Sauðárkrókur

Sauðárkrókur í Skagafirði

Sauðárkrókur er innst við botn Skagafjarðar að vestanverðu, sunnan undir Tindastóli og skammt sunnan við ós Gönguskarðsár. Byggðin var fyrst öll á fremur mjórri malarspildu undir Nöfunum, bröttum malarkömbum upp af bænum, norðan við ós Sauðár, sem þá rann fram úr Sauðárgili og til norðurs um eyrar undir Nöfunum, þar sem nú er íþróttavöllur, sundlaug og tjaldstæði bæjarins. Byggðin færðist síðar suður fyrir ána og rann hún þá gegnum bæinn en síðar var ánni veitt til suðurs þar sem hún kemur úr Sauðárgili og rennur hún nú fyrir sunnan byggðina.

Gönguskarðsá hefur einnig myndað allnokkra eyri við ósinn og þar er höfnin, frystihús, sláturhús og steinullarverksmiðja. Fimm klaufir eða skorningar ganga inn í Nafirnar upp af bænum og nefnast þær Kristjánsklauf, Gránuklauf eða Bakarísklauf, Kirkjuklauf, Grænaklauf og Grjótklauf. Framan af var byggðin öll á eyrinni og flötunum neðan Nafanna en þegar það svæði var nær fullbyggt um 1970 hófst uppbygging nýs hverfis á Sauðárhæðum, sunnan Sauðárgils, og hefur það verið aðalbyggingasvæði bæjarins síðan.

Sauðárkrókur er byggður úr landi jarðarinnar Sauðár. Engin byggð var á eyrinni á fyrri öldum og voru verslunarstaðir héraðsins við austanverðan fjörðinn, á Hofsósi, í Grafarósi og Kolkuósi, en árið 1858 varð Sauðárkrókur löggiltur verslunarstaður. Þá fóru kaupskip að koma þangað. Þar var þó engin föst búseta fyrr en 1871, þegar Árni Árnason járnsmiður kom sér þar upp þurrabúð og settist þar að. Hann seldi bændum sem komu að versla við kaupskipin gistingu og veitingar. Strax árið eftir kom fyrsta fasta verslunin og kaupmenn, iðnaðarmenn og sjómenn settust að á Króknum og síðan ýmsir embættismenn. Sauðárkrókskirkja var reist árið 1892.

Fólki fjölgaði hratt á Króknum fyrstu árin og um aldamótin 1900 voru íbúar um 400. Hafnleysi og einhæfir atvinnuhættir komu í veg fyrir að þessi öra fjölgun héldi áfram. Íbúar voru þó orðnir um 1000 þegar bærinn fékk kaupstaðaréttindi 1947. Gönguskarðsárvirkjun var reist á árunum 1947-1949 og hitaveita úr borholu við Áshildarholtsvatn var lögð í bæinn 1953. Hafnaraðstaða var smám saman bætt og er nú töluverð útgerð og fiskvinnsla í bænum.