Umf Glói á Siglufirði mun halda Sjóvá kvennahlaup ÍSÍ sextánda árið í röð þann 15. júní nk. Þetta verður þrítugasta Kvennahlaupið og verður því meira um dýrðir en nokkur sinni fyrr.
Því miður hefur þátttaka í hlaupinu á Siglufirði verið að dala undanfarin ár eins og víðar á landinu og vill því Umf Glói snúa þeirri þróun við á afmælisárinu. Stofnuð hefur verið sérstök síða á fésbókinni fyrir hlaupið á Siglufirði.
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ er haldið á yfir 80 stöðum á landinu. Fjölmennasta hlaupið er haldið í Garðabæ og einnig fer stórt hlaup fram í Mosfellsbæ. Á landsbyggðinni fara einnig fram fjölmenn hlaup sem skipulögð eru af öflugum konum í hverju bæjarfélagi fyrir sig.
Fyrsta Kvennahlaupið var haldið árið 1990. Upphaflega var markmið hlaupsins að fá fleiri konur út að hreyfa sig og að hvetja konur til þátttöku í starfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þau markmið hafa um margt náðst þar sem konur hreyfa sig mun meira í dag en fyrir 30 árum, íslenskar íþróttakonur eru að ná frábærum árangri á heimsvísu og margar konur í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna hérlendis.
Í dag er áherslan ekki hvað síst á samstöðu kvenna, að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum forsendum og eigi ánægjulega samverustund með fjölskyldu og vinum.
Hlaupið er árviss viðburður hjá mörgum konum sem taka daginn frá til að hlaupa með dætrum, mæðrum, ömmum, systrum, frænkum og vinkonum sínum og margir karlmenn slást líka í hópinn.