Hin árlega „Stóðhestaveisla“ fer fram í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki á laugardagskvöldið kemur, 31. mars og hefst kl. 20 þar sem á fjórða tug stóðhesta mun koma fram ásamt mörgum knáum knöpum.

Samkvæmt fréttatilkynningu hófst forsala miða í gær, miðvikudag, en forsalan fer fram hjá N1 í Staðarskála, á Blönduósi, á Sauðárkróki og við Hörgárbraut á Akureyri. Miðaverð er 3.000 kr. í forsölu, en 3.500 kr. við innganginn. Innifalið í miðaverðinu er 370 blaðsíðna stóðhestabók þar sem kynntir eru 310 stóðhestar víðs vegar af landinu.

Gustur frá Hóli verður heiðurshestur sýningarinnar fyrir norðan og mun gleðja gesti með nærveru sinni.

Það verður því nóg um að vera fyrir hestaáhugamenn í Skagafirði á laugardagskvöldið.

Heimild: Mbl.is