Í sumar var lagður glæsilegur körfuboltavöllur á grunnskólalóðina á Siglufirði. Nærliggjandi íbúar hafa nú orðið varir við meira ónæði frá lóðinni en áður, en eitt fjölbýlishús stendur mjög nærri körfuboltavellinum. Ónefndur íbúi í nærliggjandi húsum hefur kvartað undan ónæði frá körfuboltavellinum seint á kvöldin. Ekki var mikið um úti körfuboltavelli á Siglufirði þar til í sumar og er því íþróttin eflaust vinsæl hjá unglingum um þessar mundir. Bæjarráð Fjallabyggðar tók málið fyrir á fundi í vikunni.
Íbúi í nærliggjandi húsi segir að körfuboltarnir fari í gluggana hjá sér og að körfubolti sé stundum spilaður þarna vel yfir miðnætti til tilheyrandi hávaða.
Þrátt fyrir að mjúkt undirlag sé á vellinum þá skapast alltaf ákveðinn hávaði út frá körfuboltaíþróttinni.