Í byrjun júní eru fyrirhugaðar breytingar á póstþjónustu á fjórum stöðum á Norðurlandi. Til stendur að loka pósthúsunum á Hvammstanga, Siglufirði og Dalvík og samstarfspósthúsinu í Ólafsfirði. Nú verða sendingar afgreiddar af bílstjórum póstbíla og í póstboxum. Þegar eru komin póstbox á Hvammstanga og Dalvík en í næsta apríl verða sett upp box í Fjallabyggð.  Breytingarnar hafa áhrif á tæplega fjögur stöðugildi á þessum svæðum.

Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa, segir að lögð sé áhersla á að þróa þjónustu í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda. „Dregið hefur úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa. Þar af leiðandi er lagt upp úr að þróa annars konar lausnir. Okkar ánægðustu viðskiptavinir eru þeir sem nota póstbox. Nú er meira að segja líka hægt að póstleggja sendingar í póstbox. Eftir sem áður eru póstboxin opin árið um kring allan sólarhringinn,“ segir Kjartan.

 

Póstbíllinn verður líka á ferðinni á þessum stöðum. „Nú verður boðið upp á heimsendingarþjónustu á Hvammstanga, Dalvík og í Ólafsfirði. Þess má geta að fyrir þessar breytingar var sú þjónusta ekki í boði,“ segir Kjartan.

Rætt hefur verið við starfsfólkið á pósthúsunum sem verður lokað að sögn Kjartans. „Breytingarnar hafa áhrif á tæplega fjögur stöðugildi. Nokkrum starfsmönnum var boðið annars konar starf eða flutningur. Ég vil þakka því góða starfsfólki sem nú lætur af störfum og óska því góðs gengis í næstu verkefnum.“