Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Ými í Fagralundi í Kópavogi í gær í Benectadeildinni í blaki. Lið Ýmis var efst í deildinni og höfðu fyrir þennan leik aðeins tapað einum leik. Lið BF er hins vegar á hinum enda töflunnar og hafði aðeins unnið einn leik fyrir leikinn gegn Ými.
Leikurinn fór í fjórar hrinur og var jafnræði með liðunum í fyrstu tveimur hrinunum. Í fyrstu hrinu skiptust liðin á að leiða með 2ja-3ja stiga forskoti og var hrinan jöfn og spennandi til loka. Í lok hrinunnar var jafnt á tölum 20-20 og 21-21 en BF konur voru sterkari í lokin og unnu hrinuna 22-25 og voru komnar í 0-1.
Önnur hrina var lík þeirri fyrstu og skiptust liðin á að leiða með 3ja til 4ja stiga forskoti. Ýmir komst í 3-0 og tóku þá BF konur leikhlé til að stilla saman strengi. BF kom til baka og jafnaði í 4-4 og 8-8 og komst svo yfir 9-12 og tóku nú heimakonur leikhlé. BF hélt forskotinu áfram og leit vel út í stöðunni 10-14 og 12-16. Ýmir skoraði svo fjögur stig í röð og jafnaði 16-16 en BF konur náðu aftur yfirhöndinni og leiddu 16-18 og 18-20. Aftur skoraði Ýmir fjögur stig í röð og voru sterkari í lokin á hrinunni og komust í 22-20 og tóku þá BF konur leikhlé. Ýmir vann hrinuna 25-22 eftir mikla baráttu og vantaði herslu muninn að BF ynni þessa hrinu. Staðan orðin 1-1.
Þriðja hrina var aðeins jöfn í upphafi en svo voru Ýmis konur sterkari og náðu góðu forskoti. Staðan var jöfn 6-6 og höfðu þá BF konur þegar tekið leikhlé en Ýmir skoraði svo átt stig í röð og breyttu stöðunni í 14-6 og BF tók annað leikhlé í þessari spyrpu. Ýmir komst í 20-11 og tóku nú heimakonur leikhlé og gerðu þær tvær skiptingar í lok hrinunnar. Ýmir vann hrinuna nokkuð sannfærandi 25-13 og staðan orðin 2-1.
Í fjórðu hrinu hafði Ýmir einnig yfirburði og tók BF strax leikhlé í stöðunni 2-0 og aftur í 8-3. Ýmir hélt áfram að skora og komust í 14-6 og 20-9. Ýmir vann svo hrinuna örugglega 25-13 og leikinn 3-1.