Heimamenn í Skagafirði eiga nú í viðræðum við flugfélagið Norlandair á Akureyri, áður Flugfélag Norðurlands, um að taka að sér áætlunarflug milli Sauðárkróks og Reykjavíkur.

Flugfélagið Ernir hætti flugi þangað um áramótin en Sveitarfélagið Skagafjörður hefur haft frumkvæði að því að ræða við önnur félög um að halda fluginu áfram frá Alexandersflugvelli.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Skagafjarðar, átti í gær fund með forsvarsmönnum Norlandair og hann segir þær viðræður hafa verið jákvæðar. „Þeir ætla að liggja yfir kostnaðartölum í þessu og ef þær niðurstöður verða jákvæðar er næsta skref að ræða á ný við innanríkisráðuneytið,“ segir Stefán en ríkið hefur eyrnamerkt um 10 milljónir króna til áætlunarflugs á Sauðárkrók

Heimild: Mbl.is