Börnum, öldruðum og öryrkjum tryggð greiðsluþátttaka fyrir tannlæknaþjónusta í samningi.
Fyrsti samningurinn um alla þjónustu tannlækna til lengri tíma.
„Þessi heildarsamningur um þjónustu tannlækna er enn ein varðan á vegferð stjórnvalda til að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu og stuðla þannig að jöfnu aðgengi. Samningurinn gildir til fimm ára, líkt og nýgerður samningur um þjónustu sjúkraþjálfara og samningurinn um þjónustu sérgreinalækna. Ég óska samningsaðilum og þjónustuþegum til hamingju með þessi tímamót“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
„Við höfum trú á því að samningurinn muni leiða af sér bætta tannheilsu barna, aldraðra og öryrkja. Um er að ræða fyrsta heildstæða langtímasamninginn um alla þjónustu tannlækna. Þetta er að okkar mati ákaflega ánægjulegur áfangi,“ segir Sigurður H. Helgason forstjóri Sjúkratrygginga um nýjan samning sem undirritaður var milli Tannlæknafélagsins og Sjúkratrygginga í morgun.
„Okkur tannlæknum er í mun að þessir hópar sem samningurinn nær til eigi kost á góðri þjónustu í því velferðarþjóðfélagi sem við viljum telja okkur til,“ segir Elín Sigurgeirsdóttir tannlæknir og formaður Tannlæknafélags Íslands
Nýr samningur tryggir greiðsluþátttöku tannlækninga fyrir börn, aldraða og öryrkja til næstu fimm ára. Á sama tíma verður gefin út ný og skýrari reglugerð um kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga. Með samningnum fjölgar meðferðum sem greiddar eru af Sjúkratryggingum og hafa ekki áður verið greiddar. Þá er horft til nútímavæðingar með hliðsjón af nýjungum á fjölda sviða tannlækninga en samningurinn mun að mestu snerta á verklagi tannlækna og gagnasamskipta við Sjúkratryggingar.
Samningurinn er til fimm ára og tekur gildi að hluta 1. júlí og að fullu leyti 1. september n.k.
Samhliða samningsgerðinni hefur verið unnið að heildarendurskoðun reglugerðar um þátttöku sjúkratryggðra við tannlækningar. Meðal annars verður fallið frá skilyrði um mat tannlæknadeildar sem forsendu fyrir greiðsluþátttöku í tannréttingum vegna alvarlegra meðfæddra galla en Sjúkratryggingum Íslands verður heimilt að kalla eftir slíku mati við upphaf tannréttingaferilsins.
Þess má geta að í september á liðnu ári voru styrkfjárhæðir vegna almennra tannréttinga nær þrefaldaðar. Sú hækkun varð möguleg í kjölfar tímamótasamnings Sjúkratrygginga og tannréttingasérfræðinga sem undirritaður var í júlí í fyrra.
Meiri þjónusta keypt af tannlæknum
Á síðasta ári fengu 62.883 börn tannlæknaþjónustu með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga en Sjúkratryggingar greiða að fullu allar nauðsynlegar tannlækningar barna, að undanskildu komugjaldi. Þá fengu 33.772 ellilífeyrisþegar og 14.283 örorkulífeyrisþegar greiðsluþátttöku vegna tannlækninga á árinu.
Fjöldi einstaklinga sem hafa leitað sér þjónustu tannlækna með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga hefur aukist jafnt og þétt undan farin fjögur ár, tæplega 113 þúsund í fyrra, eða 4,7% aukning á milli ára. Fjöldi tannlæknar sem störfuðu skv. samningum við Sjúkratryggingar árið 2023 hefur lítið breyst en þeir voru 305 talsins.
Texti og mynd: aðsend fréttatilkynning.