Mennta- og barnamálaráðuneytið og sveitarfélög á Norðurlandi vestra skrifuðu í dag undir samning um allt að 1.400 fermetra stækkun á verk- og starfsnámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Að samningnum standa Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytis, Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Erla Jónsdóttir, oddviti Skagabyggðar, Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagaströnd, Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar, Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti Húnaþings vestra fyrir hönd sveitarfélaganna og Ingileif Oddsdóttir skólameistari fyrir hönd Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
Stækkun verk- og starfsnámsskóla um land allt hefur verið í forgangi hjá Ásmundi Einari Daðasyni á þessu kjörtímabili en áform eru um að byggja samtals 12.000 fermetra auk nýrra höfuðstöðva Tækniskólans. Er það gert til að mæta stóraukinni aðsókn í verk- og starfsnám en þar hefur þurft að hafna hundruðum umsækjenda undanfarin ár. Samningurinn sem skrifað var undir í dag er liður í þeirri uppbyggingu og með þessu samkomulagi ríkis og sveitarfélaganna um fjármögnun verkefnisins er hægt að klára hönnun, undirbúning og byggingu viðbyggingar við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Stofnkostnaður nýbyggingarinnar skiptist milli aðila og mun ríkissjóður greiða 60% en sveitarfélögin á Norðurlandi vestra 40% samkvæmt samningnum.
„Frá því að ég tók embætti mennta- og barnamálaráðuneytisins hefur stækkun verk- og starfsnámsaðstöðu í framhaldsskólum verið sett í algjöran forgang. Mikilvægt er að huga að uppbyggingu á námsaðstöðu um allt land til að mæta stóraukinni aðsókn í verknám. Fjölbrautaskólinn á Norðurlandi vestra er mikilvæg eining, ekki bara fyrir Sauðarárkrók heldur fyrir landssvæðið allt. Ég hlakka til að sjá nýja viðbyggingu rísa á næstu árum og óska öllum til hamingju með þennan risastóra áfanga.“ Segir Ásmundir Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra.