Stafræna umsókn um bráðabirgðaskírteini er nú að finna á Ísland.is en slík umsókn er fyrsta skrefið að því að hefja ökunám. Einstaklingar geta sótt um frá 16 ára aldri en þá geta tilvonandi ökumenn fyrst hafið ökunám til almennra ökuréttinda. Ferlið er stafrænt þar sem ökunemi skráir ökukennara og greiðir fyrir skírteinið. Allar upplýsingar úr umsókn eru skráðar beint í ökuskírteinaskrá. Ökunemi skilar inn mynd til sýslumanns í kjölfar umsóknar og læknisvottorði ef við á. Námsheimild er þá veitt í kjölfarið og ökunemi getur hafið nám með sínum ökukennara.
Árið 2021 sóttu 6.056 einstaklingar um að hefja ökunám og verður áhugavert að sjá hversu margir velja nú að fara í gegnum stafrænt ferli.
„Við höfum lagt mikla áherslu á að bæta þjónustuna og færa hana á stafrænt form. Þetta skref er eitt af mörgum sem miða að því að bæta þjónustu okkar við fólk,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Áður var stafræn umsókn um fullnaðarökuskírteini gerð aðgengileg á Ísland.is auk þess sem ökukennarar geta staðfest niðurstöður akstursmats með stafrænum hætti, en slík staðfesting er nauðsynleg svo gefa megi út fullnaðarökuskírteini.
„Stafræna leiðin einfaldar bæði umsóknarferlið fyrir umsækjendur sem og umsýslu hjá sýslumönnum. Þetta leiðir af sér betri pappírslausa þjónustu sem hægt er að nýta sér þegar hentar óháð opnunartíma,“ segir Kristín Þórðardóttir, sýslumaður á Suðurlandi og formaður sýslumannaráðs.
Í framhaldi af þessum áfanga er unnið að því að opna stafræna ökunámsbók sem verið hefur í prófunum. Með stafrænni ökunámsbók geta ökukennarar skráð inn tíma og framvindu ökunáms. Einnig er unnið að því að ökuskólar staðfesti nám með stafrænum hætti. Lokaáfangi verkefnisins er svo rafræn próftaka fyrir bókleg ökupróf.
„Við höfum lagt mikla áherslu á þetta verkefni samhliða því að tryggja gæði námsins og þar með umferðaröryggi okkar allra. Með stafrænum ökunámsferli gerum við ökunám á Íslandi markvissara og umhverfisvænna í takt við nútímatækni og þarfir samfélagsins.“ segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu.
Stafræn umsókn um bráðabirgðaskírteini er liður í stóru samstarfsverkefni innviðaráðuneytisins, Samgöngustofu, sýslumanna, Ríkislögreglustjóra og Stafræns Íslands um stafrænt ökunámsferli frá A-Ö.
Sækja um bráðabirgðaökuskírteini. Stafrænt ökuskírteini | Ísland.is (island.is)
Samhliða hefur verið opnuð upplýsingasíða fyrir ökukennara á Ísland.is. Upplýsingasíða fyrir ökukennara | Ísland.is (island.is)