Ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar hefur skipað dr. Hólmfríði Sveinsdóttur rektor Háskólans á Hólum til fimm ára frá og með 1. júní 2022. Skipan Hólmfríðar er sakvæmt einróma ákvörðun háskólaráðs frá 25. mars s.l. um að tilnefna hana sem næsta rektor skólans. Háskólaráð hlakkar til samstarfs við Hólmfríði og óskar henni velfarnaðar í störfum sínum.

Hólmfríður er með meistaragráðu í næringarfræði Justus Liebig háskólanum í Giessen í Þýskalandi og doktorsgráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands. Hólmfríður leiddi Rannsóknir og þróun hjá Fisk Seafood um árabil og stýrði fyrir þeirra hönd m.a. samstarfsverkefni með Skaganum 3X sem miðaði að því að breyta kælingu á afla á millidekki. Hólmfríður stýrði einnig uppbyggingu á Iceprotein og Protis sem var fyrsta íslenska fyrirtækið til að framleiða fiskprótín og kollagen og setja á markað sem fæðubótarefni. Í dag starfar Hólmfríður í eigin fyrirtæki sem heitir Mergur Ráðgjöf og er verkefnastjóri í fjölmörgum nýsköpunarverkefnum á landsbyggðinni.

Ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, tilkynnti skipun nýs rektors á starfsmannafundi Háskólans á Hólum í dag og bauð Hólmfríði velkomna til starfa. Hér í viðhengi er mynd af Áslaugu og Hólmfríði sem tekin var eftir fundinn.

 

Texti og mynd: Aðsent.