Dagana 25.-26. maí voru hljóðritaðar sex messur í Húsavíkurkirkju. Þetta er fimmta sumarið sem Ríkisútvarpið hljóðritar messur safnaða á landsbyggðinni og hefur þetta verkefni mælst vel fyrir bæði hjá útvarpshlustendum og þátttakendum sem voru í þetta sinn um eitt hundrað talsins.

Húsavíkurkirkja varð fyrir valinu sem upptökustaður og var öllum boðið að sækja messu tvisvar á laugardag og fjórum sinnum á sunnudag. Fjölmennur hópur presta, organista, lesara og kirkjukóra lagði á sig mikla vinnu við undirbúning og ánægjuleg samvinna smærri kirkjukóra hefur skapað stærri heild og möguleika til að flytja metnaðarfyllri tónlist.

Upptökurnar verða sendar út á Rás1 í júní, júlí og ágúst.