Leikarar í kvikmyndum þurfa oft að leggja mikið á sig fyrir listina. Þannig fóru hross í samnefndri bíómynd í sjósund á Sauðárkróki.

Tökur á kvikmyndinni Hrossi hafa staðið yfir undanfarnar vikur, meðal annars á Kaldadal og Arnarvatnsheiði, í Hvítársíðu og nú síðast á Sauðárkróki.

Benedikt Erlingsson leikstjóri segir að þetta sé nokkurskonar innansveitarkrónika, dramatískar frásagnir af fólki sem lifir og hrærist í hestamennsku. „Þar sem hestar eru örlagavaldar í lífi fólks eins og er í raunveruleikanum. Hestar eru fjölskylduvinir og persónur og meðlimir í fjölskyldum á bæði beinan og óbeinan hátt,“ segir Benedikt í viðtali við Rúv.is.

Ein senan í myndinni var tekin í höfninni á Sauðárkróki og hér sundríða menn út að rússneskum togara, að því er virðist. Mörgum sem á horfðu leist ekki á blikuna, en Benedikt segir áhyggjur óþarfar því vel hafi verið fylgst með líðan hrossanna. „Það virðist vera meiri áreynsla fyrir hross að hlaupa 200 metra sprett á stökki en að synda í þrjár mínútur í sjó,“ segir hann.

Benedikt segir að fyrir kvikmyndagerðarmenn með lítið fé milli handanna sé ótrúlegt að finna fyrir þeirri hjálpsemi sem hann og hans fólk hafi notið um allt land. Þar hafi fólk lánað allt frá bóndabæjum upp í heilu togarana án þess að taka krónu fyrir.

Frétt frá www.ruv.is