Hinn 1. janúar 2019 voru landsmenn 356.991 og hafði þá fjölgað um 8.541 frá sama tíma árið áður eða um 2,4%. Konum (174.154) fjölgaði um 1,9% og körlum (182.837) fjölgaði um 2,9%. Talsverð fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu en íbúum þar fjölgaði um 5.747 í fyrra eða um 2,6%. Hlutfallslega varð þó mest fólksfjölgun á Suðurnesjum, 5,2%. Einnig fjölgaði íbúum á Suðurlandi (3,2%), Austurlandi (2,1%), en minna á Vesturlandi (1,5%), Vestfjörðum (1,0%) og Norðurlandi vestra (0,4%). Hins vegar varð lítilsverð fækkun á Norðurlandi eystra (-0,03%). Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Tíu sveitarfélög með yfir 5 þúsund íbúa
Alls voru 72 sveitarfélög á landinu 1. janúar 2019, en það er fækkun um tvö, annars vegar vegna sameiningar Breiðdalshrepps og Fjarðarbyggðar undir nafni þess síðarnefnda, og hins vegar Sandgerðis og sveitarfélagsins Garðs í Suðurnesjabæ. Sveitarfélögin eru misstór. Alls var íbúatala sjö sveitarfélaga undir 100 en undir 1.000 í 40 sveitarfélögum. Einungis tíu sveitarfélög höfðu yfir 5.000 íbúa.

Í þéttbýli bjuggu rúmlega 330 þúsund íbúar
Hinn 1. janúar síðastliðinn voru 62 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri og fjölgaði um einn milli ára. Auk þeirra voru 35 smærri staðir með 50–199 íbúa sem er fækkun um tvo frá fyrra ári. Í þéttbýli bjuggu 334.404 íbúar og fjölgaði um 3.845 milli ára. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu 22.587 manns hinn 1. janúar síðastliðinn.

Fjölskyldur
Kjarnafjölskyldur voru 83.358 hinn 1. janúar síðastliðinn en 82.102 ári áður.

Heimild: Hagstofa.is

Framfærsluhlutfall
Framfærsluhlutfall var 64,9% í ársbyrjun en 65,8% í fyrra. Framfærsluhlutfall er hlutfall ungs fólks (19 ára og yngra) og eldra fólks (65 ára og eldra) af fólki á vinnualdri (20–64 ára). Lækkun þessa hlutfalls stafar einkum af því að fólki á vinnualdri fjölgar hlutfallslega.

Til kjarnafjölskyldu teljast hjón og fólk í óvígðri sambúð, börn hjá þeim 17 ára og yngri, einhleypir karlar og konur sem búa með börnum 17 ára og yngri.

Heimild: hagstofa.is