Viðgerðir á gervigrasvellinum á Sauðárkróki er hafin. Í kjölfar leysinga þann 20. apríl sl. urðu skemmdir á um 1.500 fermetra svæði á vellinum, en völlurinn sjálfur er rúmlega 8.000 fermetrar. Byggðaráð Skagafjarðar samþykkti á fundi sínum á miðvikudaginn að fara í viðgerðir á vellinum að fjárhæð 11 milljónir króna og í kjölfarið fer fram endurnýjun á 550 fermetrum af gervigrasi á vellinum.

Á meðan viðgerðum stendur verður hluta vallarins lokað en hægt verður að æfa á þeim hluta sem ekki varð fyrir skemmdum.

Framkvæmdin á vellinum eru á höndum Metatron og er áætlað að viðgerðum ljúki um næstu mánaðarmót.