Atvinnulífssýningin „Skagafjörður – lífsins gæði og gleði“ hófst í dag en hún stendur yfir alla helgina. Sýningin er haldin íþróttahúsinu á Sauðárkróki og var opin frá klukkan 10:00 til 17:00 í dag, laugardag og frá 10:00 til 16:00 á morgun, sunnudag.

„Það hefur verið mikið fjölmenni hér í dag,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, sviðsstjóri Markaðs- og þróunarsviðs Skagafjarðar og einn af skipuleggjendum sýningarinnar. Að sögn hans hafa um 1000 gestir núþegar farið um sýninguna en hann á von á öðru eins á morgun.

„Við erum með hérna rúmlega 100 sýnendur sem eru að kynna sína vöru og þjónustu, allir úr Skagafirði,“ segir Áskell Heiðar. Aðspurður hvort um sé að ræða fjölbreytta sýningu segir Áskell Heiðar: „Já, þetta er mjög fjölbreytt. Það er fólk hérna frá Félagi Ferðaþjónustunnar að draga út vinninga á sviðinu núna og það eru hérna iðnfyrirtæki, verktakar, fiskvinnslur, kjötvinnslur, forsetaframbjóðandi, skotveiðifélag, handverksfólk og íþróttamenn – allur skalinn, bæði þjónusta, verslun og framleiðsla.“

Áskell Heiðar Ásgeirsson.Áskell Heiðar Ásgeirsson. mbl.is

Að sögn Áskells Heiðars er sýningin opin öllum og frítt inn á hana. „Svo eru hérna líka fjölbreytt skemmtiatriði. Við vorum t.d. með tískusýningu hérna áðan,“ segir segir Áskell Heiðar og bendir á að það sé upplagt fyrir fólk að kíkja þarna með alla fjölskylduna. Hann segir barnasvæði vera á sýningunni en auk þess sé ýmislegt gefið þarna og margt að skoða fyrir börnin. „Við stílum einmitt upp á það að fjölskyldan geti komið hingað og haft hérna góðan dag,“ segir Áskell Heiðar.

Spurður hvort hann eigi von á miklum fjölda gesta yfir helgina segir Áskell Heiðar: „Já, ég á von að það koma svona á bilinu 2-3000 manns á og heimsæki okkur, miðað við hvernig þetta hefur byrjað.“

Texti og heimild: Mbl.is