Alexandersflugvöllur eða Sauðárkróksflugvöllur er flugvöllur við botn Skagafjarðar, á Borgarsandi austan við Sjávarborg. Flugbrautin er rúmlega 2000 metra löng.
Upphaflega var flugvöllur lagður á Borgarsandi 1949. Nýr völlur var svo gerður á 8. áratug aldarinnar og tekinn í notkun 23. október 1976. Árið 1988 var efnt til flughátíðar á Sauðárkróki og hlaut völlurinn þá nafnið Alexandersflugvöllur til heiðurs Alexander Jóhannessyni háskólarektor og frumkvöðuls í flugmálum, en hann var alinn upp á Sauðárkróki og var farþegi í fyrstu flugvél sem lenti þar, en það var þegar sjóflugvélin Súlan lenti fyrir framan Villa Nova á Sauðárkróki sumarið 1928. Fyrsta landflugvélin lenti á Borgarsandi 1938 og var það Agnar Kofoed-Hansen sem flaug henni.
——————————————————————————
Sumarið 1928 lenti flugvél á Sauðárkróki, í fjörunni fyrir neðan Villa Nova. Til er frásögn Valgards Blöndal um þennan atburð og er gripið niður í hana hér; “Vélamaðurinn sté fyrstur út og niður á flotholtin, batt þar í kaðal og óð til lands. Flugmaðurinn fór út á vænginn og opnaði hurðina að farþegarúminu. Þar kom út maður hvatlegur, veifaði til mannfjöldans og kallaði: “Komið þið sæl.” Maðurinn var Skagfirðingur og gamall Sauðárkróksbúi, dr. Alexander Jóhannesson. Flugvélin hét Súlan og var flugstjórinn þýskur og hét Neumann.”
Um er að ræða fyrsta skiptið sem flugvél lenti á Sauðárkróki. Þann 15. ágúst 1938 lenti svo fyrsta landflugvélin á Borgarsandi. Flugmaðurinn var Agnar Kofoed-Hansen.
Valgard Blöndal vekur máls á því árið 1938 að það þurfi að koma flugvelli upp við Sauðárkrók. Árið 1949 fóru menn að huga að flugvallarstæði á Borgarsandi við Sauðárkrók, en framkvæmdir töfðust vegna féskorts, en að lokum var búið að gera flugvöll þann 14. október árið 1949.
Á árunum 1973-1976 var lagður nýr flugvöllur við Sauðárkrók. Flugbrautin er rúmlega 2000 metra löng. Völlurinn var tekinn í notkun 23. október 1976.
Árið 1988 var efnt til flughátíðar á Sauðárkróki í tilefni af hundrað ára afmæli Alexanders Jóhannessonar háskólarektors og frumkvöðuls í íslenskum flugmálum. Dagskráin hófst með hátíðarfundi þann 15. júlí en það var fæðingardagur Alexanders. Daginn eftir var flughátíð til að heiðra brautryðjandastarf Alexanders á sviði flugmála á Íslandi. Í tilefni dagsins var flugvöllurinn sem vígður var árið 1976 formlegur nefndur Alexandersflugvöllur. Á annað þúsund manns mættu á hátíðardagskránna á flugvellinum og voru þar á fimmta tug flugvéla og þrír erlendir hitaloftbelgir.