Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.
KF heimsótti Vængi Júpiters á Fjölnisvelli í dag í Grafarvoginum. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið í toppbaráttunni og vildi hvorugt liðið tapa stigum í þessum leik. Það var boðið upp á mikla dramatík, rauð spjöld og umdeilda dóma.
Þjálfari KF gerði tvær breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik en Vitor og Tómas Veigar voru komnir inn fyrir Jakob og Aksentije Milisic.
KF byrjaði fyrri hálfleikinn vel og voru komnir með forystu á 17. mínútu þegar Alexander Már skoraði og kom þeim í 0-1. Heimamenn voru þéttir fyrir og uppskáru mark á 42. mínútu Tumi Guðjónsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Vængina í 36 leikjum. Staðan í hálfleik var því 1-1. Í síðari hálfleik gerði þjálfari KF skiptingu á 60. mínútu þegar Ljubomir kom inná fyrir Hákon Leó, til að leggja áherslu á meiri sóknarþunga. Aðeins sex mínútum síðar skoraði Alexander Már sitt annað mark í leiknum og kom KF aftur yfir, 1-2.
Eftir markið fór að færast meiri hiti í leikinn og áttu umdeildar ákvarðanir hjá dómaratríóinu eftir að líta dagsins ljós. Á 67. mínútu tæklar varnarmaður Vængjana leikmann KF illa og fékk beint rautt spjald. Jordan hjá KF átti eftir það í útistöðum við leikmann Vængjanna og lenti þeim saman og fékk hann einnig beint rautt eftir einhver óþarfa átök. Alexander Már fékk einnig gult spjald í þessari dramatík.
Vængirnir gerðu á þessum tíma fjórar skiptingar og voru þeir því komnir með marga ferska menn inn á völlinn síðasta hálftímann. Þjálfari KF gerði sína aðra skiptingu á 80. mínútu þegar Valur Reykjalín kom útaf og Þorsteinn Már kom inná og fór beint á kantinn.
Á 87. mínútu gerist annað umdeilt atvik þegar leikmaður Vængjanna fer harkalega utan í Halldór markmann KF sem var með boltann í höndunum og endar hann fyrir utan vítateig með boltann og fær beint rautt spjald. KF var ekki með varamann á leikskýrslu þar sem hann átti við smávægileg meiðsli að stríða. Þjálfari KF setti því Sævar Gylfason inná fyrir Vitor og fór Andri Snær í markið síðustu mínútur leiksins.
Tveimur mínútum eftir að Halldór fór útaf skoruðu Vængirnir jöfnunarmarkið, sem var mjög umdeilt. Andri Snær sem var kominn í markið hjá KF missir boltann og dómarinn metur það þannig að boltinn hafi farið inn fyrir línuna ,en leikmenn KF voru allt annað en sáttir með þessa dómgæslu.
Það voru langar lokamínútur eftir jöfnunarmarkið og bætti dómarinn við um 8 mínútum eftir alla þessa dramatík og innáskiptingar.
Leiknum lauk með 2-2 jafntefli og færðist KF skrefinu nær að tryggja sér 2. sætið í deildinni, en enn eru eftir tvær umferðir.
Alexander Már er núna kominn með 24 mörk í 19 deildarleikjum með KF. Frábær frammistaða hjá honum og öllu liðinu í sumar.
KF er núna með fjögurra stiga forskot á KV sem er í 3. sæti þegar tveimur umferðum er ólokið. KF leikur næst við Reyni Sandgerði á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 14. september kl. 14:00. Með sigri getur liðið tryggt sér sæti í 2. deildinni að ári.