Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gert nýjan samning við Icelandair sem tryggir lágmarks flug til Evrópu og Bandaríkjanna til og með 27. júní. Flogin verða tvö flug á viku á þrjá áfangastaði út samningstímann. Hægt er að framlengja samninginn fram í september ef þörf krefur. Áfram verður flogið til Boston, London og Stokkhólms en flug til New York og Kaupmannahafnar verður skoðað á tímabilinu. Markmiðið er sem fyrr að tryggja flugsamgöngur til og frá landinu vegna þess ástands sem skapast hefur vegna Covid-19 faraldursins.

Nýi samningurinn, sem undirritaður var í dag, gildir frá sun. 17. maí til lau. 27. júní nk. Ráðuneytið getur framlengt samningnum tvívegis, fyrst til 8. ágúst og aftur til 19. september nk. Um er að ræða framhald á samningum sem gerðir hafa verið við Icelandair um lágmarks millilandaflug á tímabilinu 27. mars til og með 16. maí. Það voru Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sem undirrituðu samninginn með rafrænum hætti.

Ríkið mun greiða að hámarki 300 milljónir kr. vegna upphafstímabils samningsins frá 17. maí til 27. júní. Greiðslur fyrir flug á öllu tímabilinu geta að hámarki orðið 500 milljónir kr. Tekjur Icelandair af flugunum munu ennfremur lækka greiðslur. Í aðdraganda samninga auglýstu Ríkiskaup eftir tilboðum á evrópska útboðsvefnum TED (Tenders Electronic Daily). Icelandair var eina flugfélagið sem gerði tilboð.

Flogin verða tvö flug á viku á þrjá áfangastaði út samningstímann. Drög að flugáætlun fyrir tvær næstu vikur liggja fyrir. Þessar tvær vikur mun Icelandair fljúga samtals 12 ferðir (24 flugleggi) til Boston, London og Stokkhólms. Flugáætlun næstu tvær vikur er eftirfarandi , með þeim fyrirvara að dagsetningar geta breyst og flug fallið niður:

  • Boston (Logan International – BOS) 21., 23., 28. og 30. maí.
  • London (Heathrow – LHR) 17., 20., 24. og 27. maí.
  • Stokkhólmur (Arlanda – ARN) 20., 23., 27. og 30. maí.

Verði unnt að fljúga til New York (JFK) eða Kaupmannahafnar á samningstímanum getur ríkið ákveðið í samráði við Icelandair að flogið verði til New York í stað Boston og til Kaupmannahafnar í stað Stokkhólms.

Texti: stjornarrad.is

Hekla Aurora, norðurljósavél Icelandair í útsýnisflugi yfir ...