Hjónin á Brúnastöðum í Fljótum, Stefanía Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Helgi Ríkharðsson, hafa fjárfest í búnaði til að framleiða og þróa eigin osta og aðrar afurðir. Núna er aðeins beðið eftir söluleyfi frá MAST en eftir það fara ostarnir á markað.

Eftir mjög langan undirbúning sem hófst vorið 2018 með námskeiði í Farskólanum, Matarsmiðjan beint frá býli, þá hefur fjölskyldan á Brúnastöðum í Fljótum opnað eigin matarsmiðju. Það er ekki einfalt ferli eða ódýrt að fara í slíkar framkvæmdir hér á Íslandi þar sem kröfurnar eru miklar, bæði hvað varðar húsnæðið og öll leyfi.

Fyrstu afurðirnar eru að líta dagsins ljós þessa dagana en það eru geitaostar. Mjólkurfræðingurinn Guðni Hannes Guðmundsson hefur verið þeim hjónum innan handar varðandi hönnun á ostum og ráðgjöf á kaupum tækja.

Það hentar greinilega geitunum á Brúnastöðum vel að spranga um undir fjallgarðinum því gæði mjólkurinnar er mikil, bæði próteinrík og feit og virðist henta afar vel til ostagerðar.
Geiturnar fá hrat frá Bruggverksmiðjunni Segli 67 á Siglufirði.  Hjónin hafa einnig aðeins unnið með mjólk úr kindum og stefna þau að vinna með það meira næsta sumar.

Myndir: stefanía hjördís.