Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru um 7,7 milljónir króna að meðaltali árið 2021 eða um 640 þúsund krónur á mánuði. Það er rúm 8% hækkun frá fyrra ári en ef horft er til verðlagsleiðréttra heildartekna er hækkunin tæp 4%. Miðgildi heildartekna var lægra en meðaltalið, eða um sex milljónir króna á ári, sem sýnir að helmingur einstaklinga var með heildartekjur undir 500 þúsund krónum á mánuði og helmingur yfir. Þetta kemur fram í frétt frá Hagstofunni.
Við samanburð á heildartekjum eftir aldurshópum sést að heildartekjur voru að meðaltali hæstar í aldurshópunum 45-49 ára, 50-54 ára og 55-59 ára eða rúmlega tíu milljónir króna árið 2021. Á sama tíma voru meðalheildartekjur einstaklinga á aldrinum 25-64 ára 8,8 milljónir króna og hjá 67 ára og eldri rúmar sjö milljónir króna. Heildartekjur voru lægstar í yngstu aldurshópunum sem má meðal annars skýra af minni atvinnuþátttöku vegna náms. Í aldurshópnum 16-19 ára var meðaltal heildartekna tæplega 1,6 milljónir króna árið 2021 og í því samhengi er rétt að benda á að hér er um að ræða einstaklingstekjur og að margir í þessum aldurshópi búa enn í foreldrahúsum.
<iframe id=”datawrapper-chart-QKDMU” style=”width: 0; min-width: 100% !important; border: none;” title=”Heildartekjur eftir aldri 2021″ src=”https://datawrapper.dwcdn.net/QKDMU/10/” height=”468″ frameborder=”0″ scrolling=”no” aria-label=”Column Chart”></iframe>
Heildartekjur samanstanda af atvinnu-, fjármagns- og öðrum tekjum. Atvinnutekjur eru í flestum aldurshópum stærsti hluti heildartekna einstaklinga en hlutfall þeirra lækkar eftir því sem ofar dregur í aldri. Til að mynda var hlutfall atvinnutekna af heild 78,5% í aldurshópnum 25 – 64 ára árið 2021 á meðan þær voru tæp 14% í aldurshópnum 67 ára og eldri. Hlutfall annara tekna af heildartekjum í aldurshópnum 67 ára og eldri var rúmlega 70% en til annarra tekna teljast m.a. lífeyrisgreiðslur, greiðslur frá Tryggingastofnun og aðrar bótagreiðslur. Sé rýnt í fjármagnstekjur þá voru þær hæstar hjá aldurshópnum 55-59 ára og 60-64 ára eða rúmlega tvöfalt meira en meðtal allra einstaklinga.
Heimild: hagstofa.is