Íslenskur togari, Hallgrímur SI 77 frá Siglufirði, með fjögurra manna áhöfn fórst undan strönd Noregs í dag. Norskt björgunarlið bjargaði einum úr áhöfn á lífi úr sjónum, en hinna er leitað. Aðstæður á vettvangi eru afar erfiðar.
Klukkan hálf tvö í dag barst björgunarstöð í Noregi neyðarkall frá íslenska skipinu, togara sem var á leið frá Íslandi til Noregs. Sjálfvirkur neyðarsendir fór þá í gang, en ekkert samband náðist við áhöfnina. Fjórir voru um borð, allt Íslendingar. Á sama tíma datt skipið út úr sjálfvirku kerfi vaktstöðvar siglinga í Reykjavík. Verið var að ferja skipið frá Íslandi til Noregs, þangað sem það var selt í brotajárn.
Þegar neyðarkallið barst var skipið statt 270 sjómílur norðvestur af Álasundi í Norður-Noregi. Aftakaveður er á þessum slóðum og ölduhæð mikil, 10-15 metrar, samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Björgunarlið var þegar ræst og tvær Sea King-þyrlur voru fyrstar á staðinn. Áhöfn annarrar fann mann úr áhöfninni á lífi í sjónum, en hinna er leitað. Orion-vél er einnig á leiðinni, búin hitamyndavél og öflugri ratsjá. Nálægur togari tekur einnig þátt í leitinni, sem miðar að því að finna björgunarbáta þar sem ljóst er að togarinn er sokkinn.
Norska ríkisútvarpið, NRK, skýrði frá því undir kvöld að maðurinn sem bjargað var úr sjónum væri kominn til Álasunds og hann væri vel á sig kominn.