Ljóðahátíðin Haustglæður hefst laugardaginn 14. september í Fjallabyggð. Um er að ræða þrettándu hátíðina sem haldin hefur verið. Aðalgestir hátíðarinnar verða ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson og leikarinn Elfar Logi Hannesson.
Fyrsti viðburðurinn verður haldinn laugardaginn 14. sept. kl. 16.00 en þá mun Magnús Stefánsson, forsprakki Félags ljóðaunnenda á Austurlandi, mæta í Ljóðasetrið á Siglufirði og segja frá blómlegri ljóðabókaútgáfu félagsins sem og annarri starfsemi þess. Auk þess verða flutt lög við ljóð eftir austfirsk skáld.
Dagana 18. – 20. september mun Þórarinn Hannesson heimsækja nemendur í 1. og 2. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar og lesa úr Æskumyndum sínum. Fleiri viðburðir verða fram í nóvember sem verða kynntir síðar.