Alls útskrifuðust 3.447 stúdentar úr 35 framhaldsskólum á landinu skólaárið 2019-2020, 372 færri en skólaárið á undan (-9,7%). Rúmlega helmingur (56,5%) stúdenta skólaárið 2019-2020 var 19 ára og yngri en 15,6% voru 20 ára. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hefur hækkað mikið síðustu ár í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs en 20 ára stúdentum hefur fækkað að sama skapi (mynd 1).

Konur voru 59,5% nýstúdenta 2019-2020. Hlutfall allra stúdenta af fjölda tvítugra var 73,3% en var 86,3% skólaárið 2017-2018 þegar þetta hlutfall var hæst.

Fleiri með burtfararpróf úr iðn en færri með flest önnur próf
Skólaárið 2019-2020 voru 628 brautskráningar með sveinspróf, sem er svipaður fjöldi og árið áður. Hins vegar fjölgaði brautskráningum með burtfararpróf úr iðn úr 743 í 868, eða um 16,8%, en með því lýkur bóklega hluta iðnnáms. Færri luku ýmsum öðrum hæfniprófum og réttindaprófum starfsgreina á framhaldsskólastigi en árið áður. Brautskráðir iðnmeistarar voru 223, lítið eitt fleiri en árið á undan.

Þegar á heildina er litið brautskráðust 5.303 nemendur af framhaldsskólastigi með 6.124 próf skólaárið 2019-2020, 349 færri en árið áður (-6,2%). Þá brautskráðust 689 nemendur af viðbótarstigi en á viðbótarstig flokkast nám sem er bætt ofan á nám á framhaldsskólastigi en er ekki á háskólastigi.

Heimild og mynd: Hagstofa.is