Átakinu Römpum upp Ísland var formlega hleypt af stokkunum á föstudaginn. Markmiðið með verkefninu er að byggja 1.000 rampa um land allt á næstu fjórum árum. Kynningarfundur um verkefnið var haldinn í Skyrgerðinni í Hveragerði. Þar fluttu ávörp Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og verndari verkefnisins, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, og Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull verkefnisins. Friðrik Sigurbjörnsson, forseti bæjarstjórnar í Hveragerði, sá um fundarstjórn.

„Verkefnið Römpum upp Ísland er ekki aðeins merkilegt fyrir það að í því felst stórkostleg breyting í aðgengismálum fatlaðs fólks um allt land, heldur er að sérlega ánægjulegt og virðingarvert að einstaklingur leggi svo mikið af orku sinni og fjármunum til verkefna af þessu tagi. Ég vil sérstaklega þakka Haraldi Þorleifssyni fyrir frumkvæðið að samstarfinu og ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir þá tillögu, sem ég hef staðfest og undirritað og felur í sér 200 milljóna króna stuðning við verkefnið næstu fjögur árin,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Verkefnið Römpum upp Reykjavík, sem snéri að því að byggja 100 rampa í miðbæ Reykjavíkur í fyrra, fékk byr undir báða vængi og var lokið við 101 ramp næstum þremur mánuðum á undan áætlun og á sama tíma undir kostnaðaráætlun.

„Það var strax tekið vel í verkefnið og því færum við út kvíarnar og tæklum allt landið næst. Strax frá byrjun verkefnisins í Reykjavík höfum við fundið fyrir miklum áhuga um allt land og því ákváðum við að slá til. Stuðningsaðilar okkar hafa einnig unnið þrekvirki og þetta væri einfaldlega ekki hægt án þeirra,“ sagði Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull verkefnisins.

Nánar um verkefnið

Römpum upp Ísland er verkefni þar sem miðað er að því að setja upp 1.000 rampa á næstu 4 árum um land allt. Stofnaður var sjóður með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og aðila sem munu standa straum af kostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu. Framlag ríkisins nemur 200 milljónum kr. á tímabilinu. Álíka upphæð mun renna inn í verkefnið frá einkaaðilum og sveitarfélögum. Með römpunum er öllum gert kleift að komast á þægilegan hátt inn á veitingastaði og í verslanir þátttakenda á landinu öllu. Verkefnið verður framkvæmt í góðu samstarfi við eigendur viðkomandi bygginga og skipulagsyfirvalda. Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins.