Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Þrótti Reykjavík í Benecta deildinni í blaki. Reykjavíkur Þróttur spilar einnig í Mizuno deildinni en hafa b-lið í 1. deildinni. Þróttur hafði fengið lengra frí en þær léku síðast 6. nóvember við AftureldinguX og töpuðu þar 3-0. BF mætti hins vegar Álftanesi-2 í gær og sigruðu 1-3 og var því mun þéttara á milli leikja hjá þeim en Þrótti þessa helgina. Liðin er álíka sterk og var búist við jöfnum leik í Laugardalshöll.
Fyrsta hrina var jöfn og skiptust liðin að leiða með nokkra stiga forskoti þar til undir lok hrinunnar. Þróttur komst í 9-4 með góðu spili en BF jafnaði 9-9. Aftur var jafnt 13-13 og tók þjálfari BF leikhlé en hann var óhress með gang mála á þessum tímapunkti. Þróttarar áttu gott spil og komust í 21-15 og aftur tók BF leikhlé. Kom núna frábær kafli hjá BF sem voru þéttar fyrir og áttu góðar móttökur og kláruðu sóknirnar vel en þær skoruðu 8 stig á móti 1 á þessum kafla og breyttu stöðunni í 22-23 og var gríðarleg spenna síðustu mínúturnar á hrinunni og langar sóknir. Jafnt var í 24-24 en BF var sterkara í blálokin og skoruðu síðustu stigin og unnu 24-26 eftir mikla baráttu og voru komnar í 0-1.
Önnur hrina var líka jöfn en var BF ívið sterkara liðið í heildina og áttu gott spil og heilt yfir fínar móttökur og sóknir. Þróttur komst í 4-2 og 8-4 en BF minnkaði muninn í 9-8. BF komst betur inn í leikinn og komust í 13-15 og 16-17 og tók þá þjálfari BF leikhlé. Þróttur komst í 20-19 með góðum leik en BF stelpurnar gáfust ekki upp og skoruðu fjögur stig í röð og komust í 20-24. Þróttur náði ekki að minnka muninn og BF vann hrinuna örugglega 21-25.
Þróttur byrjaði af krafti í þriðju hrinu og komust í 5-0 áður en BF náði að jafna 6-6 og komast yfir 6-11 með því að skora tíu stig í röð með frábærum kafla. Það var eins og Þróttarastelpurnar brotnuðu við þetta og BF náði öruggri forystu og leiddu 9-20 eftir að hafa skorað önnur 9 stig í röð. Þróttur klóraði aðeins í bakkann og minnkuðu muninn í 13-22 en BF tók síðustu stigin og unnu örugglega 13-25 og leikinn 0-3.
Annar frábær útisigur hjá BF stelpunum þessa helgina og ekki að sjá að þær væru þreyttar eftir leikinn í gær.