Sveitarfélagið Skagafjörður hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt staðlinum ÍST 85:2012. Vottunin staðfestir að starfsfólk sveitarfélagsins sem vinnur sömu og/eða jafnverðmæt störf fær sömu laun og að ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Með innleiðingu jafnlaunakerfis hefur sveitarfélagið komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggir á kjarasamningum og málefnalegum sjónarmiðum og felur ekki í sér kynbundna mismunun. Árlega verða gerðar launagreiningar og sýna niðurstöður launagreiningar fyrir árið 2021 að óútskýrður launamunur kynja hjá sveitarfélaginu er vart mælanlegur en hann mælist 0,45% körlum í hag. Það sýnir og staðfestir að hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er stuðlað að jafnrétti í launamálum og er vinnulag samkvæmt því. Launagreiningin var unnin af Attentus ehf. í samstarfi við launadeild og mannauðsstjóra sveitarfélagsins.

Það var vottunarstofan iCert ehf. sem tók út vottun á jafnlaunakerfi Sveitarfélagsins Skagafjarðar og fór lokaúttektin fram dagana 24. og 25. júní sl. og lauk henni án frávika og athugasemda. Formlegt skírteini um jafnlaunavottun var gefið út 31. ágúst 2021 og gildir til næstu 3ja ára. Jafnlaunavottun er stöðugt umbótaferli og mun vottunarstofa gera framvegis árlega úttekt á jafnlaunakerfi sveitarfélagsins.

Texti og mynd: skagafjordur.is