Föstudaginn 2. ágúst kl. 17.00 opnar Magnús Helgason sýningu í Kompunni Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem ber yfirskriftina Kaliforníurúllur Magnúsar. Sýningin stendur til 18. ágúst og er opin daglega kl. 14.00 til 17.00.

Kaliforníurúllur Magnúsar er hefðbundin myndlistarsýning að hætti Magnúsar Helgasonar. Þar ber að líta málverk úr fundnum efniviði auk sprellfjörugra segulinnsetningar.

Magnús Helgason (f.1977) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist árið 2001 og hefur síðan unnið að tilraunakenndri kvikmyndagerð, innsetningum og undanfarin ár að mestu að málaralist.

Kvikmyndalistina hefur hann sýnt meðfram tónleikum tónskálda, á borð við Kiru Kiru
og Jóhann Jóhannsson víða um heim. Meðal annars á listasöfnum eins og Pompidou í París, Kiasma í Helsinki og Statens Kunst Museum í Kaupmannahöfn auk fjölda annara staða í Evrópu, Asíu og Ameríku.

Undanfarin ár hefur Magnús þó helgað sig nokkuð tilraunakenndri en þó að mestu tvívíðri málaralist og hafa verk hans verið sýnd víða í söfnum og galleríum innanlands. Má þar nefna einkasýningu í Listasafni Reykjavíkur og samsýningar í Listasöfnum Akureyrar, Reykjanesbæjar og Hafnarborg.

Magnús Helgason notar fundinn efnivið sem hann umbreytir ýmist í tvívíð málverk eða þrívíðar innsetningar. Hann tekur hluti og efni, ýmist sem náttúran hefur veðrað eða maðurinn skapað í öðrum tilgangi, og raðar saman í nýja heild. Í verkunum er oft brugðið á leik með greinarmuninn á efni og hlut. Í leit að fegurð og jafnvægi hitta verkin áhorfandann í gegnum skynjunina.