Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði stendur fyrir námskeiði um bátavernd og viðgerð gamalla trébáta í Gamla Slippnum vikuna 3. – 7. apríl næstkomandi.  Námskeiðið er ætlað iðnnemum, safnmönnum og öðrum áhugamönnum um bátavernd. Hafliði Aðalsteinsson bátasmiður og forsvarsmaður Báta- og hlunnindasýningarinnar að Reykhólum sér um kennslu en Hafliði hefur áralangra reynslu af nýsmíði trébáta sem og viðgerðum gamalla. Sambærilegt námskeið fór fram í apríl á síðasta ári og tókst afar vel til. Viðfangsefnin í ár verða tvíþætt, annars vegar verður haldið áfram viðgerð á byrðingi Gunnhildar ÓF18, 2 brl. afturbyggðum súðbyrðing úr furu og eik frá árinu 1982 og hins vegar verður unnið að viðgerð á Lóu, vestfirskum árabát úr furu frá árinu 1930.

Hámarksfjöldi þátttakenda er sjö, þar sem nemendum er ætlað að taka fullan þátt í smíði og annarri vinnu, undir handleiðslu kennara. Sem stendur eru tvö laus pláss á námskeiðið og býðst áhugasömum að skrá sig eða fá sendar frekari upplýsingar í gegn um netfangið: anita@sild.is.