Hópur nemenda úr Menntaskólanum á Akureyri ýttu litlum fólksbíl frá skólanum og Eyjafjarðarhringinn fram að Hrafnagili, yfir brúna upp að Laugalandi og áfram norður til Akureyrar, upp Gilið og að Gamla skóla.  Hér voru á ferðinni drengir í samtökunum DENCHMA, en þeir stóðu með þessu við áheit sem tengist góðgerðaviku Menntaskólans á Akureyri, þar sem safnað er peningum til styrktar starfsemi geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri í þágu ungs fólks sem á við geðrænan vanda að stríða.

Strákarnir voru um það bil fjóra tíma á leiðinni, sögðu að erfiðast hefði verið að fara upp löngu brekkuna við Laugaland, annars hefði þetta gengið bara vel.  Það var ekki meira dregið af þeim en svo að þeir tóku bílinn og lyftu honum upp við lokamarkið hjá Gamla skóla.

Takmarkið er að safna að lágmarki einni milljón króna. Fólk er hvatt til að leggja söfnuninni lið. Leggja má framlag inn á bankareikning söfnunarinnar, kennitalan er 470997-2229 og reikningsníumerið er 0162 – 05 – 261530.

Mynd: ma.is