Síldarminjasafninu barst á síðasta ári rausnarleg gjöf er Ljósmyndasafn Siglufjarðar var afhent til framtíðarvarðveislu og miðlunar. Um er að ræða stórt safn sem inniheldur mikið af filmum, glerplötum sem og ljósmyndum á pappír.  Í Salthúsi Síldarminjasafnsins verður innréttuð sérstök ljósmyndageymsla, þar sem raka- og hitastigi verður stýrt og allar aðstæður eins og best verður á kosið.

Grundvallarsjónarmið Síldarminjasafnsins er að sinna varðveislu muna og gripa með eins faglegum hætti og unnt er og eru ljósmyndir þar ekki undanskildar. Í samstarfi við Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni voru skipulögð vinnuskipti sem fela í sér vikulanga heimsókn Siglfirðinga til Reykjavíkur og sambærilega heimsókn sérfræðinga á Ljósmyndasafni Íslands norður á Siglufjörð.

Vikuna 6. – 10. mars var tekið á móti starfsfólki Síldarminjasafnsins í heimkynnum Ljósmyndasafns Íslands í Vesturvör í Kópavogi þar sem áhersla var lögð á að kynna verklag við varðveislu ljósmynda, forvörslusjónarmið, mótttöku nýrra aðfanga og skráningu þeirra.

Fyrsti áfangi vinnu við Ljósmyndasafn Siglufjarðar fer af stað nú í apríl, en starfsmaður hefur verið ráðinn í hlutastarf til átaksverkefnis. Í þessari fyrstu lotu verða allar frummyndir settar í nýjar sýrufríar umbúðir, þær flokkaðar og númeraðar eftir sambærilegu kerfi og viðhaft er á Þjóðminjasafni – þar sem söfn einstakra ljósmyndara eru varðveitt sem heild og aðgengleg sem slík. Þá er jafnframt ráðgert að vinna að greiningu á myndunum og skráningu þeirra í Sarp.

Um miðjan maímánuð er von á sérfræðingum frá Ljósmyndasafni Íslands til vikulangrar dvalar á Siglufirði, til þess að vinna við ljósmyndasafnið, veita ráðgjöf og aðstoða við ýmis verkefni.

Heimild: sild.is

Mynd: sild.is