Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi fór fram í Mývatnssveit á fimmtudaginn síðastliðinn. Mývetningar tóku vel á móti sínum kollegum í ferðaþjónustu og farið var í heimsóknir í fyrirtæki á svæðinu, áður en boðið var upp á kvöldmat og skemmtun í Skjólbrekku.

Venju samkvæmt voru þrjár viðurkenningar veittar, Sproti ársins, Fyrirtæki ársins og viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustunnar.

Að þessu sinni fékk fyrirtækið Bjórböðin, frá Árskógssandi viðurkenningu sem Sproti ársins. Í flokknum Fyrirtæki ársins varð Gauksmýri í Húnaþingi vestra fyrir valinu og að lokum fékk Ólöf Hallgrímsdóttir í Vogafjósi, Mývatnssveit, viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi. 

Sproti ársins

Böðin voru opnuð í júní og vöktu strax mikla athygli bæði hérlendis sem erlendis. Reyndar hafði hugmyndin um byggingu baðanna vakið athygli löngu áður en ráðist var í framkvæmdir, enda eru slík böð ekki að finna hvar sem er í heiminum. Fyrirtækið kom því ekki aðeins nýtt inn á markaðinn, heldur kom það inn með glænýja upplifun.

Bjórböðin hafa skapað sér ákveðna sérstöðu í ferðaþjónustu og ferðaskrifstofur verið fljótar að taka við sér með því að bjóða upp á ferðir þar sem viðkoma í böðunum er innifalin. Ferðaþjónusta á Norðurlandi nýtur góðs af þessari nýjung þar sem þarna er komin eftirsóknarverð þjónusta sem önnur ferðaþjónustufyrirtæki geta nýtt sér. Það er reyndar ekki bara vegna sjálfra bjórbaðanna, heldur einnig vegna veitingastaðarins og barsins sem hafa notið vinsælda.

Bjórböðin eru rekin af Ragnhildi Guðjónsdóttur, en hún og maðurinn hennar, bruggmeistarinn Sigurður Bragi Ólafsson eiga fyrirtækið að stærstum hluta ásamt foreldrum Sigurðar þeim Agnesi Önnu Sigurðardóttur og Ólafi Þresti Ólafssyni.

Fyrirtæki ársins

Ferðaþjónustan á Gauksmýri er rótgróin og á sér sögu sem teygir sig aftur til síðustu aldar, því hún hófst árið 1999. Árið 2006 var þar opnað nýtt gistiheimili með 18 herbergjum, veitingasal og móttöku. Það voru hjónin Jóhann Albertsson og Sigríður Lárusdóttir sem stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma, en Sigríður féll frá árið 2015. Í kjölfarið komu börn þeirra að rekstri fyrirtækisins, en í dag sjá þau Hrund Jóhannesdóttir og maður hennar Gunnar Páll Helgason um reksturinn að mestu leyti.

Gauksmýri snýst fyrst og fremst um hestamennsku og öll aðstaða á sveitabænum er til fyrirmyndar. Þar er reiðvöllur, með glænýrri stúku sem var byggð í sumar, þar sem kostir íslenska hestsins eru tíundaðir og sýndir á sérstökum sýningum sem vel eru sóttar. Gestum er síðan boðið yfir í flotta aðstöðu í hesthúsinu, þar sem þeim gefst kostur á að kynnast hestunum betur.

Viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi

Í ár er það Ólöf Hallgrímsdóttir sem hlýtur viðurkenninguna, en hún hefur undanfarin 18 ár sýnt og sannað að áhugi fólks á fjósum er ekki bara takmarkaður við mjólkurafurðir. Vogafjós í Mývatnssveit er nú með bestu veitingastöðum Norðurlands og þótt víðar væri leitað, og hefur haft mjög jákvæð áhrif á þróun ferðaþjónustu í landshlutanum.

Ólöf hefur verið brautryðjandi í ferðaþjónustu lengi og svo sannarlega farið sínar eigin leiðir. Hún var snemma byrjuð að selja mat úr héraði og sagði í viðtali við fylgirit Morgunblaðsins árið 2007 að áherslan væri ekki á hamborgara og franskar, heldur rétti eins og hverabrauð með silungi úr Mývatni, hangikjöt og heimagerðan mozzarella- og fetaost. Sú áhersla hefur skilað því að Vogafjós er eitt af þekktari kennileitunum í umhverfi ferðaþjónustu í Mývatnssveit og raunar á Norðurlandi öllu. Auðvitað hefur hin sérstaka samþætting landbúnaðar og veitingareksturs þar einnig áhrif.

Myndir og heimild: Markaðsstofa Norðurlands