helgistund við minnisvarðann um látna sjómenn kl 12:30. Að henni lokinni hefst dagskráin á hafnarsvæðinu þar sem verður m.a. dorgveiðikeppni, þrautabraut og sigling. Björgunarsveitin Grettir og Slysavarnardeildin Harpa verða með kaffisölu í Höfðaborg sem hefst kl 15:00.

Heimild: skagafjordur.is

Námskeiðið Mannlegi millistjórnandinn

Námskeiðið „Mannlegi millistjórnandinn“ verður haldið á Sauðárkróki dagana 30. október og 13. nóvember á vegum Starfsmenntar.

Markmið námskeiðisins er að styrkja nýja stjórnendur og millistjórnendur í störfum sínum.
Námskeiðið verður haldið í Farskólanum á Sauðárkróki, Faxatorgi.

Skráning er á Smennt.is fyrir félagsmenn Starfsmenntar, og einnig hjá Farskólanum fyrir utanfélagsmenn.

Nánari upplýsingar um námskeiðið eru á vef Smennt.is.

Ein umsókn barst um rekstur tjaldsvæða í Skagafirði

Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsti í haust eftir rekstraraðilum fyrir tjaldsvæðin á Sauðárkróki, Hofsósi og Varmahlíð. Ein umsókn barst fyrir lok umsóknarfrests. Samþykkt hefur verið að ganga til viðræðna við umsækjendur, Halldór Brynjar Gunnlaugsson og Hildi Þóru Magnúsdóttur, um rekstur tjaldsvæðanna.

Tæpum 110 þúsund kindum slátrað hjá KS

Sláturtíð hjá Kjötafurðastöð KS lauk fimmtudaginn 30. október síðastliðinn. Stefnt er að því að vera með síðustu sauðfjár slátrun ársins 28. nóvember næstkomandi. Það sem af er ári hefur verið slátrað 109.950 kindum og var meðalþungi lamba í sláturtíð 16,16 kg sem er hækkun á meðalþunga frá fyrra ári um tæp 300 gr.

Slátrun gekk vel og úrvinnsla gekk einnig vel en talsverð breyting varð milli ára í útfærslu á kjötskurði og pökkun. Má þar nefna framleiðslu á lamba kórónu, læri án mjaðmabeins, stuttum lambahrygg og svokallaðri lamba öxl. Allt eru þetta vörur sem gerir lambakjötið girnilegra og í raun aðgengilegra fyrir neytendur í formi smærri sölueininga.

Útflutningur hefur gengið vel og er verið að lesta síðustu gámana sem ætlaðir eru til útflutnings á þessu ári. Helstu markaðir eru Asía, Spán, Bretland og Rússland og hluti hliðarafurða fer til Hollands og þaðan á aðra markaði. Eftir áramót verða svo sendir út gámar með lambaskrokkum á Noreg og Japan.  Gærusala hefur ekki gengið sem skildi og eru um 60. þús. gærur óseldar.

Þetta kemur fram á heimasíðu Kaupfélags Skagfirðinga.

Lögin hans Óðins í Miðgarði

Tónleikar með lögum Óðins Valdimarssonar laugardagskvöldið 9. mars kl: 21:00 í Menningarhúsinu Miðgarði.

Hver man ekki eftir lögum eins og: Í kjallaranum, Ég er kominn heim, Einsi kaldi úr eyjunum, Útlaginn – auk fjölda annarra laga.

Flytjendur eru Brynleifur Hallsson, Helena Eyjólfsdóttir, Einar Bragi Bragason, Þorleifur Jóhannsson, Björn Þórarinsson, Óskar Pétursson, Stefán Gunnarsson, Hermann Arason, Friðjón Jóhannsson, Valgarður Óli Ómarsson, Snorri Guðvarðsson og Rafn Sveinsson sem rekur feril söngvarans.

Miðaverð 3.500 kr,- Miðasala við innganginn.

93. ársþing UMSS

Hér með er boðað til 93. Ársþings UMSS, sem verður haldið í Skagafirði sunnudaginn 17. mars 2013, í umsjá Hestamannafélagsins Stíganda. Þingið verður haldið í Félagsheimilinu Melsgili Staðarhreppi og hefst kl 14:00

Einnig eru formenn og stjórnir aðildarfélaga/deilda UMSS boðaðir til kynningarfundar um unglingalandsmót UMFÍ sem verður haldið á Sauðárkróki árið 2014.

Á fundinum mun Ómar Bragi Stefánsson landsfulltrúi UMFÍ kynna fyrir aðildarfélögum UMSS þátt UMSS að þessu móti.

  • Fundurinn verður haldinn sunnudaginn 17. Mars 2013 og hefst kl 12:30 .
  • Fundarstaður er Félagsheimilið Melsgil Staðarhreppi.

Ætlunin er að nota sama fundarstað og 93 Ársþing UMSS sem er seinna sama dag.