Svæðistónleikar Nótunnar, uppskeruhátíðar tónlistarskólanna, fyrir Norður- og Austurland verða haldnir í Egilsstaðakirkju laugardaginn 18. mars næstkomandi. Um tvenna tónleika verður að ræða, kl. 14:00 og 16:00. Lokaathöfn og verðlaunaafhending fer fram kl. 18:00. Alls munu þrettán tónlistarskólar af Norður- og Austurlandi taka þátt og verður um mjög fjölbreytt atriði að ræða. Valnefnd mun velja sjö atriði á tónleikunum sem munu öðlast rétt til þátttöku á lokahátíð Nótunnar í Hörpu, en sú nefnd er skipuð Hólmfríði Benediktsdóttur, söngkonu, söngkennara og kórstjóra, Jóhanni Morávek, skólastjóra Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu, og Magnúsi Magnússyni, fyrrum skólastjóra Tónlistarskólans á Egilsstöðum.