Á fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 22. febrúar 2011 var samþykkt að fella tímabundið niður gatnagerðargjöld af byggingum íbúðarhúsnæðis af hálfu einstaklinga og verktaka á lóðum við þegar tilbúnar götur á Sauðárkróki, Hofsósi og Varmahlíð. Niðurfellingin tók þegar gildi eftir samþykktina í sveitarstjórn og gildir hún til 1. júlí 2012. Er miðað við að framkvæmdir hefjist fyrir þann tíma en ákvæðið gildir ekki afturvirkt.

Í greinargerð með tillögu meirihluta sveitarstjórnar segir að mikill skortur hafi verið á íbúðarhúsnæði í Sveitarfélaginu Skagafirði að undanförnu. Eigi það bæði við um húsnæði til sölu og ekki síður framboð á leiguíbúðum. Markmið samþykktarinnar er að greiða fyrir því að einstaklingar og fyrirtæki sjái sér hag í að ráðast í byggingu íbúða, parhúsa og einbýlishúsa í sveitarfélaginu.

Þess má geta að í niðurstöðum þjónustukönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð árið 2009 kom fram að 50% svarenda voru óánægðir með framboð af leiguhúsnæði í sveitarfélaginu.

Á fundi Sveitarstjórnar Sveitarfélagins Skagafjarðar þann 28. mars 2012 var þetta ákvæði framlengt til 1. júlí 2013