Ágætu félagar í GSS
Að undanförnu hafa nokkrir félagar í GSS rætt sín á milli um kaup á golfhermi í nýja inniaðstöðu klúbbsins. Sá hermir sem helst kemur til greina er af gerðinni Double Eagle DE3000 sem er einn sá besti sem völ er á. Í herminum er hægt að spila marga heimsþekkta golfvelli og er grafík eins og best verður á kosið. Einnig er afar mikilvægt að nútíma golfhermar gefa mjög raunhæfa mynd af sveiflu og raunverulegri getu. Þetta er því ekki bara tölvuleikur, heldur tæki til að bæta sig í golfi. Auk þess að spila golfvelli er hægt að vera á æfingarsvæðinu og fá nákvæmar upplýsingar um högg, lengdir, sveifluhraða o.s.frv. á sama hátt og mæling fer fram hjá söluaðilum á golfkylfum.

Ákveðið hefur verið að kanna áhuga félagsmanna og stofna áhugamannafélag um kaup á slíkum hermi. Ljóst er að einungis verður hægt að festa kaup á slíku tæki með samstilltu átaki margra. Ákveðið hefur verið að fara þá leið að fara þess á leit við félagsmenn að þeir kaupi fyrirfram tíma í herminn með afslætti og þannig verði hægt að safna nægu fjármagni til að hefjast handa. Jafnframt er mikilvægt að hefjast þegar handa, þannig að hermirinn geti verið kominn í gagnið fyrir áramót.

Í stuttu máli er hugmyndin sú að áhugamannafélagið kaupi golfherminn, safni fjármagni í upphafi að upphæð 1 milljón króna, en síðan verði seldir tímar í herminn. Hver klukkustund í herminum kosti 2500 krónur fyrir félagsmenn, en allt að 5 manns geti spilað í einu. Utan félagsmenn munu greiða hærra gjald, 3-3500 krónur. Einn 18. holu hringur tekur um 2-3 klukkustundir, en kostnaður dreifist að sjálfsögðu eftir því hversu margir spila í einu. Þess má geta að á höfuðborgarsvæðinu kostar klukkutíminn 3000-3500 krónur og er þar um að ræða eldri gerðir herma. Heildarkostnaður vegna hermisins og uppsetningar hans er um 5 milljónir króna.

Alla fréttina má lesa hér.

Heimild: gss.is