Dagana 14. – 27. janúar verður listasmiðja á Siglufirði með útskriftarnemendum Listaháskóla Íslands í samstarfi við Herhúsið, Svörtu Kríuna og Segul 67. Listasmiðjan er byggð upp með svipuðum hætti og Reitir workshop sem fram fór í Alþýðuhúsinu á Siglufirði á árunum 2012 – 2016. Nemendur kynna sér sögu Siglufjarðar og fá fyrirlestra frá ýmsum skapandi einstaklingum í bænum, Tengjast inná heimili fólks, fara í fyrirtæki og með uppákomum um bæinn.

Nú er að skapast sú hefð að Listaháskóli Íslands sendir útskriftarnemendur sína til Siglufjarðar til að víkka sjóndeildarhringinn, skapa tengsl, efla hópandann og gefa af sér út í samfélagið. Þetta eru fyrstu skref listamannana til sjálfstæðs starfs undir leiðsögn Sindra Leifssonar og Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Áður sendi Listaháskólinn nemendur til Seyðisfjarðar, og var það mikil innspýting skapandi hugsunar í það samfélag. Nú verður byggt upp á Siglufirði og  verður tekið vel á móti ungu listamönnum.

Smiðjan er opin almenningi til að fylgjast með og kynnast fólkinu.