Sæluvika, lista- og menningarhátíð í Skagafirði, var sett sl. sunnudaginn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki þar sem jafnframt fór fram glæsileg atvinnulífssýning. Stendur Sæluvikan til sunnudagsins 6. maí.

Sæluvika Skagfirðinga er ein elsta menningarhátíð landsins en upphaf hennar má rekja til ársins 1874 þegar svokallaðir sýslufundir hófust en skemmtanir voru jafnan haldnir í tengslum við þessa fundi og tóku þær smám saman á sig þá mynd sem Sæluvikan er í dag.

Í Sæluviku 2012 er að finna fjölmarga lista- og menningarviðburði, s.s. tónlistarveislur, myndlistasýningar, galakvöld, útgáfutónleika, kirkjukvöld, ljósmyndasýningar, leiksýningar, körfuboltamót, hestasýningar og fjölmargt fleira. Sælan hófst reyndar þegar sl. miðvikudag en í svokallaðri Forsælu, dagana í aðdraganda Sæluviku, er jafnan mikið um að vera í menningarlífinu í Skagafirði.

Nokkrir menningarviðburðir verða í Skagafirði næstu daga.  Má þar nefna Sönglög í Sæluviku – sönglagahátíð í Menningarhúsinu Miðgarði, málverkasýningu Tolla og Sossu, sýningu Leikfélags Sauðárkróks á verkinu Tveir tvöfaldir, tónleika Draumaradda norðursins, opnun ljósmyndavefs Skagafjarðar, tónleika með Multi Musica hópnum þar sem flutt verða lög þekktra söngkvenna frá seinni heimsstyrjöldinni, kóramót í Miðgarði, listasmiðju í Litla-skógi og fjölmargt fleira.

Allir, ungir sem aldnir, eiga því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í Sæluviku Skagfirðinga. Nánari upplýsingar um alla viðburðina má finna á www.saeluvika.is