37. Öldungamóti BLÍ var slitið á Dalvík á mánudag eftir þriggja daga keppni. Alls voru 424 leikir spilaðir á 9 völlum á Dalvík, Ólafsfirði og á Siglufirði. HK heldur keppnina að ári í Kórnum í Kópavogi.
Það var margt um manninn norðan heiða um liðna helgi þegar Öldungamót BLÍ fór fram á Tröllaskaganum. Í kvennaflokki var spilað í 13 deildum og í karlaflokki 6 deildum, þar af í einni Ljúflingadeild (50 ára og eldri). Öðlingalið (40 ára og eldri) spiluðu inni í deildum en var veitt sérstök verðlaun til meistara í þeim flokki.
Deildakeppnin var hörð milli liðanna og litu óvænt úrslit dagsins ljós eins og svo oft áður. Í efstu deild karla varði lið Massablak titil sinn frá því í fyrra og í kvennaflokki vann HK Utd.1 sinn fyrsta titil í efstu deild en liðið vann lið HK í úrslitaleik um titilinn 2-1.
Eitt lið fellur úr 1. deildinni og deildarmeistarar 2. deildar fara upp. Á milli annarra deilda í mótinu falla tvö lið og tvö lið fara upp.
Öll úrslit í mótinu má finna á mótavefnum www.blak.is
Á lokahófi mótsins, sem haldið var á Siglufirði á mánudagskvöld var tilkynnt um að HK yrði mótshaldari fyrir árið 2013. Öldungamót BLÍ verður því haldið í Kórnum í Kópavogi, sbr. umsókn félagsins sem má finna á heimasíðu Trölla2012 (sjá hlekk hér hægra megin efst). Þar má einnig finna myndir frá mótinu og fleira skemmtilegt.