Fram kemur í fundargerð skólanefndar Menntaskólans á Tröllaskaga að skólameistari hafi tilkynnt um lokun námsbrautar í fisktækni.  Ástæðan er að ekki hefur tekist
að ljúka við útfærslu brautarinnar og hún ekki fengist staðfest hjá ráðuneyti.

Þá var einnig tilkynnt að tónlistarsvið listabrautarinnar hafi verið opnað aftur og mögulegt að innrita nemendur á það. Á brautinni eru námsgreinar eins og heimspeki, listir, myndlist, skapandi tónlist, tónheyrn og tónfræði.

Lýsing námsbrautar í fisktækni

Nám á fisktæknibraut býr nemendur undir störf í fiskvinnslu, við fiskveiðar og fiskeldi. Námið getur enn fremur verið grunnur að öðru námi í framhaldsskóla. Námið er skipulagt sem tveggja ára nám. Eitt ár í skóla og eitt ár á vinnustað undir leiðsögn. Nemendur geta á námstímanum tekið námskeið í stjórnun vinnuvéla. Fisktæknir starfar við vinnslu sjávarafurða sem sérhæfður starfsmaður eða flokkstjóri með ábyrgð á ákveðnum verkstöðvum hjá fiskvinnslufyrirtækjum, útgerðum, fiskeldisstöðvum eða öðrum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Fisktæknir getur einnig starfað sem sölumaður hjá fisksölufyrirtæki eða fyrirtæki sem selur tæki og búnað fyrir sjávarútveg. Námslok brautar eru á öðru hæfniþrepi.