Bergmenn, fagmenn í fjallaleiðsögn bjóða upp á þyrluskíðaferðir frá Dalvík sem er ný og ótrúlega spennandi viðbót við þá fjölbreyttu flóru ferða sem boðið er uppá.
Síðastliðin 10 ár hafa Bergmenn sérhæft sig í fjallaskíðaferðum á Tröllaskaga og nú í dag er svo komið að Tröllaskaginn er orðin heimsþekktur viðkomustaður fjallaskíðafólks víðsvegar að úr heiminum. Bergmenn bjóða nú í ár í fyrsta sinn á Íslandi skipulagðar þyrluskíðaferðir á Tröllaskaganum þar sem tækifærin til skíðunnar eru ótæmandi með þúsundum brekkna með fallhæð allt að 1500m sem er eins gott og það gerist á heimsvísu.
Skíðasvæðið sem opnast með aðstoð þyrlunnar er gríðarlega umfangsmikið eða tæpir 4000 ferkílómetrar beggja vegna Eyjafjarðar þar sem allar tegundir skíðabrekkna er að finna, allt frá bröttustu giljum til víðáttumikilla hvilftarjökla sem þýðir að allt skíðafólk finnur eitthvað við sitt hæfi. Það að skíða af hæstu tindum Tröllaskagans alveg niður í svartar sandfjörur í miðnætursól er einstök upplifun sem enginn má missa af að prófa þótt ekki sé nema einu sinni á lífsleiðinni.

Byrjað er að skíða á Tröllaskaganum um miðjan mars og vertíðin endist fram í júní í venjulegu ári með almennt frábæru vorskíðafæri og einstaka góðum púður degi. Vegna þess að Tröllaskaginn er strandfjallgarður eru snjóalög þar þykk og að sama skapi stöðug hvað varðar snjóflóðahættu þegar líða tekur á vorið. Þetta þýðir að hægt er að skíða brattari brekkur en gengur og gerist í þyrluskíðamennsku annarsstaðar í heiminum. Veðurfar á Tröllaskaga í apríl og maí er tiltölulega stöðugt á íslenskan mælikvarða með löngum stillum og sólríkum dögum. Þótt að það geti gert slæm veður að þá vara þau yfirleitt ekki lengi og með löngum dögum vorsins er hægt að skíða nánast 24 tíma á sólarhring.