Íslenski sjómaðurinn sem komst lífs af er togarinn Hallgrímur SI-77 sökk úti fyrir ströndum Noregs í gær, hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi. Hann ætlar sér að leita áfallahjálpar á Íslandi. Þá segir flugstjóri björgunarþyrlunnar, sem bjargaði manninum, að skipbrotsmaðurinn hafi gert allt rétt eftir að skipið fór að sökkva.
Upplýsingafulltrúi Sjúkrahússins í Álasundi, Arnt Sommerlund, sagði að búið væri að útskrifa manninn þar sem líkamlegir áverkar hans væru ekki miklir og hann þarfnaðist ekki frekari meðhöndlunar vegna þeirra.
Sommerlund segir að maðurinn hafi sjálfur kosið að þiggja ekki áfallahjálp á Sjúkrahúsinu í Álasundi, heldur ætli hann að leita sér slíkrar aðstoðar er hann kemur heim til Íslands.
Barðist fyrir lífi sínu í 15-18 metra ölduhæð
Fréttavefur Sunnmørsposten hefur eftir Olve Arnes, flugstjóra þyrlunnar, að Íslendingurinn, sem er 36 ára, hafi klætt sig í flotbúning strax og ljóst varð að leki var kominn að togaranum. Eftir að maðurinn lenti í sjónum notaði hann orkuna til að halda sér á floti og var nokkuð vel á sig kominn líkamlega þegar honum var bjargað um borð í þyrluna eftir þriggja og hálfs tíma vist í sjónum.
Ölduhæð var 15-18 metrar og maðurinn fór oft á kaf en komst alltaf upp á yfirborðið að nýju.
Engin ljós eða sendar voru á búningnum en á honum voru endurskinsmerki og því sá áhöfn þyrlunnar hann í sjónum.
Arnes segir að ofsaveður hafi verið á svæðinu þegar þyrlan kom þangað í gær eftir eins og hálfs klukkutíma flug úr landi. Merki bárust enn frá neyðarsendi sem var í togaranum, og því var ekki erfitt að finna svæðið þar sem báturinn sökk. Þar sá áhöfn þyrlunnar hluti úr skipinu, baujur, ljós og björgunarbát, sem reyndist tómur. Þá fannst sjómaðurinn fljótlega í sjónum.
„Hann var í afar góðu ásigkomulagi, bæði andlega og líkamlega, þegar við náðum honum um borð. Hann gat sagt okkur hvað gerðist og að það hefðu verið fjórir menn um borð en aðeins tveir þeirra hefðu farið í flotbúning. Þá hefði annar búningurinn líklega lekið. Þess vegna fengum við strax góða yfirsýn yfir stöðuna,“ segir Arnes.
Svo virðist sem Hallgrímur SI hafi sokkið á skömmum tíma. Íslenski sjómaðurinn segir að áhöfn Hallgríms hafi lent fljótlega í sjónum. Hann hafi eftir það séð björgunarbátinn og einn hinna en björgunarbáturinn fauk strax burtu og engum af skipbrotsmönnunum tókst að komast í hann.
Enn berast merki frá neyðarsendinum. Norska varðskipið Bergen ætlaði í morgun að fara á staðinn en varð að snúa við til Álasunds vegna veðurs og þar verður nú skipt um áhöfn. Eina skipið á svæðinu er loðnuskipið Herøyhav, en það var í vari í morgun og beið þess að veðrinu slotaði.