Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, hafa ákveðið að fjármagna rekstur nýrrar þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri.  Lögreglustjórinn á Akureyri hefur yfirumsjón með verkefninu en aðrir samstarfsaðilar eru Akureyrarkaupstaður, Aflið – samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Háskólinn á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Samtök um kvennaathvarf, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands.

Þjónustumiðstöðin mun bjóða upp á samhæfða þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi af einhverjum toga. Brotaþolum verður gefinn kostur á stuðningi og ráðgjöf í kjölfar ofbeldis, þeim að kostnaðarlausu. Stefnt er að því að þjónustumiðstöðin opni 1. mars næstkomandi. Þjónustumiðstöðin verður samstarfsvettvangur opinberra aðila og frjálsra félagasamtaka sem aðstoða þolendur ofbeldis.

Stuðningur við þjónustumiðstöðina er einn liður í aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem ráðherrar félags- og barnamála, dómsmála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála standa að og er til umfjöllunar á Alþingi.

Þjónustumiðstöðin verður rekin sem tilraunaverkefni til tveggja ára og miðast fjárframlög ráðuneytanna við það. Heildarframlag ríkisins verður samtals 24 milljónir króna.